Lífsins tré — Yggdrasill

„Í norrænni goðafræði er tré lífsins kallað Yggdrasil, augljóslega af mörgum ástæðum. Þetta er
ein af snilldarlegum öfugmælum skáldanna til að leyna skilaboðum sínum. Ygg er ýmist talið
merkja „eilífð,“ „mikill“ eða „hræðilegur“ einnig „aldinn“ eða, „eilífur“ Óðinn (4) er kallaður
Yggjungur — „aldni-ungi,“ sem samsvarar sem í bíblíunni er kallað „Aldni daganna“ —
hugmynd sem hugurinn getur aðeins skilið í vöku innsæisins. Yggdrasil er farskjótti Óðins
og líka gálgi hans, tilvísun í guðlega fórn, krossfestingu hins þögla verndara, þar sem líkami
hans er heimurinn. Í þessari mynd táknar tré lífsins, stórt sem smátt, krossinn, þar sem hin
drottnandi vera er bundin meðan á efnislegri tilvist stendur. Yggdrasill táknar alheiminn með
öllum sínum heimum, en hann táknar líka hverja mannveru og mælieiningu hennar, smámynd
asks alheimsins. Hver og einn á rætur sínar í goðumlíkri moldu alverunnar og ber í brjósti sinn
eigin Óðinn — alheimsanda sem uppruni og ástæða allra lifandi vera.“

Öll tré lífsins— alheims og mannleg — draga næringu sína frá þremur rótum sem standa í

Print Friendly, PDF & Email

Grimur Óðins  – Masks of Odin

Elsa-Brita Titchenell

2. Lífsins tré — Yggdrasill

Allar launsagnir segja frá Tré lífsins. Í frásögn Biblíunar varð Guð „reiður“  — þegar maðurinn hafi étið ávexti af þekkingartré góðs og ills, og óttaðist „Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“ Kerúbanarnir settu því „ loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré“ (1) Í launsögnum Bantu er mikið lífsins tré sem gyðja frjósemi sem fæðir öll ríki náttúrunnar.(2) Í launsögnum Indlands á tréð Asvattha (3) rætur sínar í hæðsta himni og allir heimar hvíla á greinum þess. Þessi hugmynd um tré og greinar þess dreifi sér um heiminn er alheimsleg. Enn höldum við áfram þeim sið að tilbiðja tré með marglitum kúlum þó merking þess sé löngu gleymd.

Í norrænni goðafræði er tré lífsins kallað Yggdrasil, augljóslega af mörgum ástæðum. Þetta er ein af snilldarlegum öfugmælum skáldanna til að leyna skilaboðum sínum. Ygg er ýmist talið merkja „eilífð,“ „mikill“ eða „hræðilegur“ einnig „aldinn“ eða, „eilífur“ Óðinn (4) er kallaður Yggjungur — „aldni-ungi,“ sem samsvarar sem í bíblíunni er kallað „Aldni daganna“ — hugmynd sem hugurinn getur aðeins skilið í vöku innsæisins. Yggdrasil er farskjótti Óðins og líka gálgi hans, tilvísun í guðlega fórn, krossfestingu hins þögla verndara, þar sem líkami hans er heimurinn. Í þessari mynd táknar tré lífsins, stórt sem smátt, krossinn, þar sem  hin drottnandi vera er bundin meðan á efnislegri tilvist stendur. Yggdrasill táknar alheiminn með öllum sínum heimum, en hann táknar líka hverja mannveru og mælieiningu hennar, smámynd asks alheimsins. Hver og einn á rætur sínar í goðumlíkri moldu alverunnar og ber í brjósti sinn eigin Óðinn — alheimsanda sem er uppruni og ástæða allra lifandi vera.

