Víkingaskip-Leiðartækni

Sigurbjörn Svavarsson


Siglingaafrek víkinga hafa lengi verið dáð, siglingahæfni skipana og siglingakunnátta víkinganna sem birtist í sögum frá þessum tíma um hvert þeir sigldu og námu lönd staðfesta það. Á víkingatímabilinu 800-1000 e.k. höfðu engar aðrar Evrópuþjóðir viðlíka skip svo vitað sé. Margar samtímaheimildir staðfesta hvert þeir sigldu í útrás sinni. Fyrstu heimildir eru um ránsferðir þeirra á mið England… síðan víðar um Bretlandseyjar, Írland, Frakkland, Spán, Portúgal, austur fyrir botn Eystrasaltsins og niður ár A-Evrópu. Síðar á tímabilinu virðist útrás þeirra borið keim af landnámi og verslunarferðum. Víkingar setjast að á Bretlandseyjum og Írlandi, Frakklandi, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi, Vínlandi svo og víða um A-Evrópu (Rússlands m.a.). Fornleifar sýna að verslunarferðir þeirra hafa náð til Miðjarðarhafslanda og Svarthafs.

SIGLINGATÆKI .
Hvaða verkfæri höfðu stýrimenn víkingaskipa til að vita hvert stefnt var þegar ekki sást til lands svo dögum skipti? Frásagnir gefa okkur engar skýrar vísbendingar um það. En allar frásagnir frá þessum tíma um skip geta jafnframt um áttvísi, um hvert stefnt var, „haldið í vestur“ og svo framvegis. Hvernig stýrimenn vissu í hvaða átt áfangastaður var frá brottfarastað, með engin sjókort. Slíkt byggðist á fyrri reynslu eða leiðbeiningum þeirra sem áður höfðu farið þá leið. Eitt er víst að til að halda ætlaða stefnu skips í hafi, án landsýnar, í öllum veðrum og skyggni, þurfti að vera til staðar vitneskja um tímamælingu og áttvísi. Í Landnámabók eru gefnar nokkrar siglingaleiðir:

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi sé sjö dægra sigling (i) til Horns á austaverðu Íslandi; en frá Snæfellsnesi fjögra dægra sigling til Hvarfs á Grænlandi í vestri þar skemst er. (Af Húsnum ii af Noregi skal sigla jafnan til vesturs til Hvarfs á Grænlandi, og þá er siglt fyrir norðan Hjaltland, svo að því að allgóð sé sjávarsýn, en fyrir sunnan Færeyjar, svo að sjór er í miðjum hlíðum, en svo fyrir sunnan Ísland, að þeir hafi af fugl og hval. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er þriggja dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi í suðr. En frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er fjögra dægra haf til Svalbarða norður í Hafsbotna iii), en dægursigling er til óbyggða í Grænlandi úr Kolbeinsey norðr.“ –ii Húsum. iii þessir hafsbotnar eru fyrir austan Greipar á Grænlandi og eru aldrei íslausir

Af þessum lýsingum má sjá að megin upplýsingarnar eru um áttir sem stefnt skuli í og tíminn (dægur, sjá http://www.svavarsson.is/fornar-islenskar-maelieiningar-til-sjos/) sem taki að sigla frá brottfararstað til áfangastaðar.

En til þess að halda þeirri stefnu þegar á haf var komið, með enga landsýn og oft í óvissu skyggni á nóttu sem degi, er víst að einhver verkfæri voru notuð. Nærtækast er að ætla að þeir hafi notast við segulsvið jarðar og einnig sól og stjörnum þegar þeirra naut við vegna skyggnis.

Tilgátur hafa verið uppi um svokallaðan “Sólarsteinn” , „Sólskífu“ hafi nýst stýrimanni til að sjá stefnu skips í skýjuð himni.  (Hafa verður í huga að einungis var siglt á sumrin og ekki að nóttu til nema á lengri leiðum.) Á björtum næturhimni í úthafi þegar hallaði sumri, hafa þeir haft viðmið  af Pólstjörnunni, sem alltaf var á sínum stað í hánorðri þrátt fyrir jarðarsnúninginn, en á skýjaðri nóttu var hún ekki leiðarstjarna. Einnig hafa verðið nefndur svokallaður „Leiðarsteinn“, segulmagnaður steinn sem sýndi stefnu á segulnorður. Um þessar kenningar verður fjallað um hér að neðan.

Hvaða siglingatæki höfðu víkingar?
Það er næstum ómögulegt að ímynda sér hvernig víkingum, tókst að sigla yfir Atlantshafið í öllum veðrum án einhverja hjálpartækja eða tækni til að rata. Þó fyrir liggi nokkrar vísanir frá víkingatímanum um hvað gæti hafa verið notað við siglingar, er ekki fyrir hendi full vissa um hvernig þeir fóru að. Engar beinar sannanir eru fyrir tilteknum siglingatækjum né hvernig þau voru notuð.

Rannsóknir á efni og tækni hugsanlegra hjálpartækja sem víkingarnir kunni að hafa notað til siglinga hafa farið fram en allt er byggt á kenningum. Víkingarnir virðist hafa haft tæki eða tækni til að mæla eftirfarandi til að komast leiðar sinnar þegar ekki var landsýn: Stefnu, hraða (tíma) og hnattbreidd (sólarhæð).

Hver sjómaður þarf að vita þegar hann nálgast land hve djúpt er undir kili, gegnum aldirnar hafa sjófarendur notað sökku og reipi til að finna dýpið. Slíkar sökkur hafa fundist frá víkingatímanum. En þegar ekki sást til lands, en þeir töldu sig vita að það væri ekki svo fjarri sökum skýja eða þoku,höfðu þeir fugla um borð í búrum, gjarnan hrafna sem ekki gátu sest á sjó og hleyptu þeim út. Ef land var ekki fjarri tók fuglinn stefnu strax á land, ef fuglinn skynjaði ekki land kom hann aftur á skipið segja sögur.

Staða sólar á himni, þ.e. hæð og stund dags, gaf upplýsingar um tíma dags og  stefnu skips miðað við stöðu sólar og því var sólin helsta viðmiðið til siglinga til forna. Danski fornleifafræðingurinn Thorkild Ramskou kom fram 1967 með kenningu um notkun „sólarsteins“, náttúrulegur kristall sem gæti staðsett sólina í skýjuðum himni svo hægt væri að sjá ris og set hennar eftir árstíðum og þannig hægt að sjá stefnuátt hennar. Þessi aðferð byggir á því að kristall eins og Silfurberg hefur þá eiginleika að draga ljós saman í einn brennipunt þaðan sem mesta ljósið er, þannig hafi stýrimenn vitað í hvaða átt sólin var miðað við þá stefnu sem þeir ætluðu.

Þessi kenning hafði áður komið fram og gaf Kristjáni Eldjárn til efni til að skoða þá kenningu 1956:
“Þess er getið í máldögum kirknanna í Saurbæ í Eyjafirði, Haukadal, Hofi í Öræfum, Reykholti, Hrafngili og Reynistaðarklaustri, að þær ættu sólarstein. Elsti máldaginn er frá 1313. hinn yngsti frá 1408 Þessir kirkjugripir minna á, að Guðmundur biskup Arason gaf Hrafni Sveinbjarnarsyni sólarstein, þegar þeir komu frá vígslu Guðmundar 1203. Þeim stein rændu þeir Þorvaldur Vatnsfirðingur eftir dráp Hrafns 1213, en þeir köstuðu honum í brott af því að þeir sáu ekki mun á honum og venjulegum fjörusteini sakir vonsku sjálfri sín og heilagleiks Gvendar góða. Einhver spurði mig nýlega, hvað þessir sólsteinar hefðu verið, og varð mér ógreitt um svar, því að mikil óvissa hefur ríkt um þetta. En þá vildi svo til, að Peter G Foote, háskólakennari í Lundúnum, sendi mér grein, er hann hefur nýlega birt um sólarstein miðalda. Ég leyfi mér nú að svara spurningunni með stuttum úrdrætti úr þessari grein. Í einu miðaldariti er lýst notkun sólarsteins. Það er í Rauðs þætti, sem skotið er inn í Ólafs sögu helga hina meiri: „Veður var þykkt og drífandi, sem Sigurður hafði sagt. Þá lét konungur kalla til sín Sigurð og Dag. Síðan lét konungur sjá út, og sá hvergi himin skýlausan. Þá bað hann Sigurð segja, hvar sól mundi þá komin. Hann kvað glöggt á. Þá lét konungur taka sólarstein og hélt upp, og sá hann hvar geislaði úr steininum, og markaði svo beint til sem Sigurður hafði sagt“. Höfundur þessarar frásagnar hugsar sér sólarsteininn til þess að ákvarða stöðu sólar, þegar loft er þykkt. Þetta er þó að einhverjum misskilningi sprottið, því að slíkt er ekki hægt með neinum steini. Sama er að segja um skýringu þeirra fræðimanna sem talið hafa sólarstein sama og leiðarstein, segulstein. Ekkert í heimildum bendir til þess, og torvelt er að sjá, hvað kirkjum skyldi slíkir gripir þá hafa sumir talið, að sólarsteinn væri sólskífa (solarium), og er sú skýring betri en hinar að því leyti, að ekki var óþekkt, að kirkjur miðalda ættu sólskífur, en annars er ekkert, sem styður þessa skýringu. Það virðist augljóst, að sólarsteinar hafi verið gæddir einhverri þeirri náttúru, sem gert gat þá að einhverskonar kirkjulegum helgigripum. PETER G. FOOTE hyggur, að sólarsteinn miðaldanna hafi verið eins konar brennigler, þó ekki úr gleri, heldur einhverjum hálfvölum steini, bergkrystalli eða ef til vill berýl (af hans nafni er dregið orðið brillur: gleraugu, og sýnir það, að mönnum var snemma kunnugt, að hlutir stækkuðu, ef horft var á þá gegnum slípaða steina af þessari tegund). Grikkjum og Rómverjum hinum fornu var vel kunnugt, að hægt var að kveikja eld með því að láta sólargeisla falla gengum kristalskúlu eða glerkúlu fulla af vatni. Þessa þekkingu tóku miðaldir að arfi. Sólarsteinarnir íslensku munu hafa verið slípaðir kristalskúlur til að kveikja með eld. í lok kyrru vikunnar, með komu páskadags, var kveiktur nýr eldur í kirkjunum. Þetta var veiga mikið atriði í helgisiðum páskanna. Dæmi finnast þess, að ætlast væri til, að hinn nýi eldur væri kveiktur á þennan hátt. Slíkt var þó ekki hægt nema sólar nyti, svo að oft hefur verið kveikt á venjulegan hátt með stáli og tinnu. Samt er trúlegast, að sólsteinarnir í íslenskum kirkjum hafi fyrst og fremst verið til þess að taka nýjan eld af sólu á kerti kirknanna á páskadag, upprisudag frelsarans. Enginn slíkur steinn hefur varðveitts, en línum þessum fylgir mynd af Guðmundi góða, sem gaf Hrafni vini sínum sólarsteininn.“ 

Siglingar fyrir víkungatímabilið.
Vitað er um siglingar margra fornþjóða. Talið er nokkur veginn öruggt, að fornaldarskip Kínverja hafi notað einhverskonar kompás til þess að sigla eftir um Kínahaf. Í kínverskri orðabók frá árinu 121 fyrir Krist er getið um segulnáttúru leiðarsteins.
Frá sjónarmiði sagnfræðinnar leikur mikill vafi á því, hvernig Fönikíumenn fóru að því að rata um höfin. Þeir voru þöglir menn. Þeir héldu þekkingu sinni í siglingafræði leyndri af ótta við samkeppni. Sagan greinir frá siglingaleiðum þeirra og mörgum löndum sem þeir heimsóttu og versluðu við. Hvernig þeir fóru að því að rata veit aftur á móti enginn neitt um og mun enginn vita þar til ef einhver fornleifafræðingur grefur eitthvað úr rústum, sem gefur um það vísbendingu. Í grískum og rómverskum ritum er víða getið um sjóferðir.

Siglingatækni eftir víkingartímann
Árið 1187 e.k skrifar munkurinn Necham um kompás, sem sjómenn noti á dimmum nóttum, þegar ekki sjáist stjörnur. Kompásinn segir hann vera vel þekkt siglingatæki. Hinn frumstæði kompás var segulmögnuð járnnál, sem haldið var á floti með flotholti í vökva, benti þá nálin í norður eða þar um bil. Járnnálina varð að segulmagna öðru hvoru. Þess vegna var „segulsteinninn“ ómissandi hlutur í öllum þeirra tíma skipum sem þekktu og notuðu kompás á annað borð. Segulstein var að finna í Magnesíuhéraði á Eyjahafsströnd Grikklands. Kompás sá sem Necham munkur skrifar um var nál, sem snerist á standi og benti í átt, sem var talin vera landfræðilegt norður þá.
Á 13. öld fundu Evrópumenn upp á því að láta nálina snúast á standi í þurri skál. Ekki er kunnugt um hver fann upp kompásrósina, sem skrift var í 32 áttastrik. (Norðurstrik rósarinnar, Liljan (Fleur-de-lis), er notuð enn í dag. Rósin var mjög mikilvægt spor í þróun segulkompássins. Ítölum er eignaður heiðurinn af því að tengja nálina við rósina. Flæmingjar fóru næstir að dæmi þeirra. Þannig er sá segulkompás í stórum dráttum, sem nú er í notkun. Allar frekari framfarir, sem síðan hafa orðið á segulkompásnum, hafa einkum miðað að aukinni þekkingu á segulmisvísun á einstökum svæðum og nýta með meiri nákvæmni. Á 14. og 15. öld var kompásinn nánast eins og hann er í dag.

