Rebbi refur og minkurinn Minki.

Rebbi ráfaði dag einn niður að ánni, hann hljóp við fót þefandi eins og venjulega. Þegar hann kom fyrir stóran klett, sá hann eitthvað hreyfast handan árinnar. Eitthvað dökkt á að líta var að skríða upp úr ánni. Hárin risu á kambi Rebba. Hann þekkti hvað þetta.. Þarna var minkur.

Rebbi læddist nær. Minkurinn var að hrista af sér vatnið og fengur hans, fallegur silungur lá á bakkanum.

Nú varð minkurinn var við Rebba. Hann pírði augunum á Rebba og hvæsti lágt, tilbúinn að grípa feng sinn og koma sér burt ef Rebbi gerði sig líklegan til að koma yfir ánna.

En það var óþarfa varkárni, áin var djúp þarna og Rebbi tók enga áhættu að reyna að komast yfir. Hann var ekki vel syndur og myndi bara berast niður með straumnum og komast yfir hana talsvert neðar og þá yrði minkurinn kominn langt í burtu.

„Þú ert að veiða hér á mínu svæði“ urraði Rebbi og sýndi tennurnar.

Minki var enn að meta aðstæður en virtist vera að komast að sömu niðurstöðu og Rebbi, að engin hætta var á að Rebbi kæmist yfir.

„Ha, þú ert ekkert að nýta ánna, ert ekki einu sinni almennilega syndur til þess,“ svaraði Minki hátt og með hæðnistón.

-„Svakalega er þessi gaur kokhraustur“,  hugsaði Rebbi, „ þú ert ekki í hænsnabúi núna, bíddu bara þangað til að ég næ í lurginn á þér.“ svaraði Rebbi reiðilega.

„A ha, segir hver? Mér sýnist nú þú vera gera það sama, þú vilt bara hafa þetta fyrir þig einan.“ svaraði Minki með sama tón og áður.

Það sauð á Rebba, – þvílík ósvífni í þessu kvikindi. Hann vildi ekki sýna minknum hvað þessi orð fóru í taugarnar á honum.

„Þú ert eins og ryksuga hér um fuglavarpið og étur ekki einu sinni það sem þú skemmir, með slíku framferði hætta fuglarnir að verpa hér og þá hverfur þessi matarkista. Þú verður nú að sjá fyrir afleiðingar gerða þinna áður en það er of seint.“ Sagði Rebbi mynduglegum róm.

Jú, Minki kannaðist við það að stundum missti hann stjórn á sér þegar hann sæi svona mikið af eggjum, hugsunin snérist bara um að bera nógu mikið heim í holu, til kellu sinnar og unga.

Hitt hafði hann ekki hugsað útí, -að þetta gæti haft áhrif á matinn á næsta eða þar næsta ári?

„Nei,“ sagði Minki, við erum nú ekki svo margir hér að það hafi áhrif.“

„Ekki MARGIR“, endurtók Rebbi, ÞIÐ eruð orðnir alltof margir og farnir að éta frá þeim sem fyrir voru hér í vistkerfinu“

„Hvað meinarðu með ÞIÐ, – vistkerfinu, hvaða?“ Minki pírði augun enn á Rebba.

„ÞIÐ, -þið, erlendu minkarnir, þið ryðjist út úr þessum búrum ykkar og vaðið á skítugum skónum yfir þá sem voru hér fyrir í dalnum og raskið öllu umhverfinu.“ svaraði Rebbi.

„Nei, heyrðu mig nú, -mín ætt er búinn að vera hérna frjáls í margar kynslóðir“, það þykknaði í Minka. „Hvenær kom þín ætt nú eiginlega hingað?“

Eftir þessari spurningu hafði Rebbi beðið lengi, -lengi,-lengi. „ Mín ætt nam land hér fyrir æfa löngu, við vorum fyrsta spendýrið sem nam hér land.“ svaraði Rebbi stoltur. Hana nú,- það var í þessum landnámsrétti sem hann talaði fyrir munn umhverfisins.

„Já, það getur vel verið að þið hafið verið fyrstir, -en hvað? Af hverju hafið þið ekki aðlagast betur? Spurði Minki.

Minka fannst hann þurfa að verjast, honum leið ekki eins vel og áður en hann hitti þennan Rebba.

„Hvað áttu við, – ekki aðlaðast? Þessi spurning koma Rebba á óvart.“

„Nú , þið eruð ekki góð í að nýta vötnin, árnar né hafið? Þið eruð varla synd. Mér sýnist að það sé nóg pláss fyrir fleiri til að nýta þessar matarkistur.

Minki bætti við. „Svo er það spurning hvort það gefur meiri rétt til lífsins, að hafa átt heima hér, í lengi eða styttri tíma.“

Rebbi geðjaðist ekki mjög að þessum rökum, jú það er rétt að hans ætt var ekki vel synd og nýtti ekki lagardýr að ráði. –Að eiga heima í lengri eða styttri tíma? Kannski skipti það ekki máli, meðan pláss var.

„Sko, aðalmálið er að ganga vel um landið“ sagði Rebbi yfirvegað.

„Jú,jú, alveg rétt“ jánkaði Minki ákaflega, hann fann að Rebbi var að viðurkenna hann.

„Heyrðu, Minki“ sagði Rebbi kumpánlega, „hvernig er með þessa minka með GULU augun, sem hafa verið að sleppa nýlega úr búrum. Eru þeir hættulegir, -með sjúkdóma og svoleiðis?“

„ Já það er ljóta dæmið, þeir koma hér inní umhverfið fullir af allskonar smiti, þeir geta verið lífhættulegir ef þeir blanda sér við þá stofna sem fyrir eru. Svo halda þeir sig saman í hópum, syngja meira að segja saman. Ég hef líka heyrt að þeir gangi illa um og troðfylli holurnar sínar af mat og svo úldnar allt þar inni og þá skipta þær bara um og flytja í stærri holu“

Minki var stoltur að geta sagt sínum nýja félaga einhverjar fréttir.

„Ussss,“ stundi Rebbi, „ljótt er að heyra, heyrðu annars við hittumst kannski hér oftar og spjöllum“.

„Já , endilega“ Minki greip silunginn í kjaftinn og lagði af stað heim í holu, glaður yfir því að hafa eignast þennan nýja vin.

Print Friendly, PDF & Email

Lokað er fyrir athugasemdir.