Tíund tekin upp á Íslandi.

Hver var uppruni og ástæða skattsins?

Sigurbjörn Svavarsson

Gissur biskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverra maður annarra, þeirra er vér vitum hér á landi hafa verið. Af ástsæld hans ok tölum þeirra Sæmundar (fróða), með umburði Markúsar lögsögumanns, var það í lög leitt, at allir menn töluðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvort sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Það eru miklar jarteignir (undur), hvað hlýðnir landsmenn voru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, það er á Íslandi var, ok landið sjálft ok tíundir af gerðar ok lög á lögð, at svo skal vera, meðan Ísland er byggt………. En hann hafði áður látið telja búendur á landi hér, ok voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil, en í Rangæingafjórðungi tíu, en í Breiðfirðingafjórðungi níu, en í Eyfirðingafjórðungi tólf, en ótaldir voru þeir, er eigi áttu þingfararkaupi að gegna um allt Ísland.“ Íslendingabók Ara.

Að baki þessum undrum og stórmerkjum að mati Ara, var sú vissa hans og staðreynd að þar sem þetta hafði verið reynt varð mikill mótstaða bænda víða um lönd, svo mikill að uppreisnir urðu og konungar drepnir. Ástæðan fyrir auðveldri innleiðingu fyrsta skattsins á Íslandi var samspil höfðingja landsins og biskups.[1] Annarstaðar voru það konungar sem innleiddu tíundina og þar var hún meira íþyngjandi en hér á landi í upphafi. En að biskup gæti innleitt hana hér á landi var fyrst og fremst sú að íslenskir höfðingjar sáu sér hag af þessum skatti á bændur. Þrír fjórðu hlutar hans yrðu eftir hjá þeim í héraði en fjórðungur rynni til biskups.

[1] „Tíund skiptist hjer í fjóra hluti: Kirkjuhlutur, prestshlutur, fátækra hlutur og byskups hlutur. Þeir höfðingjar, sem kirkjur áttu og hjeldu presta, fengu haldið þremur hinum fyrst nefndu fjórðungshlutum, en urðu að skila byskupstíund. Hvatti þetta fyrirkomulag þá til þess að efla kirkjur sínar að eignum, en kirkjufje var undanþegið tíund. Höfðingjar gátu þannig eflt kirkjur sínar til stóreigna og sparað sjálfum sér tíundargjald, en fóru með eign alla og rjeðu henni. Hvorki máttu þeir rýra hana að verðgildi né skipta henni. Kristnirjettur sá, er hér var í lög leiddur á fyrsta þriðjungi 12. aldar, breytir í engu þessari skipan. Á hana fór fyrst að reyna, er Þorlákur helgi hóf upp kröfu um forræði kirkjueigna á síðasta fjórðungi 12. aldar.“  https://www.snorrastofa.is/reykholt/reykholtskirkja/kirkjusaga.

Tilurð tíundarskattsins.- Tilskipun frá Páfanum í Róm

Tíundargjald eða skattur á sér langa sögu í kristninni. Í frumkristni var Móses lögunum hafnað, en þegar Rómarkristnin náði undirtökunum gekkst hún undir áhrif Rómarkeisara og 585 tók kirkjuráðið í Macon upp tíund og fylgdi þeirri ákvörðun að kristnir menn sem ekki greiddu tíund yrðu bannfærðir. Þegar haft er í huga að tíundin var ákvörðuð sem afrakstur af afurðum jarðar, var það því í samræmi við Móseslög og gekk því gegn „gjöf frjáls vilja“ Nýja Testamentisins. Gamli sáttmálinn var því tekinn upp í stað Nýja Sáttmálans að þessu leiti.

Tíund gamla sáttmála var alltaf greidd með afurðum jarðarinnar, en Rómaverskir biskupar og keisarar ákváðu að nýja tíundin skyldi greiðast sem andvirði afurða með manngerðri afurð, peningum. Smásaman breiddist þessi regla út með kristniboðum í Evrópu þar til Pepín III. konungur Karólínska ríkisins og faðir Karlamagnúsar keisara, sem réði stórum hluta V-Evrópu, ákvaðaði með bréfi til allra biskupa árið 765 að tíund væri lögleg og opinber aðgerð.