Í rústum 11 aldar klausturs í Grænlandi, í eldri lögum undir klausturrústunum, fannst við uppgröft 1948 leifar af nokkurskonar átta eða stundarskífa, þekkt sem Uunartoq diskurinn—. Skiptar skoðanir eru um notagildi þessarar skífu, en nokkuð margir telja þetta einskonar verkfæri til siglingarleiðsagnar. Þó að aðeins helmingur disksins hafi fundist má sjá að hann hefur verið um 7 cm í þvermál. Engir sólsteinar hafa fundist í tengslum við skífuna, en sagnir um hvorutveggja eru nefndar í rituðum heimildum. Leif Karlsson telur sig hafa sýnt fram á gagnsemi sólarsteins og sólarkompáss 1984. Samkvæmt tilraunum hans var nákvæmni þess ± 5° VIKING NAVIGATION USING THE SUNSTONE, POLARIZED LIGHT AND THE HORIZON BOARD by Leif K. Karlsen.

Vebæk lýsti þessum hlut sem óþekktum í grein sinni um fornleifarannsóknir sínar á Grænlandi í The Illustrated London News (Vebæk 1952). Skífan í greininni vakti athygli dansks kompássframleiðanda og siglingasagnfræðings, Kapteins Carl V. Sølver, sem taldi að skífan væri hluti af sólarkompáss (Sølver 1953; 1954). Almennt er talið að segulkompáss (leiðarsteinn = segull) hafi ekki verið þekktur í Norður Evrópu þar til eftir víkingatímann (KLNM 12, 260), og tilgáta um fund slíks sólarkompáss í fjarlægu Grænlandi sýndist leysa gátuna um týnda þekkingu í siglingatækni víkinganna: hvernig þeir gátu siglt yfir Atlantshafið án allra þekktra siglingaáhalda. Tilgáta Sølvers varð vinsæl, og var kynnt sem staðreynd í virtum verkum (KLNM 12, 261; Graham-Campbell et al. 1994, 80-81). Einnig var hún kynnt á sýningarspjöldum Víkingaskipasafnsins í Osló. Nýlega hefur þó þessi kenning um notkun skífunnar verið vefengd (Seaver 2000, 274).
Eötvös Loránd í Háskóla Ungverjalands hefur rannsakað þessa skífu nánar. Þeir telja að skífan hafi ekki verið notuð ein og sér heldur notuð með öðrum verkfærum til siglingaleiðsagnar, eins og tveim sólarsteinum til að ákveða stöðu sólar í skýjuðum himni.
“Jafnvel þó sólin sé lágt á lofti getur skuggi fallið á borðið (sólskífuna), slíkt var algengt á norðurslóðum,” segir annar meðrannsakandinn Balázs Bernáth. Bernáth og félagar, telja að til að finna stöðu sólarinnar hafi verið notaðir sólsteinar. Þegar þeim var haldið uppi í átt að mestri birtu má sjá geislakast í steininum í þeirri átt sem sólstaðan var, jafnvel þó sól væri neðan sjónarhringsins. Rannsakendurnir hafa með tilraunum sýnt fram á að nákvæmni þessarar aðferðar, til að finna stöðu sólar með notkun sólskífunnar og getað haldið ætlaðri stefnu var innan 4 gráðu skekkju. Hópurinn áætlar að þessi aðferð hafi dugað til að finna sólarátt um tæpa klukkustund eftir sólarlag um jafndægur að vori.

