Þór og Loki í Jötunheimum

Grímur Óðins  (Masks of Odin)

Elsa-Brita Titchenell

14. Þór og Loki í Jötunheimum

Þessi skemmtilega saga hefur eflaust glatt einfalda áheyrendur. Hún er augsýnilega um atburð í jarðarsögunni þegar frostvindar ríktu, ásamt lækkandi vatnsborði, þegar ísar norðurskautsins færðust yfir meginlandið og tóku upp meira af vatni hnattarins. Á sama tíma varð breyting á stöðu Miðgarðsormsins — miðbaugsins, eða minnsta kosti halla Vetrarbrautarinnar. Það er engin vafi á að atburðurinn fjallar um ísaldarskeið, en hvaða ísöld er spurning.
Þessi þula hefur mikil líkindi með Hymir þulu (í næsta kafla) þar sem fjallað er um leit guðs að suðukatli. Í báðum þulunum efnir Loki til verknaðar sem vekur reiði Þórs við þann óheppna sem framdi verknaðinn, bóndasoninn — þann minni hring — sem braut beinið.
Eins og í Vafþrúðnismálum heimsóttu Þór og Loki jötnaheim, en það lýsir misskilningnum sem vitundin verður gjarnan fyrir í jötnaheimum. Við skynjum ekki hlutina eins og þeir í raun eru, allar vitundir, líka þær guðlegu, virðast slegnar glýju, sem er einkenni um að eiga tilveru í efninu.

15 Kafli

Efnisyfirlit

________________________________________
Þór og Loki í Jötunheimum   -Úr yngri Eddu.

Einu sinni gekk ísöld yfir lönd og eyðilagði uppskeru og drap menn og dýr. Þór, ásamt Loka, gerðu ferð til að kvarta við jötuninn Hræsvelg, sem í gervi arnar skapar frostavinda yfir Miðgarð með vængjaþyt sínum. Þeir höfðu að sjálfsögðu tekið á sig aukakrók þar sem, eins og vitað er, vagn Þórs gat ekki farið yfir regnbogabrúna Bifröst, sem tengdi heim manna og guða, því eldingar vagnsins myndu kveikja í brúnni. Þeir fóru því yfir elfuna Efi sem var við mörk þessara heima, anda og efnis.
Í Miðgarði gistu þeir og nutu gestrisni fátæks bónda sem átti tvö börn, Þjálfa og Röskvu. Til að gjalda fyrir viðurgjörninginn slátraði Þór tveimur geithöfrum sínum, Tanngnjóstri og Tanngisni, sem drógu vagn hans. Hann bað gestgjafa sína að leggja beinin varlega óbrotin á húð þeirra að veislu lokinni. Meðan á veislunni stóð hvíslaði Loki að bóndasyninum að hann ætti að bragða á merg beinanna, sem hann sagði að hefði galdraeiginleika. Bóndasonurinn gerði eins og Loki sagði og braut bein til að sjúga merginn. Um morguninn lífgaði Þór skepnurnar við með því að slá hamri sínum á húð þeirra og sá þá að annar þeirra var haltur. Í ofsabræði hótaði þrumuguðinn að eyða allri fjölskyldu bóndans, en gamli maðurinn friðaði guðinn með því að bjóða honum börn sín sem þjóna hans. Varð úr að Þjálfi (hraði) fylgdi goðunum á ferð þeirra, en Röskva (ljós/vinna) varð eftir og beið komu þeirra til baka.
Nótt eina á ferð þeirra gistu þeir í undarlegum híbýlum sem í voru tvö herbergi, annað þeirra var mun stærra. Vegna mikilla hljóða í stærra herberginu færðu þeir sig í minna herbergið. Um morguninn er þeir risu á fætur og litu út sáu þeir að mikill risi svaf rétt fyrir utan, -húsið var hnefi hans og hávaðinn hrotur hans. Við hlið hans lá matarskjóða hans og þar sem þeir voru hungraðir reyndu goðin tvö að opna skjóðuna, en jafnvel Þór gat ekki leyst hnútinn á skjóðunni svo hann ákvað að vekja risann. Þrisvar sló hann hamrinum í höfuð risans en risinn rumskaði aðeins og muldraði eitthvað um flugur, en vaknaði ekki. Goðin hungruðu urðu á brott. Upp frá þessum degi urðu til þrír dalir sem klufu fjallið þar sem risinn svaf.
Að lokum náðu þessir tveir Æsir og Þjálfi að konungsríki jötnanna, en konungur þeirra var Útgarðaloki. Hér urðu goðin að leysa fjölmargar þrautir. Fyrstur þurfti Þjálfi að keppa í hlaupi við fráasta jötuninn og tapaði illilega. Næst var Loka, sem nú var orðinn verulega hungraður, boðið að keppa í áti við hvaða jötunn sem var. Hann tapaði líka, þó þeir hafi verið jafnir í að klára, því jötuninn hafði einnig étið trogið með matnum. Þór bauðst til að tæma hvaða drykkjarhorn sem væri, en hann tapaði einnig þegar honum tókst aðeins að drekka lítið borð á risatunnuna sem honum var færð. Næst var honum boðið að lyfta ketti jötunsins. Móðgaður að vera boðið svo auðvirðulegt verk gekk hann að kettinum en fann fljótlega að hann gat ekki meira en lyft einni loppu kattarins. Næst var honum boðið að glíma við hvaða jötunn sem var og honum mætti brosandi eldri jötnakerling og fljótlega í glímunni kom hún þrumuguðinum niður á annað hnéð.
Að loknum þessum óvirðulegu ósigrum var goðunum boðið að snúa til síns heima, í fylgd gestgjafa sinna hluta leiðarinnar,- sem — þegar þeir voru örugglega komnir úr jötunheimum — útskýrðu þær blekkingar sem þeir voru beittir. Þó Þjálfi hefði hraða eldingar þá gat hann aldrei haft við andstæðingi sínum, sem var Hugsun. Andstæðingur Loka var eldurinn sem ekki aðeins gleypti matinn heldur einnig trogið. Hornið sem Þór gat ekki torgað var Hafið, en jötnaheimur skalf þó af hræðslu því vötn höfðu lækkað verulega er hann drakk. Kötturinn var í raun Miðgarðsormurinn, Jörmundgandur, sem Þór hafði fært úr stað og gamla jötnakerlingin var Ellin, sú gamla öld sem fellir alla, jafnvel Æsa, þegar tíminn kemur.
Þegar Þór mun ljóstra hamri sínum í ógnarreiði til að hefna fyrir þessar blekkingar, 1mun hvorki sjást til gestgjafa hans né neinna borga á þeirri flatneskju sem mun teygja sig endalaust í allar áttir.
________________________________________

 

 15. Kafli

Efnisyfirlit

Print Friendly, PDF & Email