Þegar Karlamagnús sigraði Saxa og Frísa heimilaði hann innheimtu tíundar til biskupa á öllu svæðinu árið 788. Á valdatíma Lúðvíks hins „guðrækna“ konungs Frankaveldis og meðkeisara hins heilaga rómverska ríkis ásamt föður sínum Karlamagnúsi, skipaði hann að tíundin væri reiknuð af ávöxtum jarðarinnar og af búfénaðar, en breytileg. Greiðsla gæti farið fram í peningum eða í vinnu og gengi öll til kirkjunnar. Refsingin fyrir vanskil gæti varðað missi jarðnæðis.

Edmund I. Englandskonungur (939-946) lögleiddi tíund í Englandi og Játvarður góði, konungur Englands frá 1042 til 1066 er yfirleitt talinn síðasti konungurinn Saxa herti á tíundarlögum [2]


[2] „ Af allri uppskeru skal greiða hinn tíunda hluta til heilagrar kirkju. Ef einhver á hestahjörð, þá greiði hann tíunda folann; sá sem á einn eða tvo hesta skal gjalda eyri fyrir hvern fola; sá sem á margar kýr, tíundi kálfurinn; sá sem á einn eða tvo, obole fyrir hvern; og ef hann gjörir ost úr mjólk þeirra, tíunda ostinn eða tíunda dagsmjólkina. -Tíunda lamb, tíunda sauðaskinn, tíundi ostur, tíundi hluti smjörs, tíundi svín; úr býflugum, eftir því sem þær búa sér til í eitt ár; einnig úr skógum, engjum, vötnum, myllum, görðum, varnargörðum, fiskveiðum, kjarri, görðum, verslun og af öllu þvílíku, sem Guð hefur gefið, skal tíunda skila; og sá sem neitar, með réttlæti konungs og heilagrar kirkju, ef þess þarf, skal neyddur til að borga. Heilagur Ágústínus hefir áður sagt þessa hluti, og hafa þetta verið veitt af konungi og staðfest af barónum og fólki; en síðan, fyrir hvatningu djöfulsins, neituðu margir og prestar, sem voru ríkir og ekki mjög varkárir að krefjast þeirra, fóru þannig að verða fátækir; því víða eru nú þrjár eða fjórar kirkjur þar sem áður var aðeins ein.“ https://sourcebooks.fordham.edu/sbook1j.asp#The%20Church%20and%20the%20Economy

Vilhjálmur I. innheimti tíundir, en deildi þeim sjálfur til kirkjunnar innanlands, hann innheimti að auki sérstakan skatt sem kallaður var „skattur Heilags Pétur“, sem rann beint til Páfans í Róm, einskonar yfirlýsingu um að konungur réði kirkjunni, en ekki páfinn.

Jón Jóhannesson segir frá því í Íslandssögu I. Þjóðveldisöldin, að tíund hafi ekki verið tekin upp í Noregi fyrr en rúmum 20 árum síðar en á Íslandi, en engar skjalfestar heimildir er fyrir tíund í Noregi fyrr en árin 1130-40, og þá gætu menn ætlað að Tíundarlögin íslensku hafi verið fyrirmynd þeirra norsku. En svo var ekki, tíundarskattur hafði verið settur á nokkru fyrr í Danmörku af Knúti IV. konungi en hér á landi, en olli slíkri reiði og andstöðu bænda að þeir gerðu uppreisn og drápu konung 1086 vegna málsins og tíund komst ekki aftur á fyrr en árið 1120. Einnig átti að setja slíkan skatt í Noregi en vegna andstöðunnar við því dróst það til framyfir árið 1130 og aðrar heimildir segja 1150[3]. Í Svíþjóð komst hún ekki á fyrr en seint á 12. öld.

[3] THE CHRISTIANISATION OF ICELAND PRIESTS, POWER AND SOCIAL CHANGE 1000-1300 By Orri Vésteinsson bls 100.

Íslensku tíundarlögin.

