Rebbi refur og Tóta tófa.

Rebbi var að þefa slóð dag einn, -raunar eins og hann gerði alla daga.Eins og aðrir refir stoppaði hann af eðlisávísun öðru hvoru og þefaði upp í goluna og lagði við hlustirnar.

Allt í einu fann hann lykt sem gerði hann óstyrkan og óreiðan. Hvað var þetta? Annar refur? Rebba kannast eitthvað við lyktina, en kom henni ekki fyrir sig. Hann læddist að hól þar nærri og skreið uppá koll hans. Þaðan hafði hann útsýni í þá átt sem lyktin kom.

Hann svipaðist um, -jú þarna, – eitthvað mórautt ráfaði þarna um í þýfðum móunum, líklega í ætisleit. Rebbi hnusaði og hnusaði svo honum lá við köfnun af of miklu lofti. Rebbi hnerraði. Þefaði aftur. Jú, nú kom hún aftur þessi þefur, sem var svo sætur að honum fannst. Eins og áður kom óróleiki í hann og hjarta hans sló örar. Hvað var þetta?

Aldrei áður hafði honum liðið svona. Allt í einu hvarf öll varkárni , hann stóð sperrtur upp og gaf frá sér gól.

Um leið stoppaði þetta mórauða í móunum. Rebbi fylgdist spenntur með. Jú, þetta var refur. –Nei, -hann hristi hausinn til að koma þessu betur fyrir sig. Þetta var TÓFA. Hann stökk á stað í átt til hennar.

Hann vissi ekki fyrr en hann var komin til hennar, svona léttur á sé hafði hann ekki verið lengi.

Hún stóð og horfði á hann sínum stóru tófuaugum þegar hann var næstum búinn að hlaupa hana um koll. Hún hafði fylgst með honum á hlaupunum og séð að þar fór ungur og hraustur refur og hafði beðið spennt.

„Hæ“, sagði Rebbi, hann gat ekki sagt meira í augnablikinu móður og másandi. Svakalega var hún ung og flott. Hann reyndi að setja bringuna fram og skottið hærra.

„Hæ“ svaraði hún lágri þýðri röddu.

Honum svimaði, augun, svipurinn, feldurinn og svo þessi yndislega rödd. Öll önnur hljóð hurfu fyrir þessum dýrðlega ómi hennar.

„Hmm.. ertu, ertu ein á ferð,“ spurði hann varfærnislega, en flýtti sér að bæta við „ ég heiti Rebbi“. Hann svitnaði, hroðalega var þetta eitthvað vitlaust sagt hjá honum, hann ók sér vandræðalega.

„Já“ aftur hljómaði þessi þýðamjúki rómur. „Ég heiti Tóta tófa“.

Hjartað hamaðist í brjósti hans, -já, já ein, já, jÁAAA. Hann heyrði varla í sjálfur sér fyrir hjartslætti þegar hann spurði, „hvaðan kemur þú?“ Hann tiplaði í kringum hana.

„Ég kem héðan sunnan að, mamma rak mig að heiman og sagði mér að fara út í heim“ hún horfði sakleysislega á Rebba.

Rebba fannst hann heppnasti refur í heimi, að hitta Tóta tófu á undan öllum öðrum refum var merki um að forlögin voru honum hliðholl. Nú var það undir honum komið hvort hún yrði hans.

„Já einmitt, þessi fallegi dalur er minn, alveg frá fjöru til fjalls og hér er nóg að bíta og brenna. Ég á líka nokkur mjög góð greni, -á ég að sýna þér þau kannski?“

Nú var hann búinn að leggja öll spilin á borðið. Hver gat boðið betur?

„Takk, það vil ég gjarnan,“ hún varð glöð á svipinn. Hún hafði verið áhyggjufull síðustu daganna, hafði ekki hitt neinn ref. Nú var hún búin að hitta ungan ref með öll þessi hlunnildi.

Þetta gat ekki verið betra, betra en mamma hennar hafði sagt henni að búast við. Hún hafi sagt henni að nóg væri að eiga góðan ref, hitt kæmi af sjálfu sér.

„Ég á þrjú greni, við skulum kíkja fyrst á þetta hér í urðinni,“ hann tölti á stað og hún fylgdi við hlið hans.

Það tók mestan hluta dagsins að skoða öll grenin. Tóta hafði gert athugasemdir við öll grenin. Vildi breikka göngin eða dýpka og hækka holuna. Rebbi hafði skoppað í kringum hana allan tíma og jánkað öllu.

Hann sá fyrir sér nokkra daga vinnu í þessum breytingum.

„Viltu þá fara að búa með mér“ stundi Rebbi upp, utan við síðasta grenið.

Tóta brosti undurblítt „Rebbi, ég held það bara, grenin verða góð þegar búið er að laga þau.“ Hún hallaði undir flatt, svona til að gera sig fallegri.

Rebbi var við það að falla í yfirlið af sælu,-en hristi sig allan til að ná sér aftur inní veruleikann.

„ Ég byrja strax á morgun að laga þau.“- Heyrðu Tóta mín, ég á eitthvað hér að éta, ertu ekki svöng?“

„Ég er alveg banhungruð, hef ekki borðað í marga daga.-Hvað áttu til?“

„Hvað segirðu, ekki í marga daga.- Hvað er að heyra!“ Rebbi var alveg hissa. „Af hverju“.

„Æi, ég er svo lélega að veiða.“-„Hvað áttu?“

„Ha, -já, ég á hmmm“ –hvað geymdi hann nú í forða? –Hann mundi það núna„ „Já, ég á nokkrar mýs og svo á ég fínan silung, viltu hann?“

Hún horfði á hann döpur. „Æi, ..ég borða ekki fisk,..og mér finnast mýs vondar, mig flökrar af þeim.“ Hún andvarpaði.

Rebbi var alveg hissa..og miður sín. Hann átti ekkert til fyrir hana. En hann var ekki af baki dottinn, „ Hvað finnst þér gott ljúfan?“ spurði hann mjúklega.

„ Æi þakka þér fyrir hugulsemina,-mér finnast fuglar og egg best,-og svo er ég mikið fyrir ber á sumrin og haustin.“

Rebbi fékk fiðurbragð í munninn og ber,-það yrði seinlegt að bera mörg ber í kjaftinum langar leiðir.

„Sjálfsagt mín kæra, ég skal fara strax í að ná í fugl eða egg, ekki viljum við hafa þig svanga.“ Hann hljóp á stað.

Print Friendly, PDF & Email