Ný hugsun-nýir straumar.

Þurfum við að breyta?

Sagan sýnir okkur að upp úr hnignun og kreppum samfélaga rís ávallt ný framtíðarsýn og skapandi kraftur sem endurnýjar samfélagið á öllum sviðum. Ástæðan fyrir hnignun samfélaga er oft sú sama, stöðnuð og úrelt hugmyndafræði sem í upphafi var ný og skapandi hugsun en í tímans rás lagaði sig ekki þeim breytingum sem urðu á samfélaginu.

Þetta birtist okkur íslendingum glöggt í kreppunni sem nú herjar, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan hinn vestræna heim. Úr rústum heimstyrjaldarinnar reis ný heimsýn, ný hugsun, endalok nýlendustefnunnar lauk með sjálfstæði undirokaðra þjóða. Aukin viðskipti milli þjóða, stórauknir flutningar, aukin samkeppni, alþjóðlegt peningakerfi. Ný tækni kom fram á öllum sviðum sem leiddi m.a. til kapphlaups milli þjóða um lífsgæði og vopnaframleiðslu. Síðan hafa vesturlönd náð bestu lífkjörum á jörðinni og við teljum jafnvel að batni enn.

 Endimörk vaxtarins?

Nú í upphafi nýrrar aldar hefur komið æ betur komið í ljós að hagvöxtur vesturlanda síðustu áratugi hefur að miklu leyti byggst á fullnýtingu og jafnvel ofnýtingu eigin náttúruauðlinda sem og þróunarlanda. Vísindin benda okkur á að olían sem knýr allar samgöngur á jörðunni muni kannski duga í eina öld. Kapphlaupið heldur engu að síður áfram. Vaxandi stórveldi, Indland og Kína sem hagnast hafa á framleiðslu fyrir vesturlönd í áratugi eru nú að auka lífsgæði sinna eigin þegna og komin í samkeppni við vesturlönd um náttúruauðlindir hvar sem eru í heiminum sem endurspeglast í stöðugri verðhækkun allra hráefna.

Yfirburðir vesturlanda duga ekki í þessari samkeppni, hagvöxtur þeirra hefur minnkað og þau aukið skuldasöfnun til að halda stöðu sinni og lífkjörum. Þetta sést skýrt í kreppu evruríkjanna sem er tilkomin vegna skuldasöfnunar fátækari ríkjanna innan sambandsins til að ná lífsgæðum ríkjanna í norðri.

Gífurleg skuldasöfnun Bandaríkjanna m.a. vegna vopnaframleiðslu og eyðslu til að viðhalda stöðu sinni sem stórveldi er mikið hættumerki. Vegna stöðu dollarsins hefur enn ekki komið að skuldardögum. Fjármagnið hefur verið drifaflið í þessari efnahagsþróun og hefur nú náð slíku pólitísku afli að kjörnir valdhafar vesturlanda kjósa að verja hagmuni þess umfram atvinnu og lífgæði þegna sinna. Allt þetta er ekki  tímabundnir efnahagsörðugleikar heldur augljós merki stöðnunar og jafnvel hnignunar.

Tregðan og endurmat.

Ráðandi öfl  viðhalda og verja regluverk samfélagsins og bregðast seint við breytingum, hvorki utanað eða innanúr samfélaginu. Tregðan við breytingar er innbyggð í stjórnkerfið en engu að síður ráða viðbrögð þeirra því hvort samfélagið finnur leiðir til að viðhalda lífkjörum sínum á vistvænni hátt en hingað til. Umræðan mun snúast um það á næstu árum.

Óhjákvæmulegar breytingar eru framundan og þeim fylgja pólitísk átök um stefnur og átök við ríkjandi hagsmuni um ný gildi og nýja hugsun, nýja nálgun til lausna á sameiginlegum vandamálum. Mörg þeirra verða flókin úrlausnar og því nauðsyn að fjölmiðlar rísi uppúr meðalmennskunni og verði raunverulega það afla sem almenningur geti treyst til að fjalla um málefnin án hlutdrægni og á gagnrýnan hátt. Hlutverk þeirra í lýðræðinu verður ekki ofmetið. Efnahagslegar breytingar, félagslegur jöfnuður og umhverfismál verða megin viðfangsefni stjórnmálanna fram á næst áratug.