 Af þessu má sjá að að kirkjuyfirvöld í Evrópu, hvöttu til slíkrar skattheimtu til að efla kirkjuna í samvinnu við konunga[4] í þeirri þróun sem átti sér stað í tvískiptingu hins andlega og veraldlega valds, sem stórefldi kirkjuna á Vesturlöndum og þaðan hafi hvatinn komið til verksins, ekki síst til að styðja við uppbyggingu kristninnar á Íslandi.


[4] „Fræðimenn greinir nú almennt ekki á um að réttarsaga miðalda sé sameiginleg öllum Vesturlöndum. Samkvæmt þeirri sýn varð vestræn lögfræði til sem fræðigreinum aldamótin 1100 þegar rannsóknir hófust við háskólann í Bologna á þá nýfundnum lögum Jústiníanusar Rómakeisara (527–565). Þau lög eru undirstaða Rómaréttar og ..– ásamt kirkjulögum. Talið er að á tólftu öld hafi rannsóknir í hinum nýju háskólum álfunnar skapað sameiginlega réttarhefð í ríkjum Vestur-Evrópu, með úrvinnslu úr hinum veraldlega Rómarétti og kirkjurétti sem þá var að verða til…

 „ ..Í fyrsta lagi var almenna kirkjan alþjóðleg stofnun á síðmiðöldum sem varð leiðandi í stjórnmála- og lagaþróun á tólftu öld. Í öðru lagi urðu þær breytingar í beinu samhengi við keisara- og konungsvald. Þess vegna er brýnt að kirkjan sé könnuð í samhengi við veraldarvald og öfugt.19 Enn fremur verður kirkja á Íslandi, og raunar önnur pólitísk þróun á síðmiðöldum, ekki skilin til fullnustu nema hún sé rannsökuð í samhengi við kirkjusögu Vesturlanda og stofnunina sem almenna kirkjan var. Á miðöldum var gert ráð fyrir einni kirkju í Vestur-Evrópu og þess vegna er vísað til hennar með hugtakinu kirkjan og þarf ekki að taka fram að hún var kaþólsk. .. Stofnunin byggði því upp stjórnkerfi til þess að halda utan um hugmyndakerfi sem smám saman var innleitt um öll lönd álfunnar. Stofnunin var því eins konar kerfi í eigin rétti með stjórnunarmarkmið sem breyttust ekki í neinum aðalatriðum frá síðari hluta tólftu aldar. Þess vegna eru heimildir frá kirkjunni samræmdar og sambærilegar hvaðan sem þær koma. Þrátt fyrir einhvern svæðisbundinn mun á lögum og skipulagi voru embættin, sem bjuggu heimildirnar til, sambærileg frá einu landi til annars, sem og lög og hugtakanotkun… Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur


Gissur Ísleifsson ( 1042-1118) var biskup Íslands, annar í röðinni, sonur fyrsta biskups Íslendinga Ísleifs Gizurarsonar (fæddur 1006- dáinn 5.7.1080) sem varð biskup í kjölfar Kristnitökunnar árið 1000. Hann var nafni og sonarsonur Gissur hvíti Teitsson eins helsta leiðtoga kristinna manna við kristnitökuna og sem hafði tekið skírn af Þangbrandi Erkibiskup sem Ólafur Tryggvason hafði sent til kristniboðs á Íslandi.

Gissur lærði á Saxlandi eins og faðir hans, en Gissur Teitsson afi hans hafði fylgt Ísleifi til Saxlands til mennta í Herford. Gissur Ísleifsson var vígður prestur á unga aldri. Hann ferðaðist mikið til útlanda og þau hjón fóru bæði í suðurgöngu til Rómar. Hann var erlendis 1080, þegar faðir hans dó en kom heim sumarið eftir og var þá valinn biskup. Gissur fór til Saxlands að taka vígslu en þá hafði erkibiskupinn þar verið sviptur embætti. Hann fór þá til Rómar á fund Gregoríusar páfa 7, sem sendi hann til Hardvigs erkibiskups í Magdeburg og þar fékk hann vígslu 1082. Hann var þá fertugur að aldri. Hann settist að í Skálholti þegar heim kom.

