Reiknuð eða raunveruleg verðbólga?

Í hagfræði er verðbólga skilgreind sem almenn verðhækkun á vöru og þjónustu sem er meira en vöxtur efnahagslífsins og verður gjarnan til vegna aukins peningaframboðs sem veldur aukinni neyslueftirspurn í efnahagskerfinu.  Handhægasta aðferðin til að mæla verðbólgu er að kanna breytingu á meðalverði vöru og þjónustu í neyslukörfu sem endurspeglar neyslusamsetningu heimilanna.

Hagstofan birtir þessar verðbreytingu mánaðarlega í Vísitölu neysluverðs (VNV) sem er verðbreyting á á neysluútgjöldum heimilinna í landinu. Þessi neysluútgjöld eru síðan uppistaðan í svokallaðri „Einkaneyslu“ sem er hluti landframleiðslu og mælikvarði á hagvöxt í landinu. VNV er jafnframt, samkvæmt lögum, notuð til verðtryggingar á lánum og er eitt helsta tæki Seðlabankans til vaxtaákvarðana.

Gögn Hagstofunar um heimilin.

Bankahrunið var einstakur atburður sem leiddi til mikilla verðhækkana á innfluttri vöru og ýmissi innlendri þjónustu vegna hækkana skulda opinberra sem annarra þjónustufyrirtækja. Mæling Hagstofunnar á verði vöru og þjónustu í útgjaldakörfu heimilanna sýndi  57% hækkun á tímabilinu 2008-2011.

Gögn Hagstofunnar sýna einng að heimilin brugðust hart við þessum verðhækkunum með miklum samdrætti í flestum útgjöldum sínum á þessum árum. Þessi magnsamdráttur var slíkur að nemur nærri einni ársneyslu (-70.2%) á þessum fjórum árum (Tafla 1).

TAFLA 1-

Vísitala neysluverðs og verðbólgan.

Hækkun VNV á þessu árabili nam 38% eða talsvert minna en verðlag, sem skýrist aðallega af lækkun húsnæðisliðar í vísitölunni (reiknuð húsaleiga). En Hagstofan gerir fleirra en að mæla verðlag. Hún gerir reglulegar kannanir á raunverulegum útgjöldum heimilinna og þar kemur samdráttur heimilanna í neyslu fram. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun á verðlagi höfðu útgjöld heimilinna einungis hækkað um 12 % á þessum fjórum árum (Tafla 2.), sem er í takt við meðalhækkun launa á þessum tíma:

Neysluútgjöld heimila kr.

2007    4.755.778

2008    5.114.474

2009    5.471.049

2010    5.302.474

2011    5.321.540

Hvernig stendur á þessum mismun á milli hækkunar VNV og hækkana raunverulegra útgjalda heimilanna? Jú, ástæðan er sú að VNV er byggð þannig upp að hún mælir einungis verðbreytingu á vörum í neyslukörfunni en ekki magnbreytingu.

Tafla 2

Þessi úreikningur á verðbólgu gefur ranga mynd af efnahagslegum raunveruleika frá hruni. Þessi vísitala er ekki að mæla aukna eftirspurn almennings eftir vörum, hún mælir einungis verðhækkanir, m.a. vegna gengisfalls krónunar og hækkanna opinbera aðila á gjöldum og sköttum en tekur ekki tillit til mikils neyslusamdráttar almennings. Hún er því er ekki verðbólga í hagfræðilegum skilningi heldur einungis tilbúin „kreppuverðbólga“.

Misnotuð vísitala til bjargar fjármálakerfinu.

Ef þessar mælingar Hagstofunar væru aðeins sagnfræði skiptu þær engu máli, en það alvarlega er að þessi sýndarverðbólgumæling er notuð samkvæmt lögum til verðtryggingu lána. Öll verðtryggð lán í landinu hækkuðu um 38 % frá 2008 og fram til loka 2011, eða um 600 milljarða á lánum til heimila og fyrirtækja.

Miðað við hvernig lánin skiptast (Tafla 3) hefur verðtryggingin fært bönkunum um 160 milljarða, Íbúðarlánasjóður 235 milljarða og Lífeyrissjóðir 50 milljarða. Samtals 445 milljarða sem hafa bæst við skuldir heimila án þess að þau hafi á nokkurn hátt skapað þær skuldir með aðgerðum sínum. Slík lögbundin eignartilfærsla frá almenningi án verðmæta á móti er líklega einsdæmi í veröldinni.

 

TAFLA 3

VNV er jafnframt helsta tæki Seðlabankans við vaxtaákvarðanir og reglulega heyrir almenningur hvernig Seðlabankinn vitnar til verðbólgunar og hækkar jafnvel vexti til að „slá á þensluna“ þrátt fyrir samdrátt í þjóðarframleiðslu þrjú ár í röð. Einnig er vitnað í VNV í tíma og ótíma sem afsökun fyrir hækkun á vörum og þjónustu sem hefur hækkað langt umfram gengisfall krónunar.

Útreiknað óréttlæti.

Núverandi stjórnvöldum var ljóst hverjar afleiðingar verðtryggingar við þessar aðstæður yrðu og ákváðu af yfirlögðu ráði að leggja þennan kostnað á almenning til að byggja upp eigið fé nýju bankanna, bæta tap lífeyrissjóðanna og slæma stöðu Íbúðarlánasjóðs í von um að hækkun fasteignamarkaðarins á ný muni laga neikvæða eignastöðu skuldara og þeir tækju þessu sem hverju öðru hundsbiti.

Þessi sýndarverðbólga mælir ekki raunveruleg efnahagsleg verðmæti í samfélaginu, er úr takti við aðra þætti efnahagslífsins og hefur í raun  viðhaldið kreppunni í samfélaginu. Hún er lögleidd séríslensk sjálfvirk seðlaprentun fyrir fjármagnseigendur á kostnað skuldara og hrein eignarupptaka án endurgjalds. Kynslóðin sem á að byggja upp samfélagið næstu áratugina er sett í spennitreyju skulda. Stjórnmálamenn sem sjá ekki hver áhrifin verða á samfélagið eru óhæfir til að leiða efnahagslífið úr þessu öngstræti. Þessa hringavitleysu verður að stöðva og leiðrétta þessa tilfærslu ímyndaða fjármuna.

 

Print Friendly, PDF & Email