ESB og íslenskar sjávarauðlindir.

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB.

Til að bera saman  ólík umhverfi  sjávarútvegs á Íslandi og innan ESB er nauðsynlegt að gera  grein fyrir þróun  sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB.

-Sameiginlegir stofnar,-sameiginleg stjórn.

Sameiginleg fiskveiðistefna (Common Fisheries Policy (CFP) ESB var tekin upp 1983 og byggir á þeirri sýn að fiskistofnar við strendur Evrópu séu sameiginlegir þar sem þeir gangi milli lögsögu landanna og séu því sameiginleg auðlind, hluti af sameiginlegri arfleifð sem þurfi að nýta í samvinnu til sameiginlegra hagsbóta. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB byggir því á jöfnum aðgangi að miðum aðildarríkjanna og eru markmið hennar þau sömu og landbúnaðarstefnunnar, þ.e. að auka framleiðni, tryggja starfsfólki í greininni sanngjörn lífskjör, stuðla að jafnvægi á mörkuðum og neytendum sanngjarnt verð. Mikilvægi sjávarútvegsins í ESB fellst ekki í efnahagslegum verðmætum, heldur í hinum líffræðilegu, hagfræðilegu og félagslegu þáttum sem snúa að víðáttumiklum strandhéruðum 22 ríkja Evrópu og hefur því mikil pólitísk áhrif innan sambandsins.

-Framkvæmd.

Frá árinu 1983 hefur verið úthlutað heildarkvóta í einstökum tegundum, sem árlegur fundur ráðherraráðsins ákveður að tillögum sérfræðingarnefndar. Þessum heildarkvóta í einstökum tegundum er deilt til aðildarríkjanna á grundvelli ákvæðisins um hlutfallslegan stöðugleika (relative stability),og byggist á veiðireynslu aðildarþjóðanna árin 1973-1978. Aðildarríkin eru síðan ábyrg fyrir útdeilingu kvótans og eftirliti með að farið sé að úthlutun. Ríkin nota hinsvegar mismunandi kerfi til úthluta kvóta sínum, allt frá dagakerfum til framseljanlegs kvóta.

Fiskveiðistefna ESB var endurskoðuð 1993 og aftur 2002, en ekki hefur náðst samstaða um að hrófla við ákvæðinu um “hlutfallslegan stöðugleika”. En umræðan síðustu árin innan ESB bendir til að þetta ákvæði muni taka breytingum vegna árangursleysis  stefnunar. 1) Tilgangur endurskoðuninnar  2002 var að taka á þeim markmiðum stefnunar sem ekki voru að nást.  Komið var á svæðisbundnum hagsmunaráðum sem hefðu meiri áhrif á ákvörðunartöku í greininni.  Aukið var ábyrgð ríkjanna sjálfra á eftirliti með brottkasti og aukin áhersla á minnkun flotans að úthlutun. Allt átti þetta að stuðla að langtímasjónarmiðum í verndun fiskistofna.

-Stjórnun – Eftirlit.

Eitt meginmarkmið fiskveiðistefnu ESB er að vernda nytjastofna og stuðla að sjálfbærum sjávarútvegi. Þetta markmið hefur mistekist hrapalega, 80-90% fiskstofna sem nýttir eru í ríkjum sambandsins er ofveiddir og sumir að hruni komnir. Hið flókna og kostnaðarsama miðstýrða eftirlits- og stjórnkerfi með fiskveiðum innan ESB, sem fyrst var sett á stofn 1993, er búið að breyta 12 sinnum. Það hefur ekki orðið til þess að farið sé eftir tillögum um heildarveiði í gegnum árin. Mikil ofveiði hefur átt sér stað og mikið af fiski er hent. Afli ESB flotans hefur minnkað um 2,3 millj. tonna á síðustu 10 árum, úr 8 millj. í 5,7 millj. tonna árið 2006 og verulegur samdráttur fyrirséður. Framkvæmdastjórn ESB viðurkennir að þetta eftirlitskerfi virki ekki, fiskveiðiflotinn sé enn of afkastamikill og hefur boðað verulegar breytingar á einstökum þáttum kerfisins.

-Ný Fiskveiðistefna ESB ákveðin 2012.

Joe Borg framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála ESB boðaði haustið 2008 að nýjar reglur um eftirlit verði teknar upp sem hafi þríþætt markmið:

  • Stórauka eftirlitið með gegnsæu kerfi sem reki aflann á öllum stigum, við veiðar, í löndun og við vinnslu.
  • Efla ábyrgð og virðingu allra þátttakanda fyrir kerfinu, (m.a. með breyttu sektafyrirkomulagi).
  • Efla eftirlit Framkvændastjórnarinnar með að eftirlitið í aðildarlöndunum sé virkt.

Framkvæmdastjórnin hefur þar að auki í bréfi til ráðherraráðsins lagt til umræðu um að þróa sameiginlegar hugmyndir um veiðiréttarheimildir (rights-based management tools in fisheries.) sem er í raun hugmyndin um framseljanlegar veiðiheimildir.

-Veikur atvinnuvegur – ríkisstyrktur.

Sjávarútvegur í ESB er hluti af landbúnaðarstefnu þess og hefur verið stórlega ríkisstyrktur í í áratugi. Eins og fyrr segir tekur sjávarútvegur sambandsins og ýmsar greinar sem falla undir hann eins og fisk og skelfiskeldi yfir strandlengjur og eyjar 22 ríkja sambandsins og er alls staðar láglaunuð atvinnugrein. Verðmæti sjávarafurða í ESB var um 6,800 millj. Evra 2007. Sjö ára áætlun 2007-2113 1)  gerir ráð fyrir að greiða yfir 4.305 milljónir evra í styrki til sjávarútvegins í í löndum ESB . Styrkjunum er deilt á aðildarlöndin miðað við fjölda starfsmanna í greininni og stærð flotans. Dæmi um þrjú lönd sem fá mikla styrki : Spánn 20% , Pólland 12% og Ítalía 7% , af heild. 2) 

Inní þessum styrkjum er ekki árlegur 321 milljóna Evra eftirlitskostnaður með greininni sem greiddur er úr sameiginlegum sjóðum.einnig eru ótaldir miklir rannsóknarstyrkir, styrkir vegna veiða á erlendum miðum í formi þróunarstyrkja (við Afríku m.a.), auk ýmissra beinna rekstrarstyrkja eins og geymslukostnaðar á afurðum, uppbóta vegna lámarksverðs á markaði og margt fleirra.

-Hagsmunamál Íslands

Það má fullyrða að íslenskur sjávarútvegur mun dragast inní ríkisstyrktan láglaunaðan og arðlítinn iðnað, gagnstætt því sem hann er hér á landi ef af inngöngu yrði. Áhrif Íslands í ESB yrðu þar að auki mjög lítil á sjávarútvegssviðinu vegna ólíkra hagsmuna innan greinarinnar í hinum 22 strandþjóðum sambandsins. Talsmaður styrkjalauss, arðsams sjávarútvegs fengi ekki mikinn hljómgrunn í 22ja þjóða sveit sem lítur á slíkan iðnað sem láglauna iðnað sem haldið er gangandi vegna líffræðilegra og félagslegra áhrifa í samfélaginu fremur en hagfræðilegar.   Meðfylgjandi  taflan gefur nokkran  samanburð á tölulegu umfangi greinanna Í ESB og Íslandi 2007:

Mannfjöldi í

Fjöldi

Aflamagn

Verðmæti af

greininni.

skipa

tonn

þjóðarframleiðslu

ESB

226.000

88.000

5,7 millj.

0,9%

Ísland

8.000

600

1,2 millj.

6,2%

Það er einnig alveg ljóst að Ísland verður að gangast undir fiskveiðistefnu ESB við inngöngu og þar með færist ákvörðun um hámarksafla og stjórn fiskveiða við Ísland frá ríkisstjórn Íslands  til framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB í Brussel. Þessar staðreyndir  hafa ESB sinnar reynt að fela í umræðunni um stöðu íslenska sjávarútvegsins í komandi aðildarviðræðum við ESB. Þeir vilja láta umræðuna snúast um tækniatriði, sem til lengri tíma skipta engu máli.

Jafnvel starfsmenn ESB eins og Michael Köhler, ráðuneytisstjóri Sjávarútvegsmála ESB sem hélt hér fyrirlestur fyrir um tveim árum, reyna að slá á hræðslu íslendinga um að erlend skip fái veiðirétt á Íslandsmiðum með þeim rökum að veiðirétttur í ESB sé byggður á veiðireynslu eða hinni svokölluðu reglu um “hlutfallslegan stöðugleika” sem nefndur var hér  á undan. Með þessu er verið að gefa til kynna að veiðireynsla ráði umfram meginregluna um jafnan aðgang og þess vegna gæti krafan um  „íslensk skip á íslensku hafsvæði“ fengið hljómgrunn.