Um tilurð laganna er sagt að Gissur hafi gert Tíundarlögin með Sæmundi fróða[5] og með samþykki Markúsar Skeggjason [6] lögsögumanns d. 1107. Gissur hefur eflaust  leitað aðstoðar Sæmundar fróða Sigfússonar, goðorðamanns og prests og eins áhrifamesta höfðingja landsins og eins best menntaða íslendings á þeim tíma.

Hér er rétt að staldra við í ljósi þess að í Evrópu voru það konungarnir sem komu tíundinni á og skipuðu fyrir innheimtu hennar, yfirleitt var hún reiknuð af verðmæti landbúnaðar eða búfénaðs og gekk beint til og var innheimt af kirkjunnar mönnum.  Gissur var helsti frumkvöðullinn að tíund yrði lögtekin á Íslandi og hefur eflaust fengið hvatann um að koma tíundinni á frá Erkibiskupi í Magdeburg, en útfærsla og skipting tíundarinnar varð með öðrum hætti en í öðrum löndum.[7]


[5] Fyrir utan að standa að Tíundarlögunum 1096, stóð Sæmundur með biskupunum Þorláki Runólfssyni og Katli Þorsteinssyni að setningu Kristniréttar hinn eldri árið 1123.  En Özur (Aserus) erkibiskup í Lundi er talinn frumkvöðull að því að saminn (ritaður) var hin forni Kristni réttur fyrir Ísland[1]. Sæmundur kom víðar við og var m.a. einn ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og Ari bar bókina undir hann þegar hann var búinn að skrifa hana. Oddur Snorrason munkur vísar einnig í rit Sæmundar í Ólafs sögu Tryggvasonar og einnig er vísað í hann í Landnámabók.

[6] Markús þótti mjög fróður og lærður og var einn af heimildarmönnum Ara fróða, sem segir að hann hafi sagt sér ævi allra lögsögumanna sem greint er frá í Íslendingabók, „en honum sagði Þórarinn, bróðir hans, ok Skeggi faðir þeirra, ok fleiri spakir menn til þeirra ævi, er fyrr hans minni voru, að því er Bjarni inn spaki hafði sagt, afi þeirra, er mundi Þórarinn lögsögumann ok sex aðra síðan.“

[7]„Jafnt leikir sem lærðir byggðu hugmyndir sínar á þeirri réttarhefð þegar lagður var nýr og langvarandi lagagrundvöllur í ríkjum Vestur-Evrópu á tólftu og þrettándu öld. Hvorki Ísland né önnur norræn ríki eru undanskilin þessari hefð þótt kirkjurétturinn sé yfirleitt talinn hafa verið meira mótandi en Rómaréttur í lagaþróun þeirra landa. …Kristinrétturinn vann að sömu markmiðum alls staðar og yfirleitt var ekki gefið eftir varðandi mikilvæg atriði á síðmiðöldum. Tíundarlög íslenska kristinréttarins virðast þó dæmi um það en fyrir því mun hafa fengist undanþága hjá páfa að okur væri skilgreint með sérstökum hætti á Íslandi því að samkvæmt almennu skilgreiningunni flokkaðist tíundarheimtan á Íslandi undir okur. Fleiri undantekningar eru á því að lagagreinar séu í samræmi við almennu kirkjulögin og þar má nefna nokkrar undanþágur vegna náttúrlegra norðlægra aðstæðna og fámennis. Miklu skiptir þó að í öllum þeim tilvikum þar sem undanþágur eru gerðar eru til heimildir fyrir því að páfi hafi veitt undanþáguna.      

Þegar Tíundarlögin voru lögð fram var látið líta svo út sem hún væri gjöf af frjálsum vilja og í Grágás er orðalagið að gefa tíund, þannig var gefið í skyn að hún væri í anda Nýja Testamentisins, og þannig breytt yfir hana sem skyldu, sem yrði refsað fyrir ef hún yrði ekki greidd. Þannig var Mósestíundin komin til Íslands.

Skiptingin á íslensku tíundinni í fjóra staði, ¼ til fátækra, ¼ til kirkjubyggingarinnar sjálfrar, ¼ til uppihalds prests og ¼ til biskups, var ekki eins og annars staðar. Hvaða ástæður voru fyrir því? Eflaust þær að biskup þurfti að semja við höfðingja landsins um að koma henni á. Erlendis fór öll tíundin til biskupdæmanna, af þeim voru reistar kirkjur og þeim viðhaldið, laun presta og annarra greidd og hefð fyrir því að kirkjan sinnti fátækum, og biskupar sjálfir þurftu sitt. Á Íslandi voru aðstæður aðrar, fáar kirkjur, fáir þjónandi presta, nema höfðingjar á nafninu til og biskupembættið fátækt. Niðurstaða biskups og höfðingjanna hlaut því að verða sú að höfðingjar og biskup skiptu hagsmunum, höfðingjar tóku prestvígslu og reistu kirkjur á höfuðbólum sínum, og tryggðu sér þannig hálfa tíundina, fyrir presta og kirkju, sem þeir þurftu 100 árum síðar að láta þær af hendi.[8] Biskup hafi samkvæmt lögunum vald til að ákveða hvaða kirkja hlaut vígslu.  Biskup hefur væntanlega ekki fallist á að höfðingjarnir (prestarnir) innheimtu tíundina hjá bændum og höfðingjarnir ekki heldur að biskup eða hans menn innheimti tíundina og hvorugur yrði þannig háður því að ná því af hinum. Þá hafi niðurstaðan verið sú skynsama leið að hreppstjórar, fulltrúar bænda, greiðendur tíundarinnar, innheimtu tíundina að fullu og greiddu til kirkju, prests og biskups, en héldu ¼ fátækrahlutnum í hreppnum til framfærslu fátækra, það gat verið hagur bænda að jafna framfærsluna út á alla bændur í hreppnum. Þannig varð niðurstaðan eins og hún birtist í Tíundarlögum og ákvæðum Grágásar. Aðkoma Sæmundur fróði kann að hafa verið sem tengiliður höfðingja og hugsanlega hafi svo Markús lögsögumaður, fulltrúi þings og bænda komið að þessu til samþykktar á Alþingi. Lögin náðust svo fram á Alþingi árið 1097, fyrst Tíundarlaga á Norðurlöndum eins og getið er hér að framan.


[8] “ Vegna þess að kirkjur voru undanþegnar tíundargreiðslum gáfu bændurnir, sem ávallt voru höfðingjar, þessum kirkjum hluta annarra eigna sinna og losnuðu þannig við að greiða tíund sjálfir af þeim eignum. Almenningi var hins vegar skylt að greiða tíund til kirkna og hluta hennar héldu höfðingjarnir fyrir sjálfa sig. Þannig spöruðu þeir sjálfum sér ekki aðeins tíundargreiðslur, heldur fengu þeir og tíund frá öðrum í sinn vasa. Afkomendur þeirra erfðu kirknaforræðið eins og aðrar eignir og höfðu kirkjur þannig gengið mann fram af manni í margar kynslóðir. Það var einmitt vegna þessara hentugleikagjafa, sem bændur höfðu í raun talið sig vera að gefa sjálfum sér, að upp kom óánægja með kröfu kirkjunnar um að biskup réði kirknaeignum, sem þýddi í raun að umsýsla kirkna og eignir þeirra væru á vegum stofnunarinnar. Krafan um forræði kirkjunnar yfir kirknaeignum er fyrst talin hafa verið sett fram hérlendis af Þorláki helga Þórhallssyni (1178–1193) árið 1179 og hleypti þá af stað staðamálunum fyrri. Lára Magnúsdóttir 2007 .  Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550: lög og rannsóknarforsendur

Undirbúningur Tíundarlaganna hefur tekið nokkur ár því, sagt er að Gissur hafi látið telja búendur á landinu ..og „voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð heil (840) en í Rangæingafjórðungi (Sunnlendinga) tíu (1.200)  en í Breiðfirðingafjórðungi (Vestfjarðarfjórðungi) níu (1.080) en í Eyfirðingafjórðungi (Norðlendingafjórðungi) tólf (1.440)“, segir í Íslendingabók.  (Alls 4.560 bændur samkvæmt stóru hundraði). Öruggt má telja að þessi talning hafi átt sér stað í undirbúningi laganna á árunum 1092-1096. Skoðanir hafa komið fram um að gerð Landnámu hafi verið undirbúningur að samningum og gerð Tíundarlaganna.[9] Ari segist hafa gert Íslendingabók fyrir biskupanna. Kannski var Landnáma að hluta til afrakstur bændatals Gissurar? í líkingu við „Domesday book“ Vilhjálms I. Sem nefnt er hér að neðan.