Öll tré lífsins— alheims og mannleg — dregur næringu sína frá þremur rótum sem standa í þremur heimum, einn í Ásgarði, heimkynnum Æsa þar sem hún er vökvuð af brunni Urðar, sem almennt er kenndur fortíðinni. Hinsvegar er raunveruleg merking hennar Uppruni, hin fyrsta orsök. Frá upprunalegri orsök flæða allar afleiðingar. Urður er ein þriggja meyja „sem vita“, nornir eða forlög, sem geta séð og skoðað fortíð, nútíð og framtíð sem þær spinna í örlagavef manna og heima. „Urð hétu eina, aðra Verðandi,….Skuld ina þriðju; þær lög lögðu, þær líf kuru, alda börnum, örlög seggja.“(5Urður, fortíðin, stendur fyrir allt sem er gengið og er orsök nútíðar og framtíðar. Verðandi , er nútíðin, sem þó er ekki stöðugt ástand, heldur það sem koma skal, — öflugur og síbreytilegur stærðfræðilegur púntur á milli fortíðar og framtíðar. Staður og stund sem ávallt er mikilvæg fyrir manninn, þegar ákvörðun er tekin vitandi vits, knúin af löngun til þroska eða afturfarar á þróunarbrautinni. Tökum eftir að þessar tvær nornir skapa þá þriðju, Skuld, eitthvað sem er ekki í jafnvægi en þarf að rétta af í framtíðinni, — hin óhjákvæmilega niðurstaða fortíðar og nútíðar.

Nornirnar eru samsvörun grísku Moirai, sem spinna þræði örlaga, sem við þekkjum líka úr Stanzas of Dzyan (6) sem Lipikas — sem í Sanskrit merkir „skrifarar“ eða „skrásetjarar.“ Líkt og nornirnar eru þetta ópersónuleg öfl (framgangur) sem skrá öll atvik og setja sviðið fyrir athafnir sem jafna karma, hið eðlilega „ lögmál afleiðinganna“ eða örsök og afleiðingu, sem vinnur óskeikullega á öllum sviðum og ákvarðar aðstæður sem hver og einn þarf að mæta sem afleiðingu af vali sínu í fortíðinni. Í ríkjum náttúrunnar sem ekki hafa sjálfsvitund er þetta sjálfvirk aðlögun, í ríki mannsins færir sérhver viðleitni, göfug eða ekki, viðeigandi tækifæri eða andstöðu til að aðlaga framtíðina. Mannleg vitund er hæf til sjálfsákvörðunar og í vaxandi mæli gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni á komandi atburðum. Hver og einn er ávöxtur af eigin verkum og verður það sem hann skapar í núinu með hugsunum sínum og verkum. Allt í flóknum og síbreytilegum öflum mannsins er skráð í sálu hans, hans eigin norn, sem í norrænni goðafræði er kölluð hamingja hans, en í kristni er kölluð verndarengill.

Önnur rót Yggdrasils er í brunni Mímis. Þessi brunnur hins afstæða efnis tilheyrir hinum vísa jötni, Mími, – uppruna allrar reynslu. Óðin drakk daglega af þessum brunni, en til að geta það þurfti hann að gefa annað auga sitt, sem liggur falið á botni brunnsins. Í öllum sögum um Óðinn sem gamlan mann, er hann í blárri skinnkápu og með slútandi hatt sem hylur þá staðreynd að hann hafi misst auga. Það er þó ekki sama og segja að hann hafi aðeins eitt auga. Getum við verið fullviss um að hann hafi aðeins haft tvö augu upphaflega? Launhelgar segja að í fjarlægri fortíð hafi maðurinn haft „þriðja augað“,-líffæri innsæis, sem samkvæmt guðspekinni þróaðist inní höfuðkúpuna fyrir milljónum ára og er þar nú sem „heilaköngulinn“ og bíður þess tíma að fá mikilvægara hlutverk í framtíðinni. Þessi tilgáta skýrir ekki aðeins merkingu sagnarinnar heldur það myndmál sem notað er í goðsögnunum. Eins og innganga í reynsluheim efnisins gefur visku, þá fórnar vitundin (Óðinn) hluta af sýn sinni til að fá daglegan aðgang að honum (brunni Mímis) og Mímir sem efnið, fær í staðinn upplyftingu andans. Mímir er forfaðir allra jötna, tímalaus rót Ýmirs-Örgemli, frostjötunsins sem allir heimar eru gerir af.

Sagt var, að fyrir löngu hafi Njörður (tíminn) drepið Mími og líkama hans var hent í dý („vatn“ geimsins). Óðinn náði afhöggnu höfði Mímis og ráðfærir sig daglega við það. Þetta myndmál vísar í að goðið, -vitundin-, noti besta efnið í efnisheiminum („höfuðið“) í líkama sinn til að öðlast reynslu í þeim heimi, um leið öðlast jötuninn (efnið) snertingu við vitund,- snertingu við kraftinn, hina guðlegu hlið náttúrunnar. Þessi tvíliða er algild, enginn heimur er svo án þessarra samskipta og þessi snerting stýrir þróuninni í heimi athafna (efnisheimi), „ristir viskurúnir“ við reynsluna. Vitund og efni er þannig bundið hvort öðru á öllum sviðum, það sem er vitund á einu stigi í kosmísku lífi er efni fyrir vitund á næsta stigi ofar. Þessar tvær hliðar tilverunnar eru óaðskiljanlegar. Báðar samanstanda af öllum hliðum lífsins, jötnar geta vaxið í að verða goðar og goðar komnir úr jötnaheimum þroskast til enn hærri sviða.

Tré Mímis er Mímismeiður, þekkingartréð, sem ekki má rugla saman við tré lífsins, þó þau tengist, því þekking og viska eru ávextir lífsreynslu og viskan sem skilur ódauðleikann lyftir greinunum á lífsins tré.

Þriðja rót Yggdrasils gengur í  Niflheim (skýjaheim), þar sem skýin — stjörnuþokur — fæðast. Líkt og hin tvö sviðin vísa ekki á staði, heldur til aðstæðna. Nafnið er myndrænt alveg eins og stjörnuþokur eru ákveðið stig í þróun líkama alheimsins. Rótin er nærð af Hvergelmi , „upphafi allra fljóta lífsins“,- flokka lífvera. (7) Þetta er það sem við köllum ríki náttúrunnar í allri sinni fjölbreytni sem skapar hverja plánetu. Niflheimur, er uppruni allra þessara lífsforma suðupottur frumefnis sem sækja sína sundurgreiningu úr. Þar er mulaprakriti (frumnáttúra) Hindu kosmólógíunnar, þar sem hið guðlega hlið er parabrahman (handan-brahman).

Hið samtvinnaða lífskerfi Yggdrasils felur í sér bæði staðreyndir náttúru-og stjarneðlisfræði. Sem dæmi um það er fyrsta rótin í Ásgarði, heimkynnum Æsa (Ása), nærð af brunni fortíðar og dregur upp mynd af „örlögum hetja“, frá örsökum til afleiðinga fyrir öll ríki tilverunnar og goðin eru ekki undanskilin af þessu ófrávíkjanlega lögmáli frekar en önnur lífsform. En hver stund breytir stefnu örlaganna þar sem hver vera hefur frelsi innan marka sinnar sjálfskipaðrar marka.

Önnur rótin er nærð af efnisreynslu úr brunni Mímis, reynslu sem er vöktuð af guðlegu auga andans, þar sem Óðinn ráðfærir sig daglega við höfuð Mímis.

Þriðja rótin er nærð af uppruna alls frumefnis, þaðan sem öll lífsform fá efni sitt til að uppfylla kröfur þeirra eigin vitunda.

Á fyrri helmingi lífs síns er Yggdrasill, hið mikli Askur, kallaður Mjötviður (mæliviður). Á vaxtarskeiði sínu flæðir kraftur trésins frá andlegum rótum þess í heiminn sem er að myndast. Efni þess blómgast á öllum sviðum af næringu úr brunnunum þremur anda, efni og formi. Þegar Askurinn er fullvaxta er hann Mjötviður (fullmældur) flæðir næringin aftur til brunnanna og lífsorkan hverfur úr efnissviðinum eins og haustið fellir blóm og fræ í jörðu næsta lífs. Við tekur drómi vetrarins hjá frostajötni,- hvíldartími, Pralaya í Hindu kosmólógíu.

Þessi samlíking við tré sem er í svo mörgum launsögnum og ritum til að lýsa alheiminum er ótrúlega nákvæm. Við vitum að með hverju vori kemur flæðikraftur sem hreyfir gróðurkraft í hvern lim og lauf sem gefur svo fegurð og fullkomnun í blómstrun, sem í fullnustu tímans verður að ávexti sem ber fræ að trjám framtíðar. Að hausti dregur tréð orku sumarsins niður í rætur sínar til geymslu fyrir næsta árs vöxt. Við sjáum þessa samlíkingu einnig í mannlegu lífi, í vexti ungviðis og þroska þess til fullvaxta manns á miðum aldri, en eftir það verður viðsnúningur fram að gegnsærri brothættu þess háaldraða. Þannig birtir hin dveljandi æðri máttur sig úr ómótuðu efni í uppbyggingu, sérkenni og formgerð og vex í umfangi, þéttleika og styrk, úr þessari fullnustu snýst hringurinn við. Hin mörgu lög kosmosins þenjast út og greina sig í gegnum alla efnisgerð þar til takmörkum þróunarfasa þeirra er náð, þar sem lífsorkan hörfar aftur til andlegra sviða þar sem guðlegar rætur fá til sín kjarnan úr lífsreynslunni. Því það sem vitundin tekur með sér úr margskiptum heimum eru hin guðlegu verðlaun.

Yggdrasill  nærir allar verur með lífgefandi hunangi. Heimarnir hanga á greinum þess og allar hillur tilverunnar fá af guðlegum rótum þess, það sem þörf er fyrir vöxtinn, móttökuleiki úr Urðarbrunni, efnið úr Mímisbrunni og tilhlýðileg þörf á lífflæði úr brunni Hvergelmis. Við dauðann þegar andinn dregur sig úr efninu líkt og krafturinn hverfur í ræturnar, þá eru til staðar fræ framtíðarinnar eins og óafmánleg skráning, en líflaus efnisskelin leysist í frumeindir sínar til endurvinnslu í framtíðinni eins og haustlaufin sem falla, leysast upp og endurbæta jarðveginn.

Yggdrasill er ekki ódauðlegur. Líftími þess er sá sami og helgivaldsins sem tréð á að tákna. Niðurbrotsöflin (sem hluti af sköpuninni) eru ávallt að verki og leiða að lokum allt til hnignunar og dauða, fjórir hirtir éta lauf þess, börkur þess er nagaður af tveim geitum og rætur þess eyddar af Níðhöggi (nagar að neðan). Þegar lífsferli Yggdrasill er lokið er hinn mikli Askur felldur. Þannig er áminnt um skammvinna tilveru og efnis.

Í gegnum líf Asksins gera íkornar það að heimkynnum sínum og hlaupa upp og niður stofn þess til að vera á milli arnarins , hátt í krónu þess og snáksins við rætur þess. Þessi litlu nagdýr tákna lífið eða vitundina sem spannar hæðir og lægðir tilverunnar. Myndrænt tákna þau líka bor sem getur borað í hið þéttasta efni. Í Hávamálum segir frá leit Óðins að ljóðamiðinum sem falin var djúpt inní fjalli og hann leitaði liðsinnis íkorna (bors) til að fara í gegnum bergið og í líki snáks komst hann í gegnum þá holu sem þeir grófu. Þegar hann kom inn sannfærði hann dóttir jötunsins Suttúngs, (sem hafði falið mjöðinn í neðarjarðarhelli sínum) um að gefa honum að drekka af þeim miði og öðlast þannig visku. Þetta atriði kemur aftur og aftur fyrir, hið guðlega leitar mjöðs í efninu, til að ná visku og lærdómi úr efninu áður en snúið er aftur til hærri heima.

3.Kafli

Efnisyfirlit

Neðanmálsgreinar:

  1. 1. Sköpunarsagan 3:22, 24.
  2. 2. Indaba,MyChildren, pp. 3-13.
  3. 3.BhagavadGita, ch. xv.
  4. 4. Einnig kallaður Woden eða Wotan.
  5. 5. Völuspá, 20.
  6. 6. Þessi erindi mynda hluta af hinum fornu skrám sem The Secret Doctrineer útlistun á.
  7. 7. Grímnismál, 26.

 

Copyright © 1985 by Theosophical University Press.

Print Friendly, PDF & Email

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *