ORÐALISTI

ORÐALISTI
Hugtakasafn úr norrænni goðafræði.

Alfaðir er eitt af fjölmörgum heitum Óðins.
Alsvinnur og Árvakur heita hestarnir sem draga kerru Sólar.
Andhrímnir er nafn steikarans sem sýður göltinn Sæhrímni í katlinum Eldhrímni í Valhöll.

Askur og Embla eru fyrstu manneskjurnar samkvæmt sköpunarsögu norrænnar goðafræði. Þau urðu til þegar fyrstu goðin, Óðinn, Vilji og Vé, fundu tvö tré á ströndu og gerðu úr þeim mannverur. Óðinn gaf þeim anda og líf, Vilji vit og skilning og Vé mál, heyrn og sjón.

Askur Yggdrasils sjá Yggdrasill.

Auðhumla heitir frumkýr sem varð til þegar hrímið draup í árdaga. Úr spenum hennar runnu fjórar mjólkurár sem nærðu hrímþursinn Ými. Auðhumla sleikti salta hrímsteina í þrjá daga og leysti úr þeim forföður goðanna, Búra.

Austri er einn fjögurra dverga sem halda uppi himninum sem gerður var úr höfuðskel Ýmis. Austri heldur uppi austurhorni himinsins, Norðri norðurhorninu, Suðri suðurhorninu og Vestri vesturhorninu.

Árvakur sjá Alsvinni.
Ás/Ásynjur sjá æsir.
Ása-Þór er eitt af heitum Þórs.
Ásgarður er bústaður ása. Hann stendur þar sem heimurinn rís hæst og þangað má komast um brúna Bifröst. Þar eru bústaðir goðanna, m.a. Valhöll.

Baldur er einn ásanna, sonur Óðins og Friggjar, eiginmaður Nönnu og faðir Forseta. Bústaður Baldurs er Breiðablik. Baldur er bestur og vitrastur goðanna og eftirlæti allra.

Bergelmir er eini jötunninn sem ekki drukknaði í blóði Ýmis. Því eru allar ættir hrímþursa komnar af Bergelmi og konu hans. Ýmir var afi Bergelmis.

Bestla er jötnamær, dóttir Bölþorns jötuns. Með Bor á Bestla hin fyrstu goð, Óðin, Vilja og Vé.

Bifröst heitir brúin milli Miðgarðs og Ásgarðs sem goðin byggðu og sést frá jörðu sem regnbogi. Annar endi Bifrastar er á himni, hjá Himinbjörgum þar sem Heimdallur býr. Á hverjum degi ríða æsir yfir Bifröst að Urðarbrunni til dóma.

Bil og Hjúki heita mennsk börn sem Máni tók til fylgdar við sig.
Bilskirnir er bústaður Þórs.
Bor heitir faðir fyrstu goðanna, Óðins, Vilja og Vés. Bor er sonur Búra og kona hans var Bestla, dóttir Bölþorns jötuns. Jötnar eru þannig forfeður goðanna og voru til á undan þeim.

Bragi er norræni skáldskaparguðinn, sonur Óðins. Þess vegan er skáldskapur oft kallaður bragur. Kona hans er Iðunn.
Breiðablik heitir bústaður Baldurs og Nönnu. Það er fagur staður þar sem aldrei verður óhreint.
Brísingamen er skartgripur Freyju.
Búri er ættfaðir ásanna sem kýrin Auðhumla sleikti lausan úr hrímsteinum, faðir Bors og afi hinna fyrstu goða, Óðins, Vilja og Vés.
Bölþorn heitir faðir jötnameyjarinnar Bestlu.

Dagur er sonur Nætur og persónugervingur dagsins. Hann ríður hestinum Skinfaxa yfir himininn en móðir hans, Nótt, ríður Hrímfaxa.

Dvergar eru vitrar verur sem búa undir björgum og í klettum. Þeir eru miklir hagleiksmenn. Dvergarnir Austri, Norðri, Suðri og Vestri halda uppi himninum, hver í sínu horni. Í Snorra-Eddu segir að dvergar hafi kviknað niðri í jörðinni eins og maðkar í holdi, þeir fyrstu í holdi Ýmis.

Einherjar eru menn sem deyja í bardaga og valkyrjur fara með til Óðins í Valhöll. Einherjar berjast daglangt á Iðavelli en að kvöldi rísa hinir föllnu upp og setjast að drykkju. Aðeins þeir menn sem dóu í bardaga gátu orðið einherjar.

Eldhrímnir heitir ketillinn í Valhöll sem eldamaðurinn Andhrímnir matbýr í göltinn Sæhrímni.

Embla sjá Askur og Embla.

Epli Iðunnar eru töfraepli sem halda goðunum ungum. Gyðjan Iðunn gætir eplanna.

Élivogar er mikil á sem rennur úr Niflheimi. Við sköpun heimsins flytur hún með sér kuldann sem mætir hitanum úr Múspellsheimi í Ginnungagapi. Við þann samruna kviknar fyrsta lífið, hrímþursinn Ýmir.

Fensalir heitir bústaður Friggjar.

Freyja er norræna ástargyðjan. Hún er af vanaætt, dóttir Njarðar og systir Freys. Freyja ekur um á vagni sem tveir kettir draga. Auk þeirra eru einkennisgripir Freyju valshamur, gölturinn Hildisvíni og Brísingamen. Freyja er oft í forsvari fyrir ásynjur og ævinlega girnast jötnar hana.

Freyr er mestur goða af ætt vana og mikilvægasta frjósemisgoð norrænnar goðafræði. Freyr er sonur Njarðar og bróðir Freyju. Freyr ræður fyrir regni, skini sólar og frjósemi jarðar.

Frigg er höfuðgyðja í heiðnum sið af vanaætt og einungis Freyja hefur mikilvægara hlutverki að gegna. Frigg er kona Óðins og á með honum eina dóttur og sex syni, m.a. Baldur. Bústaður hennar í Ásgarði heitir Fensalir.
Þjónustumeyjar Friggjar eru Fulla og Gná. Ginnungagap er hið mikla tóm sem var til fyrir sköpun
heimsins. Fyrir norðan það varð hinn ískaldi Niflheimur til en að sunnan eldheimurinn Múspellsheimur.

Gjallarhorn er horn ássins Heimdalls sem hann blæs í til að vara goðin við þegar ragnarök skella á.

Goð/guð(ir) eru af tveimur meginættum: æsir og vanir. Æsir eru goð hernaðar og valda en vanir frjósemisgoð. Í árdaga háðu ættirnar mikil stríð en sömdu svo frið og skópu með sætt sinni manninn Kvasi. Goðin standa fyrir það góða í norrænni goðafræði en jötnar og annað illþýði það illa.
Heiðnir menn trúðu á og dýrkuðu goðin og hétu á þau til ólíkra hluta. Þekkt nöfn á goðum eru: Óðinn, Þór, Njörður, Freyr, Týr, Heimdallur, Bragi, Víðar, Váli, Ullur, Hænir og Forseti. Ekki er vitað hversu margar ásynjur voru í raun dýrkaðar sem slíkar í heiðni en þau nöfn sem nefnd eru í fornum heimildum eru: Frigg, Freyja, Gefjun, Iðunn, Gerður, Sigyn, Fulla, Nanna, Sága, Eir, Sjöfn, Lofn, Vár,
Vör, Syn, Hlín, Snotra, Gná, Sól og Bil. Loki er jötnaættar en ævinlega með ásum enda fóstbróðir Óðins.

Hati er úlfurinn sem eltir mánann yfir himininn og mun gleypa hann í ragnarökum. Úlfurinn Skoll eltir sólina.

Heiðrún heitir geitin sem stendur á þaki Valhallar. Úr spenum hennar rennur hreinn mjöður í drykkjarker einherja.

Heimdallur er norrænt goð sem stundum er sagður faðir alls mannkyns. Hann á níu mæður sem allar voru systur. Hann á hestinn Gulltopp og lúðurinn Gjallarhorn og heyrist blástur hans í alla heima. Heimdallur býr í Himinbjörgum við Bifröst og gætir brúarinnar fyrir bergrisum. Hann þarf minni svefn en fugl og sér jafnt nótt sem dag hundrað rastir frá sér. (Röst er forn mælieining sem nemur um 12 km.) Hann heyrir og gras vaxa á jörðu og ull á sauðum. Hann er svarinn óvinur Loka.

Hel heitir heimur hinna dauðu. Til Heljar koma þeir men sem deyja ekki í bardaga. Vegurinn til Heljar nefnist Helvegur.

Himinbjörg heitir bústaður Heimdallar sem stendur við himins enda, við brúarsporð Bifrastar.

Hjúki sjá Bil.

Hliðskjálf er hásæti Óðins og þaðan má sjá um heima alla.

Hrímfaxi heitir hesturinn sem Nótt ríður yfir heiminn.

Hrímþursar er annað heiti á jötnum. Það á rætur að rekja til þess að forfaðir jötna, Ýmir, varð til við sköpun heimsins þegar hrím mætti hita.

Hræsvelgur heitir jötunn í arnarham sem situr á enda heimsins og kemur vindinum af stað með vængjaslögum sínum.

Hvergelmir er uppspretta í Niflheimi, undir Aski Yggdrasils, sem úr falla ellefu ár. Í honum eiga öll vötn heimsins upptök sín. Í Hvergelmi býr Níðhöggur.

Iðavöllur er goðsögulegur völlur í miðjum Ásgarði þar sem askur Yggdrasils stendur. Á Iðavelli berjast einherjar dag hvern.

Iðunn er ein af ásynjum norrænu goðafræðinnar, gyðja ástar og æsku og kona Braga. Iðunn ræður yfir æskueplunum sem æsir éta til að halda sér ungum.

Jörð er goðvera sem telst til ásynja en er einnig sögð tröllkona. Þór er sonur hennar og Óðins.

Jötunheimur, -heimar er ógnvænlegt jötnaríki sem liggur utan Miðgarðs og skilja ár það frá mannheimi. Einnig nefndur Útgarður.

Loki er flóknasta og jafnframt neikvæðasta persónan í goðafræðinni. Faðir hans er jötunninn Fárbauti, móðir hans heitir Laufey eða Nál. Kona Loka heitir Sigyn og synir þeirra eru Narfi og Váli.

Máni er sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Hann keyrir vagn mánans yfir himinhvolfið.

Miðgarður heitir miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr.

Mundilfari er faðir Sólar og Mána sem æsir köstuðu upp á himininn.

Múspellsheimur heitir eldheimur og þaðan kom hitinn við sköpun heimsins. Múspellssynir eru eldjötnar.

Naglfar er skip hinna dauðu sem sjósett er í ragnarökum og flytur Múspellssyni til bardaga við goðin. Naglfar er gert af nöglum dauðra manna og er stærst allra skipa.

Nanna er ein af ásynjunum, eiginkona Baldurs, dóttir Neps og móðir Forseta.

Niflheimur heitir staður í norðri sem var til fyrir sköpun heimsins. Milli hans og hins heita Múspellsheims er Ginnungagap. Ein af rótum asks Yggdrasils stendur yfir Niflheimi og undir henni er brunnurinn Hvergelmir.

Níðhöggur er dreki sem drekkur blóð dauðra og étur lík. Einnig er sagt að hann búi undir aski Yggdrasils og nagi rætur hans.

Njörður er norrænt goð af vanaætt, faðir systkinanna Freys og Freyju. Njörður er sjávar- og frjósemisgoð.
Nóatún er bústaður goðsins Njarðar.
Norðri sjá Austri.
Nornir skapa mönnum örlög samkvæmt norrænni goðafræði.

Við Urðarbrunn sitja örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld, og ráða örlögum manna.
Nótt er persónugervingur næturinnar.

Óðinn er æðsta goð norrænar goðafræði. Hann er aðallega goð skáldskapar, hernaðar og dauðans en einnig goð töfra, galdra og rúnastafa. Óðinn og bræður hans, Vilji og Vé, voru fyrstu goðin. Þeir eru synir Bors og tröllkonunnar Bestlu. Óðinn er kvæntur Frigg og þekktustu synir hans eru:
Baldur (með Frigg),
Þór (með Jörð) og Váli (með Rindi),
en börn Óðins eru miklu fleiri. Bústaður Óðins í Ásgarði
heitir Glaðsheimur, þar er höllin Valhöll og hásætið
Hliðskjálf þaðan sem Óðinn sér um heima alla.

Ratatoskur heitir íkorninn sem hleypur upp og niður stofn asks Yggdrasils og ber öfundarorð á milli drekans Níðhöggs, sem nagar rætur asksins, og arnarins sem situr í greinum hans.

Sif er ein ásynjanna, eiginkona Þórs og móðir Ullar. Hún er frægust fyrir mikið og fallegt hár.
Sigyn er eiginkona Loka og ein ásynjanna.
Skinfaxi heitir hesturinn sem Dagur ríður.
Skoll heitir úlfurinn sem eltir sólina á ferð hennar yfir.
Skuld sjá Urður, Verðandi og Skuld; norn.

Sól er dóttir Mundilfara og systir Mána. Hún keyrir vagn sólarinnar um himinhvolfið sem hestarnir Alsvinnur og Árvakur draga.

Suðri er einn fjögurra dverga sem halda uppi himninum. Sjá Austri.

Sæhrímnir er gölturinn sem steikarinn Andhrímnir sýður dag hvern í katlinum Eldhrímni handa einherjum í Valhöll eftir að þeir hafa barist allan daginn. Kjötið af Sæhrímni nægir alltaf til að metta einherjana, sama hversu margir þeir eru, og á hverjum morgni rís gölturinn alheill upp á ný.

Tanngnjóstur og Tanngrisnir heita hafrar Þórs. Þeim má slátra og éta að kvöldi. Ef öllum beinum er kastað á húðirnar og Mjölni sveiflað yfir rísa þeir heilir upp að morgni.

Tröll, jötunn og þurs eru samheiti yfir óvinveitt illþýði úr Útgarði sem ógna Ásgarði og Miðgarði og Þór berst gjarnan við.

Týr er norræna himin-, stríðs- og þinggoðið, jötunninn Hymir er nefndur sem faðir hans en einnig sjálfur Óðinn. Hvergi er nefnt að hann eigi konu eða afkomendur.

Ullur er eitt goðanna, sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs.

Urðarbrunnur er undir þeirri rót asks Yggdrasils sem stendur á himni. Þar eiga goðin dómstað sinn og þar er fagur salur þar sem örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld, sitja og skapa mönnum örlög. Á hverjum degi taka nornirnar vatn úr brunninum og ausa upp yfir askinn.

Útgarður eða jötunheimar er svæðið sem liggur utan þess hluta heimsins sem menn og goð byggja og er bústaður jötna, þursa og annars illþýðis. Í Útgarði er illt að vera og erfitt að rækta jörðina og því sækja jötnar sífellt í land ása.

Valhöll heitir bústaður Óðins í Ásgarði og þangað safnar hann öllum þeim sem deyja í bardaga og gerir þá að einherjum.
Veggir Valhallar eru þaktir spjótum og skjöldum og brynjur liggja á bekkjum. Valkyrjur vísa einherjum til sætis í Valhöll þar sem þeir borða kjöt af geltinum Sæhrímni og drekka mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar.

Valkyrjur eru stríðsmeyjar sem hafa áhrif á gang orrustu. Þær ráða því hverjir deyja og verða að einherjum. Valkyrjur færa Óðni hinar föllnu hetjur til Valhallar og bera einherjum öl.

Vanir er önnur tveggja goðaætta (hin er æsir) og kemur úr Vanaheimum.

Vé(i) er eitt hinna fyrstu goða, sonur Bors og tröllkonunnar Bestlu, bróðir Óðins og Vilja.

Vilji er eitt hinna fyrstu goða, sonur Bors og tröllkonunnar Bestlu, og bróðir Óðins og Vés.

Vingólf eða Víngólf er fagur salur gyðjanna í Ásgarði.

Víðar heitir einn ásanna, sonur Óðins og tröllkonunnar Gríðar.

Völva er kona sem getur spáð fyrir um framtíðina.

Yggdrasill eða askur Yggdrasils heitir heimstré hinna norrænu goðsagna. Króna hans breiðir sig yfir allan heiminn og rætur hans teygja sig til þriggja átta. Ein rótin nær til Niflheims, þar er brunnurinn Hvergelmir og drekinn Níðhöggur nagar rótina. Önnur rótin er í Jötunheimum, þar er Mímisbrunnur og vitri jötunninn Mímir. Þriðja rótin er á himnum, við hana er Urðarbrunnur.

Ýmir heitir frumjötunn norrænu sköpunarsögunnar. Hann var tvíkynja og jók kyn sitt þannig að annar fótur hans eignaðist son með hinum og eru þaðan komnar ættir hrímþursa.

Þór er hinn norræni þrumuguð. Hann er sonur Óðins og bróðir Baldurs. Móðir Þórs er Jörð. Nöfn allra barna Þórs minna á ógurlega krafta hans: synir hans eru Móði og Magni og dóttir hans heitir Þrúður. Kona Þórs heitir Sif og Ullur er stjúpsonur hans. Þór er stór vexti, sterklegur og rauðskeggjaður, með stingandi augnaráð og mikill drykkju- og matmaður. Þór er sterkastur ása og ver goð og men gegn hættulegum öflum Útgarðs: jötnum og Miðgarðsormi. Höll Þórs stendur á Þrúðvangi í Ásgarði og heitir Bilskirnir. Þór á mikinn vagn sem hafrarnir Tanngrisnir og Tanngnjóstur draga.

Þrúðvangur er staður í Ásgarði þar sem bústaður Þórs, Bilskirnir, stendur.

Þurs, jötunn og tröll eru samheiti yfir óvinveitt illþýði úr Útgarði sem ógna Ásgarði og Miðgarði og Þór berst gjarnan við.

Æsir eru stærri ættin í norrænni goðafræði. Hin ættin er vanir. Til ása teljast helstu og æðstu goðin. Eftir sköpunheimsins bjuggu æsir til röð og reglu, settu sól og mána upp á himininn þannig að sólarhringurinn skiptist í dag og nótt. Þeir reistu Ásgarð. Vegna epla Iðunnar haldast æsir síungir.

Öku-Þór er auknefni Þórs sem væntanlega er dregið af því að einn einkennisgripa Þórs er vagn sem dreginn er af tveimur höfrum, Tanngnjósti og Tanngrisni.
________________________________________

Print Friendly, PDF & Email