Af hverju þarf að breyta kvótakerfinu?

Markmiðið með kvótakerfinu.

Í núverandi lögum um stjórn fiskveiða segir um markmið laganna:
1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Markmið laganna er skýrt en spyrja verður hvort heimildir í lögunum til tilfærslu aflaheimilda, sem skapa átti hagkvæmni og hagræðingu, hafi í raun farið úr böndunum og komið niður á markmiðinu um trausta atvinnu og byggð í landinu?

Kvótaleiga.

Nokkuð víðtæk samstaða er um að þjóðin eigi og fái notið arðs af nýtingu sjávarauðlindarinnar en ekki eingöngu útgerðirnar. Fram til þessa hafa handhafar kvótans ekki aðeins notið arðsins í rekstri sínum heldur hafa margir fénýtt hann með leigu til kvótaminni útgerða. Ennfremur hafa margir horfið úr greininni og hagnast gífurlega með sölu varanlegs kvóta til annara útgerða.

Undanfarin áratug hafa kvótalausar útgerðir leigt á bilinu 25-50% af þorsk-, ýsu- og ufsakvótanum sem leigður hefur verið út á hverju ári í kvótakerfinu.1) Kvótaleiga til kvótalítilla útgerða á árunum 2003-2010 nam samtals á þessum átta árum 32 milljörðum.

Kvótaleiga hefur myndað stóran hóp leiguliða en um þriðjungur skipa í kvótakerfinu hefur lítinn sem engan kvóta og eiga allt undir kvótameiri útgerðum um afkomu sína. Það hefur valdið því m.a. að sjómenn á kvótalitlum skipum hafa verið á mun lakari kjörum en aðrir sjómenn. Útgerðir með nægan kvóta hafa nýtt sér þessar aðstæður og látið kvótalítil skip fiska upp í aflaheimildir sínar fyrir lægra fiskverð en þær þyrftu að greiða til eigin skipa.

Samþjöppun kvótans og kvótasala.

Mikil fækkun útgerða hefur átt sér stað á síðustu tveimur áratugum. Árið 1991 voru 1.093 útgerðaraðilar með kvóta í þorski en árið 2010 voru þeir komnir niður í 156 útgerðir í kvótakerfinu og 196 útgerðir í smábátakerfinu1) og hafði því fækkað um 740 útgerðir samtals. Samhliða hefur orðið mikil samþjöppun á aflaheimildum. Á fiskveiðiárinu 2009/2010 nam úthlutun aflaheimilda 362.000 þorskígildum til 321 útgerða. Þar af nam úthlutun þeirra 18 kvótahæstu 72,2% af heildarkvótanum.

Samkvæmt upplýsingum heimilda1) voru miklar hreyfingar á aflahlutdeildum á árunum 2003 til 2010. Hreyfingar vegna kaupa á aflahlutdeild milli óskyldra útgerða námu 40 % af úthlutuðum kvóta á þessu tímabili. Á sama tíma hækkaði verð á aflahlutdeild í mikilli verðbólu um nærri 400%.

Mikil verðmæti hafa skipt um hendur í viðskiptum um aflahlutdeild (varanlegar heimildir) Upplýsingar um verð og magn aflahlutdeildar 1) á árunum 2003-2010 sýnir að verðmæti þessara viðskipta námu um 267 milljörðum.

Krafa um breytingar.

Stjórnvöld ákváðu að heimila framsal kvóta innan fiskveiðiársins og svo varanlegra heimilda á milli útgerða til að ná fram hagræðingu af því að laga stærð fiskiskipaflotans að leyfðum afla. Gagnstætt markmiðum laga um stjórn fiskveiða hefur hagræðingin sem ná átti með framsali (leigu og sölu kvóta) búið til hálfgert lénsskipulag í leigu á kvóta og kippt mikilvægum stoðum undan atvinnulífi margra sjávarbyggða með tilheyrandi atvinnumissi og fólksflótta. Þessar afleiðingar kvótakerfsins svokallaða hafa ýtt undir sterka kröfu almennings um uppstokkun á kerfinu .

Þær breytingar sem núverandi stjórnvöld ákváðu að hrinda í framkvæmd, hafa ekki náð fram, þ.e. svonefnd fyrningarleið, enda var hún ekki raunhæf. Ef tryggja á heilbrigðan sjávarútveg verður að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að kerfið losni úr fjötrum lénskerfis, ofurskuldsetningar aflaheimilda og snúi við hnignun sjávarbyggða.

Kerfisbreyting.

Til að breyta kerfinu þarf að afnema aflahlutdeildarkerfið sem hefur verið nokkurskonar trygging fyrir framtíðarafnotum en taka í þess stað upp nýtingasamninga milli stjórnvalda og útgerða sem greitt verði nýtingargjald fyrir. Samhliða því að ríkið taki til sín allar heimildir verður það einnig að taka til sín skuldsettar aflaheimildir m.a. til að tryggja jafnræði milli þeirra sem hafa mjög skuldsettar aflaheimildir vegna kvótakaupa og þeirra sem fengu þær endurgjaldslaust. Þau lán greiðast niður af framtíðarnýtingargjaldi.

Það sem fæst við þessa breytingu er skýr eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni, meira jafnræði milli útgerða með nýtingarsamningum og afnám kvótaleigunnar. Við útfærslu á þessu kerfi verður að taka mið af núverandi aðstæðum í atvinnugreininni.

Til að snúa við hnignum sjávarbyggðanna verður að færa þeim aftur réttinn til sjósóknar sem hefur verið forsenda tilveru þeirra síðustu 100 árin. Tryggja verður að nýtingargjald sem til verður á svæðunum skili sér til viðkomandi sveitafélaga sem einskonar aðstöðugjald. Útgerð smábáta á að efla á þessum svæðum og binda þann rétt við búsetu. Þannig fæst drifkraftur í sjávarbyggðirnar aftur og húsnæði og framleiðsluhús sem nú eru ónýtt víða um land komast aftur í nýtingu og fá verðgildi að nýju.

1) Skilvirkni markaða fyrir aflaheimildir – Hagfræðistofnun
hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/C…/C10_04.pdf

2) Starfsskýrsla_2010. Fiskistofa

 

Print Friendly, PDF & Email