Óður til sjófarenda.

I.

Úr “ Vísur um Krist.”

….

Guð, heit ek á þik,

at þú græðir mik.

Minnsk þú, mildingr, mín,

Mest þurfum þín.

Ryð þú, röðla gramr,

ríklyndr ok framr,

hölðs hverri sorg

ór hjarta borg.

…….

Kolbeinn Tumason D. 1208


II.

Lausavísa.

 

Upp skaltu á kjöl klífa.

Köld er sjávar drífa.

Kostaðu huginn at herða.

Hér muntu lífit verða.

Skafl beyjattu, skalli,

Þótt skúr á þik falli.

Ást hafðir þú meyja.

Eitt sinn skal hverr deyja.

Þórir Jökull Steinfinnsson. D.  1238.

III.

Úr  “Ég bið að heilsa.”

……….

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum

um og hæð og sund í drottnis ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði,

Blásið þið vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

………

Jónas Hallgrímsson  D. 1845.


IV.

Úr “Sonarterrek”

………..

Eftir ein á strönd við stöndum,

störum eftir svörtum nökkva,

sem að burtu lífs frá löndum

lætur út á hafið dökkva.

Farmurinn er enn fagri laukur,

felldur snöggt af norðanvindi,

farmurinn er enn fallni haukur,

farmurinn er lífsins yndi.

Ein er huggun, ei fær grandað

ólgusjór, né fær á skeri

dauðans hann í dimmu strandað.-

Drottinn sjálfur stýrir kneri.

Grímur Thomsen D. 1896

V.

“Þið sjáist aldrei framar”

 

Ég veit eitt hljóð svo heljarþungt,

sem hugans orku lamar,

með helstaf lýstur hjartað ungt,

og hrædd það tungan stamar.

Það dauðaklukku geymir glym

og gnýr sem margra hafa brim

þau dómsorð sár með sorgarrym:

“Þið sjáist aldrei framar.”

Ástskyldar verur snöggvast sjást,

Þeim sundra nornir gramar.

Þá yndisvonin öll þeim brást,

þær aldrei verða samar.

Hve sárt, er slitnar hönd frá hönd

og hafið veglaust skilur lönd.

Það suðar dimmt við sendna strönd:

“Þið sjáist aldrei framar.”

Steingrímur Thorsteinsson D. 1913


VI.

“Dánarstef”

 

Vor æfi stuttrar stundar

er stefnd til drottnis fundar,

að heyra lífs og liðins dóm.

En mannsins sonar mildi

skal máttug standa í gildi.

Hún boðast oss í engils rómi.

Svo helgist hjartans varðar.

Ei hrynur tár til jarðar

í trú, að ekki talið sé.

Í aldastormsins straumi

og stundarbarnsins draumi

oss veitir himnar vernd og hlé.

Einar Benediktsson  D. 1940

VII.

Úr “Dreggjar”

…..

Nætur, -nætur sem hverfa í haf,

hve hart og skammvint binda.

En máist þessi um æfina af,

þótt efsti tindurinn sökkvi í kaf ?

–        Ég skynja í sæg allra svífandi mynda

einn svip og eitt nafn,

–        einn lífsþátt með eldskreyttan upphafsstaf.

Einar Benediktsson  D. 1940


VIII.

Úr “Svona verða drengir menn”

………

Sá ég hann er segl á firði

setti hann upp og hélt til lands.

Afli, skip og yngri bróðir

ábyrgð var nú falið hans.

Stillti hann svo með styrkum höndum

stýrissveif og skaut í senn.

Þróttur óx er þaut í reiða.

–        Þannig verða drengir menn.

………….

Guðmundur Ingi Kristjánsson, 1935

IX.

“ Jón Thoroddsen „

In memoriam.

 

Í dimmum skugga af löngu liðnum vetri

mitt ljóð til þín var árum saman grafið.

Svo ungur varstu, er hvafstu út á hafið,

hugljúfur,glæstur,öllum drengjum betri.

Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína

sem hefði klökkur gíjustrengur brostið.

Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,

sem hugsar til þín alla daga sína.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna,

sem horfðu eftir þér í sárum trega,

þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,

þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

Og skín ei ljúfast ævi þeirra yfir,

sem ung á morgni lífsins staðar nemur,

og eilíflega, óháð því sem kemur,

í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

Sem sjálfur Drottinn mildum lofum lyki

um lífsins perlum í gullnu augnabliki-

Tómas Guðmundsson. -Fagra veröld.

 

X.

“Sálmar á atómsöld”

 

Tíminn er hvítur í fjöll.

Dagarnir hverfa í brim.

Þið eruð skipreikamenn á kili.

Þið kallið lagið þegar sogið kemur –

skjóllausir men á bliksvörtum kili.

Við horfðum af ginfjöru og biðum,

skyggðum hönd fyrir auga:

Í Jesú nafni kyrrðu landsjóinn

eins og öldur vatnsins áður,

gefðu þeim hik gegnum brimið.

Mattías Johannessen, 1991

Print Friendly, PDF & Email