[9] Einar G. Pétursson. Kirkjulegar ástæður fyrir ritun Landnámu.

Tíund er einn tíundi af einhverju og er oftast átt við skatt af einhverju tagi. Tíundin var aðferð kristnu kirkjunnar til þess að fjármagna starfsemi sína víða um Evrópu lengi vel og er enn lögboðin í einstaka löndum í dag. Tíundinni hér var skattur sem í reynd var bætt við þingfarargjaldið. Lögin voru þó frábrugðin þeim í Evrópu, víðast var hún 10% tekjuskattur af uppskeru, framleiðslu og vinnu- en hér var tíundin reiknuð af eign og var því eignaskattur. „Eignir“ í Tíundalögunum voru hús, bústofn (ekki hross), búnaður, bátar, vaðmál og klæði, (nema hversdagsklæði) hlunnindi ýmiskonar og lausafé. Síðan var innheimt svonefnd „stærri tíund“, af erfðafé, sem var í raun 10% erfðaskattur og gekk beint til biskups.

Samkvæmt tíundarlögum var greiðsla tíundar í vaðmáli, sem var í raun gjaldmiðilinn á Íslandi, því unnið vaðmál var útflutningsvara og helsti gjaldmiðill á þeim tíma.  Tíund var skipt í fjóra staði, fátækraframfærslu, kirkja, prestur og biskups fjórðung hver eins og fyrr sagði. Tveir hlutarnir, til kirkju og prests, runnu í raun til þeirra höfðingja sem áttu kirkjurnar og voru einnig prestar á þeim tíma, því gátu þeir farið með það fé eins og þeim sýndist. Af þessum sökum er ekki undarlegt að höfðingjar hafi samþykkt skattheimtuna á Alþingi, þar sem þeir sjálfir fengu helminginn til baka. Leiddi það óneitanlega til aukinna valda og áhrifa höfðingja og ójafnræðis þeirra gagnvart þingmönnum sínum, þ.e. öðrum bændum, og þannig hefur það stuðlað að myndun höfðingjakerfis sem leiddi svo aftur til loka Þjóðveldisins. 

Talað hefur verið um að tíundin  hér á landi hafi verið hagkvæmari sem eignarskattur en tekjuskattur og því hrósað, en ekki er það svo augljóst.

Í hreinu bændasamfélagi, sem að mestu var sjálfsþurftarbúskapur og nauðsynleg aðföng voru í vöruskiptum[10], hagnaður sem myndaðist af vaðmálsvinnslu eða afurðum kom hugsanlega fram í stærri bústofni og því var ekki um neina aðra aðferð að ræða en tíund á eignir og búnað sem umreiknað var í verðmæti vaðmáls. Greiðslan (gjöfin) af skuldlausri eign samkvæmt Tíundarlögum sést á töflunni hér að ofan; af verðmæti 100 x 6 álna veðmáls var tíundin 6 álnir vaðmáls[11].

[10] Búalög voru færð í letur skömmu eftir Jónsbók 1281 og voru byggð á því “sem gerðist hjá landsmönnum” og ekki var í Jónsbók. Verðlag og skipulag á vinnu ýmiskonar.

[11] Sjá Mynd II. Upphæð Tíundar

Þess má geta hér að staðlað 6 álna (tveggja þátta) vaðmál var tveggja álnar breitt (stiku) og til vinnslu þess þurfti um 6 kg. af ull, sem var af um 12 ám. Úrvinnsla ullarinnar og vefnaður í þetta vaðmál krafðist um 10-11 mánaðar vinnu eins manns. Í reynd var því skatturinn greiddur með afurðum og vinnu.

