Samin eftir hörmungar.

Þýska stjórnarskráin

Hin 60 ára gamla þýska stjórnarskrá er af mörgum, talin ein allra besta stjórnarskrá heims. Fyrir því eru þrjár megin ástæður;

Í fyrsta lagi kveður hún afar skýrt á um að allt ríkisvald spretti frá fólkinu sbr. 20. gr. Til að tryggja lýðræðisgrunninn enn betur er nokkuð ýtarlega fjallað um stjórnmálaflokka í stjórnarskránni. Það skilyrði er t.a.m. sett að stjórnmálasamtök sem bjóða fram til þings skuli byggja starf sitt á lýðræðisreglum. Þá er einnig kveðið á um fjármál stjórnmálaflokka í stjórnarskránni. Flokkum ber að gera opinberlega grein fyrir fjármálum sínum; bakhjörlum, styrkjum og í hvað styrkjum er varið.

Í öðru lagi kveður þýska stjórnarskráin á um ríka mannréttindavernd. Mannréttindaákvæðin eru fremst í stjórnarskránni sem felur í sér sterka yfirlýsingu um að fólkið hafi forgang. Í 1. gr. stjórnarskrárinnar segir að mannleg reisn njóti algerar friðhelgi og hana beri ríkinu að vernda. Þannig er annarsvegar kveðið á um rétt einstaklingsins til mannlegrar reisnar og hins vegar um skyldu ríkisins til að vernda þann rétt og tryggja. Með rétti einstaklingsins og skyldu ríkisvaldsins er enn fremur undirstrikað að ríkið hafi þann tilgang að þjóna fólkinu en ekki öfugt.

Í þriðja lagi starfar sérstakur stjórnskipunardómstóll skv. stjórnarskránni sem hefur m.a. það hlutverk að vernda lýðræðið og mannréttindin. Stjórnskipunardómstóllinn hefur komið sér upp sérstökum túlkunarreglum sem er ætlað að tryggja að hinar almennu grundvallarreglur sem settar eru fram í stjórnarskránni, fái raunverulega merkingu. Til samanburðar má nefna ýmis ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, sem tekist hefur verið á um í áraraðir og margir efast um að hafi nokkra merkingu yfirleitt sbr. t.d. 26. greinina. Þýski stjórnskipunardómstóllinn kemur í veg fyrir túlkunarvanda af þessum toga og getur, ólíkt t.d. Hæstarétti Íslands, tekið afstöðu til stjórnarskrárákvæða óháð því hvort einstaklingar geti byggt rétt á þeim.

Þýska stjórnarskráin var samin í kjölfar mikilla hörmunga. Hún leysti af hólmi Weimar stjórnarskrána en hún var of veik til að hindra valdatöku Hitlers á þriðja áratug síðustu aldar.  Auðséð er að veikleikar Weimar stjórnarskrárinnar voru, við samningu hinnar nýju stjórnarskrár, notaðir sem leiðarvísir um hvernig stjórnarskrár eiga ekki að vera. Stjórnarskráin tekur þannig með beinum hætti á þeim vanköntum Weimar stjórnarskrárinnar sem m.a. urðu til þess að auðvelda Hitler valdatökuna. Þannig er t.d. kveðið á um í 21. gr. að stjórnmálaflokkar sem hafa andlýðræðislega stefnu glati stjórnskipulegum rétti til að bjóða fram. Dómgreind kjósenda er ekki treyst hvað þetta varðar. Þá er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum sem geta, ef þær eru ‚misnotaðar‘ lamað þjóðþingið. Þessi regla er einnig byggð á bitri reynslu Þjóðverja frá valdatíð Hitlers. Þó getur almenningur í þýsku sambandslöndunum kallað eftir allsherjaratkvæðagreiðslu um einstök lög.

Áherslan á mannréttindavernd er þó án efa skýrasta dæmið um þann lærdóm sem Þjóðverjar kusu að draga af hinni meingölluðu Weimar stjórnarskrá. Í Weimar lýðveldinu nutu mannréttindin ekki stjórnarskrárverndar og litið var á þau sem ólögfestar vísireglur en ekki bindandi og ófrávíkjanleg réttindi. Það felst því afar sterk yfirlýsing í því að gefa mannréttindunum stað í öndvegi stjórnarskrárinnar, framar öðrum stjórnskipunarreglum ríkisins.

Texti frá: http://www.samfelagssattmali.is/thyska-stjornarskraináherslur ogundirstrikanir SS

Print Friendly, PDF & Email

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *