Rebbi og fákurinn.

Rebbi refur var á rölti inní dal þegar hann sá hvítan hest á beit. Honum var fremur illa við hesta, þeir áttu til að hlaupa á eftir honum og reyna að sparka í hann og það gat vel orðið hans bani ef hann yrði fyrir sparki. Rebbi skildi ekki af hverju þeir höguðu sér þannig, ekki var hann að áreita þá á nokkurn hátt. Hann reyndi því ávallt að forðast þá.

Rebbi refur ákvað því að sneiða framhjá honum ofar í hlíðinni, hann myndi þá hlaupa beint upp fjallið ef hesturinn gerði atlögu að honum.

Rebbi fór hratt yfir og þegar hann var að nálgast, leit hvíti hesturinn upp og horfði á Rebba.

Rebbi hægði ferðina, stoppaði og horfði á hestinn til að athuga hvað hann ætlaði að gera. Hann var tilbúinn að hlaupa beint uppí fjall ef hesturinn hreyfði sig í áttina til hans. “ Hvaða asi er á þér” sagði hesturinn rólega.

Rebbi varð steinhissa, enginn hestur hafði nokkurn tíma yrt á hann, fremur fræst að honum áður en þeir runnu á hann.

„Ég…, ég er bara að fara inní dal,“ svaraði Rebbi óstyrkum rómi.

„Hvað er að sjá þar?“ spurði fákurinn og leit fram dalinn og aftur á Rebba í spurnartón.

„Svo sem ekkert sérstakt,“ ansaði Rebbi:„ég er bara vanur að fara þessa leið, í ætisleit.“

„Jamm,“ ansaði Gráni. „Grasið er oft grænna þar, sérstaklega síðsumars, en það er svona mánuður í það. Heyrðu, ég er kallaður Gráni. En segðu mér,“ hann hélt áfram, „ég sé ykkur refina aldrei saman, alltaf einir á ferð, af hverju er það?“

Rebbi átti ekki vona á svona spurningu – af hverju erum við alltaf einir á ferð? Hann hugsaði sig um en ekkert svar kom upp í huga hans.

Hann áttaði sig núna á því að hann var alltaf EINN. Allir refir voru alltaf einir, aldrei saman í hóp, þannig var það bara.

Það var löng þögn og allan tímann horfði Gráni á Rebba. Að lokum stundi Rebbi upp: „Ja, þannig er það bara hjá okkur, ég á til dæmis þennan dal frá fjalli og niður að sjó og enginn annar refur á hér bú, ég myndi reka hann burtu ef hann reyndi,“” svaraði Rebbi og það gætti stolts í rómnum.

„Athyglisvert,“ sagði Gráni. „Hjá okkur er þetta öðruvísi, hestar eru yfirleitt í hjörð, við höldum hópinn en það er bara einn foringi í hópnum,“” og hélt áfram hugsandi „sem telur sig eiga hjörðina.“

„Af hverju ert þú þá einn hér, “ spurði Rebbi.

„Ja, ég var rekinn úr hjörðinni…,“ Gráni hengdi haus.

„Nú, af af hverju?“ skaut Rebbi inn í. Þetta fannst honum athyglisvert.

Gráni rétti úr sér. „Ég var búinn að vera foringi í hjörð minni lengi,en svo kom ungur klár og skoraði mig á hólm og ég…tapaði,  þess vegna varð ég að yfirgefa hjörðina,“ sagði Gráni með þungri röddu. „Hvað svo, verður þú þá alltaf einn sem eftir er?“ spurði Rebbi og fannst þetta eiginlega nokkuð spennandi.

„Nei, ætli ég fái ekki að koma aftur í hópinn í haust eða á næsta ári þegar sá ungi er orðinn öruggur með forystuna,“ svaraði Gráni eins og hann væri sáttur við hlutskipti sitt.

Skrítið, hugsaði Rebbi. Hann hafði aldrei hugleitt að einhver refur gæti átt dalinn nema hann. Hvernig fékk hann dalinn? Hann ólst hér upp, í holunni sinni. Hann mundi ekki eftir að hafa búið hana til en einhver hafði búið hana til! Hver gæti það hafa verið? Hver myndi svo eignast holuna hans seinna?

Rebbi var svo niðursokkinn í vangaveltur sína að hann tók ekki eftir því að Gráni var að tala við hann. „…, kvinnu?“ „Hvað sagðirðu?“ svaraði Rebbi utangáttar.

„Áttu ekki kvinnu?,“ spurði Gráni aftur. „Kvinnu?“ hváði Rebbi, alveg eitt spurningamerki í framan.

„Já, konu, ég átti margar,“ stundi Gráni.

„Já, svoleiðis,“ svaraði Rebbi vandræðalega, hann hafði nú ekki beint áhuga á að ræða við hest um kvennamál sín.

„Ja, ég á vinkonu, við lékum okkur stundum saman áður fyrr og ég hitti hana stundum,“ svaraði Rebbi, eiginlega rjóður í framan.

Gráni horfði á hann og áttaði sig á því að Rebbi var yngri en hann hafði ætlað. Hann ákvað að fara ekki meira út í þessa sálma.

Rebba fannst þetta vandræðaleg umræða, en spurði allt í einu;

„Af hverju talaðir þú við mig? Venjulega yrða hestar aldrei á mig, þeir ráðast frekar á mig ef ég kem of nálægt þeim. Af hverju er það?“

Gráni horfði á hann spurnaraugum en svaraði svo: „Ja, mig langaði að ræða við þig, það er enginn annar hér á ferli og ég er hálf einmanna og af hverju, ja, þegar ég var forystuhestur bar mér skylda til að vernda folöldin í hjörðinni og ég hrakti alla frá sem komu of nærri þeim.“

Nú skyldi Rebbi þetta, það sem hann hélt að væri árás á sig var einungis viðbrögð til verndar folöldunum. Honum var létt.

„Jæja,” sagði Rebbi stundarhátt, „ég þarf að halda áfram inn eftir og ég sé þig kannski þegar ég kem til baka.“

„Já endilega, “ svaraði Gráni; „heldurðu að það verði seint?“ bætti hann við, en Rebbi var þotinn af stað og heyrði ekki síðustu orðin.

Print Friendly, PDF & Email

Lokað er fyrir athugasemdir.