En slíkur eignarskattur til lengri tíma varð eignaupptaka af venjulegum bændum sem færður var til kirkju og höfðingja í kyrrstöðu- og sjálfsþurftarsamfélagi. Þar að auki breyttist tíundin síðar úr því að vera reiknuð af „skuldlausum“ eignum í það að orðið „skuldlaust“ datt út og eignarskatturinn reiknaðist einnig af skuldum (eins og fasteignaskatturinn í dag). Eignaskattur, eða vextir af „dauðu“ fé, var þyrnir í augum kirkjunnar manna annars staðar en hér á landi. Gissur biskup hlaut að hafa fengið samþykki fyrir þessu skattaútfærslu hjá erkibiskupi eða jafnvel páfa, eða kannski hefur ekki verið leitað eftir slíku samþykki. Hér er athyglisverður þáttur, því þegar Noregskonungur gefur Íslendingum Jónslög og Alþingi hafði samþykkt Kristnirétt Árna eða Kristni rétt hin nýja 1275, er fundið að framkvæmd Tíundarlaganna af sendimanni konungs.[12]

Með tíundarlögunum mynduðu íslenskir kirkjugoðar með biskup í fararbroddi nýjan tekjustofn fyrir sig. Tíundin var nýr tekjustofn og um hann varð harðvítug keppni, en við þá keppni raskaðist jafnvægið milli einstakra goða með uppkaupum á goðorðum og vísir myndaðist að raunverulegu lénsveldi auðugri goða sem leiddi af sér átök og upplausn Þjóðveldisins og undirgefni við Noregskonung 1262.


[12] Í sögu Árna byskups segir frá atburðum, sem gerðust sennilega 1281: „Þið byskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur (um) allan heiminn, og ein saman er rétt og lögtekin“   Hér er Loðinn leppur sendimaður konungs að finna að framkvæmd tíundarlaga Gizurar biskups Ísleifssonar, en tíundarlögin voru sett tveimur öldum fyrr. Loðinn leppur hefur komist að raun um að skattheimta á Íslandi er ekki í formi tekjuskatts heldur eignarskatts og bendir á að verið er að reikna skatt af dauðu fé í andstöðu við lögmál Móse. Herra Árni byskup mælir þá: »Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.«

Í hagfræðinni kallast keppni af þessu tagi keppni að aðstöðuhagnaði. Munurinn á henni og frjálsri samkeppni á markaði, er, að ekki er keppt að hagnaði, heldur er tími, fyrirhöfn og fjármunir notaðir til þess að útvega sér sérréttindi eða aðstöðu á kostnað annarra. [13]


[13] Endalok Þjóðveldisins  Ásgeir Jóhannesson   Grein í Menningarritinu Skýjaborgir 

Í Englandi átti sér stað mikil og keimlík breyting á sama tíma og Tíundarlögin á Íslandi voru í undirbúningi. 

Vilhjálmur I. bastarður hertogi af Normandí sigraði í orrustunni við Hastings 1066 og var síðan Englandskonungur til dauðadags 1087. Með sigri hans var stjórnartíð Saxa, sem byggðu England, að fullu lokið og í þeirra stað kominn afkomandi norrænna víkinga sem sest höfðu að í norðvesturhluta Frakklands. Vilhjálmur I. hreinsaði út flesta aðalsmenn í héruðum landsins og setti í staðinn frönskumælandi aðalsmenn. Árið 1086, voru mjög fáir Englendingar meðal þeirra 200 eða svo helstu landeigenda sem skráðir eru í Domesday Book. Normannir, Flæmingjar og Bretónar og aðrir sem studdu Vilhjálm í innrásinni, höfðu sest að á jörðum látinna, eða brottrekinna enskra aðalsmanna.