Ný stefna til úrlausna í viðfangsefnum stjórnmálanna á ekki að byggjast á ímynduðum „vinstri“ eða „hægri“ stefnu heldur út frá gildum sem þjóðfélagið vill standa fyrir.

Hvað á að ráða?

Við eigum að hafa í huga að einstaklingurinn og fjölskyldan er kjarni samfélagsins og ef það á að standa sterkt verður það að hvíla á þeim gildum sem einstaklingar vilja sjá í eigin lífi.  Frelsi hvers manns vilja allir hafa til orðs og athafna.  Jafnrétti milli manna er jafn sjálfsagt og að draga andann. Hver maður getur verið smár og brothættur og við viljum að samfélagið hugi jafnt að öllum. Réttlæti er öllum mönnum í blóð borið og vilja að það sé í heiðri haft í öllum reglum samfélagsins og ákvörðunum valdhafa.

Þessi þrjú gildi eiga að gegnsýra allt samfélagið. Þau eiga að vera undirstaða þess og tryggja velferð allra hvers manns. Ef einhver þarf aðstoð og er ekki sinnt, er  samfélagið veikt. Þessi gildi eiga að vera hornsteinninn í lagasetningu, í framkvæmd laganna, þannig skilar það sér í siðferði samfélagsins.  Ákvörðun manna að setja samfélagi sínu skipulag og grunnreglur í stjórnarskrá ættu að byggja á þeim.– Frelsi  -Jafnrétti –Réttlæti.

„ Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ er ekki merkingarlaust máltæki og endurspeglast best í nánu samfélagi manna. Hverjum þegn er ljóst að hann verður að gefa af frelsi sínu við að gangast undir sameiginlegar skyldur og viðurkenndar reglur samfélagsins en í staðinn fær hann stuðning þess og betra líf í samvinnu með öðrum. Í lýðræði er valdið til stjórnunar veitt sameiginlega og því eiga allar stofnanir samfélagsins að vinna að því að efla það og þroska í anda þessara gilda.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslur í norrænum stjórnarskrám.

Því er gjarnan haldið fram að okkar Stjórnarskrá sé í norrænum anda og á að vera erfitt að breyta henni. En er það svo? Þegar skoðuð eru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í norrænum stjórnarskrám sést að þær eru mjög ólíkar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram sex sinnum á Íslandi.  Þrisvar sinnum á grundvelli um ályktunar meirihluta Alþingis (1908,1916 1933)um áfengisbann og þegnskylduvinnu. Tvisvar sinnum á grundvelli sambandslaganna við Danmörk (1918, 1944) og nú síðast um Icesave.  Stjórnarskráin gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í fjórum greinum;

11. gr. Ef Alþingi víkur Forseta frá þarf samþykki þjóðarinnar.

26 gr. Synjun Forseta á lögum Alþingis ber að vísa til þjóðarinnar.

79 gr. og 81.gr.  Ef Alþingi samþykkir breytingar á Stjórnarskránni og á kirkjuskipan samkv.  62 gr.

Danska  stjórnarskráin hefur skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í nokkrum greinum.  42 gr.segir að þriðjungur þingmanna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög meirihlutans og einungis þarf meirihluta atkvæða  í 30% kosningaþátttöku til að fella lögin. Líklega er þetta ástæðan fyrir meiri samvinnu um lagasetningu á danska þinginu. Þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram um fullveldisafsal í tengslum við ESB.

Norska stjórnarskráin hefur ekkert ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur en meirihluti þings getur samþykkt sérlög um slíkar atkvæðagreiðslur (eins og allstaðar)og það hefur gerst fjórum sinnum frá sjálfstæði, þar af tvisvar um áfengismann eins og á Íslandi.