Tilgáta er einnig um að Uunartoq-skífan sé einskonar atburðatal, skriftarskífa, tæki til að telja ákveðna kirkjuþjónustu. Þessi tilgáta er svo sem ekki endanleg, því lítið er vitað um notkun og uppruna slíkra skífa, en passar við slíkar frá sautjándu og átjándu öld. Í þjóðminjasafni Íslands eru til margar skriftarskífur sem eru svipaðir í lögun og gerð, sem allar hafa komið frá kirkjum kringum landið. Skífurnar voru notaðar af prestum til að telja hve margir höfðu tekið skriftir. Aðalatriðið er að vita hvort skriftarskífa var notuð í norrænum löndum í kaþólskri tíð miðalda, eða hvort hún kom til í lúterskri tíð. Endanleg niðurstaða um hvert notkunargildi Uunartoq skífunnar hafi verið er ekki endalega ákveðin.

Hraði, er jafnt og vegalengd deild með tíma.
Þrátt fyrir margar kenningar um hvaða tæki víkingar notuðu til siglinga, hefur ekkert verið talið óyggjandi. En hverjar eru staðreyndir um siglingu þeirra á milli landa? Þeir sigldu eftir áttum, þeir vissu hvert þeir ætluðu og settu stefnu samkvæmt því. Þeir vissu um vegalengdir að áfangastað. Í Íslendingasögunum er mörg dæmi nefnd um siglingatíma milli landa, þar er hann þó fyrst og fremst talinn í dægrum. En dægur, tólf stunda sigling, var notuð um vegarlengdar/fjarlægð á sjó á þessum tíma. Það er líka staðreynd að vegalengdir voru líka mældar í svonefndum „Vikum sjávar“ og „Tylftum sjávar.“
Hvernig héldu þeir stefnu skips yfir úthaf dögum saman?
Hvernig mældu þeir fjarlægðir?
Til að svara þessum spurningum þurfum við að nefna nokkur atriði sem höfðu áhrif og gerði þeim kleyft að fara í langsiglingar milli landa.

VEÐURFAR Á NORRÆNUM SLÓÐUM Á VÍKINGATÍMANUM
Hitastig á norðurhveli var hærra á 10 öld en á síðustu öldum og veður fyrir siglingar yfir Norður Atlantshafið voru hagstæðar að því leytinu að miklir stormar eins og við þekkjum þá nú voru sjaldgæfari og við Grænland var rekís ekki til að hindra siglingar frá Íslandi þangað né við vesturströnd Grænlands til Vínlands. Siglingaleiðin til Grænlands lá nærri að fylgja 61°N breidd (cf. Søren Thirslund’s article) The Nautical Part.
Ríkjandi vindátt frá Noregi var vestlæg og nærri Íslandi blés gjarnan frá suðri, síðan í vestur vestan við Ísland og jafnvel nærri Grænlandi blés úr norðvestri. Auðvitað blés úr öllum áttum, en þetta er talið hafa verið ríkjandi áttir að sumri. Skýjafar var minna þá en í dag og því heppilegra fyrir notkun sólarkompáss að sögn Søren Thirslund og því hægt að leiðrétta skekkjur í þeirra tíma áttavísi.

Í fornsögunum er oft nefndar áttir, en einungis höfuðáttirnar í frásögnum um siglingar. Til að skipstjórnandi geti stefnt í tiltekna átt, t.d. í vestur, þarf hann að hafa einhverskonar áttavita til að geta haldið stefnunni. Það er ekki nægilegt að sjá til sólar því hún gengur yfir himininn eftir því er líður á daginn. Að sumri voru siglingar farnar, á hásumri þá sást sól á lofti næstum allan sólarhringinn. Byr gat breyst yfir daginn og seglum hagað eftir því, það reyndi enn meira á að stýrimaður að héldi réttri stefnu á áfangastað.

Leiðarsteinn var þekktur og m.a. getið í Hauksbók, en Abrahamsen (1985) hefur sýnt fram á að áttavísir var notaður í Danmörku snemma á 12 öld og Scheen (1972) heldur því fram að norðmenn notuðu leiðarsteinn árið 868 í ferð til Íslands. Í Danmörku var misvísun segulpóls árið 1000 um 27° austur og var töluvert meiri norðar svo að það var alveg nauðsynlegt að sjá til sólar til að leiðrétta stefnuna með sólaráttavísinum.

Líklegt er að stýrimaður á víkingatímanum hafi haft viðmið af seguláttum með leiðarsteini ásamt tímamæling í sólargangi (dægur) til að halda stefnu að áfangastað.

Print Friendly, PDF & Email