Stjórnarskránni þarf að breyta.

Úrtöluraddir.

„Af hverju þarf að breyta stjórnarskránni þó einhverjir bankar hafi farið á hausinn? Svona er spurt í  Morgunblaðinu. Ef fólk er ekki  blint á samfélag sitt, sér það þörf á breytingum eftir það sem undan er gengið. Krafa almennings er skýr, kannanir og tveir Þjóðfundir sem blaðið gerir lítið úr, sýna það ljóslega. Sagan mun dæma þá blindu.

Sú upplausn sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins birti okkur skýrt þá galla á samfélaginu sem flokksræðið íslenska hafði skapað. Þess vegna vaknaði krafa um breytingar og ásæknar spurningar. -Hvernig breytum við þeirri siðspillingu stjórnmálanna sem byggðist á vinarvæðingu og fóstbræðralagi við hagmunaöfl í áratugi? – Hvernig komum við í veg fyrir að flokksforingjaræði tröllríði íslenskum stjórnmálunum ?  Er hægt að koma í veg fyrir lagasetningu tæps meirihluta á Alþingi sem stríðir gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar?  – Hvernig komum við í veg fyrir að minnihluti Alþingis sé alltaf áhrifalaus? Þetta og margt annað sem hefur skert lýðræðið þarf að íhuga og laga.

Andi stjórnarskrárinnar.

Fólk íhugar hvaða gildi ráði og knýi áfram gott samfélag . Það hugsar ekki í lögfræði heldur í hugsjónum og í gildum, það vill sjá lýðræðið í verki.  Sautján Evrópuþjóðir hafa endurskoðað stjórnarskrár sínar á síðustu áratugum, meira en við höfum gert og flestar á síðustu 30 árum.  Í flestum þeirra eru þau meginstef og gildi sem Þjóðfundir hafa nefnt. Í þeim eru mun þroskaðri ákvæði um lýðræðið og virkni þess, en er í þeirri stjórnarskrá sem kóngurinn gaf okkur.

Vonandi skynjar þjóðin þetta tækifæri til að setja sér framsækin samfélagssáttmála. Hún getur stutt kröfur sínar um breytingar á samfélaginu með því að taka þátt í kosningu til Stjórnlagaþings, og velja fulltrúa sína til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld og Alþingi þurfa aðhald. Lýðræðið þarf að treysta í sessi. Ný ákvæði um mannréttindi, umhverfi , auðlindir og fullveldi þurfa að koma í stjórnarskránna.

Print Friendly, PDF & Email

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *