Fornar íslenskar mælieiningar til sjós

Fornar íslenskar mælieiningar til sjós.

Sigurbjörn Svavarsson

Almennt er álitið að lítil þekking hafi verið til staðar fyrir þúsund árum fyrir mælingum og stærðfræði yfirleitt, sérstaklega þegar kom að siglingum.
En þegar í fornöld uppgötvuðu menn að jörðin væri hnöttur og lifði sú þekking hjá einstökum lærdómsmönnum eins og kemur fram í íslensku rímtali (útreikningum) frá 12 öld, Diplomatarium Islandicum = Íslenzkt fornbréfasafn:

Fornar lengdareiningar
Fornar lengdarmælingar allra þjóða eru byggðar á hagnýtum einingum sem hægt var að sanna, það er, á höndum og fótum manna, lófa, feti, faðmi. En til að sannreyna að þær mælingar væru ávallt eins þrátt fyrir misjafna stærð manna voru líka aðrar skilgreiningar sem staðfestu á hverju lófi og fet byggðust, en það var kornið sem gaf hið daglega brauð.

Byggkorn var lengdareining til forna samanber ensku eininguna Barnley corn sem var 1/3 úr inch (þumli). 3 byggkorn var mundi (þumall). 12 byggkorn voru einn lófi. 36 byggkorn voru í einu feti. Þrír lófar voru eitt fet. 2 fet var öln, alin (lengd framhandleggs fram í fingurgóma). 3,5 öln var einn faðmur. Það voru því 7 fet, í einum faðmi eins og Búalög segja. 5 fet voru eitt skref, 125 skref voru skeið* eða 625 fet. 8 skeið voru ein míla (mil=1.000 skref). Í þessar Töflu 1.eru þessar einingar settar í samburð.

Hin forna alin var náttúruleg Öln, lengd framhandleggs frá olboga fram á fingurgóm löngutangar, u.þ.b 47 cm. En hin forna lög-alin hafði verið einum þumli (2 cm) lengri, nefnd Þumal-alin og notuð í viðskiptum til að tryggja rétt mál. Þessi nafngift kemur fyrir í Frostaþingslögum og Grágás. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1910. Björn Magnússon Olsen. Um hina fornu íslensku alin.
Áður en lengra er haldið er rétt að benda lesendum á að mikill munur er á mælilengdum, fets, alins og mílu eftir löndum og jafnvel innan landa og jafnvel voru í gangi samtímis nokkrar lengdir alins hér á landi. Í Töflu I. má sjá samhengi mælieininga líkama manns svo og lengri lengdarmælinga, þ.e. skeið og mílu sem voru ákvörðuð af mælieiningu mannsins og verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Skref og skeið og míla
Skeið var 125 skref, 5 fet voru í hverju skrefi, þannig töldust 625 fet í hverju skeiði. 8 skeið voru 1000 skref, eða ein míla. Rómverska mílan (mille passus, lit, „þúsund skref“; einnig milia passuum og mille) samanstóð af þúsund skrefum mæld yfir tvö fótstig – hreyfing vinstri fótar í jörð 1.000 sinnum. Rómverjar til forna, fóru með her sína um ný landsvæði, skildu skorin staf í jörðina eftir hver 1000 skref. Vel haldnir og hraustir rómverskir hermenn í góðu veðri sköpuðu þannig lengri mílur og stundum styttri eftir landslagi og aðstæðum. Fjarlægðin var óbeint stöðluð með stofnun Agrippa á stöðluðum rómverskum fæti (eigin fæti Agrippa) árið 29 f.Kr. og skilgreiningin á skrefinu sem 5 fet. Rómverska míla keisaradæmisins vísaði þannig til 5.000 rómverskra feta. Landmælingar og sérhæfður búnaður eins og stikur (decempeda og dioptre) auðvelduðu síðan notkun þess.

Á hellenskum svæðum heimsveldisins var rómverska mílan (gríska: μίλιον, mílion) notuð við hliðina á grískum einingum sem jafngildir 8 skeiðum með 600 grískum setum (4.800). Rómverska mílan breiddist einnig út um alla Evrópu, með staðbundnum tilbrigðum þess sem leiddu til mismunandi eininga. Í Alfræði íslenzk II, bls. 124 (eftir handriti frá 15 öld) segir: “Svo segja grískir spekingar að Herkúles hinn mikli hafi hlaupið 125 skref, meðan hann þoldi önd einu sinni (einn andardrátt), síðan nam hann staðar og kallaði það stadium. 8 stadia gera eina mílu, það eru 1000 skref. 60 stadia eru 7 og half míla. 7000 skref og 500 eru 7 mílur og 4 stadia, en í skrefi eru 5 fet”.  Ekki er úr vegi að hugsa til leiðarvarðanna okkar í þessu sambandi, upprunalega kunna þær að hafa verið lengdarvísir.

Allir vegir lágu til Rómar – 50.000 mílur af steinbundnum vegum. Við hverja mílu var lagaður steinn, með rómverskri tölu, sem gaf til kynna fjölda mílna frá miðju Róm – Forum. Þess vegna vissi maður alltaf hversu langt maður var frá Róm. Mílan var því 1.000 skref, eða 5000 fet. Forna enska mílan byggði á þeirri rómversku, sem byggði á eldri grískum einingum og hún af egypskum og þær frá fyrri menningarþjóðum. Enskar eininga virðist hafa verið sambland rómverska kerfinu við breskt og germönsk kerfi sem bæði eru fengin úr margföldu byggkorninu, en tóku upp rómversku einingar í míluna sem 5000 fet, 1000 skref og 8 lengri skiptingu, sem þeir jöfnuðu við „furrowlengd“,eða furlong. Á miðri 10. öld, varð breyting á og frumgerð líkamlegs staðals í enskri lengd mótuð. Lög Aðalsteins Englandskonungs (924-940) um skilgreiningu á lengd hins enska fets og öðrum mælikvörðum út frá því. Enskar mælingar voru þá Míla, Plógfar. Ekra, Fet. Lófi, Byggkorn. Allt skilgreint sem fjarlægð frá miðju konungs, með sama hætti og þær rómversku frá keisaranum í Róm. 120 faðmar voru sagðir í skeiði, það samsvaraði 840 fetum (7×120), 6 slík skeið voru í mílu, eða 5.040 fet í mílu. Síðar breyttust þessar einingar, mílan varð 5280 fet, Plógfar 600 fet, Ekra 66 fet, lófi 0,75 fet, þumlungur 3 Byggkorn; Stecchini (Rætur íslenskrar menningar.)

Í Ritmálasafni Orðabókar Háskólans, eru heimildirnar frá 17 öld og fram á þá 20ustu um orðanotkun. Þar segir um skref og skeið:
• fiøgur Hundrud Stadia / edr Skeid: Nu er j huøriu Løgskride / hundarad og tuttugu fadmar.
• 1 skeid er 125 fadmar.
• Öldunum er skipt í tímabil, tímabilunum í tíma og tímunum í skeið.
• 1 Skref er jafnt fadmi, …
• 1 skref 3 fet.
• 1 Fadmur er 3 álnir danskar edur 2 skref.

Í íslensku máli er því staðfest að þessar rómversku/ensku einingar höfðu verið teknar upp hér á landi. Þó er að sjá að skeiði hafi síðar verið jafnað til faðms.
Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um mílu:
• 20. Þyskar Milur (sem ero 16. Nordskar vikur).
• 1 frønsk míla er 2000 fadmar.
• 5 þýzkar mílur [eru gerðar] at 20 völskum, 20 valskar at 20000 fødmum.
• hver vølsk míla er 1000 fadmar.
• 1 engelsk míla er 1000 fadmar.
• Velsk og Ensk míla er 1000 fadmar.
• Frönsk míla er 2000 fadmar.
• Dönsk edur þýdsk míla er 4000 fadmar.
• að frá Arnarbælistanga til Stykkishólms séu 4 mílur danskar, eða 12 sjómílur.
• að hér er ruglað saman 4ra danskra mílna og 4ra sjómílna takmörkunum, en 1 dönsk míla er eins og kunnugt er 4 sjómílur.

Af framansögðu sést að velsk/ensk míla var 1000 faðmar, frönsk míla 2000 faðmar, þýskar og danskar mílur 4000 faðmar, 20 Þýskar mílur er jafnað til 16 norskra vikna, þ.e 20*4000/16 gerir að vika var 5000 faðmar. Hér kemur einnig fram að mismunandi lengd sjómílu, annars vegar að fjórar sjómílur og hinsvegar þrjár sjómílur sé 1 dönsk míla svo erfitt er að henda reiður á hvort er rétt, þó verður að taka tillit til þess að tilvitnanir eru frá mismunandi tímum. Þó faðmur hafi verið eilítið misjafn hvað varðar fjölda feta í honum, var sú eining frummæling manns. Hins vegar voru mílur æði mislangar hjá hinum ýmsu þjóðum og byggðu á ólíkum forsendum.

Hraði og vegalengd.
Til forna voru vegalengdir hér á landi taldar í hálfum eða heilum dagleiðum (Þingmannaleið) sem skipt var í síðar í mílur eða skeið, en á sjó voru þær mældar í vikum eða tylftum (dægrum) sjávar. Í ensku fornu máli var League slík vegalengd: Hún var vegalengd sem miðaðist við hvað maður gekk á einni klukkustund og var almennt talin vera 3 enskar mílur. Rómverjar tóku hana upp og hún ákvörðuð 1,5 rómversk míla (7.500 rómversk fet). https://en.wiktionary.org/wiki/league .
Dagleið var þá vegalengd sem tók mann að ganga á 8 klukkustundum.
Ef league var þrjár enskar mílur, var einnar stunda ganga því 3.000 skref manns (15.000 fet) og Dagleið, 8 stunda ganga samkvæmt því 24 mílur, eða 24.000 skref, eða 20.000 faðmar, eða 120.000 fet. Þessi vegalengd er sú sama og svo svonefnd Þingmannaleið, eins og hún er sögð í gömlum heimildum.

Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um þingmannaleið.:
• þíngmanna-leid er 5 þýzkar mílur.
• Þíngmannaleid er 5 danskar mílur edur 20,000 fadmar.
mun sá vegur vera full hálf þingmannaleið.
• þingmannaleið eður 5 vanaligar jarðmælingarmílur.
• vegirnir […] hafa verið taldir í þingmannaleiðum og bæjarleiðum.
• Að sönnu hefur þingmannaleið fengið ákveðið gildi og verið talin 5 mílur danskar.
• fá styrk til ferðalags að skólanum frá lögheimilum sínum, t.d. 2 kr. fyrir hverja þingmannaleið (5 mílur).
• 1 þingmannaleið hefur almennilegar 5 þýzkar mílur.
• er Smjörvatnsheiði þingmannaleið brúna á milli.
• Milli Grímsstaða og Möðrudals var talin hálf þingmannaleið.
• Að fornu lagi er talin þingmannaleið kringum vatnið, og mun það láta mjög nærri.
• og er hver þingmannaleið 5 danskar mílur.
• fimm mílur danskar á milli fjarðanna og sú vegalengd kölluð þingmannaleið.

Vika sjávar
Var ákveðin lengdarmálseining á sjó sem þekkist allt frá fornu fari. Í Íslendingasögunum má sjá að siglingar voru mældar í vikum sjávar, tylftum sjávar og dægrum. Í síðari tíma ritum koma fram skilgreiningar á siglingu, eins og míla og sjómíla. Einnig koma þá fram misvísandi útskýringar á þessum fornu hugtökum. Í Íslendingasögu I e. Jón Jóhannesson. AB 1956, er eftirfarandi skilgreining á þessum hugtökum: Vika sjávar sama og 3 sjómílur/stundar sigling, Tylft 12 vikur sjávar. Dægur einnig 12 stunda sigling. Í Orðabók Menningarsjóðs er Vika sjávar sögð um einnar stundar sigling.

Hugtakið Vika til forna var sú sama og í dag. Árinu var skipt í tvö misseri, 364 daga og 52 vikur, sjö dagar í hverri viku. “Vikan hefur þekkst meðal margra þjóða og er ævagömul, og var í upphafi sennilega miðuð við kvartilaskipti tunglsins. Einnig hafa þó þekkst fimm og tíu daga vikur. Sjö daga vikan var þekkt hjá gyðingum og Egyptum en þeir tengdu vikuna þeim reikistjörnum sem þá voru þekktar og nefndu daga vikunnar eftir þeim og samsvarandi guðum. Síðar gerðu norrænir menn hið sama …“ : Afmörkun tímans Rímfræði í aldanna rás“ eftir Sigrúnu Kristjánsdóttir.

Grunnur þessarar mælieiningar þ.e. vika sjávar virðist hafa tapast í tímans rás og því hafi síðari tíma menn sem hafi vanist öðrum skilgreiningum á vegalengdum og hraða í siglingum haft óskýra hugmynd um merkingu þessara fornu hugtaka. Þrennt virðist hafa valdið þessum ruglingi:


1. Misstórar mílur eftir löndum, enskar, danskar, franskar mílur á mismunandi tímum.
2. Upptaka metrakerfisins með tilheyrandi útreikningum á hinum misstóru mílum.
3. Fjöldi landmílna í viku sjávar, stundum nefnd sjómíla, stór og lítil sjómíla, sem gæti þess vegna upprunalega heitið sjömíla.

Fræðimenn er heldur ekki á einu máli um lengd viku sjávar, Magnús Már Lárusson segir í grein í Skírni. Íslenskar mælingar, eftir að hafa tiltekið (mældar?) vegalengdir sem gefnar eru upp sem viku sjávar á þremur stöðum í Grettissögu og komist að tvennum mismunandi niðurstöðum annars vegar rúmum 7 km. og rúmum 9 km.. “Vika sjávar getur ekki hafa verið nákvæm mælieining, því að tímalengdin að fara ákveðin spöl getur haft áhrif á ákvörðun vegalengdirnar, og ráða því straumar og vindar nokkru um ákvörðunina. Annars er eigi vitað með vissu, hvernig farið var að ákveða farna vegalengd á sjó á fyrri öldum.”

Í leyfisbréfi konungs 1631 virðist vika sjávar vera sama og ein dönsk míla. Á 17. og 18. öld er einnig talað um viku sjávar sem eina danska mílu, um það bil einnar stundar siglingu.  Á 18 öld eru til nokkrar skilgreiningar á viku sjávar. Í lærdómslistafélagsritum XII segir hana vera 5.000 málfaðma eða 17.500 álnir. Á 18. öld var vika sjávar stundum talin 8,3 km en í Lagasafni alþýðu frá 1907 er hún sögð 7,408 km.
Þessar tölur í metrum eru mismunandi eftir að metrakerfið var tekið upp og einnig að skilgreining á fetinu varð lengri á síðari tímum þar til það varð lögfest og sjómílan var sett niður sem 1 mínuta í 360 gráðu ummáli jarðarinnar með sífellt meiri nákvæmni.

En hver er grundvöllur Vika sjávar, hvernig var hún mæld?

Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um viku sjávar:
• 20. Þyskar Milur (sem ero 16. Nordskar vikur).
• 1 vika siáar er 1 þýzk míla edr 4000 fadm.
• Hann var á ferðinni yfir um sundið, sem er hérumbil vika sjóar, einungis 1 3/4 kluckustund.
• íslendskar þíngmannaleidir 3 [:: eru sama sem] íslendskar sjómílur (vikur sjáfar) 9.
• þeir voru svo röskir menn, að þeir reru viku sjávar á eyktinni.
• 1 vika sjávar […] 7,408 kílómetrar.
• í Grímsey […] sé bæði reiknað eftir stuttum og löngum vikum og séu 6 vikur langar taldar sama sem 8 vikur stuttar.
• að í þingmannaleið séu 3 vikur sjóar, og hver vika sé því 1 2/3 úr mílu.
• 1 míla á landi 7.532 kílómetra. 1 sjómíla 1.855 kílómetra (1 vika sjávar 7.408 kílómetra = 4 sjómílur).
• Með 12 vikna skriði á vöku fer skip til Björgvinjar á 71 1/4 klukkustund.
• Siglingin þrjár vikur sjávar. Tólf kvartmílur gegn um eyjar og sker.
• Tylft hver er talin 12 sjómílur (vikur sjávar), en sjómílan var talin u.þ.b. 1 1/2 dönsk míla.
• og er vikan [:: á sjó] 1 dönsk míla.
• sjóleiðin frá Flateyjarlendingu að Nautseyri, var að fornu talin hálf vika sjávar og mun vera nálægt 4 km.
• þannig að báðir meintu viku sjávar (league), en Danir héldu hana bara einni mílu of stóra.