 Kjarni málsins, þ.e. hagsmunir Íslands snúast ekki um tæknilegar og tímabundnar undanþágur frá reglum ESB til að fá okkur inn í ESB , heldur hver hefur stjórn á aðgengi miðanna og hvort eignarhald á útgerðinni verði íslenskt og hvort sjómenn verði íslenskir. Aðeins með því er tryggt að arður sjávarútvegsins nýtist íslensku samfélagi eins og hingað til.

-Frjálst flæði fjármagns.

Fjármagn er landamæralaust er innan ESB og því er ekkert sem kemur í veg fyrir að íslensk útgerðarfyrirtæki verði keypt upp af evrópskum fyrirtækjum og erlendir sjómenn manni skip skráð á Íslandi. Sjávarútvegur á Íslandi og sérstaklega fiskveiðar er stór á evrópskan mælikvaða og mjög fýsilegur fjárfestingarkostur fyrir stór matvælafyrirtæki í Evrópu sem mörg hver eru í eigu alþjóðlegra matvælarisa. Mikill áhugi er hjá evrópskum útgerðar og fiskvinnslufyrirtækjum að fá aðgang að íslenskum fiskimiðum. Þessi fyrirtæki ráða bæði ráða yfir skipum, mannafla, dreifingarkerfi og stórum markaði fyrir sjávarafurðir. Slík fyrirtæki í Evrópu hafa notið mikilla styrkja í áratugi innan sambandsins og eru skuldlítil og því í aðstöðu til þess að yfirtaka skulduga íslenska útgerð og öðlast með þeim hætti veiðiheimildir þeirra. Því má segja að ríkisstyrkt evrópsk sjávarútvegsfyrirtæki fái tækifæri til að eignast íslenskan sjávarútveg.

-Vinnuaflið- sjómenn og vinnsla.

Frjálsræðið á evrópskum vinnumarkaði hefur ekki að neinu ráði komið fram í mönnun íslenskra fiskiskipa, það hefur m.a verið vegna tæknilegra hindranna. Kröfur hafa verið gerðar til þjálfunar sjómanna á íslensku máli og þegjandi samkomulags útgerða og sjómannafélaga hefur verið um að íslenskir sjómenn manni fiskiskipaflotann. Með inngöngu í ESB er næsta öruggt að breyting verði þar á.

Erlent eignarhald á íslenskum skipum mun leiða af sér ráðningu erlendra sjómanna , m.a  til að:

-Tryggja ítök erlendra eigenda á stjórn skipanna.

-Lækka launakostnað sjómanna úr 50-60% af tekjum í núverandi hlutaskiptakerfi, í 30-35% af tekjum.

Vegna aðstöðu sinna nær markaði, er mjög líklegt að slíkir eignaraðilar muni kjósa að að vinna aflann frekar í vinnslustöðvum sínum erlendis og þar með flyst atvinna og tekjur úr landi.

Vilji Alþingis og ríkisstjórnar má sín lítils fyrir reglum ESB um atvinnustarfsemi við inngöngu. Ýmis íslensk löggjöf í sjávarútgerð yrði að víkja fyrir almennari reglum ESB,  þar má nefna lagaákvæðið um að auðlindir sjávar séu eign íslensku þjóðarinnar og fjölmörg ákvæði íslenskra laga sem takmarka hlutdeild útgerða í einstökum tegundum eða heildaraflahlutdeild, sem þykja viðskiptahamlandi í frjálsu viðskiptaumhverfi.

-Meginniðurstaða

Við inngöngu í ESB geta því erlend fyrirtæki eignast íslensk útgerðarfyrirtæki og náð þar með yfirráðum yfir aflaheimildum þeirra. Hagnaður slíkra fyrirtækja fer úr landi og ásamt með launum erlendra starfsmanna á kostnað innlendra, sv  og með minni úrvinnslu aflans hér á landi. Allt þetta mun minnkar skatttekjur ríkisins af veltu sjávarútvegsins hérlendis.

1) European Fisheries Fund (EFF) http://europa.eu/legislation_summaries/maritime_affairs_and_fisheries/fisheries_sector_organisation_and_financing/l66004_en.htm

2) http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=COM:2009:0696:FIN:EN:PDF

 

 

Print Friendly, PDF & Email