Afleiðing frjáls fjármagnsflæðis – gjaldeyrishöft.

Árið 2002 kom út skýrsla sem bar nafnið “Peningamálastefna og gengisstefna í litlum og opnum hagkerfum: Ísland.”  eftir Joseph Stiglitz prófessor við Colombia háskóla og nóbelsverðlaunahafa í Hagfræði 2001. Hún var þýdd af Þorbergi Þórssyni og kom út í  2. Hefti Fjármálatíðinda 2002. Í þessari 23 síðna skýrslu fjallar hann um þær hættur sem stafa að litlum opnum hagkerfum og margar af niðurstöðum hans komu skýrt í ljós í aðdraganda og við bankahrunið 2008. Niðurstöður hans snerta einnig það sem við íslendingar erum að fást við sem afleiðingar þess nú í árslok 2012, en gefum honum orðið:

“Mörg þeirra vandamála sem lítil opin hagkerfi standa frammi fyrir núna eru afleiðing af afnámi hafta á fjármagnsmörkuðum, sem hefur gert þau berskjölduð fyrir mikilli áhættu – hættu á að hugarfar innlendra eða erlendra fjárfesta breytist skyndilega og þeir dembi fjármagni inn í löndin eða dragi það þaðan – um leið og takmarkanir hafa verið gerðar á þeim aðgerðum sem löndin gætu gripið til til að stýra þessari áhættu. Því er ósköp eðlilegt að umræður um hagstjórn snúist einkum um íhlutun í streymi skammtímafjármagns.”

“Afnám hafta fjármagnshreyfinga hefur víða verið lofuð á þeim forsendum að það bæti ráðstöfunarhagkvæmni fjármagnsmarkaða og stuðli þannig að auknum tekjum og hagvexti. Enn fremur er því haldið fram að áhættudreifingin sem „hnattvæðing“ fjármagnsmarkaða getur leitt af sér þýði að fjárstreymi frá útlöndum geti vegið upp á móti óstöðugleika heima fyrir, og hjálpi þar með til að koma jafnvægi á hagkerfið……….Hins vegar var engin stoð í rannsóknum eða reynslu fyrir neinu af þessum meinta ábata, og víðfeðmari hagfræðikenningar, þar sem það var tekið með í reikninginn að markaðir með áhættu og upplýsingar eru ófullkomnir, bentu til þess að góð rök væru fyrir því að afnám hafta á fjármagnsmörkuðum myndi hafa skaðlegar afleiðingar. Sér í lagi hefur Dani Rodrick prófessor við Harvardháskóla sýnt með reynslurökum að ekki er samband á milli afnáms hafta á fjármagnsmörkuðum og hagvaxtar eða fjárfestingar.”

“Langtímafjárfestingu er ekki hægt að byggja á fé sem streymir inn eða út úr landi á einni nóttu. Auk þess hafa löndin þurft að koma sér upp meiri gjaldeyrisforða eftir því sem skammtímaskuldabyrði hefur aukist, vegna þess að þau hafa orðið næmari fyrir þeirri áhættu sem tengist ónógum gjaldeyrisforða í hlutfalli við skammtímaskuldir (ekki aðeins í hlutfalli við innflutning eins og áður var). Í reynd merkir þetta að fái fyrirtæki í litlu og opnu hagkerfi 100 milljónir dala í skammtímalán frá bandarískum banka, sem ber til dæmis 15% vexti, þarf landið að leggja 100 milljónir dala til hliðar í gjaldeyrisforða, til dæmis í bandarískum ríkisskuldabréfum. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði tekur landið lán frá Bandaríkjunum á 15% vöxtum og lánar því til baka á 5% vöxtum eða svo. Erfitt er að sjá hvernig fjárhagslegar aðgerðir af þessu tagi geta stuðlað að hagvexti. Þetta dæmi er lýsandi fyrir lykilatriði í hagstjórn:

Fjárstraumar, sér í lagi fjárstraumar til skamms tíma, valda miklum úthrifum og stjórnvöld hafa það hlutverk að reyna að takast á við þessi úthrif,

rétt eins og stjórnvöld myndu reyna að gera í tilviki annarra úthrifa, svo sem þeirra sem stafa af mengun.”

“Jafnframt því sem það er í besta falli vafasamt að afnám hafta á fjármagnsmörkuðum leiði til meiri hagvaxtar, eru skýrar vísbendingar um að áhættan, sem afnám haftanna veldur, geti haft skaðleg áhrif á lönd. Enn fremur hefur reynslan sýnt að sú skoðun stenst einfaldlega ekki að skammtímastraumar stuðli að jafnvægi. Áður en kreppan hófst var vitað að þessi skoðun stæðist ekki:  Skammtímafjárstraumar eru sveiflumagnandi, ekki sveiflujafnandi, og þannig hljóta þeir nánast óumflýjanlega að gera sveiflurnar erfiðari viðureignar en ekki að milda þær.“

„Óstöðugleiki þessara strauma stuðlar að óstöðugleika í hagkerfinu í heild, afnám hafta á fjármagnsmörkuðum er í kerfisbundnu sambandi við tíðari og dýpri kreppur. Ennfremur eru vísbendingar um að þessar kreppur hafi langvarandi áhrif og hagvöxtur verði hægari í fimm ár eða lengur eftir upphaf þeirra.”

Úrdrættir úr skýrslu Joseph Stiglitz: Fjármálatíðindi 49 árg. II. 2002.