Það sést á þessum tilvitnunum sem spanna nokkrar aldir að verið er að útskýra merkingu vika sjávar og skilgreiningarnar eru með ýmsum móti, þar er getið um stuttar og langar vikur, ýmist 1 eða 1,5 dönsk míla, að þingmannaleið sé 3 vikur sjávar og hver vika sé því 1 2/3 míla , sagt að röskir menn rói viku sjávar á þremur stundum (eykt) og annar staðar að taki 1 ¾ klukkustund að fara hana. Þessi síðastnefndu dæmi benda til, að um var að ræða þekkta leið í vikum sem tók tiltekin tíma að fara róandi eða siglandi. Margar tilvitnanna stangast á og því erfitt að komast að óyggjandi niðurstöðu um hver vika sjávar var og hvernig hún var fundin.

Tylft sjávar.
Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um tylft sjávar: Tylft sjávar er 12 sjómílur (vikur sjávar).
Í Alfræði íslenzk II. (Rím II, bls 125), sem er endursögn handrits frá lokum 15 aldar. segir;
“At þessi tolu ero 7000 stadiorum I eine gradu iardar, enn passum 875000 I gradu. A millum Biorgvinar ok Nidar oss ero nær 4 gradr. Þa verdr ein grada nær tylpt sjavar. I viku siavar ero 583 stadia ok [triens stadii, þat ero 72916 passus ok þriu fet ok þridiungur fetz, En iafn micit er grada m iordu ok tylpt siovar, enn II tylpter ein dag-sigling.”


Hér segir skýrt að 7000 skeið séu ein gráða, – ein gráða nærri tylft sjávar, þ.e. 12 vikur sjávar. Einnig er sagt að 2 tylftir sé dagssigling. Á þessum tíma, í lok 15 aldar, er því einnig notast við þessi hugtök um veglengd á sjó, en til viðbótar tengd bogagráðum hnattarins. Ein breiddargráða er 60 sjómílur (nútíma), Ef 12 vikur sjávar eru nærri ein gráða, er vika sjávar m.v þessa skilgreiningu nærri; 60/12= er ein vika sjávar samkvæmt þessu= 5 sjómílur í vegalengd og hraða .

Dægur:
Tímamæling, dægur (í merkingunni dagur og/eða nótt.) á milli þekktra staða.
Í Alfræði íslenzk I, sem er skrifuð eftir handriti A.M. 194. 8vo og ritað 1387 á Narfeyri af Ólafi Ormssyni presti, segir á bls. 44 undir fyrirsögninni Leiðir:

“Ór Noregi frá Stadi er um IIII (4) dægra sigling til Færeyja enn þaðan þrigja (3) til Íslands I austfjordu til Horns, dægur (1sta) sigling frá Horni til Hjörleifshöfda, önnur (2ur) til Reykianes, þridja (3ja) til Bardz, fjorda (4ða) til Horns hins vestra, fimta (5ta) til Skaga, seta (6ta) til Langanes, sjaunda (7nd) til Horns. Um endilangt Ísland ero taldar XX (20) dagleiðir á sumars degi, en um IIII (4) um þvert. Sjö dægra sigling er frá Islandi til Noregs miðs,…”

Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um Dægur:
• *jafnleingd Dægra stødug stendur.
• fiogra dægra sigling, pro qvo alii biduum intelligunt, ut dægur significet diem civilem 12 horarum. Alii dægur pro die et nocte accipinnt, pro horis sc. 24.
• huar ut af reiknast Dægur siglingenn 20. þyskar milur / ok at skiliast eige Dies naturalis fra einum Morgni til annars 24. stunder.
• Dagur og Nott til samans (þad køllum vær Dægur).
• Dægur heiter almennelega dagur, eda nótt, eins og missere heiter sumar eda vetur. Nockrer kalla dægur dag og nótt til samans.
• Þetta er stundatal á hverjum 2 dægrum, svosem það er í almanaki sett.
• 1 dægr er 12 stundir.
• Einn sólar-hríngur, sem menn kalla, edur tvø dægur.
• Verda þeim hvørein 2 dægur nockud leingri enn 24 klucku stundir.
• 2 dægur edur 24 stundir
• Þá vard kvöld, og þá vard morgun, hid fyrsta dægur.
• *Tuttugu og fjórar stundir / eru í hverjum tveimur / dægrum þínum.
• *Þiggjum skjól við dægra dyr, / dag og sól við gistum.
• *Af tvískiptu eðli er þeirra hjarta, / eins og dægrið, hið myrka og bjarta.
• Annað dægrið snúum vér að sólu. Þá er dagur og birta. Hitt dægrið snúum vér undan sólu, og þá er nótt og myrkur.

Hér er aðeins ein skilgreining á dægri sem sólarhringur, dagur. Hinar allar eru með tvö dægur í degi, þ.e. dægur sé 12 stundir. Það var sagt hér að framan að tylft væri 12 sjómílur, þ.e. 12 vikur sjávar. Þá er rétt að skoða hvernig sjómíla er skilgreind til forna.

Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir um sjómílu:
• A eitt þvílíkt mælistig gánga: [ […]] sjómílur (engelskra [ […]]) stórar 20, sjómílur litlar 60.
• 1 míla á landi 7.532 kílómetra. 1 sjómíla 1.855 kílómetra (1 vika sjávar 7.408 kílómetra).
• Sjómmílan eru 7,4076 kílómetrar og einn fjórðungur hennar, eða það, sem við alment nefnum sjómílu eru 5,900,49 fet eða 1851,89 metrar.
• Tylft hver er talin 12 sjómílur (vikur sjávar) en sjómílan var talin u.þ.b. 1½ dönsk míla.
• að frá Arnarbælistanga til Stykkishólms séu 4 mílur danskar, eða 12 sjómílur.
• Kemst hann að þeirri niðurstöðu, að fram til ársins 1859 hafi landhelgin verið ,,talin a.m.k. 4 jarðmálsmílur, öðru nafni danskar mílur, eða með öðrum orðum 16 sjómílur“.

Hér kemur fram talsverður munur á sjómílu og er auðsýnilega verið að tala um fernskonar lengd sjómílu;
1. Sjómílu sem viku sjávar og var talin u.þ.b 1½ dönsk míla.
2. 4 sjómílur sem ein dönsk míla.
3. Sjómíla sem er rúmir 7 km.
4. Sjómíla sem er nærri lengd núverandi sjómílu.
Svipaður ruglingur er í kaflanum hér að framan um viku sjávar , enda verið að fjalla að nokkru leyti um sama hlutinn sem þróast hefur í tvö hugtökum. Spurningin er því hvað var sjómílan sem sögð var vika sjávar löng, á hverju var hún byggð og fundin út?
Var hún einungis viðmið um fjarlægð sem tæki eins stund að fara, á þeim skipum sem menn höfðu yfir að ráða hverju sinni?

Dregið hefur verið fram í þessari grein hin fornu hugtök yfir lengdir og fjarlægðir sem notuð voru um aldir hér á landi (og er enn í grunninn í enska kerfinu), svo samhengi þeirra verði greinilegra eins og þau voru notuð hér á landi. Forðast hefur verið að tengja þau metrakerfinu hér fram til þessa, því í gegnum aldirnar hefur umreikningur í metrakerfið breyst verulega, svo ekki sé talað um misstórar eldri eininga eftir löndum, þetta hvorutveggja hefur ruglað samanburð. Þess má geta að gamla norska og sænska landmílan var talinn 36.000 fet.
Grunnur hinna einstöku fornu einingar eru byggðar á breidd þumlungs (hér 2,065 cm) sem er grunnur að feti og alin, sem var megin mælieining til forna , en ýmsar breytingar urðu á lengd alins í gegnum aldirnar af ýmsum ástæðum, aðallega viðskiptaástæðum, eins og sjá má í grein Magnúsar Más Lárussonar, Íslenskar Mælingar.

Rifjum upp grunninn í Töflu 1.Allar einingar eru í þeim hlutföllum hver við aðra samkvæmt rannsóknum íslenskra fræðimanna.

Í þessari Töflu II. eru fornu einingunum umbreytt í metramál m.v. að breidd þumlungs sé 2,065 cm.

Að framan kom fram að stundarganga manns var sögð vera 3 enskar mílur, sama og 3.000 skref (15.000 fet) og Dagleið, Sama sem 8 stunda ganga, einnig kölluð þingmannaleið er samkvæmt því 24.000 skref, eða 20.000 faðmar, eða 120.000 fet.

Í lærdómslistafélagsritum XII segir (sjó)míluna vera 5.000 málfaðma eða 17.500 álnir, og í Ritmálasafni Orðabókar Háskólans segir að vika sjávar sé 5000 norskir faðmar. Ef þingmannaleið er 20.000 faðmar og vika sjávar 5.000 faðmar, eru 4 vikur sjávar í þingmanna(Dag)leið. Ef 5.000 faðmar eru vika sjávar, er hún einnig 7.000 skref, eða 7 mílur, þá fáum við eðlilega málsnotkun við hugtakið vika sjávar, þ.e. 7 mílur á sjó.

Mjög eðlilegt var að stytta þetta hugtak í viku sem þýddi ekkert annað en talan sjö, síðan varð hugtakið að sjómílu með svipuðum hætti og sjávarmíla er enn í dag skilgreind á ensku, Nautical Mile, þó önnur skilgreining sé þar að baki. Við að umbreyta mismunandi lengdareiningar í einni landmílu með tölunni sjö verða tölur kunnuglegar frá Ritmálasafni Orðabókar Háskólans hér að framan.

í Töflu III. með margfeldi 7 fáum við 8.673 m. sem viku sjávar, sem einnig er kölluð sjómíla sem er einnig einnar stundar sigling. Tylft sjávar, þ.e. 12 stunda sigling mælist samkvæmt þessu 104.076 m. sem farið er á einu dægri.
Ein breiddargráða er 60 sjómílur, hver sjómíla er um 1.852 m. = 111.120 m. “Tylft sjávar var nærri gráðu“, eins og sagði í hinum forna texti, (Alfræði íslenzk II. Bls. 125) er merkilega nærri.

Vika sjávar – Niðurstöður.
Vika sjávar var fast viðmið, sjö landmílur, og einnar stundar sigling með seglum og eflaust miðað við gang hafskipa. Þannig var hún notuð sem fjarlægðarmæling milli staða sem fara varð á sjó, t.d milli lands og eyja, yfir fjörð eða út á fiskimið. Á lengri leiðum var hún viðmið um tíma, eflaust byggð á reynslu við meðalaðstæður. Lengri leiðir voru gefnar upp sem tylftir sjávar (12 vikur sjávar) 12 stunda sigling , sem var sama og dægur, þ.e. hvað langan tíma tæki að fara tilteknar leiðir. Vika sjávar var nærri gömlu norsku og sænsku mílunni sem var talin 36.000 fet (18.000 alin) en danska mílan, sem var 12.000 alin, eða 24.000 fet var nærri dagleið.
Rifjum upp orð tilvitnuð orð Magnúsar Más Lárussonar hér að framan; “Vika sjávar getur ekki hafa verið nákvæm mælieining, því að tímalengdin að fara ákveðin spöl getur haft áhrif á ákvörðun vegalengdarinnar, og ráða því straumar og vindar nokkru um ákvörðunina. Annars er eigi vitað með vissu, hvernig farið var að ákveða farna vegalengd á sjó á fyrri öldum.”

Þessi rannsókn hér sýnir að vika sjávar var klukkustundar sigling, viðmiðið var í upphafi sjö landmílur (7.000 skref) sem föst vegalengd. Tylft sjávar var 12 stunda sigling, eitt dægur, tvö dægur í sólarhring. Á sama hátt og stundarganga manns var 3 landmílur (3.000 skref) sem föst vegalengd og dagleið átta stunda ganga, sama og Þingmannaleið.
Hins vegar, eins og gönguhraði manna er mismunandi, fór hraði skips eftir stærð, vindi, straumum og öðrum aðstæðum, tímann sem tók að fara tiltekna vegalengd höfðu menn ávallt á hreinu.
Hvað varðar spurninguna um hvernig menn mældu viku sjávar sem ákveðna vegalengd á sjó, t.d. yfir fjörð, milli staða, á mið o.s.f. sýnist hún hafa verið vegalengd sem farin var á einni stundu, á skipum sem hefð var að nota á styttri og lengri vegalengdum.
Sjómenn höfðu ávallt tímamælingu, stund, eykt og dægur og þá um leið tímann sem tók að fara ákveða vegalengd á sjó á fyrri öldum

Vika sjávar var því notuð með tvennum hætti:
1. Hún var mælieining til forna, fast viðmið í vegalengd sem kölluð var sjómíla, eða sjö landmílur á sjó. Samanber dæmi: „sjóleiðin frá Flateyjarlendingu að Nautseyri, var að fornu talin hálf vika sjávar og mun vera nálægt 4 km“
2. Hún var einnig hraðaviðmið, tiltekin vegalengd (sjö mílur) á klukkustund, t.d. „þeir voru svo röskir menn, að þeir reru viku sjávar á eyktinni.“ (réru sjö mílur á þremur stundum)

Vika sjávar var því: Hraði og/eða vegalengd farin á einni klukkustund og fór eftir skipum og aðstæður (vindi, straumum), Dægur var 12 stunda slík sigling, með sama hætti og það tók að fara dagleið, þingmannaleið, ríðandi eða fótgangandi við misjafnar aðstæður.

Um vegalengdir á sjó í Fornritunum.
Í nokkrum fornritum er getið um siglingaleiðir til ýmissa staða og svo umhverfis Íslands og vegalengdir gefnar upp í dægrum, tylftum og vikum sjávar. Með því að bera þær saman við vegalengdir í sjómílum í dag má finna út hver meðalhraðinn í vika sjávar var á þessum leiðum. Dægratala á hinum ýmsu leiðum ber saman í flestum afskriftum fornritanna, nema til Bretlands og Írlands þar eru dægrin sem gefin eru upp, er auðsjáanlega átt við daga, sem passar þá við fjarlægðir í sjómílum.
Slíkar lengri leiðir hafa tæplega verið mældar nema sem meðaltal í dægrum, enda er getið um dæmi þar sem byr var óvenjulegur.

Í Ólafs sögu Konungs Tryggvasonar segir:
„Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Stað sé 7 dægra sigling í vestur til Horns á austanverður Íslandi. En frá Snæfellsnesi, þar sem skemmst er til Grænlands 4 dægra haf vestur að sigla. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgvyn til Hvarfsins á Grænlandi i), að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Íslands; frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er 5 dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi í suðri, en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi 4 norður til Svalbarða í hafsbotn“

Landnámabók (Sturlubók)
„Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.“

Jómvíkingarsaga og Knytlingasaga
I. Sögubrot
„Svo segja fróðir menn, að frá Staði sé 7 dægra sigling til Horns á austanverðu Íslandi; en frá Snæfellsnesi, þar sm skemst er til Grænlands, 4 dægra haf í vestur að sigla; ef siglt er úr Björgvin til Hvarfsins á Grænlandi í vestri fullt, þá mun verða tylft sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnuverðu Íslandi er 5 dægra haf til Ölduhlaups á Írlandi í suðri fullt; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi 4 dægra til Svalbarða við hafssbotn.“

Landnámabók
Svo segja vitrir menn, að úr Noregi sé sjö dægra sigling (i) til Horns á austaverðu Íslandi; en frá Snæfellsnesi fjögra dægra sigling til Hvarfs á Grænlandi í vestri þar skemst er. (Af Húsnum ii af Noregi skal sigla jamnan til vesturs til Hvarfs á Grænlandi, og þá er siglt fur norðan Hjaltland, svo að því að allgóð sé sjávarsýn, en fyrir sunnan Færeyjar, svo að sjór er í miðjum hlíðum, en svo fyrir sunnan Ísland, að þeir hafi af fugl og hval. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er þriggja dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi í suðr. En frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er fjögra dægra haf til Svalbarða norður í Hafsbotna iii), en dægursigling er til óbygða í Grænlandi úr Kolbeinsey norðr
ii Húsum
iii þessir hafsbotnar eru fyrir austan Greipar á Grænlandi og eru aldrei íslausir

