Stjórnarskránni þarf að breyta.

Úrtöluraddir.

„Af hverju þarf að breyta stjórnarskránni þó einhverjir bankar hafi farið á hausinn? Svona er spurt í  Morgunblaðinu. Ef fólk er ekki  blint á samfélag sitt, sér það þörf á breytingum eftir það sem undan er gengið. Krafa almennings er skýr, kannanir og tveir Þjóðfundir sem blaðið gerir lítið úr, sýna það ljóslega. Sagan mun dæma þá blindu.

Sú upplausn sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins birti okkur skýrt þá galla á samfélaginu sem flokksræðið íslenska hafði skapað. Þess vegna vaknaði krafa um breytingar og ásæknar spurningar. -Hvernig breytum við þeirri siðspillingu stjórnmálanna sem byggðist á vinarvæðingu og fóstbræðralagi við hagmunaöfl í áratugi? – Hvernig komum við í veg fyrir að flokksforingjaræði tröllríði íslenskum stjórnmálunum ?  Er hægt að koma í veg fyrir lagasetningu tæps meirihluta á Alþingi sem stríðir gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar?  – Hvernig komum við í veg fyrir að minnihluti Alþingis sé alltaf áhrifalaus? Þetta og margt annað sem hefur skert lýðræðið þarf að íhuga og laga.

Andi stjórnarskrárinnar.

Fólk íhugar hvaða gildi ráði og knýi áfram gott samfélag . Það hugsar ekki í lögfræði heldur í hugsjónum og í gildum, það vill sjá lýðræðið í verki.  Sautján Evrópuþjóðir hafa endurskoðað stjórnarskrár sínar á síðustu áratugum, meira en við höfum gert og flestar á síðustu 30 árum.  Í flestum þeirra eru þau meginstef og gildi sem Þjóðfundir hafa nefnt. Í þeim eru mun þroskaðri ákvæði um lýðræðið og virkni þess, en er í þeirri stjórnarskrá sem kóngurinn gaf okkur.

Vonandi skynjar þjóðin þetta tækifæri til að setja sér framsækin samfélagssáttmála. Hún getur stutt kröfur sínar um breytingar á samfélaginu með því að taka þátt í kosningu til Stjórnlagaþings, og velja fulltrúa sína til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld og Alþingi þurfa aðhald. Lýðræðið þarf að treysta í sessi. Ný ákvæði um mannréttindi, umhverfi , auðlindir og fullveldi þurfa að koma í stjórnarskránna.

Lýðræðishugtök,-stofnanir lýðveldisins,-kosningar.

Lýðræði er vítt hugtak yfir þær stjórnmálastefnur sem byggja á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Grunnútgangspunkturinn er því að valdið í tilteknu samfélagi manna eigi sér frumuppsprettu hjá fólkinu. Fyrr á öldum, allt fram að nútímanum, var fullveldi talið til óskoraðs guðdómleika konunga á Vesturlöndum. Almenningur lét ekki til  sína taka fyrr en franska byltingin var gerð. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er vísað til sameiginlegs „réttar fólksins” sem ekki hafði áður spurst til. Fulltrúalýðræði er algengasta mynd lýðræðis í dag. Sökum takmarkana á tíma og aukinni sérþekkingu sem þarf til þess að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem skipta máli hefur orðið til sérhæfð verkaskipting þar sem stjórnmála-menn bjóða sig fram til embætta. Þessir stjórnmálamenn þiggja umboð fólksins í kosningum og gerast þannig fulltrúar almennings sem taka ákvarðanir fyrir hans hönd. Beint lýðræði felur í sér beina þátttöku fólksins í ákvarðanatöku, án fulltrúa eða annarra milliliða. Beint lýðræði er sjaldgæfara stjórnafyrirkomulag en sem dæmi má nefna mikilvægi þjóðaratkvæða-greiðslna í Sviss. Sögulega er eitt þekktasta dæmið um beint lýðræði fengið frá Forn Grikklandi þegar borgríkið Aþena var og hét. 2)

Lýðveldi er tegund stjórnarfars þar sem að þjóðhöfðinginn er kjörinn eða útnefndur, oftast um ákveðinn tíma en embættið er ekki látið ganga í arf líkt og í konungsveldum. Það að land sé lýðveldi þarf ekki að merkja það að stjórnarfarið í því landi einkennist af lýðræði. Stundum er þjóðhöfðinginn kjörinn af þjóðinni sjálfri en stundum af kjörmönnum, þingi eða fámennri valdaklíku. Lýðveldi sem stjórnarfar er mjög gamalt en frægasta lýðveldi fornalda er tvímælalaust Rómaveldi sem var lýðveldi frá 509 f.Kr. til 27 f.Kr. og fylgdi tveimur  grundvallar-lögmálum varðandi embætti ræðismanns eins og æðsta embætti ríkisins var kallað. Annarsvegar var það að enginn skyldi gegna embættinu lengur en eitt ár og hinsvegar það að aldrei skyldu færri en tveir menn gegna embættinu á sama tíma. Í dag eru flest ríki heims lýðveldi en það segir lítið um það hversu lýðræðislegir stjórnarhættir eru, til dæmis er Íran lýðveldi en stjórnarfar þar myndi seint teljast lýðræðislegra en í konungsríkinu Danmörku. 3)

Þingræði er sú stjórnskipunarregla að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins. Það er grundvallarregla í flestum lýðræðisríkjum en í öðrum er stuðst við forsetaræði. Þingræðisreglan er ekki skráð réttarregla heldur er hún mótuð af margra alda þróun, í fyrstu aðallega á Bretlandi en fluttist síðan til annarra landa. Reglan mótaðist af baráttu þings og konungs og er samofin minnkandi völdum þjóðhöfðingjans – yfirleitt konungs – í þingræðislöndum. Þingræðisreglan var ekki fullmótuð fyrr en á 19. öld í Bretlandi. Stuðningurinn við löggjafarþingið þarf ekki að vera fólginn í beinum stuðningi meirihluta. Dæmi eru um minnihlutastjórnir sem njóta óbeins stuðnings flokks eða flokka sem verja hana vantrausti og styðja þá að jafnaði mikilvægustu mál hennar svo sem afgreiðslu fjárlaga. Á Íslandi er þingræði en í 1. gr. stjórnarskrár segir: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn”. Fá dæmi eru um minnihluta-stjórnir í sögu lýðveldisins. 1)

Um vald forseta:

§ „Þingræði merkir aðeins að ríkisstjórn er háð því að vera varin vantrausti á þingi. Ekkert annað en það (sjá orðabók Menningarsjóðs). Minna má á að í Bandaríkjunum er ekki þingræði, þó þar sé tvímælalaust lýðræði. Æðsta vald þjóðarinnar er lýðræðið og þjóðin sjálf. Til að fara með löggjafar-valdið fyrir okkur sem aftur setur dómsvaldi og framkvæmdavaldi reglur, veljum við forseta og Alþingi í lýðræðislegum kosningum. Forseti og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið samkvæmt stjórnar-skrá, líkt og tvö dómstig fara með dómsvaldið og að þingræði merkir einmitt að ríkisstjórn er háð trausti Alþingis til að fara með framkvæmdavaldið.

§ Þessar tvær stofnanir forsetinn og Alþingi sem saman fara með löggjafarvaldið eru þannig æðstu valdastofnanir okkar og eiga saman að tryggja rétta meðferð valds „lýðsins“ sem lýðræði vísar til. Alþingi er fjölskipað stjórnvald þar sem enginn einn maður hefur neitt vald einn og sér, en saman hafa þingmenn m.a. vald til að setja lög. Þjóðkjörinn forsetinn okkar, hefur í reynd ekkert frumkvæðisvald, en hefur neitunarvald um ákvarðanir Alþingis og aðkomu að ríkisstjórnarmyndun. Öfugt við þingmenn fer hann einn með vald sitt.

§ Treysti forseti sér ekki til að undirskrifa lög er endanlegu samþykki eða synjun með því skotið til lýðræðislegrar ákvörðunar þjóðarinnar, sem er æðsta valdið. Þetta vald forseta hefur líka fælingaráhrif þ.e. að ólíklegra er að reynt sé að koma í gegnum Alþingi lögum sem brjóta gegn þjóð og lýðræði, en annars væri.

§ Þetta er afar rökrétt og náttúrulegt kerfi í anda góðra stjórnunar- og stjórnsýsluhátta um að alltaf sé til staðar tvöfalt ákvörðunarvald „check and balances“ – „eftirlit og aðgát“. Allt stjórnkerfi Bandaríkjanna byggist t.d. á slíkum hugmyndum. Í raun eru rökin fyrir slíku kerfi þau sömu og að náttúran notast við tvöfalt litningakerfi í þróuðum lífverum. Hvarvetna sannar það gildi sitt fyrr eða síðar.

§ Þar sem hér er þingræði þ.e. ríkisstjórn er háð því að vera varin vantrausti á Alþingi getur hvorki ríkisstjórn né oddviti hennar farið með þetta tiltekna vald forseta. Ekki bætir heldur úr skák að ráðherrar eru nær undantekningalaust einnig þingmenn. „ 4)

Endurskoðun stjórnarskrárinnar.

“ Í stjórnarskránni er að finna ákvæði um meðferð ríkisvalds, hlutverk helstu handhafa þess og samspil þeirra á milli. Enn fremur er þar lýst yfir hver réttindi borgararnir hafa í samskiptum við ríkisvaldið  og hömlur lagðar við því að á þessi réttindi sé gengið. Stærsta athugunarefnið við endurskoðun stjórnarskrárinnar er spurningin um hvort afnema eigi þingræðisregluna. Hinn kosturinn er að skilja að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið líkt og gert er í Bandaríkjunum.“ 5)

Um Persónukjör

“Í þjóðmálaumræðu undanfarið hefur persónukjör borið mjög á góma, þ.e. möguleikar kjósenda til að velja sér þingmannsefni á framboðslistum. Í grein þessari eru reifaðir helstu möguleikar í þessum efnum. Ítarlega er fjallað um tölulegt uppgjör á kosningum með persónukjöri.” 6)

Um kosningar.

Landskjörstjórn fer með veigamikið hlutverk við undirbúning og framkvæmd kosninga til Alþingis og gefur út kjörbréf til þingmanna eins og nánar greinir í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Auk þess er á vegum landskjörstjórnar unnið að rannsóknum á kosningamálum og kosningafræði. 7)

Tilvísanir:

1) http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Eingr%C3%A6%C3%B0i

2) http://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%BD%C3%B0r%C3%A6%C3%B0i

3) http://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%BD%C3%B0veldi

4) http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=799111

5) http://www.visir.is/article/20090801/SKODANIR04/373143198/1035

6) http://www.landskjor.is/media/frettir/UmPersonukjor17Mai09-2.pdf

7) http://www.landskjor.is/

Eftir Þjóðfund.

Í kjölfar Þjóðfundarins hafa eðlilega margir tjáð sig um niðurstöður hans, m.a. kennarar í lögfræði og ritstjórar stærstu blaðanna. Ritstjóri Morgunblaðsins gerir grín að fundinum. Fundið er að því að niðurstöðurnar séu of almennar og ekki sé hægt að setja slíkt í stjórnarskrá, þær séu óskalisti um félagsleg réttindi og það gangi ekki. Ritstjóri Fréttablaðsins vill gera greinarmun á borgara og pólitískum réttindum og félagslegum réttindum  hins vegar og hin síðari séu kostnaðarsamar skyldur sem lagðar séu á ríkið.

Sjónarhornin eru oft metin úr frá lögfræðinni og  sjónarmiðum ríkisvaldsins þegar greint er á milli frelsisréttinda þar sem ríkinu ber fyrst og fremst að halda að sér höndum og hins vegar tilkallsréttinda þar sem ríkinu ber að láta eitthvað í té. Þetta er í samræmi við hefðbundna túlkun í stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi og félagsleg réttindi hins vegar.

Þegar þessi  réttindi eru skoðuð út frá sjónarmiði einstaklingins og almennum  mannréttindum eru þau jöfn að gildum.  Fyrir einstaklinginn er það jafn mikils virði að hafa rétt til athafna og að hafa rétt til lífsviðurværis.

Það sem við stöndum frammi fyrir er hvort sjónarmiðið á að ráða? Hefðbundin viðhorf ríkisvaldsins eða vilji fólksins?

Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir almennar reglur samfélagsins , en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum, „ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“  Það eru í raun skilaboð Þjóðfundarins. Valdið er veitt sameiginlega af einstaklingunum til valdastofnanna samfélagsins sem eru verkfæri fólksins til að viðhalda, efla og þroska samfélagið.

Tregðan við þessum breytingum fellst í að nú mun þjóðin setja ríkisvaldinu grundvallarreglur um hagsmunamál þegnanna í stað þess að stjórnmálamenn og ríkiðvaldið móti þær reglur.