Sænska stjórnarskráin  gerir ráð fyrir tvennskonar þjóðaratkvæðagreiðslum. Atkvæðagreiðsla um stjórnarskránna er bindandi.  Aðeins 10% þingmanna geta gert tillögu um breytingu á stjórnarskránni og hún fer í þjóðaratkvæðagreiðslu hljóti hún samþykki 30 % þingsins. Hún fer fram í næstu almennu kosningum og telst samþykkt ef meirihluti a.m.k. helmings kjósenda í almennum kosningum samþykkir.   Þjóðaratkvæðagreiðslur um önnur má eru einungis ráðgefandi og þarf meirihluta þingsins til að koma þeim á.

Finnska stjórnarskráin gerir einungis ráð fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem meirihlutinn samþykkir sérlög um í hverju tilviki. Aðeins tvær þjóðaratkvæðagreiðslur hafa á sér stað í Finnlandi. Önnur um áfengismál 1931 og hin 1994 um inngöngu í ESB og þær báðar ekki bindandi fyrir þingið.

Niðurstaðan af þessari skoðun að er sú að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrám norrænu ríkjanna eru ólík, hvort þær eru bindandi eða ráðgefandi, hvort meirihluti þings  eða minnihluti getur krafist þeirra, eða hvort þær eru um stjórnarskrábreytingu eða annað.  Ef þau eru ekki í stjórnarskrá fara þær sjaldnar fram.

Lægsti þröskuldurinn á breytingum eins og í Danmörk hefur mikil áhrif á lýðræðið og löggjafarvaldið. Ákvæði  42 gr. dönsku stjórnarskrárinnar  skapar grundvöll fyrir samvinnu alls þingsins og þar með möguleika á myndun minnihlutastjórnar sem verður að reiða sig á samvinnu í þinginu og því lítil hætta á stjórnarkreppu.  Þetta þurfum við að skoða.

Stjórnarskránni þarf að breyta.

Úrtöluraddir.

„Af hverju þarf að breyta stjórnarskránni þó einhverjir bankar hafi farið á hausinn? Svona er spurt í  Morgunblaðinu. Ef fólk er ekki  blint á samfélag sitt, sér það þörf á breytingum eftir það sem undan er gengið. Krafa almennings er skýr, kannanir og tveir Þjóðfundir sem blaðið gerir lítið úr, sýna það ljóslega. Sagan mun dæma þá blindu.

Sú upplausn sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins birti okkur skýrt þá galla á samfélaginu sem flokksræðið íslenska hafði skapað. Þess vegna vaknaði krafa um breytingar og ásæknar spurningar. -Hvernig breytum við þeirri siðspillingu stjórnmálanna sem byggðist á vinarvæðingu og fóstbræðralagi við hagmunaöfl í áratugi? – Hvernig komum við í veg fyrir að flokksforingjaræði tröllríði íslenskum stjórnmálunum ?  Er hægt að koma í veg fyrir lagasetningu tæps meirihluta á Alþingi sem stríðir gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar?  – Hvernig komum við í veg fyrir að minnihluti Alþingis sé alltaf áhrifalaus? Þetta og margt annað sem hefur skert lýðræðið þarf að íhuga og laga.

Andi stjórnarskrárinnar.

Fólk íhugar hvaða gildi ráði og knýi áfram gott samfélag . Það hugsar ekki í lögfræði heldur í hugsjónum og í gildum, það vill sjá lýðræðið í verki.  Sautján Evrópuþjóðir hafa endurskoðað stjórnarskrár sínar á síðustu áratugum, meira en við höfum gert og flestar á síðustu 30 árum.  Í flestum þeirra eru þau meginstef og gildi sem Þjóðfundir hafa nefnt. Í þeim eru mun þroskaðri ákvæði um lýðræðið og virkni þess, en er í þeirri stjórnarskrá sem kóngurinn gaf okkur.

Vonandi skynjar þjóðin þetta tækifæri til að setja sér framsækin samfélagssáttmála. Hún getur stutt kröfur sínar um breytingar á samfélaginu með því að taka þátt í kosningu til Stjórnlagaþings, og velja fulltrúa sína til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld og Alþingi þurfa aðhald. Lýðræðið þarf að treysta í sessi. Ný ákvæði um mannréttindi, umhverfi , auðlindir og fullveldi þurfa að koma í stjórnarskránna.