Grænlandsbyggðalýsing, svo sem Ívar Bárðarson sagði frá:
„Svo segja fróðir menn, sem fæddir eru á Grænlandi og farið hafa á milli, að frá, Staði i Noregi sje 7 dægra sigling beint í vestur til Horns á Íslandi austanverðu. En frá Snæfellsnesi, þaðan sem skemmst er til Grænlands, er 2 daga og 2 nátta sigling beint vestur. Þar eru Gunnbjarnarsker á miðri leið. Þetta var hin gamla sigling. Nú er ís kominn frá landnorður botnum svo nærri skerjum þessum, að enginn getur siglt hina gömlu leið án lífsháska, eins og hjer eptir má heyra. Frá Langanesi, sem er norðaustast á Íslandi er 2 daga og 2 nátta sigling til Svalbarða í hafsbotnum.
Þeir sem sigla vilja frá Björgýn rjettleiðis til Grænlands og fara fram hjá Íslandi, skulu sigla beint í vestur sunnan við Reykjanes, tylft sjávar sunnan við nesið. Munu þeir þá koma með þessari vestur stefnu undir hæð þá á Grænlandi sem Hvarf heitir. Einum degi áður en þeir sjá Hvarf, eiga þeir að sjá annað hátt fjall, sem Hvítserkur heitir. Milli þessara fjalla Hvarfs og Hvítserks er nes eitt, sem Herjólfsnes heitir, þar er höfn, sem heitir Sandhöfn. Er þar áfangastaður Norðmanna og kaupmanna. Ef menn sigla frá Íslandi, þá eiga menn að stefna undan Snæfellsnesi — en það er tylft sjávar vestar en Reykjanes —, skal halda beint vestur 1 dag og 1 nótt, stefna svo í suðvestur til að komast hjá ísnum við Gunnbjarnarsker, síðan 1 dag og 1 nótt til norðvesturs. Koma menn þá beint undir Hvarf á Grænlandi, þar sem Herjólfsnes liggur hjá og Sandhöfn.

Bækur Gissurar Biskups.
CCCXIV. Forsögn um stefnu til Grænlands án efa frá þessum tím (c.1540) sem er svo látandi: Þetta er réttur kúrs til Grænlands sem vorir forfeður í sínum bókum hafa uppskrifað. In primis frá Staðsmúla rétt komið vestur og svo fær þú rétt upp á Vatnsnes á Grænlandi og þar er straumur minnstur og þar er hann frír fyrir öllum svelg og hvalgrindum því þeir eru uppá norðurbyggðum þá skal hann hafa tvo parta til írlands og hinn þriðja parts til Íslands ef það er svo að veðrið er klárt og góð sjávarsýn , kúrsinn rétt í vestur svo sér Snæfellsjökull í norðaustur frá Íslandi og Hvítserk á Grænlandi í norðvestur. Bls 434

CCCXXXVII. Skrá um siglingastefnur bls. 1612 hljóðar svo: Af herlu til Hjaltlands vestur vart. Af Hjaltlandi til Færeyja vestur til norðurs. Af Færeyjum til austur Horns vestnorðvestur, Af Horni til Langanes norð austur seu melius. Af Færeyjum til Langanes norð norð vestur. Af Grímsey! til Siglunes aust suðaustur Af Siglunesi til Málmeyjar, tak til vara hvað straumur eða vind kann forsetja. Svo segja vitrir menn að úr Noregi frá Stað sé sjög dægra sigling í vestur til eystra Horns á Íslandi austanverðu. En frá Snæfellsnesi þar skemst er til Grænlands iiii (fjögra) daga haf í vestur að sigla. En sagt er að ef siglt er frá beren í rétt vestur til Hvarfsins á Grænlandi að þá muni siglt vera Xii (vikum) sjós fyrir sunnan Ísland. Hafa vitrir menn sagt að suðvestur skal sigla til Nýjalands undan Krísuvíkurbjargi
Bls. 436

Ferðir Siglingar og Samgöngur.
„Snorri Sturluson segir frá því að Þórarinn Nefjólfsson hafði fengið svo mikið hraðbyri, er hann fór til Íslands 1024 að hann hafi siglt á átta dægrum frá Mæri í Noregi til þess að hann tók Eyrar á Íslandi. Sé það rétt hefur Þórarinn siglt rúmar átta mílur í vökunni að jafnaði: hafa góð seglskip haft svo mikinn hraða, en venjulega hafa skipin farið helmingi hægar eða minna“ Ferðir, siglingar, samgöngur. “

Í Diplomatarium Islandicum = Íslenzkt fornbréfasafn (3. b. (1269-1415) bls. 17. Nefnist 10da bréf safnsins Tylftartal umhverfis Ísland. Í formála segir:
“Tylftartal þetta er til í mörgum afskriptum og er áðr prentað í Dr. Kálund Bigr. Til en hist.-topogr. Beskr. Af Island II, 373-75, og lætr hann þá skoðun uppi, að þessi skrá kunni að stafa að einhverju leyti frá söfnun Hauks lögmanns Erlendssonar, og það tel ég ekkert efamál að þetta er mjög fornt, þótt óvíst sé að árfæra. En tylftatalið árfæri ég því hér til (ársins) 1312 að það er alveg af sama tagi og fjarðartalið og að sínu leyti mjög svipað skattbænda skránni frá 1312 (Dip.II, 205), svo að vel má vera að þetta stafi að einhverju frá sama fróðleikssafnara. Að öðru leyti verðr þetta að eiga sig, og getr hver haft um það þá skoðun, er honum sýnist, og má vera að þetta sé enn eldra, en hér er sett.”:

Tylftartal A: AM. 194. 8vo bl. 27b skb. C. 1380; AM. 281. 4to bls. 189 á pappír c. 1680
“Ór Noregi frá Stadi er um IIII (4) dægra sigling til Færeyja enn þaðan þrigja (3) til Íslands I austfjordu til Horns,
Svo er sagt að að umhverfis sé 7 dægra sigling í hröðum byr og skiptir svo sem þarf, því að eigi má eitt veður hafa. (Nikulás ábóti 1159)
Dægur (1sta) sigling frá Horni til Hjörleifshöfda, önnur (2ur) til Reykianes, þridja (3ja) til Bardz (Látrabjarg), fjorda (4ða) til Horns hins vestra, fimta (5ta) til Skaga, seta (6ta) til Langanes, sjaunda (7nd) til Horns.“  Um endilangt Ísland ero taldar XX (20) dagleiðir á sumars degi, en um IIII (4) um þvert. Sjö dægra sigling er frá Islandi til Noregs miðs,…”
Athugasemdir endurritata.: og eru 2 tylftir í í dægursiglingu. 14 tylftir hafa nokkrir reiknað umhverfis Ísland réttleiðis að sigla fyrir hvert nes.

Tylftartal B.:
I.Frá Horni fyrir austan er kölluð tylft sjávar og til vestmanneyja
II á Reykjanes,
III á Snæfellsnes,
IIII á Barð, (Látrabjarg)
V. Á Hornstrandir,
VI. Á Vatnsnes,
VII: á Skaga,
VIII. Siglunes,
IX. Látr,
X á Tjörnes (Tiðrnes)
XI á Langanes,
XII austur undir Horn í Norðfirði.

Tylftartal C. :
frá Horni í Hornafirði í Ingólfshöfða í Öræfum XII vikur sjávar
Frá Ingólfshöfða til Hjörleifshöfða á milli Álftavers og Mýrdals XII vikur
Frá Hjörleifshöfða og í Þrjórsá XII vikur
Frá Þjórsá að Dýptarsteini (Eldey) á Reykjanesi XII vikur
Frá Dýptarsteini og að Ondverðarnesi undir Snæfellijökli XII vikur
Frá Ondverðarnesi og að Straumnesi (Látrabjargi) fyrir norðan Rauðasand XII vikur
Frá Straumnesi (Látrabjargi) og á Hornstrandir XII vikur
FRá Hornströndum og á Vatnsnes XII vikur
Frá Vatnsnesi og undir Úlfsdalafjöll (Siglunes) XII vikur
Frá Úlfsdalafjöllum (Siglunesi) og á Langanes XII vikur
Frá Langanesi og á Horn í Norðfirði XII vikur
Frá Horni í Norðfirði og til Hornafjarðar XII vikur og þá er farið um kring.

Þessi tylftartöl eru ausýnilega samantekt einhverra siglingakappa sem fóru í kringum landið, einungis í þeim tilgangi að mæla tímann sem það tók að sigla hringinn. Hverjir eða hvenær það var eru engar sagnir. Það er einnig athyglisvert að sigling á dægrinu, 12 stunda sigling (vaktinni?) var mislöng og dregur vel fram að aðstæður (vindur og straumar) voru mishagstæðar og þar af leiðandi farin vegalengd mislöng eins og sést á töflunni hér að neðan.

D:
Svo segja vitrir menn að úr Noregi frá Stað sé VII dægra sigling til Horns á austanverðu Íslandi.
en frá Snæfellsnesi III dægra sigling til hvarfsins á Grænlandi
Af Noregi skal jafnan sigla í vestur til Hvarfs í Grænlandi og þá er siglt fyrir norðan Hjaltlands því
aðeins að allgóð sé sjávarsýn, en fyrir sunnan Færeyjar svo að sjór er í miðjum hlíðum en svo fyrir sunnan Ísland að hafa af fugl og hval.
Frá Reykjanesi á sunnaverðu Íslandi er þriggja dægra haf til jölduhlaups á Írlandi suður, en frá langanesi á norðanverðu Íslandi er IIII haf til Svalbarða norður í hafsbotn. Enn dægur sigling er frá kolbeinsey til Grænlands óbyggða
Þessi athugasemd fylgir í handritinu; þennan gamlan íslenskan útreikning 96 vikur undan Snæfellsjökli og til Hvarfsins á Grænlandi (!), þó Eiríksstefna sé miklu styttri, en uppa hvarfið að sigla er óhættast líka að héðan sem úr Noregi að utan vegna ókunnugleika að halda styðst nær Eiríksstefnu“

Önnur dæmi um fjarlægðir í fornum ritum:
Sagt er að Kolbeinsey liggi tólf vikur sjávar í norður frá Grímsey, og átján vikur sjávar frá Eyjafjarðar mynni.
Ólafseyjar hálfa aðra viku sjávar undan Reykjanesi Grettis saga Ásmundssonar
Frá Reykjum er styst í eyjuna (Drangey) vika sjávar

Fornarmælingar til sjós. allt

Print Friendly, PDF & Email

Lokað er fyrir athugasemdir.