Það er hægt að benda á margar stjórnarskrár sem geyma ákvæði um slík gildi og jafnvel  heimspekilegan og  siðferðislegan grundvöll ríkisins.

  • 1. gr. þýsku stjórnarskrárinnar segir að mannleg reisn njóti algerar friðhelgi og hana beri ríkinu að vernda. Þannig er annarsvegar kveðið á um rétt einstaklingsins til mannlegrar reisnar og hins vegar um skyldu ríkisins til að vernda þann rétt og tryggja. Með rétti einstaklingsins og skyldu ríkisvaldsins er enn fremur undirstrikað að ríkið hafi þann tilgang að þjóna fólkinu en ekki öfugt. 1)
  • Suður-Afríska stjórnarskráin er framúrstefnuskjal á sviði mannréttinda. Í formála og meginhluta 1 og 2 kafla er útlistað að samfélag sé byggt á lýðræðislegum gildum, félagslegu réttlæti og mannréttindum. Sérstök réttindaskrá – Bill of Rights sem er helguð mannréttindum. Sem dæmi má taka 9. gr. sem bannar ólögmæta mismunun m.a. á grundvelli kynhneigðar og Suður-Afríka er nú eitt af fáum ríkjum veraldar sem tryggja ekki bara borgaraleg og pólitísk réttindi heldur einnig félagsleg réttindi, svo sem rétt á mat, vatni, húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu, lífeyri og menntun (27.-28. gr.). Auk þess að tryggja einstaklingum aðgang að dómstól telji þeir að brotið hafi verið gegn þeim, kveður 38. gr. á um að einstaklingar geti einnig höfðað mál fyrir hönd hóps eða í þágu almennings.  3
  • 1. Gr. Finnsku stjórnarskrárinnar segir m.a. „ Stjórnarskráin skal tryggja friðhelgi mannlegrar reisnar, frelsi einstaklingsins og stuðla að réttlæti í samfélaginu.“ Í 18 grein er rétturinn til vinnu og lífviðurværi af því.
  • 1. grein sænsku stjórnarskrárinnar (Regeringsformen) að “allt almannavald stafar frá þjóðinni” og ennfremur að sænskt lýðræði sé byggt á “frjálsri skoðanamyndun og almennum og jöfnum kosningarétti”.  2)

Þróun í undanfarinna áratuga í stjórnarskrám með réttindum til þátttöku í starfsemi ríkisins og réttindi sem tengjast réttlátri málsmeðferð eru gjarnan greindar sem sérstakur flokkur réttinda. Einnig er algengt að tala um mismunandi kynslóðir réttinda og er þá gjarnan vísað til réttar til friðar og heilnæms umhverfis sem nýjustu kynslóðarinnar í þeim efnum.

Víða hefur það álitamál uppi hvernig eigi að fara með hin svokölluðu félagslegu réttindi. Öðrum þræði eru réttur til vinnu, lífsviðurværis og húsnæðis svo dæmi sé tekið einhver mikilvægustu réttindi fólks og því jafnvel hugleiknari en hin svokölluðu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi (tjáningarfrelsi, félagafrelsi, friðhelgi einkalífs o.s.frv.).

Á hinn bóginn er mikil tregða í sumum nýlegum stjórnarskrártextum að viðurkenna réttindi með lagalega skuldbindandi hætti sem kosta fjárútlát af hálfu ríkisvaldsins og þau eru sumstaðar leyst með því að hafa sérstaka kafla um “félagsleg markmið”,  sbr. t.d. 3. kafla svissnesku stjórnarskrárinnar frá árinu 2000. Þar segir að kappkostað sé að tryggja að allir njóti almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu, hentugs húsnæðis, menntunar og aðstoðar samfélagsins þegar eitthvað bjátar á vegna aldurs, fötlunar, veikinda, slysa, atvinnuleysis o.s.frv. Jafnframt er tekið fram að ákvæði þessi leiði ekki til þess að einstaklingar öðlist lagalega bindandi rétt til framlaga af hálfu ríkisins. 2)

1) http://www.samfelagssattmali.is/thyska-stjornarskrain

2) https://docs.google.com/viewer?url=http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Stjornskipunarthroun.pdf

3) http://constitutionallyspeaking.co.za/on-nelson-mandela/