Árið 1086 lét Vilhjálmur I. fara um allt landið og skrá niður verðmat á öllum hlutum innan ríkisins, í framhaldi gaf hann út skattmatsskrá og á henni var byggt hvað hver ætti að greiða í skatt.[14] Þessi skrá sem var á Latínu, hlaut það víðfræga uppnefni, Domesday Book. 269 þús. skattþegar eru í bókinni og þar eru verðmæti eigna þeirra yfirleitt tilgreind í húðum, sem var fornt viðmið eigna, kúgildi. Áætlað er að um 6 manns væri að baki hverjum gjaldanda, eða 1,6 millj. manna hafi verið í landinu.[15]


[14] „Það voru þrjátíu og fjögur skíri í Englandi á þessum tíma og að því er varðar könnunina er vitað að þessum skírum hefur verið flokkað í sjö, sem hver um sig var undir eftirliti hóps umboðsmanna. „Í könnunni fylgdi fyrirspurn um lönd, er umboðsmenn gerðu samkvæmt eiði sýslumanna, allra baróna og allra hundraða, presta, fógeta og sex sveitamanna úr hverju þorpi. Þeir spurðu hvað höfuðbólið héti; hvað hét það á tímum Edwards konungs; hver heldur það nú; hversu margar húðir eru þar; hversu margir plógar í jarðnæðinu og hversu margir menn tilheyra; hversu mörg þorp; hversu mörg hús; hversu margir þrælar; hversu margir frjálsmenn; hversu margir sóknarmenn; hversu mikið skógaland; hversu mikið tún; hversu mikið beitiland; hversu margar myllur; hversu miklar fiskveiðar; hversu mikið hefur verið bætt við eða tekið af búi; hvers virði það var áður með öllu; hvers virði er það nú; ok hversu mikið hver lausamaður og sóknarmaður átti. Allt þetta á að skrá þrisvar, svo sem eins og það var á tímum Játvarðar konungs, eins, og eins og það er núna. Og einnig var tekið fram hvort hægt sé að meta meira það hærra en nú kann að vera metið“.. „Síðan sendi hann [Vilhjálmur konungur] menn sína um allt England í hverja sveit og lét þá skrá, hve mörg hundruð húðir voru í sveitinni, eða hvaða land og fé konungur sjálfur átti í landinu, eða hvaða gjöld hann ætti að hafa í tólf mánuði frá héraðinu. Einnig lét hann gera skrá yfir það, hversu mikið land erkibiskupar hans áttu, og hans biskupar og ábótar hans og jarlar hans og hvað eða hversu mikið allir áttu, sem áttu land í Englandi, í landi eða nautgripum, og hversu mikið virði þess fé var“ The Making of Domesday Book and the Languages of Lordship in Conquest England. Stephen Baxter

[15] https://en.wikipedia.org/wiki/Domesday_Book

Enski verðgrunnurinn „Hide“, kýrhúð, var í raun „kúgildi“ eins og hið íslenska, sem var hin forni germanski verðmætastuðull eigna. Skatturinn var því eignaskattur eins og á Íslandi, tíund af verðmæti eigna. Það er ekki ólíklegt að fyrirmynd Gissurar að aðferðinni og skattlagningunni sé frá Englandi komin. Sagt var að Gissur hafði „áður látið telja búendur á landi hér“ og þá hefur einnig efalaust verið gert jarðarmat/skattmat hjá bændum í þeirri yfirreið til að meta hversu mikil tíundin yrði á hverju ári.

Löngum hefur verið því haldið fram að framfærsla hreppanna til fátækra á Íslandi til forna sé einstök og hafi ekki þekkst annarstaðar, en svo var ekki og líklegt að þetta hafi verið regla á Norðurlöndunum þegar tíund var tekin upp þar. Má benda á að tíund og fjórskipting hennar var sú sama í Noregi og á Íslandi samkvæmt ákvæði í Kristni rétti hinum forna í Gulaþingslögum 1250[16]


[16] tíund sb. f. GulKrᴵ 627 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹)

 ● gera tíund (sína) [af e-u], vér scolom gera tiund alla oc fulla. bæði af avexti ollum oc viðreldi fiski oc ollum rettom fongum. En henne scal sva skipta at biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

fátǿkismaðr sb. m. GulKrᴵ 629 DonVar 137 4°(c1250-1300) 1r(1)-25v(50) — Gulaþingslǫg : Kristinn réttr hinn forni (Keyser & Munch 1846 [NGL 1], 3-20²⁹) biscop scal hava fiorðong. oc fatꝍkes menn fiorðong. oc kirkia fiorðong. oc prestr fiorðong

Print Friendly, PDF & Email