Ný hugsun-nýir straumar.

Þurfum við að breyta?

Sagan sýnir okkur að upp úr hnignun og kreppum samfélaga rís ávallt ný framtíðarsýn og skapandi kraftur sem endurnýjar samfélagið á öllum sviðum. Ástæðan fyrir hnignun samfélaga er oft sú sama, stöðnuð og úrelt hugmyndafræði sem í upphafi var ný og skapandi hugsun en í tímans rás lagaði sig ekki þeim breytingum sem urðu á samfélaginu.

Þetta birtist okkur íslendingum glöggt í kreppunni sem nú herjar, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan hinn vestræna heim. Úr rústum heimstyrjaldarinnar reis ný heimsýn, ný hugsun, endalok nýlendustefnunnar lauk með sjálfstæði undirokaðra þjóða. Aukin viðskipti milli þjóða, stórauknir flutningar, aukin samkeppni, alþjóðlegt peningakerfi. Ný tækni kom fram á öllum sviðum sem leiddi m.a. til kapphlaups milli þjóða um lífsgæði og vopnaframleiðslu. Síðan hafa vesturlönd náð bestu lífkjörum á jörðinni og við teljum jafnvel að batni enn.

 Endimörk vaxtarins?

Nú í upphafi nýrrar aldar hefur komið æ betur komið í ljós að hagvöxtur vesturlanda síðustu áratugi hefur að miklu leyti byggst á fullnýtingu og jafnvel ofnýtingu eigin náttúruauðlinda sem og þróunarlanda. Vísindin benda okkur á að olían sem knýr allar samgöngur á jörðunni muni kannski duga í eina öld. Kapphlaupið heldur engu að síður áfram. Vaxandi stórveldi, Indland og Kína sem hagnast hafa á framleiðslu fyrir vesturlönd í áratugi eru nú að auka lífsgæði sinna eigin þegna og komin í samkeppni við vesturlönd um náttúruauðlindir hvar sem eru í heiminum sem endurspeglast í stöðugri verðhækkun allra hráefna.

Yfirburðir vesturlanda duga ekki í þessari samkeppni, hagvöxtur þeirra hefur minnkað og þau aukið skuldasöfnun til að halda stöðu sinni og lífkjörum. Þetta sést skýrt í kreppu evruríkjanna sem er tilkomin vegna skuldasöfnunar fátækari ríkjanna innan sambandsins til að ná lífsgæðum ríkjanna í norðri.

Gífurleg skuldasöfnun Bandaríkjanna m.a. vegna vopnaframleiðslu og eyðslu til að viðhalda stöðu sinni sem stórveldi er mikið hættumerki. Vegna stöðu dollarsins hefur enn ekki komið að skuldardögum. Fjármagnið hefur verið drifaflið í þessari efnahagsþróun og hefur nú náð slíku pólitísku afli að kjörnir valdhafar vesturlanda kjósa að verja hagmuni þess umfram atvinnu og lífgæði þegna sinna. Allt þetta er ekki  tímabundnir efnahagsörðugleikar heldur augljós merki stöðnunar og jafnvel hnignunar.

Tregðan og endurmat.

Ráðandi öfl  viðhalda og verja regluverk samfélagsins og bregðast seint við breytingum, hvorki utanað eða innanúr samfélaginu. Tregðan við breytingar er innbyggð í stjórnkerfið en engu að síður ráða viðbrögð þeirra því hvort samfélagið finnur leiðir til að viðhalda lífkjörum sínum á vistvænni hátt en hingað til. Umræðan mun snúast um það á næstu árum.

Óhjákvæmulegar breytingar eru framundan og þeim fylgja pólitísk átök um stefnur og átök við ríkjandi hagsmuni um ný gildi og nýja hugsun, nýja nálgun til lausna á sameiginlegum vandamálum. Mörg þeirra verða flókin úrlausnar og því nauðsyn að fjölmiðlar rísi uppúr meðalmennskunni og verði raunverulega það afla sem almenningur geti treyst til að fjalla um málefnin án hlutdrægni og á gagnrýnan hátt. Hlutverk þeirra í lýðræðinu verður ekki ofmetið. Efnahagslegar breytingar, félagslegur jöfnuður og umhverfismál verða megin viðfangsefni stjórnmálanna fram á næst áratug.

Ný stefna til úrlausna í viðfangsefnum stjórnmálanna á ekki að byggjast á ímynduðum „vinstri“ eða „hægri“ stefnu heldur út frá gildum sem þjóðfélagið vill standa fyrir.

Hvað á að ráða?

Við eigum að hafa í huga að einstaklingurinn og fjölskyldan er kjarni samfélagsins og ef það á að standa sterkt verður það að hvíla á þeim gildum sem einstaklingar vilja sjá í eigin lífi.  Frelsi hvers manns vilja allir hafa til orðs og athafna.  Jafnrétti milli manna er jafn sjálfsagt og að draga andann. Hver maður getur verið smár og brothættur og við viljum að samfélagið hugi jafnt að öllum. Réttlæti er öllum mönnum í blóð borið og vilja að það sé í heiðri haft í öllum reglum samfélagsins og ákvörðunum valdhafa.

Þessi þrjú gildi eiga að gegnsýra allt samfélagið. Þau eiga að vera undirstaða þess og tryggja velferð allra hvers manns. Ef einhver þarf aðstoð og er ekki sinnt, er  samfélagið veikt. Þessi gildi eiga að vera hornsteinninn í lagasetningu, í framkvæmd laganna, þannig skilar það sér í siðferði samfélagsins.  Ákvörðun manna að setja samfélagi sínu skipulag og grunnreglur í stjórnarskrá ættu að byggja á þeim.– Frelsi  -Jafnrétti –Réttlæti.

„ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ er ekki merkingarlaust máltæki og endurspeglast best í nánu samfélagi manna. Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir sameiginlegar skyldur og viðurkenndar reglur samfélagsins en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum. Í lýðræði er valdið til stjórnunar veitt sameiginlega og því eiga allar stofnanir samfélagsins að vinna að því að efla það og þroska í anda þessara gilda.

 

Print Friendly, PDF & Email