Rebbi og Össi örn.

Rebbi, sem hafði setið á þúfu í góðu veðri og horft yfir dalinn sinn, vissi ekki fyrr en hann var sleginn bylmingshöggi sem kútvelti honum marga kollhnísa niður af hólnum.

Þar lá hann ringlaður og vissi ekki hvað hafði skeð. Hann stökk á fætur og skimaði flóttalegur allt í kringum sig.

Hann sá skugga út undan sér og leit snöggt upp, honum brá og stökk til hliðar undan miklu flykki sem kom fljúgandi niður að honum með opnar klærnar.

-Haförninn hitti hann ekki og sveif í boga upp og tók flugið að nýju upp í himininn. Sveif síðan að stórum kletti og settist þar, nokkru ofan við hólinn sem Rebbi hafði setið á.

Reiðin sauð í Rebba, hann var ómeiddur, en enn í sjokki eftir höggið, það hafi komið svo óvænt. „ Hvað á þetta að þýða“ hvæsti hann upp í klettinn. „Gerði ég þér eitthvað?“

Örninn horfði fráum augum á hann, „ þú lást svo vel við höggi þarna á hólnum“, sagði Örninn og það lá við að hlakkaði í honum.

„LÁ VEL VIÐ HÖGGI“ æpti Rebbi hneykslaður, „hvers lags skepna ertu,-að ráðast svona aftan að manni“.

„Þú þarft nú ekki að taka þessu svona illa, þetta var nú gert í stríðni,“ sagði Örninn frekar afundinn og skaut augunum.

„Stríðni“ endurtók Rebbi, „það var þá stríðni, – ég meina, þú svona stór og sterkur verður að gæta að kröftum þínum“,

Rebbi hristi sig allan, svona eins og hann væri ekki alveg kominn í samband við sjálfan sig eftir höggið.

„Já, þú átt við það,-ég kom bara fljúgandi og danglaði í þig með öðrum vængnum.“

Örn var heldur skömmustulegur, hafði auðsjáanlega ekki ætlað að valda neinum skaða. –“Heyrðu! Kallaðu mig bara Össa“.

„Bíddu við“, Rebbi var heldur fúll,-„þú komst aftur og þá varstu með klærnar útglenntar á mig, hvað átti það að þýða?“ Hann var ekki sáttur við svona framkomu.

„Nú þannig fljúgum við alltaf niður að bráð,-ég ætlaði bara að dingla í þig með hinum vængnum.“ Örn hafði reist hausinn meira upp þegar hann sagði þetta eins og til að leggja áherslu á heiðarleika sinn.

„Hættu nú alveg,- detta ekki allar dauðar lýs af mér. –Dingla í mig.- Hjálpi mér allir vættir. Hvað næst?“ Rebbi var yfir sig hneykslaður.

„ Ertu með dauðar lýs,“ Össi var undrandi „ hvaða vætti hjálpa þér? “ Örn var eitt spurningamerki í framan.

„Sleppum þessu,-sleppum þessu.“ Rebbi sá að það hafði enga þýðingu að halda þessari umræðu áfram.

Hann íhugaði meðan hann mændi upp til arnarins, hvort hann næði að hlaupa upp til hans og glefsa í hann.-Svona í stríðni.– áður en hann næði flugi. En sá að það var of bratt til þess að það væri hægt.

„Hvar býrð þú, ég hef ekki séð þig áður.“ Spurði Rebbi forvitinn.„Ég bý hér, ég var hjá mömmu og pabba í fyrra, en verð að finna mér eigið svæði og líst vel á þennan dal.“ Örn bætti við, “ en þú hvar átt þú heima.“

Rebbi var orðlaus yfir þessari frekju. „Hægan, hægan, -vinur vors og blóma, -engan æsing hérna. ÞETTA er dalurinn minn.“

„ Vinur vors og blóma? -Já-, en ég er ekkert æstur. Getum við ekki báðir átt heima hérna,-þetta er stór dalur!“

Rebbi reyndi að vera sannfærandi.- „Nei, nei, nei. Nei.., það er sko aldeilis ekki. Hann er ekki stærri en svo, að ég á fullt í fangi með að ná mér í svanginn yfir daginn,-það er ekki eins og hér sé endalaus músarnýlenda.“ – – Hann var drjúgur með sig, þetta voru góð rök!

„Annað er að sjá, ég hef flögrað hér um í nokkra daga“´….. Rebbi greip fram í fyrir Erni…. “ Nokkra daga, ég hef ekki séð þig hér á flugi“.

„Ég flýg frekar hátt, en eins og ég ætlaði að segja, þá er þessi dalur mjög gjöfull að sjá, mikið af fiski í ánni og sérstaklega mikið af músum og fugli.“ Örn leit fráum augum kringum sig.

„Ha, nóg af fiski og músum?“ endurtók Rebbi, honum fannst þetta ekki passa. Þetta með fiskinn gat svo sem passað, það var nú ekki beint hans hæfileiki að sjá eða ná fiski úr ánni og þar var ansans minkurinn honum fremri. En mýsnar, hann hafi nú haft ansi mikið fyrir því að ná þeim.

Örn greip frammí fyrir Rebba, „ Ég skal semja við þig, ég hendi til þín nóg af fiski og músum, mér munar ekkert um það og þú hjálpar mér að fæla mófuglanna á loft af og til.“

Rebbi trúði ekki sínum eigin eyrum, –nóg af fiski og músum-, og bara fyrir að reka fugla á flug af og til, þetta var of gott til að trúa því.

Þar að auki var honum alltaf meinilla við að éta fugla. Það var vont að gleypa þetta fiður, – þess vegna mátti Örn eiga þessa fugla.

„Jaa, -já ég get fallist á það fyrirkomulag, EN dalurinn er minn.“ Rebbi sagði þetta ákveðinni röddu.

„ Dalurinn okkar áttu við“ Örn horfði á Rebba.  „Já,já dalurinn okkar“ Rebbi brosti svo skein í allar tennurnar, þetta var happadagurinn hans. „ Ég hleyp strax niður á láglendið og fæli nokkra fugla upp,-ertu tilbúinn.“ Rebbi var tekinn á rás áður en Össi gat svarað.

Print Friendly, PDF & Email