Agni Jóga ritröðin

Viska aldanna, orð meistaranna, lýsa leitandanum veginn. Heimarnir í kringum manninn, sýnilegi sem ósýnilegir, en eru veruleiki mannsins og allar athafnir hans í þeim ákvarða framtíð hans. 11 bækur með reynslu aldana

Tenginga í bækurnar:

Agni Jóga „Hinar ýmsu greinar jóga eru ekki í mótsögn hver við aðra.“

Óendanleikinn I. „Er við hæfi að tala um óendanleika ef hann er óraunverulegur? “

Óendanleikinn II. „Á hinu efnislega og hinu andlega er aðdráttaraflið með líkum hætti “

Helgiveldið „Stigveldi er ekki þvingun, það er lögmál alheimsins. “

Hjartað „Hvernig geta leitendur geislað ef enginn logi er í hjörtum þeirra? “

Eldheimar I. „Umkringdu þig eldi og þú verður ónæmur,“ eru forn sannindi.

Eldheimar II. „Ástandið milli svefns og vöku veitir mjög markvert svið fyrir athuganir.“

Eldheimar III. „Eldheitum anda er gefinn hæfileiki til að ná fíngerðari orku. “

Ákallið (AUM) „Læknar hafa tekið eftir því að viss lyf hafa ólíka verkun á fólk.“

Bræðralag “ Hugmyndin um bræðralag er umvafin hinu allra helgasta.“

Æðri heimar Hugsuðurinn sagði: „Vertu fær um að gera innri heilara þinn að vini þínum.“

Orðaleit Hægt að leita að efni í einni eða fleirri bókuum.

Agni Yoga

Bækur á íslensku í þessum bókaflokki: 

Agni Jóga

Hinn blessaði vitringur, sem gaf heiminum bækurnar The Call, Illumination og Community, hefur látið margvíslegar ráðleggingar í té og einnig ýmis merki Agni Jóga. Við höfum safnað saman þessum hagnýtu upplýsingum til afnota fyrir þá sem leita þekkingar.

Sanskrít og Senzar gefa túlkuninni sitt sérstaka yfirbragð sem á sér ekki alltaf hliðstæður í öðrum tungumálum. Merking hugtakanna er samt sem áður varðveitt með nákvæmni. Þeir sem taka þátt í daglegu lífi samtímans munu lesa með athygli þessa viturlegu fræðslu sem upprunnin er frá reynslu aldanna.

FORMÁLI

Jóga — hin æðsta tenging við kosmískan árangur — hefur verið til um allar aldir. Öll viskufræðsla felur í sér sitt eigið jóga sem kemur þeim sérstaka áfanga þróunarinnar að gagni. Hinar ýmsu greinar jóga eru ekki í mótsögn hver við aðra. Þær breiða úr sér eins og greinar á einu tré, og hinn vegmóði ferðamaður hvílist og endurnærist í forsælu þeirra.
Ferðamaðurinn heldur áfram för sinni þegar hann hefur endurheimt mátt sinn. Hann tók ekki við neinu sem hann átti ekki með réttu, né heldur lét hann villast af leið í viðleitni sinni. Hann þáði hið góða sem himnarnir höfðu birt; hann leysti kraftana úr læðingi eins og forlögin höfðu mælt fyrir um. Hann öðlaðist vald yfir eign sinni.
Hafnið ekki kröftum jóga, en látið þá lýsa eins og ljós í rökkri óþekktra verkefna.
Við rísum úr rekkju fyrir framtíðina. Við endurnýjum klæði okkar fyrir framtíðina. Við neytum fæðu fyrir framtíðina. Við ræktum hugsanir okkar fyrir framtíðina. Við söfnum kröftum fyrir framtíðina.
Í byrjun hagnýtum við okkur ráð lífsins. Síðar berum við fram nafn Jóga komandi tíma. Við munum heyra fótatak eldsins sem nálgast, en erum nú þegar reiðubúin að takast á við flökt logans.
Við hyllum því hið forna — Raja Jóga. Við staðfestum því framtíðina — Agni Jóga.

TÁKN AGNI JÓGA

1. Þeir munu spyrja: „Mun tími Maitreya valda aldahvörfum?”
Svar: „Hafi krossfararnir valdið tímamótum, þá er tími Maitreya sannarlega þúsundfalt mikilvægari.” Í þessum anda skal maðurinn halda leið sína.

2. Menn skilja ekki merkingu Guðs og Bodhisattva. Eins og blindir spyrja þeir: „Hvað er ljósið?” Menn skortir jafnvel orð til að lýsa eiginleikum þess, þótt þeir skynji það daglega.
Menn eru svo mikið á verði gagnvart hinu óvenjulega að þeir eru hættir að gera skýran greinarmun á ljósi og myrkri. Þeim finnst eðlilegast að ímynda sér að Guð búi í höll á stærstu stjörnunni. Að öðrum kosti ætti Guð þeirra sér engan samastað. Skortur þeirra á réttu gildismati knýr þá til að óvirða veruleikann.

3. Þið veltið því oft fyrir ykkur hvers vegna ég svara ekki spurningum. Þið hljótið að vita að örvar hugsunar særa oft þann sem svarið hlýtur. Gerið ykkur í hugarlund ferðamann sem fikrar sig eftir kaðli yfir hyldýpi. Væri viturlegt að hrópa til hans? Kallið gæti truflað hann svo að hann missti jafnvægið. Við skulum því ekki bera fram nöfn eins oft, geymum þau heldur þar til brýna nauðsyn ber til. Hæfileikinn til að geta notað einstök nöfn er nauðsynlegur. En framburður þeirra ætti að vera eins og hamarshögg í geimnum.

4. Gefið einföldu fólki einföld orð, því hafa þarf í huga að einfalt fólk þarfnast smárra skammta af lyfinu. Til er hið sama lögmál — sem hið efra svo hið neðra. Því er einfalt fólk hinir bestu útbreiðendur.

5. Útþensla æðanna er einkennandi fyrir þroskun vitundarinnar. Nauðsynlegt er að vernda þetta ferli fyrir áhrifum frá þrýstingi sólarinnar á sólarplexus-orkustöðina.
Við skulum ekki gleyma því hvernig prestynjur til forna vörðu sig fyrir sólinni. Þær báru brjósthlífar úr liþíum, þaktar vaxi. Bráðnun vaxins gaf til kynna að hitinn hafði náð hættumarki.
Auk þess að dýfa höndum í vatn er heimilt að dýfa fótum í vatn. Köld böð geta verið jafn varasöm og geislar sólarinnar.

6. Maðurinn getur heimsótt hinar ýmsu plánetur í huglíkamanum. Með slíku einkennist sá framtíðar áfangi, þegar vitundin takmarkast ekki við eina plánetu. Við ferðumst nú frá einum hluta heimsins til annars, hið sama lögmál munum við hagnýta við ferðir til annarra pláneta.
Fræðarinn biður ykkur að fagna sérhverjum áfanga á ferð andans. Leiðin til og frá plánetunum er ekki erfiðari en leiðin á milli efnislíkama og geðlíkama og engu flóknari en skilningur á starfi hugsunar og viðleitni í átt til stjarnanna. Það er aðeins í viðleitninni til að sigrast á fjarlægðinni til stjarnanna að við getum verið fullviss um framþróun mannkynsins.

7. Birting nýrra geisla vekur möguleika á fögrum viðbótum við áætlanir Okkar. Í samanburði við meðvitað starf huglíkamans hefur þétting geðlíkamans ekki mikið gildi. Við störf á þessari plánetu ætti ekki að leysa huglíkamann úr vernduðu umhverfi sínu. Við störf utan plánetunnar er aftur á móti þörf fyrir þennan æðri líkama.
Viðurkenning nýrra geisla mun gera mönnum kleift að viðhalda meðvitund sinni á mismunandi sviðum. Áður fyrr var aðeins hægt að halda fullri vitund við vissan þéttleika andrúmsloftsins. Samt voru truflanir af völdum loftstrauma mögulegar. Hinir nýju geislar geta komist í gegnum þessar hindranir og myndað opna rás. Þannig er mögulegt að útvíkka meðvitað starf.
Í samfélagi Okkar er unnið að hagnýtingu þessara geisla. Yfirleitt hafa þeir ekki nein veruleg áhrif á heilann, en stundum geta þeir verið mjög hættulegir.

8. Við getum ræt um hvers vegna heimsfræðarar gengu í gegnum svo miklar þjáningar við brottför sína úr þessum heimi. Að sjálfsögðu voru þessar þjáningar meðvitaðar og sjálfviljugar. Eins og gestgjafinn fyllir bikara gestsins að börmum, þannig óskar fræðarinn að láta í té síðasta tákn fræðslunnar.
Búdda komst hjá því að vera tekinn í guða tölu með dauða sínum af völdum eitrunar. Þjáningar og upprisa — eða ummyndun efnisins — sem Kristur gekk í gegnum, sýndu fram á hið æðsta stig jarðneskra afreka. En enginn gerði sér grein fyrir því að líkaminn hafði verið leystur upp í atómískar eindir. Menn héldu að lærisveinarnir hefðu stolið honum.
Rógur gamla heimsins skiptir engu máli. Sönn afrek eru nauðsynleg fyrir alheiminn. Sköpunarmáttur hetjudáðar er hinn sami við allt sköpunarstarf. Þegar við aukum dýpt formsins sköpum við tímalausan kristal. Skynjun fullkomnunar lyftir sköpunarmætti andans á hærra stig. Þar eð Kristur var raunsær vildi hann skapa dáð í fullri meðvitund á undan ummyndun efnislíkamans.
Hægt er að sýna fram á að dáðir eru tvenns konar, himneskar og jarðneskar. Sem dæmi um himneska viðleitni má nefna hið friðsæla andlát hins mikla Pílagríms. Við skulum ekki reyna að meta hetjudáðir, vegna þess að skilningur manna á þróuninni er einstaklingsbundinn og sjálfskapaður.

9. Hver sá sem er fær um að sjá áru mannsins getur orðið vitni að líflegu samspili hinnar lýsandi útgeislunar. Leggja má drög að skynsamlegum athöfnum sem byggjast á þessu alheimslega lögmáli lýsandi strauma. Öll merki um visnun og kyrkingu tengjast afrakstri myrkursins. En þar sem ljósöldur eru, þar sem lýsandi orkuagnir dansa, þar er Okkar geisli.
Mín fræðsla getur leitt í ljós hinar skynjuðu öldur Akasha. Bjóðið fögnuð ljósblossanna velkominn. Það er ekki útúrdúr heldur efling starfsins. Aðeins með því að breyta eftir vilja Okkar getið þið færst nær. Ósk Mín er sú, að varðveita fegurð andans.
Allar athafnir er hægt að ummynda í andleg afreksverk. Staðföst viðleitni til þróunar vitundarinnar, ásamt hröðum straumi atburða, mun leiða til næstu sveigju hins kosmíska spírals.

10. Í einsemd, óbundinn eignum, óbifanlegur og harmar ekki forlög sín — aðeins þá fagnar hinn hugdjarfi.
Þannig skulum við byrja þýðinguna á hinni fornu bók Okkar um hugdirfskuna.
Þegar barn leikur sér við nýfæddan kettling, gleðst móðir þess yfir hugrekki þess, en kærir sig ekki um að sjá að kettlingurinn er enn blindur. Þegar unglingur leikur sér með sál félaga síns, dást áhorfendur að dirfsku hans, en taka ekki eftir hlekkjunum sem hin vesæla sál er bundin. Þegar maður fordæmir hóp dómara, dást vitnin að hugrekki hans, en sjá ekki að dirfskan í ógnun hans hefur verið keypt með klingjandi gulli. Þegar aldraður maður skopast að dauðanum sér til hugarhægðar, gleðjast vinir hans, en skeyta því ekki að óttinn mótar grímu skopsins.
Oft taka menn ekki eftir sannri hugdirfsku, vegna þess að hún er óvenjuleg í eðli sínu. En hjartað titrar þegar það skynjar hið óvenjulega.
Hvar ertu, þú sem hefur sigrað? Hvar ertu, þú sem hefur umbreytt skelfingu í stórt skref í átt til ljóssins? Heyr, þú hugdjarfi! Í djúpi næturinnar mun ég nálgast til að blessa ilskó þína. Ég mun strá lýsandi ljósblossum um flet þitt. Því svefn hins hugdjarfa er eins og lútan sem leysist upp þegar sjö strengir hennar hyljast leyndardómi. Svefn hins hugdjarfa er eins og lognið á undan hvirfilbylnum, þegar jafnvel hin fíngerðustu strá bærast ekki.
Mun öskur ljónsins fá heimana til að skjálfa? Nei, hugdirfskan vaknar og hinn konunglegi lótus andans opnast. Bræður, við skulum hittast í sölum gleðinnar! Blómið hefur opnast; hið mikla hjól hefur hafist upp. Fögnuður Okkar stígur niður í undirheimana og rís upp til bræðranna í unaðsreitum æðri heima.
Við syngjum hugdirfskunni Okkar bestu lofsöngva.

11. Kvak fuglanna hefur rofið frið hvíldarinnar. Hvað veldur þessum ákafa fuglanna svo snemma dags? Þeir dirfast — þegar þeir heyra lofsöngvana um hugdirfskuna. En enginn lét þá vita að hið hefðbundna kvak þeirra mun ekki efla dirfsku þeirra. Myrkrið skrækir, ærandi í hversdagsleika sínum. Myrkrið stenst ekki dirfsku ljóssins.
Þegar vogarskálar Drottins eru reiðubúnar skulum við vakna snemma til að vega og meta gjörðir gærdagsins. Við skulum velja það sem ber hugdirfskunni mestan vott, því að þau góðu fræ vega þungt á vogarskálunum. Við skulum bæta við sorgum gamla heimsins, því byrði þeirra er okkur gagnleg. Bætum við háðsglósum fáviskunnar — því allt þetta eykur þungann á skál sannleikans. Ef við finnum ógnanir og árásir, gleymum þá ekki að bæta þeim á hina fullu skál. Hví titra armar vogarskálarinnar? Hvað fyllir hina ásakandi skál? Hvaða vesælu og myrku tötrar hafa fyllt skál misgjörða okkar? Eins og haugar af skrælnuðum laufum síðasta vetrar er bölvun hversdagsins gráa vana, sori gærdagsins.
Sigur til ykkar, hugdirfsku dáðir! Því máttugir vængir þeirra hafa vegið þyngra en allar okkar misgjörðir.
Drottinn, leyf mér að kasta hinum blekkjandi tötrum vanans í logana. Mér skjátlast ekki þegar ég skynja að vængir dirfsk¬unnar bera blessun þína. Í hinum helga bræðsluofni móta ég vængi Alaja. Óþekktar eru mér umkvartanir, grimmd og allt sem gæti íþyngt nýju vængjunum mínum. Söngur minn skal vera nýr!

12. Lofgjörð dirfskunnar hefur breiðst út víða. Hinir minnstu meðal lærisveinanna hafa snúið út á braut leitarinnar og nálgast Okkur, og hafa beðið Okkur um að dæma um viðleitni þeirra. Allir komu þeir með drauma sína. … „Ég mun brjóta niður öll veraldleg musteri, því sannleikurinn þarf ekki neina veggi … Ég mun vökva allar eyðimerkur … Ég mun opna öll fangelsi … Ég mun brjóta öll sverð … Ég mun ryðja allar brautir … Ég mun þerra öll tár … Ég mun ferðast um öll lönd … Ég mun letra í bók mannkynsins …”
En hinn minnsti þeirra leit til tindrandi stjarnanna og mælti: „Heill sé ykkur bræður!” Og í dirfsku þessara ávarpsorða ummyndaðist sjálf hans.
Lát þessa djörfu kveðju birta ykkur hina alheimslegu leið!

13. Bókin, „Líkt eftir Kristi” eftir Tómas frá Kempis, hefur löngum verið mikils metin í austurlöndum, ekki aðeins vegna innihaldsins, heldur vegna merkingarinnar sem felst í titlinum. Rödd Tómasar hljómaði sem andmæli mitt í persónudýrkun miðalda á Kristi. Rödd barst frá kaþólsku klaustri til að skýra ímynd hins mikla fræðara. Sjálft orðið „líking” felur í sér nauðsynlega athöfn. Aðferðin — Líkt eftir Kristi — er afreksverk meðfæddrar dirfsku hins meðvitaða anda sem tekur á sig alla ábyrgð sköpunar. Hinn meðvitaði nemi dirfist svo sannarlega að nálgast fræðarann í eftirbreytni. Slíkt dæmi færði ljós inn í myrkur forneskju, og varð til að örva baráttu innan einangrunar klausturveggja í átt til skapandi dirfsku.
Það hefði verið viðeigandi í samræmi við hina smjaðrandi vitund miðalda að segja, „Dýrkun Krists.” En hinn leitandi andi dirfðist að mæla fram ákall um að líkja eftir Kristi.
Það verður að hlú að hverju skrefi hinnar blessuðu dirfsku sem áfanga á framfarabraut mannkynsins. Við veitum ekki eftirtekt einhverjum orðum sem sögð eru í klaustri. Tómas þurfti ekki að klífa bálköstinn. Hlutverk hans var ekki að setja fram hið forboðna heldur hina vekjandi aðferð.
Til eru tvær gerðir sannleika. Önnur þarf að nærast á eldi galdrabrennunnar. Hin verður að breiðast út án mótþróa. Erfitt er að meta hvor aðferðin er þjáningarfyllri fyrir höfund hennar. Stundum er auðveldara að deyfa þjáningar brennunnar en að verða vitni því hvernig fræðslan afbakast í meðförum manna. Í báðum tilfellum er dirfskan heilög sem upplýsir myrkrið.

14. Heimurinn hefur glatað hamingju sinni, því hamingjan er í andanum. Þeir sem hafa snúið frá andanum verða að líða óhamingju, því hvernig gætu þeir annars snúið aftur? Í þessu felst merking mikilla atburða.
Að leita hamingju með lygum og morðum! Fögnum því að úrkynjun er að hraða þróuninni. Glæpir kynda elda hins úrelta heims.

15. Eitrið sem orsakast af skapstyggð er nefnt „illskuhvati” — áhrifamikil hætta. Þetta eitur, sem er mjög svo raunverulegt, sest utan á veggi taugarásanna og breiðist þannig út um allt lífkerfið.
Ef vísindamenn nútímans myndu reyna að rannsaka taugarás¬irnar óhlutdrægt, og gefa gaum að geðheimsstraumum, þá yrðu þeir varir við sérkennilegt niðurbrot geðheimsefnisins á leið sinni í gegnum taugarásirnar — það er svörun við illskuhvatanum. Aðeins hvíld kemur að gagni til hjálpar taugakerfinu við að vinna bug á hinum hættulega óvini sem getur valdið ólíkustu ertingum og þjáningarfullum krampa í lífkerfinu.
Sá sem er sýktur af illskuhvata verður að endurtaka: „Ó hve allt er fagurt!” Og hann hefur rétt fyrir sér, vegna þess að rás þróunarinnar fylgir óbreytanlegu lögmáli, því er hún fögur. Útfelling illskuhvatans er þeim mun sársaukafyllri sem taugakerfið er fíngerðara. Þetta eitur, að einu öðru efni viðbættu, getur leitt til upplausnar efnis.

16. Þeir sem ekki geta greint á milli svölu og hrægamms eru ekki miklum kostum búnir. En hvaða verðleikum eru þeir búnir sem trúa því að þeir geti breytt erni í tamda önd með því að reyta af honum fjaðrirnar? Varist hræsnara, sérstaklega þá sem eru djúpt sokknir í græðgi — hina slægvitru sem hræra í sinni „andlegu“ súpu. Birting á órjúfanleika lögmála heimsins glampar eins og sverð. Þess vegna getur hræsnarinn hvergi höfði sínu hallað. Því er kennarinn, sem lauk því ekki að tileinka sér kjarna fræðslunnar, eins og asni hlaðinn of þungum fræsekkjum. Á sama hátt er fiskimaðurinn, sem gerir net sín tilbúin fyrir fisk sem hann getur ekki veitt, eins og refur fyrir utan vandlega læst hænsnabúr.

17. Mikil er umrótið í heiminum! Árás á fræðsluna verkar eins og bjúgverpill og lýstur árásarmanninn. Loftið er kvikt af örvum.
Þurrkaðu af þér svitann eftir árás óvinarins. Á stundu atlögunar mun ég ræða um málefni eilífðarinnar. Fögnum, því möguleikarnir margfaldast. Ég sé að hvert óvinveitt hjarta elur með sér gagnlegt sæði.

18. Stjörnuefnafræði er fær um að ákvarða hvaða áhrif eru best fyrir sérhverja lífveru. Stjörnuspeki er ekkert annað en formúlur í stjörnuefnafræði. Maður sem kemur inn í hús mettað nikótíni tekur eitraðar agnir með sér þegar hann fer. Sambærilega mun maður, sem orðið hefur fyrir beinum verkunum stjörnuefnageisla, ætíð svara áhrifum frá einni sérstakri geislasamsetningu. Með þetta í huga er auðvelt að ákveða hvenær þörf er á að nálgast ákveðna persónu.
Hinir svonefndu sólblettir verka hvetjandi á efnahvörf. Mikið er rætt um óróa í heiminum á meðan sólblettir eru í hámarki, og jafnvel hinir fáfróðu geta dregið réttar ályktanir. En ef við höfum í huga hin skaðlegu efnahvörf er ekki erfitt að skilja að andrúmsloftið geti verið mettað mjög virkum efnasamböndum, eins og oxíðum og málmsamböndum. Er hægt að hafna umhugsunarlaust þróunarhæfni efnisins þegar geislar hellast yfir okkur með takmarkalausum krafti frá hinni óþrjótandi uppsprettu?
Sérstaklega næmir einstaklingar geta vottað að þegar sólblettir eru í hámarki verða geislar sólarinnar þeim óbærilegir vegna eiginleika sinna. Þegar stórir loftsteinar falla til jarðar má einnig skynja skjálfta í taugakerfinu. Hingað til hafa menn ekki áttað sig á hlutverki sínu í þessu risavaxna kerfi. Sá skilningur einn og sér hefði vígbúið lífkerfi mannsins og, í stað þess að fylgjast af kvíða með titringi jarð¬skjálftamælanna, beint leitinni upp í hinar takmarkalausu hæðir — jafn efniskenndar og málsverður gærdagsins, jafn stórbrotnar og aragrúi stjarnanna.

19. Af öllum skapandi orkutegundum er hugsunin æðst. Hver er kristall þessarar orku? Sumir gætu haldið að nákvæm þekking sé kóróna hugsunar; en enn betra er að segja að goðsögn krýni hugsun. Í goðsögn er tjáður kjarni hinnar skapandi orku. Í hinni stuttu formúlu goðsagnarinnar er skilgreind bæði von og árangur. Það eru mistök að álíta að goðsagnir séu furðusögur fortíðar. Óhlutdrægur hugur mun skynja þráð goðsagnarinnar um alla tíma og allan alheim. Öll afreksverk þjóðar, allir miklir leiðtogar, allar mikilvægar uppgötvanir, allar náttúruhamfarir og öll afreksverk eru huldar vængjum goðsagnar. Við skulum því ekki lítilsvirða goðsagnir sannleikans heldur greina með nákvæmni og varðveita orð raunveruleikans. Goðsögn tjáir vilja fólksins, og við getum ekki tilgreint neina ósanna goðsögn. Andleg viðleitni hinnar máttugu samheildar skráir ímynd sannrar merkingar. Í ytra formi táknsins birtist alheimslegt táknmerki, hluti alheimsmáls sem er þróuninni nauðsyn.
Réttmæt er leitin að alheimstungu. Réttmæt er sköpun heimsgoðsagna. Þrefalt er réttmæti afreksverka!

20. Nauðsynlegt er að hugsa sér hið nýja svo gagnlegt að ekki megi dragast að taka það í notkun. Hugtök sem ekki koma að gagni eiga ekki rétt á sér. Við erum þreyttir á loftköstulum. Menn þurfa jafnvel að ná valdi á hinum fjarlægu heimum í efnislegum veruleika sínum. Hið sama vald, eins og til dæmis, á ísmola eða efnahita sólarinnar, verður að komast inn í vitundina, sem og vald á hinum smæstu afurðum efnisins. Tafir á andlegum skilningi má skýra með því að fyrirbrigðum náttúrunnar er ekki veitt nægileg athygli. Tapi maðurinn athyglisgáfu sinni þá missir hann einnig hæfileikann til samfjöllunar.
Verði notkun peninga aflögð mun það frelsa mannkynið undan fjötrum sem slæva sjónina. Þeir tímar koma í þróuninni þegar múrarnir sem reistir eru um langvarandi uppsöfnun hefðbundinna tákna verða að hindrunum. Tími er kominn fyrir frelsun þekkingar og persónulegri ábyrgð á notkun hennar.
Hinn frjálsi hugur hefur þau forréttindi að geta leitað að nýju mynstri sem byggir á óvenjulegri samsetningu. Þessir hingað til óþekktu þræðir munu leiða hann til upphafnari efnissviða. Þegar skoðaðar eru huglitlar og takmarkaðar athafnir, er rétt að hinn frjálsi hugur bendi á nýjar og betri samsetningar.
Fagnið í hinum stórbrotna lífsleik Heimsmóðurinnar!

21. Umræður ykkar um róginn sem skráður er á spjöld sögunnar eru réttmætar. Rógur er eins og eldsneyti fyrir eld afreksverka. Rógur er truflandi í daglegu lífi, en þegar litið er yfir söguna sést að logi rógsins tekur á sig margvíslegan litblæ; og án rógs hefði þakklátt mannkynið urðað margar mikilvægar raunbirtingar.
Andstæðutæknin tryggir að klingjandi bjöllur mannkynsins þagni ekki. Tónlist himnanna þarf á undirleik að halda, en þeir rógberar sem eru helteknir öfund ímynda sér að væl þeirra geri andrúmsloftið svo þétt að hljómkviður eilífðarinnar geti ekki náð til Jarðar. En góður ráðsmaður finnur alltaf einhver not fyrir úrkastið. Lát því kyndla rógsins lýsa braut hinna óhagganlegu afreka.
Með því að kalla sendiboða okkar loddara ber fólk vott um fágæti þeirra. Gróf eru atlot hinna lágstæðari dýrategunda. Og ruddaskapur leifa hins hverfandi kynstofns hefur jafnvel farið fram úr grófleika miðalda. Það sem gerir fjöldann að óhæfum efniviði er ekki síður grófleiki í næmni en varmennska. Það er einmitt grófleiki sem er upphaf hugsunarleysis og afleiðingum hennar — svikum.
Því skulum við skilgreina róg sem kyndla villimanna. En á næturferðum koma allir eldar að gagni!

22. Engir dómar eru jafn rangir og þeir sem byggjast á augsýnilegum atburðum. Fólk tapar þræði raunveruleikans þegar það sér hinar augljósu afleiðingar. Sú fræðsla sem leiðir til uppsprettu raunveruleika nefnir fólk oftast drauma.
Flestir sjá lífið eins og að þar séu hvergi vísar að nýrri sköpun, og sjá aðeins hina augljósu hnignun. Þannig er auðveldlega hægt að sökkva sér alveg niður í sundrun og eyðingu án þess að taka eftir hinum mikilvægu vísum sköpunar. Þræðir nýrrar byrjunar eru af ásetningi faldir; að öðrum kosti hefðu náttúruöflin eytt frjóöngum hinna nýju möguleika. Tregða er nauðsynlegur eiginleiki þessara náttúruafla, og til að gæða þau þróunarkrafti er nauðsynlegt það högg andans sem getur fóstrað hugsun. Þannig er hugsun tengiliður til náttúruaflanna.
Þegar rætt er um þá þörf að efla tæki hugans, þá er það aðvörun um óhefta árás náttúruaflanna. Á ákveðnum heimstímabilum á plánetunni eru árásir náttúruaflanna algengar. Eina viðnámið sem hægt er að veita þeim er stöðug viðleitni manna til endurnýjunar lífsins. Slík samþjöppun hugsunar gerir mögulega einbeitingu að fræðslunni sem mun sundra skýjum hins óbeislaða óskapnaðar eins og sverðshögg. Hugsun getur veitt vörn gegn náttúruöflunum; að öðrum kosti færi jafnvægið svo úr skorðum að kosmískir atburðir fylgdu í kjölfarið. Myndi ekki ár hungursneyðar, þurrka og sjúkdóma verða afleiðing af fjöldahnignun hugsunar? Hugsun eins manns getur ekki staðið gegn náttúruöflunum. Hin nýja vitundarstefna getur ekki enn gefið hinni meðvituðu hugsun nauðsynlegt form. Aðeins fullkominn skilningur og ábyrgðartilfinning getur gætt hugsun mætti. Að öðrum kosti verður þenslan án skilnings eins og segl þanin í ofsa hvirfilbyls.
Við sjáum mikla þenslu í segulsveiflum og efnavirkandi geislum. Mennsk hugsun er sveigð eins og óhert hnífsblað. Óskapnaðurinn ólgar í djúpum vitundar.
Getur maðurinn þraukað? Hugmyndin um leiðarljós Okkar byrjar að síast inn í hugana. Því smám saman er það að verða ljóst að ekkert annað verður eftir í hringiðu óskapnaðarins. Hve sársaukafullt fyrir hinn næma anda! Hve grannt við fylgjumst með öldum hins fordæmislausa myrkurs! Hjartað getur aðeins tekið við takmörkuðu magni af þessu frumeitri.

23. Hvað hefur þrýst eitrinu í átt til hinna jarðnesku sviða? Truflun á náttúruöflunum leiða til þess að mjög eitrað gas myndast. Undir venjulegum kringumstæðum leysist gasið upp í geimnum, en efnageislar sólarinnar þrýsta öldum gassins niður í lögin nálægt yfirborði plánetunnar. Afleiðingin er hættuleg efnahvörf, en þeir sem fá viðvörun geta sigrast á eitrinu. Geðillska og afsprengi hennar, illskuhvati, ganga auðveldlega í samband við eitrið í geimnum sem nefnist „loftháski”. Lögmálin eru svipuð í öllum hlutum.
Fræðarinn ber stundum grímu til varnar gegn gasinu. Að sjálfsögðu verkar eitrið ekki alltaf á sama hátt. En næm tæki eru móttækileg. Kuldi dregur stórlega úr virkni gassins.

24. Getur verið að einhver vilji ekki viðurkenna forspá og segi: „Allt get ég viðurkennt en ekki spádóma.“ Svara þá: „Við skulum þá ekki nota þetta orð. Orðin ‘fyrirmæli Hinnar ósýnilegu stjórnar’ hafa meiri merkingu fyrir þig. Nútímalegu hjarta þínu fellur betur í geð nútímalegt orðalag. Fyrir okkur skipta orðin ekki máli. Okkur finnst mikilvægara að þú upplifir afleiðingar þessara fyrirmæla og að heili þinn muni eftir því að Hin ósýnilega, alþjóðlega stjórn er til. Orðið spádómur hljómar of óvísindalega í orðaforða þínum; en auðsveipur vani mun koma þér til aðstoðar við að flokka með nákvæmni gildi orðsins fyrirmæli; og sú tilhneiging þín að sjá samsæri allsstaðar hjálpar þér við að viðurkenna tilveru Hinnar ósýnilegu stjórnar. Að auki mun samsvörun staðreynda og afleiðinga vekja virðingu þína.
„Við deilum ekki um heiti heldur ljúkum gagnlegu verki. Kominn er tími til að nákvæmur skilningur taki við af biblíuhug¬tökum. Verndargripur í vasanum hefur ekki mikið gildi fyrir Hina ósýnilegu stjórn. Þörf er á hollustu sem reynd hefur verið í meðvituðu starfi. Þú hugsaðir þér að sigra okkur á sviði hugtaka; en þú kallaðir fram fyrirmæli, og við biðjum þig að gefa gaum að afleiðingum þeirra. Gættu orða þinna og hugsana. Við metum hugprýði dirfskunnar mikils; en Stjórnin hefur ímugust á slægvisku meðalmennskunnar.“

25. Í öllum efnafræðitilraunum kemur hagstætt andartak þegar niðurbrot og ummyndun efnisins byrjar — þetta er andartak sköpunarárangurs. Af því leiðir að ekki er hægt að álykta að ógæfa Numa Pompilusar stafi af hnignun Rómaveldis. Það er einfaldlega svo að efnið hefur glatað rafeindum sínum. Og þannig verður það ætíð með allt starf sem tengist þróuninni. Oftast áttar fólk sig ekki á andartaki árangursins. Það heldur að byggingin eigi að rísa í sífellu í trássi við öll lögmál uppbyggingar.
Ekki er rétt að halda að síðasta tilraun vinar míns hafi verið misheppnuð. Gefum ekki gaum að þessum fáu kjánum sem við mætum á leiðinni. Áfangar að hinni nýju vitund hafa verið traustlega lagðir. Svo er einnig um leiðina sem við vöktum, lagning hennar hefur verið árangursrík. Á sama hátt var H.P.B. þakklát hinum hæðnisfullu trumbuslögurum, því hún þekki hið sanna gildi þeirra, sem eins og hún, voru trumburnar sem fjöldinn slær. Nálgist með vakandi athygli þá staði þar sem fjöldinn sér aðeins loddara. Munið að Kristur og Búdda voru heiðraðir með þessari nafnbót.

26. Þið spyrjið oft hvernig hægt sé að samræma gleðina sem rætt er um og gleðisnauð samskipti við annað fólks. Sannarlega fagnar hver fræðari hinni óendanlegu fegurð fjarlægu heimanna og þjáist yfir takmarkandi heimsku svo margra. Hvernig er hægt að gefa þeim lykilinn að þessum fjarlægu heimum? Eftir að hafa losað sig við hina þungu byrði heimskunnar verða þeir að sigrast á eitruðu slími efans og svo ógnvaldi sjálfsþóttans. Þá mun þungur trjástofn falla á höfuð þeirra og í fallinu niður þrepin er helsta von þessara snigla að geta í það minnsta fundið festu í neðsta þrepinu. Þessi ístöðulausi mannsandi gæti verið efni í lærdómsríkt leikfang fyrir börn. Svo sannarlega hafa sniglarnir betri festu við sína staði. Þeir taka að minnsta kosti ekki þátt í heimskulegum styrjöldum.

27. Einn nauðsynlegur eiginleiki fræðarans er að hafa ekki fastan bústað. Fræðarinn á sér samastað en ekki heimili. Fræðarinn kemur inn í lífið en fylgir ekki siðvenjum. Fræðarinn gæðir umræðuna fegurð en dregur hana ekki á langinn. Hann sýnir meðaumkun en syrgir ekki. Fræðarinn ver en hefur ekki frammi látalæti. Fræðarinn fullvissar en er ekki ráðvilltur. Hann varar við en tefur ekki. Ef nauðsyn krefur ber hann frá sér en særir aldrei. Hann er þakklátur og gleymir ekki. Hann leggur mat á tilgang en sýnir engin merki veikleika. Hann vakir yfir með aðgætni en beitir ekki valdi. Hann óttast ekki en er þó ekki kærulaus. Virðið því fræðarann sem birtist til að efla vöxt andans. Andinn þarf meðvitaða umönnun.

28. Við getum ekki lítið á Hatha jóga sem óháða aðferð. Við vöxt andans breytist það í Raja jóga. Ógerlegt er að nefna dæmi um mann sem hefur náð markmiðinu með Hatha jóga. Að auki getur árangur Hatha jóga í heimi myrkurs og fordóma valdið skaða með eflingu geðlíkamans. Fakírarnir geta samið sig að þessum myrka heimi og óafvitandi dregið úr flugi hugsananna. Jafnvel persóna sem situr hljóð í hugleiðslu getur náð lengra; því hugsun er Raja alls í tilverunni. Fegurð verður til við leiftur hugsunar. Logandi Bhakti getur vissulega vakið nýja heima með hugsun. Og eitt skref Jnana er aðeins bros Raja-Bhakti. Því eru Hatha og Jnana ekki upprunaleg og ófullnægjandi. Hvaða viskuspekingur er ekki einnig lávarður kærleikans?

29. Láttu fræðslu okkar vera sem þitt aðsetur, sem þína eigin byggingu. Láttu andardrátt endurnýjunar fylla alla tilveru þína. Gildi samfélagsins er tjáð í sameinaðri hugsun um þróun heimsins. Útdeiling efnislegra frumþarfa mun koma í kjölfar skilnings á hinum æðstu sannindum. Léttvægar eru hugsanir um hin lægri efnislegu gæði. Einnig er mikilvægt að hugsa ekki um magn en leita þess í stað eingöngu eftir gæðum. Ræða þarf án afláts um mikilvægi gæða og skaðsemi efa.

30. Einn samstarfsmanna okkar hafði lokið umfangsmikilli og mikilvægri efnafræðitilraun þegar barn eitt hrópaði: „Sjáið hve fagurlega hann leikur sér með glösin!” Við sjáum mann klífa fjall, dettur okkur þá í hug að hann sé að hraða sér á fund fræðarans? Við virðum fyrir okkur mann að sníða til timbur, er okkur þá ljóst hvaða hluta hússins hann ætlar að endurnýja? Við mætum konu sem ber vatn, vitum við þá hverra þorsta það mun svala? Við sjáum læsta hurð, getum við þá vitað hver mun fyrstur ganga þar í gegn? Skyndilega heyrum við þrumu, vitum við þá hvar eldingunni lýstur niður?
En menn eru þess fullvissir að hver sá sem beygir sig niður sé að gæta að heppilegu morðvopni. Þeir „vita“ að hver sá sem hvetur hest sinn sporum er að hraða för til að dreifa óhróðri. Þeir „vita“ að sá sem talar segir ekki sannleikann. Þeir „vita“ að sá sem býður fram hönd sína hefur svik í huga. Þeir ætla að allar gjörðir stjórnist af sömu hvötum og þeirra eigin hugsanir.
Ó, þið aumu! Hver hefur lagt á ykkur bölvun sjálfsvitundar? Hvar hafið þið grafið upp fordómana sem þið byggið mat ykkar á? Við hvaða krossgötur hlustuðuð þið á slúðurberana? Einföld kveðja virðist ykkur sem fordæming. Þið vonið að fjöllin standist ógn rógberanna og að höfin þorni ekki upp af svikum.
Fyrir ykkur hefur hinn helgi snákur þekkingarinnar ekki enn verið gerður!

31. Nauðsynlegt er að greina á milli reiði andans og skapstyggðar. Eld skapstyggðar þarf að greina í tvo flokka. Ef hún hefur í sér kosmískan eiginleika er hægt að fjarlægja eitur hennar með straumi prönu. En útfelling eitursins mun setjast á orkustöðvarnar ef skaðlegar tilfinningar, eins og þótti eða sjálfsmeðaumkun, efla skapstyggðina. Þá er engin leið til að fjarlægja hana; aðeins er mögulegt að afmá hana með því að þroska kosmíska skynjun.
Menn verða að sjá að góð hugsun hefur í sér fólginn lækningamátt. Einnig er þakklæti hið besta hreinsimeðal lífkerfisins. Sá sem hefur fundið fræið og áttað sig á umhyggju Sendandans getur sent frá sér þakklæti út í geiminn. Mikill lækningamáttur stafar frá útgeislun þakklætis. Allt sem er óeiginlegt verða menn að umbreyta í raunveruleika.

32. Hin alþjóðlega stjórn hefur aldrei afneitað tilveru sinni. Hún hefur kunngert tilveru sína, ekki með stefnuyfirlýsingum, heldur athöfnum sem jafnvel eru dæmi um að skráðar hafi verið á spjöld sögunnar. Hægt er að vitna í dæmi úr frönsku og rússnesku byltingunni sem og úr sögu ensk-rússneskra og ensk-indverskra samskipta, þar sem utanaðkomandi hönd breytti rás atburða. Stjórnin leyndi ekki tilveru erindreka sinna í ýmsum löndum. Eðlilega leyndu þeir aldrei stöðu sinni, því það hefði verið ósamboðið virðingu Stjórnarinnar. Þvert á móti komu þeir oft opinberlega fram, heimsóttu margar þjóðstjórnir og voru þekktir af mörgum. Bókmenntirnar geyma nöfn þeirra og prýða þá með hugmyndaflugi samtímamanna þeirra. Það eru raunverulegar persónur en ekki leynifélög — sem þjóðstjórnir óttast svo mjög — sem sendir eru út af örkinni samkvæmt fyrirmælum Hinnar alþjóðlegu stjórnar.
Alþjóðleg verkefni skaðast af sérhverju sviksamlegu athæfi. En Hin alþjóðlega stjórn lýsir því yfir að eining þjóðanna, skilningur á gildi skapandi starfs og vöxtur vitundarinnar séu mál sem ekki þoli neina bið. Ef athugaðar eru aðgerðir Stjórnarinnar er ljóst að ekki er hægt að ásaka hana um athafnaleysi.
Aftur og aftur hefur staðreyndin um tilveru Hinnar alþjóð¬legu stjórnar undir ýmsum nöfnum náð að skjóta rótum í vitund mannkynsins. Sérhver þjóð fær viðvörun, en aðeins einu sinni. Erindrekar eru sendir, en aðeins einu sinni á hverri öld — þannig er lögmál Arhatanna. Athafnir Hinnar ósýnilegu stjórnar eru í fullu samræmi við þróun heimsins, af því leiðir að afleiðingarnar byggjast á náttúrulegum lögmálum. Þar er ekki um neina persónulega löngun að ræða, aðeins óbreytanleg lögmál efnisins. Ég þrái ekki — ég veit! Því eru ákvarðanir ósveigjanlegar þrátt fyrir hina ólgandi strauma.
Hægt er að klífa fjall frá norðri eða suðri – niðurstaðan er sú sama.

33. Fyrirbærin sem þið hafið tekið þátt í hafa krafist stillingar. Þar að auki hafið þið hugsanlega séð þörf fyrir vissa spennu. Þetta ástand skapaði uppsöfnun orku sem líkja mætti við orkuna í brunahana. Því er líklega réttara að segja að til að fyrirbærin geti átt sér stað sé þörf fyrir hreina stillingu.

34. Viðleitnin er innstillt í miðju sólarplexus-orkustöðvarinnar á vaxtarskeiði vitundarinnar. Fari viðleitnin út fyrir sín hæfilegu mörk er hinn svonefndi elddauði óhjákvæmilegur. Óþroskuð vitund getur afborið afleiðingar viðleitninnar, en hærra flug krefst þess að fjársjóðurinn sé tímabundið geymdur í vörðu skríni.
Sérhver hugsun veldur útfellingum á veggjum taugarásanna. Eftir því sem viðleitnin er fullkomnari verður útfellingin meira sjálflýsandi. Eini staðurinn, sem er nægilega varinn til að geyma þetta eldsneyti, er sólarplexusinn, sem smám saman drekkur í sig útfellingarnar frá hinum ytri rásum. Stundum getur þessi upptaka orðið svo kraftmikil að hún valdi sársaukafullri stjörnulaga tilfinningu. Þá verður fræðarinn að beita kælandi geisla sem auðveldar söfnun útfellinganna frá útlimunum til orkustöðvarinnar. Þetta er allt hluti af vexti vitundarinnar. Hægt er að sjá hvernig næmnin vex í þriggja ára skrefum. Hvert skref krefst varðveislu skrínsins fyrir næstu lofsverða notkun.
Varðveitum lögmál lífsins sem vísar veginn upp þrep fegurðar og hamingju.

35. Þegar rætt er um gagnsemi einhvers er meiningin ekki sú að hann sé máttarstólpi fræðslunnar. Nauðsynlegt er að meta menn eftir raunverulegu gildi þeirra, vegna þess að oflof er sama eðlis og vanvirðing. Engan má draga með valdi til himins. Á tilsettum tíma fá blindir aftur sýn. Gagnlegt er að benda á í hve miklum mæli lífið er reglubundið og forðast allan óþarfa, svo að jafnvel hinn lægsti geti séð gagnsemi hinna efnislegu framfara. En rangt er að þvinga fólki til að þvo sér um andlitið. Veittu athygli gagnsemi hvers sendiboða, en láttu ekki asna bera byrði úlfalda.

36. Sérhvert andartak vitundar verður að flæða með straumi þróunarinnar. Líta verður svo á að sérhvert skref lífsins sé óaðgreinanlegt frá sjálfsfullkomnun. Form sem hefur mótast í fast form er hægt að fjölfalda, en bylgjan endurtekur aldrei eina einustu öldu.
Svefn eða árvekni, starf eða hvíld, hreyfing eða kyrrð, allt þetta ber okkur jafnt í átt til fullkomnunar á markmiði lífsins. „Eins og fallin laufblöð,” segir hinn huglitli. „Eins og fræ til sáningar,” segir sá vitri. „Eins og örvar ljóss,” segir sá hugdjarfi.
Hver sá sem fyllist skelfingu við gný straumsins er enn ófæddur í anda. Sá sem svífur á öldunni getur hugleitt hinar fjarlægu heima.

37. Svaraðu ekki fyrr en þú sérð að svarið verður skilið. Oft getur spyrjandinn ekki náð merkingu svarsins. Þá er nauðsynlegt að finna samhljómandi hljóm áður en hugsunin er send í nýja átt. Rangt er að ætla að straumur sem sker hugsunina sé meinlausari en hnífur sem sker í sundur æð. Ekki má rjúfa hugsun spyrjandans, veitum heldur nýju lífsblóði með því að næra og styrkja taugakerfið. Lát orðin í svari þínu ekki verða sem nagli í líkkistu, heldur sem geisli líknandans. Síðbúið svar má gefa í formi ráðleggingar.

38. Sá sem vill taka þátt í samvinnu verður að fá tækifæri til að sýna skilning sinn. Segið því við lækninn, „Þú getur sýnt útsjónarsemi við að gefa moskus, valerían eða sedrusviðartjöru. Einnig, menn geta sýnt góða eftirtekt með því að lýsa rás lífsins. Menn geta sýnt stöðuglyndi í viðleitni við að nálgast fræðarann, lausir við efa og fordóma.”
Vitnisburður lífsins sýnir fram á hve miklum árangri menn hafa náð. Og við metum mikils hvert stig árangurs. Sérhver klukkustund býður nýja óafmáanlega möguleika. Greinileg forrétt¬indi fást sem afleiðing af fyrri árangri — þannig næst árangur með lögmætum hætti.

39. Rangt er að ætla að auðvelt sé að tapa nokkru hér á jörðinni. Að finna er jafnvel enn erfiðara. Orðið tap gerir ráð fyrir eign. Sá sem safnar eignum þarf að dragnast með þær á eftir sér. Stundum er illmögulegt losa sig við eignir, bæði efnislegar og óhlutlægar. Því ráðleggjum við að eignum sé veitt viðtöku með allri þeirri ábyrgð sem þeim fylgir. Það gefur möguleika á því að bæta gæði eigna sinna og hugsana. Erfitt er að draga á eftir sér útslitnar og gagnslausar leifar.
Hvernig er hægt að hreinsa burt hin ljótu fleiður hugleysis og sviksemi? Sedrusviðartjara læknar ekki áruna. Fleiðrin verður að brenna með loga áfallsins, og hugrekki þarf til að þola sársaukann. En hvernig getur hugrekki risið af hugleysi? Óttinn skekur hugleysingjann, en fyrir Okkur er ótti alger óhæfa.
Þið sem safnið eignum — íhugið eiginleika þeirra.

40. Blindan mann dreymir um efnislega umbun. En fengi hann sjón yrði hann forviða að sjá að hann skapar sjálfur sína eigin umbun. Maðurinn er fullur gleði þegar vitund hans er að vaxa og þroskast, en tilhugsun um umbun bindur honum fjötra. Þrælar eru ófáir. Það eru einmitt þeir sem dylja þrælsótta anda síns undir kuldagrímu ósnertanleika og falskri höfnun þess sem þeir ekki eiga. Hver sá sem æskir launa er um leið orðinn þræll. Framþróun getur aðeins orðið með frjálsri vitund, án sjálfsþótta og sjálfslítillækkunar.
Hamar andans er það vopn sem verðugast er að eignast.

41. Brýrnar sem spanna þrepin í þroska vitundarinn¬ar eru óháðar atburðum samtímans. Rangt er að bíða eftir réttri afstöðu stjarnanna; vinna snáks sólarplexusins flæðir óháð ytri aðstæðum. En þessu innra starfi fylgir sérstakur næmleiki fyrir ástandi andrúmsloftsins. Þéttleiki andrúmsloftsins gerir starfsemi taugakerfisins erfiðara um vik. Því er þörf á læknandi áhrifum róseminnar.

42. Lyf þarf að greina í þrjá flokka — lífgjafa, verndara og hressingarlyf. Látum óvinum okkar eftir fjórða flokkinn — eiturlyfin. Snúum okkur fyrst að lífgjöfunum, því þeir verka fyrst og fremst á taugakerfið. Taugastöðvarnar og framleiðslu¬efni innkirtlanna vísa til framtíðarstefnu læknisfræðinnar. Á þessum vettvangi mun mannkynið uppgötva fíngerðustu orkuna, sem við enn nefnum anda til einföldunar. Uppgötvun á áhrifum þessarar orku mun verða næsta þrep í þróun siðmenningarinnar.
Þegar málmar eru notaðir við ræktun plantna munu ræturnar gefa frá sér gagnleg efni. Það er því nauðsynlegt að beina athyglinni enn og aftur að jurtaríkinu. Veitið auk þess næringareiginleikum grænmetis og korntegunda eftirtekt, og margt mun vekja undrun ykkar. Dómgreindarskortur í vali manna á fæðu er furðulegur. Hér hef ég gæði í huga.

43. Neminn má ekki vera haldinn þráhyggju, og Fræðarinn má ekki vera sem einvaldur. Sannlega er þess krafist af nemanum að hann hafi skilning á Helgivaldinu og á samræmi í athöfnum – að frjáls vilji og viðurkenning á Fræðaranum sé samrýmanlegt. Veiklyndur hugur er oftast ráðvilltur. Að sjálfsögðu munu aðstæður og takmarkanir fræðslunnar stangast á við hugtakið frelsi í sinni grófustu merkingu. En með aukinni menningu og skilningi á réttri stefnu mun hin háleita hugmynd um Fræðarann mótast. Skilningur á mikilvægi hugmyndarinnar um Fræðarann felur í sér að neminn kemst í gegnum fyrsta hliðið á þróunarleiðinni. Engar væntingar um yfirnáttúrulega hluti ætti að tengja hugmyndinni um Fræðarann. Fræðarinn er sá sem veitir bestu ráðin í lífinu. Í þessu felst raunhæf þekking, sköpunarmáttur og óendanleiki.

44. Segið ekki: „Ég man ekki.“ Segið: „Ég tók ekki nógu vel eftir.“ Skellið ekki skuldinni á minnið, athugið heldur skort ykkar á athygli. Menn falla heldur niður stigann en að gæta að því hvar þeir stíga niður.
Segið ekki: „Ég veit það ekki.“ Segið: „Ég er ekki enn búinn að kynna mér það.“ Hvorki aldur né heilsa né lífsaðstæður réttmæta hið neikvæða hugtak „Ég veit það ekki.“ Brennandi lífsáhugi er í sama liði og löngunin til að læra.
Segið ekki: „Ég hef ákveðið.“ Segið: „Ég tel að þetta samrýmist markmiðinu.“ Auðvelt er að aðlaga betur stefnuna að markmiðunum, en það er óverðugt að breyta ákvörðun sinni.
Fyrir alla muni forðist að bjóða óhamingjunni stöðugt heim, eins og svo algengt er.

45. Maður ætti staðfastlega að segja fólki að Nýi heimurinn sé nú þegar staðreynd. Fólk er ekki reiðubúið að taka þátt í verkefnum sköpunar. Það er rangt að ætla að hernám tengist á nokkurn hátt verkefnum Nýja heimsins. Hvort sem það er hernám landa eða ákveðinna þjóðfélagshópa, þá telst það úreltur og víkjandi hugsunarháttur. Í framþróuninni er aðeins hægt að gera ráð fyrir upphafningu vitundar sem byggist á frjálsum tækifærum.
Þegar skoðuð er þróunarsaga mannkynsins, má greina heil tímaskeið vitundarvaxtar. Við skulum ekki leyna því að einmitt núna eru að opnast fyrir mannkyninu bók uppgötvananna og ljós dirfskunnar. Þessi þroskaði ávöxtur hins þyrnum stráða erfiðis samfélagsins er núna að því kominn að því að springa út úr fræjunum. Er unnt að höggva ávöxtinn í sundur með sverði, eða kremja hann með hræðslu eða skríðandi hugleysi, eða sölsa hann undir sig með svikum og prettum? Nei, eingöngu eining vitundar og öflun þekkingar getur fært mannkyninu nýjan kynstofn. Drifkrafturinn til þessa veitist ekki með kosmískum fyrirbrigðum, heldur straumi hugsunar.
Missum ekki af þeim ákvarðaða degi þegar eldingar hugsunar munu forma úrlausn fyrir heiminn. Við leggjum til að mannkynið hugsi ekki aðeins um, heldur skilji og skynji andartak stjörnuefnavirkni plánetunnar þegar hugsun magnar andrúmsloftið, eins og efnahvati.
Hvað sem öðru líður mun hugsun renna yfir enni efasemdamannanna þar til menn hafa öðlast skilning á útgeislun hugsunar. En andartakið bíður ekki!

46. Ákveðin einkenni greina á milli vaxandi og hnignandi þjóða. Vaxandi þjóð dreymir um hetjur. En fyrir þjóð sem er útbrunnin er hugmyndin um hetju bæði þreytandi og tilgangslaus. Þó yfir slíka þjóð sé ausið gulli og hún upptendrist af monti, er hún óhæf til hetjudáða. Draumar og brennandi áhugi hinnar raunverulegu dirfsku hefur yfirgefið þá þjóð sem aðeins þekki skynsemi.
Allir muna eftir sögunum um börnin sem yfirgáfu heimili sín í leit að hamingju, og í ævintýrum allra tíma veitist þessum börnum hamingja.

47. Menn eru því ekki mótfallnir að dreyma um æskilegar breytingar á grundvallarvirkni mannslíkamans. Getnaður fósturs, upplausn efnis, þyngdarleysi líkama og meðvituð efnisbirting eru umræðuefni, jafnvel í kirkjulegum skrifum. Það mætti álykta að sjóndeildarhringur möguleikanna ætti að víkka frá frumbernsku og fá stuðning í tilraunastofum nákvæmra vísinda. En það er einmitt hér sem ófullkomleiki mannkynsins veldur hindrun. Hinn djarfi leitandi sem helgar sig nákvæmum vísindum snýst fljótlega yfir á almennt stig og tekur til við að líkja eftir siðum forfeðra sinna.
Við sáum hvernig hinn rauði logi umbyltingar minnkaði niður í reyk í arninum. Við sáum hvernig hinir mörgu ljósfánar voru endursaumaðir til að hylja fordóma. Við fréttum hvernig tignarlegar byggingar voru notaðar fyrir markaðsviðskipti. Huglítil fáfræði hefur ofið net sín og óttast fyrst og fremst að yfirgefa hinar mosavöxnu strendur þaktar hrörnandi beinum.
Fræðsla þróunarinnar kennir að hugleysi vex sem undanfari kynstofnsbreytinga. En tíminn nálgast, og þeir sem ekki hafa lært að synda neyðast til að gleypa saltvatnið.
Fylgjumst með stökkum hinna hugdjörfu.

48. Það er brýn þörf á því að aðstoða pílagrímana við að skilja Fræðsluna. Einföldustu atriði til endurbóta í lífinu verður þeim til hjálpar við að fylgja þessari nytsömu leið. Gagnsemi mun beina þeim til að leita fegurðar. Lífið sjálft mun sýna fram á skilyrðin fyrir því að nálgast markmiðið. Einföld útskýring á verkefni getur gefið mönnum sjálfstraust til að ljúka því. Á þann hátt munu þeir finna hinar auðveldari, fljótlegri og gagnlegri leiðir til framfara.
Dirfska hins óhlekkjaða manns er ekki eitthvað óhlutstætt hugtak. Hugrekki fuglsins sem flýgur yfir úthöfin gefur mannkyninu fordæmi, þótt svo enginn álíti að svalan sé hetja.
Samt sem áður, viðrið geymslur ykkar og veggi.

49. Spurt verður: „Hver gaf ykkur rétt til dirfsku?“ Svarið: „Þróunin gefur okkur rétt til dirfsku. Réttur þróunarinnar er skrifaður eldstöfum í hjörtum okkar. Ekki er unnt að svipta okkur sannindum framþróunarinnar. Bæði mitt í fjöldanum og í einsemd þekkjum við okkar óafsakanlega rétt. Við getum fullyrt að aðeins hinir blindu eru ófærir um að sjá stefnu þróunarinnar. En þegar dyr þekkingarinnar eru markaðar skýrum dráttum, er ekki erfitt að stefna út úr myrkrinu.“
Dirfska! Ætti maður að skilja hana sem fáheyrt afrek? Ætti dirfskan ekki að vera daglegt brauð, og klæði hverrar hugsunar? Munu ekki fangelsismúrar verða gegnsæir? Og mun ekki innsigli hinnar duldu bókar bráðna fyrir þeim sem dirfist?
Með því að mæla með dirfsku, erum við að bjóða fram einföldustu leiðina. Hjartað nemur að sú leið er sönn. Um þessar mundir er ekki hægt að benda á neina aðra.
Sýnið dirfsku! Það er mikið um elda í heiminum, en aðeins í eldi er unnt að móta grundvöll hins nýja heims. Járnsmiður, haltu hamrinum stöðugum!
50. Hvenær munu menn skilja gildi hugsana og orða? Menn telja ennþá að verra sé að missa niður venjulegan fræsekk, en að láta út úr sér skaðleg orð. Hvaða nagdýr sem er getur tínt upp fræin, en jafnvel Arhat er ekki fær um að eyða afleiðingum hugsana og orða. Þegar menn fara í sjóferð þá taka þeir með sér vandlega valda hluti; en í mæltu máli vilja þeir ekki huga að merkingu orðanna og afleiðingum þeirra. Við komum ekki með ógnanir, en Við bendum á fyrstu ummerki um reyk sem liðast undan skyrtunni.

51. Munið, að vinna með okkur gengur aðeins í eina átt — með samhæfingu og stefnufestu. Sá sem svíkur leið sína hefur einfaldlega ekki þessa eiginleika og örlög hans má líkja við kettling á sjó.

52. Iðrun er ekki til í orðaforða Senzar. Það sem er til er, er það sem þú kannast við — skynsamleg samvinna. Íhugið hræsnina sem fellst í hugmyndinni um iðrun. Það er einfaldlegast að sýna það með dæmi. Með slæmum hugsunum særir maður bróðir sinn; en engin iðrandi orð eða hugsanir geta læknað særindin, aðeins er hægt að bæta það með stöðugri viðleitni. Því stefnufestu er aðeins hægt að endurbyggja með skynsamlegri samvinnu. Afleiðingar af verkum er aðeins hægt að bæta með verkum. Engin loforð né eiðar skipta máli.
Sá sem skynjar misstök sín verður að leiðrétta þau með réttum aðferðum. Aðeins með skynsamlegri samvinnu er hægt að eyða misstökunum.
Lausn iðrandi syndara gegn greiðslu — er það ekki hin ægilegasti verknaður? Eru þessi Guðlegu mútur ekki verri en hinir verstu galdrar? Það verður að varpa ljósi á allar hliðar þessa ægilega vandamáls, annars munu þessar mannlegar dulur aldrei fella þær grímur.

53. Við verðum einnig að snúa okkur aftur að hinum snúna höggormi, efanum. Efinn er tvennskonar: annar hringar sig í bæli sínu, í myrkrinu, hreyfingarlaus og tilbúinn að höggva. Hinn er stöðugt að, skríður, hringar sig og rís upp. Þau fyrri eru einkenni hinna yngri; þau seinni einkenni hinna eldri. Ástæðan er fremur slægð en hræðsla hjá fólki. Fólk dylur ástæður skoðana sinna með þessum eiginleika vegna sinna fyrri svika. Þó maðurinn sé ekki hallur að sjálfskoðun, er hann ávallt tilbúinn að dæma aðra, út frá sínu eigin siðgæði.
Reynið að halda aftur af birtingu efans. Hindrið ekki göngu ykkar með slíkum fjötrum. Sannarlega er auðveldara að bera raunverulegan höggorm við brjóst sér, en að vera smásaman kæfður af efanum.

54. Flýtum því að upplýsa vitund um hinn nýja heim. Skiljum allar minningar eftir. Getur ökumaður ekið áfram ef hann lýtur stöðugt aftur?

55. Við skulum ekki skipta heiminum í suður, norður, austur og vestur. En skiptum öllu milli þess nýja og gamla heims. Sá gamli finnur skjól í öllum kimum jarðarinnar. En nýi heimurinn fæðist alstaðar, handan allra hindrana og aðstæðna.
Gamli og nýi heimurinn er aðgreindur af vitundinni, en ekki af ytri birtingu. Aldur og kringumstæður skipta ekki máli. Nýir fánar eru oft reistir af höndum gamla heimsins, þó enn með fordómum. En í einverunni slær hjarta sem geislar nýja heiminum. Þannig skiptist heimurinn stöðugt fyrir augum okkar. Nýja vitundin vex, óræð en djörf. Þrátt fyrir reynsluna missir gamla hugsunin styrk. Það er ekkert afl sem getur haldið aftur flóði nýja heimsins. Við hörmum sóun orku hinnar víkjandi vitundar. Við fögnum með brosi djörfung þeirra sem skilja rétt sinn til nýrra athafna. Hver misstök sem gerð eru í nafni nýja heimsins, munu verða ávextir hugrekkis. Hversu vel reynt er að vefja inn gamla heiminn, verður hann áfram beinagrind hryllings.
Gamli heimurinn hafnaði Móðir Heimsins, en nýi heimurinn byrjar að meðtaka ljóma hennar.

56. Við ættum að skilja hættuna af þeim bylgjum sem settar eru á lægri svið lofthjúps okkar. Einsýn vitund getur skapað áður óþekktar hörmungar. Árekstur hljóðs- og ljósbylgja geta valdið alvarlegum heilatruflunum.
Hvert eigum við að beina vitund okkar? Sannarlega að raunverulegum óendanleika. Það þýðir að tími er komin til að snúa frá grófum sviðum efnisins til rannsókna á fínni orku.

57. Minnumst þjóðsögunar um hinn heilaga bikar. Titurel, sem var trúr fræðslunni, öðlaðist afl ljóssins. Eftirmaður hans, umvafinn myrkri, blæddi stöðugt úr ólæknandi sári. Í minningu verðugri daga var líkami Titurel til sýnis og sagan um hinn mikla dauðdaga var endurtekin. En engu að síður hafði logi Sannleikskaleiksins verið slökktur. Tilkoma nýrrar hetju var þörf til að endurhöndla Sannleikskaleikinn frá hinum óverðuga eftirmanni Titurel. Aðeins þannig var hægt að kveikja eld heimsins að nýju. Þessi þjóðsaga er vel þekkt á Vesturlöndum, en hún var upprunninn frá Austurlöndum. Minnir það ekki á ákveðið hliðstætt tilfelli í dag?

58. Við getum heiðrað hetjur, en hver stund færir eigin dóm. Eðlilegt rof í bergmótum birtir nýjar gullæðar.
Rífum ekki niður musteri annarra, ef við getum ekki strax reist nýtt musteri á sama stað. Musterisstaður má aldrei verða skilin eftir auður.
Til að tjá eiginleika Guðs, hefur mannkynið fundið upp margar skilgreiningar. Hver ný hugmynd lengdi þekkingarþráðinn. Það er ekkert hlið í Austrinu þar sem nafn hins hæsta hugtaks er ekki áritað. Sannarlega getum við ekki farið inn á svið Austursins án þekkingar. Gleymum ekki að á hvern stein hefur Austrið ritað sín hugtök.

59. Lengd fræðslunnar er í öfugu hlutfalli við mælingu vitundarinnar. Því meiri vitund því minni er formúlan. Fyrir þá sem eru nærri, er orð eða stafur nægilegt. Fyrsta skipunin er líkt og löng þruma — sú síðasta er í þögn!

60. Hversu mikill er leikur Heimsmóðurinnar! Hún bergmálar til barna sinna frá fjarlægum sviðum: „Hraðið ykkur börn! Ég vil fræða ykkur. Ég hef skýra sjón og næma heyrn fyrir ykkur. Setjist niður í kjöltu mína. Lærum að fljúga!“

61. Það er rétt ályktað, að margvíslegar afleiðingar eru af áhrifum mannsins á umhverfi sitt. Sannfærandi dæmi er að finna í áhrifum manna á dýr og plöntur. Gefðu einhverjum dýri eða plöntu og takið eftir breytingum á aðstæðum þeirra og þá getur þú vitað ef maðurinn eyðir lífsorkunni. Eins og vampíra, pínir reiðmaðurinn hest sinn; veiðimaðurinn hund sinn; eða garðyrkjumaðurinn plöntuna. Leitið eftir því hvað veldur þessum gerðum mannsins.
Rannsakið og skráið sögu veikinda andans. Rætur þess sem birtist er falið í fyrri uppsöfnun. Ég hvet til þess að þið sýnið fólki kulda sem hefur slíka óheilbrigða afstöðu gagnvart jurta og dýraríkinu. Slík kuldaleg framkoma mun koma þeim í skilning um rangindi sín. Lítið ekki á þetta sem grimmd. Við minnum aðeins á að þið sýnið viðkvæmni fyrir öllum sem knýja á.

62. Lærðu, að þú kemur aðeins með það inn á geðsviðið sem þú hefur öðlast á jörðu. Fáviska er til staðar þar eins og hér. Hver getur aðeins öðlast þar, það sem hann lærði að þrá hérna. Það er næstum ómögulegt að efla vitundina þar. Þess vegna skulið þið safna vitund hér, svo þið komið ekki þar í úr sér gengnum lörfum.

63. Ef þið takið eftir endurtekningum í fræðslunni, þýðir það að ný smáatriði hafa bæst við, eða að atriði sem ekki hafa verið aðlöguð í lífinu, þarf að leggja áherslu á aftur.
Þið eigið að muna að kostir þess að meðtaka prana, er hægt að setja yfir á allt samfélagið. Hver og einn getur geymt prana, ekki aðeins fyrir sig, heldur getur fært öðrum hluta af sínu með fínni orku.
Til forna var veikur einstaklingur umkringdur heilbrigðum í þeim tilgangi að efla styrk sjúklingsins. En það er nokkurskonar orkustuldur, sem ætti ekki einu sinni að mæla með. Það er allt annað þegar um er að ræða vitandi yfirfærslu, sjálfgefna og af góðvild. Það þarf ekki að beinast að einni persónu, heldur fleirrum í einu ef skilningur er fyrir hendi hvernig sendingum er úthlutað á réttan hátt. Það er mikilvæg vitneskja að efnislegra hjálp sé hægt að senda með fínni orku. Þyngra efni er flutt með þyngdarlausri orku. Þetta er ekki tilgáta heldur raunveruleg fyrirbrigði.

64. Bræður okkar kunna að bregða fyrir hjá ykkur með óskýrri ásjónu. Ef ásjónan er þokukennd, megið þið vera viss um að sú persóna þurfi að einblína meira í eina átt. Ef konumynd sést með hulið andlit, þá er sú birting tengd Heimsmóðurinni.

65. Ef í einfeldni maður spyr um tilgang fræðslunnar, svarið; „Að þú megir lifa hamingjusamur.“ Það á ekki að ofgera honum með of flóknum útskýringum. Látum tilveru hans eflast með skilningi um að fræðslan láti sig varða að bæta líf hans. Skilningur á ábyrgð kemur seinna. Kunngerum fyrst — gleði og bætt lífsgæði.

66. Getum við sagt fólki sannleikann um þróun heimanna þegar það hefur ekki vissu um sitt daglega brauð? Við verðum að forðast að gefa háleit loforð.

67. Hvernig vekjum við hollustu? Með markmiði. Hvernig bætum við gæði? Með virðingu fyrir fullkomnun. Hvernig vekjum við sköpun? Með þrá eftir fegurð.

68. Látum börn lýsa hugmyndum sínum um nýja landið. Með því getum við séð hvernig hið óséða mótast í birtingu. Hvetjið börn til að láta drauma sína rætast. Það er besta verkefnið sem við getum boðið þeim. Síðar, biðjum þau um að lýsa venjulegum steinmola. Það er próf á frumkvæði og úrræði þeirra. Kannski gefur steinninn þeim hugmynd um kastala fjarlægra heima. Frá hinu venjulega getur komið neisti fegurðar.

69. Þú hefur margoft heyrt hið þekkta orðatiltæki: „Ég fór en snéri síðan aftur.“ Því er hægt að svara, „Hve mörg tækifæri fóru hjá garði í för þinni!“ Óendanlega er tap mannsins af slíku skrópi. Maður fer og kemur í hvert sinn af eigingjörnum hvötum. Slík „innra afrek“ minna á snarkandi kveik. Hæfileikinn til að fela hina sönnu ástæðu fyrir þessum fram og aftur ferðum, má alveg eins nota til að bóna gólfið. En blöðrur á iljunum kunna að valda sársauka.
Spyrjið hvern þann sem fer: „Hver er móðgunin?“

70. Aðgreinum einsýna vitund frá einbeittri orku. Stundum beitir fræðarinn einbeittri orku til að örva starf andans í tiltekna átt. Það þýðir ekki að að vitund hans sé einsýn.
Við beitum ekki allri vitundinni til að senda eina hugsun. Aðeins hinir fávísu bera alla sína þurru kvisti eigin ágætis á borð. Sá sem á fullt hús þekkingar er ekki hræddur við að gefa litla hugarsneið.
Sáning fyrir einni korngerð getur gefið góða uppskeru, en enn meiri verður hún af fjölbreyttari góðum fræjum. Það veldur útþenslu andans.

71. Urusvati, tilraunir með segulmagnaðar sendingar milli plánetna geta valdið sársauka. Það er rétt að líta á segulmagnaða strauma sem brautir milli plánetna. Rannsóknir á samskiptum milli heimanna eiga að beinast að segulbylgjum, en að sjálfsögðu má ekki gleyma andlegri vitund.

72. Hefur þú loks lært að fagna mótstöðunum? Getum Við verið viss um að það sem sýnist vera hindrun muni efla úrræði þitt tífalt? Getum Við samþykkt ykkur sem sigursæla baráttumenn? Getum Við verið viss um að að hjálp Okkar verði gripin á flugi hennar? Getum Við borið fram orð nýja heimsins í einingu með ykkur? Getum Við verið viss um að þið hafið brennt gömlu slitnu larfana í nafni fegurðar sköpunarinnar? Getur Heimsmóðurinn treyst árvekni þinnar fyrir snertingu ljóssins? Getur Ljónið komið ykkur til aðstoðar? Getur ljósið lýst leið ykkar? Að lokum, skiljið þið hvernig þið beitið fræðslunni á ykkur sjálf? Getum Við treyst ykkur að þola gefin tákn? Getum Við sent ykkur geisla fullkomnunar? Getum Við mælt með árvekni ykkar? Getum Við byggt virki upp af sjálfsþekkingu ykkar? Getum Við fagnað staðfestri göngu ykkar? Getur Heimsmóðirin kallað ykkur tilbúin? Getur Ljónið orðið verjandi hýbýla ykkar? Getur ljósið baðað hin nýju skref? Takið slagbrandinn frá! Sigurinn er við þröskuldinn!

73. Þú veist að í 3.500 metra hæð þarfnast geðlíkaminn sérstakra eiginleika. Hver hæð hefur áhrif á á hvern líkama. Þú kannt að hafa tekið eftir því að í 2.250 metra hæð þarft þú að borða minna. Fæðuþörf minnkar smásaman eftir því sem hærra er farið þar til komið er í 5.100 metra hæð er lystin verulegri minni. Ofar 2.900 metra hæð mæli ég ekki með að nota vín, kaffi, pipar né önnur krydd. Ofar 5.500 metra hæð er jafnvel sterkt te óæskilegt. Samhliða minni þörf fyrir fæðu, er minni þörf fyrir svefn; ekki þarf meira en sex tíma svefn, og í 6.500 metra hæð er fjögurra tíma svefn nægur. Þannig krefst mikil hæð minni fæðu og svefns.
Í mikilli hæð er ekki ráðlegt að taka Valerian með kryddi— sem hefur verið mælt fyrir þig og það er hættulegt að neyta sama magns fæðu og í lægri hæð. Fjöllin er mikilvæg, því þau leiða okkur úr lægri aðstæðum. Í hæðum er tilfinning fyrir því að vera laus undan venjubundnum jarðneskum kröfum. Ef 3.500 metra hæð hefur veruleg áhrif á geðlíkamann, þá hafa hverjir 300 metrar til viðbótar áreiðanlega enn meiri áhrif á efnislíkamann. Það hefur óbætanlegar afleiðingar að reyna að aðlaga neðri aðstæður að aðstæðum í mikilli hæð. Munið og aðlagist.

74. Hvert ytra form afbakar veruleikann. Spenna skapast við að vera á verði, eins og að draga úr falskri skynjun, en allt sem er séð, allar endurspeglanir, allar hugsanir, framkalla sína ímynduðu liti.

75. Fólk er tilbúið fyrir hvers skyns andleg sifjaspell. Það er meira en tilbúið til að sameina grunnþætti sem eru ósamrýmanlegir. Það reynir að sameina föðurþáttinn, eldinn, með dótturþættinum, vatninu; og móðurþættinum, jörð við sonarþáttinn, loft. Ef afkvæmi þess eru brennd til ösku, kenna þau ekki sjálfum sér um, heldur að ábyrðin sé Guðs.
Það er ómögulegt að venjast ábyrgðarleysi mannalegra verka. Aðeins andleg vitund getur greint hvað séu ósamrýmanlegir þættir. Menn eru ekki aðeins skilgreindir eftir útgeislun, heldur einnig eftir eðli grunnþáttanna, sem ávallt haldast óbreyttir. Bestu samsetningarnar grunnþáttanna felast í tengslum þeirra hvers til annars.

76. Flýtið, flýtið ykkur að ná skilningi fræðarans! Umkringjum Hann með verndandi tryggðarmúr og um leið umliggjum okkur sjálf innan virkisins. Eftir að þú hefur reikað nógu mikið, mun þér skiljast að með fræðaranum nærðu ávallt árangri. Þar sem ósigur á sér stað, hafa átt sér stað svik við fræðarann. Ósigur verður af okkar völdum þar sem við beygðum af og afbökum markmiðið. Í ósigri, snérum við baki við hjálparsendingum. Getum við fullyrt að á ögurstundu munum kunngera nafn fræðarans? Getum við borið vitni um nafn fræðarans? Getum við uppgötvað gleði í þakklæti til fræðarans? Eða, á hinn bóginn höfum við stundum undrast af hverju fræðslan taki ekki undir venjur okkar, og hvers vegna athafnaleysi okkar er truflað af fræðslunni? Hvers vegna við erum vakin upp af svefni sjálfsréttlætingar?
Þakklæti og hollusta blómstrar með gleði í samfélagi Okkar. Ef Okkur berast orð um að samstarfsmaður telji sig hafa þjáðst í nafni fræðslunnar, mun það neyða Okkur til að hafna samstarfi við hann. Samstarfsmenn okkar vita hvernig á að gefa og þiggja. Þegar þú dreifir fræðslu okkar, þá kallaðu hana ekki af torgum, heldur bjóddu þeim bros sem koma. Þeir sem koma, munu samþykkja fræðarann. En sá sem er snaraður mun slíta sig frá. Við væntum gleði og samþykkjum aðeins fögur tryggðarblóm. Flýtum okkur að skilja fræðarann!
Staðfestið árangur; staðfestið gleði; staðfestið skilning á framgangi. Hendið á brott hugsunum sem tilheyra gamla heiminum. Ég mun ekki þreyta ykkur með þessum endurtekningum.

77. Þið vitið að meðlimir og samstarfsmenn Hins alþjóðlega stjórnvalds hafa ávallt hlýtt lögum þess. Í síðasta sinn skulum við snúa okkur til M., til aðvarana Okkar á sögulegum atburðum. Þessar aldalöngu hefðir að aðvara mannkynið, á hverri nýrri öld, er gerð í mestu góðvild; það er grunnstefið. Annars væri hlutverk sendiboðans ekki einlægt og sannfærandi. St. Germain ræddi við L. með góðum ásetningi. Með sama hætti ræddi M.˙.við V., og A.L.M. flutti vel lög okkar. Ég lofa alla þá sem hafa hjálpað sendiboðum okkar við þeirra upplyftandi hugsanir.
Ef baráttumanni Okkar er sagt að fjallið sé Okkar, samþykkir hann lögin. Ef það væri ekki þannig, myndi mikilvægi Stjórnvaldsins tapast.
St. Germain varð veikur eftir að hafa uppfyllt verkefni sitt, vegna óagaðra hugsana eins samstarfsmanns síns. Verið á verði fyrir harmi óagaðra hugsanna. Hugsið aðeins með nýjum hætti. Lítið svo á, að sá dagur sé tapaður sem ekki fól í sér íhugun um nýja heiminn. Takið að ykkur vandamál í lífinu sem krefst varanlegra lausna. Eyðið ekki tíma í spurningum um Alheiminn meðan þið reynið að átta ykkur á jarðneskri tilveru.

78. Þú áttir erfitt með snúa frá athugunum þínum á niðurbroti granítfruma. Þegar það kom að því stigi að hægt var að bera það saman við frumur hryggleysingja, sást þú að púlsslátturinn var næstum eins.

79. Hvern eigum við að kalla hugrakkastan? Kannski minnsta fiðrildið sem er jafn óvarið fyrir sömu aðstæðum og ljónið. Skoðið hver áhrif fræðslunnar er á hina einlægu. Þeir bera þrumur uppljómunar oft betur en þeir sem eru álitnir miklir.

80. Ef við getum staðfest tilvist hugsunar, jafnvel í steini, hversu skýr er regnbogi hugsana sem fylla geiminn! Við ættum að venjast þeirri hugsun að hugsun gegnsýrir allt sem til er. Þessi veruleiki, áþreifanlegur en ekki afstæður og skilgreindur sem orka, varðveitir áreiðanlega möguleika á þróun vitundar.
Þar til nýlega hefur næmni plantna verið álitin eðlishvöt, en eftir rannsóknir getum við heimfært þessa „eðlishvöt“ inn á svið hugsunar. Þess vegna verðum við að skoða upp á við og niður á við. Maðurinn er í villu ef hann heldur sig vera þann eina sem hefur eiginleikann til að hugsa. Með einföldum dæmum, getum við sýnt hvernig þættir eins og aldur, kringumstæður og þjóðerni hafa áhrif á mannleg hugsun. Það er sláandi að sjá hversu veik hugsun hins venjulega manns er; en nafnlaus hugarsending getur lyft anda hans. Það er hægt að breyta útvarpi lítillega svo það geti tekið á móti hugsunum úr geimnum. Hugsanir eru lifandi efni sem getur nærst og hægt er að næra.
Íhugið birtingu hugsana. Skiljið hvernig þær eru allt um kring og gleðjist yfir rannsóknum á hugsunum, að þær tengi öll ríki, frá frumum steinaríkisins upp í óendanleikann. Segulbylgjur, rafneistar og hugsun — þessir þrír sendiboðar heilsa þeim sem strita að óendanleikanum.

81. Getur hugsun þrumað? Bergmál er dæmi. Hugsun, eins og hljóð magnast í segulbylgjum. Orðatiltækið „þrumur hugsunar“ eru engar ýkjur. Eðli hugsana þarf að rannsaka. Til dæmir; er það mögulegt að hugsanir með tilteknum ákafa og markmiði geti haft áhrif á plöntur? Hvernig bregðast dýr við ákveðnum hugsunum? Hvernig hafa hugsanir áhrif á mann? Hvernig verka hugsanir sem þáttur í efnasamsetningu? Er ekki æskilegt að að prófa hugsanir með Litmus pappír? Getur hugsun haft áhrif á vírus, eða hljóm með afli sínu? Almennt þarf að rannsaka hugsun sem lifandi tilvistarþátt. Þannig verður hægt að byggja brú á milli þess andlega og efnislega, frá sálfræði til aflfræði, jafnvel til stjarneðlisfræði. Þannig gætum við skilið gangverk geimsins.

82. Getum við treyst blindum stýrimanni? Er það mögulegt að hugsa sér að forn hugsanaklæði geti klætt nýja heiminn? Við verðum að átta okkur á því að gjafir nýja heimsins eru færðar að þeim hliðum sem eru opin þeim. Sannarlega vill nýi heimurinn bera falleg klæði. En mannkynið verður að nálgast, til að fá klæðin sem ofin eru af Heimsmóðurinni!

83. Dreifið fræjum fræðslunnar smásaman. Látið það ómótstöðulega flæða. Tími predikana er liðin og lífið heldur áfram. Eflið vitund bræðra ykkar með ómótstæðilegri snertingu, sem hann fær sem daglegt brauð. Afhjúpið og skiljið reiði hans og slökkvið hana með markmiði. Styðjið hann í skilningsgleði uppgötvana. Gætið að því að ekki er um kraftaverk fyrir hann, heldur sýnið honum samræmið sem gengur inn í óendanleikann. Yfirgefum hátíðardagana og gerum lífið að áframhaldandi hátíðardegi.
„Mínir hátíðardagar munu verða þínir. Vegur Minn mun verða þinn árangur. Gjafmildi Mín mun verða arfur þinn. Þú munt ekki taka eftir gjafmildinni, en þú undrast þína eigin umbreytingu. Ég þarf ekki þakkir, en þakklæti þitt mun verða kraftur fyrir þig, því að það háleita ofar logum annarra gjafa er þakklætiseldurinn.“
„ Fræðari, ég sé og man óafmáanlega.“
Birting árangurs fræðarans glóir eins og perluband milli plánetna. Bætið einnig við ykkar eigin perlu!

84. Ég trúi því að allir geti lesið bækur Okkar. Ég sé ekki að neinn sem nálgast þær sé hræddur. Reynið á hræðslu fólks. Sýnið þeim ógnvekjandi grímur, en sýnið skilning þegar hjarta þeirra titrar. Hvar er traust þeirra til fræðarans? Skilja þau hvar aflið liggur? Hægt er að þekkja Okkar fólk við fyrsta kall. Eins og dádýr munu þau flýta sér. Ég veit ekki um neina ógnargrímu sem fælir þau í burtu.
Við þurfum ekki alltaf að taka dæmi af risum eða hetjum. Ég minnist Hindúa drengs sem hafði fundið fræðara sinn. Við spurðum hann, „Er mögulegt að sólin sýnist ekki eins skær þegar þú ert ekki með fræðara þínum?“ Drengurinn brosti og svaraði “Sólin myndi vera óbreytt, en í viðurvist fræðara míns er eins og tólf sólir skíni á mig.“
Sólviska Indlands mun skína, því við árbakka situr drengur sem þekkir fræðara sinn.
Alveg eins og til er rafleiðari, eru til leiðari og uppsöfnun þekkingar. Ef villimaður býst til árásar á fræðarann, segið honum hvað mannkynið kallar þá sem eyðileggja þekkingarsafn.

85. Getur Okkar fólk haft þá sem eru þeim kærastir nærri sér? Að sjálfsögðu geta þeir það. Þeir sem eru næstir eflast í ábyrgðartilfinningu, einlægni og úrræðum.

86. Sérhver á að vita að ef orkustöð er opin, eykur það fullkomnun í eigin umhverfi. Það eykur ekki aðeins næmni, heldur eflir eigin orku til að bæta umhverfi sitt. Það er eins og orkunni sé náð utan frá, þessi opnun orkustöðvanna er kölluð „Lampi eyðimerkurinnar.“ Eftir það fylgir „Ljón eyðimerkunnar.“

87. Við verðum að greina á milli algerar hollustu og skilyrtar hollustu. Oftast sýnir fólk algera hollustu þegar þau þiggja, en þegar gjöf er endurgoldin er það oft erfitt vegna sjálfskapaðra aðstæðna. Sumir þiggja það sem þeim er gefið, en setja upp hindranir í vitund sinni, hugsa til dæmis um að gjöfin hafi aðeins verið tómur kassi! Við ættum að muna að mæling á eigin hollustu ákvarðar hvað við fáum til baka. Trú verður að vera í samræmi við þekkinguna. Allar skilyrtar aðstæður sem settar eru á trúna, setja jafnar takmarkanir á ávexti hennar. Samt, vill engin vera kallaður takmarkaður nemi. Slíkur titill mun vekja móðgun. Lögmál verka með sama hætti við allar aðstæður. En lögmálin móðgast ekki — þau samræma. Verið viss um samræmi í hollustu.

88. Stjörnufræði ætti að vekja háleitar hugsanir. Á meðan Guð sofandi manna er séður sitjandi á toppi einhverrar kúlu, rýnir leitandi andi inn í hið óendanlega, dolfallinn af gleði yfir ómældri þekkingu. Gerið ekki lítið úr óendanleikanum.

89. Samræmi í árunni þýðir ekki eintóna liti. Þannig getur fjólublá ára verið í samræmi við græna áru og bleik ára gerir bláa áru enn sýnilegri. Í slíkum samsetningum er hægt að finna strauma af sérstökum styrk.
Það er jafnvel æskilegt að samtengja liti, sem loforð fyrir regnboga í framtíðinni. Svo margar eru sveiflutíðnir skínandi lita, að ekki er hægt með jarðneskum litum að sýna þá, ekki fremur en það sé hægt að raða saman jarðneskum tónum til að leika sinfóníu himinhvelanna. Jarðneskur liljulitur og fjólublár hefur ekkert sameiginlegt með okkar himneska fjólubláa.

90. Einföld virðing fyrir þekkingu gerir mögulegt að leysa allar mótsagnir. Sönn hugsun er ekki gerleg án virðingar fyrir þekkingu. Fræðarinn segir að þekking sé forsenda vitundarþroska. Bendir á að þekking vísi leiðina til hinnar sönnu fræðslu. Er það mögulegt að mannkynið skilji ekki að þekking streymir frá hinni einu uppsprettu? Þess vegna eru mörk þekkingar og fávisku, einnig mörk ljóss og myrkurs. Við getum auðveldlega bundið saman Torah, vers Vedanna, fyrirmæli Budda og orð Krists, því að við greinum ekki ósamræmi í fræðslunni sem kemur frá hinni einu uppsprettu.

91. Að samræma hugmyndina um endanleika sólkerfis við hugmyndina um óendanlegan geim, er eitt þeirra vandamála sem hver og einn verður að leysa. Það er kallað, Summa Summarum, allt samandregið. Til að styðja við skilning á hugtökum um geiminn, höfum við sett upp vörður á leiðinni, en skilninginn verður hver einn að öðlast. Þetta svara til einu stigi í „Ljóni Eyðimerkunnar.“ Það er að frelsa sjálfan sig frá jarðneskum gæðum og efnislegum eignum. Þessa árangurs er krafist til skilnings á að sviðin eru aðgreind.
Að halda sig við hugmyndina um óendanleikann gefur ekki endanlega niðurstöðu. Það að halda einungis í hugmyndina um endanleikann er niðurlægjandi. Aðeins samræming þessara andstæðu þátta mun skila réttum skilningi á stjarneðlislegu þáttum. Þannig er hægt að reikna út endanleikann án þess að draga úr mikilfengleika Alheimsins.
Urusvati hefur náð réttum skilningi sem gerir mögulegt að skýra frekar frá mótun heimanna. Lifandi glóir birting hins kosmíska gangs.

92. Takið eftir hvenær miklir atburðir gerast. Þegar hafa Vedurnar bundist Tripitaka og Kabbala. Fræðsla Budda og orð Krists og fræðarana eru að eyða fáviskunni. Kannið vandlega þekkingarvöxt í ólíkum hlutum heimsins. Bæði þeir sem afneita og þeir sem játa ganga sömu leið. Tíminn er óafturkræfur, eins og hlið inn í hið fyrirskipaða. Þeir eru eins og dauðir sem sjá hina ákvörðuðu stund sem venjulega stund.
93. Hlustið ekki á fræðara sem krefst greiðslu fyrir fræðslu sína. Fræðslu er ekki hægt að kaupa eða öðlast með afli. Sannarlega getum við aðeins öðlast fræðsluna með því að sína traust sitt í verkum sínum. Það eru athafnir en ekki orð sem leiðir þekkingarsamfélag. Ef barn leitar í það samfélag, mun þá ekki vera verk þar að vinna? Mun einhver sem gengst undir með fullri vitund samþykktir samfélagsins koma að lokuðum dyrum þess? Getur einhver vitnað í dæmi um að leit hreinnar vitundar hafi ekki verið svalað?
Skýr eru lög þekkingarsamfélagsins. Engin svik geta hulið þau. Ferðalangur, greiddu skuldir þínar og gakktu óþreyttur.

94. Sumir geta jafnvel ekki samræmt hugmyndina um jafnrétti við hugmyndinni um Stigveldi. Jafnræði liggur í möguleikum andans sem allir hafa. Stigveldi byggist á sérstöðu þeirrar reynslu sem hver einstakur hefur safnað upp. Því er rétt að segja að margvísleg þekking sé hlið að Stigveldinu. Takið eftir orðinu „margvísleg“, þröng sérhæfing getur ekki talist breidd í Stigveldinu.
Þekkingarleit, gefur skilning á fræðaranum. Sannarlega er virðing fyrir honum lausn, jafnvel fyrir jarðneskum sjúkdómum.
Það er miklum erfiðleikum háð þegar orkustöðvar eru opnar, því hver andardráttur gamla heimsins veldur veikindum og aðeins ferskur vindur sannrar þróunar getur endurnýjað heilsuna. Vefjið ykkur ekki inn í gamla heiminn; smitið unga fólkið með gleði nýja heimsins. Í öllu er glaðværð, en ákveðin stefnufesta.

95. Til hins mikla uppljómaða kom nemi sem leitaði kraftaverks og sagði, „Eftir kraftaverk, mun ég trúa.“
Fræðarinn brosti sorgmæddur, en framkvæmdi mikið kraftaverk fyrir hann. „Núna“, sagði neminn, „Er ég tilbúinn að taka næstu skref í fræðslunni, undir leiðsögn þinni.“
En fræðarinn benti á dyrnar, og sagði, „farðu, ég þarfnast þín ekki.“

96. Ég er undrandi á gamla heiminum; sólgos auka á ósamræmið. Gamli heimurinn tekur síðustu vængjatökin meðan opnu orkustöðvarnar vaxa. Því við hvern þroska orkustöðvanna verður til nýtt lag sem vex sársaukafullt. Hreint loft getur ekki farið saman með dauðu lofti gamla heimsins.

97. Það verður að vera á hreinu að hverskonar ávanalyf geta ekki farið saman með fræðslunni. Skýr hugur og varkárni er leiðin til okkar.

98. Tjáið bænir ykkar með góðum verkum. Lærið að staðfesta fræðsluna á hverjum degi. Tapið ekki degi, né stund. Lærið hvernig á að hugsa sjálfan sig sem skapara heils heim athafna. Lærið hvernig þið nýtið alla orku ykkar í hvert verk. Lærið hvernig á að setja fræðsluna í hverja hugsun. Lærið hvernig á að dreifa orku ykkar á orrustuvellinum. Lærið að finna þakklætið sem einingu gleði og fegurðar. Klárið með heiðri, því lokin tjá árangur þinn.
Það eru hin verstu svik að þekkja fræðsluna en fara ekki eftir henni. Misnotkun hennar er verri en dauði andans, með því dæmir hver sjálfan sig frá samstarfi og í útlegð til Satúrnus.

99. Ég mun benda á hvernig þú getur brýnt afl þitt á sverðsegg minni. Birting fræðara getur upplýst menn, en aðeins ef þeir ganga þekkingarveginn. Drekinn er öflugur og hvassir eru vafningar hans.
100. Örlögin leiða til okkar, en þau verður að hamra allar stundir. Höfnun á hugmyndinni um samræmi er einskonar sjálfkyrking. Frestun á verki eins eins og drekkja sjálfum sér.
101. Ég er vitni að tilraun til að senda hugarorku um langan veg. Með henni getur maður hreyft alla hluti; til dæmis getur þú fjarlægt hurðarbolta með því að beita hugarorku á orku hlutarins sem um ræðir. Slíkar tilraunir hafa átt sér stað frá fornu fari. Við eigum að muna að almenn samvinna er á milli allra hluta í tilverunni, hugarorka nær yfir öll svið tilverunnar. Ekki með hamri, heldur með einbeitingu að hlutum með hugarorku, getum við sameinast þeim.
„Viska í öllu,“ það muna Hindúar. „Samvinna í öllu“ er bætt við það á þessari öld Maitreya. Ekki með skipun, ekki aðeins með samræmi, heldur með leiftri beinnar hugsunar eru samverkamenn sameinaðir.
Samvinna efnis er einkennandi fyrir nýja heiminn. Hvert tímabil hefur sinn eigin hljóm. Hugarafl mun verða hvetjandi þáttur nýja heimsins.
Reynið að skoða líf svokallaðra líflausra hluta. Skoðið áhrif ykkar á þá. Sá sem talar við hluti er ekki alltaf sá kjánalegi. Með því að umfaðma þá hugsun skapast sérstakt andrúmsloft. Eins getur hugarstólpi náð inn á svið fjarlægra heima. Lítið á hugsanir sem raunverulegt lífafl, og náið góðri stjórn á hugarflæðinu.
102. Íhugið hverja nálgun við Okkur. Verðið ómissandi. Sveipið um ykkur nöfn Okkar á nóttunni. Klæðist hollustuklæðum á daginn.

103. Í sambandi fræðara og nema getur kennarinn aðeins leiðbeint innan leyfðra marka. Hann upplyftir nemann og hreinsar hann af úreltum venjum. Hann varar hann við hversskyns svikum, hræsni og hindurvitnum. Hann reynir nemann, hversdagslega og í leynum. Kennarinn upplýkur hliðum að næstu skrefum með orðunum, „ Njótið bróðir.“ Hann getur einnig lokað þeim með orðunum „ Góða ferð ferðalangur.“
Nemi velur sinn eigin fræðara. Hann virðir hann sem hina hæstu veru. Hann treystir honum og færir honum sína bestu hugsanir. Hann tignar nafn kennarans og grefur það í sverð orða sinna. Hann sýnir nákvæmni og sveigjanleika í verkum sínum. Hann fagnar öllum prófum eins og hann fagnar morgninum, vonir hans beinast að því að opna næsta hlið.
Vinir, ef þið viljið nálgast okkur, veljið kennara á jörðunni og treystið leiðsögn hans. Hann mun segja þér í tíma hvenær má opna næsta hlið. Hver og einn ætti að hafa kennara á jörðunni.

104. Treystið á löngun mína til að vísa þér besta veginn. Hugleiðið hversu mikilvægt það er fyrir þig að uppfylla þessa löngun mína. Látið ekkert af því gamla hindra leit þína. Munið að einn haltur hestur hægt á allri lestinni. Segið því „Gangið ákveðið, því annars geta örlög þín fallið á spjót.“
Nálgun þín að okkur titrar á jafnvægisskálinni; reynið ekki að leyna því.
Látum oss biðja til Shambhala:
„ Þú sem kallaðir mig til vinnu, móttaktu styrk minn og löngun.
Þekkst þú vinnu mína, Ó Drottinn, því daga og nætur sérð þú mig.
Sýndu hendur þínar, Ó Drottinn, því myrkrið er mikið, ég fylgi
þér.“
Gangið eins og upp gleðifjall. Mikið er umfang baráttunnar fyrir endurnýjun mannlegrar vitundar. Kennarinn fagnar ákvörðunum þínum.

105. Nemar eru af fjórum gerðum. Sumir fylgja ábendingu fræðarans og halda áfram eins og ætlað var. Aðrir fara fram úr ábendingum fræðarans án hans samþykkis og skaða oft sjálfan sig. Aðrir, í fjarveru fræðarans eiga það til að blaðra og eyðileggja veg sinn. Enn aðrir baknaga fræðarann og svíkja hann. Ömurleg eru örlög þessara tveggja síðast nefndu!
Staðfestum hugtakið um kennarann.

106. Sá sem hafnar formælingum, móðgunum eða tvíræðni gerir rétt, því það byggir á fáfræði. Mál verður að vera fagurt, skýrt og með djúpri merkingu.

107. Skrefin til að öðlast þekkingu eru: að vera viðbúinn, leita, knýja á, taka eftir, muna, umbreyta, vígbúinn, öflugur, ljós eyðimerkurinnar, ljón eyðimerkurinnar, samstarfsmaður sköpunarþáttanna, skapari.
Hvert stig er þrískipt. Fyrirmælum verður að fylgja jafnt og þétt. Sá sem leitast við getur náð hratt, en liðhlaupinn kastar sér niður.

108. Hver er svikari? Róberinn, sá sem ekki andsvarar, sá óheiðarlegi, hræsnarinn, afneitarinn, og sá sem vill skaða fræðsluna.
Dökk ský hverfa í sviptivindum; hin ósýnilegi sviptivindur vitundarinnar gerir eins.

109. Hjartað þekkir vini sína! Veldu vandlega vini, annars hleypir þú öllum að hjarta þínu. Kennarinn er þinn besti vinur. Bættu ekki á byrðar hans.

110. „Lamb eyðimerkurinnar“ er stigið sem leyfir sérstaklega uppfyllingu hugsana. Því þarf hver að vera sérstaklega vel á verði. Stigið „Ljón eyðimerkurinnar“ þekkir engar móðganir. Hver getur móðgað? Stórt hjarta getur tekið öllu.
Gleði kemur auðveldlega hvenær sem þú finnur til hollustu við okkur. Fullnægja er innan seilingar fyrir þá nema sem meta skýin, sem skilja að án skýja mun sólin brenna. Kennari getur starfað þar sem hendur hans eru ekki bundnar.

111. Kennarinn unnir baráttu og veit vel að hún fyllir Kosmosinn orku. Kennarinn stendur með þér. Af hverju þarftu þá að hræðast bjargið? Af hverju þarftu þá að hræðast hinar miklu skepnur? Að leita að flóm í eigin rúmi er lítilsvert. Að halda á sverði Salómons og fylgja skipun Maitreya, þá fellur á þig morgunbirtan. Að vera viðbúinn næstu baráttu, hljómar eins og lúðrakall .
Við skulum hafa sama skilning. Að öðrum kosti verður árangur engin, aðeins fall. Haltu kjánanum frá léttvægum ákvörðunum. Í úreltri og slakri dómgreind leynist dauðans eitur.

112. Við skiljum hversu erfitt það er fyrir hungraða að bíða eftir súpan sjóði, en það er nauðsynlegt til að eyða banvænum bakteríum. Meðan við undirbúum okkur fyrir geiminn, skulum við líta til fjarlægra heima. Finnum okkur sem þátttakendur í þeim. Við að tengjast þeim verður tilvera fínni líkama áþreifanlegri og þá verða hljóð fjarlægari heima fljótt greinilegri. Tenging við fjarlægari heima með efnislíkamanum verður möguleg í nálægri framtíð.

113. Í raun myndar mannleg löngun sín eigin boðorð. Hvað hinn sofandi andi æskir, mun hin vakandi öðlast. En flæðið ber froðu óstöðugra hugsana á brott. Þátttaka í markmiðum plánetunnar herðir eigin sverð best.
Sá er gefst upp fyrir mótstraumnum, finnur ekki aftur sinn straum. Með því getur hver og einn skilið baráttuna um heiminn. Sá sem vill ekki baða andlit sitt í straumflæðinu er eins og steinn í farveginum.
Aðeins er hægt að trúa fáum fyrir fyrir hinum heilaga leyndardómi. Þeir eru ekki margir, sjálfur geimurinn hlustar á þá, því eins og í mannlegum eldi, það sameinar og herða hugsanir heimsins. Fólk þarf að gæta hugsanna sinna!

114. Eigið karma er ekki hægt breyta með athafnaleysi. Sá sem hendir sannleikann á bál, verður að beygja sig til að fjarlægja öskuna. Borðorð réttlætis hvorki brennur né eyðist. Það blossar upp, óvænt og eyðir vígi mótstöðunnar.
Kosmískur arkitektúr er verulega frábrugðinn því sem menn álíta. Mannlegur hugur er eins og byrjandi í skóla, reynir að forðast að svara, sykrar mál sitt. En hvernig er þá hægt að halda áfram? Aðeins með að nálgast skilningi á kosmískri uppbyggingu. Hverjir eru dómararnir og hverjir eru hinir dæmdu?
Er tónlist himinhvelanna tákn um sigur mannlegrar ályktunar? Eða er hún að fagna hreinsun gleymds sannleika? Það er til forspá sem minnir okkur á formælingu og síðan hreinsun heilagrar borgar.

115. Oft er spurt af hverju við eyðum ekki fljótt skaðlegum verum. Það verður að skýra rækilega, sérstaklega þar sem þú sjálfur hefur vopn til slíkrar eyðingar.
Ég tek dæmi af lækni. Læknir er oft tilbúinn að skera á burt hnút veikra tauga, en mögulegur skaði á viðkvæmum taugamiðjum hindrar hnífinn. Engin vera er ein. Ótölulegir eru þræðir karmíska vefarins sem bindur saman allar ólíkustu tilverur. Í hinum karmíska straumi er hægt að sjá tengingu hinna minnstu og mestu. Þess vegna verður sá sem sker, fyrst að eyða brautunum sem koma saman í karmastrauminn. Að öðrum kosti getur eyðing einstaklings, jafnvel þó hún sé réttlætanleg, valdið skaða fyrir heildina. Þannig verður ástæða eyðingar að vera mjög vel íhuguð.

116. Minnsta ótryggð í hollustu og viðurkenningu á endurnýjun grunnþátta getur haft áhrif á eigin heilsu. Slík ótryggð getur fest djúpar rætur í vitundinni. Ótryggð er ótrúlega smitandi og hefur áhrif á aðra.
Ef aðeins fólk gerði sér grein fyrir þeim skaða sem það veldur sér og öðrum með efabundnum ákvörðunum! Það getur klofið vitundinna og valdið dauða hennar. Eins og oft gerist byrja veikindi án athygli og skyndileg og hættuleg aðgerð verður óumflýjanleg. Þannig verður fall manns sem afleiðing af litlu snáksbiti ótryggðar. Hægt er að vara við, en ekki er hægt að breyta öðrum. Hestur sem stekkur fyrir björg verður ekki stöðvaður.
Pláneta getur auðveldlega sprungið í óteljandi loftsteina, þannig fjölgar dauðum tunglum í sólkerfinu. En kosmísku réttlæti þarf að fullnægja. Einhver tími þarf að líða til að ákvarða hvort samfélag verður að sjálfdáðum viðurkennt.
Að þeim tíma munu tengsl milli heimanna hafa þróast nægilega til að tilvera geðheimsins sé viðurkennd, og þá mun tilvera Jarðarinnar verða metin. Annað hvort verður hún fagur garður afreka eða hefur fallið í djúp hnignunar og þá verður búið að senda verðugustu anda til að manna aðrar plánetur.

117. Af hverju geta logar blossað undan fótum okkar? Sönn leit er eins og eldur, óstöðvandi eins og hvirfilvindur. Áköf trú á fyrirmæli okkar lyftir þér með eldi. Slík eldheit sjálfsleit er eins og veggur; handan við hann fylgist þú verndaður með orrustunni, en reiðubúinn til að skjóta örvum þínum.
Ný dögun mun koma og leysa mig af á hinni erfiðu næturvakt. Byrði erfiðra hugsana mannkynsins er eins og hamarshögg á undirstöður lífsins. En það er mögulegt að finna orku á ákvörðunarstund. Þess vegna segi ég, „Gleðjist engu að síður.“ Logar undan iljum geta verið vísbending um upphaf að miklum verkum. Þér hefur verið sagt svo mikið að nú ættir þú ekki að lítillækka sjálfan þig með óþarfa athygli á ómerkilegar dagsetningar.
Við lúðrablástur, veit stríðsmaðurinn að það er stundin til að ganga á orrustuvöll. Stríðamenn, hve óheft afl sem aldrei er endurtekið og hulið augum heimsins, dynur á búðum þínum! Hvað olli því að að sverð þitt og skjöldur voru til reiðu? Þú munt segja „Við vitum markaða daga Jarðarinnar og ekkert getur hulið sýn okkar. Gæslumaður daganna hefur trúað okkur fyrir samsetningu aflanna og ákvörðunum. Þolinmæði er orðin að óumbreytanleika. Í gær skulfum við af eftirvæntingu, en í dag njótum við ákafa baráttunnar, vitandi um að ákvörðuð orrusta leiði til sigurs.”
„Drottinn hinna sjö hliða, leiddu okkur til sólar, sem hefur gengið yfir miðnættið. Þínar eru örvar okkar, ó drottinn. Án þinnar boðunnar munum við ekki ganga inn í borg hvíldarinnar. Allar stundir, daga og ár höldum við hvíldarlaust áfram göngu okkar. Því hraði þinn stýrir farskjóttum okkar. Því þú hefur gengið þennan veg og þolinmæði þín er öryggi okkar. Segðu okkur Gæslumaður, hvaðan flæðir elfa þolinmæðinnar?”
„Frá trausti mínu.“
Hver veit hvenær sendiboðinn skiptir um hest?

118. Oft heyrum við sjálfsupphafnar fullyrðingar, „Ég hef breyst“! Ég hef nú þegar öðlast!“ Þú „flöktandi ég“, hefur þú sannarlega skoðað sjálfan þig? Ef þú hefur öðlast—blessun sé þín! En er það ekki fremur að umhverfið hefur breyst? Ert þú ekki að njóta ráðstafana annarra? Hvar er árvekni þín? Ert þú ekki að veikja anda þinn?
Það er rangt að halda að samskipti við okkur sé án afleiðinga. Hver boðun ber í sér, eins og hvirfilvindur, vernd okkar eða gagnrýni. Getur það verið öðruvísi, þegar hver birting miskunnarleysis ber með sér skaðlegt smit, þegar hver athöfn þröngsýninnar er á kostnað annarra? Hverri boðun sem ekki er sinnt er eins og ör í hjartað, og hver sem rennur hjá myndar keðju sem kyrkir. Þú veist að þetta er aðeins frestun. Hver vill ganga á nöglum eigin bölvunar? Við hröðum hjálp okkar svo þú getir lokið karma þínu eins og skip sem létt er af ónauðsynlegum farmi nær meiri hraða. Á ákvörðunum degi leggðu við hlustir til að nema hvert orð kennarans.

119. Hver virðingargerð fyrir kennarann er skilningur á fræðslunni. Hvert virðingartákn fyrir starfi kennarans sýnir djúpan skilning og hollustu. En þessum táknum er ekki hægt að veifa. Þau munu verða blóm í vitundinni. Kennarinn mun ekki krefjast, „Sýnið mér virðingu!“

120. Er hægt að búast við svokölluðum „kraftaverkum“? Helsta einkenni „kraftaverka“, er að sjálfsögðu hið óvænta. Eðli mannlegrar vitundar lítur slíka viðburði óvænta. Venjuleg vitund skapar hindranir við ósamkvæmar aðstæður.
Meistari þekkingar getur aðeins spurt, „Kæra mannvera, komdu þér ekki úr jafnvægi með ópum eftirvæntinga þegar eðli sólkerfisins skapar blessaðar aðstæður. Getur einhver búist við því að að snúa skipinu til hægri, þegar hönd Okkar stýrir því til vinstri?” Aðeins sá sem hefur skýran og falslausan skilning á hvað sé óumbreytanlegt getur talist samstarfsmaður í heimsferlinu. Ef herbergi sýnist tómt, getum við með sanni staðfest það?
Látum drauga fáfræðinnar ekki takmarka sjóndeildarhringinn.

121. Ég staðfesti og þú ættir að skilja, að það sem er talið ógerlegt í dag verður æskilegt á morgun. Kennarinn notar orku sína til að vernda verk þín í allri sinni fegurð. Ógæfa fólks liggur í skilningsleysi á endurfæðingum og flóknum umhverfisaðstæðum. Sem dæmi þá er einvera besti vinur afreka, en stundum er vitnisburðar þörf og karmískar aðstæður verða þá flóknari.
Kennarinn getur bent á nauðsynlegustu athafnaleiðir. Hann getur verndað að ákveðnu marki, en skuggadans fortíðarinnar heldur áfram. Hver þarf að einbeita hugsunum sínum að réttri afstöðu gagnvart þessum draugum. Þegar þú sérð dyravörð þá hugleiðir þú ekki mikið um hans andlega ástand. Einnig ef þú hittir dæmdan glæpamann, þá ræðir þú ekki stjarnfræði við hann. Þegar við erum á jörðunni, verðum við oft að slípa fjársjóði okkar til og á þeim vegi hittum við margan fjandann. Við getum minnst margan fundinn við hræðilegar verur í liðnum lífum. Frumöflin eru nátengd okkar jarðnesku athöfnum. Þau standa vörð til beggja hliða. Orrusta elds við jörð mun hafa afleiðingar og endanleg birting sjást. Jörð er verndandi gamla hugsunarháttarins, en eldur er byltingarútbrot þróunarinnar.
Þvílík óviðjafnanleg orrusta sem við stjórnum með eldingum frumaflanna! Óendanleiki frumefnisins færir orrustunni stöðugleika, þekking á framhaldi tilverunnar gefur árangrinum vængi.
Segið „Systur og bræður, vinnið óþreytandi og vængir ykkar vaxa hratt í flæði daganna.”
Við þá vantrúuðu segið, „Þér mun líða vel og líf þitt verða gott—þetta gerist við að snúa sér til fræðarans. En kastið ekki vantrúarsteinum á leiðinni.“
Í orrustu frumaflanna er hver úr sér gengin vitund eins og veggur gegn ljósinu. Segið, „Flækist ekki í neti lífsins.“ Hver þruma losa mikla spennu af jákvæðri og neikvæðri orku. Lítið á baráttuna fyrir að ná ætlun Okkar sem óviðjafnanlega. Lítið á allar smámyndir þess sem sannar. En ruglið ekki dögunum saman. Hvert ár hefur sitt sérkenni.

122. Að ástæður séu án lausna, er aðeins ímyndun þeirra sem treysta á aðra frekar en að treysta á eigin hugsun. Sorg sem aðrir verða fyrir flæða eins og straumrastir; en sannar myndir sem þú kallar hugmyndir, stjórna karma heimsins. Það er undravert að sjá hvernig myndir sannleikans taka þátt í háleitum baráttum. Þegar fjöldinn tvístrast í blindri heift í fáfræði og blekkingu, vefa hugsanir sannleikans himnesk hreiður, sem fyrir raunverulega þróun er mun mikilvægari en nokkur átrúnaður þjóða.
Þú skilur bæði sönn verk og tálmyndir. Staðbundnar hugsanir eru raunverulegar, en það sem fólk tekur raunverulega eftir eru tálmyndir (Maya). Hafið í huga að hver okkar gæti syrgt með lágum sviðum jarðarinnar; en það myndi ekki hafa nein áhrif á þróunaráætlunina, því það er hugsun sem skapar. Sannar myndir skapa hverjum líkama, hvort sem hann er að þróast eða tvístrast, nýja möguleika á flugi til hærri sviða. Hver fræðari lífsins byggir kraft sinn aðeins á sönnum myndum og skapar framtíðina með hugsunum sínum, ekki með vitund fjöldans.
Aska fyrri elda kann að byrgja sýn, en eldar nýrra mynda af því sanna, glóa í óendanleikanum. Þegar við höfum komist yfir þröngsýn landamæri kynstofna og þjóðernis, skiptir það þá nokkru máli hverjir næra plánetuna með háleitum hugsunum? Eina sem skiptir máli er að hugsanir feli í sér skilning á sameiginlegri góðvild. Þá munu ólíkir hagsmunir þjóða ekki trufla markmiðið í átt að óhjákvæmilegri þróuninni.
Virðing fyrir dvalarstað fræðarans er ekki fyrir staðnum, né musterissiðum, heldur fyrir tendrun réttlætis.
Við ofgerum Okkur oft við að bæta aðstæður mannkynsins, en sjáum ekki eftir að hafa sent eina einustu hugsun fyrir þróunina. Slíkar hugsanir skjóta rótum og blómgast eins og hrífandi garður; og verkamenn í slíkum garði eru eins og fyrir töfra ósýnilegir. Þekkið hvernig þið beinið hugsunum ykkar að því sameiginlega og við munum ávallt vera með ykkur.
Ljúkum þessu með sögu: „Lítum til stjarnanna“. Okkur var sagt að að uppspretta Viskubrunnsins komi úr Tushita og dropar þessa magnaða vökva glóa í geimnum. En fræðarinn sagði, „Þannig glóa örvar hugsana, því hugsanir bora sig í gegnum geislandi efnið og skapa heima.’ ”
Skapandi hugsun, hættu ekki að fegra sviðin með ljósblómum þínum!

123. Salómon sagði, „ Ég setti þig á krossgötur, þöglan og hreyfingarlausan. Fram hjá þér fara tákn atburða. Þú skalt halda aftur af forvitni þinni og þannig færðu sýn inn í ákvarðaðra strauma. Því handan mannlegra hugsana fæðist alheims hugsun.”
Fylgist með atburðarás eins og þið séuð að telja kindur ofan úr turni.

124. Þegar kennari slítur samband sitt við nema, þarf neminn að skila hringnum til kennarans. Við ættum ekki að álíta þetta sjaldgæfan atburð. Karma þráhyggju eða veiklaðs anda getur auðveldlega skapað hindranir milli kennara og nema hans. Sjálfsstjórn nemans getur fært hann aftur að þeim stað á veginum sem truflunin varð. Neminn verður að skilja þörf á hraða og helga sig þessu markmiði.
Það er erfitt að sjá að hæfur nemi hafi ekki spurningu til fræðarans. Að sjálfsögðu koma spurningar og svör síðar og lifandi traust fyllir loftið.

125. Framkoma nemans við fræðarann á að vera: opinn, tilbúinn að varpa af sér tötrum gamla heimsins, leita fram til nýrrar vitundar, óðfús fyrir nýrri þekkingu, óhræddur, einlægur, tryggur, ákaflega vakandi, reiðubúinn, markmiðssækinn og næmur. Hann mun finna traustan veginn. Tálsýnir (Maya) munu ekki freista hans. Djöflar munu ekki hræða hann. Í faðmi jarðarinnar finnur hann Steinn frá fjarlægum heimum. Líf hans verður fegra, eiginleikar styrkjast og yfirborðsmennska hverfur.
„Fræðari, ég hef getað staðist stungur hitans og hrylling kuldans. Líkamsstyrkur minn veikst, en ég hlusta. Ljóslíkami minn bíður spenntur eftir kalli þínu. Armar mínir eru tilbúnir að bera þyngstu stein fyrir musterið. Þrjú nöfn þekki ég. Ég þekki nafn þeirrar sem hylja andlit sitt. Afl mitt eykst.”
Þannig skal nemi ávarpa fræðarann.

126. Ógæfa mannkynsins er vegna vanhæfni til að greina á milli tákna góðs og ills. Fólk velur táknin sem snúa að eigin framtíð, því það hugsar fyrst og fremst um sjálft sig. Getum við notast við þann mælikvarða fyrir réttan skilning? Mestu og verstu afleiðingar af slíkri takmörkun er að það sem er gott, er ekki skilið frá hinu skaðlega. Ótöluleg eru þau tilvik þegar ábendingar um framtíðina var beitt strax og misstu þannig ætlaða gagnsemi.
Örlög þjóða er hægt að sýna með einfaldri formúlu. En fólk vill fá það fyrir sig, því sem ætlað er fyrir stærri hópa. Þannig hrynur formúlan eins og höggmynd í grófum höndum. Þessar grófu takmarkanir einstaklingsins eru versta framlagið til lausna verðmætra tækifæra.
Þessir sjaldkæfu ljósþræðir fjarlægra heima eru gerðir að almennri venju í stað þess að notast við vandamál heimsins. Þess vegna skulum við nálgast þau vandamál með því að umfaðma allt með titrandi hjarta. Í hamförum skynjum við skjálfta jarðarinnar og í rísandi hömrum eykst skilningssvið heimsins.
Vei þeim sem dreifa fræjum heimsins aðeins í eigin garð. Gleði verður þeirra sem dreifa hverju skilningsfræi til góðs. Það eru okkar fyrirmæli til þeirra sem nálgast vandamál heimsins.

127. Orka og vilji eru hinir sönnu stjórnendur karma. Sá sem hafnar sjálfum sér, sá sem vinnur fyrir almenningshagsmuni, sá sem er trúr í baráttunni og gleðst í vinnu, öðlast, að minnsta kosti í augnablik, uppljómun meistarans sem gerir hann drottinn eigin karma. Skilningur á uppljómun má skýra sem beina þekkingu. Sannarlega getur þessi beina þekking tapast, eða kann aldrei að uppgötvast. Þessar loftsteinadrífur andans þjóta um geiminn og bera í burtu góð tækifæri fyrir óvitandi mannkynið.
Vitund meistara gefur yfirburði, enn algjöra ábyrgð. En hversu margir gleðjast yfir ábyrgðinni? Þegar við verðum að taka ábyrgð, verðum við einnig að hafa hugrekki til að sjá okkur sem meistara sem leiðir baráttuna óstuddur, sem gerir honum kleyft að standast árásir frumaflanna með visku sinni og vilja.
Fyrir þeim fávísu er árás frumaflanna ímyndun. En þið vitið hversu oft frumöflin koma við sögu í venjulegi lífi fólks. Fræðslan hefur oft bent á áhrif efnislegra birtinga á mannlega líkama. Orka skapar tengsl milli frumaflanna og spennu í mannlegum líkömum. Vilji kemur með reynslunni og fyrirbrigðum tilverunnar. Þannig fellur „óyfirstíganlegt“ karma að mannlegum áhrifum.

128. Staðfestar staðreyndir eru ekki nóg; innri merkingu þeirra verður að skiljast. Við höfum rætt um framtíðina, og hvernig aðeins er hægt gefa hugmynd um hana í stórum dráttum, en við verðum styðja það með staðreyndum og hliðstæðum. Slíkar vangaveltur er hin besta hvíld. Þær vekja upp orkustöðvar og fæða af sér nýjar hugsanir. Fræðsla okkar er niðurstaða reynslu og á horfum. Hvetjið því vini ykkar til að hugleiða framtíðina. Það er til einskis að álykta hvort yfirstandandi stund er árangursrík eða ekki. Aðeins með því yfirfæra staðreyndir áfram inn í framtíðina getum við metið gildi þeirra. Þannig mótum við framtíðina.
Við erum á móti staðlausum ímyndunum, en fögnum hverju vel ígrunduðum horfum. Ef við finnum bestu byggingarþættina og getum tengt þá með viljanum, þá getum við verið viss um að hugmyndin er gild og samþykkt. Ástæða óhæfra og veikra hugmynda liggur hjá okkur sjálfum. Hryllingur eyðileggingar stafar af árekstrum milli vitundar og ástæðna. Þröngsýni mannlegrar rökvísi og ástæðna veikir undirstöðurnar þegar vitundin hefur þegar fagnað sigri. Ef rök fara saman við raunveruleikann þá er ákvörðun rétt. Hugsið þannig um framtíðinni, reisið veggi þekkingar í eyðimörkum. Þú veist að hver steinn í slíka veggi verður að vera nauðsynlegur og þarfur. Styrkur þeirra mun hindra árás óvina þekkingar. Hver stund sem varið er í að byggja framtíðina er verðmæt. Meginafl mannkynsins er mögulegt með framsýni þess. Hvaðan kemur hugrekki? Hvað knýr leit og strit ? Hvaðan kemur

baráttuhugurinn? Með framsýni.
129. Svik verða að sjást fyrir. Hvert tákn um svik verður að flétta ofan af. Ef hræðsla er marglituð, hversu mikið meira eru þá svikin. Verum á verði.

130. Þú munt segja við hann, „ Þess er krafist af okkur, jafnvel í hringiðu átaka, að halda rólyndi andans.“
Hann mun svara, „Þau sannindi eru ekki ný. En af hverju ætti ég að ná rólyndi andans þegar líkami minn skelfur af spennu‘
Svarið honum, „ Það er lögmál sjálfsögunar.“
Hann mun svara, „Það er einnig ekkert nýtt. Hverjir eru kostir sjálfsögunar?”
Þú svarar, „Þjálfun í rólyndi leiðir til stjórnunar á öllum hugsanlegum aðstæðum líkamanna.”
Við breytingu á líkama mun hugur sem hefur ekki leitast við að þroskast, verða athafnalaus, reikul og þvingaður af óskýru minni. Minni í lágu efnislegu ástandi fellur í algert myrkur.
Það er nauðsynlegt að forðast huglægt áhugaleysi. Fágun við leitun mun skapa rólyndi frá einu ástandi til annars. Þannig nást eiginleikar meistara sem aldrei truflar vitundarflæðið og stritar stöðugt í átt til framtíða.
Segið hlustendum ykkar að þeir geti undirbúið sig fyrir hið eilífa Amrita, andlega fullkomnun, en aðeins gegnum gaumgæfa reynslu. Getur sá sem framkvæmir mikilvæga tilraun sofnað við það? Þannig er það líka að ef við erum ávallt vakandi í vitundinni, mun það binda líf okkar saman í óslítandi keðju. Fyrir sumum er slík ráðlegging sem útópía; en við þekkjum allar staðreyndir í fullkomnunarferlinu.
Við verðum einnig að þekkja annan eiginleika meistara. Við verðum að þekkja hvernig við komumst í gegnum ákveðin tímabil lífsins án eftirtektar annarra. Örvar mikillar athygli eyðileggja fjólabláu verndarnetinu. Það fyrirbrigði verður brátt sýnilegt. Við hikum ekki við að bjóða hugtök meistara, sem þar til nýlega var vísindunum óþekkt, sem hægt væri að sanna með tilraunum. Þannig er hægt að byggja brú til fjarlægra heima og líf verður uppgötvað þar sem aðeins var búist sem líflausu.

131. Áhrif annarra fínni orkustraumar munu verða meiri í efnisbirtingu og á mannkynið. Ef efnasamsetning geisla frá fjarlægum heimum getur haft áhrif líkama manna, þá getur áreiðanlega útgeislun jarðarinnar sem mótast frá ótölulegum kosmískum myndunum, haft áhrif á þróun mannkynsins. Breytingamynstur í mannlegum athöfnum er ekki hægt að ráða af efnisþáttum í mannlegum rökræðum.
Hvernig getum við, án rannsóknar á umhverfisferlum, uppgötvað hvernig heilinn, verkfæri hugans, vinnur? Einhverstaðar blossaði upp bleikur geisli og ætlaður uppgangur þjóðar deyr. Einhverstaðar breyttust hafstraumar og breyttu mynstri verslunar. Þetta eru gróf og augljós dæmi, en hversu mörg fínni og ósýnilegar orsakir og afleiðingar fylla geiminn og móta göngu mannkynsins!
Þú, sem ákvarðar örlög þjóða! Gakktu inn í rannsóknarstofurnar, upp í stjörnuskoðunarturnanna og þó þú uppgötvir ekki hliðstæður við félagsleg vandamál, munu leitandi vitsmunir skilja flókin vef raunveruleikans. Þér mun verða ljóst hversu óaðskiljanleg tengslin eru milli þróunar mannsins og kosmískra ferla. Þess vegna er raunveruleg, fordómalaus þekking, besta og áreiðanlegasta leiðsögnin til framtíðar. Sá sem aðskilur félagsvísindi frá kosmískum ferlum mun því ganga haltur og dæma sjálfan sig í bæklað líf.

132. Hroki og tortryggni eru hræðilegir sjúkdómar. Sá fyrri eykur heimsku og fávisku. Frá þeim seinni rís lýi og sviksemi. Það verður að greina vel raunverulegar ástæður samstarfsmanna. Varnarskjöldur verndar þá sem eru í einlægri þekkingarleit, þeir falla ekki í snöru myrkursins.
Það er ekki ímynd hamingjutrúðs vinsældanna, heldur framsýni vakandi baráttumanns—sem er þörf í dag.

133. Þú kannt að spyrja, „hversu mörg þekkingarsvið þarf ég að þekkja til að forðast stöðnun?” Að sjálfsögðu mun það ekki íþyngja eigin hugsun að ná tökum á þremur sviðum—siðfræðigrundvöll tilvistar, efni fyrri lífa og rannsóknir á ytri þáttum náttúrunnar. Það er ekki of mikil byrði og getur fágað vitund þína.

134. Hver vegna getur Samfélag Okkar svo auðveldlega forðast óþolinmæði? Ofmetið ekki hlutverk og eiginleika vitundarinnar sem slíkrar, því það er fylling vinnunnar sem er grunnur vitundarinnar. Í vinnu og nýtingu á prana liggur leyndardómur hópeiningar. Slík samvinna er möguleg og fylgismenn okkar mega ekki truflast af ólíkum samstarfsmönnum. Mikil vinna og rétt notkun náttúrunnar mun skapa rétt viðhorf fyrir starfandi samfélag.

135. Við getum glaðst þegar miklir tímar og atburðir líða hjá. Engin eyðilegging hindrar skilning á vextir nýrra kosmískra tækifæra. Slík tækifæra fylla mann gleði. Ef við skiljum þau, þýðir að við tökum þátt í þeim. Jafnvel eilítil vitundarþátttaka í kosmískum ferlum er mikill sigur andans. Leitun til fjarlægra heima er eðlileg tilhneiging mannslegs anda sem man reynslu sína um ferðalög milli plánetna. Það er nauðsynlegt að beina mannkyninu á leiðina til fjarlægra heima. Það getur beint okkur frá háði heimskunnar til raunveruleikans. Tilvist fjarlægra heima umbreytir lífinu á jörðunni. Sá raunveruleiki eyðir stöðnun lítilsverðra hugsanna.

136. Fólk treystir sjálfu sér oft til að sitja fjörugan fola, en skilur ekki að jafnvel flugnabit getur gert dýr brjáluð. Fólk reynir oft að sigla veikum kanó í straumharðri á, þar sem hver steinn er hættulegur. Fólk situr undir þaki húss sem við minnsta jarðskjálfta gæti hrunið yfir það. Allt þetta er vitað; en engu að síður heldur fólk að það hafi sloppið við hættuna, eins og hættan sé ekki stöðugur fylgdarsveinn í jarðneskri tilvist. Fólk kemst í gegnum lífið, blindandi hamingjusamt, óvitandi um nærliggjandi hyldýpi. En ef innri sjónin er nægilega þroskuð, mun ferðalangur lífsins sjá hverja kosmíska óreglu. Hann mun kveljast vegna hve vegurinn sýnist ófær. En hvernig mun hann ná hugrekki og styrk til að yfirstíga allar hindranir sem hann sér nú sem fallinn virki? Áreiðanlega er það aðeins með því að skilja tengsl tímabundina stundar við óhjákvæmilega framtíð.

137. Fólk hefur engan áhuga á hópstarfi, sem þó magnar afl þess. Tólfflötungur er eitt fullkomnasta formið og hefur síbreytilegt afl til að standast árásir. Tólf í hóp sem er sameinaður, getur sannarlega valdið jafnvel kosmískum atburðum. Það að stækka slíkan hóp getur veikt hann, eyðilagt formafl hans. Þess vegna skilur þú áherslu okkar á smáa hópa. Að sjálfsögðu geta ýmsar karmískar aðstæður laða fleiri að hópnum. Ekki er hægt að reka þá burt með valdi, en við getum fljótlega séð áhrif þeirra. Skylda hvers þátttakanda í hópnum er að skilja hverjir hinir óvelkomnu eru og beita öllum ráðum til að gera upp gamla reikninga lífsins. Stundum geta góðar fyrirætlanir dregið óverðuga einstaklinga að verðugum einstaklingi—einskonar yfirhleðsla skips með óhæfan farm. En stýrimaður verður að gæta að gæðum farmsins og henda frá borði skemmdum farmi. Sérstaklega að forðast innantóm loforð, því þau munu festa sig við skipið eins og kuðungar á skrokkinn. Metið verðleika þess verðuga, en íþyngið honum ekki með loforðum. Sameinaður hópur verður að forðast gagnkvæm loforð. Skilningur á framtíðarformi á að vera grunnurinn fyrir einingu. Ég tala ekki um galdrahringi heldur um áhrif sannra hópa.

138. Þú berst réttilega gegn hverskonar útbreiðslu óhreinanda í lífinu. Í raun eru dýr hreinlegri í athöfnum, því þeirra ímyndun er ómenguð. Verum óhrædd við að eyða ósiðum sem menga augu hinna ungu.

139. Eld Brahmavidya er aðeins hægt að nema með augunum. Orð geta ekki tjáð það, skrif geta ekki skýrt það, því logar þess eru innan hugsunar sem ekki er tjáð í skel efnisins. Aðeins linsa augans getur borið neista hæðstu hugsunna. Ákveðin sjón getur náð kosmískum geislum sem gróf sjón sér aðeins sem geisla sólarinnar. Til að sjá kosmíska geisla sem neista Fohat með berum augum, þarf að hafa eld Brahmavidya.
Mannleg orð getur ekki tjáð eðli Brahmavidya. Við getum að hluta til fundið það með innri sýn, andspænis geislunum með lokuð augu. Vaxandi styrkur Brahmavidya eldsins mun gera það kleyft að taka á móti þeim þáttum geislanna með opin augu, sem eru ómóttækilegir starfstækjum líkamans. Þessi möguleiki er skyldur því að hafa samband við fjarlægari heima. Þeir blossa óvænt upp sem uppljómun vitundarinnar. Þennan eiginleika er ekki þroska með afli, heldur kemur hann þegar næmni starfstækjanna hefur þroskast. Fræðari knýr það ekki fram, en hann gleðst þegar sjónin færist úr myrkri til ljóss.
Það sama á við um móttöku hljóðs frá fjarlægum heimum. Í fyrstu berast þau úr djúpi vitundarinnar, en hljóma svo skyndilega í heyrninni. Þeir sem ekki skilja uppljómun, skilja ekki hvað er hér sagt.

140. Það fólk er verst sem treystir ekki og þekkir ekki afl trausts—þau eru líðandi skuggar!

141. Við yfirgefum ekki Okkar jarðnesku bræður. Við metum möguleika þeirra til árangurs við jarðneska aðstæður. Sáðmaður gerir sama gagn þó hann færi sig á milli akra. Á sama hátt geta bræður skipt um athafnasvið, þegar þeir vita að hinir nálægu vaka yfir skapandi verkum og andlegri leit þeirra.
Við erum oft spurð um dauða Upâsikâ. Var það raunveruleg ómögulegt fyrir okkur að fresta brottför hennar þar til lokið yrði við bækurnar? Þannig spurðu þeir nærsýnu, sem geta ekki náð utan um aðstæður annars heims. Það hefði verið grimmd af okkur að binda Upâsikâ með sérstökum eið, um að hún yrði áfram í erfiðum aðstæðum sínum. Þvert á móti leituðum við að bestu aðstæðum, til að hindra ekki þroska þeirrar sálar. Látum það vera vitað að ef þessar bestu aðstæður hefðu ekki komið til, hefði Upâsikâ enn á ný orðið fyrir árásum. Einnig að rétt tækifæri til endurfæðingar fyrir hana—í tíma og stað—hefði glatast.
Hver bróðir má vita, að í sannri samvinnu hafa bestu aðstæður verið valdar fyrir hann. Þessi vissa er vörn hans í gegnum alla erfiðleika. Það er loforð Samfélagsins.
Getur einstaklingur vitað sjálfur hvenær hann byrjar eða lýkur einhverju? Í efnislíkamanum er ómögulegt að vita allt um sjálfan sig. Mörg líf hafa myndað eina keðju vitundar og hver og einn á að treysta hinum hærri bræðrum fyrir því að segja til um hvenær Lótusinn muni opnast. Þeir geta ákvarðað markmiðið, og í því og djúpu trausti liggur stjórnun á karma.

142. Tökum dæmi úr dýraríkinu. Þegar lífverur sem deila einu blóðkerfi skiljast að, vekur sá ferill ávallt tilfinningu um ófullkomnun. Hópur lítilla blindra nýborinna hvolpa leita af eðlishvöt til náttúruaflanna sem af samúð taka eftir þeim. Í tímans rás verða þeir öflugur hópur. Það er að sönnu að þeir slást við hvern annan, en eru sameinaðir gegn óvini. Nýtt afl hefur orðið til þó upphafið hafi verið ófullkomið.
Tökum dæmi um uppbyggingu. Bygging nýs húss getur krafist niðurbrots eldra húss. Hver steinn og stoð sem tekin er úr gamla húsinu mótmælir óréttlæti slíkrar aðgerða. En niðurbrotinu er fullnægt og ný orka verður til. Eyðandinn, Kali, verður móðir Skaparans. Úr því gamla verður til ný uppbygging. Ný orka flæðir um rýmið. Með þessu einfalda dæmi erum við minnt á þörf fyrir endurnýjun á orku.
Ef Okkur er sagt af einhverju sem hefur verið næsta óbreytt um ómunatíð, munum Við fyrst og fremst harma kyrrstöðu orkunnar í kringum slíkt form. Miklar athafnir vekja gleði Okkar. Við köllum niðurbrot sköpun, ef það felur í sér leit til framtíðar. Vitundarleg sköpun á nýjum orkustraumum leiðir til skilnings á kosmískum straumum. Hugsið því um að mynda hreyfingu í hugsun sem og í athöfnum.
Þið hafið heyrt um komu nýs tímabils. Getur hið nýja komið án athafna? Það er betra að fagna nýbornu blindum hvolpi, heldur en gömlum páfagauk sem endurtekur sífellt það gamla. Skoðið straum fræðslunnar sem mannkyninu hefur verið gefið. Hver ný fræðsla, án áhrifa þeirrar sem undan fór, opnar ný þekkingarhlið. Líðandi veruleiki er grunnur hverrar fræðslu sem gefin er. Hún er því til að nota í lífinu en ekki einungis til að rannsaka. Aðeins þannig getum við komið hreyfingu á orku.

143. Við þekkjum þau heimsveldi sem voru árangursrík, því sveigjanleiki var undirstaða þeirra. Sem dæmi, þá var umsátri um virki hætt tímabundið til að safna liðstyrk. Margföldun þeirra í liðstyrk varð að ógnandi her sem í sjón lamaði virkið. Með órökréttri og einhliða notkun á orku, myndi öllum hernum hafa verið eytt, en að bæta við nýjum straumi athafna skapaði nýtt afl.
Að skapa þekkingarvirki er sigur.

144. Barmafull í anda! Það köllum Við það fólk sem á grunni reynslu sinni úr liðnum æviskeiðum og ákvörðun þeirra að leita, að útvíkka vitund sína, nær skilningi á þróuninni. Ef sumum finnst þessi skilgreining óvísindaleg, segið þá, „Getum við borið mikinn leitanda á andlega sviðinu saman við orkuþéttir?“ Já, því þannig er ytri orku hlaðið upp og afhlaðið þegar þörf er á. Álagið er mikið þegar hleðslan er mikill, en tíminn ekki kominn, því starfstækið hefur innbyrt sérstaklega hættulega þætti sem tengjast Frumefninu.
Frumefnið sjálft—Materia Matrix—gengur ekki niður í jarðarsviðið vegna hvirfla smitaðra lægri sviða. En svokallað Fohat, sem er afsprengi Frumefnisins, getur náð jarðnesku yfirborði í neistaformi og er jafnvel sjáanlegt þegar sólargeislar skerast við plánetugeisla og litast eftir efnissamsetningu geislans.
Til viðbótar Fohat, verður jarðneskt yfirborð fyrir flæði geislandi efnis, Materia Lucida. Sumir geta séð það sem geislandi strauma og ljósbletti í loftinu. Slíkar birtingar kunnu að vera álitnar sérkennileg sjón eða jafnvel gölluð sjón. En þekking mun sýna dýpri merkingu sem þau hafa á líffærin.
En þegar þau eru viðurkennd, hafa neistar Fohat og straumar Materia Lucida uppbyggandi áhrif, því þau fylla andann skilningi á nauðsyn þróunar. Á hinn bóginn eru þau hluti af eldi frumþáttarins, þau brenna og valda hitun orkustöðvanna. Birting þessa frumþáttar er hægt að bera saman við skýrustu liti í eldingu; en litirnir í henni eru takmarkaðir, en litbrigði ljósneista Fohat eru ofar ímyndaraflinu. Ljós Fohat er hægt að bera saman við ljósbrot bestu kristala. Fohat nærir fínni orkusviðin og leggur leiðina til fjarlægari heima, en Materia Lucida vefur styrktarnet vitundarinnar. Annað styrkir en hitt leiðir á veg takmarkalausrar fullkomnunar. Þetta eru hinar fögru gjafir hins Mikla Ákalls, Aum!

145. Í fyrstu var ykkur bæði sýnt hvernig grundvallarlögmál efnis virka. Þú tókst þátt í upplyftingu, tilraun í efnisbirtingu og fjarhreyfingu hlutar. Þetta var ekki sýnt til skemmtunar, heldur í þeim tilgangi að leita raunverulegrar þekkingar. Þá var þér einnig sýnt geðsviðið, en ekki til kafa inn í það. Með útvíkkun vitundar öðlast þú hæfileikann til að sjá árur og myndir úr fyrri lífum. Við fórum í gegnum fínni efnisheiminn, og nálguðumst kosmíska dulsýn og dulheyrn. Með opnum orkustöðva systur Urusvati, var hægt að sýna margar geislagerðir og byggingu fínasta efnis. Þannig nálgumst við skilning á fjarlægum heimum, sem eru nærri eldi frumþáttarins og verður því að nálgast með varúð. Þess vegna var kuldameðferðin nauðsynleg. Niðurstaðan var frábær—því að hafa náð svokallaðri prismasjón var mögulegt að ná geislun Fohats án áfalla fyrir líffærið.
Af hverju er mikilvægt að reyna birtingu Fohats? Frumuefni þessarar fínustu orku er grunnurinn að efnisþéttingu Alheimsins. Það þýðir nákvæmlega að Fohat er faðirinn sem leggur til aflið sem myndar nýjan háleitari líkama. Sá sem öðlast þekkingu á fjarlægum heimum mun finna til styrks og fegurðar kristala Fohat. Þetta var erfið reynsla og Við fögnum með Urusvati, því efnislíkaminn getur sjaldan aðlagað sig fínustu orkunni.

146. Hver röng ásökun og tortryggni íþyngir sendandanum. Það er kjánalegt að vonast til að hægt sé að koma í veg fyrir eða leyna afleiðingum lyga. Þær afleiðingar festa rótum í karma, alveg eins og loforð gera, sem veður svo óhjákvæmilega upplifa.

147. Þið verðið að skilja muninn á væntingum og viðleitni. Í væntingum koma alltaf hlé, en í viðleitun er stöðugt flug inn í framtíðina. Aðeins sá sem ekki er ánægður með lífsflæði sitt getur skilið þennan mun og hugsar stöðugt um tilveru í fjarlægum heimum.

148. Íhugum mótsagnir milli visku jarðar og fjarlægra heima. Ef andi hefur lengi leitað fullkomnunar í fjarlægum heimum, er líf á jörðunni áreiðanlega einungis til að safna saman brotum.
Öll reynsla á sviðum fínni orku á sér stað þegar þú ert laus við jarðneska sviðið og haldinn óhaminni leit að vísdómi fjarlægra heima. Alla jarðneska skynjun er ekki hægt að bera saman við flugið inn í hið óendanlega. Það koma tímar þegar þú þarft að styrkja stoðir jarðneskar visku. Við fögnum visku fjarlægra heima, en ættum ekki að gleyma jarðneskri visku.

149. Í dag heyrði Urusvati tónlist sviðanna, taktinn sem styrkir skilninginn á þróuninni. Það er ekki nákvæmlega þemað, heldur takturinn sem er kjarni tónlistar sviðanna. Það er hreinleiki hljóðsins sem ákvarðar gæði rásanna milli hnattanna. Þessa hljóma er hægt að heyra í mörgum heimum, aðeins í mikilli hæð á jörðunni og aðeins af þeim sem hafa tóneyra. Hins vegar þarf eyrað sem hlustar eftir tónlist sviðanna skjól fyrir vindinum.

150. Hver sem einhvern tíma sér eftir að vinna fyrir Okkar markmið, skapar ókleyfa hindrun milli sín og Okkar.

151. Ég lofa heilsu ef prana er vitandi gætt. Þróunin er óaðskiljanlega tengd umbótum í lífi fólks. Asía þarf til dæmis að skoða notkun eldsneytis og nálgast það með nýjum aðferðum. Jarðefnaeldsneyti verður að nýta rétt, og græða þarf upp með plöntun trjáa. Jafnvel til fjalla hefur ávallt verið eldfimt efni í miklu mæli og því hafa Asíubúar lengi þjáðst af völdum blásýrugufum. Það hefur verið raunveruleg ógn við framfarir í Asíu, og lífið sjálft.
Heilsa verður ávallt til staðar þar sem viðleitni er til að gæta prana. Bættar lífsaðstæður verða að vera óaðskiljanlegur þáttur þróunar. Urr hunda getur verið í takt, en kyrrð kirkjugarðs getur verið hræðilegra en ýlfur vindsins.

152. Því meiri fullkomnun andans, því betur skilur hann hina miklu þjáningu jarðnesks lífs. Þó tala ég um gleði aftur og aftur, gleðin liggur í skilningi á hinu fjarlægu heimum. Tökum einfalt dæmi. Vagninn þinn þýtur í gegnum myrkra nóttina á heimleið. Grenjandi regnið ætti að vera niðurdrepandi, en í stað þess ertu glaður í anda. Af hverju? Þú veist að heimili þitt er nærri og myrkur og rigning koma ekki í veg fyrir að hugsa til þeirra sem eru nærri hjarta þínu.
Hverju skiptir eymd jarðlífsins þegar fjarlægari heimar eru orðnir raunveruleiki fyrir okkur? Flýtið ykkur að skilja leiðina til fjarlægari heima. Aðeins þessi skilningsauki á lífinu leiðir andann á leið fagnaðar. Hverju öðru gætum við fagnað? Óhjákvæmileika endurfæðinga? Þegar við höfum ekki sýn á framtíðina, eru endurfæðingar aðeins stakar blaðsíður úr bók lífsins. Dýr þurfa ekki skilning á framtíðinni, en viljaleit manns til þekkingar knýr hann til að skilnings á þessum umbreytingum á lífinu. Aðeins slíkar hugsanir veita manninum rétt á fögnuði og með leit sinni nálgast hann samvinnu við fjarlæga heima.
Ekki með því að stara upp til stjarnanna, heldur á daglegri lífsgöngu sinni margfaldar hann reynslu sína og uppgötvar merkingu og raunveruleg gildi í gegnum daglega atburði.

153. Hver sem hefur skilið forsendur þróunarinnar öðlast ábyrgð á því að koma þeirri vitneskju til annarra. Hver sem kemur þekkingu áfram, hvort sem hann er mikill eða ekki, fellur undir sama lögmál; hann verður að gera það án þess að ganga gegn frjálsum vilja annarra. Skilning á þróuninni er aðeins hægt að öðlast af eigin dáðum og næst aðeins með leit vökuls anda.
Fyrir næsta skref í þróuninni verður hver að umbylta lífi sínu. Það er ógerlegt fyrir þá sem eru ekki reiðubúnir í andanum til jarðneskrar þjónustu. Í raun er hún það mikilvægasta til að ljúka jarðargöngu sinni. Við þekkjum þessa hugmynd um lausn alveg frá hinni fornu Vedanta. Að stíga þetta nýja skref í þróuninni er skylda okkar, aftur og aftur, til að takast á við þetta krefjandi afl.

154. Þú hefur oft spurt um þá sem eru farnir frá jörðu til fjarlægari heima. En ef við höfum í huga föla ásynd okkar plánetu, þá munt þú skilja ástæðuna þegar þú sérð þá raunverulegu fegurð sem þar er. Hver verður að uppfylla skyldur sínar á jörðu við að styðja þróunina. Á þann hátt næst best samvinna með mannkyninu. Engin glerhjúpur heldur aftur af vexti eikar. Megi allir vaxa sem geta, í leit sinni hærra upp!

155. Við verðum að veita miðheilanum athygli, því þróun hans liggur í samræminu, jóga lífsins. Þessi þróun eins og við upplifun hana í eigin reynslu, sannar hversu jóga hversdagslífsins er ofar öllum einstökum gerviupphafningum án tengsla við raunveruleikann.

156. Taktur sannleikans er ósigrandi virki. Hann er ekki orðaflóð, heldur hljóðtaktur sem ber ákveðna merkingu. Af hverju að sigra með orðum, ef eldingataktar geta hrakið hræðilegustu verur á brott? Hvaða gagn er af löngum texta þegar hugsun smýgur inn í vitundina á örskotstundu? Já fræðslan um hugsun og viljans verk hefur afbakast hjá fólki. Það leitast við bæta upp eigið veiklyndi og hugsanir með vélrænum hætti. Allar gerviaðferðir í hugleiðingu til að svæfa sig í trans, og glitrandi leikhlutir eru fáránlegar og að krossa augun er tilgangslaust! Sá sem skilur sannindi Jóga lífsins, veit að elding sannleikans getur skotið niður og getur einnig endurlífgað. Þegar Við tölum um þörf á heiðarleika, höfum Við ekki í huga óverðugt fólk. Við bendum á beinan veg fullkomins sannleika, óháðan öllum persónulegum þáttum. Þetta tækifæri er hægt að öðlast með beinni þekkingu. Reynslan sem safnast saman í miðju kaleiksins felur í sér óeyðandi þekkingu. Kaleiksmiðjan er nærri blóðgeyminum, því blóðið er nauðsynlegt fyrir ferðalag okkar á jörðunni.
Því er sannleikurinn ekki óraunverulegur, það er skilningur á kosmískum lögmálum sem byggja á beinni reynslu. Því er það að heiðarlegur bókari getur gert misstök í útreikningum sínum án þess að vera óheiðarlegur, en nákvæm ofurgagnrýnin persóna mun ekki öðlast kraft andlegra áhrifa.
Það er rétt að íhuga hugleiðslu og einbeitni í athöfnum sínum. Öllum gervigöldrum á að sleppa.

157. Myrkt siðferði þjóða eykst. Eldblómið er hulið um alla jörð.

158. Fólk álítur sig geta náð fullkomnun með mörgum aðferðum. Þessar margvíslegu hillingar róa meðalljónin. En við höfum aðeins tvær leiðir í lífinu: annað hvort skynsamlega og af ákafa getum við leitað skilnings á Aum, eða liggja eins og trédrumbur—sjálfhverfur og fátækur í andanum—sem gerir ráð fyrir að eigin örlög séu í höndum einhvers eða annarra.
Við gætum haldið að sönn leit að skilningi á æðri möguleikum ættu hug mannsins í lífinu að mestu leiti. En í veruleikanum er ljós þekkingarinnar hulið af hefðbundnum kreddukenningum trúarbragðanna; og maðurinn sem á að vera hugsuður, dýrkar dimmar fyrirmyndir sínar og hengir á sig verndartákn án þess að skilja merkingu þeirra tákna. Endurtökum þetta til allra sem eru sofandi í dimmu dagsins.
Það er ekki til nein hálfvelgja; annað hvort er það leit og strit eða lamandi kuldi dauðans. Leitin fyllist gleði við kosmískan skilning, en stirðnun dauðans fylgir hryllingur.
Stjórnvöld sem fela hugsunarfátækt sína á bak við grímu hefðbundinna venja eru í hlutverki grafarans. Því er nauðsynlegt að benda yngri kynslóðum á jóga lífsins.
Öll fyrri jóga sem gefin hafa verið af hinu hæsta, byggðust á tilteknum þáttum lífsins. Nú þegar dagar að öld Maitreya, er þörf á jóga sem samanstendur af öllum þáttum lífsins, sem umvefur allt og afneitar engu. Minnumst biblíudæmisins um unga fólkið sem fórnaði sjálfu sér á bálið og öðlaðist með því krafta.
Þú getur kallað það jóga lífsins. En rétta nafnið er Agni Jóga. Það er einmitt eldsþátturinn sem gefur þessu jóga sjálfsfórnar nafn sitt. Í öðru jóga minnkuðu hættur við iðkun, en í þessu jóga eldsins eykst hættan, því eldurinn sem umliggur allt, birtir sig alstaðar. En það leyfir einnig stjórn á fínustu orkusviðunum. Eldurinn leiðir ekki burt frá lífinu; hann leiðir eins og traustur viti til fjarlægra heima. Hvað annað en eldurinn gegnsýrir ómælanlegan geiminn?

Fögnum því blossandi lífinu með gleðibrosi.

159. Af hverju er þetta jóga tengt eldhita? Afl þess fjörgar lífið og eyðir því sem er óverðugt. Birting eldsins færir efninu ljós. Því má segja, að þar sem er eldur, þar eru skýr merki um framsækna betrun.
Við þekkjum dæmi um spenntar árur sem löðuðu að sér kosmíska eldinn og efldu sjálfan sig með meiri birtu. Þannig er efnistilvera okkar tengd við fínustu orkusviðin. Við metum það sérstaklega þegar fundið er fyrir hæstu orku á neðri lögum andrúmsloftsins og óvenjulegir möguleikar greindir sem mannkynið gæti notið.
Gryfjur myrkursins krefjast kröftugar hreinsunar. Aðeins eldurinn getur unnið á skaðsemi þeirra. Ef einhver segir þér að eldsþátturinn sé hættulegur, svaraðu þá, að hætta sé kóróna afreka.

160. Getum við aðeins hugsað um baráttu í hugtökum sigurs? Það sem sýnist vera misstök eru rætur styrksins. Árangur er eins og marglit blómstrun. Náið kvoðunni úr rótunum, því í henni er orkan. Þá orku þarf að skilja sem uppsöfnun reynslunnar.
Við eru aftur í garði lífsins þar sem reynsla tryggir árangur.

161. Skoðum hver eru líkindi og mismunur á milli Agni Jóga og fyrri jóga. Karma Jóga hefur mörg líkindi við Agni Jóga hvað jarðneskan veruleika varðar. En Agni Jóga opnar leiðir til skilnings á fjarlægum heimum. Raja Jóga, Jnana Jóga og Bhakti Jóga eru öll án tengsla við veruleika daglegs lífs og vegna þess geta þau ekki gengið áfram inn í framtíðarþróun. Að sjálfsögðu ætti Agni Jógi einnig að vera Jnani og Bhakti, og andlegur þroski hans gerir hann að Raja Jóga.
Hve fagurlegir möguleikar eru fyrir mann sem er hæfur til að takast á við framtíðarþróun án þess að hafna fyrrum sigrum andans! Við ættum ekki að miklast af nýjungum, því með samhæfingu þess gamla og nýja verður til endurnýjun á því sem hægt er að öðlast.

162. Hver hætta hefur sína kosti. Þegar sverð er temprað í eldi, eru logarnir hættulegir, en þeir efla næmni fyrir hættunni. Svipuð samhæfing á sér stað í þróun barkaorkustöðvarinnar. Agni Jóga er byggt á birtingu eldsins, lífgjafanum og skapara viljans.

163. Sá sem ætlar að synda þarf að stökkva óhræddur út í vatnið. Sá sem er ákveðinn í að ná tökum á Agni Jóga, verður að umbreyta öllu í sínu lífi. Af hverju finnst fólki gremjulegt að gefa jóga einhverja lausa stund, þegar það eyðir mestum tíma sínum fyrir myrkar hugsanir? Sannarlega þurfa allar athafnir að vera innblásnar eldhreinni sókn.
Mundu hvernig Ég byrjaði með þér til að skilja Agni Jóga. Leiddu þína nema með svipuðum hætti í að takast á við svið Elds Jóga. Eins og höggmyndir sem taka á sig mismunandi lögun efnisins. Skyndilega neistar líf frá yfirborði þess ómótaða og áfram. Eins og leikur hinnar Miklu Móður safnar upp afli í spíralsnúnings orku Fohat, þannig er hægt, óhræddur, að bjóða fólki að öðlast,—öðlast meira en búast má við—skilning á öllu lífinu með uppgötvun á eilífðinni. Hugsum ekki um ris og fall andans. Það eru aðeins beygjur á spíralhreyfingunni. Miklu verri eru endalaus sofandaháttur og sjálfshugsun.
Megi Agni Jóga leiða okkur í að móta logann, ferð sem er eins og endalaus sköpun kosmískrar mótunar. Þetta samhæfingarmesta jóga dregur fram skyldu til að móta allt líf okkar í samræmi og í ögun, sem hið ytra telur ómögulegt.
Lítum ekki á þessa nauðsynlegu ögun sem keðju, heldur sem gleði ábyrgðar, og þá hefur fyrsta hliðið opnast. Þegar samvinna við hina fjarlægu heima er föðmuð, þá er annað hliðið ólæst. Þegar forsendur þróunarinnar skiljast, munu slár þriðja hliðsins falla. Þegar yfirburðir þétta geðslíkamans hafa verið uppgötvaðir, þá er fjórða hliðið ólæst. Samhliða þessari uppgöngu munu eldar þekkingarinnar kvikna og neistar fínni orkunnar ljúka upp innsæinu.
Fagnið þá þekkingareldinum og gætið hins vaxandi þroska.

164. Fólk talar mikið um þá hjálp sem ætti að flæða frá sviði Okkar. Skoðum eiginleika fólks til að þiggja hjálp Okkar. Hver maður sem þráir aðstoð hefur þegar ákveðið með sjálfum sér hvernig og hversu mikið hún verði. Getur fíll komið sér fyrir í kjallara? En fyrir þá sem leita hjálpar skiptir ekki máli hversu mikið né hvernig hún er. Fyrir honum eiga lilju að blómstra að vetri og í eyðimörkinni á vorregnið að flæða; því annars er framlag fræðarans lítið.
„En, þú sem segist vera skapari eyðimerkur og drottinn kuldans, þú veldur þínum þorsta og skelfur af eigin hjartakulda. Uppspretta Mín er enn óþekkt og þú snérir ekki aftur til að gæta blóma Minna. Sjálfshyggja hindrar göngu þína og gæta þarftu eigin fóta fyrir þyrnum stráðum veginum sem þú sjálfur lagðir. Hjálp Mín tók því flugið eins og brugðum fugli. Sendiboði Minn snéri við í hasti og hin hvíti Lobnor stundi mæðulega. Minni hjálp var hafnað.”
En ferðalangurinn hélt áfram í blindni að kalla eftir hjálp og hélt áfram leið sinni til framtíðarhörmunga. Við ráðleggjum ávallt aðgæslu, sveigjanleika og víðsýni, þó maður geti haldið í við veruleikann.

165. Vegur einsetumannsins er ekki Okkar leið. Hver og einn verður að gefa lífinu blóm reynslunnar. Hver kýs auðvelda ótruflaða tilveru? Hver kýs að vera áhorfandi í stríði? Engir áhorfendur eða letingjar ættu að vera hér, loginn er við dyrnar.

166. Hver og einn hefur í sér einhvern snefill af jóga, á byrjunarstigi eða í óræðri mynd. Ekki er einungis hægt að flokka fólk eftir frumöflunum, heldur einnig eftir jóga. Við sjáum hræsni við afbökun í Bhakti Jóga; ofmetnað íþróttamannsins í Hatha Jóga; ofstækið í Raja Jóga, einsýni í Jnana Jóga. En hvað getur jafnast á við hið sanna jóga sem tengir jarðneska vitund við kosmískan púls? Getum við ímyndað okkur eitthvað sem kemur í stað sannrar leitar jarðnesks anda, eitthvað sem fyllir mann geðskilningi; eitthvað sem skýrir tilgang mannlegrar tilvistar? Nám í Agni Jóga færir okkur nær hinum heimunum.
Þú getur spurt Mig hvaða líkamlegar æfingar séu góðar í Agni Jóga. Ég mæli með stuttum öndunaræfingum, pranayama, á morgnana, þó ekki lengur en fimm mínútur. Forðast að neyta kjöts, nema reykts kjöts. Grænmeti, ávextir, mjólk og korn eru ávallt góð. Allt áfengi er bannað, nema í lækningaskyni. Vímuefni, svo sem ópíum eru eyðileggjandi fyrir Agni Jóga. Sólarleysi er erfitt fyrir Agni Jóga. Ég mæli með einangruðum mjúkum skóm, morgungöngu og forðast reykmettað loft. Við verðum að mæta öllum atburðum með hugrekki, þó næsta ómögulegt sé að vita hvað er illt eða gott.
Sá sem lifir eins og sannur jógi nær sínu helsta markmiði. Þannig liggur Agni Jóga frammi fyrir okkur.

167. „Er leiðin auðveld, þeim sem birta sannindi?“, kunna sumir að spyrja. Að sjálfsögðu er leiðin þeim erfið sem færa sannindi. Leið Logans er aldrei auðveld. Fyrir sendiboðann er það eins og að bera hjálm sem þrýstir á stöðvar heilans. Aðeins vitundarleg barátta leiðir andlega leitandann að markmiðum sínum. Óvildarský elta hann, því leit hans er leið úr jarðneskri einangrun.
Getur sá sem telur sig óhræddan, verið óhræddur, eða hefur sá sem tekur sig lærðan, öðlast þekkingu? Sannarlega, hver sem er verðugur, framkvæmir verk sín án þess að skilgreina þau ill eða góð, eins vel og hann getur. Það er leið hans þar til jarðvist hans lýkur. Mun sá sem lýkur verkum sínum kalla þau erfið?
Síðasta skrefið ætti að fylla ferðalanginn gleði, því hann veit hvern hann nálgast.

168. Getur einhver komið og farið einn? Sannarlega getur enginn verið án þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Hann hristir ekki aðeins upp hinum ýmsu lögum andrúmsloftsins með tilveru sinni, heldur dregur sína nákomnu með sér.
Maðurinn verður að skilja ábyrgð sína við alheiminn. Hver sem rís í andanum er mikil hjálp fyrir aðra. Sá sem fellur í andanum getur einnig deytt einhvern. Handan meðvitaðs hugsanasviðs hvers og eins, eiga sér stað stöðug ómeðvituð samskipti innan mikils hringflæðis sem takmarkast af lögmáli karma og tengingum við árur annarra.
Það er ekki alltaf auðvelt að ákvarða hver sé morðingi, eða velvildarmaður. Aðeins í ljósi Agni Jóga getum við með sanni lýst upp óreiðu hugans. Þannig verðum við að helga okkur Agni Jóga; en fáir elska hindranir sjálfsfórna. Þess vegna skilja fáir það sem sagt er. En hægt er að týna til mörg dæmi, eins og um þann sem varð brjálaður í Asíu, olli dauða annars í Evrópu, eða hvernig sá sem reis í andanum í Ameríku læknaði annan í Egyptalandi. Þannig verður blómstrun góðra hugsanna að logablómi andans.

169. Eins og umliggjandi eðli eldsins, þannig smitar Agni Jógi allt lífið. Hver getur séð hvernig eigin vitund skerpist smásaman og hvernig raunveruleg gildi í umhverfinu skýrast, og hvernig skilningur á óhjákvæmileika samvinnu heimanna vex. Þannig koma fram í lífinu tákn um hæsta skilning. Raunveruleg sannindi koma inn í daglegt líf.
Hugrakkur Agni Jógi leitandi mun óhjákvæmilega verða fyrir sársauka vegna hitablossa orkustöðvanna og þjást af tilfinninganæmni fyrir öllu óréttlæti. En hvað er það í samanburði við skilning á sannri og frelsandi leið!
Agni Jógi er eins og Morgunstjarnan, sem er boðberi ljóssins.

170. Við þroska orkustöðvanna finnum við óskiljanleg einkenni, sem vísindin, í fávisku sinni, tengja vil algjörlega ótengda sjúkdóma. Því er tími komin á að skrifa bók um athuganir og rannsóknir á eldum lífsins. Ég mæli með að það dragist ekki, því það er nauðsynlegt að útskýra núna fyrir heiminum veruleika og einingu tilverunnar.
Ný hugtök koma óhjákvæmilega inn í lífið. Þau merki, sem fáir átta sig á, eru grundvöllur lífsins sem ganga í gegnum alla þætti þess. Aðeins þeir blindu skilja ekki að lífið er fullt af nýjum þáttum. Vísindin þurfa að kasta ljósi á þessi nýju sannindi.
Læknar, bregðist okkur ekki!

171. Agni Jógi upphefur ekki þjóðlegar hefðir, þó hann tilheyri tímabundið einhverri þeirra. Agni Jógi hafnar sérhæfni í vinnu sinni, þó hann hafi yfirburðar þekkingu og hæfni á einhverju. Agni Jógi velur andleg tengsl umfram blóðtengsl. Vörn Agni Jóga liggur í helgun hans við þróun heimsins og ákveðinni höfnun hjarta hans á fordómum.

172. Jógi verður að halda öndunarfærum sínum hreinum. Heit mjólk, valerian og minta eru góð til þess. Jógi verður að vernda maga sinn og halda innyflum hreinum; lakkrís og hægðarlosandi Senna, eru góð til þess. Jógi verður að halda lungum sínum hreinum, aloe og resins plantna og trjáa eru góð í hófi. Jógi verður að halda öllum líkamanum hreinum, því verður hann að taka musk.
Hreinleiki krefst einnig góðrar starfsemi kirtlanna.

173. Jóga er ekki gefið um hræsni; heldur ekki um baktak um þá sem tilheyra Bræðralaginu. Afleiðingar slíks baktals eru eins og um svik. Jógi veit hver áhrif eigin hugsanir hafa á hann. Hann fagnar öllum merkjum um þróun. Jógi hefur hugrekki til berst gegn því illa sem hafnar þróuninni og hann eyðir fljótt uppruna ósanninda.

174. Fræðarinn fylgist með framförum jógans. Merki um framfarir hans er hæfileiki til að heyra rödd fræðarans og þroska jógans í skýrri næmni fyrir réttlæti.

175. Staðfesting á að jógi sé á braut sinni, er full þátttaka í þróun heimanna. Einn sérstakur eiginleiki einkennir jóga—hann þekkir ekki dauða, því vakandi vitund reynir enga truflun í tilverunni. Jógi truflar aldrei þjónustu sína við sannleikann. Sá sem nær jógastigi, þrepar stigann smásaman til heimanna. Takmark hans og þjónusta flæðir óheft. Vitund hans helst í mismundi líkömum hans og árangur hans er nauðsynlegur fyrir lífið.
Aðeins örsjaldan og við sérstakar aðstæður hefur jógastigi verið náð, þar til nú, en núverandi þróunarstig andans, krefst þess að jóga verði fært inn í lífið. Hugsunum yngri kynslóða verður að beina að því. Hvorki öfgar né veikleiki í trú gagnast Okkur, en hver heilbrigð umbreyting í lífinu er studd og tekið eftir.

176. Ef við höfum löngun til að kynna Agni Jóga, þá verður markmiðið að kynna það fyrir þeim sem þið þekkið. Spyrjið nemann hvort hann vilji njóta aðstoðar fræðarans. Vill hann fá andlega og efnislega aðstoð? Það þiggur hann örugglega. Förum þá inn á reynslubrautina. Ákveðin próf í kulda og hungri, tryggð, svikum, falsi og hjátrú eru nauðsynleg.
Skoðið hversu andinn er veikur fyrir mótstöðu, hversu agaður hann er í mataræði, og málsgætni hans um helg mál. Sjáum hvernig hann heldur áfram, fátækur, fórnar sér, brosir að kulda og hungri, treystir hinum kosmísku þáttum á göngu sinni; ávallt ungur, tilbúinn til átaka í veruleikanum.
Þegar þú ert ákveðinn í að laga jóga að lífinu, þá ert þú sannur fræðari.

177. Staðfestið réttlæti í nýrri uppbyggingu lífsins. Veitist sérstaklega að þeim sem eigna sér það sem er annarra.

178. Sami sannleikurinn hefur verið færður mannkyninu aftur og aftur í mismunandi klæðum. Ávallt hefur hann verið afbakaður innan einnar aldar af rugluðum hugum. Þess vegna er það skylda jóga að hreinsa sannleikann. Þegar nýhreinsað andlit sannindanna brosir til hins staðfasta leitanda, getur gleðin flýtt för til fjarlægra heima. Loftið boðar að tilgangur lífsins hafi verið útskýrður.
Ásjóna sannleikboðans er brosandi. Sjaldgæf eru slík bros, en jógi getur kallað það fram. Þess vegna lýsir leið jógans upp lífið.

179. Jafnvel þegar við mætum hinum mestu mótstöðum, verðum við að fylgja okkar venjulegu daglegum skyldum. Það er ekki rétt að láta mótstöðu trufla flæði lífsins. Mótstaða er örlög okkar og við verðum einfaldlega að gera ráð fyrir þeim í daglega lífinu.

180. Galdramaður hylur í galdrinum algengustu athafnir. En jógi birtir hið sjaldgæfa innan marka þess venjulega, því hann veit hvert markmið náttúrunnar er.
Jógi er hvorki ungur né gamall. Ekki gamall, því hann þekkir hina stöðugu uppgöngubraut. Ekki ungur, því hann veit um samsöfnun reynslu fyrri jarðvista. Jógi getur farið óþekktur í gegn um lífið. Hann brosir af kjánalegum orðum og slær á fáfræðina.
„Ég slæ niður róginn um Sannleikann. Ég tek á mig ábyrgð fyrir hreinsun gamla heimsins. Ósveigjanlegur er ég í andstöðu við lítilvægið. Ég mun safna hugrekki til að takast á við reiði illskunnar!”
Það staðfestir jóginn. Í þeirri staðfestu herðir hann sitt sannleikssverð.
Sjáið það sem hamingju að hafa komist á braut jógans! Hið liðna gefur þeim sem byrja jóga bestu ávexti og framtíðin mun opna honum víð svið athafna.

181. Við kenndum þér að skilja anda hugmynda, án þess að falla fyrir yfirborðs merkingu þeirra. Á sama hátt og Búddha kenndi hvernig umræðuefni þróaðist frá einu orði, verður þú að víkka skilning nema þinna með einu orði eða tákni. Aðallega, reyndu ekki að endurtaka fyrir þeim óundirbúnu. Ef andinn er tilbúinn, mun hver hugsun smjúga eins og ör. En ef skemmdir vefir hafa þegar stíflað brautir orkustöðvanna, verður engu jóga náð.
Að sjálfsögðu er jógafræðsla að einhverju leyti góð fyrir alla, jafnvel þó þeir geti ekki náð til hærri birtinga andans. Hagnýt jógafræðsla getur í öllum tilvikum bætt heilsu, styrkt minni og hreinsað hugsanir.
En hver eru merkin um áfanganna sem upphefja andann? Fyrst munu orkustöðvarnar hitna. Þá mun heyrast rödd óséðs fræðara. Að síðustu eiga sér stað ytri logarnir, sem binda einstaklingsvitundina við vitund heimana. Þá verða möguleg tengsl við hina dásamlegu, hættulegu fínni orku—með öllu því sem umbreytir lífinu og eyðir hugtakinu um dauða.
Álagið af tengslum við hið óvenjulega, skapar stundum sérstakar aðstæðum í lífinu. Svefn minnkar. Að leggjast verður kvalafullt. Vöðvaspenna hindrar andlega vinnu. Hver eitrun í árunni veldur þjáningum. Eðlilega er hægt að létta á þessu án þess að hætta á brautinni og ljós jóga mun aukast, umvafið ljósi heimanna.
Er einhver annar vegur til Nirvana?

182. Enn frekar um tákn jóga—ef vitundin leyfir, þá verður öndunin léttari og dýpri í hæð, þá eru hæstu lög geðheimsins innan seilingar.
Leiðin til jóga er aðeins opin þeim sem skilur að þekking hans er lítilsgild; sem sjaldan hugsa um hvað aðrir segja um hann; þeim sem ekki hafa tekið þátt í rangindum gegn trúarbrögðum; þeim sem muna fyrri líf sín og ofmetnast ekki af jarðneskum blóðtengslum; þeim sem planta í garð sinn á hverju ári og brosa að storminum sem eyðilagði síðustu verk hans; þeim sem hafa misst eiginleikann til að slúðra; þeim sem stefna leit sinni að því æðsta ósýnilega; þeim sem hafa hafnað félagsskap þeirra sem svíkja sannleikann; og þeim sem umvefja sig hreinum hugsunum, sem mynda ósýnilega áru.
Sannarlega segi Ég, Agni jógi verður að fá sinn verðuga stað á jörðu sem á himni, því hann hefur þroskað sjálfan sig í háleitustu þáttunum. Þegar gungan hripar sig saman, þá er eldhugurinn vörn jógans, því hann er óhræddur.
Munið eldskírnina, eldkrossinn, og alla hina logandi bikara sem Ég sýndi þér fyrir löngu sem tákn um það jóga sem koma skyldi. Eldtáknið hefur ávallt verið í allri fræðslu til nota í lífinu.
Eldurinn færist nær og hefur nú tekið við af þætti vatnsins.

183. Ég treysti því að þú lyftir nafni fræðarans svo hátt að ekkert niðrandi geti snert þennan sameiningartengill heimanna. Ég treysti þér einnig til að aðstoða þá sem knýja á óþreytandi. Ég treysti þér til að tala um tilgang lífsins á jörðunni.
Ég treysti þér til að hafna öllum því sem dregur úr samskiptum við Okkur. Ég treysti þér til að staðfesta tilveru Okkar.
Skilningur á fræðslu Okkar mun umbreyta lífi þeirra sem meðtaka hana. Það munu opnast nýir möguleikar; því af hverju að taka á sig byrðarnar?

184. Meðal þess sem náð er á leið jógans er möguleikinn á samskiptum við fræðara. Við verðum að því skipta í tvær rásir, einfalda rás og opna rás. Einfalda rásin vekur viðbrögð frá fræðara sem valin er. Rás geimsins vekur ekki aðeins aðeins samband við marga fræðara, heldur einnig möguleika á að fá þekkingu frá Kosmosinum sjálfum. Það er nauðsynlegt að skilja hvernig orku Okkar er beint þessar tvær leiðir. Alveg eins og lampaljós bregst við mismunandi straumi, bregðast orkustöðvarnar við þessum straumum geimsins. Sannarlega er þörf á aðgæslu við að færa þessa mismunandi orku inn í lífið.
Þú hefur dæmi um mismuninn á þessum tveim straumum og þú veist að einfalda rásin hefur minni áhrif á heilsuna. Fyrir framtíðar rannsóknir er mikilvægt að þekkja un hvor strauminn er að ræða. Mörgum vísindamanninum mun reynast erfitt að finna réttu aðferðirnar til að rannsaka þetta. Af hverju er það að ein persóna sem er rannsökuð, er ekki í þörf fyrir sérstaka meðferð, meðan andi annarrar flöktir eins og fugl í búri svo að venjuleg úrræði duga ekki? Á þessu stigi jógans kemst hann í snertingu við orku sem er mjög erfitt að ná í yfirstandandi lífi. Eftir samband við óvenjulega gerð af orku þarf stundum að gera hlé á slíkum tengslum um talsverðan tíma; en of vandvirkur andi leyfir ekki orkustöðvunum að hvílast, en þá áminnum Við, „Varúð!”
Agni Jóga er aðeins að koma núna inn í lífið og þeir sem hafa helgað sig áhrifum þessara afla upplifa tiltekna erfiðleika, næstum eins og þeir séu framandi á Jörðunni. Þess vegna tölum Við til vísindanna, „Hafið niðurstöðurnar réttar.”
Margir álíta að þeir séu tilbúnir til að helga sig athöfnum fyrir þróunina, en aðstæður eru mjög erfiðar og sá sem getur ekki kastað stóru neti í þetta mikla haf, ætti betur að sleppa því.

185. Sumir þeirra ungu kunna að spyrja, „Hvernig ættum við að skilja Agni Jóga?”
Svarið, „Sem skynjun og þátt í lífinu á hinu umvefjandi eðli eldsins, sem nærir fræ andans.”
Þeir munu spyrja, „Hvernig nálgast ég þá þekkingu?”
„Hreinsið hugsanir ykkar og eftir að þið hafið upprætt ykkar þrjá verstu lesti, fórnið þeim þá til ösku í eldheitri ástundun. Veljið síðan kennara á jörðunni og nemið fræðsluna, styrkið líkama ykkar með lyfjum sem nefnd hafa verið og pranayama. Þú munt sjá stjörnur andans; þú munt sjá hreinsunarloga orkustöðva þinna; þú munt heyra rödd ósýnilegs fræðara; og þú munt öðlast þær fínu skynjanir sem umbreyta lífinu.“
„Hjálp er til staðar þegar þú hefur gengið inn og verið gefið verkefni. Þér hefur skilist að gleði er sérstök viska. Þú munt ekki snúa aftur í gömlu hringiðuna. Þú umvefur í vitundina baráttu heimsins. Afbökun sanninda hefur enga merkingu lengur fyrir þér. Þú er að ná því að verða samverkamaður og bróðir!”

186. Fyrir Agni Jóga, eru einhæfar vinnuhreyfingar eins og hjá trésmiðum, járnsmiðum og við handþvott kvalafullar. Við verðum að vera tilbúin að þrauka mótstöðu heimsins. Við verðum einnig að skilja hve mikið eldurinn sem við höfum vakið, hreinsar líkamann. Ég, í nafni réttlæti Stigveldisins, boðar að vinnan við að kynna hið nýja jóga er æðri öllum öðrum verkum!

187. Agni Jóga verður að meðtaka inn í lífið, en jógi má ekki skera sig úr frá öðrum í daglega lífinu. Agni jógi lifir óþekktur. Hann þarfnast ekki aðgreiningar. Hann skoðar, en forðast athygli annarra. Fyrir strauma heimanna eru athyglisörvar fjöldans óæskilegar, því þróunarvinnan verður ekki til af fjöldanum. Jafnvel einfaldan straum þarf stundum að vernda frá örvahríð fjöldans. Það þýðir ekki hið minnsta fráhvarf frá lífinu. Það er aðeins nauðsynlegt til að endurmeta stefnumark jógans.
Jógi sýnist hunsa ógæfu, en hann greinir orsök og afleiðingu ósýnilegra atburða. Það sem fólk sér venjulega sem afleiðingu slysa er niðurstaða áhrifa fortíðar, jafnvel mjög fjarlægrar. Þegar aðrir snúa sér frá ógæfunni með fyrirlitningu, skynjar jógi hina sönnu möguleika. Undrist ekki ef hjarta hans finnur með tryggð hunds, eða ef hann sér í einföldu barni samstarfsmann framtíðar.
Ekki síðar en fólk kallar jógann stífan og kaldann, mun hann óvænt sýna sannan kærleika og samúð. En athafnir hans munu líklega ávallt verða ranglega dæmdar. Það að vera kallaður svikari er heiður fyrir jógann, því þróunin er hulin fyrir þeim fávísu. Við tölum bæði fyrir mannkynið og einstaklinga. Fyrir þeim sem byggja eru eru fylgissveinar heimskunnar þeim ókunnir.

188. Á hverri öld er sérstakt Jóga kynnt sem lagað er að aðstæðum heimsins. Jarðarfrumefnið getur ekki tengst þegar mátt eldsins er þörf. Né geta Vatn eða Loft frumefnin gefið eldinum vængi. Líkt og óhjákvæmilegar náttúruhamfarir sem svipta burt meginlönd, er svo einnig Jóga fyrir skilning á afli eldsins. Eiginleikinn að vita hvenær athöfn hæfir stund er til marks um upphafna vitund.

189. Jógi á fáar eignir, meðal þeirra er engin ónauðsynleg. Ef hlutur hefur þýðingu fyrir alla, þarf hann eftir notkun að skila sér sem verðmæti til samfélagsins. Hversdags hlutir jógans má gefa til verðugs fólks, en oftar er betra að brenna til að forðast að blanda saman árum. Stundum er gott að gefa öðrum hluti sem eru gegnsýrðir sérstakri áru. Jógi þekkir hið sanna eðli hlutanna og hefur ekki í kringum sig ónauðsynlega hluti. Málefni efnislegra eigna taka of mikinn tíma hjá fólki. Menning andans krefst þess að hlutir í umhverfinu séu af mestum gæðum.
Í framtíðinni ætti fólk að vera laust við að þurfa að sinna efnislegum þörfum. Samfélagið á að gera ráð fyrir að allir hafi lámarks þægindi sem verndi styrk og störf fólks. Getur jógi eytt orku sinni og tíma án afleiðinga? Við verðum að muna að upplausn á styrk og tíma jafngildir sjálfsmorði. Að þekkja vísbendingar um sannleikann án þess að laga það að lífinu er í Okkar augum heimska.
Skilningurinn á markmiðum þróunarinnar mun kveikja vitneskju um bestu sköpunarþættina. Því þurfið þið að meta vandlega þau sönnu gildi, í því sem ykkur hefur verið sýnt.

190. Á leiðinni til Okkar gleymið ekki að taka með ykkur það sem þið teljið verðmætt. Það er uppbyggjandi að þróa með sér skilning á verðmætum. Jafnvel þeir sem vita eitthvað um svið andans, hafa enn athygli á lítilsgildum og ljótum hlutum. Þeir gleyma því að ljótir hlutir þjóna öflum myrkursins. Jógi verður að vita nákvæmlega sönn gildi alls.

191. Það er of snemmt að hafa áhyggjur af endalokum jarðarinnar ef eigin endalok eru ekki þekkt. Hver ætti að gæta að eigin sárum áður en gengið er með þeim sem vinna. Ný nálgun að daglegu lífi mun gefa skilning á hverju smáatriði þess. Jógi flýgur ekki burt til annarra stjörnukerfa, heldur viðheldur silfurstrengnum við fjarlægari heima.

192. Kennarinn er stöðugt að reyna jógann. Með sama hætti reynir hann þá sem koma til hans. Útskýrið merkingu prófanna um kulda og hungur, sem og um aðra þætti. Fávís maður verður ringlaður um hvernig hann á að komast yfir hungur og kuldatilfinningu. Sá sem skilur eðli hlutanna veit að þessar kenndir hverfa ekki, en andinn getur eflst svo að ekkert fær honum haggað. Hungraður finnur leiðir til að fullnægja hungrinu ef andi hans hefur ekki fallið niður í dýraeðlið. Sá kaldi getur hlýjað sér svo lengi sem andinn skilur að hann þarf að vernda sjálfan sig. Án þessa ræður aðeins dýrseðlið,- pirringur, ringulreið í vitundinni, og niðurbrot.
Það er við hæfi að bæta við, að aðlögun er besta leiðin til að takast á við gildrur lífsins. Jógi er fljótur að meta gildi aðstæðna. Ef honum er boðið matur í skiptum fyrir leyndarmál jóga, myndi hann að sjálfsögðu vilja borða án þess að upplýsa leyndarmálið. En hann veit að áhrif matarins eyðast, en áhrif þess að leyndarmálið falli í rangar hendur eru óbætanlegar. Þannig, að stundum er nauðsynlegt fyrir Okkur að senda sterkan geisla, sem er þó sjaldan nauðsynlegt.
Ég vil einnig minna á að mikilvægi Agni Jóga fyrir skapandi athafnir. Þú ert beðin um að bera saman tvær túlkanir af tónverki og andi þinn skilur mismuninn. Þannig er vitundin efld með snertingu þess sanna og enn ein óhlutdrægnin verður raunveruleg. Fagur er skilningur á stöðugri prófraun! Í því liggur hreyfing. Getur jógi eldsins fallið í athafnaleysi?
Ég segi þetta ekki aðeins fyrir þín eyru, heldur til þess að nýta það.

193. Góður bogmaður, jafnvel á þessari byssuöld, er hæfur í að hitta markið. Þannig er einnig með jóga. Fyrir utan Hatha Jóga, eiga öll jógakerfi sér fögur afrek. Það ætti ekki að gera lítið úr þeim. Við ættum aðeins að ræða hvað hentar betur í núverandi þróunarstöðu.

194. Jógi á að skilja aðstæður andrúmsloftsins og hvernig á að nýta það sér í hag. Jafnvel einfaldur athugandi getur séð að rafbylgjur geta haft veruleg áhrif á venjulegar aðstæður. Einnig að segulstormar og úrkoma hefur hafa ýmis áhrif á hið andlega. Segulstormar og öll rafmagnuppsöfnun eru okkur hagfellt, en úrkoma í andrúmsloftinu hindra eldstrauma. Við notum rafhleðslu andrúmsloftsins til að leiða, jafnvel til þeirra sem eru óviðbúnir, nothæfi hugmynda sem þeir þekkja jafnvel ekki. Segulbylgjur hjálpa við að fara úr geðlíkamanum. Þess vegna verður jógi að vera næmur á alla óséða ferla í náttúrunni. Til þess þarf hann fyrst og fremst að tengjast prana. Ekki ætti að loka gluggum, nema raki sé mjög mikill. Löng heit böð án hreyfinga eru góð.
Almennt snöggar hreyfingar trufla hreyfingu árunnar og við ættum að forðast þær. Hraður taktur truflar ekki tengsl okkar við andrúmsloftið, en krampakenndar hreyfingar særa árunnar eins og nálar. Margar athuganir andrúmsloftsins geta auðveldað framtíðaruppbyggingu. En því miður verðum við að viðurkenna að jafnvel moskítóá þekkir betur veðuraðstæður betur en menn.
Engu að síður telur maðurinn sig konung náttúrunnar, hafa rétt til að vita lítið.

195. Að hylja orkustöðvarnar með lögum af soma er stundum nauðsynlegt, ella gæti skerpa ytri áhrifa kveikt í þeim. Aftur komum við að þörfinni á jafnvægi, hinum gullna meðalvegi fræðarans, sem einnig er hægt að líta á sem endanlegan skilning.

196. Þú veist um skaðleg áhrif ýmissa vökva. Þess vegna eigum við að huga að réttum frágangi eldstæða. Því er í öllum tilfellum best að vera ekki of lengi nærri eldstæði, vitandi hvaða gestir laðast að mat, sérstaklega blóðugum. Þess vegna er betra að snæða reykt kjöt eða hænsni og snædd köld. Við verðum einnig að gæta vel að hreinleika lofts í svefnherbergjum. Við ættum að muna að þegar geðlíkaminn fer, er efnislíkaminn óvarinn og ef loftið er mengað er heimsókn óæskilegra gesta óhjákvæmileg. Mint er besti sótthreinsarinn. Það hjálpar geðlíkamanum, sem yfirgefur efnislíkamann oftar en við gerum okkur grein fyrir. Hann getur stundum flögrað um, stundum nálægt efnislíkamanum, eða farið á nýjar slóðir og öðlast mikla þekkingu. Mikilvæg skylda er að hver skoði sem bestu aðstæður fyrir geðlíkama sinn. Gæta verður þess að ekkert skítugt vatn safnist fyrir innan dyra. Brunnar innandyra eða laugar eru venjulega óæskilegir. Að auki, af hverju kvelja og halda föngnum fiskum eða fuglum?
Ég óska þess að eitt herbergi eða herbergishorn sé algjörlega hreint, sem er helgað kennaranum. Koma fyrir nærri glugga armstól, sem enginn má sitja í. Hleypið ekki þar inn þeim forvitnu. Gagnvart þeim skaltu vera eðlilegur svo atgangur þeirra hafi ekki mikil áhrif á áru þína. Allt þetta er heilsufarsráð fyrir jóga.

197. Við ættum að hugsa um athafnir okkar og prófa gildi þeirra. Hinn minnsti vafi í hugsunum okkar beinir þeim fram hjá markinu. Þá er betra að sleppa jóga að öllu leyti. Heft vitund eru leifar frá dýraástandi. Hverjum gagnast skýjaðar hugsanir? Enginn vill fá loðin svör við spurningum sínum! Það er nauðsynlegt fyrir hvern og einn að hreinsa andlega strauma sína. En Við getum ekki hreinsað andlegar rásir fólks með afli! Segið fólki að þau sjálf verði að gera það mögulegt að Við getum hjálpað.

198. Jógi hefur ekki neinar venjur, því þær eru ekkert annað en hnignun lífs. Hinsvegar er eðlilegt fyrir jóga að hafa sinn eigin hátt á athöfnum. Það er ekki erfitt fyrir hann að slíta venjubundnum háttum, því stöðug skarpskyggni hans gefur honum stöðugt nýja sýn og nálgun á vandamálin. Tregða eykur fávisku. Hversu mörg konungsríki hafa ekki fallið vegna tregðu.

199. Fræðsla okkar er ekki sterk í höndum þeirra sem nota hana ekki í lífinu. Segið samverkamönnum í öllum löndum það, svo þeir finni strax leiðir til að efla lífið gegnum leiðbeiningar jóga. Það eru of margir sem tala, en of fáir sem gera. Ég sé enga þörf á almennum fyrirlestrum; en samræður milli manna er þörf. Felið ekki erfiðleika eða kosti fræðslunnar. Tengið jóga við heimsviðburði, því nýtt kerfi í lífinu verður að kynna, sem án almennrar hreyfingar verður ekkert annað en skrúðgöngur gömlu hugmyndanna. Harður agi frelsisins getur endurbyggt líf, en aðeins þegar nýr skilningur á notkun fínni orku verður hluti af daglegu lífi. Endurtakið að þörf er á nýjum skilningi til að innleiða í lífið.

200. Vitneskjan er aðeins fyrir fáa, fjöldinn veit ekki hver stefna skipsins er og spyr að morgni. „Hvert hurfu seglin?“ „Af hverju er ströndin svona eyðileg?”
„Vegna þess að þú vissir ekki af hinum verðmæta farmi og þú svafst af þér austanvindinn í dagrenningu.“
Það er ekki hægt að segja fjöldanum allt, vegna þess í döguninni heyrast enn hljóð næturinnar. Það er aðeins hægt að höggva marghöfða heimskuna með höggi sem hún þekkir ekki. Það er skylda jógans að læra að höggva án misstaka.
Sá sem leitar látlaust að hærri þekkingu verður ávallt vakandi. Hvern annan getum við kallað baráttumann? Og hver er brautryðjandinn? Hver er leiðbeinandinn? Jógi á að bera öll þessi virðulegu nöfn. En tíminn kemur sem sýnir völlinn sem hann plægði. Hver getur mælt það þegar völlur jógans er geimurinn? Hver getur bent á sigra jógans þegar eldarnir glóa innan með honum? Hver getur talið þá sem jógi hefur bjargað, ef hann leiddi þá án þess að spyrja þá til nafns?

201. Almennt er talið að jógi hafi fullkomna heilsu. En getur viðkvæmt verkfæri verið gert úr grófu efni? Liggja ekki eiginleikar strengja vina í því að geta framkallað fínustu millitóna? Sama má segja um næmni jógans. Sannarlega er hann sá eini sem þekkir ólýsanlegu verkina sem, eins og stilling strengja vina, ummynda tilveru hans. Það verður að skiljast að Við munum ekki halda því fram að leið jóga sé hættulaus. Hvernig getum við forðast sársauka við ummyndun orkustöðvana? Skilningseldurinn er ávallt heitur. Þú sérð nú að það sem sagt hefur verið hér, eru ekki óhlutdrægar merkingar. Það að gefa öllum þessum verkjum nöfn er vita gagnlaust, svo lengi sem vísindin hraða ekki skilningi sínum á fínni orkunni og andanum. Því fjarri sem fólk er skilningi á hættum Jóga, því fjarri eru þau í tengslum við Hærri vitund. Tilviljunarkennd flug vitundarinnar hafa ekkert gildi. Það sem þarf, er óendanlegur ómur leitarinnar. Vina hljómar kannski stöðugt, en samræmi strengja hennar er rétt.
Þeir sem leita í jóga aðeins fyrir heilsuna ættu frekar að fá sér glas af víni og ræða háleitar hugmyndir án þess að koma þeim í verk. Því heilsa jóga fer upp og niður eins og vængir arnarins í leit sinni. Sjón jóga er svipuð arnarins eins og þú veist. Ró jóga er eins afl sjávarins.

202. Heilsu jóga er hægt að líkja við stillingu vina. Sama má segja um athafnir jóga—á tíðum hljómandi, á tíðum hljóðar, ávallt íklæddar markmiði. Takmark jóga er að smita umhverfi sitt með jákvæðri staðfestu og beina orku hvert þangað sem sannleikurinn hefur verið afbakaður. Er hægt að gagnrýna jóga fyrir að birtast skyndilega eða hverfa hljóðlaust um langan tíma? Tenging við sérstaka staði ætti ekki að vera til staðar.
Aðeins hugsun og athafnir eiga að ákvarða hvar dvalið er á jörðunni. Þess vegna eru ferðalög alltaf óaðskiljanlegur hluti jóga. Hvernig getur næmni orðið til öðru vísi en með þörf fyrir breytingum? Hvar er sjálfstæðið mótað eða skilningur fyrir einveru? Starf jógans endurómar og nær útþenslu í umhverfinu. Jógi verður að skilja umhverfið og getað komið orðum til heimsins.

203. Þeir sem leita til jógans eftir fræðslu eru ekki allir jafn verðugir. Hann verður að getað skilið hverjir komi af tilviljun, hverjir geta orðið nemar, hverjir geti orðið leiðbeinendur í framtíðinni, læri að betra sjálfan sig með því að hjálpa þeim sem koma til hans. Það er slæmt fyrir þá sem meðtaka jóga, en snúa aftur til síns gamla lífs. Sannarlega það er auðveldara fyrir geðlíkamann að snúa aftur í vefi efnislíkamann, en fyrir þann sem hefur öðlast þó ekki væri nema þekkingarkorn, til að snúa til myrkur fáfræðinnar. Varið þá við sem vilja kynnast jóga. Við getum ekki leyft fólki að halda í blekkingar sínar.

204. Marga dreymir um að komast undir skjöld jóga, en finnst of erfitt að herða sverðið sem þörf er á. En hæfileikinn til að berjast næst ekki með því að horfa á aðra beita sverði sínu.

205. „Vaknið, svefnpurkur!” Fólk elskar að endurtaka þetta kall. Þó er það undravert að þeir sem endurtaka það, eru það sjálfir og vilja halda áfram að sofa. Sumir sofa í áraraðir; sumir sofa allt sitt líf, sumir falla skyndilega í slíka blundi og endurtaka hálfsofandi aðeins orð annarra. Tölum ekki um þá sem staldra ekki við, jafnvel þá sem sem eru á brautinni, en hafa fallið í hugsunarleysi. Þá er það hlutverk kennarans að vekja þá, ef þarf, með eldingu. Svefn getur auðveldlega orðið að yfirtöku.
Blessað sé Indland! Þú eitt hefur gætt hugmyndarinnar um fræðara og nema hans. Gúru getur leiðbeint sálarferð nemans. Gúru getur eytt deyfð svefnsins. Gúru getur vakið andann til lífsins. Vá er þeim sem vogar sér að þykjast vera kennarar og túlka af léttúð orð fræðarans, en eru aðeins að upphefja sjálfan sig! Sannarlega, lofið andann sem skilur uppgönguna, en sá fellur sem er óstöðugur í hugsun. Við getum spurt indverskan dreng hvort hann vilji hafa Gúru. Engra orða er þörf fyrir svar, því úr augum hans mun skína eftirvænting, ákafi og tilbeiðsla. Eldur Aryavarta mun brenna í augum hans. Straumur Rig-Veda rennur í fjallhlíðunum. Hver getur lýst í orðum langri keðju fræðara? Það er hægt að skilja hana sem þekkingarslóða, ef okkur skortir þekkinguna, þá er aðeins myrkur, svefn og þráhyggja. Það er engin ástæða til að örvænta, en við eigum að segja við alla sem nálgast jóga, „Stuðningur þinn er fræðarinn. Fall þitt er áhugaleysi og tvöfeldni í hugsunum.” Sá sem brosir til vina sem óvina fræðarans er óverðugur. Sá sem svíkur fræðarann, jafnvel aðeins með því að hika að tala þegar þörf er á, getur ekki stígið yfir þröskuldinn.

206. Þú fékkst tákn jóga upp í hæðunum. Þú fannst sjálf að hvorki kuldi né hæðin skaðaði heilsu þína. Hvernig getur sá sem ekki hefur yfirunnið kuldann þolað mesta skjálftann? Hvernig er hægt að ræða fjarlæga heima þegar við hræðumst jafnvel hæðir á jörðunni? Hvernig er hægt að ímynda sér frjálsa anda ef minnsta hungurtilfinning er ekki yfirunnin? Fullur magi er merki um uppgjöf, þó aðrar jarðneskar athafnir haldi áfram. Jóga gefur margt sem snýr að kosmískri vitund. Jóga eflir staðbundna strauma og stuðning Okkar í öllum góðum athöfnum.
Skilningur á samstarfi er hin sanna nálgun. Það er mikilvægast að skilja jóga í hagnýtri notkun, til að gefa Okkur möguleika á bregðast við á hagnýtan hátt.

207. Amrita er samsetning fínustu orkugerða. Hvað annað getum við kallað samþjöppun af leit og striti jógans af öllum þeim eiginleikum sem við höfum nefnt? Hver leitarstrit jógans er baðað ótrúlegri samsetningu orkugerða. Köllum þessa samsetningu kringlu. Leitarstrit jógans rís nákvæmlega eins skínandi sólardiskurinn. Enginn athöfn jóga er án tilgangs; annars væri hægt að líkja honum við þann sem gengur á fjall án tilgangs og undrast þegar upp er komið. En jógi framkvæmir og athöfnin sjálf umbreytist í fegurð. Nemar jógans læra að starfa á sama hátt frá byrjun.
Það er sérstaklega mikilvægt fyrir nema að hafa stjórn á sér í fjárveru kennarans. Það gerist oft á slíkum stundum, vegna þess að hugtök kennarans hafa enn ekki skilist, að óviðureigandi framkoma nemans leyfir of mikið frelsi og það lokar leiðinni til Amrita.

208. Meðan braut Agni Jóga er fylgt, vaknar óhjákvæmileg og nákvæm orka. Enginn sem stigur á braut jóga, getur neitað því að líf hans breyttist í grundvallaratriðum. Þættir í líf hans annað hvort efldust eða dró úr þeim, allt eftir eiginleikum sálar hans.
Við segjum við alla, „Takið á móti fullum bikar af Amrita.” En valfrelsið er undir hverjum og einum komið.

209. Farið varlega með vel stillt verkfæri. Það er eins og ljósblys í myrkri. Ef þú truflar það skaðarðu þig sjálfan. Því veginn milli heimanna má aldrei skaða. Leitarstrit jógans skín eins og sól. Vegur hans er ekki auðveldur.

210. Sagt er að jógi hafi ekki neinar langanir, í raun streðar hann á fullu. Löngun er ekki virk, því hún vekur væntingu og hún er rót óvirkninnar. Leitun skapar hins vegar hreyfingu og leiðir til uppgöngu andans. Það er sagt að jógi þekki enga ást; en með sanni er hann fullur samúðar. Fólk lítur aðeins á ást sem bindingu. En samúð bindur ekki, hún er samverkamaður sannleikans.
Sagt er að jógi búi yfir takmarkalausu afli; hins vegar verður hann, eins og samviskusamur garðyrkjumaður í garði tækifæranna, að sinna sínum eigin plöntum.

211. Druid Móðirin gætti fræðslunnar sem henni var falið gegn allri afbökun. Þannig gætir Móðir Agni Jóga fræðsluna frá illgjarnri mistúlkun. Eldbraut sannleikans er erfið og árvekni í þjónustu leyfir engin svik. Sólarsverðið fellur ekki úr hendi né kikna hné fyrir því ósanna. Það verður að skiljast að með fræðslunni fylgir mótun nýs lífs.. Það segir: „Þú hefur heyrt; þú verður að skilja að frá þessari stundu, þá hefur þú samþykkt ábyrgð fyrir allri afbökun!”

212. Fagnið! fagnið! fagnið! Því jógi verður að þekkja visku gleðinnar. Fræðsla hins Blessaða er að gæta gleði andans. Sá sem finnur fyrir tilvist andans, hefur þegar glaðst af dýpt sinni.

213. Það er sérstaklega erfitt fyrir sál sem hefur þroskað með sér nýja möguleika, en vegna ytri aðstæðna, getur ekki tjáð sig. Hægt er að líkja því við lokaðan ketill sem sýður í, í eldi geimsins. Það er þörf á kælandi straumum. Eldur geimsins, sem gerir jafnvel steina rauðglóandi, hefur órjúfanleg tengsl við rásir orkustöðvanna. Þess vegna segir kennarinn jafnvel við bestu jóga, „Varúð!”

214. Kristall úr Materia Lucida er sjaldséður í þeirri stærð sem þú fékkst að sjá. Til þess, þarf sérstakan samruna segulstrauma. Kristallinn sýnist dragast að Steininum. Hann skerpir miðju þriðja augans og þjónar sem geðefni til mótunar á hæstu sviðum. Kristallinn tengist fínni orkutegundum og þeirri orku sem mannkyninu var lofað,—ef mannkynið vill þiggja það. Ljós Materia Lucida er hægt að efla óendalega og mun veita uppljómun, sem án inntöku neinna efna, getur tekið á sig hvaða form sem er. Þetta er áskorun sem hægt er að ná, en fyrst verður mannkynið að vilja það. Án þess, er ekki hægt að veita aðgang að straumum fínni orkutegunda. Afl þessara orku tengist sálrænni orku, sem er eyðileggjandi ef hún er misnotuð. Það verður að hafa í huga, að það er ekki aðeins uppljómun, heldur heilun sem einnig er órjúfanlega tengd Materia Lucida. Það er besta úrræðið til að róa taugarnar, því það byggir brú milli sálrænnar orku mannkynsins og kosmískrar orku, brunns sem aldrei þrýtur.

215. Hver reiður maður er eins og naut. En sá sem slær högg fyrir réttlætið er eins og ljómandi andi. Hvenær mun fólk skilja dásemd þess að verða eins hæstu verur? Ennþá skammast fólk sig fyrir slíka hugsun.

216. Af hverju er það svona mikilvægt, sérstaklega nú á tímum, að beina athyglinni að Agni Jóga. Á hverri öld verður öflug vakning í sálrænni orku hjá mannkyninu, en venjulega fer þetta uppbyggilega skeið fram hjá fólki. Tökum dæmi. Í upphafi nítjándu aldar reis upp rómantísk bylgja, án skilningi á eðli hennar, eða öllu heldur, án hetjuþáttarins. Um miðja sömu öld varð heimurinn niðursokkinn í neikvæða efnishyggju, án þess að rannsaka hina sönnu eiginleika efnisins. Hnignun varð í lok aldarinnar, jafnvel þó endurmat á gildum hafi verið orðið. Byrjun tuttugustu aldar markaðist af stríðum og upplausn þjóða, þó viðurkenning á gildum sálrænnar orku benti til landnáms í öðrum heimum.
Frjáls vilji varpaði þannig ætluðum gildum fyrir róða. Um miðja öldina munu blossa upp merki um nýja, en ómótaðrar orku og aftur mun fólk hlaupa í ranga átt. Þess vegna er tími kominn á tákn hinnar sönnu brautar fyrir þá sem sjá. Gefum þeim tíma til að kynnast því, en munum hve lítill tími er eftir.

217. Flýtið ykkur ekki við að velja nema. Leggið þrjú próf fyrir þá sem koma, svo þeir séu grunlausir. Fyrsta prófið sé um almenna góðvild, annað prófið vera um vörn fyrir nafni fræðarans, það þriðja um að sýna sjálfstæði í athöfnum. Ef einhver sýnir ógn, —hafnið honum. Ef einhver hvísla á hornum—hafnið honum. Ef einhver kvartar um álag—hafnið honum. Ég tala ekki um svikara. Af frammistöðu þeirra, veistu hverjir stóðust. Frjáls vilji tekur til alls og jörðin sjálf er í höndum mannlegs anda.

218. Þegar við tölum um fína orku, verðum við að þekkja merkin um hana í birtingu. Orðið sjálft, fínni, felur í sér að eiginleikar þeirra eru með öðrum hætti en í venjulegri birtingu. Hæsta orkan er minnst áberandi. Það er vitundin sem stjórnar orkukröftum alheimsins. Vitund geimsins gegnsýrir heilann. Þann ferill er ekki hægt að sýna, né hægt að mæla. Rimar hjóls sem snúast á ákveðnum hraða sýnast hreyfingarlausir, en það er aðeins hreyfing andrýmisins sem gefur til kynna hver spennan er. Þannig eru áhrif fínni orkugerða aðeins sýnilega úr fjarlægð. Eins og litlaus ósýnileg lofttegund, en hefur öflug áhrif, þannig er vitundarorkan óáþreifanleg, en í athöfnum sýnir hún sig og birtist í áhrifum á umhverfið. Fínustu sveiflur geislandi efnis eru varla merkjanlegar, en eru engu að síður blindandi í allri birtingu sinni. Sama lögmál sýnir sig í öðrum ferlum. Tökum dæmi af því hvernig hægt er að hafa áhrif á fólk. Hægt er að sannfæra fjöldann strax með ræðu, en áhrifin dvína fljótt. En við getum fullyrt að fyrstu áhrifin voru sterkust. Það er alveg mögulegt að vitund fólks hafi breyst og þruman hafi komið í stað þagnarinnar. Að afl þagnarinnar hafi verið rofið. Þannig eru nýjar og skiljanlegar, en óáþreifanlegar aðstæður skapaðar. Venjulegt fólk tekur aðeins eftir þeim í endanlegri birtingu, en jógi getur sér mótun alls ferilsins. Fyrir jóga er máltækið „ekkert er tilviljun“ aðeins regnbogi þeirra áhrifa sem eru til staðar. Mótunin er lagskipting margra lita og það er mikilvægt að muna það.
Í efnis- sem og í andlegum þáttum forðumst við óbreyttar aðferðir. Einhæf samsetning kemur í veg fyrir ótal möguleika. Birting þess óvænta framkallar nýtt mynstur í viðbrögðum fínni orkugerða. Hvert getur framlag okkar verið til þróunarinnar orðið ef við skiljum ekki hver áhrif fjölbreytileikans geta verið?

219. Hvað er hægt að kalla Agni Jóga? Áreiðanlegur verjanda sannleikans. Fyrir jóga er sannleikur jafn eðlilegur og ljósið af eldinum. Aukna næmni jógans er ekki hægt að lýsa; hún skerpir skilningsvitin fimm og einnig hin sjö skilningsvit geðlíkamans, sem aðeins finnst sem endurómur í efnislíkamanum. Þess vegna eigum við að taka vel eftir tilfinningum Agni Jóga. Þær bera sannleikann eins og ljós frá eldloga.

220. Agni Jóga er ekki aðeins áframhaldandi þróun mannlegra eiginleika; það leiðir hver og einn að jafnvægi við kosmíska eldorku sem nær til plánetu okkar á tilætluðum tíma. Þessi staðreynd verður að vera rétt skilin, því ella mun flæði sjúkdóma dreifast og meðhöndlun þeirra með ytri aðferðum mun aðeins leiða til hörmulegra afleiðinga. Hvernig er hægt að lækna þessa hitasjúkdóma? Nota verður innri eldanna sem sálrænt virkt afl. Hvernig er hægt að lækna sársauka í hryggnum sem orsakast af vöknun Kundalini? Sá sem veit fagnar sársaukanum en léttir hann með því að nudda með myntu. Hvernig er hægt að stöðva bruna þriðja augans þegar það byrjar að vakna? Er ekki skynsamlegra að hjálpa þróun þess með því að skýla því frá sólinni? Til forna hnýtti fólk hár sitt í hnút á hvirfli til að vernda þessa þessa orkustöð. Er hægt að stöðva solar plexus þegar hún byrjar að snúast? Öll þvingun sólarsnáksins getur leitt til heilaskemmda. Jafn hættulegar eru allar truflanir á virkni aflstöðvar Kaleiksins. Öll fíkniefni, eins og ópíum, stöðva hreyfingu orkustöðvanna; en þá, væri afhöfðun jafnvel einfaldari! Hægt er að sjá fyrir sér þá ringulreið sem verður af þessum óskýranlegu hreyfingu orkustöðvanna ef við sjáum þær ekki sem sálræna orku.
Eins skrítið og það er, getur rannsókn á líkamlegum áhrifum af pirringi, leitt til skilnings á uppsöfnun sálrænnar orku. Hægt er að sjá ferill pirrings í hvaða taugabraut sem er. En þá er einnig hægt að taka eftir, að umhverfis úrfellingu þessa eitruðu nöðru, safnast annað efni sem eyðir því—uppsöfnun sálrænnar orku finnst hér einnig, því öll orka hefur sína efnislegu kristala.
Hver sem hefur séð kristala Fohat og Materia Lucida vita að kristalar, jafnvel fínustu orku, eru sýnilegir. Hin rétta rannsóknarleið á að vera á hvorutveggja, efnislega sviðið og á hina ósýnilegu sammettuðu orku umhverfis okkur. Aðferðir þróunarheimsspekinnar hafa ekki skilað merkjanlegum árangri og Gullgerðarmennirnir hvíla í gröfum sínum. En efnafræðin mun uppgötva áþreifanleikann þegar hún nær sönnum skilningi á sálrænni orku og hvernig eldurinn tengir allt. Ég met það svo að það sé nauðsynlegt að Við einfaldlega opnum á tækifærin, því ekki má skerða frjálsan viljann. Hver sem vill, mun skilja! Nákvæmar formúlur má aldrei gefa.
Það verður að vera rúm fyrir frjálsan vilja.

221. Uppsöfnun pirrings hefur þú séð. Það er nákvæmlega það eitur sem veldur miklum vandræðum hjá fólki. Gleymum ekki að jafnvel dropi pirrings jafnast á við hina mestu heimsku. Munum að pirringur er ekki aðeins innan með fólki, heldur gufar út og smitar umhverfið, en hreinleika þess erum við öll ábyrg fyrir.

222. Frjáls vilji er túlkaður með ýmsum hætti. Einn sér það sem frjálsræði, annar sér það sem óábyrgð, sá þriðji sér það sem brjálæði egósins. Aðeins sá sem gengið hefur í gegnum aga andans, skilur hve strangt frelsið er í raun. Misnotkun frelsis er veisla fáfræðinnar. Fólk getur ekki samsamað sig við þekkingu Stigveldisins, né getur það virt aga viljans. En er eitthvað jóga mögulegt sem er án ábyrgðar á eigin vilja? Hver jógi heldur sverði sínu yfir hjarta sínu; í þeim anda er hann ábyrgur fyrir öllu viljaverki sínu. Afleiðingar af vilja jóga geta verið mjög alvarlegar, en hann hefur valið það meðvitað. Við getum því séð að jógi er óþreytandi baráttumaður sem ávallt er á verði.
Hver sem er viss um vilja sinn—megi hann ganga inn!

223. Klær hræða ekki, öskur hræða ekki, dýr eru óhrædd, tilbúin að þjóna þér. Nákvæmlega þannig breytast hættur í logablóma á vegi jóga. Þegar Ég ráðlegg þér að varðveita uppsafnaða reynslu, á Ég aðeins við brynju andlegs styrk þíns. Við fordæmum sóun. Hver uppsöfnun er skref að frelsi. En hver er takmörkun uppsöfnunar? Af innri þekkingu og reynslu mun fræðarinn staðfesta hvað sé mögulegt. Jógi getur gert allt, en ekki er allt rétt fyrir hann. Hvar eru þá mörkin? Ábyrgð jógans er hin andlega uppsöfnun hans, því það eru hans einu verðmæti. Annað eru einungis varnir stríðsmannsins sem hann skilar til foringja síns eftir orrustuna. Á þessu er engin vafi. „Drottinn, taka vopn mín, skjöld og orð mín. Hversu þungur er hjálmur minn nú, sem í orrustunni var léttur sem fjöður! Ökklabönd hefta mig og hanskar mínir eins og hlekkir á höndum mínum.”
Foringi hans svarar, „ Hvert vopn er ætlað fyrir tiltekna orrustu. Leggðu þeim sem þú hefur notað. Þeim verður fengin þeim sem stefna að þínu andlega stigi.
Hver orrusta hefur vopn við hæfi. Sverð þitt er nú of stutt fyrir þig og þess vegna gef Ég þér spjót ljóss og langdrægar örvar.
”Hver sem hefur mætt óvini sínum í sverðslengd veit hvernig á að skjóta sigursörvum.En margur stríðsmaðurinn veit ekki hvaða vopn eru við hæfi í hverri orrustu og tapar því áður en óvinurinn ræðst til atlögu. Sá sem lætur undan árás óvinarins vegna andvaraleysis nýtur einskins heiðurs. Þessi regla í baráttu tekur til allra jóga.

224. Þegar fínni líkami jóga hefur frelsast, heimsækir hann mismunandi tilvistarsvið. Flug um geiminn eða köfun í djúp plánetunnar. Rannsókn á náttúruhamförum mun veita skilning á lagskiptingu lífsins. Hægt er að sjá á steingervingum dýra hvernig þau hafa lent í aurflæði. Með því að fara í gegnum neðanjarðargöng getur jógi séð hversu mikið mótun jarðarinnar hefur breyst.
Þannig verður andi jóga var við hvernig aðstæður voru áður fyrr, og þá verður ekkert lengur fyrir honum stöðugt eða fullmótað. Slík uppgötvun er þörf fyrir ferill andans. Þráin fyrir fullkomnun kemur við skilning á ófullkomnun.

225. Það eru misstök að að hugsa sér að vöxt vitundar sé hægt að ná með upphafningu þess yfirnáttúrulega. Sem í efra, svo í neðra: er vinna og reynsla alstaðar. Vitundin nærir vöxt fínni líkamans. Jafnvel minnsta tilfinning bætir í mótun fína líkamans. Það er þetta sem fólki yfirsést. Fólk vill halda að ein mikil athöfn geti vegið upp margar smærri lítilsverðar athafnir. En hver getur sagt um hvað sé lítið eða mikið? Allar athafnir jóga taka öll smáatriði inn í myndina.
Hægt er að sjá skýrar athuganir og nákvæmni í öllum athöfnum jóga. Engir fordómar né óþarfi leyfist í athöfnum hans. Hann gengur eins og ljón. Ekkert hik er í athöfnum hans, hann ræðst ekki að því sem er lítilsvert. Allir verða að meta hverja sína athöfn. Ekki á að fresta til morguns að sá í nýjan garð; aðeins strax og án hiks styrkjum við vöxt vitundarinnar. Garðyrkjumaðurinn hugar að hverri nýrri rót í garði sínum.
Hver nýr þráður vitundarinnar er einnig þráður til fjarlægra heima.

226. Verk jógans eru mótuð af nákvæmni eins og hjá steinsmið eða gullsmið. Hann hefur sannarlega eiginleika gullsmiðsins í að hanna fínni og margflókin verk. Með svipuðum hætti sér hann merki um mannlegar tilhneigingar sem aðrir sjá ekki. Hann stefnir að því sem venjulega er ósýnilegt og lærir að vega og meta raunverulegar ástæður atburða. Jógi öðlast reynslu við árvekni. Getur jógi sagt sig alveg frá lífinu? Hann er svo nærri andlegri fullkomnun að hann þolir jafnvel ekki venjulegt tilvistarform. Jógi U., sem þú þekkir, varð að þessari ástæðu, að taka á sig sérstakt tilvistarform.
Tilgangurinn var þjónusta við mannkynið og niðurstaða rannsóknar okkar á þéttingu fínni líkamans. Ég tek þetta dæmi til að sýna að alstaðar er þörf fyrir athafnir persónuvitundar.
Óreiðubirting fínni heimsins hindrar mannkynið í að halda áfram til fullkomnunar. En óreiða hans er sköpuð í efnisheiminum; þess vegna verður heilun hans að koma frá efnisheiminum. Þess vegna leiðir rannsókn jóga ekki aðeins til sjálfsbetrunar heldur einnig til betrunar finni heimsins. Með vitundarlegri breytingu á líkama sínum nær hann meira afli í athafnir andans. Hann styttir hvíld á milli jarðvista, jafnvel í þeim hvíldum beitir hann hugsunum sínum að verðugum athöfnum. Með stöðugri vinnu sameinar hann þannig þessa aðskildu heima og staðfestir tilvist alls sem er.

227. Hver kosmísk fullnusta felur í sér mögulega hættu af völdum kæruleysis. Fólk getur náð tökum á nýrri orkugerðum, en ef þau eru veik í andanum, eykst hætta á andsetningu. Vandamál við andsetningu ætti að nálgast vísindalega. Tveir tilvistarþættir koma þar að. Fyrsti—áframhald lífsins gegnum mismunandi ástand. Annað—viljaáhrif eins á annan. Verur í fínni líkömum á mismunandi sviðum geta beint hugsunum til annarra á jörðinni. En þessi óuppgötvaða orka getur nýst til að sameina heimanna. En að tengjast því æðra opnar einnig tengingu til þess lægra. Þú veist nú þegar hversu mjög lægri andar reyna mikið til að tengjast í jarðnesk áhrif. Þess vegna ætti að hvetja fólk að vera staðfast í viljanum, því andsetning er óæskilegasta ástandið. Aðeins aðkoma þriðja vilja, hreins og ákveðins, getur eytt þessari misnotkun á lögmálinu, sem hefur áhrif á fólk án tillit til aldurs eða stöðu.
Það er skylda lækna að fylgjast með þeim veiku, eftir einkennum andsetningar óþekkts vilja. Ef læknirinn sjálfur er nægilega hreinn og óhræddur að kalla þennan óvelkomna gest til, kann hann að beita sínum eigin vilja. En þó sá óvelkomni hverfi á braut er það ekki nægilegt til endanlegrar lækningar; því í þúsund daga er hættan til staðar og sá veiki verður að gæta hugsana sinna mjög vel. Læknar eiga að hafa varann á þessu. Mikill er fjöldi þeirra sem vilja setja á fólk sínar spilltustu hugsanir. En til að bjarga þeim sem er í hættu er nóg að hafa viljamátt og finna skipunartóninn. Það er skylda jóga að eyða skaðlegum áhrif.

228. Opnar orkustöðvar eru farvegir fyrir kosmíska þróun, en miðlar eru eins og stýrislausir bátar. Allt mannkynið verður að fara í gegnum þróunarbrautir til fullkomnunar. Lokaðar orkustöðvar halda aftur af fólki. Opnar orkustöðvar eru merki um réttan þroska, en miðilshæfileikum fylgir hætta. Miðill er eins og bú fyrir framliðna lygara.

229. Með því að nota segulmagn í mikilli hæð og opnar orkustöðvar systir Urusvati, gátum Við rannsakað í henni kristala Fohat og Materia Lucida, uppsöfnun pirrings og útgeislun andlegrar orku. Ef slík útgeislun væri sýnileg, þá væri fyrir hendi raunverulegt efni og það er hægt að þétta hana í nýja mikilvæga orku.
Það er nákvæmlega gegnum reynsluaðferðir rannsókna sem náð er tökum á nýjum orkugerðum. Með eigin eðlilegri útgeislun getur fólk skapað nýjan orkuforða. Orka sem dreifð er um geiminn er hægt að ná tökum á. Þess vegna er nauðsynlegt að veita þroska sálrænnar orku athygli. Þess vegna er þörf fyrir þekkingarstað hátt í fjöllunum.

230. Það er nauðsynlegt að rannsaka tilfelli sem kölluð er skiptur persónuleiki. Það er versta form andsetningar. Í besta falli er þetta endurlifun fyrri jarðvistar. Stundum er sálin svo tengd fyrri jarðvistum að hún endurlifir hana. Það er nauðsynlegt að gaumgæfa persónu í slíku tilfelli, sem snertir ekki vitund núverandi jarðvistar. Ekki ætti að trufla hann með spurningum. En hér getur jógi komið að gagni. Hann getur gefið skipun um að snerta ekki fortíðina. Þið takið eftir að Við ræðum ekki liðnar jarðvistir, nema það er algjörlega nauðsynlegt, til að vekja ekki upp áhrif hins liðna frá Akasha.

231. Engin á að tæla aðra inn í eigin garð eins og miðasölumaður sirkuss. Jafnvel hinir miklu fræðarar ofgerðu stundum umbreytingu Kaleiksins, þegar þeir héldu að fræðslan hefði ekki verið send. En hver fræðsla er sett fram á réttum tíma. Hún mettar geiminn og dreifir áhrifum sínum í óvæntar áttir. Við sjáum að mikið af því sem opinberlega er haldið fram, hverfur fljótt í fyrstu öldu ringulreiðar. En á hinn bóginn er ótrúlegt að sjá vöxtinn sem sem fylgir í kjölfar þessa hljóðu ósýnilegu sáningu.
Oft er misskilinni bók hent, en síðar finnur hún sína réttu hillu og athygli. Einnig eykur bókabrenna áhrif bókar. Það eru ekki ofsóknir sem við eigum að óttast, heldur vinsældirnar. Þetta þarf að endurtaka æ ofan í æ, því fólk hlustar um of á almenningsálitið og skilur ekki tilgangsleysi hópsöfnunar. Jógi veit hvernig á að dreifa orðum fræðslunnar sparlega og skynsamlega. Að útvarpa öllu til allra er að smita sjálfan geiminn ógæfu. Megi fá en sterk tré bera framtíðarskóginn.
Illgresisþykkni kæfir allt og hýsir skaðsamar verur. Í allri náttúrubirtingu er hægt að sjá vöxt hærri lífvera. Skilningur og hugarþroski einkenna hærri lífverur. Hugsanabrot eru ekki mikilvæg heldur stöðug og nákvæm hugsun getur, eins og tré, verið styrk stoð fræðslunnar.

232. Hver vill þiggja góða leiðsögn? Sá sem hefur skilið við þægindi lífsins. Hverjum er hægt að gefa vopn í orrustuna? Þeim sem ekki yfirgefa orrustuvöllinn.

233. Ekki á að leita langt yfir skammt. Mikill óbætanlegur skaði fyrir mannkynið er af ákafri leit með göldrum! Í stað þess að bæta eigin vitund, takmarka leitendur sig við endurteknar formúlur annarra, án nokkurrar vitneskju um merkingu, né takt þeirra. Hvað er eins óeðlilegt fyrir þróunina eins og hrollvekjandi galdraþulur?
Geðheimurinn hefur verið aðskilinn efnisheiminum, mest vegna galdraleiðanna. Andsetning er oft niðurstaða galdraákalla. Spíritismi er rekkjunautur galdranna. Galdraþulurnar sem hafa verið gefnar út eru vísvitandi afbakaðar. Í þær vantar nokkuð sem geymt er fyrir munnlega framsetningu. Að sjálfsögðu er jógi algjör andstæða galdramanns. Galdramaður er háður ömurlegum þulum. Jóginn anda stöðugt að sér nýjum andardrætti Kosmosins. Annar er aldraður við fæðingu, hinn er ávallt ungur í gegnum allra breytingar í lífi hans. Annar reynir að skaða með orðum annarra en ekki sínum eigin; hinn notar sína frjálsu hugsun. Annar ver sig með ömurlegum potum, hinn er aðeins varinn með augntilliti sínu.
Jóga á ekkert sameiginlegt með göldrum.

234. Þú hefur séð hvernig straumur verður að öflugri iðu við að taka við öðrum straumum, fara í gegnum fossa og gil og safnast í einn straum. Þannig er jógi, það er engin skilgreining á þekkingarstraumi góðs og ills. Þekkingarstraumur samanstendur af öllum tegundum þekkingar, sem er fyrir alla.
Hver og einn á að vera opinn fyrir alls kyns þekkingu. Er einhver þekking sem er neðan okkar virðingar? Hvernig getum við treyst sjálfum okkur ef við höfnum upplýsingum sem kunna að koma að notum?

235. Það er rétt athugað að ákveðinn sársauki er kallaður heilagur. Gegnum hann stígur andinn og engin önnur leið er til. Við vitum ekki um neitt tilfelli þar sem vitundin gat stigið án líkamslegs sársauka.
Við verður að gaumgæfa hverja birtingu, því á hverri stundu getum við vænst hæstu orkusendingu.

236. Við verðum að vita, í öllum skilningi, hvernig traust eykur möguleika hvers og eins. En hverskonar traust er best? Og hvaða efi er verstur? Innra traustið sem þarfnast engra orða er best. Reikandi efinn er verstur. Það er ekki gin efans sem þarf að hræðast mest, því með aðeins einni athöfn er hægt að eyða honum. En smáormabæli efans þarfnast lengri viðureignar.
Mesta traustið er ekki hægt að höggva í, hvorki með orðum né hugsunum. Það er betra að innbyrða sterkasta eitur fremur en að festast í efasýki. Sá sem er varinn trausti, þarf enga aðra vörn.

237. Til að ná til fræðarans er aðeins ein leið—að ganga án þess að líta aftur. Allar hugsanir um misstök eru ósigur. Sá sem veit stefnu sína er eins og örninn sem flýgur yfir hyldýpinu. Þú veist um segulmögnun kringumstæðna.

238. Það er Karma, hið þreytandi eftirköst fyrri jarðvista, sem færir okkur oft miður góða samferðamenn. Þegar hver samfundur er yfirstaðinn, kemur léttir eins og við lán á eign er skilað. Ekki minna en helmingur jarðneskra samfunda er vegna liðinna jarðvista, eins og korkur sem dregst að öðrum í raforkusviði.
Heildaráhrif karma dregur saman mörg flókin svið og tengsl. Til að leysa þau er betra að gefa en að þiggja; því hver greiðsla ákvarðar liðna skuld, en gjöf bindur nýja.

239. Hver og einn verður að venja sig við þá að hugsun að ekkert sem er nothæft tapast aldrei. Einnig að venja sig við að margar hættur umliggja hvern og einn. Að venja sig við að vitneskja er byrði. Budda kenndi syni sínum að halda í gleðina, því það er erfiðasta verkefnið á jörðunni.
Það er betra að þjást með byrði vitneskjunnar en að vera einangraður frá veruleikanum.

240. Við verðum að skoða allar hugmyndir um dauðann. Fyrir utan sjálfsmorðin, er einhver ávinningur af langlífi í einni jarðvist ef lífið er tileinkað vinnu? Nei það er betra að skipta tímanum í nokkur reynslulíf. Nýting orkunnar er grundvallarþáttur alheimsins. Að ganga inn í nýtt hús fullt af fersku lofti, er að opna fyrir tækifæri fyrir nýja reynslu.
Ein skylda jóga er að eyða hinni miklu hræðslu við dauðann. Sumir geta hörfað inn í slíka takmörkun, að flytja til næsta bæjar verður að stórviðburði. Verra ef hræðsla við að fara á milli herbergja eða jafnvel breyta um klæðnað veldur vandræðum. Fólk sem hræðist breytingar hræðist dauðann mest af öllum. Þau óttast að hugsa um það og sjá núverandi aðstæður sem endanlegar. Jafnvel húðin endurnýjast stöðugt, en samt köllum við ekki út grafarmenn til að grafa húðflögurnar. Því drögum við ekki hliðstæður frá smáríkinu til stórríkisins og minnumst hvað var sagt í Bhagavad-Gita um ódauðleika andans?

241. Getur jógi fundið fyrir þreytu? Að sjálfsögðu; hann getur einnig orðið veikur. En hann veit að þá verður hann að safna nýrri orku. Hann veit hvar of mikilli orku var eytt og mun, á þess að missa jafnvægið nota valerian og mjólk.
Það er gleðilegt að vita að líkaminn getur endurnýjað orku sína eins og þörf er á. Liðin þreyta er hamingja fyrir framtíðina.
Ný og endurnýjuð orka yfirvinnur ávallt hið liðna. Það þýðir að þreytan er vinur okkar. Því hinn vísi ormur varpar af sér hamnum. Hann veit að farsæld þessarar endurnýjunar byggist á hvíld og gerir ekki árás meðan hin nýja vex. Þess vegna þarf maður sem veit hvað hann þarf að hvíla, gera það og beita öðrum orkustöðvum til starfa.

242. Það er sárt að hugsa til þess að aðeins fáir hafa löngun til að gefa allt, gefa til umhverfisins, gefa ósýnilega heiminum og gefa sannarlega vitneskju til þeirra sem þeir jafnvel þekkja ekki. Fyrir þessa fáu leiðir slík umhyggja til nýs hugsunargangs. Tilveran er ekki auðveld. Fyrir blinda sál er það ókleifur múr.
Þegar vegurinn leiðir frá borgarstrætunum, getur hjartað náð sér af áhrifum eiturefnanna. Ella er óútreiknanlega erfitt að aðlaga hið jarðneska hinu eilíflega.

243. Allur veruleikinn er byggður á lögmálum umhverfisins. Upphaf veiklunar og bata er oft ógreinalegt. Oft er upphafsstund fyrirbrigða aðeins greinanleg við stöðuga athugun, því hver lögmálabundin athöfn er upphaf margra annarra lögmála sem eiga rætur sínar á sviði fínustu orkugerða.

244. „Þeim sem liggja í gröfunum, gef ég líf“ Þetta er skýrasta staðfestingin á endurfæðingu og áframhaldandi tilveru.

245. Af hverju er jörðin svona veik? Vegna þess að geislar stjarnanna ná ekki í gegnum mengaða áru hennar. Hvað mun maðurinn verða ef hann hættir samskiptum við hærri vitundir og sekkur niður í fáfræði? Frá því mesta í heimunum til þess minnsta, er lögmálið eitt. Við að missa vitneskjuna um hina miklu heima, hefur fólk misst skilninginn á fullkomnun.
Hinir miklu heimar eru orðnir fáránlegir ímyndarheimar í augum þeirra og því er sókn eftir fullkomnun óþarfi og jafnvel hættuleg dægrastytting. Að þræla fyrir daglaunum, þráir fólk allt til loka. Trúarbrögðin hafa hrætt manninn með kenningunni um lokadóminn og hafa þannig svipt þau hugrekkinu.
Hver sem játast blindandi undir ríkistrú er eins og asninn sem skjögrar undan byrðunum sem settar eru á hann. Getur einhver samþykkt trúarbrögð sem fyrirskipuð eru með lögregluvaldi? Getur einhver samþykkt trú vegna ákvarðanna ókunnra sem taka greiðslu fyrir að tala við himininn? Þess vegna er ábyrgð jóga mikil frammi fyrir ríkistrúnni.
Óhræddur, óþreytandi rannsakandi, verður jógi að hjálpa mannkyninu að muna eftir lögmáli Einingar. Eins og blikandi sverð eru hugsanir jóga eins og eldingar gegnum loftið. Tilbúinn að laga samneytið, reiðubúinn til afreka, reiðubúinn fyrir bannfæringu hinna fávísu, jóginn hvetur manninn að íhuga ástæður lífs síns. Með því munu eiginleikar hans í störfum og námi breytast.
Vitandi um möguleikanna sem búa í hverjum manni, hver mun ekki hugsanlega þora? Mun ekki sigurkórónan tilheyra þeim sem kennir manninum hugrekki? Án þess mun höfuð fólks, eins og svínanna, verða áfram límt við úrganginn sem fellur til jarðar.

246. Núverandi mannkyn hefur brenglast á margan hátt. Fólk nú á dögum vill sjá og ákvarða allt sjálft. Það er aðdáunarvert, en getur leitt til einskis og eftir að hafa séð það með eigin augum, snýr fólk aftur, ónæmt, til fyrri hátta. Jafnvel mikil reynsla skilur engin spor eftir í þeirra daglega lífi. Það er furðulegt að sjá fólk, sem lítur á sig sem vísindamenn, yfirsjást mjög gagnleg fyrirbrigði. Fyrir þeim eru allar uppgötvanir síðustu hundrað árin, enn kenningar.
Hvaðan kemur þessi ósveigjanleiki hugsunar inn í mannkyn okkar? Slíkur ferill er einkenni lokaorða hvers jarðarkyns. Þetta er gamli tíminn, þetta eru endalok, þetta er afneitun þróunar. Því mæli Ég stöðugt með hinum fáu, án tillits til samfélagsstöðu.
Jafn brengluð er spurningin um aðstoð og gæði starfa. Fólk þráir aðeins hjálp sem mætir þeirra eigin þörfum og þeir sem eru að yfirgefa stað hugsa ekkert um gæði starfa sinna. Megi að minnsta kosti fáir taka á sig einhverja ábyrgð. Því í gegnum ábyrgð fáum við sveigjanleika hugsunar.

247. Breytingum á tungumáli fögnum Við. Slíkar breytingar, auka sveigjanleika og merkingu málsins. Aldirnar safna upp venjum og steingera hugsunina. En náttúruhamfarir og byltingar færa óvæntar hugmyndir og ný orð. Gamlar tjáningar missa merkingu og gleymast og með þeim fornir siðir.
Það er ekki tjáningin í textanum, heldur hvernig hann er skilinn sem er sérstaklega hættulegt. Sem dæmi, ef ég segi, „Kringumstæður skapa niðurstöðuna,“ fólk skilur þetta sínum skilningi að það þýði að kringumstæður séu hagstæðar. En skilningur á niðurstöðu verður að vera víðtækari en aðeins góður eða vondur. Niðurstaða hönnunar byggir ekki á samræmingu lita, heldur á öllum þáttum andstæðna.
Það er jafn erfitt fyrir fólk að skilja afstæði góðs og ills. Hvorutveggja kemur aðeins í ljós við birtingu andstæðu sinnar.
Skilningur á öflugri hreyfingu fínni líkamanna, óbundnum og ávallt nýjum, ætti að hjálpa fólki að skilja stöðugt flæði lífsins. Þannig er hver stund lífsins hreyfanleiki og tengingu við hið liðna og óhjákvæmilega framtíð.
Andi sem leitar til framtíðar íþyngir sér ekki með tötrum fortíðar. Hann leitar leiða til að tjá nýuppgötvuð hugtök og brýtur niður orðamúra. Fyrr er hægt að fyrirgefa misheppnaðri tilraun, en að samþykkja harða skel hefða forfeðranna.
Það er með hreyfingu sem við komumst yfir sjónarrönd hugmyndanna sem tengjast kringumstæðum fæðingar. Líkamleg erfðaröð er algerlega önnur en andans. Því hjálpar viljinn til við að breyta ytri formum við leitun andans.
Allir fræðarar benda á tímabundna eiginleika hluta til að kenna mikilvægi hreyfanleika. Enga afneitun, heldur skynsamleg not hlutanna er gefinn til kynna.

248. Hæfileikinn til að sjá rétta merkingu orða liggur í eiginleika innri orkustöðvanna, ekki í greiningu á uppbyggingu málsfars. Setjið fram einfalda hugmynd fram fyrir þúsundir manna til umræðu og þú gætir fengið eina rétta merkingu. Hver og einn á að þjálfa sig í réttum málfarsskilningi. Jóga mun hjálpa til að nálgast réttan skilning á hugsun.
Skilningur á mismunandi tungumálum á uppruna sinn í móttöku einnar orkustöðvar—barkakýlinu.
Það er gagnlegt að lesa fyrir börn í skólum texta á tungumálum sem börnunum eru ókunn, og athuga hvernig ókunnugt mál er skilið. Hendur laga sig að þekktum hlutum. Vitundin lagar sig auðveldlega að kunnuglegum hljóðum úr fortíðinni. Hve margar gagnlegar athuganir kunna að vera gerðar! Jóga kennir stöðugt gleðilega árvekni.

249. Efnislegir hlutir geta verið verðmætir, en hættan er á að of mikið sé af þeim. Skaðlegustu hugsanir verða til þegar við erum umkringd óþörfum hlutum. Þrætugjarnar hugmyndir um not og skiptingu hlutanna teygja sig eins og snörur. Söfnun þess liðna framlengir þjáningarnar. Nýjar leiðir í framleiðslu geta framkallað óvænta strauma í hugsun.
Þegar við eigum við hluti, ættum við ekki að meðhöndla þá á mismunandi hátt. Gæði og merking hversdagslegra hluta í þróuninni eru mikilvægir þættir sem á að íhuga. Sannarlega þarf nýtt hús nothæfa nýja hluti, en að finna þá er næsta ómögulegt. Því þarf að beina mannlegri hugsun í leit að nýjum lausnum. Hinsvegar þarf við byggingu í nýju umhverfi, skilning á réttri átt í eigin lífi. En hvernig getur fólk hugsað um umbreytingu lífsins þegar þau halda áfram í gegnum lífið eins og dýr, með enga hugmynd um fortíð né framtíð?
Settu fram spurningu um tilgang lífsins og þú færð aðeins innantóm svör. Meðan umhverfið öskrar á orku og ákvarðanir, heldur fjöldin áfram að endurmóta gömlu aðferðirnar. Sem dæmi þá hafa samningar fært mannkynið í núverandi hörmungar og enn nýir samningar verið gerðir á þessum ónýtu textum. Ný klæði halda áfram að vera sniðin úr ónothæfum afgöngum.
Það er hörmulegt að sjá hvernig íbúar jarðarinnar hafa teppt sína eigin leið. Það eru ekki bænir heldur ákveðin vinna sem þarf. Þetta verður að endurtaka aftur og aftur. Þessir tímar gefa möguleika nú þegar. Eru möguleikar á því að „kaupmenn“ nái því ekki?
Jógi kemur fram á réttum tíma og bendir á að hamingjan er innan seilingar. Jógi getur byggt upp lífið og hann veit hvað eru sönn verðmæti og þekkir samþættingu. Lífið sjálft færir upp á yfirborðið mikla þörf fyrir Jóga lífsins. Að öðrum kosti, hvernig og með hvaða táknum mun fólk ákvarða hver sé rétt leið í leit sinni?

250. Ef atburður á ákvörðuðum tíma er óhjákvæmilegur, eru allar kringumstæður gagnlegar; eldur lýsir veginn; þruma vekur á réttri stundu; regnið skolar eðjunni af veginum. Það eru engar aðrar birtingar. Geislar okkar gefa til kynna bugður á veginum og þekja hann með öryggishjúp. Ef við vörum við þrengingum í undirgöngum, veitum Við þér vitneskju. Aðeins þegar breytingar á leiðinni eru nauðsynlegar, biðjum Við þig að bíða og sendum nýjar leiðbeiningar. Stundum er betra að ganga kringum fjall en að þreytast í klifri brattra kletta.
Við afneitum engu, því það sem er í tilvist er ekki hægt að afneita. Það verður að skiljast. Þá er ekki hægt að syrgja né örvænta —aðeins aðstoða.
Við þekkjum allt sem vex á engjum Okkar; Við metum alla eiginleika þeirra og þess vegna köllum Við ekki neitt þeirra illgresi. Hvert þeirra er skaðlegt þegar þeim er ranglega beitt; hvert þeirra er gagnlegt á réttum tíma.

251. Um hvað erum Við að tala? Um gæði hollustunnar og árvekni—hæfileikann til að sjá skýrt. Hollustu—óendanleg, ósigrandi, skapandi, prýðir leiðina. Árvekni—alsjáandi, algáð, óþreytandi, eflir þolgæðið. Eru margir sem geta tileinkað sér bæði hollustu og árvekni? Hvar munu hinir hollu og óséðu koma? Á að gæta augu þeirra sem sjá, en eru svikarar? Þeim sem eru hollir, er hægt að treysta fyrir öllum plöntum. Þeim sem sjá, er hægt að sýna öll blóm.
Hollusta er lítilsmetin.
Fólk er fljótt að sýna óánægju. Listi þeirra sem er Okkur hollur er ekki langur. Fagnið hverjum votti hollustu. En sönn hollusta sýnir sig aðeins í erfiðleikum. Hæfileikinn til að sjá er aðeins hægt að reyna í þokumistri. Vörn okkar felst einfaldlega í skilningi á hollustu. Fólk skilur hollustu sem kærleik, að vera viðbúinn og að vera einlæg. Þessir þættir hollustu eru aðeins meðaumkunarbros, en sönn hollusta geislar, eins og stríðsmaður reiðubúinn til orrustu.
Talið oft um hollustu og lofið árvekni. Fólk þarfnast staðfestinga.

252. Hver ímyndun getur orðið raunveruleg, því í henni býr veruleikaþrá sem hægt er að stækka og sýna. Ímyndanir ætti að líta á sem eldflugur. Hver vill slökkva á ljósgjafa?
Vitið hvernig á að eyða myrkri hræsninnar, en látið hvert lauf einlægni lifa.

253.Fegurð framtíðar og blómgun andagiftar er eins og morgunljós. En öll fegrun fortíðar er grafarkrans. Sá sem staðfestir afl framtíðarinnar er stríðsmaður Okkar. Afl hans er margfaldað af fjársjóðum framtíðar. Alveg eins og að stund þolraunar er eins og hvirfilvindur, það að líta til baka er aðeins hnignun.
Alla fortíð verður að brenna burt í jóga Eldsins.

254. Þolraun flestra hefur lítið að gera með sálræna orku. Ákveðnir þættir hennar eru algerlega horfnir úr vitund þeirra. Það er mjög erfitt fyrir mannkynið að skilja óendanleika orku og eiginleika hennar til sjálfstæðra athafna.
Fólk skynjar orku í tengslum við líkamlegar athafnir, en ekki nema að litlu leyti það sem er miklu merkilegra—að sálræn orka getur starfað sjálfstætt í mikilli fjarlægð. Eins og byssukúla hefur sína eigin áhrif eftir að henni hafa verið hleypt af, þannig getur orka okkar skapað algjörlega sjálfstæð og langvinn áhrif. Að sjálfsögðu eru áhrifin komin undir orkuforðanum. Allir geta sent orku meðvitað, en einnig ómeðvitað ef henni beint oft í sömu átt. Þegar orkukúla er send langt, er hægt að finna fyrir tímabundinni þreytu. En sá sem veit að það getur gerst, bregður ekki við það. Hann mun aftur á móti efla sendinguna meðvitað.
Þú hefur heyrt sögusögnina um hvirfilský ofan við staði sem hafa sérstaka merkingu. Þetta byggir á sömu hugmynd og um hreyfingu orku. Hreyfing orkunnar kann að vera svo öflug að hún skaðar efnislega birtingu, því samruni orku við frumefnin framkallar óvenjuleg fyrirbrigði.
Meðan á miklum athöfnum stendur skilur þessi orka sig frá uppruna sínum og þá má búast við ákveðinni þreytu, en líta verður á það sem eðlilega afleiðingu af því að gefa úr sjóði sínum.
Þessi aðskilda orka verður strax virk í flestum kringumstæðum. Að sjálfsögðu laðast öll ný form að vitundum sem eru móttækileg fyrir þeim. Sendingarnar dreifast sem hjálp, sem gefur hugrekki, árvekni og úrræði. Hvorki sendandi né móttakandi gruna hvað hafi gerst. Deilanleiki andans gerir þessar orkusendingar mögulegar. Orkan vinnur gegnum sendinguna og sendandinn verður þreyttur en afslappaður. Hve mörgum slíkum sendingum er dreift út í loftið! Munu ekki sumar þeirra leggja grundvöllinn að nýjum heimum?

255. Þegar þú kveikir á blysi í myrkri þá sópast að því margskonar skordýr. Þegar þú birtir sálræna orku, þá mótast strax margir nýir möguleikar, smærri sem miklir, nærtækir sem fjarlægir. Sálræn orka er sannarlega segull. Margir munu undrast að sama orka er að baki málmsegli og andlegum segli. Þessari grundvallarorka vitundarinnar er miðlað af umliggjandi frumþætti eldsins. Stundum er óskiljanlegt hvernig hann vinnur, stundum á kosmísku þrepi eða hjá þeim sem hafa þroskaða vitund, en hvort sem er, þarfnast niðurstaðan engra djúpra skoðana.
Þannig tengjast ólíklegustu svið náttúrunnar hinni einu uppsprettu. Það ætti ekki að vera neinum óskiljanlegt að í hinu mikla orkusviði alheimsins, hafi hluti þess áhrif á orkustöðvar mannsins með óþekktum hætti og sameini þannig mismunandi ríki náttúrunnar. Þannig tengist steinaríkið mannlegri vitund. Vísindin í dag geta að sjálfsögðu ekki útskýrt að fullu eðli seguls. Vitundabylgjur, eins og öldur hafsins, eru sköpunarmyndir. Segulbylgjur í lifandi verum eru lítið rannsakaðar. En massahugsun mannkynsins er þekkt.
Eins og smit frá óséðum uppruna, breiðist út samkynja hugsun. Einhver öfl safna þeim saman, deila þeim og magna. Þeir sem settu segul yfir höfuð sitt til að dýpka vitund sína, náðu flís úr hinni Miklu Þekkingu. Þannig safnast segulbylgjur frá ýmsum sviðum og styrktu sálrænan orkusjóð. Hver og einn getur raunverulega sameinað strauma og áhrifa í endurnýjun vitundarinnar. Til þess þarf fyrst og fremst að vera með opinn huga. Það er það fyrsta sem þarf í þroska vitundarinnar.

256. Vörður hinna Sjö Hliða syrgði: „Ég gaf fólki endalausan straum kraftaverka, en þau náðu þeim ekki. Ég skapaði nýjar stjörnur, en ljós þeirra nær ekki inn í huga manna. Ég sökkti heilu löndunum í hafið, en vitund manna er enn þögull. Ég reisti fjöll og fræðslu Sannleikans, en menn snúa ekki höfði sínu að kallinu. Ég sendi stríð og sóttir, en jafnvel hryllingurinn fær menn ekki til að hugsa. Ég býð gleði þekkingar, en menn gera graut úr helgum veislum. Ég hef engin frekari tákn til að snúa mannkyninu frá eyðingu.”
Hinn Hæsti svaraði Verðinum: „ Þegar smiður leggur grunninn að byggingu, segir hann öllum þeim sem vinna að byggingunni allt? Sumir vita mælingar sem þeim eru gefnar, en aðeins fáum er gefið að vita til hvers byggingin er gerð. Þeir sem grafa í grunni fortíðar geta varla skilið nýja grunninn. Smiður ætti ekki að harma þó allir verkamenn hans skilji ekki raunverulega ætlan hans. Hann getur aðeins sett verkefnin fyrir, sem hæfa hverjum og einum.”
Þannig verðum við að taka tillit til vitundar manna, við verðum að vita að þeir sem ekki skilja eða hlusta, geta aðeins unnið lítil verk. Þeir sem skilja verði stöðugir eins og hundrað þúsundir vitringar. Táknin munu, eins og leiðbeiningar, ljúkast upp fyrir þeim.

257. Hvernig getur nokkur skilið hvað sé gott við erfiðleikanna þegar honum er sagt að sálræn orka, sem segull; dragi að sér alla mögulega kosti? Sannarlega þegar stórt skip eykur hraðann, þá eykst mótstaðan einnig. Svo er einnig með barátta þína, hún kallar fram margar hindranir. Það er þessi ferill sem laðar til okkar óvæntar athafnir andsnúna vilja annarra. Ef þær eru mjög öflugar, mun andsvar okkar þróast í samræmi við þær. En mikilvægast er að hafa í huga að mótstaðan á að vera öflug, því þá eflast logar okkar. Íhugið notagildi slíkrar eldvakningar, en bálið er hættulegt. Með eldvakningu á ég við þegar kristalmyndun miðjulogana er hamin; en bál er þegar miðjulogarnir blossa upp.
Þegar einhver er sagður þvingaður af kringumstæðum, verið viss um að logar hans eru ekki kveiktir og allir erfiðleikar rugla hann í ríminu. Stundum er erfitt að greina hvenær slík ringulreið byrjar, en hún eitrar allar afleiddar athafnir. En þegar skrefin eru ákveðin, eru andsvörin við hæfi og rétt. Þau skapa eldingar og þrumur hrista fjöllin. Lítilfjörleiki skapar einungis lítilfjörleika. Þess vegna eigum við þegar við bjóðum einhverjum guðsblessunar í ferð sinni, að óska þess að hann sneiði hjá lítilfjörleikanum. Framtíðin er mótuð af eldingarblossum skilnings. Afl þessara miklu neista eru undir mótstöðunni komið. Árangur næst augljóslega ekki með siglingu á bala á lygnum polli.
Þegar Við segjum, „Reisið segl,“ eigum Við að þið verðið að reyna hafið, stórkostlegar öldur þess munu fylla þig gleði. Efla ekki raunir afl þinn? Það getur sýnst ómögulegt að komast yfir hyldýpið, en þú hefur þegar yfirstígið mörg hyldýpin með brosi. Sjáðu, ég er ekki að tala um fantasíur, heldur um það sem þegar hefur verið reynt og vitni eru um.
Hugrekki kemur af því að þekkja veg sinn. Annars myndi hver sem reyndi við lokaðar dyr vera álitin hetja. Hvað býður handan þröskulds? Agni Jógi brosir að því.

258. Við staðfestum máltakið „ af mannahöndum.” Af hverju leggjum Við áherslu á verk handanna? Það sýndist auðveldara að efla möguleika mannkynsins með því að veita því aðgang að nýrri fínni orku. En, enn og aftur liggur hjarta efnisins í vitundinni. Svo lengi sem fínni orkan er ekki skilin, er hún manninum ekki til gagns. Í reynd getur orka sem ekki er skilin, verið eyðandi. Orka sem ekki er nægilega vel þekkt, er eins og óheft frumafl og getur eyðilagt allt umhverfis. Skilningur er næstum full hæfni og samræming. Þar til mannkynið byrjar að skilja sanna merkingu orku, er nauðsynlegt að leggja áherslu á frumregluna „af mannahöndum.”
Við drögum ekki úr möguleikunum. Við samþykkjum núverandi aðstæður. Það er tími til kominn að uppgötva tilveru alls þess sem er handan núverandi skilnings þíns, keðju ólýsanlegra orkugerða sem eru svo nærri okkur. Ef saltið er á borðinu, þýðir það ekki að við höfum neytt þess.

259. Mörg hugtök þarf að skoða í ljósi jóga. Getur einhver lifað án löngunar þegar andinn er fullur löngunar? Löngun er eins og neisti sem kveikir hreyfingu. Þegar svo er, er þá hægt að segja að jógi sé frjáls frá löngunum? Við skulum skoða nákvæmlega hvað felst í orðunum að, „jógi sé frjáls“, þýðir ekki að hann sé laus við langanir, heldur er laus við byrðar þeirra. Hann veit að hann er frjáls, því hann er ekki þræll langanna. Á leið að markmiði sínu, beitir jógi samhæfingu og lætur af löngunum í nafni þess æðsta. Þessi hæfileiki til að breyta auðveldlega er kjarninn í frelsi jógans. Ekkert hindrar göngu hans.
Það eru nákvæmlega hinar hreyfingalausu og andvana langanir sem verða ánauðahlekkir mannkynsins. Fólk bindur sjálft sig þessum böndum. Hvorki ónærgætni né eða karma annars fólks smitar það af löngunum, og það er persónan sem missir hæfileikann til að breytast, en ekki ferilinn.
Takið eftir þeim sem standa og væla. Hvað stöðvaði för þeirra? Hvaða öfl snéru þeim frá að skoða og skilja heiminn? Flestar stundir, næstum óáþreifanlegar, íþyngja langanir þeim og byrgja þeim sýn. Hversu einlitur er heimur þeirra orðinn! Langanir þeirra eru eins og sníkjudýr sem soga orku þeirra. Löngun getur verið ormur eða hlekkir, neistar eða vængir. Sá frjálsi er sá sem skilur. Sá bundni vælir í örvæntingu.

260. Mörg hugtök hafa brenglast og þau verða að öðlast aftur sína réttu merkingu. Það á einnig við um einveru. Hvergi er það sagt að jógi verði að vera líkamlega einangraður, en fyrir honum er einvera andans óhjákvæmileg. Vígður sjálfum sér, stækkar einstaklingskristall jógans og því meira sem hann gefur, því meira verður hann ósnertanlegur.
Við eigum einnig að skoða hið sanna samband lita og hljóðs. Það er ákveðið stig í þroska sálrænnar orku sem er kallað lýsandi, þegar innra eðlið byrjar að geisla ljósi. Þetta „endurskyn“ ljóss er merki um ákveðna nánd, skilning á fjarlægum heimum. Þannig er grænn litur í áru merki um hæfileika til að skynja eðli hlutanna. Öðrum kröftum eru óvænt safnað saman úr geimnum. Birting geislandi, „endurómaðs“ ljóss er brúin til kosmíska Eldsins. Sá sem gefur er eins og ósökkvanlegur logi! Sá sem fyllir sjálfan sig ljósi, leitar til ljóssins!

261. Sá sem óttast um líf sitt getur ekki orðið hetja. Sá sem lifir tilgangslausu lífi, verður ekki hetja. Hetja fer vel með líkama sinn, ávallt reiðubúinn að byggja upp framtíðarheim—og eins og í öllu, metur andstæður. Jógi skilur þetta. Hann skilur gildi aðhalds, en vill alltaf gera betur. Hetja er sannarlega óseðjandi í afrek og hungrar í athafnir, en er einnig tilbúinn að halda aftur af sér. Hann starfar fyrir andann, en slítur sig ekki frá jörðunni. Óstöðvandi og hörfar aldrei, hann yfirgefur aldrei það sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og byrjar ekkert verk af eigingirni.
Sýnum vitund sem getur greint á milli eigin hagsmuna og almannahagsmuna. Þau eru fín mörkin á milli sjálfsánægju og starfa fyrir þróun heimsins. Aðeins mikil vitund greinir innri hvatirnar. Aðeins mikil vitund lætur ekki ytri aðstæður trufla sig.
Rök hafa skemmt margar yfirlýsingar. Ákvarðanir verða of oft til vegna orða, en ekki vegna merkingu þeirra. Fræðslan getur aðeins opnað augu okkar þegar hún er meðtekinn í fullri merkingu sinni. Hægt er að skauta yfir hana eins og yfir flísalagt gólf. Innihald hennar sést ekki í myrkri, ljós þarf til að greina hana. Í myrkrinu sýnist innihald hennar ekki mikilvægt og passi aðeins fyrir léttan dans. Helgustum táknum er hægt að troða á af fávísum fótum.
Það er ekki augað, heldur vitundin sem sýnir varúð. Myndi einhver, á einhvern hátt, reyna að hindra verk fræðarans? Gleði afneitunar í nafni Fræðarans er eins og ljómandi regnbogi.
„ Drottinn, meðtak eigur mínar, ef þær geta komið að notum fyrir Þig!”

262. Þó mikið sé talað um mótstöður, er þeim gerð lítil skil. Að skilja hvernig á að nýta mótstöður bætir gleði í verkin. Þegar mótstöður koma fram hugsar fólk fyrst og fremst um eigin tilfinningar og gleymir tækifærunum sem þau fá. Fólk vill helst að allt sé gert með sama hætti og sömu aðferðum. En Við kjósum frekar óvæntar aðferðir og óvæntar niðurstöður. Fólk er ánægðast þegar lífið gengur sinn vanagang, en Við óskum þeim meiri árangurs en það. Kennið hvernig á að meta raunverulegan harm og hvað má læra af því. Það er erfitt að senda strauma með óvenjulegum hætti til fólks sem kýs að forðast óvenjulegar leiðir. Við þekkjum öll fólk sem lifir sjálfsánægt í þægindum. Ef aðeins þau vissu hvað þau fara í mis við vegna þæginda sinna! Fólk vill vernda allar lítilfjörlegu venjur sínar og gleyma að daglegar venjur verða að venjum andans.
Andinn veikist og byrjar að óttast hugrakkar athafnir. Þannig verða allir eins, með sömu hefðbundnu sorgum og gleði. Lærum að gleðjast við mótlætið, vitandi að þessir velkomnu erfiðleikar flýta árangri. Það verður eins og fiskinet sem fyllist af afla. Við skulum því beina augum okkar að umhverfi okkar og skilja frá hvaða hættum hollustan við Fræðarann verndar okkur. Við treystum á Hann í stóru verkunum, en erum ekki eins viss í smærri verkum. Enda meira var við stærri hindranir, og okkur yfirsést ótal smærri sem liggja fyrir fótum okkar. Munum að smærri, óséðar nöðrur er jafn eitraðar og þær stærri. Arnarsjónar er þörf, ekki til að sjá fjallið, heldur til að sjá smæstu völur.

263. Það er gleðilegt að þú skulir skilja merkingu orrustunnar. Margir eru dregnir inn í þessa orrustu, án þess að skilja hvenær er tími til hvíldar, hvenær sé hætta, eða hvenær tími fyrir gleði eða hræðslu. Fyrir sólsetur dregur að flugnasveimur, en hann veit ekki tilganginn.
Allar verur dragast inn í orrustu heimsins, en fáir skilja sanna merkingu þess sem er að gerast. „Bíðum til morguns“ hugsar fólk. En fyrir þeim er morguninn síðdegið og þau missa af döguninni.

264. Til hins Blessaða má rekja eftirfarandi:
Einu sinni heimsótti hinn Blessaði stjórnanda Rajagriha. Stjórnandinn vakti athygli hans á hreinleika móttökusalarins. En hin Blessaði sagði, „sýndu frekar hreinleika svefnherbergis þíns, baðrúms og hjarta þíns. Móttakan er menguð af mörgum óverðugum, en þar sem vitund þín verður til, láttu allt vera tandurhreint.”
Hinn Blessaði sagði einnig, „Greinið á milli þeirra sem skilja og þeirra sem eru sammála. Sá sem skilur Fræðsluna mun ekki bíða með að beita henni í lífinu. Sá sem er sammála mun einungis kinka kolli og lofa hana sem stórkostlega visku, en mun ekki laga sig að þeirri visku í lífi sínu. Það eru margir sem hafa jánkað, en eins og hnignandi skógur eru þeir án ávaxta og skugga trjánna. Aðeins hnignun bíður þeirra. Þeir sem skilja eru fáir, en eins og svampur drekka þeir í sig ómetalega þekkingu og eru tilbúnir að hreinsa burt hið illa í heiminum með verðmætum hreinleika. Sá sem skilur getur ekki annað en lifað samkvæmt Fræðslunni, því, að skilja markmiðið, samþykkir hann það sem lausn á vandræðum heimsins. Eyðið ekki tímanum með þeim sem jánka. Látið þá fyrst sýna nálgun við fyrsta kall.”
Þannig rakti hinn blessaði markmiðið fyrir hinum nýkomnu.
Það á ekki við að setja bát í tóman brunn. Sá sem sáir hendir ekki fræjum sínum í grýtta jörð! Þeir sem aðeins játa og eru tilbúnir að njóta ávaxtanna, munu verða skelfingu lostnir við fyrstu erfiðleika. Prófið er því í gegnum erfiðleika.

265. Snerting finni orkunnar er eins og af fínofinni blæju. En aðeins sá sem þekkir sannarlegt verðmæti hennar getur borið hana. Greinið þá anda sem eru tilbúnir og logandi. Sá sem móttekur ekki gjöf andans mun visna. Með fáfræði, sem enn er meðal okkur, munu hinir myrku eyða sjálfum sér.

266. Einvera andans leiðir til skýrrar sýnar á mótun framtíðarinnar. Andar myrkursins einblína á hvernig binda má mannkynið enn fastar við jörðina, hugsunin þeirra er: „ Látum þá halda gömlu siðum og venjum sínum. Ekkert bindur mannkynið eins mikið og þau. En það hentar einungis hinum mörgu. Hættulegast okkur er einveran, þar sem vitundin er uppljómuð og ný form eru sköpuð. Því þarf að takmarka verulega tíma í einveru. Það á ekki að leyfa fólki að vera einu. Ég mun færa þeim endurspeglun svo að þau venjist að vera með sinni eigin spegilmynd.”
Því færðu þjóna myrkursins fólki spegla!

267. Hver sem nálgast Okkur, hefur þegar hugmynd um ferilinn að ganga inn í annan heim. Hægt er að líkja honum við persónu sem hefur lært að ferðast, þar sem óvani ferðamaðurinn forðast jafnvel að stíga á landgang til skips.

268. Lífið líður eins og foss, en fáir skynja hreyfingu þess. Þeir sem þrá hvíld líta á lífið eins og að vera í grafhverfingu. Hvað er hvíld? Þetta hugtak er uppfinning myrkursins. Kjarkleysi fólks kemur í ljós þegar það talar um hvíld! Fyrir þeim er hvíld athafnaleysi. Þesskonar hvíld er alltaf jarðbundin gleði, gleði við að gera ekkert, er ekki Okkar. Er náttúran nokkurn tíma aðgerðarlaus? Við erum hluti hennar og föllum undir lögmál hennar.
Við þurfum ekki alltaf að vera á hlaupum. Né þarf nokkur að vera einangraður. Jafnvel planta, gegnum rætur sínar, er ávallt í stöðugri virkni sem dæmi.

269. Þú tókst réttilega eftir því að að Við endurtökum oft efni sem þegar var búið að fara yfir. En ef þið fylgið umræðu Okkar sjáið þið hækkandi spíral í hugsuninni. Það getur ekki verið öðruvísi. Jafnvel ef einni óverðugri hugsun hefði verið bætt í hefði það valdið rofi í spíralinn. Það sama gerðist, ef í hugsun mann sem væri að fara yfir miklar fjarlægðir. Þá myndi rof eiga sér stað. En engar líflínur má rjúfa viljandi. Það er skýrt í allri birtingu lífsins. Spurningin er hvort vitundin getur hækkað stöðugt. Já, að sjálfsögðu, en aðeins ef við samþykkjum að skilja hvíld sem tíma til hugarhreinsunar. Þannig forðumst við aðal óvininn.

270. Allir eiga sinn óvin. Mikilvægi óvinar segir til um eigið mikilvægi, alveg eins og skuggi ræðst af stærð hlutar. Við eigum ekki að hugsa um of um óvini okkar, né eigum við að lítilvirða þá. Enginn er án skugga. Akbar, kallaður hinn Mikli, veitti óvinum sínum athygli. Besti ráðgjafi hans hélt lista yfir óvini hans. Akbar spurði oft, „Hefur eitthvert verðugt nafn bæst við listann? Þegar ég sé verðugt nafn, mun ég senda kveðju mína til þess dulbúna vinar.”
Akbar sagði einnig, „Ég mun gleðjast yfir því að hafa getað beitt hinni heilögu Fræðslu í lífinu, það að ég hef veitt fólki ánægju og að ég hef orðið öllum ljós í skugga minna miklu óvina.” Þannig mælti Akbar, vitandi um mátt óvina.
Vinir birta ekki mikilvægi Fræðslunnar eins mikið og óvinir.
Ef óvinur er skuggi, þá er rógur lúðrablástur.

271. Vitundin skilur hugmyndina um hreyfingu best þegar hún er sýnd í kunnuglegum myndum og táknum. Við eigum að skilja mikilvægi tákna fyrir vitundina. Til dæmis er mynd af litlum bát mun betri en af nútíma skipi, því bátur sýnir varnarleysi sitt betur gegn hættum frumaflanna. Jafnvel í kjarnanum, er andinn háður athöfnum frumaflanna. Þess vegna er betra að vera vinur frumaflanna, sérstaklega eldsins.

272. Fræðarinn lítilvirðir aldrei. Aðeins þegar eitthvað hefur á sér stað, er hægt að ræða það.

273. Allar merkingar í samskiptum sem eiga sér stað milli nema og Fræðara þurfa að vera skýrar. Hvert skref í nálgun Fræðslunnar er mismunandi. Mikil aðdráttarafl er í fyrstu skrefunum, en mikil ábyrgð í seinni skrefunum.
Hægt er að sjá í geðheiminum að þeir sem eru með hálfþroskaða vitund leita ekki upp á við. Venjulegt vitundarstig er nægilegt til að sleppa við þjáningar, en ekki nægilegt innblásið til að samþykkja skyldu fyrir sjálfsfórn í verki. Sama má segja um vöxt andans. Fyrstu köll eru notaleg og góð, eins og hjá börnum sem hafa enga ábyrgð. En vitundin vex og andinn verður viðbúinn að takast á við sérstök verkefni. Þau verkefni ganga gegn úreltum leiðum efnislegra hugsana og fela því í sér nýja erfiðleika og hættur.
Sannarlega læra aðeins fáir að gleðjast við að takast á við og sigrast á erfiðleikunum. Margir aðrir þrá að snúa aftur til hálfþroskans. Á nýju stigi, verða fyrirmæli Okkar færri og styttri og verk nemans verða undir hæfni hans til sjálfstæðra athafna. Vinir verða fáir, erfiðleikarnir hlaðast upp og sýnast óvinnandi virki, allar athafnir sýnast lítilfjörlegar. Áhrif fínni orkunnar eru ekki áþreifanleg. Svokallaðir heilagir verkir munu kvelja hann. Tengsl og samband andans verða en óútskýranleg. En allt þetta mun hvetja löngunina til verka fyrir almannaheill. Andleg samvinna vex ótakmarkað. Fyrirmyndir fjarlægra heima munu breyta skilningi nemans fyrir umhverfi sínu, og háleit verk munu ekki lengur vera tómar ímyndanir. Verkefni hans gleðja hann eins og hann hafi valið þau sjálfur. Það getur ekki verið öðruvísi.
Að sjálfsögðu er gleðin ekki tjáð með látum. Sannur skilningur á umhverfi sínu getur valdið strangri ásýnd, en líf hans umbreytist engu að síður og hann getur horft á jarðneska drekann hringa sig séð frá hærra sjónarhóli. Hræðsluleysið sem var gefið í fyrsta kallinu færir hann nær nýjum ljósbylgjum.

274. Söguritari Akbars sagði eitt sinn við hann, „Meðal höfðingjana tek ég eftir óleysanlegu vandamáli. Ákveðnir höfðingjar héldu sig alveg frá fólkinu og ekki var hægt að nálgast þá. Þeir voru álitnir óþarfir og var steypt af stóli. Aðrir voru of mikið að skipta sér af daglegu lífi, fólk varð of vant þeim og steyptu þeim af stóli.”
Akbar brosti, „Það þýðir að höfðinginn verður að fjarlægur, en að ráða og stýra öllu í ríki sínu.” Svo mælti sá vísi höfðingi og benti á leið til framtíðarinnar.
Ósýnilega sýnilegur!

275. Vedanta segir réttilega að andinn sé óeyðanlegur. Eldkjarni andans viðheldur frumþáttum sínum, eðli frumaflanna eru óumbreytanleg. En útgeislun kjarnans breytist með vexti vitundarinnar. Við verðum að skilja að kjarni andans er brot úr frumþætti eldsins og uppsafnaða orkan í kringum hann er vitundin. Það þýðir að Vedanta fjallaði aðallega um kjarnann, en Buddismi talar aðallega um fullkomnun í þroska líkamanna. Þannig fer saman það breytanlega og óbreytanlega. Það er alveg skiljanlegt að Buddha, sem beindi mannkyninu til þróunar, kenndi að náttúran breyttist, en Vedanta lagði áherslu á óbreytanlega grundvöllinn.
Þú getur bætt hvaða efni á eldinn og séð hvernig logarnir breyta um stærð og lit, en eðli eldsins breytist ekki. Ég sé engar andstæður í grunnþáttum Vedanta og Buddisma.

276. Það er sagt að á Indlandi, að vitund um fínni orka muni koma inn í lífið. Við eigum að vera búinn undir vísindalegan skilning á því í framtíðinni. Þó að myrkrið dragi verulega úr gæðum og eiginleikum orkunnar, opinn vitund getur tileinkað sér suma þætti hennar, eins og þegar dökk ský draga fyrir sólargeislanna, nær hluti ljóssins og varmans til jarðarinnar engu að síður.
Allar miklar kenningar og fræðsla eru án innri mótsagna, en það er engin leið til að sanna það með hefðbundnum vísindalegum aðferðum.

277. Það er rétt þegar sagt er að ósýnileg öfl séu sterkari en sýnileg. Einnig er það rétt að skilningur á tengsl við fræðara verði ekki slitin. Óumdeilanleg eru þau sannindi að kosmískir straumar hafa áhrif á allt líf. Er það mögulegt að menn hafi ekki tekið eftir eflingu þessara strauma frá ári Jarðardrekans? Hali hans er segulmagn, en draumar drekans eru til einskis. Hann nær ekki orku meðan hann skríður á jörðunni. Það er sérstaklega á þessu ári sem tákn drekans eru send. Við eigum að vara okkur á jarðbundnum höndum. Næstu tíu árin getum við átt von á að sjá mörg lymskuleg svik.
Nýja tímabilið byrjar með þrumum og eldingum. Hvað er það sem vekur storminn? Að sjálfsögðu er það ótrúleg deyfð manna. Hve líflaus verða þessi tíu ár, jafnvel þó koma nýrrar orku sé handan seilingar!

278. Oft er Kennari í erfiðri stöðu gagnvart nema. Neminn lofar að fylgja öllum leiðbeiningum Fræðarans, ekki síðar en þegar þær eru gefnar er fundin ástæða til að leggja þær til hliðar. Kennarinn reynir svipaða erfiðleika þegar Hann er ásakaður um athafnaleysi. Ímyndið ykkur það að bogmaður sem búinn er að strengja bogann tilbúinn að skjóta, þegar einhver að baki honum kallar:, „Af hverju skýtur hann ekki?“
Lítil börn hlýða ómeðvitað leiðandi hönd. En fullorðnir breyta gjarnan, eftir sínu höfði, leiðbeiningum sem þeim eru gefnar. Þeir eru líkt og fólk sem lendir í bruna sem bjargar rúmfötum sínum en ekki ómetanlegum bókum. Hvaðan kemur þessi vanvirðing við leiðbeiningar? Áreiðanlega vegna skorts á trausti. Það er furðulegt hve vel gjafir frá Fræðaranum eru þegnar, en hversu auðveldlegar bestu ráð hans gleymast. Hversu mörgum vel skipulögðum sendingar er hafnað, hversu mörg gagnleg verk eru trufluð, vegna hugsunarleysis fólks? Lotning er veitt með annarri hendi, en með hinni hendi er perlum kastað fyrir björg, en því gleymt að með því að henda góðum ráðum út í loftið er verið að menga það.
Nemar gleyma gjarnan að Kennari sem valinn var vegna reynslunnar, gerir aldrei lítið úr þeim. Hversu mikið er samvinnan metin, er hún staðfest í traustinu? Þegar þið sjálf verðið kennarar, krefjist þá að leiðbeiningar ykkar séu tafarlaust uppfylltar. Gefið ekki fyrirskipanir of oft, því þá verða þær venjulegar. En ef verkin krefjast þess, hafið fyrirmælin nákvæm. Hafið það ávallt skýrt að fyrirmæli eru óafturkallanleg. Neminn á einfaldlega að fylgja og samræma frjálst frumkvæði sitt að samvinnu. Ruglingsleg fyrirmæli eru eins og lest komin af teinum. Það er betra að hafna gjöf en að trufla sendingarbylgjuna.

279. Þú hefur heyrt sögusögnina um aukin hita í kórónu Indra. Að baki liggur ferill anda og efnis. Hin sérstaka spenna andlegrar orku veldur hreinum efnisviðbrögðum. Það aftur á móti eykur mjög spennu eldsorkunnar og gerir það nauðsynlegt að koma aftur á jafnvægi.

280. Á meðan óvinaárásum stóð var Akbar spurður af hverju það væru svo margar árásir. Akbar svaraði, „Leyfum óvinunum að hafa eitthvað til að fást við.”

281. Hvað er átt við með orðatiltækinu „Brjálæði í Guði“? Af hverju voru spámenn til forna sagðir brjálaðir? Nákvæmlega vegna elds beinnar-þekkingar, innsæisins, sem greindi þá frá öðrum og var verðmætur eiginleiki sem skar sig úr frá hinni venjulega hversdagslegu hugsun.

282. Fólk getur varið sig gegn grófum birtingum frumaflanna. En í upphafi nýrrar fínni orku verður nauðsynlegt að finna nýjar leiðir til að takast á við þá orku. Þar til nýlega hefur fólk falið sig undir trjám fyrir eldingum eða það hefur hlaupið burtu í hræðslukasti. En nú hefur það fundið hagkvæma leið til ð verja sig. Að sjálfsögðu á það sama við um fínni orkuna. Ef það er uppgötvað í tíma, verður komist hjá miklum skaða. Hvernig getum við beint athyglinni að nýju orkunni? Með skerpu sjónarinnar, ásamt innsæi. Fólk mun fljótlega skipast eftir eiginleikum innsæis þeirra. Þeir sem hafa opna vitund verða að þekkjast og veitt athygli. Hvorki menntun, reynsla, hæfilekar, heldur innsæið opnar leiðina til Shambhala.
Það er nákvæmlega eldur innsæisins sem gerir mögulegt að ná hinum einstöku eiginleikum þessa nýju tákna í daglega lífinu. Í framtíðinni munu allar stofnanir gæta vel þessara næmu samstarfsmanna. Slíkar vitundir eru leiðarvörður á réttri leið. Nýjar vísindarannsóknir munu verða innblásnar af eldi innsæis.
Hvorki einsetumenn, öfgamenn, né hjátrú, heldur þeir sem þekkja eld jóga munu ekki yfirgefa stýri lífsins. Sannarlega mun fórn þeirra vera mikil. Þeir mæta stöðugt nýjum átökum, þó þeir kjósi rólega tilveru. En hvíld er ekki eiginleiki eldsins, því eldur eyðir stöðugt til að geta skapað. Slík eldsleiti reynir á tilfinningar okkar, eins og allt sem er í deiglu. Í dag eru áherslum Okkar á nýja möguleika kannski óskiljanlegar. En fljótlega munu menn leita nýrra leiða í lífinu, sem enn eru óþekktir. Þá munu einhverjir muna Tákn Agni Jóga.

283. Þegar þið eruð kallaður draumóramenn, segði þá, „Við þekkjum aðeins athafnir.” Þegar þið eruð spurð um hvar hægt sé að finna staðfestingu á Fræðslunni, svarið þá, „Aðeins í lífinu.” Þegar þið eruð spurð um af hverju þið verjið ekki Fræðsluna, svarið, „Það er ekki hægt að svara fáfræði.”
Þegar einhver talar illa um Fræðarann, segið, „Þessa sömu nótt munt þú sjá eftir óbærilegri villu þinni.”

284. Innihaldið er mikilvægt, en ekki formið. Sjálfstæð athöfn er mikilvægust. Gagnorðun er einnig mikilvæg og er merki um framför. Þegar við lifum á mörkum tveggja heima, sjáum við mynd eins og í vissu. Þannig að þegar sendiboðinn sendir boð, veit hann meira en hann gefur upp.

285. Sannarlegar þarf sá sem leitar réttu leiðarinnar meiri tíma. En sá sem hefur fundið hana getur gefið orku sína í verkin. Við óskum að þeir gangi áfram sigurreifir. Hvert skref þeirra er Okkur gleði. Við eru reiðubúnir að senda þeim styrk, svo þeir hrasi ekki. Hver og einn verður að ganga gegnum ólíka strauma; jafnvel skip mætir margri mótstöðu frumaflana á leið sinni.

286. Farsæld í lífinu er að finna hjá þeim sem skilja innra eðli hlutanna og einnig þeirra sem hafa sætt sig við sína eigin brengluðu skynjun á hlutunum. Munurinn liggur aðeins í afleiðingunum. Þeir sem hafa skilið eðli hlutanna eru ekki háðir þeim, en hinir eru þrælar hlutanna. Ef einhver finnur ekki velgengni, þýðir það að hann hefur orðið eftir í punkti jafnvægisins, frekar en að vera á öðrum hvorum endanum. Hver er mælikvarðinn á hvort eðli hluta séu skilið eða ekki? Hvort aðstæður í lífinu hafi breyst eða ekki. Ef ekkert hefur breyst, er það vegna þess að engar athafnir hugans hafa á sér stað. Þeir sem eru seinir að skilja ná ekki árangri. Meirihluti manna er dreginn niður af eigin veikleikum og tregðu. Lífið er fyrir þeim eins og hlekkir, en ætti að vera sigur. Athafnir tryggja árangur.

287. Mahayana er gagnvart Hinayana eins og Buddhism er gagnvart Vedanta. Mahayana þekkir og segir frá eðli frumaflanna. Hinayana leggur áherslu a karmískar orsakir og afleiðingar án þess að hafa áhyggjur af tafarlausum afleiðingu orsaka. Fræðslan kveikir neista frá óreiðu frumaflanna. Við getum rannsakað þessar myndir, en það er jafn rétt að einbeita sér að orsökum og afleiðingum. Ef við köllum Buddha Orsökina, þá er Maitreya Afleiðingin.

288. Eðlilega afhjúpar kraftaverk ekki veruleikann, heldur er veruleiki í sjálfu sér. Þess vegna er rétt að skilja veruleika blekkingarinnar, Maya, jafnvel þó við vitum af öllum lævísu afbökunum þess.
Þú sem þekkir leiðina, finndu eldinn sem viðheldur markmiðinu!

289. Hin Blessaði talaði um þrjá andlega kennara. Einn öðlaðist guðlegar gjafir og yfirgaf sitt jarðneska starf. Annar öðlaðist einnig þessar gjafir og sleppti þræðinum að skilja lífið. Sá þriðji sem einnig hlaut gjafirnar, vissi hvernig átti að binda skilningsþráðinn og halda sínum jarðneskum verkum. Gagnsemi hans var meiri en hinna.
Krossinn er tákn lífsins. Þegar hin mikli Plato skildi við Okkur,voru síðasta ráð hans, „Skapið hetjur”

290. Minna hetjur til forna á hetjur í dag? Þurftu fornar hetjur endalausan áhuga? Athafnir þeirra voru skammar og ein eldstund var næg fyrir þá til að kveikja orkuna. Núna, setja endalausar athafnir á jörðunni óþolandi álag á orkuna. Hið mesta högg, sterkasta kall, getur blossað út frá eini sprengingu; en áframhaldandi og endurtekin athöfn krefst stöðugra orkustrauma.
Hetjan í dag veit að hann getur ekki búist við neinni jarðneskri samvinnu. Þegar hann segir, „Ég mun ekki yfirgefa orrustuvöllinn,” finnur hann nýjan styrk. Við erum viðbúnir því að styrkja staðfestu hans í að yfirgefa ekki orrustuna. Við vitum hins vegar hversu erfitt er að bera ljós í myrkri, því aðrir sjá ljósið en ekki ljósberinn. Auk þess þola þeir ekki ljósið sem sofa. Tökum eftir þeim sem sem þurfa ekki myrkur til að sofna. Eldur andans þeirra eyðir myrkrinu. Við þekkjum stríðsmennina af ákveðnum venjum þeirra. Þegar augu þeirra reika í myrkrinu hrista þeir af sér dimmuna. Við huggum þá með orðunum, „Allt hlustar á þig.” Sá sem sáir telur ekki hinn dreifðu fræ, því hann sáir en uppsker ekki.
Hver gengur glaðastur til verka sinna? Sá sem sáir,—en ekki sá sem uppsker. Með hægri hendi sinni dreifir hann fræjunum. Vindurinn ber mörg þeirra burtu, en sáningamaðurinn syngur, því hann veit að engið er ekki lengur autt. Þegar engið er orðið fullt hverfur hann á braut. Hann hirðir ekki um hver nýtur uppskerunnar eða hver safnar saman nýjum fræjum. Sáningu er falið traustustu verkamönnunum. Engið er stórt, en hæfar hendur þreytast ekki.
Við okkur er sagt aftur, „Skapið hetjur.”

291. Það er rétt að segja, að ef hægt væri að mæla tímann sem eytt væri í vonsku, myndi mannkynið verða skelfingu lostið.
Frægð, eins og fólk skilur hana, er fáránleiki. Hún gæti eins verið þægilegir gönguskór.

292. Ytri birtingarmyndir í dag er lægsta stigið. Þið vitið að svífa er mögulegt, en ef mannkynið gæti svifið af engri ástæðu, hvaða brjálæði myndi fylgja! Þú veist að þyngd hlutar getur aukist eða minnkað, en núverandi ástand mannkynsins leyfir það ekki. Skilningur á andanum þarf fyrst að vera traustur.
Lykilinn að mörgum slíkum birtingum er að finna í viljaaflinu.

293. Sérstaklega eru krossstraumar hættulegir. Jafnvel í daglegu lífi myndu menn kjósa að ör komi úr einni átt en ekki úr mörgum. Hver og einn skilur auðveldlega það hugarvíl þegar örvar fljúga yfir höfði manns úr óvissri átt. Þegar ekki er hægt að forðast slíka mettun umhverfis, er sérstaklega mikilvægt að vernda heilsu sína. Blóðþrýstingur hækkar og spenna orkustöðvanna skapar þunglyndi.
Einn þekktur óvinur, hversu sterkur hann er, er betri en margar óþekktar sendingar. Kennarinn er sérstaklega á verði á slíkum tímum, sérstaklega ef eldar orkustöðvanna eru þandir. En slíkar spengingar í lífinu er óhjákvæmilegar. Hver meðvituð athöfn myndar hugsunarhvirfil og ef andlegur þroski er þegar mikill, þá verða hömlulaus andstæða þess einnig mikil og byrði. Eðlilega tekur fólk með óþroskaðar orkustöðvar eftir þessum örvahríðum, en það þýðir ekki að þær séu öfundsverðar.
Við tölum um stöðuga gleði, en þessi gleði er sérstök viska.

294. Fólk elskar leyndardóma og við andlega leit er komið að mörgum lokuðum dyrum. Af hverju forðast fólk það sem það þekkir ekki? Vegna þess að í skólum er því innrætt að vera eins og allir hinir.
Beinið andanum inn á brautir hins óþekkta! Slík leit kemur hugsun inn á nýjar brautir.

295. Fræðslan krefst ekki aðeins opinnar vitundar, heldur einnig löngun til að helga sig áframhaldandi leit. Hugur sem er upptekin af venjubundnum leiðum getur ekki móttekið Fræðsluna. Þeir sem ná ekki anda Fræðslunnar hunsa gagnsemi bóka um hana. Engin þörf er fyrir slíkt fólk, jafnvel þó það sé forvitið.
Hvernig á að meðhöndla slík dreifð fræ? Þau trúa jafnvel ekki að það geti verið önnur sjónarhorn en þeirra eigin. Venjulegir útreikningar eru framkvæmdir alls staðar eins, en hugsunarhátturinn er mismunandi eftir aðstæðum í lífinu. Berið saman hugsunargang í þorpum, borgum, á ferðalögum og í flugi. Í hverju tilfelli er grunnurinn og aðferðin gerólík.
Aðeins er hægt að skilja og meðtaka fræðslu Agni Jóga eftir að hafa tengst annarri fræðslu í lífinu og fundið þörf fyrir fegurð og nýrri merkingu í tilveru sinni. Efaský hindra ekki þann sem leitar að öllum leiðum út úr völundarhúsi! Nauðsynin fyllir mann úrræðum og hjálpar við að skilja hugtök sem hingað til hafa verið óþekkt. Ef athyglin er yfirtekin af óútskýranlegum verkjum, jafnvel þá, man hluti vitundarinnar eftir Agni Jóga.
Almennt er engin þörf á að hitta aðra sem hafa meðtekið Fræðsluna. Vegir nauðsynjar eru órannsakanlegir. Ekki má kynna Fræðsluna sem of auðvelda, því það elur af sér fyrirlitningu. Hægt er að umbera fávisku, en niðurlæging er ekki leyfileg. Leit að Fræðslunni veldur engum skaða.

296. Löngun í þekkingu kviknar af gleymdri þekkingu úr fortíðinni, á sama hátt og ímyndunaraflið byggir á reynslu úr fortíðinni.

297. Hvaða tími kennir fólki að greina á milli þess stóra og smáa? Áhyggjulaus tími dregur úr og brenglar veruleikann. Tími reiðinnar beygir sverðblað lífsins. Sorgartími niðurlægir. Tími í þvingaðri vinnu dimmir. Það er erfitt fyrir ófrelsaða vitund að greina eitthvað í myrkrinu. Getur einhver sagt fyrir um hvenær fólk muni skilja sálræna orku? Eins og brjálæðingar leika þeir sér, jafnvel frammi fyrir yfirvofandi sprengingu og í villu sinni líta þeir á jörðina sem einungis þétt efni.
Við verðum að skilja að fólk vill gleyma alvarlegum atburðum. Um eyðing heils meginlands var allt vandlega fjarlægt sem skráð var í fornum ritum. Jafnframt hefur mörgum vísbendingum verið leynt um atburði sem voru örlagaríkir fyrir heiminn. „Við viljum ekki kvelja okkur,” segja jarðnesk yfirvöld. Þau eru tilbúinn að fela fyrir sjálfum sér eigið gjaldþrot og uppgjöf. Höfðingjar heimsins segja, „Allt er með kyrrum kjörum í okkar ríki.” Sjálfsánægt athafnaleysi tryggir þeim stjórnvölinn. Venjulega lofa þeir sólsetrið, en sofa af sér sólaruppkomu. En ósýnilega stjórnvaldið segir, „Það er fáránlegt að hylja tilveruna.” Því verðum við að vita og læra af liðnum atburðum. Leitið í þá orku sem vitundin vekur og umbreytir tilveru ykkar. Vill ekki hver vera tilbúinn í tíma? Jafnvel síðasta stund getur kennt mannkyninu.
Við erum ekki spámenn í sauðgærum. Eins og venjulegir læknar vörum Við við, „Það er komin tími á sprautu.” En það eru ávallt monthanar sem hælast um, jafnvel meðan sóttir ganga. Kirkjugarðarnir missa aldrei sína nýju leigjendum.
Við tölum í nafni þeirra sem geta lifað.

298. Munum að gleðjast í upphafi hvers verks. Venjulegar er fólk ákaft að sjá blóm og ávexti verkanna. En sannur rannsakandi gleðst af fyrstu sprotunum, því það er lífsvakning.

299. Ef kennari segir, „Ég hef tíu þúsund nema,” spyrjið þá, „Er hverjum sem er veitt innganga?” Magn útilokar árangur. Stærð hers var aldrei eina trygging sigurs.

300. Ég staðfesti að Agni Jóga er ljósið á veginum. Það skiptir engu hvernig ferðalangar nota þessa blessun. Þeim er vísuð leiðin. Þeir sem greina tákn eldsins munu koma. Þannig vill Ég styrkja þá sem hafa skilið aðkallandi fræðslu Agni Jóga. Það á ekki að bíða þar til flóðin knýja leit fjöldans að björgun. Það yrði einungis þekking sem numin yrði undir ógn og skelfingu, slík þekking hefur ekkert gildi. Það er nauðsynlegt að þekkja þá sem leiddir eru af frjálsri vitund.
Aðeins þeir sem vita tilgang orrustunnar geta tekið þátt í henni. Þræla er ekki þörf. Ég tel réttara að vernda einlæga leit, en að leita að braki brotins bát.

301. Ef í önnum athafna birtist barn sem dregst að þeim af sérstakri ástæðu, brosið til þess og látið það vita að þessar athafnir séu heimur þess. Börn dragast að athöfnum vegna sérstaks ákalls. Gefið þeim það sem hefur verið undirbúið fyrir þau af eigin fortíð. Mikill er safi ávaxtar sem hefur sterkar rætur.

302. Ákveðnar gætni þarf að viðhafa í Agni Jóga. Á ákveðnu stigi finnst fyrir verk í baki. Gæta þarf sín á að beygja bakið, því orkusúla er í risi eins og kvikasilfur í hitamæli. Þess vegna er upprétt staða hryggjarins er æskileg. Eins er óæskileg vinnustaða sem krefst álags á aðra hliðina, eins og skógarhögg. Eldurinn er lóðréttur í uppbyggingu og þannig vinnur hver eldur. Að sína örlitla gætni einangrar fólk sig ekki frá lífinu. Hver og einn getur beitt aðferðum í lífinu sem ekki eru skaðlegar.
Aðeins tilfinning fyrir fegurð leiðir til samræmis. Afl kemur ekki úr vöðvunum, heldur frá vitundinni. Jafnvel í daglega lífinu stjórna taugarnar vöðvunum.

303. Hendur óvinarins eru ávallt tilbúnar til að eyðileggja vinnu Okkar. Hlustir óvinar eru opnar fyrir því sem hægt er að nota gegn Okkur. Það er ekki nóg að segja, „Samgleðjist með óvininum.” Við þurfum að skilja aðferðir hans. Óvinurinn er eins og óþekkt stærð í stærðfræðiþraut. En þá óþekktu stærð er hægt að finna með því að nota þekktar staðreyndir. Þannig er hægt að mæla hvern þekktan óvin. Íhugið vandlega kringumstæður í athöfnum þínum. Munið við hvaða aðstæður ákveðnar tilfinningar bærðust með ykkur. Við munum koma aftur að þeim.
Óvinur er eitthvað óþekkt sem við verðum að læra að þekkja, yfirvinna og umbreyta í eitthvað kunnugt—þekkt, í orðsins fyllstu merkingu. í því ferli eigum við að vera meðvituð um okkur sjálf. Veiðimaður sem nálgast bráð verður að reikna með öllum hreyfingum hennar. Þér verður margoft sagt frá miklum leyndardómum, en þú munt nálgast það einfaldlega og treysta á sjálfan þig. Við lítum svo á að þekking á eigin mætti sé fyrsta skilyrðið fyrir orrustu. Hið óþekkta verður þekkt þegar þú hefur kynnst því. Það hefur því engan tilgang að tala um það fyrirfram, þegar jafnvel mörk þess eru óþekkt.
Leitist við að rannsaka allt, við verðum hins vegar að vera sammála um aðferðirnar. Við vitum í hvaða átt athafnir okkar stefna, en megum ekki setja okkur skorður með því að taka óhugsaðar ákvarðanir um óvini okkar. Tengjum innsæi við raunverulegar athafnir. Þegar einhver óþekktur þáttur er orðinn kunnugur, er það sigur—án undrunar og án mikils áhuga. Hver stund, jafnvel athafnalítil, geta fært okkur nær hinu óþekkta. Hið óþekkta er hægt að hugsa sér sem vin, en fyrir rannsakanda er gagnlegra að hugsa sér það sem óvin. Allir þættir þess óþekkta eru nær því að vera óvinveittir.
Við tölum ávallt um vera óttalaus við það óþekkta, en það orðalag notum við ekki gagnvart vini. Við tölum einnig um að sigrast á því óþekkta, sem vísar til einhvers óvinveitts.
Ef Ég óska að þú verðir sigursæll, þýðir það að Ég sé fyrir orrustu. Hið mikla óþekkta, er eins og óvinur sem lokkar mann til sigurs.

304. Fræðslan um viskuna er ekki bók með númeruðum síðum. Fræðsla er vísbendingar um lífið sem hægt er að beita í hverri nauðsyn. Alveg eins og eldingu lýst niður þegar næg hleðsla er fyrir hendi, aukast vísbendingar með auknum möguleikum. Þó hún staðfesti almenna einingu, þá verður hver og einn að tileinka sér fræðslu lífsins. Fræðslan gefur hverjum og einum lausnir fyrir hans daglegu vandamál. Stundum sýnist hún endurtaka sig um sama efnið. En ef þið berið saman þessar tilvitnanir, sjáið þið að þær snerta ólík vandamál í lífinu.
Ytri tákn hafa enga merkingu. Fólk getur fölnað eða roðnað af mismunandi ástæðum. Greinum og lofum að leggja okkur að fullu fram um að leysa brýnustu vandamálin í lífinu, og látum karmaflæðið um hin smærri. Oftast er hægt að hafa áhrif á meginstraumanna, en smáatriðin bera alltaf merki ætlaðs karma. Þó þessi smáatriði hafi enga sérstaka þýðingu, eru það venjulega þau sem fólk man eftir og dæmir eftir. Við eigum ekki að búast við að smáatriðin í verkum og tilraunum séu allaf eins. Hið augljósa merkir ekki allt. Vísbendingar Okkar gera ráð fyrir öllum möguleikum og birtast með mismunandi hætti. Hættan liggur annarstaðar. Sá sem hefur höndlað möguleikann verður oft kærulaus um hann.
Hátíðarblómið hefur náðst niður í hverdagslífið, en litið er á það sem eitthvað venjulegt. Að sjálfsögðu eru blóm ávallt ánægjuleg, en það er betra að umbreyta hversdagslífinu í hátíð andans, en að óhreinka blómið með ryki hversdagslífsins.
Aftur komum við að hugmyndinni um lífið, sem bikar fullan af undursamlegri lækningu. Að bergja af eitri heimsins og endurfæðast fullur af orku! Þetta var úr fornri launsögn. Við sjáum það frá Egyptalandi og Grikklandi. Sjálf Shiva sýndi það, og löng röð Frelsara drakk af eiturbikarnum og umbreytti því í Amrita.
Þegar við segjum, „Verið öðruvísi og neitið ykkur ekki um bikar árangursins,” hvetjum Við ykkur að varast að sverta líf ykkar og spilla innihaldi bikarsins. Ég staðfesti hve mikið ykkur er gefið. Hver hlutur þess sem er skilinn og beitt í lífinu gefur nýtt líf. Sjáið hvernig möguleikum rignir og gleðjist að regnboganum.

305. Stigapallur hefur verið sýndur með með skreyttum þrepum. Af hverju eru lægri þrepin svona skrautleg en þau hærri minna skreytt eftir því sem ofar dregur og að efsta þrepið alveg á skrauts? Hönnun lægri þrepanna er svo margbrotin að allt yfirborðið er skreytt. Kannski þarf ekki að hanna efstu þrepin. Sannarlega, sé Ég engar skreytingar efst. Þannig, hugsum allt einfalt.

306. Andardráttur Heimsmóðurinnar, Risarnir sem bera byrðarnar og Frelsararnir sem samþykktu Kaleikinn—þessar þrjár myndir urðu til af hinu eina lögmáli. Uppsöfnun háleitrar andlegrar orku veldur álagi á nokkrum stöðum á plánetunni. Þær lífverur sem tengdar eru andardrætti hinnar Miklu Móður enduróma útþenslu þessara háleitu líkama. Geta slík högg talist kostir? Það er nauðsynlegt að velja fullkomlega rétt stillt hljóðfæri til að ná fullkomnun í tónlistarsköpun. Að sjálfsögðu ef slík hljóðfæri eru fá, verður mesta pressan á þau. Það er ekki nauðsynlegt að sanna, að betra sé að bera byrðar heimsins, en að vera úr tengslum við athafnir lífsins.
Þegar Ég tala um að fara varlega, er Ég að staðfesta óttaleysi sem eflist með þroska vitundarinnar. Án hugrekkis getum við ekki byggt upp. Án skapandi verka getum við ekki nálgast Kaleikinn. Aðeins loginn yfir Kaleiknum afhjúpar hæð bogans. Fyrir Okkur, eru Frelsararnir ekki á bak við gullin klæði.

307. Eldstríðsmenn eru oft kallaðir því nafni vegna þess að Satya Yuga byrjar með eldi. Þá safnast þeir saman sem eru innblásnir af þessu uppsafnaða frumefni. Hreyfing og leitun eldsins liggur í ljósinu. Ekkert getur skarað fram úr ljósinu, því það streymir frá allt umliggjandi eldi. Ég staðfesti hinn streymandi Eld sem það hreinasta og hraðasta. Allur óbirti Kosmosinn er skip eldsins. Hið forna tákn um eldvegg hefur tilvísun í Kosmíska eldinn. Austrið veit af her eldstríðsmannanna sem munu rísa upp við komu nýrra tíma.
Náttúruhamfarir eru afleiðing af árekstrum háleitra elda og logandi tilfinninga plánetunnar. Gas sem hefur orðið til á plánetunni vegna eitraða niðurbrota brýst út sem óbeisluð orka, Kamaduro. Með öðrum orðum, hin efnislega náttúra jarðarinnar er ekki í samræmi við háleitan eldinn. Hið lýsandi efni leitast við að samræma þessa frumþætti, en það sem við köllum myrkur getur lamað geislandi efni og þá eiga náttúruhamfarir sér stað.
Eldverurnar lifna þegar Kosmíski eldurinn sigrar.

308. Hver illvirki forðast að snúa aftur til þess staðar sem illvirki hans var unnið. Fólk skilur að fyrra framferði þess í geðheiminum svara oft ekki siðgæði og andlegri reisn. Þess vegna er fólk fullt lotningu og hræðslu frammi fyrir hliðum þess heims. Það reynir jafnvel að hugsa ekki um inngöngu þangað, í von um að fáfræði létti af þeim ábyrgðina. En, með því að játa þessa vitneskju, verður inngangan ekki erfiðari en að ganga upp stiga.
Táknið um uppgöngu er fornt tákn. Hvað getur hjálpað við þessa uppgöngu fyrir utan uppsöfnun vitundarinnar? Eldurinn að sjálfsögðu, eðlið sem umbreytir leiðinni. Eldar líkamans sameinast kosmíska eldinum. Birting sálrænnar orku byggir á eldi. Öll fyrirbrigði verða til af eldi og eldur lýsir alla innganga.
Sannarlega er það ekki auðvelt fyrir fólk með eldseðli að lifa í líkama. En veljið aðeins þá sem samstarfsmenn, því það eru engin svik í þeim. Hættur trufla þau ekki. Skylda er þeim eðlislæg og leit þeirra rís eins og logi. Hverjir geta frekar birt axlargeisla? Fyrir hverjum er sköpun nærri en þeim sem bera eldinn sem smýgur um allt? Það er erfitt fyrir fólk að skilja eðli þessa frumafls. Jörð, vatn, loft—eru sönnunin. Eldurinn smýgur í gegnum vatn eins og hnífur. Fólk verður að skilja hvernig eldurinn gengur í gegn um allt, annars mun það ekki ganga gegnum eldhliðin.

309. Af öllum birtingum metum við hið algjöra, ráðandi og víðtæka umfang andans í lífi hvers. Misstök verða að engu þegar fræ eldsins hefur vaxið. Athöfn er baráttuveifa stríðsmannsins. Ákvarðanir eru kóróna hans. Logi anda hans er eins og perla. Logandi andi, þú brennur burt blekkingar og rýfur myrkrið! Við metum ofar öllu, eld andans.

310. Vaxtarskref vitundarinnar eru ógreinileg. Slík skref eru til, en mörk þeirra eru ekki skýr. Engin formúla greinir þau. Sérstaklega þarf að forðast að meta fyrri skref, til að varast að valda skaða.
Hvernig er hægt að snúa öllum í sömu átt? Fólk hefur ólíka sýn þegar það horfir í ólíkar áttir, án þess að það grafi undan almennum velvilja. Megi það líta í allar áttir. Megi það kanna alla hluta stjörnuhiminsins. Augað verður að læra að skoða. Megi það nýta alla reynslu mannkynsins, en virða almenna góðvild. Nýtið allar uppsprettur og sá sem nær meiru öðlast meira. Brennandi andi birtist á marga vegu. Fólk þekkist vegna þess. Það er betra að ofmeta hið góða í þeim, en að vanmeta þá.
Tínið ekki blóm að óþörfu; hverju blómi á að leyfa að vaxa. Jafnvel klaufalegur samstarfsmaður getur lagt sitt af mörkum í bygginguna. Það á ekki við að hafna neinum, nema að yfir mörk svika hafi verið stigið. Dæmið það með dökku tákni.

311. Samstarfsmenn okkar, er hægt að greina frá öðrum í athöfnum, af sveigjanleika þeirra, þrautseigju og opnum huga. Kosmískt líf byggir á aðlögun og fráhrindingu, með öðrum orðum, á taktfastri útþenslu og samdrætti. Athafnir samstarfsmanna Okkar eru ekki lausar undan lögmálum náttúrunnar. Hægt er að skoða hvernig athafnir byggja vitundinna og engin hræðsla ætti að vera við eyðingu af útþenslu hennar. Eitt er Okkur ókunnugt,—hvíld í athafnaleysi. Okkar samstarfsmenn, eins og Við, leggjum grunninn.
Þessi sáning er nauðsynleg fyrir Okkur og Við vitum að þessi fræ glatast ekki, því allt í tilvist, verður ekki eytt. Við erum ekki mjög áhugasamir um breytileika formsins, því fræið er óumbreytanlegt. Slíkt óumbreytanlegt fræ er í hverri veru. Jafnvel neikvæðar athafnir koma ekki í veg fyrir að Við munum að fræið er eins alstaðar. Þessi meðvitund gerir Okkur umburðalynd. Okkur er ljóst að misræmi er venjulega mismunandi taktur. Að sjálfsögðu er skortur á samhæfingu sem kemur í veg fyrir einingu sálrænnar orku í hópi. Það er nákvæmlega hóporkan sem gerir mögulegt að nýta geislanna án eyðingar eða skaða. Vampírismi að ákveðnu marki eykur árekstra og leiðir til ósættis fremur en samvinnu. Lærið því að þekkja þá sem bera ekki skaðlegar bylgjur, jafnvel þó þeir sýnist vera sál af ókunnum kynþætti.
Tveir sem sitja við sama borð, gegn hvor öðrum, geta ekki verið andstæðingar ef þeir fylgja sama Fræðaranum. Allt sem því fylgir og þolinmæði eru eitt.
Aðeins svik er ekki hægt að þola.

312. Greina verður á milli hlutlægra erfiðleika og þeirra sem orsakast af skorti á hæfileikum. Hlutlægir erfiðleikar orsakast af ytri hindrunum á efri stigum, en skortur á hæfileikum er afleiðing eigin huglægrar blindu.
Vitið að lögmál lífsins byggjast á ótakmörkuðum sveigjanleika í birtingu sinni. Þú getur talað um lögmálin eins og þau birtast almennt, en þú veist einnig um víðtækari beitingu þeirra. Útskýrið, að ný fljótleg jarðvist getur verið erfitt að þola. Aðeins óþreytandi ferðalangar leggja í tíðar sjóferðir. Með þessu kenni Ég þér hvernig þú endist í andanum, án þess að þurfa fast heimili.
Hvorki skilningur á næmni Fræðslunnar né viska er undir aldri komið.

313. Það óvænta er liggur í vitundinni. Jafnvel heimarnir geta mótast af því óvænta, af engum augljósum ástæðum, því sköpun kemur úr því óvænta. Við erum Verndarar lögmálanna, en virðum hið óvænta, því hreyfing er innbyggð í hana. Það myndi hinsvegar vera rangt að beina öllum að öfgum möguleikanna. Með öðrum orðum, það bera ekki allar undirstöður þungt þak.
314. Við eigum að vita að tími til breytinga fer eftir hverju efnisformi. Ef efni breytist á einum stað, þýðir ekki að allt það efni í plánetulíkamanum breytist á sama tíma. Réttara sagt, ef Satya Yuga væri að byrja á einni plánetu, tekur það mjög langan tíma að dreifast til allra plánetnanna, þó munu merki um slíka dreifingu sjást fljótt í sumum hlutum plánetulíkama. Við ættum aldrei að takmarka hugsun okkar við einstaka plánetu.

315. Heimsmóðirin fyrirskipaði: „Vindar, safnist saman! Snjóar, safnist saman! Fuglar, haldið til baka! Skepnur, standið kyrrar!“
„Engar mannlegar fætur munu setja spor sitt á hátind minn. Kjarkur hinna myrku mun ekki endast! Ljós tunglsins mun ekki lifa! En sólargeislarnir munu snerta toppinn.“
„Sól, gættu hátind míns, því þar er Helgi mín. Aldrei mun skepna þar upp stíga né mannlegur máttur ráða!”
Móðir, alls sem til er, ver Helgi sína með eldskjöldum. Hvað glóir á hátindinum? Því hafa hvirfilvindar safnast saman til að mynda töfrandi kórónu?
Hún, hin Mikla Móðir, náði á hátindinn alein. Enginn mun fylgja henni.

316. Jarðneskt heimili dregur ekki úr mikilvægi þess að viðhalda eldi hjartans. Skiljum, að búa jarðneskt heimili er eins og að bjóða fram loga. Sköpunarvinna verður að vera eins og endurskyn altarislampa. Eitt hundrað og átta logar og jafnmörg verk. Þúsund logar og jafnmörg verk. Óendanlegir logar og jafnmörg verk. En deyi loginn, er það vegna þess að auga manns hefur dáið.

317. Á hæsta tindi stendur Heimsmóðirin skínandi. Hún kom til að sigra myrkrið. Því hafa óvinirnir fallið? Hvert snúa þeir augum sínum í örvæntingu? Hún hefur vafið sig eldblæju og umkringt sig eldvegg. Hún er okkar verndarmúr og innblástur.

318. Látum ekki hundsgá trufla okkur. Við skulum bera staf og muna að aðeins eitt vel tímasett högg hræðir hina grimmustu hunda. Eyðið ekki orku í ótímabær högg. Miðið vel! Það er erfitt fyrir flesta að skilja að geimurinn sé mettaður.
Fólk samþykkir mettun vatns og jafnvel jarðar og ræðir um steinefni róta, en geimurinn er ekki lifandi efni að mati fólks. Þess vegna hræðir frumafl eldsins og menn skilja ekki gleði kosmískra hreyfinga.

319. Hvert á að beina hugrekki sínu? Hvert á að beina viljanum? Hvert beinum við okkur sjálfum? Til þess sama anda -eldinum. Við munum finna styrk og gefumst ekki upp, því á leið okkar söfnum við orðum þekkingar.
Minnumst þekktra dýrlinga allra landa. Af hverju þekkjum við þá? Með lítillæti eða hlýðni við yfirboðara sína, með þagnareyði eða með hollustu? Ef það væri, væru þeir ekki verðugir nafnsbótinni. Þegar Við tölum um dýrlinga, eigum Við meðal annars við stríðsmenn, stigamenn, uppreisnarmenn, uppbyggendur og leiðtoga. Af andans eldi eru þeir þekktir. Lög manna geta ekki slökkt þennan eld. Förum því varlega í að dæma þá sem koma. Eins og ilmur himintungla, með skreytta steina, geta þeir sem koma langt að borið með sér tákn sem eru óskiljanleg öðrum.
Ekki er hægt að búast við miklu frá fjöldanum. Steinn frá fjarlægri stjörnu ber með sér skilaboð sem fáir geta skilið.
Aðlögun margfaldar aflið. Hið sérstaka tungumál eldsins ber í sér tákn framtíðarinnar. Sýnum gætni, því eldur andans er órannsakanlegur.

320. Hvert tímabil hefur sína hætti. Að treysta á gömul fordæmi er eins og ganga í skóm forfeðranna.

321. Áköll og tónun geta að sjálfsögðu hjálpað við að einbeita sér að andlegum slætti, en lögmál framþróunar gerir ráð fyrir beinna sambandi mannlegrar vitundar við þá kosmísku. Í stað þulutakts, ætti hver að einbeita sér að skilja eldfræ andans og byggja þegjandi tengingu eigin andans eld við kosmíska eldinn.

322. Sá sem öðlast þekkingu, einungis fyrir sjálfan sig, byggir ekki fyrir Okkur. Þegar bygging er við að hrynja, hver getur þá setið rólegur? Jafnvel hörmungar í fjarlægð skelfa, þá verða allir að verða byggendur og leggja nýjan grunn. Ég segi þetta, því verkin sem ekki er hægt að fresta, krefjast krafta allra.

323. Hvernig á að hefja vegferð Agni Jóga? Fyrst verðum við að viðurkenna og skilja andlega orku. Síðan er nauðsynlegt að skilja að eldur er kjarni andans.
Það er engin vafi á því að sleppa kjötáti er gagnlegt. Allt grænmeti er gott sem fæði, en sumt, svo sem aspas, sellerí og hvítlaukur, eru aðallega til lækninga.
Hver verður að gæta sín gegn hitaveikindum. Fyrsta ráð við þeim er að skilja og ná tökum á andlegri orku. En sem ytri hreinsun, er að nota safa úr moru, eða, eins og það er einnig nefnt, balu. Þegar þú ert beðinn, gefðu þá nákvæma uppskrift. Moru er bætt í baðvatnið. Hægt er að útbúa kröftugt safaþykkni úr laufum og rótum. Ef fyrsta uppskrift er jákvæð, má bæta við annarri. Sömu jurt má einnig taka inn með mjólk. En fyrst þarf að prufa það útvortis.
Hikið einnig ekki við að mæla með valerian, sem getur verið öflug vörn þegar þegar fólk er með hita. Hugsið um andlega orku eins einfalda og mögulegt er. Því fínni orkan kemur ekki með þrumum. Hún klífur hin ýmsu lög andrúmsloftsins og birtist á sérstaklega fínni vegu.

324. Ég verð að óska eftir að þú óttist ekki framtíðina. Sá sem er bundinn ótta skapar ekki hagstætt andrúmsloft fyrir athafnir. Við þörfnumst þeirra sem leita sigurs.

325. Að gefa Agni Jóga, framkvæmir þú verk sem er ótrúlega mikilvægt.

326. Hver bygging hefur ytri veggi og ósýnilegan grunn. Engin bygging er án veggja og stenst ekki án grunns. Það eru tvær birtingar í öllu: önnur er veggirnir, sem tákn um Fræðarann, og hin er grunnurinn, sem birting Móður Heimsins. Hvor hefur meira mikilvægi? Íhugið!

327. Veggir og burðarvirki á grunninum eru jafn nauðsynleg öllum byggingum. En eins og grunnurinn sem ekki sést, svo er Móðir Heimsins áfram ósýnileg. Það eru veggirnir sem standast áhlaup stormanna. Á sama hátt, vegna þess að nöfn Okkar eru þekkt af mörgum, tökum Við á okkur árásir óvinveittra strauma.
Oft verður spurt, „Hver er munurinn á þessum tveimur leiðum til þjónustu?” Svarið, „Það er hvorki munur né kostir. Þessi tvö heilögu fljót bæta við hafið.”
Fólk mun einnig spyrja um hvaða strauma það tilheyrði. Eðlilegar mun þekking andans beina þeim á þann veg sem geisli þeirra tilheyrir.
Hægt er að ímynda sér ákafa leitina sem geislar himintunglanna móta. Fylgismenn Okkar eru mjög næmir fyrir þessum geislum, en enginn þarf að óttast næmni. Venjulegt fólk hrekkur við há nálæg hljóð. Hvernig mun þá þroskaður andi bregðast við fjarlægum jarðskjálftum? Jafnvel rafpóll suðar undan orkunni sem hann ber! Það er tími til kominn að mannkynið meti alla innbyggða eiginleika líkamans.
Hvernig getum við barist gegn bylgjum logans?

328. Það er gagnlegt að tala um Fræðarann. Það er gagnlegt að ræða um Fræðsluna. Það er gagnlegt að ræða um lífið. Það er viturlegt að skilja hækkandi hreyfingu spírals, því orkan beinir hreyfingunni upp á við. En á sama tíma dregur þyngdaraflið það niður. Þannig liggja skrefin saman.
Talið í samræmi við skilning hlustenda ykkar. Óþolinmæði er úreld klæði sem þarf að fleygja.

329. Veikindi sem kölluð er taugabólga, hefur ákveðna tengingu við eld. Mikið sem tengt er liðagigt og taugatruflunum hefur einnig tengingu við eldinn. Þessa verki má auðveldlega losna við með því að staðsetja efniskristala sálrænnar orku. Þegar þessir kristalar hindra taugaleiðir er hægt að búast við verkjaþróun. Eins og steinar í innri líffærum, eru efniskristalar sálrænnar orku skaðlegir ef orkan er ekki nýtt. Sérstaklega eru árekstra slíkra kristala við úrgang skapillskunnar. Oft er vel þroskað taugakerfi veikt fyrir. Rannsóknir á sálrænni orku þurfa nauðsynlega að eiga sér stað. Hvað sem er hægt að mæla efnislega auðveldar viðurkenningu.

330. Skoðið einkenni veikindanna sem virðast óskiljanleg. Staðsetjið og skoðið þá staði nærri orkustöðvum, það sem einkennin og verkir eru. Kannski eru verkir í öxlum, olnbogum eða hnjám. Kannski birtast þessir þrjú merki nærri Kaleiknum, eða bruni á sér stað í barkakýlinu. Hvert slíkt einkenni gefur til kynna starfsemi þeirrar orkustöðvar. Eins og lýst væri í bók, er persóna hvers einstaklings skrifuð af eðli hans, sem stöðugt logar ofar höfði hans. Hægt er að lesa það jafnvel með beinni athugun. En fólk er vant grófum birtingum. Það býst við ærandi þrumum og blindandi eldingum. En engu að síður framkvæmir það sjálft mikilvægustu verkin í þögn.
Áhrif öflugs segulmagnsstraums eru mikil á ákveðna líkama, þó hann hafi einnig áhrif á alla hluti, þannig smýgur orkan ósýnileg. En í bili vonum Við að athyglinni sé aðallega beint að sannarlegum birtingum.
Með því að rannsaka persónuleika fólks og líkamlegan sársauka þeirra, er hægt að fá dýrmætar niðurstöður. Við ættum að vita hver séu áhrif orkustöðva á nálæg líffæri. Af hverju koma lungnaveikindi fram í fylgikvillum eins og kvefi eða blóðleysi, þegar orkustöðvar nærri lungunum sýna tengsl við þessi sérkenni? Af hverju er bólga í öxlum og olnboga tengd liðagigt, þegar orkustöðvar nærri öxlunum sýna spennu? Það er hlutverk Okkar að hjálpa fólki við að skilja að tími er til kominn að skilja við gamlar venjur og snúa á leið lögmál alheimsins.

331. Hvernig vitum við hverjir eru bestu samstarfsmennirnir? Aðeins með óbætanleika þeirra. Það er rétt að meta þann sem hefur orðið óbætanlegur.
Ég get aðeins treyst Urusvati fyrir Fræðslunni, án ótta um að hún verði afbökuð eða dregið úr henni. Aðeins reynsla aldanna gefur þá hollustu sem þarf ásamt skilningi á innihaldi hennar. Ég get treyst á Fu, jarðneskar athafnir, því í gegnum þær get ég starfað.
Ég get gefið nemum mínum allt sem þörf er á, en Ég býst við reynsluþroska. Staðfestið það í verkum, því fyrsta sjö ára tímabilinu er að ljúka.

332. Hvert er eðli samúðar Bodhisattvas? Án þess að þvinga viljann, beina þeir hverju hæfilegu afli til góðs, óséðir og með þolinmæði. Það er ekki erfitt að hegða sér í samræmi við leiðsögn Bodhisattvas, því allar sálir eru velkomnar til þeirra.
Vinna er aðeins byrði þegar kraftarnir eru dreifðir; en þegar samhæfingu að markmiði og framkvæmd þeirra er viðhaldið, eru jafnvel erfið verk ekki ofviða.
Skaðlegasta trúin er sú, að þó að maður gefi allt, sé engin umbun. Maður getur skaðað jafnvel bestu verk með slíkri hugsun. Gleymum ekki takmarkinu, þá er alltaf hægt að halda áfram. En að telja steinanna undir verðugum fótunum, dregur úr skrefum okkar. Fuglar á flugi telja ekki hverja hreyfingu vængja sinna.
Ekki einn einasti Fræðari telur að verkum sínum hafi verið lokið, eða að Honum beri umbun. Það eru eiginleikar sjálfsfórnar Bodhisattvas: sköpun af hverri hreyfingu óþreytandi handar, því augað veit vegalengdina að takmarkinu. Slík er vinna Meistaranna—eins og Eldur—alls staðar, sjálfsfórnandi og óslökkvandi í eðli sínu.

333. Mikilvægast er að ræða hugmyndina um fræðara. Það er nauðsynlegt að benda á stigskiptingu þeirra, þar sem hver er nemi annars hærri fræðara. Við þurfum að venja okkur við þá staðreynd að Fræðslan í heild sinni er án mótsagna. Vörðurnar kunna að vera langt frá hvor annarri, en þær eru á sömu vörðuðu leiðinni. Ef einhver heldur því fram að jarðvistir séu með þrjú þúsund ára millibili, hefur hann jafn rétt fyrir sér og sá sem heldur því fram að þrír mánuðir séu á milli þeirra.
Gleðin yfir möguleikunum er gleði yfir framtíðinni. Birting möguleikanna án þess að ganga gegn eðli lögmála, þýðir að nálgast fullkomnun. Ef þörf var á löngum tíma milli jarðvista í öðrum kynstofninum, er minni þörf á löngum tíma milli jarðvista við efnisaðstæður í sjötta kynstofninum. Venjum okkur við samlögun þessara kynstofna. Þriðji kynstofninn var varla fullþroskaður þegar sæði þess sjötta birtist í rýminu.
Sá sem fylgir fræðslu Eldsins verður að skilja fullkomnun efnisins. Sameining heima efnis og ljóss er að aukast. Það er tilvísun í þá umbreytingu sem kölluð er dauði. Það er óttinn við dauða sem lokar hliðum þekkingarinnar.
Það er gagnlegt að kenna ódauðleika í skólum. Trúarbrögð sem predika dauðann munu hverfa, sem og þeir sem trúa á dauðann. Vitundin ákvarðar framtíðarstöðu hver og eins. Þeir sem skilja raunverulegt afl eldsins, sem er ósýnilegt, skilja einnig merkingu dauðans, sem, þó sýnilegur sé, er yfirborðsleg birting að því ganga úr jarðvist.

334. Að spurningunni um svið heimanna, verðum við að benda á að himinhnettir geta verið hlutar af sólkerfum eða utan sólkerfa.
Ástand jarðarinnar er grafalvarlegt. Jörðin er veik.

335. Við ættum ekki að hugsa verk okkar aðeins metin af jarðvistum okkar. Ef rúm Ramakrishna fuðraði upp, dregur það eitthvað úr boðskap hans?
Er það mikilvægt fyrir fjárhirðinn að vita hvaða kind gefur bestu ullina? Er það mikilvægt fyrir garðyrkjumanninn að vita hve mikla ávexti einstök tré hans gefa? Nei, fjárhirðirinn verður að hirða um allan söfnuðinn og gæska garðyrkjumannsins er við allan garðinn.

336. Ekkert nafn vekur eins miklar árásir eins og Maitreya, því það er bundið framtíðinni. Ekkert vekur eins mikinn ótta og pirring í fólki eins og hugsanir um framtíðina. Stritið áfram til framtíðar, verið reiðubúin til átaka. Leynið ekki leit ykkar, því eldurinn leitar upp og aðeins háleitni mun styrkja sameiningu okkar.
Fræðsla Agni Jóga verður að umbylta innra lífi nema. Ekkert hið ytra, horn, halar, vængir, sjálfsyfirlæti, hjátrú eða illska, munu verða eiginleikar þínir.
Það er mikilvægt að hræðast ekki stærri verkefni, því það er besta leiðin til samhæfingar. Að sitja undir einu tré, kann manni að finnast það vera miðja heimsins. Að útvíkka anda sinn um allan heiminn, verður þú eins og eldurinn, gegnsýrir allt.

337. Vitundin er mælikvarðinn. Fegurðin hefur ekkert rými fyrir það ljóta. Lygina er ekki hægt að fela. Ágiskanir eru eldhús lyganna. Vöxtur verðmætanna er lífið. Vitundin er dómari tilgangsins. Karma vísar veginn, en oft er það leiðin til greiðslu gamalla skulda. Það er margir þættir í lífinu og aðeins vitundin getur dæmt um þá. Þroskið því vitundina. Ef við takmörkum okkur við dauðann bókstafinn, er eins gott að flytja í gröfina.
Ekkert þess venjulega kveikir eldinn. Vitundin samþykkir fórn. En hversu nákvæmlega er réttlætið meitlað í stein, og hversu mikil er sjálfsréttlætingin!

338. Hamingjutíma—köllum Við þroskaskref vitundarinnar, þegar, án þess að snúa baki við heiminum er samstarfsmönnum Okkar gefið tækifæri til að njóta samvista í bústað Okkur. En af hverju hefur ekki einn þessara útvöldu nýtt sér þetta tækifæri strax? Því, þó vitundarstig þeirra hafi opnað hliðin til Okkar, segir hún þeim að yfirgefa ekki starf Okkar þegar þess er þörf. Sjálfsfórn hinnar þroskuðu vitundar og vörn gagnvart bústað Okkar er geislandi markmið, bjarg frelsunar. Vitundarþroski dýpkar skilning á samhengi lögmála lífsins og leyfir aðstoð við vitund samstarfsmanna. En við væntum þess að Okkar útvöldu, jafnvel líkamlega, muni ekki fjarlægjast um of tinda Okkar. Það er ekki skortur á hollustu sem heldur samstarfsmönnum Okkar frá bústað Okkar. Hvert á móti, það er hollusta sem veldur því að þeir fresta þægindum sínum og gleði.
Það verður að hafa í huga að þroskaðar vitundir eru fáar. Þess vegna eigum við að fagna hverri slíkri vitund, jafnvel með göllum sínum. Eiginleikinn að meta rétt bæði galla og kosti er merki um rísandi vitund. Munið, Okkar verk eru ekki alltaf mest áríðandi. Sáðmaðurinn verður fyrst að ljúka við að dreifa fræjum sínum og þá getur hann svarað kalli Meistara síns, „Ég kem drottinn, Kalagiya.“

339. Fólk elskar engar minni birtingar en fíl og ekki minni hljóð en þrumur. En athafnir fínni orku gerast í kyrrð.

340. Mikilvægast er að læra að hugsa í einveru. Munum ábyrgð á hugsunum. Sannarlega ganga hugsanir gegnum þykkustu veggi. Ég ráðlegg rækilega sjálfskoðun og hafnið meðvitað efa, pirring og sjálfsmeðaumkun. Munið að enginn nema Fræðarinn getur hjálpað. Ég ráðlegg að litið sé á Fræðarann sem eina virki manns.

341. Að boða hið nýja tímabil Eldsins, þýðir að nauðsynlegt er að vita hvernig á að ná tökum á þessu frumafli. Veruleiki eldsins verður að ná inn í vitundina. Fyrir löngu sagði Ég þér af nauðsyn þess að samþykkja hugmyndir í vitundina. Getum við búist við að nýta Fræðsluna í lífinu ef við höfum ekki fengið nýja hugarhvata? Leitið ekki nýrra græðlinga þegar allt er óbreytt. Þar sem hið gamla ræður ríkjum, mun nýi Eldurinn svíða og lífið mun ekki ná nýrri blessun.
Látið orð Okkar um eldinn ekki verða ímynduð tákn. Ég tala um raunverulegan Eld. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem plánetan reynir áhrif þessa frumafls. Við hver kynstofnaskipti birtist Eldurinn sem hreinsandi straumur. Í minni mannkynsins er eyðileggingin við samruna kosmíska eldsins og eld í iðrum jarðar. Af hverju að endurtaka eyðingu Atlantis, ef það er hægt að laða að uppbyggjandi þátt eldsins? En til að nálgast Eldinn án ótta er nauðsynlegt að læra hvernig á að hugsa um hann og venjast við hann í vitundinni. Þegar hægt er að sjá útgeislun mannlegs líkama, munt þú greina skýrt hina leyndu tvöfeldni, þegar andlitið sýnir góðvild en hugsanir brýna hnífanna.
Við verðum að læra að meðtaka Fræðsluna á einfaldan hátt og fylla lífið með henni. Eldur getur verið mikil blessun.

342. Í greiningu efnisins hafa mörg frumefni orðið þekkt, en enn hafa tvö ekki uppgötvast né fengið nöfn. Annað er andleg orka og hitt er efni eldsins. Svo lengi sem kristalar sálrænnar orku eru ekki uppgötvaðir, mun efni eldsins verða óþekkt. Alveg eins og andlega orku er hægt að finna í gegnum hættu eða ógn, finnst efni eldsins við rannsókn á spennu andlegrar orku. Kosmíska eldinn er hægt að greina, þó sjaldan, með berum augum þegar hann þéttist nærri fjólubláu yfirborði hinnar verndandi áru. Geimurinn fyllist af logatungum, ef svo má segja. En til að sjá þessa birtingu þarf sterka áru, sem þolir nánd þessara áköfu loga. Á fornum myndverkum er hægt að sjá loga umkringja árur. En þetta efnislega fyrirbrigði hefur gleymst. Þér er fullkunnugt um hvað hefur verið sagt, en vísindin þurfa ekki að kvarta þó Við höfum lagt til að þeir leiti fyrst kristala, útfellingu óttans áður en þeir uppgötvi efni eldsins. Þau hafa næstum nú þegar uppgötva það. Það er auðveldar að eiga við efniseitur pirrings en að leita háleitar andlegrar orku.

343. Birting eldsins er sjaldan greind, því hraði hans er of mikill til fyrir ber augun. En hann er stundum stöðugri í nánd við áru. Bylgjur eldsins hafa sína eigin tíðni. Þú hefur þegar áttað þig á að birting er ekki einungis undir ytri aðstæðum komin, til að geta séð hana.

344. Í kraftaverki getur þú séð blekkingu viðburða og sannan veruleika. Ég endurtek, þú sérð veruleika, en hann er ekki það sem augun greina. Það á við um mörg fyrirbrigði. Oft lítur fólk ekki á veruleikann, heldur treystir fremur eigin misskilningi. Fólk spyr af hverju fínni orkan sé sjaldgæf. Svarið, að þvert á móti sé hún stöðug fyrir hendi, en mannleg sjón og heyrn kæri sig ekki um að skynja hana. Þegar komið er auga á hana, þá sannfærir fólk sig yfirleitt um að því hafi missýnst. Það er viðhorf óþroskaðrar vitundar. Athyglisgáfuna ætti að þroska í skólum. Í skólum þarf að nauðsynlega að reyna á þennan eiginleika. Besta leiðin til þess er í þögn og myrkri.
Skiljið enn og aftur, að tíminn til breytinga á meginlöndum nálgast. Maitreya er að koma, í fararbroddi vísindanna að nýjum landamærum. Öll vandamál vísinda og allrar þróunar er efni sem varða Fræðarann.

345. Það er ekki auðvelt að læra að hugsa. Það er erfitt að þroska hugarafl og enn erfiðra að ná háleitri hugsun. Fólk endurtekur oft með sér, „Ég ætla að hugsa hreinar hugsanir.” En tilvera hans hefur snúist um sjálfhverfar hugsanir og verstu hugsanir eru niðurstaðan. Tveir fuglar sem fljúga í ólíkum hópum, geta ekki sameinast. Það er nauðsynlegt að þjálfa hugsun, ekki huglægt, heldur með eldi andans, þar til öll óeining hugsana hverfur.
Hugsun hefur aðeins áhrif ef hún er einsleit og heil. En hver sprunga dregur úr afli hennar og orsakar kosmískan harm með því ósamræmi sem hún sendir út. Það er nauðsynlegt að helga sig þeim tíma sem þarf til að ná tökum á hugsunum, en á sama tíma að minna sig ætíð á, að allar hugsanir hafi sama kjarna.
Við gleðjumst af fjölbreytileika hugsanna, en hver hugsun verður að vera eins og demantur, hrein og velmótuð.

346. Ég hef þegar sagt þér af umfangi andans. Það ætti ekki að undra að þroskaður andi geti birt sig víða, jafnvel í mikilli fjarlægð, sem dregur hann að andlegum þáttum þeirra sem þar eru. Við eigum ekki að gera ráð fyrir að áhrif slíkra ferðalaga andans séu alltaf ósýnileg. Við gefum peninga án mikillar athygli, jafnvel án þess að vita hverjir njóta þeirra. Hversu miklu meira gefur andi okkar af fínni orku, sem rennur þangað sem hún nýtist best.
Þroskum því með okkur sjálfsfórn andans.

347. Fólk talar oft um endalausa vinnu, en í raun óttast þau slíkt. Aðeins þroskuð vitund finnur gleði í endalausu starfi. Aðeins Okkar fólk skilur hversu lífið er gegnsýrt verkum sem eflir styrk þeirra til afreka. Það er hægt að skilja að eins og eldurinn er óslökkvandi, eins er orkan sem verður til við vinnu.
Uppfylling Agni Jóga byrjar frá þeirri stundu er við skiljum mikilvægi vinnu. En ef orkan til að viðhalda eldinum er ekki næg, munu eigin skýjabólstrar slökkva hana. Orkuspennan kemur ekki af skipun hugans, né eykst hún af skipun að utan. Hún vex aðeins innan frá. Hins vegar getur aðeins frjáls vitund umbreytt vinnu í hátíð andans.
Forðist einnig viljaþvingun annarra. Látið köll ykkar loga eins og eldinn sem fyllir allt. En veginn sem fylgir þessum andans eldum verður hver og einn að leggja fyrir sjálfan sig. Starfið í umhverfinu er svipað. Sá fávísi lítur svo á að öfl geimsins séu utan sviðs persónu sinnar. Hann heldur að allt sem hann er, muni deyja með honum. Í rauninni er það svo að kristall fávísinnar verður óbrjótandi það til þekking sem andinn öðlast brýtur niður þetta líflausa efni.
Til að leita Jóga Eldsins, verður fólk að skilja innri eldinn sem kviknar við vinnu. Samspil orku nærir eldinn og eflir hann svo brautir hans ná sviðum hæstu heima. Við segjum að Agni Jóga sé mesta nauðsyn lífsins, því lífið byggist á samspili orkugerða.

348. Skilningur á að kjöt er ekki æskilegt fyrir líkamann, liggur í skaðsemi þess að melta dauða vefi. Hægt er að leyfa sumt reykt kjöt, en aðeins á ferðalögum. En almennt mæli Ég með að forðast neyslu kjöts. Það er gott að hafa epli við höndina. Efni þess ávaxtar eru góð fyrir öndunina meðan hann er óskemmdur.

349. Fræðarinn meðtekur hvert hollustutákn. Hollusta og ákafi styrkja bönd milli heimanna.

350. Sjálfsfórn er fljótlegasta leiðin til að öðlast inngöngu. Íhugið hvers vegna djúprar innöndunar er þörf í öllu líkamlegu. Tengist það ekki orkufærslu, sem við höfum verið að ræða í dag? Hvernig getur eitthvað yfirnáttúrulegt verið í efnislegri birtingu?

351. Þú veist viðhorf Okkar gagnvart geðheiminum. Þú veist hve mikið þróunarferill hans þarf að breytast. En þó bent sé á ófullkomleika geðsheimsins, getum við ekki hafnað honum, því ekki er hægt að hafna því sem er í tilvist. Við verðum að efla þekkingu, ekki út frá okkar persónulegu löngunum, heldur í raunverulegri merkingu. Fólk getur aflað sér þekkingar um geðheiminn, jafnvel meira, og gert hann þannig sýnilegri. Með þeim hætti getur það aðstoðar Okkur til að þétta geðheiminn. Þegar fólk les um sýnilega birtingu úr geðheiminum, eru þær taldar óvenjulegar. Það er ekki nægileg hugsun að baki því að hafna því sem er óhjákvæmilega nærri. Það væri gagnlegt að samþykkja það og sjá það frá nýju sjónarhorni.
Hvernig getum við barist fyrir bættum aðstæðum í lífinu ef við rannsökum það ekki nægilega vel? Þú getur rætt um hvernig þétting geðsheimsins hefur áhrif á lífið við þá sem spyrja og um tilraunir hvernig hægt er að breyta eigin efnislegri staðsetningu eða hlutum. Þú getur bent á að tilraunirnar byggi á náttúrulegum lögmálum og geti ekki kallast yfirnáttúrulegar. En vitund sem er undir aldagömlu ryki skilur ekki strax veruleika hlutanna. Sem dæmi, þegar Ég tala um þolinmæði, er nauðsynlegt að skilja það sem grunvallarþátt í daglegu lífi. Hver myndi reka þreytandi gest út í rigningu? Slík árás frumafla er ekki langvinn og eina sem þarf, er að nota tímann eins vel og hægt er. Við verðum að skilja að hugsun hér og nú leitar í átt til sameiningar við sviðin og mannleg hugsun þróast í átt til vaxandi vitundar.

352. Óttinn við geðbirtingar byggist á öðru en ótta við drauga. Við verðum að skilja að kuldi geðsheimsins vekur upp efnaviðbrögð í fólki.

353. Ef þau spyrja um ávinning vísaðu til þessarar sögu:
Maður gaf mikið gull fyrir góða vinnu, en beið svo eftir viðurkenningu verka sinnar. Einu sinni sendi fræðari hans honum stein með skilaboðum, „ Þiggðu þessa viðurkenningu, fjársjóð frá fjarlægri stjörnu.“ Maðurinn varð móðgaður, „Í staðinn fyrir gullið mitt, fæ ég grjót. Hvað er fjarlæg stjarna fyrir mér?”
Í reiði og höfnun kastaði hann steininum í straumharða ánna.
Þegar fræðarinn kom, spurði hann manninn, „ Hvernig fannst þér fjársjóðurinn? Í steininum var verðmætur demantur, fegurri en allir jarðneskir gimsteinar.”
Í örvæntingu sinni æddi maðurinn út í straumharða ánna, straumurinn greip hann og bar hann æ lengra niður ánna. En straumiðan huldi fjársjóðinn augum hans að eilífu.

354. Með því að hafna ótta, fordómum og hræsni, getum við tengst hinu ósýnilega lífi. Hægt er að sjá, án þessara þriggja óvina, hvernig dulheyrn og dulsýn kann að þroskast.

355. Þeir sem vilja nema Agni Jóga, verða beina athygli sinni að púlsi frumaflanna, því þetta náttúrulega fyrirbrigði eiga frumöflin sameiginlegt. Sálfræðilega tilraunin í gær sýndi orkutaktinn sem púls. Þagnir eru á milli athafna, eins og Pralaya er á milli Manvantara. Það kann að virðast fjarstæðukennt að tengja eigindir andans við athafnir frumaflanna í öllum efnislegum ferlum, en það eru óhrekjanleg tengsl milli ákveðinna anda og innstreymi orku. Þú kannt að verða hissa á að sjá hvernig andar sem ekki eru í jarðvist geta þétt útfrymi fyrir sig og hinsvegar hvernig efnislíkamar get öðlast fína eiginleika.
Sannarlega er brú milli þessara tveggja heima! Útfrymi er gert með hjálp frumafl elds.

356. Það ætti ekki að vera einungis forvitni sem fær mann til að rannsaka púlsslátt frumaflanna. Öll þekking er gagnleg. Mikilvægi takts hefur lengi verið viðurkennd, en púlstaktur frumaflanna er sérstaklega mikilvægur og hefur sérstök áhrif.

357. Mahavan og Chotavan eru mest einkennandi fyrir takt Eldsins. Sá sem nær tökum á þessum takti á auðveldar með að nálgast þetta frumafl. Það næst ekki með óbeinum hætti, eins og ákalli, heldur með einfaldri nálgun vitundar inn á þau svið sem þú telur mikilvæg. Við verðum að skilja taktvísi, því hvernig annars getum við gefið athöfnum okkar áhrif? Ef líflaus sandurinn skipar sér í tiltekin form eftir tíðni takts, hversu miklu meiri áhrif hefur hann á menn!
Þekking en ekki galdrar sem vísa veginn til umbreytinga. Þessi leið er mest áríðandi. Um það var mannkynið minnt á tímann fyrir lok Atlantis. Það er ekki rétt viðhorf að álíta að ef dagurinn líður tíðindalaus verði morgundagurinn það líka. Hver stund getur umbreyst í aðdraganda Nýja Heimsins.
Finnið leið til að gera fræðsluna hluta af daglegu lífi. Uppteknasta fólk getur fundið eina stund dagsins fyrir hana. Eigum Við að trúum því að stund fyrir hið mikilvægasta sé ekki til, einmitt fyrir það sem við lifum fyrir. Daglega neytum við matar, og finnst dagurinn ömurlegur á þess. Andi okkar krefst einnig næringar í hugsunum og það er glæpur að dagur líði án þess. Eflum hugsanir okkar og lítum á grunn Jóga sem brauð og mjólk. Það á ekki að vera þvingað, því fræðslan sjálf dregur að sér og temur allt sem hindrar vöxt.

358. Það er rétt að skilja örninn í gömlu ritunum sem súrefni. Brennisteinn, sink og platínum eru einnig oft tákngerð í gömlum formúlum.

359. Það er erfitt að fá hraðfleyga fugla til að fljúga hægt. Stærri fórn er ekki til en þegar þroskuð vitund verður að helga sig efnislega lífinu.

360. Þegar fólk uppgötvar andlega orku, mun Nýja tímabilið staðfestast.

361. Það er tvær tegundir rökvísi: ytri rök, sem er lærð af bókum, og huglæg samhæfing sem er safnar og tengir hugsananeista. Þessir neistar kunna að sýnast hugdettur, en þessar „hugdettur“ kunna að hafa þroskast í geimnum í heila öld. Víkkun vitundar gerir mögulegt að ná slíkum tengingum. Ytri rökin finna alltaf augljósa vankanta á ferli huglægra samhæfingar. Ytra yfirborð hringspírals snýr að áhorfandanum, en hann sér ekki aðra þætti hans, hina innri, svo er með ytri rökin sem takmarkast við ytri snúninginn, meðan innri hreyfingin tengist straumi samsafnaðra hugsanna í geimnum.
Þess vegna leggjum við svo mikla áherslu á víkkun vitundarinnar, svo samtenging við hugsanastrauma geti átt sér stað. Eins og mikilvægi súrefnis, þarf þetta einfaldlega að vera viðurkennt. Jafn mikilvæg þarf hugmyndin um spíralgang alls sem er í náttúrunni og skapandi útþenslu að vera. Þannig verður að skilja kosmíska öndun, sem rísandi spíralgang. Hið hreina grundvallareðli, sem má líkja við súrefni, dregur Materia Lucida fram úr hinum óbirta geimi, þar mætast kosmos og kaos, þessi árekstur lífs og ólífs veldur röð skapandi útþenslu. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að skilja að án kosmíska eldsins hafa þessar sprengingar, útþenslur, engan takt, því kosmíski eldurinn stýrir púlsi Kosmosins. Við fögnum ef þú nærð þínu eigin hljómfalli. Því hver og einn hefur sinn takt og núverandi aðstæður lífs hvers og eins, ákvarðar hann. Við ættum að samþykkja kosmískar sendingar í opinn Kaleik okkar. Það er öryggi fyrir samhæfingu. Hver og einn þarf að fylgja sínum innri takti, því þroskuð vitund getur ekki verið án hljómfalls.
Samsetning tveggja tólffletunga er gagnleg til að efla takt elds. Þegar næg orka hefur safnast, mun ég sýna það, því þessi hverfuli taktur er nauðsynlegur til að nálgast Agni Jóga.

362. Hver sem veit brot af Sannleikanum, er hæddur sem dulspekingur. Þeir sem standa gegn sannri þekkingu eru lofaðir sem raunsæismenn. Af þessu sést hversu jarðnesk hugsun er orðin umsnúin. Það er slæmt ef hugmyndin um Fræðara skilst ekki. En það er enn verra ef hún er skilin og krafist er af kennaranum hvað neminn ætti að geta. Frekar ætti að fara saman virðing fyrir honum ásamt því að treysta á eigin mátt.

363. Fólk elskar að tala fjálglega um ris og fall, öldur ljóss og hljóðs og segulstrauma; en því yfirsést andleg orka, þó bylgjur hennar séu öflugri en allt annað í heiminum. Það er vísindaleg staðreynd að bylgjur hennar haga sér eins og útgeislun stjarna. Athafnir og viðbrögð er hægt að rannsaka um langan veg. Bylgjur geimsins, eins og kosmísk vitund, hafa meiri áhrif á næma viðtakendur, en eigin vilji eða vitundir Geðheimsins. Hægt er að ímynda sér afl þessara bylgja flæða yfir heiminn, sem bera með sér endalausa gleði eða hörmungar.
Af hverju mælum við loftþrýsting en hirðum ekki um aðra þætti sem hafa áhrif á geðslag fólks? Lífið snýst um geðslag fólks. Fjöldi manna er nægilega næmur til að rannsaka, en í stað þess að læra af næmni þeirra, lítilsvirðir heimurinn þau frekar og telur þau hjátrúarfull. Sorgleg fáfræði kemur í veg fyrir að þessi orka, sem knýr á gluggann okkar, nýtist lífinu. Það er tími til kominn að skilja réttan uppruna samsafnaðs strits, sem menn finna í ánægju sinni eða falli. Fyrri kynstofnar veittu andlegri orku athygli. En okkar kynstofn, sem þó er að hverfa, neitar enn að skilja eftir sig gagnlegan arf til afkomenda sinna.

364. Ef, að liðnum þessum sjö árum, Ég segi; „Allt er mögulegt,” mun það skiljast? Munu menn ekki haga sér eins og mótstöðumennirnir, vera tilbúnir að standa gegn veruleikanum? Að fylgja bókstafnum er hættulegt; en er vitundin tilbúin að skilja að sköpun hefur endalausa möguleika?

365. Sérstaklega má ekki hræða með Fræðslunni. Sannarlega er hægt að gefa hverju lífi blómstrandi grein. Fræðslan á að vera eins og morgunljós.

366. Af hverju að takmarka skilning á ráðum Okkar? Fjársjóðinn á að nýta í daglegu lífi af meiri visku og víðsýni. Breiðari skírskotun til fræðslunnar mun gefa meira gull í mund. En auðveldlega er hægt að eyðileggja það sem vænst er, því rödd Okkar er eins og þytur í grasi.
Ekki á að ganga gegn afstöðu frjáls vilja. Við kunnum að harma og reyna að hvísla enn á ný, en lögmál frjáls vilja, órjúfanlegt einkenni mannsins, ábyrgist reisn hans. Þegar Ég segi, „Þvingið ekki,” hef Ég sérstaklega í huga lögmál frjáls vilja. Hver myndi þvinga græðling sem er mótaður af eigin vilja? Myndi ekki endurkastið vera verra en þvingunin? Finnið heldur leið til að laða fólk að, án þess að þvinga vilja þeirra. Ekki er hægt að falsa sjálfsfórn. Ekki er hægt að fyrirskipa sjálfsfórn. Þegar andinn, án umhugsunar um sitt eigið, tekur á sig þjáningu annarra, er það gert af frjálsum vilja. Jafnvel einhverskonar stjórn á ekki við þar sem fórn er boðin af fúsum viljum. Er eining andans möguleg ef þvingun er fyrir hendi?
Sjáið, hvernig hin fúsi logi blossar upp! Engin sársauki breytir þeirri leið sem vilji andans hefur ákvarðað!

367. Rífumst ekki eins og hundar. Vitundin leggur á okkur að skilja afleiðingar rifrildis. Óvarleg orð skapa svarta sveipi. Það er hættulegt að menga andrúmsloftið. Það er hættulegt að vekja upp endurkast á sjálfa sig og sína. Það er sagt að apar verði auðveldlega móðgaðir. Hvað snertir það okkur? Tígrisdýr geta orðið mjög pirruð. Hvað snertir það okkur? Sagt er að haninn gali án ástæðu. Sagt er að hrægammur næri grimmd sína endalaust. Hvað snertir það okkur? Páfagaukurinn endurtekur slúðrið. Hvað snertir það okkur? Sagt er að endur geti ekki stjórnað taugum sínum. Hvað snertir það okkur? Við skulum því ekki herma eftir þeim.

368. Ekki óánægja, né pirringur, heldur hamingjutilfinning er nauðsynleg. Það er sönn hamingja að vinna verk Fræðarans.

369. Í síðasta sinn mun Ég tala um pirring. Skoðið skaðsemi hans—ekki aðeins persónulega, heldur einnig á umhverfið. Þessi naðra, að baki brosi og kurteisi, borar sig óþreytandi í gegnum áruna. Skaðsemi þess grefur undan öllum verkum. Í nafni sköpunar, standið ákveðin gegn pirringi. Þegar hann, eins og blóðtappi sem lokar eyrunum, getum við þá heyrt? Þegar hann lokar augunum, getum við þá séð? Þegar tjöld falla fyrir vitundina, hvar eru þá afrekin? Við eigum að gæta eldsins sem fjársjóð. Fosfór taugaanna eyðist eins og kveikur, hvað er lampi án kveiks? Hægt er að bæta á „ozonolíu“, en án kveiks er ekki hægt að tendra eldinn.
Tákn eldsins minnir okkur á heilagasta efnið, sem safnað er með miklu erfiði, en getur tapast á svipstundu. Hvernig getum við búist við að mynda áru okkar þegar við erum að sökkva í myrkrið?
Verið því óþreytandi við að vara alla vini við.

370. Segið við Oriole, hinn gullna fugl: „Þegar þú flýgur upp í Hæsta turninn, mundu fortíðina. Mundu hvernig þú eyðilagðir fjársjóðina og braust gegn sköpun andans, og týndir því leiðinni að þeim. En stritið hverfur ekki; það er innbyggt í lífið. Þú hefur safnað fjársjóðum andans. Hve margir aðrir hafa leiðina svo vel lagða? Sá sem hefur yfirstigið allar hindranir getur frekar sigrað umhverfið. Vængir eru aðeins gefnir fuglum til að fljúga.” Munið það!

371. Við rannsókn á fínni orkugerðum, þarf ekki aðeins að skoða stærri viðburði, heldur einnig smærri strauma, því þeir gefa markverðar niðurstöður. Það er nauðsynlegt að byrja á áþreifanlegum uppsöfnunum. Aðeins nýlega eru byrjaðar rannsóknir á frumuefni líkamans. Fjólublátt verndarnet árunnar hefur einnig nýlega verið uppgötvað. Bæði fyrirbrigðin eru á áhrifasvæði eldsins. Það fyrra er árangur af verkun fosfórs. Það seinna sýnir afl eldsins, sem dreginn er úr loftinu af heilbrigðri lífsheild líkamans. Því þarf að gæta loga líkamans, svo áhrif eldsins séu öflug. Ráðleggingar Okkar eru til að styrkja þessa loga. Það eru eldbylgjur tauganna sem þarfast athygli, en ekki vöðvarnir. Þær þarfast næringu og endurnýjunar. Jurtin sem þú komst með úr fjallinu, er hægt að nota á gagnlegan hátt í mörgum rannsóknum. Uppsöfnuð orkasafa þess nærir afl eldsins. En rannsaka þarf önnur not þess. Hitamyndun laufa þess og olía úr berki þess er það besta fyrir verndarhjúp árunnar.
Milli hinna tveggja þátta upprunans—Ljóss og Myrkurs—lýsir verndarhjúpur árunnar eins og brynja. Sannarlega eru mörk á milli Ljóss og Myrkurs! Þannig nálgumst við Hinn Gullna meðalveg Buddha frá öðru sjónarhorni. Lína skiptir þessum þáttum. Eins og elding lýst hún frá meginþætti hins eina Uppruna. Eins og vörn og brú sameinar eldurinn andstæðurnar. Menn ættu að meta afl þessarar einingar! Hver sem nær tökum á og skilur það, hefur sigrað Myrkrið.
Læknar eiga að rannsaka merkingu ósjálfráða kerfisins og verndarhjúp árunnar.

372. Það er mikilvægt að skilja átökin innan sólkerfisins. Það er ekki hægt að lýsa þessum árekstrum milli sjúkra og heilbrigðra lofthjúpa með öðrum hætti. Þeir straumar sem minnst var á í gær vernda plánetuna gegn eitruðum uppsprettum. Mannlegt vitundarstig í dag bætir mikið við þessar skaðlegu aðstæður. Hættulegar afleiðingar þeirrar uppspretta er ekki hægt að ímynda sér.
Aðeins með tökum á Eldinum er lausn möguleg. En Eldinn verður að færa inn í lífið. Það er ekki nóg að skoða merki um eldinn nærri mannlegum líkama. Skoða verður hvernig eldurinn hefur áhrif á vitundina. Þær tilraunir eru einfaldar og hjálpa við að þróa aðferðir sem ekki er hægt að fá úr bókum. Eldurinn snertir lífið oftar en haldið er.

373. Sveigjanleiki vitundar er eiginleiki hærri heima. Við ættum að skilja af hverju konunglegar jarðvistir skiptast á við skósmiði, án niðurlægingar. Það er erfitt fyrir jarðneska menn að skilja slíkan sveigjanleika, því þroski andans er ekki skilinn. Sveigjanleiki kennir manni að sjá hlutina frá mismunandi sjónarhornum. Þá hættir máltækið „með höndum og fótum“ að verða afstætt.
Þú þarft að skilja óskeikulleika forsjónarinnar. Þess vegna þarftu stöðugt að leita og ekki festast í einni skoðun. Ef óvinur lokar einni leið, þá opnar hann með því aðra leið.

374. Sá sem fylgir fræðslunni lætur af afskiptaleysi sem svo margir kjósa. En sá sem fylgir fræðslunni ekki, verður að meðtaka karma að fullu. Dæmið sjálf um hver gengur rétta veginn. Þegar þið fylgið fræðslunni, getur þá nokkuð mistekist? Fræðslan ber með sér fágun vitundarinnar sem mikil hamingja. Hvar, er þá hægt að finna jafn mikið afl og fylgir fræðslunni? Fylgið því fræðslunni vandlega.

375. Í hverju liggur árangur jógans? Það er ekki í aðdáun né sinnaskiptum fjöldans. En af verkum jógans sést hvernig aðrir herma eftir honum. Vitandi eða óvitandi, sjálfrátt eða ósjálfrátt, byrjar fólk að vinna sömu verk. Jafnvel óvinir hans dragast að þeim þó þeir bölvi honum. Það er eins og sérstakt andrúm safnist að athöfnum jógans. Það er sannur árangur, þegar hvorki fé né frægð, heldur ósýnilegur eldur kyndir hjörtu manna. Þessi hjörtu sem vilja herma verk hans, bera eitthvað áfram af þessari skapandi dögg. Árangur kemur ekki aðeins að utan. Hann er skapaður af samvinnu mannlegra handa og hugsanna.
Fyrir þeim er jóginn hin eini vegur, hin eini móttakandi kosmískrar orku, eins og ljósviti. Hann byggir það sem á að byggja. Hann leggur þá steina sem ætlað var. Óvinir hans kunna að skjálfa, en finnst þeir þurfi að endurtaka orð hans. Jóginn predikar ekki. Hann tala sjaldan fyrir fjöldanum. En athafnir sem honum var treyst fyrir, dafna með sérstökum ljóma. Sumir þekkja jafnvel ekki, né var ekki ætlað að skilja tilgang verka hans, heldur aðeins að kveikja neista í hjörtum þeirra. Hvert fljúga neistar eldsins? Sjá þeir ekki alla eldanna og alla ferðalanganna sem ilja sér við loga Agni Jóga? Eldur hans logar bjartari, því hann brennur ekki fyrir hann.

376. Hvernig skilgreinum við árangur? Sannarlega eru verk árangursrík þegar þeim er fylgt eftir jafnt af vinum sem óvinum. Skoðið verk þeirra sem fylgja og segið við ykkar sjálf, „Allt kemur af okkar eldi.“ Öll misstök eru brennd í burtu í þeim eldi sem á eftir kemur. Við getum haldið hugrökk áfram lífið þegar ljósvitinn lýsir veginn, þegar hætturnar sjálfar eru hluti af blæju Móður Heimsins.
Heimsmóðirin hræðist ekki hinn Mikla Leik.

377. Gætið fræðslunnar sannarlega sem perlu. Haldið bókum Okkar hátt, í daglegri gleði og vinnu fyrir þroska ykkar. Umgangist fræðsluna af árvekni eins og sverðs. Er hægt að leyfa að kæruleysi læðist í kringum fræðslu lífsins? Með hverju öðru getum við umbreytt lífi okkar? Með hverju öðru finnum við leið inn á svið andans sem býr í okkur?
Teljum daganna sem við eyðum til einskins og sjáum eftir. Teljum stundir okkar sem ekki er nýttar í fræðsluna. Geta við selt þær stundir sem við helgum fræðslunni, fyrir gull? Getum við sætt okkur við tötra fáviskunnar eftir að hafa verið í fögrum klæðum, prýddur blómum Móður Heimsins? Hvernig getum við varið deginum venjulega, þegar fjársjóði er stráð meðfram leiðinni? Við verðum að venja okkur við óvenjulega atburði lífsins.
Eins og segull dregur til sín járnið og segulmagnar það, svo eykst næring seguls hvers anda. Án næringar, sér andinn ekki hve margar dyr eru honum opnar.
Samkvæmt lögmáli efnisbreytinga, er nauðsynlegt að skapa stöðugan straum að og frá. Við getum ekki búist við að við munum allt sem við lesum. Garðyrkjumaðurinn er ekki verðugur ef hann heimsækir garðinn aðeins einu sinni. Það er nauðsynlegt að skilja táknin, en hver og einn þarf að skilja þau sem sín eigin. Manns eigin bók er alltaf við höndina. Undursamlegur er skilningurinn sem veldur umbreytingu í lífi manns.
Við óskum að fræðslan Okkar sé meðhöndluð af virðingu.

378. Við gátum sýnt Tólffletunginn, en það var ekki auðvelt. Tökum eftir öllum táknum eldsins og andlegri orku. Þannig getum við staðfest skilninginn á sambandi þessara æðri þátta. Með því að þreifa okkur áfram, uppgötvum við hvernig andleg orka birtir sig í hversdags lífinu.
Það er raunarlegt að eftirtektarverðustu birtingar þessarar orkugerða vekja enga athygli. Fólk sér og heyrir óvenjulega hluti, en hugurinn eyðir þeim, því hann skilur þær ekki. Hversu öflugar þurfa þessar birtingar að vera til að mannlegt auga taki eftir þeim?
Þegar maður sér og finnur fyrir eldi, sjálfkveiktum og nærandi, telur hann að þetta sé rafmagn. Þegar hann heyrir titring bjölluhljóm úr tómu loftinu, dettur honum í hug hljóðbylgjur. Þegar hann sér litríka stjörnu nærri sér, flýtir hann sér að sjálfsögðu til augnlæknis. Þegar hann sér formmyndun í loftinu, hugsar hann um loftsteina. Þegar hlutir birtast skyndilega hjá honum, þá grunar hann aðeins nágranna sinn—ímyndunarafl hans ræður ekki við meira. Næstum aldrei tekur hann eftir því sem birtist í hans eigin líkama. Samt eru það þessir litlu hlutir sem byggja mikla reynslu. Ályktun á ekki að verða til með skipun, heldur þarf að fara eftir eigin andlegu leið. Tökum vandlega eftir.

379. Himnu- og frumbygging kirtlana opnar þá fyrir eldinum, því næmari sem kirtlarnir eru, því betra.

380. Það er satt sem sagt er, að birtingar komi fyrst sem þruma en síðan í þögn. Það er ekki hægt að heyra hljóð í þögn, án þess að hafa fyrst reynt það í þrumu, sem er auðveldara, en þreytandi. En eftir þrumu, fylgir þögn og í henni finnst hið sanna. En, getur myrkur verið til í augum þess sem hefur öðlast ljósið? Eða þögn í eyra sem hefur heyrt fæðingu hljóðs? Hvernig getur Materia Matrix verið hljóðlaus eða án ljóss?
Það er vel þekkt, að hægt er að opna hvaðeina sem er læst, annað hvort með því að brjóta það upp eða með mjög fínum hljóðtakti. Svo er með öll önnur efnissvið, við eigum að venja okkur við að mikilvægar birtingar komi ekki með látum og heldur reyna að nema flug fiðrildis. Þetta er ekki auðvelt að læra, því lífið er fullt af hamarshöggum. Fín orka er ekki viðurkennd í hversdagslífinu og því lengra sem mannkynið fer, því grófar misnotar það þau lægri öfl sem það hefur vald yfir.
Daglega verðum við að bæta skilning okkar á fínni orku, því í henni liggur framtíðin.

381. Það er sérstaklega erfitt að greina hegðun sem tengist ekki venjulegum taugaviðbrögðum fólks. Það er sjálfstjórn jógans.
382. Lífsstraumurinn færir stöðugt innflæði orku. Þegar móttökustöðvar eru opnar getur ekkert hindrað þetta innflæði.
Það er hvorki aldur né veikindi, heldur fordómar sem hindra hamingju, og pirringur er afkvæmi fordóma. Engin getur losað sig við pirring án þess að uppræta fordóma. Stöðug viðleitni getur hjálpað manni til að meta birtingar lífsins. Ekki afneitun, heldur þarf skýran skilning á lífinu. Eins og sverð réttlætis, á heiti okkar að móta rétt viðhorf.
Lesa á fræðsluna á hverjum degi, því hver dagur veitir ný tækifæri til að nýta hana.

383. Í leitni okkar til framtíðar, þarf að veita samhæfingu hugar og líkama sérstaka athygli. Það er erfitt fyrir líkamann að fylgja andanum eftir, kvíðaköst geta átt sér stað þegar andinn æðir upp til hæða.
Það eru einnig aðrar aðstæður sem eru mikilvægar, og vegna þess verð Ég að biðja þig að forðast eins og mögulegt er, að nefna persónuleg nöfn. Fólk sem beinir sjálfum sér að einhverjum sem er fjarri, setur byrðar á þann sem nefndur er, sérstaklega ef andi hans er mjög næmur. Þú hefur tekið eftir að jógi breytir oft um verustað og forðast að nefna nöfn. Það er vegna vitneskju hans um fræðsluna, sem veitir skilning á þeim áhrifum sem sending nafna út í geiminn hefur.
Aðeins í mjög áríðandi tilvikum kann maður að setja byrðar á aðra lifandi veru. Við verðum að skilja að vöxtur andans hefur áhrif á líkamann og með því að yfirkeyra anda annars, getur það valdið skaðlegum viðbrögðum líkamans. Þess vegna á að hugsa til hans, sem er að þroskast í andanum í einveru. En aðrir sýna litla tillitsemi í þessum efnum. Þeir íþyngja þeim sem eru að þroskast andlega með lítilsverðum spurningum og skilja ekki skaðsemi hugsunarleysis síns. Þeir sem eru að þroskast andlega eru oft ekki heilsuhraustir.

384. Það er nauðsynlegt að læra að stjórna andlegri orku sinni. Auðvelt er að sjá hvernig skortur á samhæfingu eigin krafta hindrar árangur, og ef maðurinn er líka óþolinmóður, getur árangurinn tapast algerlega.

385. Hinn blessaði benti nemum sínum á fakír sem henti bolta af mikilli leikni og hitti ávallt skotmarkið, tveir drengir hlupu ávallt til að sækja boltann og færðu honum aftur. Hinn Blessaði sagði, „Þessi maður hefur öðlast fullkomnun í að kasta bolta og hver bolti sem hann kastar snýr aftur til hans. Svo er einnig með hverja gjöf sem þið gefið, en aðeins ef hún er fullkomin. Lærið því að fórna fullkomlega, því list á að vera í hverri fórn.”
Hinn Blessaði benti einnig á þöglan mann og sagði: „Hver getur skilgreint mörk þagnarinnar? Það er erfitt að finna rétt orð, en enn erfiðara að finna fegurð þagnarinnar.”
Þannig kenndi hin Blessaði hljóða fórn.

386. Sálræn orka þarfnast æfinga og þú sérð hversu erfitt er að ná tökum á henni. Það er erfitt að setja í orð hvenær og hversu mikið nemi má nota krafta kennarans. Aðeins næmur skilningur kemur á réttu samræmi. Það er engar nákvæmar reglur sem skilgreina tengslin milli nema og fræðarans; lífið sjálft vísar leiðina til þess eina vegar sem þeir ganga saman. Ég get aðeins sent geisla mína til þeirra sem eru sameinaðir.

387. Meðal tilrauna með sálræna orku eru nokkrar einfaldar og gagnlegar tilraunir. Tilraunir á öðru fólki og dýrum geta verið hættulegar, því ef viðfangsefnið er öflugt getur það auðveldlega valdið bakslagi. Ef viðfangsefnið er veikt, er hættulegt að þvinga það. En það er þriðji flokkurinn—plöntur—sem eru mjög gagnlegar fyrir tilraunir. Tilraunir með plöntur taka nokkra mánuði, en gefa bestu niðurstöður við að ná tökum á sálrænni orku. Notið nokkrar plöntur af sömu tegund, nokkurn veginn af sömu stærð. Tegundin skiptir ekki máli. Hafið þær í sama herbergi og fylgist með þeim án sérstakrar athygli. Skiptið þeim í þrjá hópa eftir tvo mánuði og setjið hvern þeirra í sitthvort herbergið. Verið afskiptalaus við fyrsta hópinn, sendið góðar hugsanir til annars hópsins, en sendið neikvæðar hugsanir til þriðja hópsins. Þessar sendingar þurfa að gerast nærri þeim og nota ætti takt Mahavan við þær. Það er gagnlegt að skiptast á sjö daga fresti með minnkandi og aukinni lengd og ákafa þessara sendinga. Nægilegt er að þetta sé endurtekið þrisvar á dag, að morgni, hádegi og við sólsetur. Vökva skal plönturnar að morgni, með örlitlum sóda út í vatnið. Við sólsetur ætti að vökva þeim með valerian upplausn. Þannig á að halda áfram aðferðinni við plönturnar og með reglulegum takti í framkvæmd. Ekki má nota eitraðar plöntur við þessar tilraunir, né plöntur af liljuætt eða burkna. Með þessu mun útgeislun sálrænnar orku vaxa. Síðar er hægt að sýna áhrif sálrænnar orku á vatn og loftstrauma. En það krefst næsta spennustigs. Þannig er hægt í daglegu jarðneski lífi að ná margskonar gagnlegum áhrifum.

388. Steinaríkið er ekki síður gagnlegt en jurtaríkið í tilraunum með sálræna orku. Taktur fær sand til að mynda ýmis form. Sálræn orka getur framkallað titring með svipuðum árangri. Hið forna máltæki, að vilji geti flutt fjöll, er byggð á þekkingu á afli titrings.

389. Pirringur er að sjálfsögðu það sem eyðileggur sálræna orku. En við megum ekki gleyma þremur öðrum skaðvöldum: hræðslu, efa og sjálfsvorkunn. Þegar það verður orðið mögulegt að mæla sálræna orku, verður áhugavert að fylgjast með hvernig þessir skaðvaldar trufla flæði orkunnar. Orkuflæðið er hægt að efla með viðleitni sem byggist á sjálfsfórn og athöfnum. Sá mælanleiki staðfestir veruleika þessa grundvallarlífsþáttar.
Ég staðfesti að eldur kviknar við þessa takta og hægt er að efla hann, sem aftur styrkir sálræna orku. Kosmískur eldur er eins og sverð sem klýfur myrkrið.

390. Afl sálrænnar orku er ekki skaðleg ef henni er stjórnað á samræmdan hátt. Að viðurkenna sálræna orku sem mælanlegt efni mun koma af stað nýrri hugsun um lífið.

391. Nýlega sendi ég þér Tíbetskan pening sem var komið fyrir undir nótubók á miðju borði, til að hægt væri að finna hann auðveldlega. Fólk var beðið um að finna hann, en engum datt í hug að lyfta bókinni. Um morguninn færði þjónustustúlkan peninginn á augljósari stað, en engin tók eftir honum fyrr en um kvöldið eftir að að ný vísbending hafði verið gefin. Svipaðir hlutir eiga sér stað í tengslum við athafnir karma. Það sem kemur, þarf að þekkja og viðurkennast.
Margt smátt glepur eigin sýn svo gjafir glatast. Birting karma er með tvennum hætti—tengjast sérstökum tíma, eða sérstökum persónum. Þegar karma tengist sérstökum tíma getur það einnig tengst persónulegu karma. í engu tilfella á að kenna Fræðaranum um karma sitt. Hvernig getur einhver haft fulla þekkingu á öllum aðstæðum í kringumstæðum sínum? Sem dæmi kann Fræðari að sjá fyrir um framtíð beggja karmaþáttanna, en ef ytri kringumstæður hafa ákvarðað athafnir karma, getur hann ekki breytt því sem þegar hefur myndast í geimnum. Hægt er að breyta því, en ekki að eyða. Hér getur öguð notkun sálrænnar orku hjálpa til, eflt tengslin milli tímatengds og persónulegs karma.

392. Að ná tökum á innri eldum sínum er hættusamt. Það er ekki auðvelt að vekja upp innri elda, en enn erfiðara er að ná tökum á þessum flókna allt umliggjandi eldsþætti, eftir að hafa vakið hann upp. Sá sem hefur áttað sig á að eldarnir bregðast við, bregst við kalli loganna. Jarðskjálftinn í gær er dæmi um þetta. Hjarta systur Urusvati fékk hættulegan skjálfta, því jarðskjálftar eru afleiðing elda. Öll tilveran hristist af nálgun við eldinn, af eiginleikum sem eru annarskonar en okkar eigin. En svo mikilvægur er skilningurinn á eldinum í þroskastigi, að Ég ráðlegg þér að að vera sérstaklega á verði þegar leitast er við að ná tökum á honum. Hinsvegar er nauðsynlegt að ná tökum á honum, vegna reynslu til kosmísks samskipta.
Vegur eldsins er vegur árangurs. Það ferli ætti að gerast rólega, án flýtis og pirrings. Við munum að sjálfsögðu aðstoða svo ytri aðstæður verði ekki truflandi. En gætið þess að merki um framgang sé ekki merki um missi. Mannkynið kýs að sjá höfnun sem eyðileggingu og upphaf mótunar sem óreiðu. Verið því varasöm og framkvæmið án flýtis. Við munum benda á hvenær rétti tíminn er.

393. Mannlegur vilji kemst yfir allar hindranir. Ég segi þetta ekki sem huggun eða sem hvatningu, heldur sem óumbreytanlega staðreynd. Fólk hefur lengi brýnt vilja sinn, en það skilur ekki, að það vitundarstig verður að nást sem gefur fulla heimild til að athafna þegar maður segir að allt sé leyfilegt.
Hverjum er treystandi fyrir þessu mikla afli? Aðeins þeim sem mun hvorki afbaka né misnota það; þeim sem er sterkir í vitundinni; þeim sem þekkja Fræðsluna. Hversu margir hreykja sér af þekkingu á Fræðslunni, en þekkja hana ekki! Þeim leiðist að lesa aftur sömu orðin. Eins og veiðifálkinn er kallaður til baka úr loftinu, er þörf á skýrum skilningi til að draga saman kall eldsins. Fálkinn steypir sér niður á tálbeituna í hanskaklæddri hendinni. Þannig mun réttur skilningur falla á vitundareldinn. Engin getur gengið gegnum myrkrið án þess að vera ljós. Sumir munu segja hæðnislega, „Þetta eru lítilsverð ráð“ og líta ekki einu sinni í hringum sig til að gá að eldinum. Þeir hæðast að þeim sem hafa fundið eldinn. Þeir vita ekki einu sinni að eldurinn er ekki fyrir eigið sjálf, heldur fyrir mannkynið.
En við ykkur sem hafið fundið eldinn segi ég, „Allt er leyfilegt! Þið vitið hvernig á að fara yfir hyldýpið. Hætturnar gleðja þig. Í orðum Fræðslunnar birtast eldtákn í óútskýranlegum leiftrum fyrir þér. Eldurinn er ekki eitthvað óhlutgert, heldur ljós fyrir augunum. Þetta er mikill fjársjóður. Eldurinn er mælikvarði á allt mögulegt. Eldurinn er tákn um umfaðmandi traust.”

394. Ástríða er nauðsynlegur eiginleiki. Að móttaka Stigveldið er dýrmætur eiginleiki. Þykkt er þokumistrið sem mannkynið er í, en með hugsun er mögulegt að þrýsta í gegn með óvæntum leiðum. Það er miklu auðveldar að byggja upp fræðslu í pörtum, eins og mósaík. Beina línuleg röð hugmynda ætti ekki að nota. Hlutum er bætt við í samræmi við breytilegar aðstæður.
Enginn á að knýja aðra, né reyna að sannfæra þá. Aðeins má mæla með og styrkja það með tilfinningatengingum. En að sjálfsögðu eru eldheitar tilfinningar ekki ávallt til staðar.

395. Allir hafa sína sérstöku eiginleika. Af þeim leiða oft mótsagnaþættir sem taka á sig sérstaklega mikilvægar myndir.

396. Á Vesturlöndum er margt sagt um hugsanasendingar um langa vegu, en hvernig það gerist er algjörlega óþekkt. Til að sanna það er til dæmis komið upp tveim stöðvum sem verða að vinna samtímis og fjarlægð milli þeirra mæld, eins og afl hugsanna sé undir fjarlægðinni komið! En meginatriði tilraunarinnar er ekki tekið með, áhrif hugsanna. Þú veist að svör mín eru mislengi til þín, vegna áhrifa segulmagns og aðstæðna í andrúmsloftinu. Skiptir þessi mismunur í tíma einhverju um áhrif hugsanna? Engu að síður er tilraunin misheppnuð að mati Vesturlandabúans. Á Vesturlöndunum er leitað eftir útreikningum, en ekki áhrifum hugsanna. En vísindalegar rannsóknir munu í framtíðinni taka eftir sambandi dreifingu hugsanna og efnislegra umhverfisaðstæðna.
Þróun hugans mun koma fram í mörgum nýjum aðferðum, allt eftir mismunandi bylgjum. Við kunnum að taka eftir að hugsun sýnist fleyttast áfram, eins og steinn sem fleytt er yfir bylgjur vatns. Með þeim hætti nær hugsun til óvæntra staða. Dreifing hugsanna setur ábyrgð á hugsuðinn.
Þegar við höfum lært að finna gleðina í þessum nýja andardrætti ábyrgðar, munum við meta mikilvægi hugsanna og læra að rannsaka lögmál þess. Margskonar næm tæki munu gera mögulegt að ákvarða áhrif hugsanna. Þannig mun enn einn fjársjóðurinn verða dreginn út úr óreiðunni.

397. Við rannsóknir á hugsanasendingum mun mannkynið verða vart við allar tengdar birtingar þess, bæði gagnlegar sem og neikvæðar. Þá mun fólk átta sig á hvernig áhrif hugsana dreifast, jafnvel umfram það sem það gat ímyndað sér.
Það mun sjá hversu mikinn skaða það getur valdið, veiklað eða yfirkeyrt aðra með afli sínu. Ein ástæða þess að ganga í klaustur var til að leynast, í þeim tilgangi að vernda eigin sálræna orku. Einn samstarfsmanna Okkar lét aðra halda að hann væri dáinn, til þess að komast hjá athygli annarra. Laus undan hugsunum annarra, sagði hann oft með létti, „Það er að sjá að ég sé gleymdur.”
Við þessar aðstæður, er hægt að fylgjast með hvernig hugsanir—annarra en ópersónulegar hugsanir úr geimnum—fljúga hjá. Því ópersónulegar hugsanir valda venjulega engum skaða. Ég segi ekki að það eigi að afneita persónulegum hugsunum, en taka verður fulla ábyrgð á þeim. Meiri agi barna væri sýnileg leið til að kenna slíka ábyrgð. Vitneskja um endurfæðingar er gagnleg með sama hætti. En núverandi fyrirkomulag stjórnmála og trúarbragða hindra verulega slíkan ábyrgðarþroska.
Með því að skoða umhverfi sitt án fordóma, kemst maður að því að Okkar aðferðir eru mjög ólíkar hefðbundnum leiðum. Lífinu þarf að beina að þætti eldsins, en því er ekki náð með hefðbundnum leiðum stjórnvalda. Við vitum að færa hið „yfirskilvitlega“ nær hinu „venjulega“, dregur ekki úr jarðneska lífinu, heldur bætir fegurð og víðsýni við það.

398. Rétt samband milli hvatvísi einstaklingins og óskeikulleika náttúrulögmála er hinn gulni meðalvegur, sem glampar á í djúpi hverrar vaxandi vitundar.
Hversu margt má ekki uppgötva án þróaðra tækja! Ráða menn við loftslagsaðstæður og hver áhrif þeirra eru? Munu ekki segulstormar valda breytingum á samfélagsskipuninni? Munu ekki sólgos, fullt tungl, afstaða plánetna og margar aðrar aflmiklar aðstæður, hafa áhrif á virkni næmra lífvera. Jafnvel plöntur og dýr bregðast við kosmískum áhrifum.
Er það mögulegt að maðurinn, stjórnandinn, sé ekki verður rannsóknar? Jafnvel áhrif jarðskjálfta og loftsteina á mannlega hegðun eru ekki rannsökuð. Til viðbótar rannsóknum á efnissamsetningu loftsteins, er ekki mikilvægt að rannsaka áhrif þeirra á sálarlíf fjöldans?
Vitið hvernig á að greina gastegundir neðanjarðar, sem er mikið meira af en venjulega er talið. Því miður, lögregla vísindanna veitir aðeins athygli því grófa og augljósustu tilfellin, mikilvægari og umfangsmeiri áhrif, eru hunsuð.
Að rannsaka sálræna orku mannkynsins er mikilvægari en mæling á loftraka eða hitastigi. Huglæg orka manna á skilið nákvæmari athugun.

399. Árásir á fræðsluleið Okkar koma venjulega úr tveim áttum. Fylgjendur þess gamla getur ekki fyrirgefið áhuga Okkar á vestrænum vísindum. Þeir sem fylgja Okkar vestrænu leið, fyrirgefa ekki virðingu Okkur fyrir hinni fornu Visku Austursins. Vestrið hefur gleymt táknmálinu. Þegar vestrið heyrir um himneska drekann, brosir það. En þegar við tölum um Serpent Solaris, eða solar plexus, þá hverfur brosið. Þegar Serpent Solaris birtir sig sem höggorm solar plexus, verður skáldskapurinn efnisleg staðreynd. Þegar höggormur solar plexus vaknar, verða hin fjögur svið himnanna aðgengileg. Táknkerfi hins austræna vísdóms byggir á samskiptum Stórheims og Smáheims.
Skoðið því mannveruna í öllum möguleikum hennar, jafnvel í ólíklegustum myndum. Í vestrinu er hægt að rekast á margar hefðbundnar tjáningar, en það kemur ekki í veg fyrir að maður viti ekki hina sönnu merkingu. Eina sem menn þurfum að gera er að forðast þröngsýni.
Við heyrum oft kvartað yfir því að Fræðslan sé óframkvæmanleg. Þeir sem venjulega kvarta, eru þeir sem enga tilraun gera til að fara eftir henni. Getur lyf sem ekki er notað komið að gagni? Alla vega geta ekki margir sagt hafa mikla þekkingu á fræðslunni. Annað hvort er skilningur þeirra takmarkaður á hinum fornu hugsunarleið, eða þeir lesa hana í bútum án þess að tengja þá saman. Fyrst þarf að fara eftir henni áður en hún er dæmd. Léttúð er ófullkomleiki heimsins!

400. Af hverju er stuðningur við Fræðsluna oft huglítill og afsakandi? Að sjálfsögðu vegna þess að flestir hafa engan áhuga á vandamálum tilverunnar. Spurningarnar um tilveruna eiga engan stað í daglegu lífi þeirra. Allt óvenjulegt er í þeirra augum frávik náttúrunnar. Hugleysi hefur skekkt skilning þeirra á lögum náttúrunnar. Skurðgoð og tabú, eins og áður, standa enn sem leiðbeinendur mannkynsins og fræðsla lífsins eru kæfð af hefðbundnum vísindum eða reykelsi musteranna. Að lokum ber að huga að öllu því sem umlykur okkur, sérstaklega núna, þegar kosmískir ferlar eru í óvenjulegri spennu.
Viðkvæmir hlutar líffæra okkar eru í sömu spennu. Spennan í andrúmsloftinu ætti að hvetur fólk til að snúa sér af alúð og einlægni að kosmískum kröftum. Maður ætti ekki að hæðast þegar hann veit ekki nóg um það sem hann spottar. Maður getur alveg eins hlegið að formúlunum í æðri stærðfræði vegna þess að þær hjálpa ekki manni að elda kvöldmatinn!
Við hörmum ekki að eyða tíma í að endurtaka staðreyndir, því jafnvel þær geta verið gagnleg til að snúa mannkyninu að sálarorkunni. Það er fráleitt að það þurfi að sannfæra manninn um að nýta afl sem lengi hefur verið hans. Það er hugarfar villimanns, sem óttast allt sem afi hans þekkti ekki. Þrátt fyrir allt þetta hefur háleit hugsun sín áhrif!

401. Andlaus endurtekning eyðileggur Fræðsluna. Einnig verður að skilja eiginleika taktsins. Auðvitað, allir kristallar virka samkvæmt lögmálum aðdráttarafls og takts. En púlsinn – eða taktur – er einkennandi fyrir lífsregluna. Samt sem áður getur hver tiltekinn taktur verið meira og minna lifandi eða dauður. Lifandi taktar, knúnir af krafti meðvitundar, munu framleiða mismunandi samsetningar af fíngerðum orkum. En takturinn í andlausum endurtekningum skilar aðeins dauðum slætti sem brýtur í bága við visku þagnarinnar og veldur aðeins skaða. Varist endurtekningar án andagiftar!
Sannarlega geta taktar leyst upp dýrmætustu gimsteina andans. Ef aðgerðir manns eru eingöngu byggðar á ótta eða græðgi, gæti jafnvel beinagrind eða trommuleikari skrúðgöngunnar rappað gagnlegri takt. Má búast við birtingarmynd elds frá dillandi skotti hundi sem bíður beins? Mundu þetta þegar þú ert að fást við fínustu orkugerðir, þegar þú ætlar að nálgast og vekja birtingarmyndir Eldsins.
Þegar ég kenndi þér takta kosmíska Eldsins, hafði ég auðvitað í huga beitingu andlegrar vitundar og viðleitni án grunnhvatana. Fyrir löngu var sagt frá eldunum tveimur: skapandi eldinum og þeim eyðileggjandi. Meðan sá fyrri skín og yljar og upphefst, þá brennir sá síðari til ösku. Ég beindi þér aðeins að skapandi eldinum. Þú hefur séð hvernig skynjun á eldi kemur fram. Jafnvel dagsbirta gat ekki komið í veg fyrir að þú hafir séð hin kosmíska boðbera og stjörnurnar voru umkringdar táknum. Maður verður að varðveita þessi eldstákn og safna þessum bestu gjöfum vitundarinnar.
Ekki högg úr hnefa né hótanir, heldur léttvænleg uppstigning ber hvern að hliðunum. Varist andlausa rútínu!

402. Enn einn óvinurinn ógnar Fræðslunni – vantraust, sem eyðileggur næstum því allt sem hefur náðst, það mikilvægasta. Það er furðulegt að sjá hversu ófært fólk er í að fást við það sem er nýtt fyrir þeim! Sjálfsvirðing þeirra er svo takmörkuð og ímyndunaraflið svo fátækt, að fólk er hrætt við hugsunina um að eitthvað óvenjulegt gæti verið til. Það er alltaf auðveldara að afneita en að rannsaka. Eyðist, allir þeir sem afneita! Án þröngsýni mun sólin skína bjartari og vígi þekkingar rís hærra. Hversu niðurlægjandi er lítilvægt grátt vantraust, sem sýnir sig án nokkurs merki um áræði! Vantraust þrífst við afneitun. Við krefjumst þess ávallt, að þekkingu sé aflað með reynslu. Við staðfestum hversu hægt hæfileikar vaxa og jákvæður árangur safnast. En við teljum það ótækt að skynsamur einstaklingur sói tækifærum til þekkingar. Hversu oft byggir fólk öflun þekkingar á efnislegum umbunum! Það er háttur sjö ára barna.

Stundum má sjá hvernig einstaklingur sem hefur komið nálægt Fræðslunni og fengið frábæra möguleika, dreymir enn um verðug verðlaun. Við skulum varðveita Fræðsluna sem mestu gleði tilverunnar!

403. Það er nauðsynlegt að að nýliðar haldi ekki að fræðsla Agni jóga sé auðveld. Sannarlega er það ekki auðvelt, því að það er mikil spenna og hætta í því. Enginn ætti að tælast af hugmyndinni um hunangslega vellíðan. Að ná tökum á eldunum er hægt ferli. Ótímabær og fljótfær skref ógna leitandanum með bruna. Það sem virtist vera mikill árangur er lítill þegar maður er kominn á næsta stigi. Þú veist hversu erfitt það er að sjá Fohat, að krafist er uppsöfnunar margra ára til að geta séð þessa orku. En hvað mun sá sem er veikur í andanum segja þegar hann kemst að því að ofar Fohat sé Para-Fohat, sem aftur nærist af Pan-Fohat! Það getur aðeins fyllt sterkustu vitund gleði og kærleika.
Fáir eru hinir traustu smiðir sem með sjálfsafneitun taka við hugsunum sem koma úr geimnum inn í kaleik hjartans. Þeir eru ekki hræddir við að skaðast af eldunum fjarlægra heima. Þeim gremst ekki að bera þungar byrðar vegna ófullkomleika umhverfisins. Þeir nálgast sterka geisla kosmískra elda og skiptast á hugsunum með neistum vitundar sinnar, kynda hljóðlega hugsanir og svara spurningum. Þungur er verndandi tjaldhiminn blessunar, en það eitt og sér veitir aðgang að hæsta bústað.
Fornar kenningar nota tákn um byggingu til að tákna verkefni sem falið er. Rétta merking þeirra þarf að skiljast. Í kringum Agni Jóga finnur þú alltaf uppbyggingu, sem miklir erfiðleikar eru aðeins leiðasteinar til að yfirstíga ófullkomleikann. Birtingarmyndir ljóssins er ekki auðvelt að ná, en þá lýsir kosmíski eldurinn leiðina til fjarlægu heimanna. Komdu ekki með þá veikburða nærri, því að þeir geta ekki haldið í fjársjóðinn. Það er betra að fela verkefni aðeins þeim fáu sem geta tekið réttar ákvarðanir til réttra aðgerða. Þeir læra að elska erfiðleikana og svíkja ekki.

404. Á Vesturlöndum hafa komið fram margir sjálfskipaðir jógar, töframenn, kennarar, dáleiðendur og dulspekingar, sem nýta sér fyrirbæri sem mynduð eru með viljanum. Snilldarlega margfalda þeir aura sína og kenna fólki gegn gjaldi hvernig á að bæta efnislegt ástand þeirra; hvernig á að hvetja aðra til að treysta þeim; hvernig á að ná áhrifum í samfélaginu; hvernig á að ná árangri í viðskiptum; hvernig á að neyða aðra til að fara eftir fyrirmælum þeirra; hvernig á að breyta lífinu í rósagarð. Við að kenna öðrum að þróa viljann, virðast sumir þessara kennara ganga til góðs, en vegna þess að þeir gefa ekki til kynna neitt markmið í þessari ferð, þjóna þeir því aðeins að gera vond lífskilyrði verri.
Er ekki öflugur vilji sem vinnur að því að styrkja gamla fordóma sannur hryllingur? Hve mikla orku þarf til að vinna gegn þeim skaða sem þessi ný-aldardulspeki valda! Eftirlíkingar Hatha Jógis eru síst skaðlegir þeirra.
Í fyrsta lagi er fræðsla aldrei seld; það eru forn lög. Fræðslan býður upp á fullkomnun sem markmið; án þess hefði hún enga framtíð. Fræðslan fer ekki eftir persónulegum þægindum; annars væri það egóismi. Fræðslan styður við fegrun tilveruna, sem annars væri sokkinn í ljótleika. Fræðslan neitar ávallt sjálfri sér, því hún veit sanna merkingu almannaheilla. Fræðslan virðir þekkingu; annars væri hér myrkur. Fræðslan birtist í lífinu, ekki með tilbúnum siðaathöfnum, heldur á grundvelli reynslu. Ég lít svo á að leið fræðslunnar hafi ekkert með ryk á gömlum leiðum að gera.
Gleði er sérstök viska.

405. Sálræna orku má ekki nota til að framkvæma kraftaverk, heldur ætti hún að vera æðsta birtingarmynd hreinnar ástæðu.

406. Hvað þýðir „hætta“. Svokölluð hætta er ekkert annað en ótti við núverandi ástand. En ef við vitum að hvert ástand skapast af vitundinni, sem er óafmáanleg, þá getur enginn óttast um líðan manns. Hættan sem maður óttast venjulega hverfur með aukinni vitund. Þess vegna er vöxtur vitundar nauðsynlegur grunnur framfara. Þá verða engar hættur lengur, það verða aðeins hindranir.
Að vinna bug á hindrunum er leið til að þróa eigin orku. Ef fjallið er fullkomlega slétt getur maður ekki stigið upp toppinn. Sælir séu steinarnir sem rífa skó þeirra sem stíga upp! Vertu því fullviss um að hættur séu ekki til.
Hvert skref í vexti vitundar er sprenging. En úr sprengingum verður til púls Kosmosins.
Fátæk er vitund sem hefur enga stjórn á tilfinningum sínum. Órjúfanlegur er skjöldur okkar. Hver óttavottur er örvamið óvinarins. Eftir að hafa eytt þessum skammarlegum ótta verðum við eins ósæranleg og hinir fjarlægu heimar. Þróun Agni jóga verður skjöldur hugsunar. Þegar hinn algeri umliggjandi eldur verður að veruleika, veitir það manni afar hreinan styrk og aðgang að uppsprettu endurnýjunar.

407. Ekki gefast að sorgarhugsunum. Slíkar hugsanir eru eins og ryð á sverði sigurvegarans. Engin sorg getur verið nærri brennandi deiglu lífsins. Ef þú lest Puranas, sýnast dauð vers þeirrar mikla viskubókar vera líkt og kirkjugarður fyrir þér. En þar sem er eldur, getur engin sorg verið.
Að fylgjast með öllu lífi er að afla sér þekkingar; það er þátttaka í lífi Kosmosins. Líf mannsins getur ekki verið aðskilið frá lögmálum sálarorkunnar. Það er jafn fráleitt og að bæla eigin vitund. Maður getur ekki verið án vatns, jafnvel í einn dag. Það er sömuleiðis erfitt fyrir vitundina að lifa af án ljóss annarra heima. Að hugsa um mikilfengleika lífsins getur orðið jafn nauðsynlegt og matur eða drykkur.
Fræðslan, byggð á reynslu, færir hverjum hugsuði athafnagleði. Takmarkaðu ekki það sem er ómælt og innan seilingar. Takmarkaðu ekki það sem kemur til okkur sem andardráttur Móður Heimsins. Fögnum að fá að þjóna orsök endurnýjunar án ótta við að ganga rangan veg.
Byrjum á því augljósasta og áþreifanlegasta, með því fylgja hinum óbreytanlegum lögmálum gerum við okkar besta til að fylgja Fræðslu lífsins.
Hvorki dagur né stund ætti að líða án þess að beita fræðslunni í lífinu. Varðveittu jóga sem leið ljóssins, vitandi hversu gnægtafullt geislaflóðið er! Við munum ekki slíta strenginn, heldur viðhalda honum.
Eins og sólin er óþreytandi, svo skal Agni vera óslökkvandi. Eldur Kundalíni fer aðeins beina leið!
Vitund er hin guðlega orka!

408. Þrjár mýs nálguðust einsetumann, óhræddar af hreyfingarleysi hans. Hann ávarpaði hverja þeirra :
„Þú býrð í mjölinu. Það veitir nægan mat fyrir alla ætt þína, en samt varðst þú ekki örlát.
„Þú hefur valið að lifa innan um margar bækur og nagað í gegnum mikið af þeim, en samt varðstu ekki vitrari.
„Þú hefur búið innan um helga hluti en varðst þó ekki andlegri.
„Sannarlega, mýs, gætið þið verið mannlegar. Rétt eins og fólk, gerið þið lítið úr gersemunum sem ykkur eru gefnar. “
Þrjú ljón komu síðan til einsetumannsins. Hann ávarpaði hvert og eitt þeirra:
„Þú ert nýbúinn að drepa ferðamann sem var að flýta sér til fjölskyldu sinni.
„Þú hefur rænt blinda konu hennar einu kind.
„Þú hefur drepið hest mikilvægs boðbera.
„Ljón, þið gætuð verið mannleg. Verið ógnvekjandi í gerðum og berjist, en verið ekki hissa ef þið sjáið fólk vera enn grimmara en þið.“
Þrír dúfur komu fljúgandi að einsetumanninum. Hann ávarpaði hverja og eina:
„Þú hefur neytt korns sem ekki var þitt, en litið á það sem þitt.
„Þú hefur neytt lækningarjurta, en ert samt dýrkaður sem heilagur fugl.
„Þú hefur ranglega hreiðrað um þig í musteri og nýtt þér hjátrú annarra og tælt þá til að finnast þeim beri skylda til að fæða þig.
„Sannarlega, dúfur, þið gætuð verið menn. Að nýta sér hjátrú og stærilæti annarra mun fæða þig í ríku mæli.“

409. Kennarinn hvetur þig til að fordæma ekki fólk fyrir lesti sína, heldur benda á líkindi þeirra við hegðun dýra. Þetta getur hjálpað þeim sem eru ekki nægilega vel þróaðir.
Að vísu eru mörg dýr næmari fyrir sálarorku en fólk. Fólk hreykir sér af vitsmunum sínum, en af hverju halda vitsmuni þeirra ekki aftur af viðurstyggilegum verkum sínum?

410. Það skiptir mestu að kanna órannsakaða slóðir. Maður ætti ekki að forðast hallir né takmarka sig við gamla skála. Það væri jafn þröngsýnt að dvelja í höll og forðast skála.
Ekki takmarka sjálfan þig.

411. Hvert lauf verndar vellíðan mannsins. Hver steinn stendur tilbúinn til að tryggja öryggi mannsins. Kyndið elda ótakmarkaðrar þekkingar. Finndu visku í hugrakkri leit.

412. Ég met hvert þitt góða skap. Maður getur aðeins byggt með góðum steinum. Kennarinn gleðst þegar hann getur skapað nýjar kringumstæður. Maður þarf aðeins að muna að nýtt upphaf mun stundum virðast óeðlilegt.
Fólk sér lítinn mun á hamingju og óhamingju, velgengni og mistök, gleði og sorg.

413. Að setja stól Fræðarans á besta stað heimilisins er ekki hjátrú. Það er staðurinn fyrir þann sem er boðinn í kvöldmáltíðina. Hann gæti komið hvenær sem er og honum ætti að vera ljóst að hans er beðið. Þetta stöðuga merki um væntingu og að vera reiðubúinn er eins og kall úr opnum glugga. Innan um uppbyggingu og átök skulum við gefa okkur tíma fyrir bros.
Fræðslan vex eins og spírall, rétt eins og allt sem til er. Sælir eru þeir sem skilja spíralstig Eldsins. Toppur logans var táknaður til forna sem flattur spíral. Eðlisþátturinn Eldsins lýsir með sérstökum skírleika eðli hreyfingar. Geturðu staðfest að þú sért að æfa Agni jóga, ef þú hefur ekki einu sinni gert þér grein fyrir fæðingu innri eldsins? Hrein leitun framkallar eldsglampa. Maður verður að fylgjast með þessum byrjunum og aðstæðum sem fylgja þeim.
Í þessu skyni ættum við að þróa sanna getu til góðrar eftirtektar. Það er ekki auðvelt að öðlast þann hæfileika. Aðstæður til að efla þessar birtingarmyndir eldsins eru mismunandi fyrir hvern einstakling: kuldi, hiti, hljóð, þögn, ljós eða myrkur, allar slíkar andstæður geta skilað sama árangri.
Skoða verður margvíslegar kringumstæður. Ef fólk sem hefur náð að kveikja á innri eldinum skrifaði niður athugasemdir sínar, mun það hjálpa mörgum byrjendum. Að vinna verk fyrir mannkynið, krefst í fyrsta lagi að vernda einstaklinginn. Þegar allar hinar mörgu leiðir til að kveikja innri eldinn hafa fundist, reynist einfaldasta leiðin vera fljótlegust. Það er furðulegt að sjá hvaða meintu óverulegu aðstæður geta hjálpað til við að kveikja logann. Ein slík, sem er alltaf til staðar, er næmi fyrir áföllum. Bein staðsetning hryggs skiptir líka miklu máli í þessu. Ef um er að ræða langvarandi sveigju hryggjarins er hægt að nota moskus til að hjálpa til við að kveikja logann. Upptaka moskus hefur samskipti við fosfór, sem endurheimtir hindrað eldflæði.

414. Fræðsla Agni jóga krefst stöðugs brennandi áhuga. Stundum er þörf á hvíld frá ytri eldum, en innri loginn slokknar aldrei. Á hinn síbrennandi innri eld er bent á í mörgum kenningum sem skref á skilningsbrautinni. Maður ætti að venja sig við að eldurinn sé ávallt til staðar. Ytri ábendingar geta aldrei veitt raunverulega hvata. Innri loginn brennur eins og bál. Það er óverðugt að bæla hann. Kviknun eldsins kallar fram fjölmörg minni fyrirbæri og vekur áhuga á heillandi tilraunum.
Fræðslan getur bent í áttina, en ekki á að líta á hana sem líflausa trúarskoðun. Munið að hnignun merkustu dulspekiskóla hófst þegar athafnir þeirra urðu alltof flóknar og misstu neista lífsins. Sönn fræðsla verður að lifa eins frjálslega og Eldur geimsins.

415. Eflum, eflum samstarfsmennina! Stöðnun er mesta hættan fyrir skapandi vinnu. Víðsýna vitund þarf til að viðhalda takti aðgerða. Þegar aðgerðarstundin rennur upp er fólk afvegaleitt með óviðeigandi hugsunum og fyrir vikið sendir það aðeins ör á móti óargadýri sem ætluð er fyrir spörfugl.
Þetta er ekki aðeins skortur á markhæfni, heldur einnig einbeitingarleysi. Er ekki sá sem sviptir sjálfan sig styrk, lægri en dýrið? Sá sem er andlega óvirkur getur ekki orðið Arhat. Fræðarinn talar stundum um þörfina fyrir hvíld, en segir aldrei að hvíldin geti orðið eins og deyjandi andi. Sá sem setur slíkar takmarkanir á sig getur hvorki heyrt né séð.
Okkur er sagt frá hreyfingarlausum Arhats, en þú verður að vita að kyrrð þeirra er aðeins hið ytra. Margir eru ánægðir þegar þeir geta fundið afsakanir fyrir tregðu sinni. Sérhvert ákall til aðgerða raskar hvíldarástandi huga þeirra. Er hægt að leyfa slíku fólki að nálgast eldinn, sem í eðli sínu krefst árvekni? Eldur er eins og hröð endurtekning. En glóandi glóðir eru eins og hægur taktur. Auðvitað hafa margar tegundir logans mismunandi takta, en Agni jógi mun aldrei vera daufur letingi.

416. Hvert tímabil velur nýja, samsvarandi Fræðslu, þegar fyrri fræðsla hefur brenglast. Fólk hefur tilhneigingu til að halda sig við þessar brengluðu röskuðu trú feðra sinna, en engin ný Fræðsla útilokar þær sem undan komu. Þessari staðreynd er lítil athygli gefin, því að fylgjendur hverrar fræðslu vilja byggja framgang sinn á afneitun fyrri fræðslukenninga. En það er auðvelt að sanna samfellu þess sem fólk kallar trúarbrögð. Í þessari samfellu er skynjaður einn orkustraumur. Við köllum það sálarorku og tölum um Sophíu í hellenskum heimi eða Sarasvati hjá hindúum. Heilagur andi kristinna manna sýnir merki um sálarorku, rétt eins og hinn skapandi Adonai Ísraels og Mithra frá Persíu, fullur sólarorku. Vissulega efast enginn um að Eldur Zoroaster er Kosmíski Eldurinn, sem þú rannsakar núna.
Sálræn orka er bæði Eldur og Materia Matrix og Fræðsla Agni jóga er ekkert annað en skýring á beitingu orku nútímans, straumurinn sem nálgast Satya Yuga. Þetta er ekki ný vakning á áður leyndum möguleika, heldur uppljómun sem dreifðist með tímanum. Ég segi, ekki er hægt að taka peninga fyrir Fræðsluna, né heldur er hægt að þvinga hana fram; hún boðar Nýtt Tímabil. Maður getur hunsað hana eða afneitað, en boðun hennar er óhjákvæmileg.
Hægt er að skilja komandi tíma rétt eða á brenglaðan hátt, en nálgun hans er óumdeilanleg. Maður getur eyðilagt á augabragði það sem það tók aldir að byggja, en slíkt brjálæði getur aðeins af sér brjálæði. Eru þeir ekki brjálaðir sem reyna að lifa án hugans? Hvaða hugur er ekki nærður að sálarorku? Af hverju að leita uppsprettunnar í myrkri meðvitundarleysis, þegar auðvelt er að kveikja á óslökkvandi innri neista og nálgast uppsprettuna með fullri vitund?

417. Fræðslan um Lausnarana skiptir máli fyrir allt sem til er. Til dæmis er mögulegt að hafa áhrif á og nálgast aðra með því að nota líkan, og á svipaðan hátt er hægt með vitundinni að taka á sjálfa sig karma annarra. Við einfaldar tilraunir í þessu fannstu að þér tókst að yfirtaka sársauka annarra þegar taugar þeirra voru hrjáðar. Á sama hátt er mögulegt að taka á sig karma einhvers annars og að lokum gæti maður tekið á sig sameiginlegt karma þjóðar. Þannig yrði hugmyndin um lausnara, verða að veruleika. Það þyrfti auðvitað að ákvarða markmið slíkra ábyrgðarverka.
Karma er mjög flókið ferli. Allt frá frjálslegri yfirborðskenndri aðgerð til dýpsta hvata, allt er mismunandi í formi og lit. Maður ætti að velta vel sér þegar það er mögulegt og verðskuldað, að blanda sér í karma annarra. Maður getur ímyndað sér tilvik um fórnfýsi og gagnleg afskipti af örlögum annarra. Með hugsunareldinum er hægt að ákvarða gagnsemi slíkra afskipta. Eldarnir eru bestu vísbendingarnar fyrir slíkri ákvörðun, þar sem í þeim er innri vitundin sameinuð háleitri meðvitund. Ekkert jafnast á við lífskraft eldanna; þeir eru marglitir vegvísar, afrakstur fulls skilnings á kringumstæðum. Þú sérð hvernig tvö afstæð hugtök, Lausnarar og Eldur geimsins, verða raunveruleg fyrir þér!

418. Fræðslan er ekki til utan lífsins. Fræðarinn kemur ekki utan lífsins. Við notum ýmsar aðferðir til að meðhöndla mismunandi vandamál andans hjá samstarfsmönnum. Það er ekki rétt að beita einni lækningu fyrir öll veikindi. Við höfnum ekki neinu sem hefur augljóst gildi, bara vegna þess að enn hafi ekki öllum göllum verið eytt.

419. Við þekkjum líkön. Við vitum að líkneski getur verið geðmynd eða efni. Geðlíkan er hærra en efnislíkan, rétt eins og geðheimurinn er hærri en efnisheimurinn. Aðeins mjög þróaðar verur geta verið með geðlíkan, en efnislegt geta þjónað hvaða vitund sem er. Líkan er eftirmynd raunverulegs atburðar eða hlutar. Siglingamaður getur auðveldara skilið hegðun skips síns með því að rannsaka líkan af því. Þegar litið er á líkan kemst fólk á vissan hátt í snertingu við það sem er fjarverandi. Jafnvel auðmjúkir spámenn óska fyrst eftir mynd eða hlut sem er nátengt viðfangsefninu. Þessir hlutir beina sálarorkunni, og efla hana, eins og leiðarljós eða leiðarsteinn.
Með efnislegum líkönum verður maður að hafa sérstaka ímynd fyrir hvert tilvik. En geðlíkan hefur þann kost að þjóna öllum þörfum og taka á sig mismunandi útlit eins og krafist er. Þess vegna er það eins og áfangi sem markar skref manns í þróun vitundar. Geðlíkan er afurð kristallaðrar sálarorku, rétt eins og það efnislega er afrakstur efnislegs áfanga. Megin athöfnin gerist við sköpun líkansins, því að þá er sálarorkan mest. Jafnvel þó að geðlíkan hafi yfirburði getum við lýst aðferðinni við að skapa það efnislega.

420. Efnilíkan var venjulega búið til sem mótuð mynd, með því að nota hvaða hlut sem var og bætta við einhverju sem tilheyrði þeim einstaklingi sem vísað var til í helgisiðnum. Oft eftir andlát eiganda líkansins var það sett með í gröfina, eins og í Egyptalandi til forna og í grafreit og minnisvarða Mayana og Etruscans. Þegar útfararathafnirnar þurftu líkbrennslu fylgdi líkanið í eldinn.
Í musteri Ísraels var almennt líkan til allra nota, en fyrir hvern helgisið var eitthvað sem tilheyrði viðfangsefninu sett undir líkanið. Í hinum ýmsu löndum var dreifður fjöldi líkana, hvert og eitt fyllt með uppsöfnun margra andlegra sendinga. Það er forvitnilegt að fylgjast með áframhaldi þessarar uppsöfnuðu sálarorku. Maður getur sannarlega séð líkan halda orku sinni í þúsundir ára, eins og fræ sem lifir og birtir ódauðlegan kraft.
Af tilraunum með sálarorku, sést að ekki er hægt að dreifa henni eða eyða, sem er mjög mikilvægt. Líkanið er besta sönnunin fyrir þessu, sérstaklega ef aðstoð sjáanda er til reiðu fyrir tilraunina.
Það er mögulegt að útbúa líkan sem ber leiðbeiningu sem aðeins þekkjast í framtíðinni. Líkan getur borið skilaboðin annað hvort til tiltekins aðila, eða til einhvers annars sem mun síðar eiga líkanið. Tvennt ætti að vera vitað – að undirbúningur líkansins krefst mikils tíma og að mikill tíma þarf einnig til að áhrif hans komi í ljós. Þekking um notkun líkans kemur úr grárri fornöld, íbúar Atlands vissi af sálarorku.
Hvernig á að búa til líkan? Nota verður stað þar sem sálarorka skaparans hefur mettað rýmið og safnast þar upp á hlutinn. Á þessum stað er valin mynd mótað úr vaxi, leir eða gifsi. Þegar myndin hefur verið búin til er hún þakin silfri, kristal, gleri eða leðurhlíf.

421. Til að skapa líkön voru þulur tónaðar, samsetningar undarlegra orða oft án merkingar. Það er ekki talmálið sem er mikilvægt, heldur takturinn. Tónlist sviðanna samanstendur ekki af laglínum, heldur takti. Þegar hinn þróaði andi þekkir hljóð sviðanna mun hann skilja kraft taktsins. Þegar líkan er mettað, er því vilji og taktur mikilvægastur. Það skiptir ekki máli með hvaða orðum líkaninu er treyst fyrir erindinu.
Mikilvægar eru röð merkinganna, einlægnin við sendinganna og takturinn, sem svarar til Mahavan. Aðeins minni vitund þarf tilbúna skipun. Þróuð vitund getur spunnið orð í samræmi við flæði sálarorkunnar. Það er óþarfi að hefta sjálfan sig með að leggja texta á minnið. Það er betra að vera gegnsýrður af takti, þegar hver vöðvi sameinast í því að tengjast taugunum. Maður titrar sem óaðskiljanleg heild og vald skipunar er flutt með því að leggja hendur á líkanið.
Maður ætti að vera einbeittur við að búa til líkan. Einnig ætti að hlaða líkanið ekki minna en þrisvar á dag. Til að fylla líkanið betur með viljakrafti þínum skaltu ekki gera yfirborð þess of fágað. Það er árangursríkt að hylja það með efni og brenna trjákvoða nálægt því. Eucalyptus er gott fyrir þetta.

422. Að einfalda eða flækja? Jafnvel barn mun kjósa hið fyrra. Þegar fjallað er um helgisiði mætti velja flóknu leiðina og nota öll fínustu litbrigði hljóðs og litar, en þessi leið væri gömul og ósveigjanleg. Aðferðir við uppsöfnun hljóðs og litar eru margar. En þegar flóknustu aðferðir eru fundnar upp, leita þá ekki höfundar þeirra að leiðum til að einfalda? Svo er það með beitingu sálarorku. Meirihlutinn hefur alveg gleymt þessari orku; minnihlutinn hefur beint henni í kalt ofstæki. En Eldur, sem grundvöllur sálarorku, hefur engin tengsl við kulda!
Agni jóga beinir mannkyninu að einföldustu leiðunum. Einn upphafinn hvati Bhakti ofbýður hægari Jnani. Þannig beinir eldurinn manni á rétta leið. Eldur betrumbætir orkustöðvarnar og þróar næmi sem veit réttu leiðina, rétt eins og góðir gripir eru mótað í eldi. Við steypu bestu mynda eru gömlu mótin eyðilögð. Þær myndir verða fíngerðari en þær sem gerðar voru með gamla mótinu.
Þess vegna biðjum við mannkyninu að kveikja eldinn í viðleitni og ná árangri á einfaldan hátt. Þessi lausn sviptir engan neinu og hægt er að uppgötva með athugunum. Birtingarmyndir ljóssins eru fósturvísar elds. Þetta er grunnur að formi sem er óuppgötvað.

423. Hver eru tengsl líkamlegs musk og fosfórs andans? Musk er einnig afrakstur elds, en af ómeðvituðum eldi. Enda, jafnvel kristall er myndaður af ómeðvitaðan eldi hefur í sér fjársjóð. Er hreinn eldur geimsins ekki lifandi tenging við æðri heimana? Mun þessi einfalda spurning ekki vakna í fordómalausri vitund? Og ef við lítum á líkan sem geymslu sálarorku, þá verður þetta hugtak, þó fornt sé, auðvelt að skilja. Við skulum ekki vera hrædd við að opna öskju Pandoru; fyrir upplýsta ferðalanga geta gjafir þess virst allt aðrar.

424. Mælikvarðinn á árangur er hversu mikil þörfin er. Þú getur verið viss um að maður stekkur ekki yfir hyldýpi nema af hreinni nauðsyn. Því óhjákvæmilegri sem þörfin er, því nær er skrefið að sigri. Megi mestu kröfurnar verða! Mælikvarði skilnings er kvarði kærleika. Hægt er að leggja á minnið orð fyrir orð, en samt er maður dauður ef þekkingin hefur ekki verið vermd með kærleika.
Sannlega, þegar maður lærir að greina tilfinninga hjá öðrum, þá mun maður skynja að einmitt kærleikurinn umfram allt, laðar að kosmíska eldinn. Sá sem sagði: „Elskið hver annan,“ var sannur Jógi. Þess vegna fögnum við hverri birtingu kærleiks og fórnfýsi. Rétt eins og lyftistöng setur hjólin í gang, hvetur kærleikurinn einnig til öflugra viðbragða. Í samanburði við útgeislun kærleika er hatur aðeins ógeðfelldur blettur. Því að kærleikurinn er hinn sanni veruleiki og fjársjóður. Ég tala ekki um óhlutbundin kærleik heldur sem lífeðlisfræðingur.
Ég lít á að eins og þörfin er hvati, er kærleikurinn ljósberinn.

425. Hvaðan kemur aðgerð eldsins í Kundalini? Frá sömu uppsprettu – eldi kærleikans. Kjarninn sem við sjáum afhjúpar sannleikann. Hversu ánægjulegt er að sjá eldbylgjur vaxa! Það er eins og töfrandi garður.
Ég elska það þegar kærleikseldurinn geislar svo mikið að maður getur sigrast á hvaða hindrun sem er!

426. Mannkynið hefur oft breytt klæðaburði sínum að óþörfu. Annað hvort stytt þau til hins ýtrasta eða lengt þau svo að þau drógu fötin á eftir sér. Ermarnar drógust til jarðar eða hurfu alveg. Annaðhvort var efri hlutinn mikið ýktur eða neðri hlutinn gerður gríðarlegur. Eins og það skipti máli í hvaða ermarstíl maður er þegar hann grípur nágranna sinn hálstaki! Breyting á tísku er til einskis. Við skulum taka hlutina eins og þeir eru. Við skulum muna að eyðileggja ekki eldmóðinn, sama hvaðan hann kemur. Við skulum ekki fela sannleikann, heldur skulum finna stað fyrir hverja upphafningu. Getur upphafning komið í veg fyrir miklar ráðstafanir? Allt mun finna sinn stað. Að byggja á upphafningu er auðveldara og varanlegra. Eins og kærleikur, þá kveikir eldmóðinn einnig eldanna. Við skulum safna öllum þeim sem bera eldinn og muna hve dýrmætur hver neisti er. Ljós og myrkur – við skulum ekki gleyma neinu sem búið er til af ljósi!
Við bjóðum lífgjafa frá plönturíkinu, en hafnið ekki öllu því sem líður hjá.

427. Jafn lítið sem fólk hefur grætt á því að breyta fatastílum, hafa þau náð að bæta líf sitt. Grunnkröfur til þæginda þurfa að bæta líkamlegar aðstæður og einfalda smáatriði daglegs lífs. En þvert á móti, fólk reynir að flækja hlutina og hafna hverjum möguleika á að auka vitundina. Það eru engar ýkjur að segja að samfélagið þoli ekki neinn vitundarvöxt. Fjölskyldur eyðast og konungsríki falla þegar vitundin birtir sig og eflist. Fræðsla lífsins, er eins og munaðarlaust barn sem leitar skjóls á afvikin stað, meðan skrúðgöngur dauðans þruma á almannatorgum.
Láttu þá ekki ímynda sér um að við séum að spýja út úreltum myndlíkingar. Jafnvel þröngsýnt fólk getur séð hættu í ofgnótt hluta. Ef maðurinn heldur áfram óbreyttu lífi sínu verður efnisleg ofneysla óhjákvæmileg. Aðeins marksmiðuð einföldun getur getur endurvakið reisn lífsins og verndað náttúruauðlindir. Maðurinn hefur engan rétt til að eyðileggja niðurstöður ævalangs kosmísks átaks af léttúð í von um einhverja nýja óverðskuldaða orku!
Maður verður að búa sjálfan sig fyrir hverja nýja orku. Sérhver verðandi móðir hugsar um framtíðarbarnið sitt. Hvernig getur maður þá ekki hugsað um orkuna sem býr í hverju okkar? Maður verður að hugsa um meðfædda möguleika manns.

428. Eftir tíma Atlantis, í helgiathöfnum Druidana, meðan allir hinir gengu í hring sólarsinnis, frá sólarupprás til sólseturs, gekk æðsti presturinn, sem framkvæmdi athöfnina, í gagnstæða átt. Í þessu var tákn minni og meiri þekkingar. Minni þekking þróast við að fylgja flæði þekktrar orku, en mikil þekking, sem snýr að straumi kosmískra krafta, dregur fram óþekkta orku frá því sem virðist vera óreiðu. Svo í sólarátrúnaðinum voru þroskaskref manna viturlega gefin til kynna. Eins og þú veist voru þetta ekki afstæð tákn heldur endurspeglun veruleikans; til dæmis skapa miðjur sem snúast gagnstætt sólargangi sérstaka eldorku.

429. Það er furðulegt að sjá hvernig fólk spillir eigin lífi án ástæðu eða skynsemi með því að svipta sjálfa sig möguleika sem er þeirra með réttu. Það er furðulegt að sjá hve fúslega fólk dregur úr því sem gæti hafa vaxið í gegnum jarðvistir þess.
Við segjum að það sé betra að gera misstök í verkum en að gera ekki neitt. Að þora í verki hefur í sjálfu sér sína eigin réttlætingu; það beitir þrýstingi sem margfaldar orkuna. Er mögulegt að kveikja í logandi anda með aðgerðaleysi? Með því að benda á nauðsyn þess að taka þátt með okkur í aðgerð drögum við þig með sérstökum þrýstingi inn í þennan spíral. Sannarlega, getur maður stigið upp í þessum spíral; það verður að verja það sem mótar dýrmætustu orkuna. Við köllum þig til að koma með okkur, ekki af löngun til að stjórna þér eða gera þig vanmáttugan, heldur af löngun til að styrkja þig með gagnlegum aðgerðum.
Eldur, Eldur, stíg niður til þeirra sem draga úr geimnum strauma þína! Fyrir þá er festingin að ofan jafn mikil og dýpt jarðar. Fyrir þeim er loftið jafnt jörðunni og steinn er leiðari eins og gagnsætt loftið.
Þeir sem eru með mér, ganga með Okkur um öldur eldsins. Þeir munu ekki brenna þig, heldur þjóna hinu góða!

430. Rétt fyrir mikilvæga atburði er fólki sérstaklega hætt við að afneita möguleikum framtíðarinnar. Maður gæti skrifað forvitnilega sögu um aðdraganda og þröskuld atburða. Þannig er hægt að rekja líkindi á tilhneigingu hugsunar við hringrás truflana. Blindir hæða ráð þeirra sem sjá, þeir sem vita allt benda á ómöguleika breytinga á núverandi stöðu og segja að allt sé stöðugt og óbreytanlegt, segja þá lygara sem næmir eru. Ef einn bendir þeim á að ekkert gott geti komið af kyrrstöðu verða þeir óvinir manns. En það er nauðsynlegt að þekkja slíka óvini.

431. Viðurkenning á stigveldi er ekki formlegur agi, heldur meðvitað samstarf. Þegar andinn hefur áttað sig á því að hann hafi tengst endalausri keðju „orkugjafa“ fær hann sérstakan rétt til að halda áfram. En rétt eins og ræðarar verða að fylgja fyrirmælum stýrimannsins, verða hinir viðurkenndu samstarfsmenn að fylgja kalli Fræðarans. Maður verður ávallt að hugsa um orkuhagkvæmni.
Okkar Leiðtogar hafa treyst Okkur fyrir að slökkva bál hins illa, og við sendum þessi verkefni til útvalinna sendimanna og felum þeim að vinna að frekari umskiptum. Viðurkenning á stigveldi auðveldar hreyfingu inn í hið óendanlega. Lögmál efnisins eru óbreytanleg. Rétt eins og dælan og lindin eru bundin til að vinna saman, eru heimarnir tveir það einnig, þar sem mörkin umbreytast og uppljómast af almáttugum eldinum.
Það væru mistök að sjá Orð mín sem ljóðræna sálma. Maður verður að taka á móti þeim sem fyrirmælum byggingameistara, sem telur ekki mikilvægt að vera æðstur, en telur mikilvægt að uppfylla það verkefni sem honum var treyst fyrir af Drottnunum.

432. Fræðarinn þekkir besta stundina. Sérstaka þekkingu þarf til að Við getum veita skilning á flæði ytri strauma án þess að það brjóti í bága við karma þitt. Vísbendingarnar, eins og örvarnar, verða að umkringja markið, en ekki miðju hringsins, sem tilheyrir hverju ykkar. Skortur á skýrleika er eins og mistur. En það er ekki merki um fáfræði, heldur umhyggju Okkar. Við óskum þér að ná árangri, en það er aðeins mögulegt með samvinnu þinni.

433. Maður getur styrkt áhrif aðgerða með því að metta rýmið. Þetta er hægt að gera með persónulegum vilja; en aukin vitund mun efla sendingar manns með því að tengja þær við vitund Fræðarans. Hin aukna vitund harmar aldrei fortíðina, því hver ný stund er víðfeðmari en öll fortíð manns. Sömuleiðis þráir slík vitund ekki staði úr fortíðinni, því hver nýr staður, upplýstur af vitundinni er fallegri en sá gamli. Þannig er skilningur á nýjum og fallegum stað, ásamt því að þekkja Fræðara sinn, öryggi fyrir nýrri sköpun.
Getur verið að einhver leið verið fegurri en sú að byggja grunn að vígi Fræðslu lífsins? Stjarnan sýnir leiðina. Gangið greitt! Urusvati sá svokallað hjól Búdda. Þetta er í raun og veru líkan fjarlægari heima. Kjarna þess er að finna í grunni Alheimsins, sem líta má á sem öxul. Í endum þess eru skautasvæðin sem samsvara grunnlögmálunum tveim. Í miðju er Svastika,-hjól sálarorku og hringur regnbogahvirfils, birtingarmynd staðbundins elds á öllum stigum. Að vita þetta, er skref í átt að skilja eldinn; með því að sjá fyrir sér þessa mynd má nálgast eldinn og breyta hættulegu eðli þess í græðandi eiginleika. Þetta líkan frá fjarlægum heimi var gert raunverulegt fyrir Urusvati; það krafðist mikillar orkueyðslu. Aðalmarkmiðið var að gæða það lífi, til þess að það yrði samhæfður hluti áru hennar. Eftir að þessu var lokið þurfti stutta hvíld. Síðan var hægt að gefa henni innri verkefnin strax. Urusvati er Radhastana, sem hefur brotið landamærin milli heimanna tveggja.

434. Sagt er í öllum fornum kenningum: „Snúðu ekki baki við Fræðaranum.“ Hægt er að skilja þetta boð annaðhvort í þrælsótta eða lotningu. Meðvituð lotning er eins og ljósblóm. Maður getur ekki pantað það; aðeins efld vitund gerir kleift að upplifa lotningu fyrir andlegum gildum. Hvernig á að lýsa fyrir blindum grýtta hlíð? Hvernig á að láta heyrnarlausa vita með viðvörunarhrópi?
Aðeins lífsreynslan skýrir merkingu skipunarinnar, „Snúðu ekki baki við Fræðaranum.“

435. Gleðin er ekki í hefðbundinni röð hlutanna, heldur við að finna nýjar leiðir. Viðkvæmt auga greinir ávinningi hins nýja. Það eru ekki mistök, að þeim sem er næmir sé umbunað. Það er lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig fólk berst við allt sem er óvenjulegt. Við höfum ótrúlegar heimildir um hvernig fólk eyðilagði öll óvenjuleg tákn. Hvílík hollusta við glötun! Slík óvenjuleg tákn, undirbúin af natni, eru björgun mannkynsins.
Allir fylgjendur gamalla leiða hafa jafnvel hið ytra sama eðli, eins og sandar í eyðimörkinni!
Geislar Okkar geta mjög hamlað þessa mannlegu eyðileggingaráráttu. En hversu fáir eru þeir sem viðurkenna hve áríðandi aðstæður eru!

436. Það eru margir samstarfsmenn, en það er nauðsynlegt að meta hollustu þeirra. Leit að Okkur spillist oft af hlutfallslegri væntingu um umbun. En hvernig er hægt að biðja um umbun þegar þátttaka í starfi Okkar er í sjálfu sér umbun? Frá eflingu krafta manns kemur vöxtur hans. Af árvekni kemur ljós reynslunnar. Frá markmiðsstriti manns kemur aukin orka. Skoðið hvernig aðstæður mótast, hvernig í mikilli neyð óvenjulegar nýjar aðstæður birtast. Óreyndir munu kalla það tilviljun, en þeir sem vita munu sjá spíral sköpunarinnar að verki. Ég tel að umfjöllun um reglur Okkar geti komið að gagni í hvaða kringumstæðum sem er. Það er ekkert verkefni sem fræðsla ljóssins getur ekki tekið til.
Að stefna til Okkar ætti að birtast í háttum allra verka. Maður ætti ekki að biðja um ráð Okkar ef þau hafa þegar verið gefin. Framkvæmd þeirra á ekki að vera flókin, heldur ber að skilja þau einfaldlega og gera að venju í daglegu lífi. Vertu staðfastur í löngun þinni að verða aldrei aðskilja Okkur.

437. Hvert nýtt ástand líkamans er eins og nýr staður þar sem maður hefur ekki enn fundið sinn rétta stað. Fólk heldur að sumir tímar séu án hættu; en jafnvel þeir sem sofa á akrinum geta orðið fyrir loftsteini. Maður ætti að skilja allar hættur í jarðneskri tilvist. Í dag lítum við í spegla Okkar. Ég sá óróleika í árum lærisveinanna. Við skulum vera staðfastir á komandi nýju ári, því allt fer vaxandi. Aðferðir gærdagsins duga ekki á vandamál framtíðarinnar. Hreina hjartað sér skýra mynd, en órói á yfirborði gefur til kynna nýjan vöxt vitundarinnar. Tímabilið við mótun nýrra aðstæðna verður að ganga í gegn, án ruglings, langanna eða ertingar. Það er mikil spenna í geimnum og það getur verið þrúgandi fyrir áru manna.

438. Svokallað viljaafl er sending sálarorku, og sem eldsþáttur, eflir það útgeislunina. Þetta þýðir að til að styrkja áru er ekki aðeins þörf á hreinni vitund; heldur þarf maður að laða að kosmíska eldinn.
Dúfan var talin tákn hreinleika, höggormurinn tákn viskunnar og ljónið tákn eldsins óttaleysis. Eldurinn í geimnum fyllir manninn af augljósu hugrekki, frjálsu af líðandi aðstæðum. Eldsþátturinn er sá mest hvetjandi. Þegar það skilst er engin gleði í að endurlifa fortíðina. Sá sem hefur gert sér grein fyrir gegnumgangandi eldinum, mun auðveldlega sjá að við komum í gegnum eldinn.
Fræðararnir áttu aldrei marga lærisveina. Maður man litla töluna – sextán, eða tólf, eða jafnvel færri. Þetta staðfestir hversu erfitt er að nálgast og samlagast Kosmíska eldinum. En fyrir mettun geimsins er eldur nauðsyn. Sá sem getur hugsað um sálarorku verður að vita af kosmíska eldinum. Það væri heimskulegt að gera ráð fyrir að eldsþátturinn sé einhvers staðar fyrir utan okkur og að hægt sé að fresta skilningi á honum með leti. Nei, eldur geisar í kringum okkur! Maður getur haft hann sem vin eða óvin.

439. Það mun ekki verða erfitt í náinni framtíð að vörpun geðlíkamans verði almenn geta. Það verður ekki erfitt að læra að stjórna handahófskenndum birtingum geðslíkamanns, sem koma oftar fyrir en manni grunar.
Fræðslan gerir ráð fyrir fullri notkun allra tiltækra hæfileika. Hvers vegna hunsar fólk þá möguleikann á því að nýta fíngerðan líkamann í lífinu?
Þekkingin á fíngerða líkamanum er ævaforn. Ekki er hugsað um virkni fíngerða líkamans í jarðnesku lífi, en vörpun hans fer samt fram. Þetta þýðir að allar framfarir eru háðar skilningi og reynslu. Auðvitað, eins og í sálrænum tilraunum, ætti maður ekki að vera að flýta sér þegar um tvö tilverustig er að ræða. Í mörg þúsund ár hafa menn aðskilið þessi tvö tilverustig; Þess vegna ætti að vinna markvisst að samræmingu þeirra. Í lífinu sjálfu ætti maður að fá tilfinningu um tengingu við þessi tvö tilverustig.
Maðurinn sjálfur ætti að gera sér grein fyrir því að hann getur tengst fíngerða líkamann við sitt daglega jarðneska líf. Smátt og smátt mun maðurinn fylgjast með birtingarmyndum geðlíkamans. Þegar efnislíkaminn er hreyfingalaus ætti ekki að snerta hann eða trufla og vera í þögn og kyrrð. Þegar sjónum er beint inn á við, ætti ekki að hafa ljós nálægt eða breyta hitastiginu. Þessar aðstæður eru alls ekki erfiðar og hægt er að koma þeim á. Lengi vel verður fínni líkaminn óháður vitsmunum, en þá mun hann ganga í sátt við æðri vitundina. Þetta er ekki bara tilraun; það er enduraðlögun þeirra krafta sem hafa verið reknir í burtu af vitsmunum. En greindin verður einnig að taka næsta skref uppstigsins. Maður getur þannig einfaldlega beint sjálfum sér að hærri stigum tilverunnar.Það er enginn vafi á því að fíkniefni og kjöt eru hindranir í vegi fyrir samhæfingu efnis- og geð líkamanna. En vissulega er ekkert rými fyrir þvinganir í þessu, því öll samræming verða að halda áfram.

440. Helsta hindrunin er að fólk krefst þess að ein aðferð sé til að ná tilteknum árangri, en leiðin til að ná árangri verður ávallt að vera fyrir hvern og einn. Auðveldasta leiðin fyrir einn er erfiðust fyrir annan. Samfélagsuppbygging byggist á einsleitri framkvæmd og þess vegna týnast bestu möguleikar hennar. Krefjast verður að besta niðurstaða fáist, en þær niðurstöður er best að láta einstaklinginn um að ná. Það sést best í nokkrum stuttum tímabilum í sögu mannkynsins þegar atburðarásin tók ánægjulega beygju. Maður getur verið viss um að einmitt á slíkum stundum hafi leiðir einstaklinga verið studdar.

44. Reyndir sjómenn skoða hafið sem tvískipt. Þeir greina á milli tveggja strauma: annar, sjáanlegur á yfirborðinu sem skiptir engu máli; og hinn, undir yfirborðinu sem ekki er auðvelt að greina, en sem hefur raunverulegt afl og þýðir annað hvort öryggi eða hættu.
Það er erfitt að snúa athygli manns frá froðu atburðanna og skynja mikilvægustu straumanna. Hversu mikla orku er hægt að spara ef við horfðum framhjá blekkingum yfirborðsins! Það er ekki erfitt að þjálfa dómgreindina að skynja birtingarmyndir náttúrunnar. Fræðsla okkar beinir manni að því að sjá manninn sem óaðskiljanlegan hluta náttúrunnar.
Þú gætir hafa tekið eftir því að vísbendingar Okkar tengjast hjarta atburðanna. Ég tala oft um traust, ekki vegna þess að ég efast um það, heldur vegna þess að það sem er augljóst, hindrar mann í að sjá innri strauma. Allir geta minnst þess að hafa misskilið tilfallandi grundvallaratriðin og þannig hafa mótað rangar hugmyndir um eðli líkamans. En þetta er einnig hægt að segja um hugmyndir um eldinn. Einhver getur af þröngsýni muldrað, „Forfeður okkar bjuggu án elds en fóru í gröfina sem heiðraðir borgarar. Hvað hef ég með eld að gera? Láttu það vera áhyggjuefni kokksins míns! “ En vitringurinn hugsar; „Hvaðan koma óútskýranlegir faraldrar, visnun lungna, háls og hjarta? Umfram allar augljósar orsakir fer eitthvað framhjá læknavísindum. Það eru ekki kringumstæður lífsins, heldur aðrar aðstæður sem þurrka út svo mörg líf.“ Þessi leið til ófyrirséðra athugana leiðir til réttra ályktana.
Fræðarinn vinnur að því að sætta andstæðar aðstæður í eitt flæði. Að koma saman aðstæðum sem eru ólíkar í kraftmikla mynd. Þannig getur maður séð velgengni og mistök sem systkini.

442. Vissulega er viturlegasta ráðið að borða aðeins þegar líkaminn hefur þörf fyrir það. Einnig nægir að borða tvisvar á dag. En í ljósi aðstæðna nútímans er erfitt að fylgja þessu eftir. Þess vegna ætti meltingin að fá frið nema á tilteknum tímum. Skaðlegast er að borða hvenær sem er án raunverulegrar þarfar.
Skipulegt líf er ekki eitthvað skammarlegt, því að maður verður að vernda líkamann sem tók aldir að þróa. Það er rétt að ætla að maður þurfi mjög lítinn mat, en hann verður að vera af nægilegum gæðum. Forðast ætti sýrur og tilbúna efnablöndur. Þrátt smjör er jafnvel skaðlegra en þurrkaður ostur. Við ábyrgjumst og þú ættir að hafa í huga að það er auðvelt að íþyngja sér með matnum.

443. Þér verður sagt frá stöðum þar sem margir guðir eru. Þér verður sagt frá stöðum þar sem um er að ræða neðanjarðarelda. Nýttu þér þessar upplýsingar. Hvað þýðir staður guðanna? Merkir það ekki að þetta sé staður með sérstökum skilyrðum fyrir geðheiminn? Nærri eldstraumum má finna skærar birtingarmyndir geðheimsins sem vekja furðu manna. Er eldurinn í iðrum jarðar ekki skyldur eldinum í geimnum?

444. Eru ekki erfiðleikarnir sem upp koma æskilegri en dauðaþögn? Er hvassviðrið ekki afleiðing hreyfingar? Fræðsla um að vinna bug á erfiðleikum er fræðsla um að leitast til þess góða.

445. Þú ættir að tengja umfjöllun um geðheiminn við framtíðartilraunir í þéttingu geðlíkamann. Í jarðneskum aðstæðna er sálarorkan þjálfuð í að færa vitundina í nýja gerð líkama. Þessar breytingar gerast í litlum aðlögunarskrefum og fáir taka eftir. Ég hef þegar bent á tilraunina með geðlíkamann sem verður að eiga sér stað í þróunarferlinu.

446. Til þess að geta skynjað útvíkkun vitundar sem árangur í lífinu, verður maður þegar að hafa verið reyndur í andanum. Fólk er svo vant að byggja líf sitt á hlutum sem hafa efnisleg gildi, að það skilur jafnvel ekki og mun ekki skilja grundvöllur tilverunnar svo lengi sem mannkynið fer hefðbundnar leiðir. Þetta þýðir að ný lífsskilyrði verða að mótast með óvenjulegum hætti. Engin regla er fyrir þetta óvenjulega, þar sem líf andans mun móta hversdagslegar kringumstæður.
Helsta orsök óhamingju í fjölskyldum er að líf andans er ekki hluti af daglegri tilvist þeirra. Með endurbótum er hægt að prýða lífið og uppflæði andans. Það er til ákveðinn lifnaðarháttur sem verður eins og bæli dýra. Þegar fólk týnir veginum til æðri heimsins, skaðar fólk ekki aðeins sjálft sig heldur einnig umhverfi sitt. Hundar þeirra þróa skaðlegar venjur og búfénaður þeirra, fuglar og ræktun þeirra verða óhæf til þróunar.
Það verður að benda manninum á það sem hann skapar í kringum sig! Hvort andlegu undirstöður lífsins eru dauðar eða lifandi ræðst af aðstæðum í öllu lífi hans. Það er hægt að sjá að meginskipulagið er óbrigðult. Þegar nauðsynlegt er fyrir Okkur að taka tíma til að endurheimta krafta Okkar, gerum Við ekki ráð fyrir að hörfa. Það ætti að skiljast að við munum flýta fyrir atburðum eins mikið og krafta okkar leyfir. Þú verður bara að hjálpa Okkur með réttu viðhorfi. Skilja að enginn hljómsveitarstjóri getur náð fram samhljóm ef hljóðfærin eru ekki stillt. Að auki er pirringur aðeins skref aftur í lægra efni. Það er betra að taka þátt í gagnlegri vinnu. Þannig munt þú vera fær um að koma fyrirfram ákveðnum atburðum nær í birtingu. Reyndar eru ákveðnar leiðir til þar sem hægt er að halda áfram, en aðeins með Okkur.

447. Hægt er að ákvarða stig sálarorku manns eftir gæðum hennar, en ekki krafti hennar. Hún er næm fyrir öllum kringumstæðum, jafnvel andrúmsloftsins. Yfirleitt er miðillinn með lægstu orkugæðin. Fræðararnir hafa miklar áhyggjur af þessu. Næsta stig skapar að hluta til ósjálfráðar birtingarmyndir sálarorku en án tengingar við andann. Maður getur séð eða heyrt sálrænt, án þess að þekkja fræðsluna. Vissulega er sú tegund sálarorku sem þróunin þarfnast sú sem milligöngumenn búa yfir. Þeir hafa sanna næmni og viðhalda samræmi við fræðsluna. Þessi hæfileiki til samræmingar, sem reynsla aldanna hefur skapað, verndar þau gegn miklum áhrifum.
Miðlar geta vakið áhuga manns, en milligöngumaður verður að meta og þakka.

448. Í myrkrinu heldur jógi sterkum segli eða flís úr hlut úr fjarlægum heimum yfir höfði nemandans og spyr: „Hvað finnst þér?“ Venjulega er fyrsta svarið neikvætt, „Ég finn ekki til neins.“ Jóginn svarar: „Það er ekki satt; það getur ekki verið í þér svo mikil skortur á árvekni að þú finnur ekki fyrir neinu.“
Nemandinn endurtekur „ég finn ekki fyrir neinu.“ „Það er ekki satt; þú ert einfaldlega hræddur við að tjá tilfinningu og tengjast því sem þú upplifir.“Eftir langa þögn segir nemandinn: „Kannski er mér kalt og sé eitthvað eins og blikkandi stjörnur.“
“Af hverju segir fólk „að því er virðist“ og „kannski“ þegar það sér og finnur? Aðeins með afgerandi staðfestingu vex sálræn orka. Þannig er hægt að auka móttækni þess, því að fyrir ofan okkur eru alltaf segulstraumar og útgeislun sem gefur til kynna geimblóm.

449. Spennan um eilífa árvekni, skjálftinn að leitast við og strita, krefst sérstakrar aðlögunar af lífverunni. Við metum þessa árvekni.

450. Hægt er að líta á keðju jarðvista sem röð af aðskildum lífum, en það er betra að líta á alla röðina sem eitt líf. Sannarlega er lífið eitt; frá því að ná tökum á mannlegri vitund, lífið með öllu því sem verið hefur, hættir ekki og kosmískir straumar allt um kring vekja sömu tilfinningu í öllum lífsfösum. Þetta er eitt helsta af sameiginlegu þáttum lífsins og sannar meðfædda einingu allra meginreglna. Maður gæti kallað jarðvist sofandi draum eða vöku, allt eftir sjónarhorni manns. Í fortíðinni var það kannski svefndraumur, en í framtíðinni verður það ef til vill vaka. Þetta veltur á árangri þróunarinnar.
Maður getur séð með hvaða hætti, í hverju lífi, í aldir, hvernig svipaðar tíðnir vekja svipaðar tilfinningar. Þessar athuganir eru gagnlegar til að læra að skilja einingu lífinu. Ef fólk gæti áttað sig á einingu lífsins myndi það fyrr læra að stefna að markmiði og ábyrgð. Í gömlu ritningunum er dagur og nótt Brahma gefin til kynna – þetta virðist skýra hinar ýmsu ástæður lífsins. En eftir Atlantis, varð til rangur skilningur á dauðanum og jarðneskt líf var læst inni í skel þröngsýni. Afneitun kom í stað þekkingar. Hins vegar er dagur og nótt Brahma til í öllu, jafnvel púlsinum. Fyrst, millibili púlsins; þá millibili í svefni líkamans; og síðan millibili efnislegs og fíngerðra ástands; og svo framvegis, allt til púlsins á Manvantara.
Maðurinn verður að breyta vitund sinni, þar með talið sjálfum sér í óbrjótandi vitundarkeðju. Aukin vitund veitir hærri skilning í hverju skrefi lífsins. Þetta skapar það óvenjulega sem við höfum þegar talað um. Þetta óvenjulega er sannleikur!

451. Einu sinni sagði franskur aðalsmaður við St. Germain: „Ég get ekki einu sinni skilið vitleysuna sem umlykur þig!“ Saint Germain svaraði: „Það er ekki erfitt að skilja vitleysuna mína, ef þú gefur þinni sömu athygli og þú gefur mér, ef þú lest skýrslur mínar af sömu athygli og þú gefur listanum yfir dansara við hirðina. En vandamálið er að röð dansana skiptir þig meira máli en öryggi plánetunnar.“ Í þessum orðum er að finna harmleik okkar tíma. Við finnum ávallt tíma fyrir alls kyns lítilsgildra athafnir, en við finnum ekki stund fyrir það allra nauðsynlegasta.

452. Ég tala ekki fjálglega um skilning á þjónustu sem dreifir andrúmslofti hversdagsins og leiðir til sáttar sem nauðsynleg er til að geta unnið verkefni. Maður getur læknað taugaveiklun með ytri aga, en að fagna þjónustu í meðvitundinni er besti aginn.
Eldur krefst varúðar. Maður ætti að þroska það og þjónusta er mælikvarði á umhyggjusamri árvekni. Rétt eins og blöð blóma krulla og síga af klaufalegri snertingu, eins lokar verndarhjúpur lótussins sig þegar ofbeldisfull ógn rýfur rými manns. Sem umhyggjusamur starfsmaður býð ég samstarfsmönnum að bera fjársjóðinn.

453. Kerúba var lýst með vængjum, en án mannlegra útlima. Þetta var ef til vill tákn um þróun sem ekki er mannleg. Búdda var mannlegur og var lýst sem slíkum, en með geislum aftan frá öxlum. Þannig var í fullu mæli bætt við mannlegt eðli, tákni fyrir tökum á frumöflunum og í því liggur lokaafrek. En fólk getur ekki sætt sig við hugmyndina um að það náist í mannlegu ástandi. Þegar þeim er sagt frá geislum axlanna byrja það strax að gera lítið úr mikilvægi annarra líkamshluta. Þannig er sköpuð mynd af kerúbi sem líflausi pylsu – fullkominn og einangruð frá lífinu. Þess vegna tökum við upp mildun, fyrst með flæði óvæntra atburða, síðan með því að eyða tilfinningu um persónulegar eignir og síðan með því að taka á sig hættuleg verkefni. Eftir þessar hreinsanir beinum við athygli ykkar að daglegu lífi á jörðinni þar sem virðist í venjulegum aðstæðum koma fram óvenjulegar áskoranir. Maður getur ímyndað sér gæði vængjanna þegar líkaminn lifir umkringdur ófullkomleika. Vængirnir stækka síðan með fullri útgeislun af höggum sem aðrir hafa valdið.
Þegar paradísarfugl var spurður hvaðan ljómi fjaðra hans komu, svaraði hann: „Margar eitraðar örvar hrukku af mér og eyðandi eitrið gaf mér besta litinn.“
Við skulum því þakka þessum skyttum!

454. Þegar geðheimurinn er nærri, verða mörg minni blekkingarfyrirbæri áberandi. Við dreifum töfrum geðheimsins svo Maya hindri ekki og þegar rétt viðhorf til geðheimsins hefur náðst, getum við aftur beint athygli þinni að því. Í nafni þróunar lítum við alltaf á fíngerða líkama hlutlægt, hvorki með höfnun né hrifningu. Efnislíkaminn inniheldur geðlíkamann eins og þykkur börkur inniheldur safann af trénu. En ef geðlíkamanum er gefinn möguleiki á að þróast og verða öflugri, mun hann endurheimta frá líkamanum jafnvægi sitt.

455. Eins og bátur með hert segl í óveðri, svo heldur skip Okkar áfram. Maður sér að fortíðin var einfaldari en nútíminn. Þetta þýðir ekki að nútíminn sé íþyngjandi og slæmur; það þýðir að það hafa orðið framfarir. Meðan launsátur að óvininum er undirbúið er skipun gefin, „Þögn!“ Þá er það aðeins sá fáfróði sem vekur upp rödd sína; reynslumiklir kappar þegja, því þeir vita að hróp þýðir eyðing.
Ég staðfesti að þó að afrekið hafi ef til vill verið snilldarlega skipulagt, þá er það fínpússun nemans í smáatriðunum sem kórónar sköpunina. Fræðarinn gleðst yfir hverri hreyfingu í rétta átt, en getur fræðsla Mín lýst fyrir þér hvert fótmál? Aðeins aðalatriðin má Ég leggja fram — þannig er lögmálið.

456. Sársauki líkamans er náttúruleg staðreynd og er ekki hægt að hindra. Auðvitað er hægt að draga úr sársauka með efnum eða með viljaafli, en einnig getur annar tekið hann yfir. Frá fornu fari hafa verið starfandi hópar fólks sem taka á sig sársauka annarra; til dæmis í Egyptalandi við veikindi Faraós. En full áhrif fengust ekki oft. Til þess var samkomulag hópsins ekki nægjanlegt – þörf var á meiri innri samstöðu.

457. Stundum sér maður hjá börnum undarleg og hverful augnaráð, eins og þau sjái eitthvað óútskýranlegt. Stundum tala þau um eld, um stjörnur eða neista. Fullorðnir rekja þetta venjulega til veikinda eða heimsku, en einmitt slík börn þurfa athygli. Eins og þekkt er, geta yngri börn auðveldlega séð geð-myndir og auk þess geta viðkvæm börn jafnvel séð kosmíska elda. Fylgjast skal vandlega með þeim frá fyrstu tíð. Verið viss um að í þeim liggja fyrirheit Agni Jóga og ef þau eru sett í hreint umhverfi munu þau uppfylla þessi loforð með fyrirmyndar hætti. Hug þeirra má ekki menga með úreltum hugmyndum og heldur ekki að innræta hræðslu við hið óvenjulega í þeim.
Við höfum talað um mikilvægi Agni Jóga, og auðvitað ættu fræðslan ekki að einungis að vera til sýnis fyrir viðkvæma, heldur fyrir veruleikann, sem leiðbeiningar um fyrirbúna leið.
Fyrir móður eru þessar athuganir ekki erfiðar; hún þarf aðeins að vita hvað og hvers vegna hún fylgist með. Ég er ekki að tala um skaðlega eftirlátssemina, án rétts mats. Áhorfandinn nálgast hæfileika barnsins lítt áberandi og býður, eins og af tilviljun leiðbeiningar. Það má taka eftir því hve glaðleg augu barns opnast þegar hreyfingar þess og upphrópanir um hluti sem honum eru kærastir eru studdir af kærleika. Spott er versti kennarinn. Næmni sýnir menningarstig.
Maður getur ekki búið til Agni Jóga, maður getur aðeins opnað slóðina fyrir þá – hin kosmíska birting leyfir ekki neina þvingun. En þar sem blómið eldsins er tilbúið til að blómstra, hindrið það ekki.

458. Slægð og útsjónarsemi eru ólíkir eiginleikar. Slægð er vörn, sviksemi, að festast í því gamla. Útsjónasemi er framtíðin, hreyfanleiki, alúð. Enginn getur gagnrýnt útsjónarsemi. Skiptir máli á hvort borðið skipið klífur til að ná sem fyrst á áfangastað? Við erum ekki undrandi á sífelldri stefnubreytingu þess þegar það siglir gegn vindi, því það sigrar þannig allar hindranir.
Slægð vekur þvert á móti aðeins viðbjóð. Maður sér að slægð miðar ekki að framtíðinni þar sem hún stendur aðeins til varnar eins og hlutirnir eru; það er dæmi um verðlausa tilveru.
Maður verður að meta eld útsjónarseminnar. Ef við gefum gaum þegar eldurinn kviknar, munum við sjá að miklu fínni logar birtast þegar hugrekki og útsjónarsemi birtast.

459. Ég staðfesti að gleði vinnunnar er besti logi andans. Birting gleðinnar fylgir aukin virkni orkustöðvanna. Mörg frábær afrek koma í gegnum birtingarmynd gleðinnar. Gleði er eldur!

460. Maður verður að skilja samband tímasetningu ákveðins atburðar sem vænst er og kjarna atburðarins. Fólk tengir almennt þess sem vænst er út frá smáatriðum sem það býst við að sjá, og ef það sér ekki þessar smáatriði, þá getur það ekki séð kjarna atburðarins. Hvað ættum við þá að hugsa um – yfirborðið eða grundvallaratriðin? Mundu hversu oft, of mikil athygli á smáatriði dregur úr meginatriðinu. Fólk vill frekar halda sig við léttvægið en fylgja kjarna alheimslegs mikilvægis.

461. Framkvæmd, samræmi og árvekni eru sett fram í þrílitnum loga. Afrek er silfur; samræmi er græn; árvekni er gul. Þríhyrningurinn er þróast með þjálfun vitundar manns við mörg lífsskilyrði. Maður getur bent á þessa þrenningu sem tákn þess að maður hafi náð góðum tökum á nauðsynlegum skilyrðum fyrir fórnfýsi.

462. Hluti forns leyndardóms er kallaður „Kaleikur afrekanna.“Innra yfirborð fjögurra hliða kaleiks var þakið silfri og ytri hlið hennar þakin rauðum kopar. Kaleikurinn var fylltur með granateplasafa. Staðfesting afreks var táknað með hæð kaleiksins. Síðan var safanum hleyp út um allar fjórar hliðar þess, sem tákn um skilyrðislausan vilja til að þjóna almannaheill.

463. Ánægja er ekki velkomin í húsið okkar. Hver á meðal okkar gæti nokkru sinni verið ánægður? Stórbrotið verkefni heimsköpunar hrópar gegn ánægju. Getur verið gleði í lúkningu? Við öðlumst hvatningu frá gleðinni við nýja byrjun. Þetta er ekki afstætt. Upphaf samsvarar hreyfingu og framlenging hennar ræðst af tregðu. Slag upphafs er bjalla Okkar. Ef við myndum taka aftur allt úr heiminum sem Við höfum byrjað á, myndi meirihluti áferðar heimsins molna.
Hver getur breytt örlögum? Hvar er aflið? Aðeins í hugsun. Fólk treystir ekki hugsun nægjanlega og viljakraftur þeirra er bundinn sjö sinnum. Maður segir: „Ég hef safnað öllum mínum viljakrafti,“ en á sama tíma er hann hræddur, efast, hatar og hikar. Viljinn virkar ekki með þeim hætti. Hann getur aðeins sent örina þegar öll bönd hafa verið fjarlægð. Þetta ástand var kallað hlutleysi, en það er ekki rétt; það er betra að skilgreina það sem frelsun. Við skulum taka dæmi um skyttu. Ef ör hans er þyngd niður með einhverjum hætti spillist flug örvarinnar. Ef fólk gæti lært að bera saman innri aðgerðir sínar við líkamsstarfsemi sína myndi það auðga vitund sína til muna.

464. Jafnvel þó að maður safni saman öllum viljakrafti sínum, þá getur maður samt ekki kallað fram kosmíska eldinn. Birtingarmyndir eldþáttarins eru ekki hægt að stjórna, þær vaxa náttúrulega frá þenslu vitundarinnar. Við köllum mannsvitundina garðinn Okkar þar sem vex afrakstur vinnunnar. Vinnan við útvíkkun vitundar heldur áfram á sviðunum tveimur. Þessar tvö svið eru aðskilin í birtingarmyndum lífsins, rétt eins og neðanjarðargöng snertir ekki grænmetisríkið og eins og fall loftsteins er óháð veðri. Fólk á erfitt með að skilja lagskiptingu þessara tveggja sviða.
Vitundarárvekni er nauðsynleg, en fáir eru þeir sem búa yfir henni. Hvert fyrirbæri elds krefst ekki aðeins ákveðinna líkamlegra aðstæðna heldur er það einnig háð vitundarástandi. Óvæntanleiki fyrirbæra er ekki svo erfitt að útskýra: það er nóg að skoða eigin vitund án fordóma og greina líkamlegar aðstæður sem fóru á undan fyrirbærunum. Maður mun skynja eins konar skammhlaup straums, sem myndar birtinguna.

465. Urusvati upplifði opnun þriðja augans. Það er ekki auðvelt að ná hæfileikanum til að skynja útgeislun sálarorkunnar. Við notum spennuna í andrúmsloftinu til að koma auga á þróun vitundarinnar. Það sem er til í djúpi vitundarinnar verður að kalla fram. Það er ekkert stig andlegrar vaxtar sem er auðvelt. Maður á ekki að þvinga framfarir til að ná valdi á sálarorku. Hringur þriðja augans er erfiður. Sameining þess við kosmíska eldinn fer fram nálægt þeim kirtlum sem eru fullir af tengingum frá orkustöðvunum. –
Þrír logar, síðan Kaleikur árangurs, og síðan þriðja augað – þetta er hluti af leyndardómi Okkar. Síðan þarf a.m.k fjögurra daga hvíld.

466. Ég ráðlegg að tekið sé eftir hvaða aðgerðir og hugsanir fylgja birtingu stjarna og hverjir séu litir og stærð stjarnanna. Þessar vísbendingar eru eins og sæla heimanna. Kosmíski Eldurinn virðist málmbundinn og lífið fyllist af prana geislun veruleikans. Maður ætti einfaldlega að horfa á táknin án fordóma og fylgjast með hvaða hugsun tengjast þeim. Vissulega virðast þær kunnuglegar sálarsjóninni, en maður ætti að veita þeim athygli og láta sem þær séu kunnuglegar. Aðeins fyrir veikburða getur daglegt starf Fræðslunnar verið þreytandi. Neistaflug Kosmosins eru einstök og ekki endurtekin. Við gætum útvegað heilan kafla sem lýsir athugunum á þessum stjörnum.

467. „Og með fólki sínu þurrkaði hann út öll táknin í sandinum.“ Í þessari aðgerð sjáum við allt örlæti Fræðarans, öll auðæfi hans, alla höfnun fortíðar og strit inn í framtíðina. En fólk, eins og Ég sagði, breytir öllu í hið venjulega, svo að allar athafnir þeirra, hvort sem þær eru persónulegar eða þjóðlegar, hvort sem þær eru efnislegar eða andlegar, eru sviptar eldmóði. En ef daglegt starf Okkar er vígt í nafni Fræðarans getur það ekki verið venjulegt eða þreytandi. Ef við gleymum fyrir hvað við vinnum, munu leiðindi, rotnandi líkklæði þeirra, hylja okkur og allir trúðar heimsins munu ekki geta vakið okkur bros.
Hvernig er mögulegt að lýsa daglegu starfi Fræðarans þegar hann dreifir sköpun sinni út í geiminn og hvirfilvindarnir bera hana burt? En með brosi dreifir Fræðarinn táknin, því að hann mun aldrei þreytast á því að sá neistum árangurs.

468. Marglitir neistar tengja okkur við háleita vitundina. En Kosmíski eldurinn getur ekki birst með fullum krafti, því að mannlegur kjarninn myndi þá brenna til ösku – nema þegar um er að ræða þann sem hefur vígt sig til elds og farið í eigin hold í gegnum öll stig afreks að eldsþættinum.
Á sama hátt, þegar þú kennir undirstöður lífsins, getur þú gefið ýmis litbrigði um grundvallaratriðin, en fullkomna fræðslu er ekki um að ræða og er ekki hægt að gefa. Engin bók getur innihaldið allt lífið og það er ekki tilgangur fræðslunnar að breyta nemendum í vélmenni. Sannarlega hefur enginn fræðari skilið eftir endanlega og fullkomna útlistun á fræðslunni. Það myndi stangast á við óendanleikann og gera ráð fyrir takmörkun í vitund fylgjenda.
Við getum bent á áttina; Við getum boðið þér að fljúga; Við getum staðfest vinnunna; Við getum bent á ljósið; en leiðir og aðferðir ættu ekki að vera þvingaðar. Hin aukna vitund mun alltaf benda á hvar karma er friðhelgt. Friðhelgi karma er á ábyrgð allra sem fræða aðra um grunnatriði fræðslunnar. Að íþyngja með of miklu álagi er ófyrirgefanlegt. Að yfirsjást möguleika er óverðugt.
Fræðari beinir flæði vitundarinnar. Nemandi tekur ekki einu sinni eftir snertingu hans. Þannig ættu allir að fara inn í lén fræðslunnar eins og inn í lífið, staðfastlega. En í þessu skyni þarf að lesa fræðsluna hvað eftir annað, en í mismunandi hugarástandi. Það væru mistök að verja tíma í fræðsluna aðeins í hvíld eða til upplyftingar. Besta tákn fræðslunnar er eldurinn allt umhverfis.

469. Þremur öldum eftir brottför hins blessaða voru lærisveinar hans þegar smitaðir af trúarlegum deilum. Eftir aðeins eina öld, sýndi kristnin mjög lítið umburðarlyndi. Eftir síðasta málflutning Mohammed fylgdi strax ofstæki. Trúarlegar deilur eyðileggja alltaf tilfinningu hinnar sönnu fræðslu; þess vegna biðjum Við nú um sérstakt umburðarlyndi og við höfnum deilum.
Spyrja má hvernig eigi að gæta fræðslunnar, en svara ekki samt röngum ásökunum. Besta vörnin er að efla starf sitt ekki á fjandsamlegan hátt. Maður getur afvopnað fjandsamlega ásakendur með því að styrkja afl sinn. Þú veist að við forðumst ekki óvini, en maður ætti ekki að eyða kröftum sínum á þá.
Þegar þú ert með okkur, umkringdur bláu neistum Okkar, er allt mögulegt. En ekki má misnota geisla okkar. Það er sérstakur tími þegar eining þín afls og Okkar þarf að fara yfir hyldýpið.

470. Allt sem heyrt er og séð í gegnum hvirfilorkustöðuna (Brahmarandhra) á skilið sérstaklega næma athygli. Hæsti eiginleiki sálarorkunnar tengist kosmíska eldinum. Sjaldan er hægt að sjá þessa elda í nokkru mæli. Rétt eins og himneska hvelfingin er uppfull af útgeislun fjarlægra heima, svo glitta eldarnir fyrir ofan kórónu höfuðsins. Með því eru eiginleikar sálarorkunnar hreinsuð.
Við ættum að gleðjast yfir hverju tákni um hreinsun á sálarorkunnar. Reyndar er það í jarðvist sem maður kristallar sálarorkuna. Þegar maður fer á geðsviðið verður að halda í vitneskju um næstu framtíð og kveikja í viðleitni sinni með kristal sálarorkunnar. Annars munu þeir sem fara inn í geðsviðið sökkva í rökkrið á sviðsmörkunum. Það er þess vegna sem sálarorkan er svo verðmæt.

471. Það eru eiginleikar sálarorkunnar sem skiptir mestu máli. Sannarlega er sálarorkan alltaf til staðar, jafnvel í smærri birtingarmyndum. Í lægri lífverunum kemur það fram með eðlisávísun en ekki vitund. Minni sálarorka samsvarar neðri lögum andrúmsloftsins og hringrásar þar. Hjá mönnum virkar hún í neðri orkustöðvum.
Maður verður að vita hvernig á að stjórna sálarorkunni og beina henni til árangurs. Sálræn orka eflist með réttum hugsunarhætti. Að stefna til hæðanna er besta verkefni hvirfilorkustöðvarinnar. Auðvitað getur maður ekki þvingað sjálfan sig í að beina hugsun sinni upp á við. En hún verður náttúruleg, en þó aðeins eftir langa reynslu. Sálarorkan lyftir okkur upp og næsta vitundarstigið sem hún skapar, eflir þannig gæði orkunnar.
Höggormurinn mikli, sem bítur í hala sinn, lýkur hringnum.
Hve mikið orkan hefur eflst má sjá í útgeislun manns. Getan til að skynja þessa geislun er merki um sigur vitundarinnar.

472. Þegar fólk sér ekki neina möguleika fellur það oft í örvæntingu. Venjulega gleymir fólk því að einn helsti bandamaður þess er atburðarflæðið. Við segjum ekki að menn eigi að bíða óbeint eftir hinu óþekkta, en stundum gerast fyrirséðir möguleikar einfaldlega ekki þegar þess er vænst. Stundum eru þeir liðnir og ekki lengur fyrir hendi.

473. Á sama hátt og við rannsökum eðli geðheimsins, skulum við skýra afstöðu okkar gagnvart Rósarriddurum, Frímúrurum og öðrum samtökum sem eru helgaðar almannaheillum. Margir Mahatmas hafa tekið þátt í þeim. Þegar við minnumst upphaflegu hinna sönnu meginreglna þessara samtaka, megum við ekki hverfa frá þeim. Þegar það snýr að einlægum hvötum, þá verða allir samstarfsmenn fyrir almannaheill að viðurkenna hver annan, sérstaklega þegar andinn er þroskaður og vitundin vakandi.
Af hverju ættum við að hlusta aðeins á fordæmingar? Aðeins á neðri stigum eru fordæmingarorð sögð; þau eiga ekki heima þar sem fræin falla í Kaleikinn.

474. Ræktun skaðlegra örvera nýtist aðeins til að rannsaka eðli þeirra, í þeim tilgangi að eyða þeim. Einmitt, verður maður að læra að eyða þeim. Þeir skaða bestu seyti og geta talist óvinir sálarorkunnar. Rétt eins og ryð hægir á hjólinu, þá leynist í efnisúrgangi bein þekking.

475. Fræðslan fer sína leið án þess að grípa til þvingana. Það má benda á hversu frjálst hún dreifist þegar tíminn er réttur.

476. Geðsviðið opinberar sig oft á efnissviðinu. En hversu hugsunarlaust bregðast menn við öllum fyrirbærum sem þeir þekkja ekki! Vegna fáfræði sinnar er þeim jafn brugðið er þeim komu inn í geðheiminn.

477. Flestir hafa alveg misst skilning á og getu til að beita sálarorku. Þeir hafa gleymt því að öll orka sem sett er af stað með aðgerð, heldur áfram. Það er nánast útilokað að stöðva slíkar aðgerðir. Þess vegna fylgir sálarorka öllum athöfnum sínum, stundum mjög lengi. Til dæmis hefði maður þegar breytt hugsun sinni, en áhrif fyrri hugsana munu engu að síður halda áfram í rýminu. Í þessu liggur ekki aðeins kraftur sálarorku heldur einnig sérstakir eiginleikar hennar, sem krefjast sérstakra meðhöndlunar. Aðeins með upplýstri vitund getur maður stjórnað sálarorku svo að gamlir hugarferlar hindri ekki leið manns. Oft getur slysni og óhæf hugsun truflað yfirborð hafsins sem náðst hefur á löngum tíma. Maður er fyrir löngu búinn að gleyma hugmyndinni en hún heldur áfram að fljúga á undan, lýsa upp eða skyggja á veginn. Ljósgeisli laða að litlu ljósin sem auðga það. En dökkar og rykugar agnir munu fylgja rusl og hindra hreyfingu manns.
Þegar við segjum „Fljúgðu með ljósinu“ eða „Dreifðu ekki óhreinindum“, er það viðvörum um áhrif aðgerða. Allt sem sagt er um sálarorku á við allar aðgerðir. Það er ekkert afstætt í því, því sálarorku er að finna alls staðar í náttúrunni og kemur sérstaklega fram í manninum. Hversu mjög sem maður reynir að hunsa hana, minnir hún á sig og markmið upplýsingarinnar er að kenna mannkyninu hvernig á að nota þennan fjársjóð.
Ef tími er kominn til að tala um efnislegan sýnileika uppsafnaðar sálarorku, þýðir að raunveruleiki sálarorku er orðinn ljós. Það þýðir að fólk verður að leitast við án tafar að ná tökum á þessari orku. Eldur kosmosins og sálræn orka eru tengd og eru grundvöllur þróunar.

478. Skaðlegar örverur eyða á beinan og óbeinan hátt. Það sem sagt var hér að framan varðar fyrst og fremst fyrsta flokkinn. Við sameiningu geð- og efnislíkamann eru þær skaðlegastar.

479. L. er mikilvægt fyrir sálarorku, vegna þess að kjarninn í L. hjálpar til við að varðveita kristalla hennar. L. verndar einnig taugamiðstöðvarnar, þaðan sem sálarorkan streymir. Prestar til forna klæddust plötum úr vaxbornu L., til að vernda Kaleiksstöð þeirra. Þessar hlífðarplötur úr L. munu vera lausn fyrir mannkynið. Ég talaði fyrir löngu um L.

480. Sölt L. eru gagnleg, ekki aðeins við meðhöndlun á þvagsýrugigt heldur einnig gegn alls kyns skaðlegum útfellum. Með því að basa uppsafnaðar útfellingar, hreinsar það leiðina fyrir sálarorku. Þessi sölt eru notuð fyrir þennan hreinsikraft og má ávísa þeim til innri neyslu.
Það er hægt að taka eftir því hvernig tiltekin nauðsynleg efni eru kynnt í lífið þegar tíminn er réttur.

481. Nemi sem er óhræddur við að endurmeta stöðugt grundvöll fræðslunnar í þeim tilgangi að betrumbæta þekkingu sína er á réttri leið. Sá sem er óhræddur við að vera misskilin er með okkur. Sá sem er óhræddur við að byggja upp tengsl milli hinna miklu strauma fræðslunnar er vinur okkar. Sá sem er óhræddur við að sjá ljósið hefur arnarauga. Sá sem er ekki hræddur við að nálgast eldinn er af eldinum. Sá sem er ekki hræddur við það óséða getur farið í gegnum myrkrið. Sá sem er ekki hræddur við að ferðast um heiminn er tilbúinn að leitast við fjarlægu heima. Sá sem er ekki hræddur við að þekkja kenningar viskunnar er með okkur.
Við afsölum okkur og eignumst þannig. Við gáfu og er gefið. Við sviptum okkur öllu og leystum okkur þannig frá freistingum. Sá sem ferðast um þekkingarstíginn gengur eins og ljón í eyðimörkinni. Hver mun bregðast við öskur ljóns? Aðeins annað ljón, laust við ótta. Hvar eru böndin? Hvar eru þá keðjurnar? Þekking á fjarlægum heimum mun mynda kórónu árangurs.

482. Það er rétt að reka ekki veikindi inn á við. Þessi sannleikur sem venjulegur læknir þekkir og læknir andans ætti að þekkja. Þar sem falin rotnun skaðar allan líkamann, svo er með það sem andinn hefur ekki reynt sem hindrað vöxt vitundarinnar.
Það er ekki skynsamlegt að segja: „Rífið út syndir þínar.“ Það er betra að segja: „Láttu velvilja fylla tilveru þína.“ Morguninn tekur við af nóttunni.

483. Maður verður að horfa á einfaldan hátt á mismunandi leiðir sem sálræn orka birtist í. Það getur verið frelsari eða þrælahaldari, sem birtir hana, allt eftir því hvaða hvati stýrir henni. Fyrir stefnu hennar eru engar sérstakar formúlur nauðsynlegar; aðeins einlæg leit er nauðsynleg. En að viðurkenna einlægni er ekki auðvelt, því það sem fólk kallar einlægni eru oft allt annað. Þeir geta réttlætt allar misgjörðir, þó þeir hafi einlæga hvöt. En hvar er sjálfsafneitunin sem hreinsar aðgerðina? Illt er tengt hræsni og persónulegu sjálfinu.
Engar töfraformúlur eru nauðsynlegar; hreinsun vitundarinnar mun knýja sálarorkuna í rétta átt.

484. Sjálfsánægja er undirstaða allra tilfinninga. Sérhver tilfinning hefur afleiðingar sínar, en sjálfsánægja vekur einungis dauða. Það er ekki auðvelt að hugsa sjálfsgagnrýni sem blessun, en maður getur þjálfað sig til að þrauka á þessum endalausa vegi til afreka.
Ef þú ímyndar þér hver gæti verið þinn mesti árangur, verður hann jafnvel ómerkilegur í samanburði við fullkomnun. Erfiðleikar okkar eru fyrst og fremst óánægja, það er hvati fyrir leit okkar. En fyrir nýliðann verður erfiðasta spurningin: „Bróðir, geturðu búið við eilífa óánægju?“

485. Sumir bera með sér hamingju, aðrir óhamingju. Mörg eru dæmin og margar sannanir er að finna. Gerum ráð fyrir að eitthvað slíkt sé til og líta á það frá sálfræðilegu sjónarmiði. Til viðbótar við karmísk áhrif, er eitthvað sem laðar að eða hrindir hamingjunni frá. Með mörgum tilraunum má sýna fram á að ákveðnar samsetningar frumefna ákvarða hlut aðdráttarafls eða fráhindrun. Því sterkari sem tilvist grunnorkunnar er hjá fólki, því jákvæðari verða áhrif þeirra. Ef þessi meginþáttur er eldur, þá dragast hinir þættirnir að eins og flugur að ljósi. Það þýðir að jafnvel er hægt að sýna árangurinn og mæla efnislega, það er gagnlegt að þekkja eigin kjarna.
Hvar er mörkin af aðgerðum elds? Eru ekki segullinn og eldurinn skyldir? Hvað nærir kjarna segulsins? Jafnvel í dag á fólk ekki tæki til að mæla spennu kosmíska Eldsins. En málma er að finna sem eru viðkvæmir fyrir eldsbylgjum. Mörg viðbrögð, sem fram til þessa hafa virst vera af sjaldgæfustu og fáguðum gæðunum, munu brátt vekja furðu vegna frumeðli þeirra. Fólk tekur alltaf eftir augljósustu þáttum fyrst. Enn sem komið er, hafa menn ekki reynt að eima hina allt um liggjandi orku.
Ráðleggðu vinum þínum að hugsa í þessa átt. Fyrsta tilraunin var gerð af frumstæðum manni með aðeins tvö tréstykki. En orka er langt frá því að vera fullnýtt. Eldur, eins og ljós, styrkir mannlega efnið.
Það sem er mesta dásemd og viðkvæmast er mildað í eldi.

486. Sem stendur eru menn ekki meðvitaðir um áhrif málma á sálarorku en í fornöld var mikill skilningur á þessu. Rannsóknir voru gerðar á seglum, og einnig málmblöndur úr sjö, átta eða níu málmum. Eins og þú veist, voru margar myndir mótaðar með málmblöndum og tilbeiðendum voru gefnar leiðbeiningar um hvernig átti að snerta þær. Þannig fékkst undir yfirskini lotningar að náð var jákvæðum áhrifum frá sálarorku dýrkendanna. Þessum frumstæðu vinnubrögðum er ekki lengur fylgt, en þeim hefur ekki verið skipt út í staðinn af neinni skynsemi. Stjörnueðlisfræði er viðurkennd, geislavirkni og segulsvið vekja athygli, en þetta beinist eingöngu að líkamanum, en það mikilvægasta, sálræna orkan, gleymist. Taktu eftir því hvernig litað gler, sem notað er sem sía, virkar á sálarástandið. Málmar og samsetningar þeirra munu verka enn sterkar.
Sálræn orka er þó ekki háð málmum; í eðli sínu er hún nær ljósinu. Málmar leiða sálarorku. Málmar hafa áhrif á sálarorku; þeir safna henni ekki upp, en jafnar hana og vernda.
Maður verður að taka eftir sálarorkunni.

487. Sumir munu segja: „Af hverju ertu upptekin af Agni Jóga og sálarorku, þegar við erum nú þegar með þráðlaus samskipti og alls kyns aðrar uppfinningar?“ En þráðlaus samskipti geta aðeins borið orð, en sálarorka sendir hugsanir strax og ýtir líka undir viðtakanda til að svara strax í athöfn. Okkur skjátlast ekki er við segjum að hálfur heimurinn bregðist við sendum ábendingum og að sálræn orka þekki enga fjarlægð.
Aðrir munu segja: „En getur þá ekki sálarorkan verið hættuleg ríkinu?“
Við munum svara: „Vissulega! Öll orka án stjórnunar er hættuleg; en hún eru til og tíminn nálgast þegar við verðum að læra að beita henni meðvitað á lífið.
Allir hafa varasjóð af sálarorku; en ef hún er ekki nýtt meðvitað, þá breytist hún í ljótt setlag sem kallast kölkun í líkamanum, en það hefði mátt nýta skynsamlega.“
Manstu söguna af þeim sem spurði? Að skilja lærisveininn eftir á eigin spýtum,flýtir fyrir að hann nýti sálarorku sína, alveg eins og plantan vex best þegar hún er í friði. Þannig þarfnast sálræn orka sjálfstæðrar og frjálsrar þróunar.

488. Ef þér er gefið klæðastykki sem dugar aðeins í eitt klæði, geturðu ekki búið til fullkomið klæði úr aðeins helmingi þess. Að sama skapi, ef þú samþykkir aðeins helming ráðanna sem þú færð, muntu ekki ná fullum árangri. Fólki finnst gaman að fá hluta af gefnum ráðum og kvarta síðan yfir óuppfylltum væntingum þeirra.
Viturt ráð er lyf sem innihaldi er ekki hægt að breyta.

489. Þekktur Rishi sat í þögn og hugleiddi.
Hann var spurður hvað það væri sem hann hugleiddi. Rishi svaraði: „Á þessari stundu byggi ég musteri.“
„Og hvar er þetta musteri sem þú ert að byggja?“
„Tuttugu daga göngu héðan; smiðirnir eru í mikilli þörf fyrir hjálp. “
„Svo að jafnvel í aðgerðaleysi byggir þú upp?“
Rishi brosti: „Er athöfn aðeins með höndum og fótum?“

490. Það er mjög dýrmætt þegar hægt er að kalla háleitar hugsanir til samstarfs – þegar eldur fylgir athöfnum og stjörnur taka þátt í þeim. Í einu skrefi eflum við vilja okkar og í því næsta tengjumst við kosmíska eldinum. Þá þjónar háleit hugsun sem einskonar sendir og magnari. Í þessu ástandi þurfum við ekki að reiða okkur svo mikið á viljakraft, því að nálægt okkur er að finna ótæmandi orkugjafa sem vinnur með okkur ef leyfilegt er.
Ef neisti slær á línu í handritinu þínum, sem ætti að eyða, eða undirstrikar með bláu ljósi það sem ætti að standa, þá þýðir það að þú hefur fundið öflugan vinnufélaga. Ekki er hægt að vekja hann með valdi; aðeins reynsla getur fært þig nær háleitri hugsun. Síðan, eftir eld og háleita hugsun, muntu ganga í átt að veruleika fjarlægra heima. Við gleðjumst þegar einhver fer út í kosmíska hafið.

491. Asbest, nokkrar tegundir kísils, mangan og útfalls sóda eru enn ekki fullnýtt í lífinu. Hvaða veikindi er nú hægt að lækna með sóda? Hvaða efnablöndur getur asbest skilað? Hvaða umbreytingar býður kísill upp á? Um mangan hef ég þegar talað um.

492. Agni Jóga nálgast á réttum tíma. Án þess, hver gæti sagt að inflúensufarald ætti að lækna með sálarorku? Hver myndi taka eftir nýjum geðsjúkdómum, heila og taugasjúkdómum, svo sem svefnveiki? Það er ekki líkþrá, né gömlu plágurnar eða kóleruna sem verður að óttast; fyrir þá eru nú þegar fyrirbyggjandi aðgerðir. En maður verður að velta fyrir sér nýjum óvinum sem verða til í aðstæðum samtímans. Maður getur ekki beitt gömlum meðferðum við þær; ný nálgun verður fundin með aukinni vitund.
Hægt er að rekja hvernig sjúkdómar hafa gengið yfir jörðina á síðustu þúsund árum. Með þessum gögnum er hægt að setja saman forvitnilega töflu yfir mistök manna vegna þess að veikindi sýna greinilega neikvæðar hliðar tilveru okkar.
Ég vona að vakandi hugar íhugi þetta í tíma. Það er of seint að byrja að búa til dælu þegar húsið þitt stendur í ljósum logum.

493. Maður verður að átta sig rækilega á framtíðinni. Vinnu lýkur ekki í verkum sem þegar eru ákveðin, hún heldur áfram endalaust.
Stritið að óendanleikanum er fallegasta leitin.

494. Ég fagna ef þú skilur að hindranir eru raunveruleg tækifæri.
Misstök eru viðurkenning myrkursins. Við verðum að muna slíkrar viðurkenningar, því að það er alltaf gagnlegt fyrir vöxt vinnunnar! Rétt eins og rotmassi frjóvgar jörðina, þá rotnar myrkrið til hagsbóta fyrir blóm ljóssins. Umlykjandi regnbogi verndar og skín bjartast gegn myrkrinu í kring.

495. Krabbamein er plága mannkynsins og mun óhjákvæmilega dreifast. Helstu aðgerðir gegn krabbameini verða fyrirbyggjandi. Þeir sem ekki nota kjöt, vín, tóbak eða fíkniefni; sem halda sálarorku hreinni; sem af og til gangast undir mjólkurfæði; sem hreinsa meltingarveginn og taka L. í vatni, þurfa ekki að hugsa um krabbamein.
Á fyrstu stigum krabbameins geta skurðaðgerðir verið til góðs; það er þó tilgangslaust, ef sjúklingurinn eftir bata síns, snýr aftur til fyrri lífshátta. Auðvitað geta hljóðgeislar brotið æxli niður, en af hvaða gagn kemur það ef orsök eitrunarinnar hefur ekki verið eytt? Lífið verður að vera heilbrigðara. Það er ekki skynsamlegt að finna upp lækningar fyrir lík! Maður verður að huga að lífsskilyrðum og venjum þeirra sem veikjast.
Hvernig er hægt að lækna krabbamein? Auðvitað með sálarorku, þar sem kristalar hennar ná bestu lækningunni. Það er mögulegt að nýta uppsöfnun sálarorku, sanna heilun fyrir alla sjúkdóma, jafnvel fyrir líkþráa. Kristal sálarorkunnar er hægt að fá úr musk, en þetta er kristall meðvitundarlausrar orku. Auðvitað er til kristall alheimskrafta, Steinn heimspekingsins. Hér, enn og aftur, voru gullgerðamennirnir nálægt sannleikanum. Steinn heimspekingsins, sem efnisleg uppsöfnun sálarorku, er grunnurinn að öllu lífi.
Venjan er að hugsa krabbamein sem arfgengt. Auðvitað verður að viðurkenna að eitrað líffæri fæðir af sér svipaða eitrun. Við ættum að vernda börn strax, því meðal þeirra eru nú þegar mörg sérstök.

496. Mjög viðkvæmar lífverur geta skynjað mikla herslu strengjanna. Það leyfir sanna samvinnu. Reyndar eru augnablik þegar hlífðarskjöldur heimsins verður glóandi og á slíkum stundum getur ekkert lífgefandi efni nálgast það. Sá sem hefur þróaða sálarorku veit hvenær nauðsynlegt er að bíða af sér óveðrið. Þessi hæfileiki kemur ekki skyndilega; þess vegna ættu alltaf viðkvæmir og hæfir samstarfsmenn að vera vel metnir.
Við gleðjumst þegar við finnum einn sem við getum kallað „fullan kaleik“, því að slíkum er hægt að treysta. Það eru mörg tilvik um að þeir, sem kallaðir voru til, sneru aftur, jafnvel eftir mörg tákn. Þeir sukku niður í meðalmennskuna, þeir rotnuðu lifandi og hörfuðu aftur niður í myrkrinu.

497. Gerðu þér grein fyrir því hversu gagnlegt það er að fylgja ráðum Okkar í stritinu fram á veginn, án þess að sjá eftir því og vita að hvirfilvindar stormsins efla orkustöðvarnar. En undir regnhlíf Dukkar getur þú beðið að storminn lægi; því að fræðarinn hefur marga varðmenn. Eldingu þjónar því að losa óson, þegar hana lýstur.

498. Ljós Abhidharma er tengsl elds á æðri sviðum og leiftrandi geislun vitundarinnar. Við sýndum með dæmi, þá vernd sem ljós Abhidharma veitir gegn eitruðu uppsprettum jarðlaga. Dökka loga eitruðu lofttegundanna er hægt að hindra með ljósi Abhidharma og gera þær skaðlausar; en til þess verður maður að umfaðma kosmíska eldinum í vitundina og eigin útgeislun. Almennt verður skilningur ávallt að vera fyrir hendi fyrir jákvæðri niðurstöðu. Einföld sannindi þarf að endurtaka; annars týnast þau undir ruslahaugi.

499. Sérhver athöfn sem er byggð á skynsemi er fengur sem aldrei eyðist. Staðfesting fræðslunnar er ósigrandi brynja. Þekking fæst með því að ná góðum tökum á neistum ljóssins. Rýmið er fyllt með óteljandi efnislegum þáttum.
Tilfinningin um tíma liggur í skynjun geislanna. Það langlífa getur orðið að hverfulleik. Uppbygging súrefnis – fæðingarstaður eldsaflsins – er ósýnileg.

500. Þú gætir hafa tekið eftir að hugsendingar gleymast fljótt. Það er vegna þess að sérstakar miðstöðvar taka við þeim, sem ekki taka þátt í venjulegum heyrnarferlum. Maður getur þjálfað sig í að muna þessi samskipti, en getan til að senda á þennan hátt er ekki auðvelt að náð. Slík samskipti eru ekki háð viljakrafti heldur skýrleika vitundarinnar, ásamt ljósi Abhidharma. Þannig velta gæði sendingarinnar á hreinleika vitundarinnar og súrefnisins sem laðar að kosmíska eldinn.
Menn ættu að fylgjast með mismunandi efnafræðilegu eðli hugsanasendinga. Venjulegar tilraunir í hugsanaflutningi eru gagnslausar. Í þeim sendingum endurtók sendandinn, „ég sendi,“ og viðtakandinn með því að hugsa „ég er að taka á móti“ og það truflaði vitundina.
Við sendingar í fjarlægð ætti að laga samskipti manns að sálfræðilegu ástandi þess sem tekur við. Það er betra að nota orð sem tíðkast hjá honum til að þreyta hann ekki. Taktu eftir því hve líkamleg venja manns hefur áhrif á sálarorku manns.

501. Á hvaða heimili mun sálarorka vaxa? Auðvitað í þeim sem huga að framtíðinni. Þetta er hvorki einfalt né auðvelt. Fólk er of fast í nútímanum. Þegar við tölum gegn því að þrá umbun, mun sá sem fastur er í nútímanum ekki geta skilið mikilvægi þessarar ráðleggingar. Sá sem leitar til framtíðar mun ekki einu sinni hugsa um umbun og hann mun líta á hverja slíka sem nýja skó til næstu farar. Á þann hátt kviknar leiðandi eldurinn og sálræn orka vex. Allt þróast með reynslu. Fengin reynsla skilst á veginum til framtíðar. Það er öfugt við tilgangslaust athafnaleysið.
Verðmætasta tilraunin sem maður getur framkvæmt er tilraun með sjálfum sér. Það leitar bæði út og inn á við. Þessi einföldu sannindi verður að endurtaka. Það er einmitt fengur og fórn í því að bjóða anda sinn til þjónustu í þágu mannkyns. Ótengdar andstæður mynda ekki hring og án hringsins getur enginn snúningur orðið. Hver spíralsnúningur, séð að ofan eða neðan frá, mun birtast sem hring. Öll flækjustig á myndinni hverfur fyrir okkur ef við stefnum til framtíðinni.
Ekki flækja leið sálarorkunnar. Hún mun sjálf hvísla í næmt eyrað þegar minni svefn er þörf, þegar minna þarf af mat og þegar minna þarf af drykk. Reyndar veitir öll orka næringu, andleg orka sérstaklega.
Tímabundin veiking á útlimum ætti ekki að valda kvíða. Eitraðir straumar jarðar vinna fyrst og fremst á útlimum. En náttúrulegur vöxtur sálarorku getur bætt upp veikleika líkamans og hjálpað til við að koma á jafnvægi milli séðra og óséðra krafta.

502. Það er hægt að sjá fyrir sér að sumir nemendur sem geri sálrænar tilraunir með plöntur nái engum árangri. Maður getur líka séð fyrir því að sumir þessara nema muni ásaka fræðsluna um ómarkvissar vísbendingar án þess að hugleiða sína eigin ófullnægjandi sálarorku.
Ekki skortir á nákvæmni í ráðum Okkar þegar ég segi, að ekki þurfi aðeins að styrkja andleg orka, heldur ætti einnig að fága hana. Hún styrkist undir eldbylgjum, þegar áran byrjar að taka á sig fjólubláan lit vegna spennunnar. Hún fágast af árvekni, skarpskyggni og næmri hugsun. Hvernig er hægt að skilgreina nákvæmlega fágun í hugarstraumi, þegar leið framtíðarinnar speglast í gleði?
Margir velja að forðast þessa leið og forðast þannig þau andlegu sár sem fylgja sársaukafullri leit andans. Sannarlega eru þessi sár bestu merki um næmi. Ekki grófar, óvæntar birtingarmyndir, heldur vængir kosmískrar hugsunar falla með léttri snertingu á kórónu höfuðsins og vekja Kundalini. Þessar hugsanir geta skilið eftir sig óefnisleg ummerki, en þær skerpa orkustöðvarnar, svo þær verða eins og nálar sem draga að sér rafmagn. Eru orkustöðvar okkar ekki eins og furunálar?
Sá sem hefur gengið þann veg að fága sálarorkuna mun ekki tala um skort á nákvæmni í ráðum Okkar.

503. Hvert á að beina hugsun? Hvert á að beina viljanum? Í geiminn, þaðan sem hin lífgefandi orkan kemur.
Við skulum leitast við það.

504. Fullt tungl er venjulega hagstætt fyrir hugsunarflutning. En það eru aðrir þættir sem hafa áhrif á það líka. Mikilvægust eru áhrif ákveðinna fasa í sólblettum. Þú gætir sjálfur tekið eftir því að einkenni hugsanaflutnings styrkjast með aukinni efnafræðilegri virkni tunglsins og reikistjarna, en sólblettir hafa einnig áhrif á marga aðra þætti tilverunnar. Kuldi, sem getur náð hörmulegum öfgum, hitanum í eldgosunum og jarðskjálftum sem fylgja breytingum í sólarárunni. Þetta verður að hafa í huga, því kuldinn getur aukist og jarðskjálftarnir verða öflugri. Þannig getur tímabundin birtingarmynd sólar haft áhrif á jörðinni.

505. Jóganemi verður að venja sig við eitt – óhjákvæmilega tortryggni hjá öðru fólki. Maður á ekki að kenna þeim um þessa afstöðu. Ef nemandinn væri einsetumaður, í venjulegum skilningi hugtaksins, myndu þeir auðveldara samþykkja hann. Ef hann liti út sem töframaður væri hann líka samþykktur, þó af ótta. En kjarna hans er ekki hægt að skilgreina með einföldum orðum og verk hans til þróunar heimsins eiga sér engan sess í hefðbundnum skilningi heimsins.
Hvernig mun fólk sætta sig við endurbætur í lífi sínu, þegar umbætur eru það sem fólk óttast umfram allt?
Hamingjusamlega, hefur sá sem er kominn á leið Agni jóga ekki áhyggjur af tortryggni. Hann leggur sig fram við að helga sig algerlega þróuninni. Hann gengur án efa og veit að ánægjan er ekki hans hlutur.

506. Fyrir utan kosmískar aðstæður hafa tilfinningalegar truflanir einnig áhrif á fjarsamskipti. Þessi óstöðugleiki, sem er að fullu skiljanlegur vegna persónulegra og umhverfislegra áhyggja, þrengir sér inn í samskiptin. Sömuleiðis veldur ákafi í að sjá fyrir samskiptin truflunum í eldsleiðaranum. En ekkert efnisleg tæki er hægt að bera saman við sálarorku. Bylgjurnar sem efnislegt tæki myndar geta lagt yfir ákveðin lög andrúmsloftsins og valdið nýjum ógöngum, ef ekki er notuð sálarorka.
Það er rangt að ætla að slíkar bylgjur hafi ekki áhrif á náttúru mannsins. Ósýnilegar og óheyranlegar bylgjurnar geta virkað öflugri en endalausar sprengingar. En hinar fjölmörgu hættur af þeim hverfur þegar óþrjótandi uppspretta sálarorkunnar verður að veruleika. En jafnvel hugmyndin um slíkan skilning á sálarorku er ekki auðveld fyrir mannkynið að meðtaka.

507. Dráp af óagaðri notkun á sálarorku er glæpur sem jafnast á við það að drepa af fáfræði. Morð af þessu tagi eru óteljandi. Maður ætti að hugsa um þetta! Það að sumir eru ekki meðvitaðir um það, þýðir ekki að slíkir glæpur séu ekki til.

508. Vitsmunir eru ekki viska. Bein þekking í innsæinu er viska. Vitsmunir eru skynsemin. Viskan tekur ákvarðanir sem fyrir löngu höfðu þegar spírað. Vitsmunir eru á þröskuldi viskunnar og þegar þeir skerpast, færast þeir yfir á samræmingarsviðið. Rökhyggja og hugarþjálfun í einni sérgrein eru aðeins horn í framtíðarhússins. Þeir sem hafa þröngan sérhæfðan huga, geta skapað sér ljómandi framtíð, en þeir verða að halda áfram að holdgast þar til hugur þeirra tapar þröngri sérhæfingunni. Aðeins þegar greindin tapar sérhæfingunni getur það orðið viska. Hver sérgrein er ætluð til lífsskilyrða á jörðinni, en samhæfing andans opnar öll svið. Andleg spenna safnar upp sálarorku. Andleg spenna getur leitt til hvaða sviðs sem er á geðheiminum.

509. Það er rétt að spyrja hvernig hægt er að safna sálarorku. Það er fyrst og fremst með meðvitund, fórnfýsi og árangri. Ekki er hægt að svipta manni sálarorku sem aflað er með þessum hætti. Með þróun meðvitundar verður hún fáguð; en ef hún safnast saman á annan hátt getur orkan haldist í mögulegu ástandi og beðið eftir réttum skilyrðum til birtingar. Í öllum birtingarmyndum sálarorku má gera ráð fyrir að eitthvert góðverk hafi verið gert í fortíðinni.

510. Vitund víkkar í hægu ferli reynslunnar. Það er hægt að sýna fram á með einfaldri tilraun hvernig þessi dómari – vitundin – miðlar gerðum okkar. Maður getur hvatt til einhverra aðgerða hjá minna þróuðum einstaklingi og fylgst með því hvernig hann uppfyllir þær. Síðan, með dáleiðslu, er hægt að sljóvga meðvitund hans og hann er enn og aftur beðinn um að framkvæma sömu aðgerðir. Samanburðurinn verður stórfurðulegur.
Merkilegur er lokaður viljahringur manns.

511. Ekki er langt síðan að hugsunin beinist meira að fyrirbærum, svokölluðum orkubirtingarmyndum. En nú er hægt að hugsa sér endurnýjun lífsins og stíga inn í framtíðina. Beita verður öllu hugrekki sínu til að skilja eftir löngun manns í kraftaverka og snúa hugmynd manns um orku í átt til veruleikans. Þetta er erfitt en menn verða að sigrast á takmörkunum hefðbundinna hugmynda. Það er erfitt að standast það að sökkva niður í hið venjulega, því að hrífandi hreyfing þróunarinnar, sem felur í sér alla þætti tilverunnar, er alltaf undarlega framandi og líkist ekki fortíðinni.
Er hægt að byggja líf innan um hatrið sem ríkir í lok Kali Yuga? En fullkomið verkefni framtíðar, Satya Yuga, verður að koma fram núna, innan um fjandskap og eyðileggingu nútímans.

512. Í öllum tilraunum er fyrir hendi mótstaða sem stafar af nærveru lægra efnis. Með hreinsun eða útilokun er hægt að eyða skaðsemi lægra efnisins. Tilvist manna er háð alheimslögmálum. Virðist ekki litlausasta andstaðan birtast við hvert framsækið skref? Þurfum við ekki að eyða órökvísi og hnignun með spennu eldsins? Rétt eins og í tilraunum á rannsóknarstofu verður að skilja og fjarlægja allar dauðar aukaafurðir.
Ef þú vilt komast að því hverjir eru undir lægri áhrifum, leggðu til aðgerðir til almannaheilla á fundi. Þú gætir verið viss um að þeir sem mótmæla hafi ekki verið leystir frá dauða efninu.
Auðveldara er að greina frá innri eiginleikum sem fólk afhjúpar í máli sínu og aðgerðum, en að sjá jarðfræðilega lagskiptingu jarðvegsins. Þess vegna, þegar þú velur eldhugana, fylgstu með þeim hvernig þeir bregðast við prófunum sem fyrir þá hafa verið lögð. Með sálrænum þroska eykst afhjúpunarferlið og vitundin dýpkar þá leið þeirra sem þegar er hafin. Fáir eru þeir, þar sem hinn sanni kjarna kemur ekki í ljós. Í þessu þróunarferli eldsins mun hæfni manns aukast til að dæma um atburði.
Með innsæinu, sem er spáð fyrir svo löngu, mun springa fram eldur aukinnar sálarorku. Hverju er hægt að leyna fyrir sálarorkunni?

513. Þegar við ræddum um Alheimsstjórnina voru margir ráðalausir. Þegar þeir komast að því að þetta er ríkisstjórn þekkingar, munu þau þá skilja það?

514. Það er erfitt að greina á milli örvæntingarfullrar athafnar og hvatvísrar löngunar. Loginn er svipaður í báðum.

515. Hvernig er hægt að breyta bláa eldinum í fjólubláan? Spenna andlegrar orku sendir frá sér rúbínlitaðar örvar og vöxtur þeirra mun þrengja sér í bláu vitundina.

516. Uru og Svati finnast í þróunarspekinni. Merki þess að Vatnsberinn nálgast og tenging hans við Satúrnus. Maður getur enn og aftur séð hvernig þróunarspeki Atlantis búa var á réttri leið. Ekki aðeins var efnafræði geislanna þekkt á þeim tíma, heldur einnig raunverulegt samstarf stjarnanna.
Eftir langa göngu nálgast mannkynið aftur einmitt þetta. En samt verður að skilja einn hlut: að form þeirra sem byggja jörðina, þarf að vera eins alstaðar í Alheiminum. Fólk getur ekki ímyndað sér sjálft í mismunandi myndum, en hvaða gleði gæti stafað af því að átta sig á samstarfi við önnur lífsform! Maður ætti að vera fær um að nálgast auðveldlega svona heillandi aðstæður.

517. Þegar þú rannsakar ferlið við uppsöfnun á sálarorku er hægt að fylgjast með því að orkan virkar á svipaðan hátt og taktur Alheimsins – samansafn af krafti sem kemur fram í að- og fráflæði. Ekki er skynsamlegt að búast einungis við innflæði, því þá gæti enginn kraftur safnast upp. Eins og fín vefnaður, er vefur samtengdra miðja myndaður með sameiningu þeirra með brennandi þræði.
Eldar sálarorku loga og mynda flókna útgeislun alheimsins. Þessa orku má kalla Atma. Uru og Agni eru nauðsynleg til að mynda Svati vitundarinnar.
Einhver mun spyrja: „Ef skilning á sálarorku leiðir mann til hins óendanlega um alheiminn, er það mögulegt að lifa án þess að gera sér grein fyrir þessari flóknu orku? “Það er ómögulegt, sannarlega ómögulegt, að forðast það sem dregur sjálft sig að okkur, hið allsráðandi.

518. Fólk tapar miklu með því að búast við uppfyllingu aðeins eftir sínum eigin leiðum. Hvernig geta þeir þá hugsað um hina fjarlægu heima? Aðeins með því að vaxa upp úr sínum mörgum töflum og listum.

519. Þú tekur eftir því að stundum tölum við stuttlega, minnumst jafnvel varla á mikilvægar aðstæður. Það þýðir að um þessar mundir má ekki gera öldur geimsins flóknari en þær eru. Þessari nauðsyn er lítil athygli gefin og þar af leiðandi fylgir óbætanlegur skaði. Við skulum virða mikilvægi kristals hugsunarinnar.

520. Í leyndardómum Egyptalands til forna var helgisiður sem hét „Skerpa sverðsins.“ Sá sem átti að prófa var settur í niðamyrkrið. Hinn Mikli Vígjandi nálgaðist hann og afhjúpaði fyrir honum nokkur leyndardóma. Ljós lýsti upp Vígjandann og síðan hvarf allt aftur í myrkur. Síðan nálgaðist presturinn sem tilnefndur var sem Freistari. Úr myrkrinu spurði rödd freistarans:
„Bróðir, hvað hefur þú séð og heyrt?“
Hinn prófaði svaraði: „Ég var heiðraður af nærveru Stórvígjandans“
„Bróðir, ertu sannfærður um að þetta hafi verið sjálfur sá mikli?“
„Augu mín hafa séð og eyru mín heyrt.“
„En myndin gæti verið blekkjandi og röddin gæti verið ósönn.“
Þá varð hinn prófaði annað hvort ruglaður og var hafnað eða hann fylltist festu og talaði:
„Augu og eyru geta blekkt en ekkert getur svívirt hjartað. Ég sé með hjartanu, ég heyri með hjartanu, og ekkert óhreint mun snerta hjartað. Því að sverðið, sem mér er falið, er beitt.“
Enn og aftur nálgaðist Mikli Vígjandinn og benti á kaleik fylltan rauðum vökva og sagði:
„Fáið og drekkið af þessum kaleik; tæmdu hann til að sjá leyndardóminn í botninum. “Neðst var mynd af útafliggjandi manni sem er umlukinn höggormi hringinn í hring með áletruninni:
„Þú ert sá sem hefur gefið öllum og tekið við öllu.“ Þannig er sama fræðslan á öllum tímum, en fáfræði myrkursins veldur því að maður gleymir merkingu þess.

521. Verkefnin sem okkur eru falin eru ávallt hættuleg, því þau beinast gegn öflugasta óvini. Það er enginn sannleikur meiri en sannleikurinn. Aðeins með þessum skilningi má taka við og bera kaleikinn að markmiðinu.
Maður getur fundið meðal fornra hluta, tákn um slóð þekkingar.
Ferðalangur, ertu laus við ótta?

522. Við sjáum að sálræn orka er nátengd eldi og óeyðanlegri uppsöfnun. Þetta þýðir að hægt er að safna orkunni í hluti sem síðan er hægt að nota til að styrkja viljann. Töluverð uppsöfnun orku getur jafnvel orðið til þess að hlutir geisli eða sendi frá sér hugsun. Þetta er vísindaleg skýring á eðli heilagra hluta. Maður getur fundið í þeim uppsöfnun á sálarorku, nema óviðeigandi sendingar hafi eytt þessum uppsöfnunum.
Fólk sem geymir sálarorku ætti að líta á sem fjársjóð þjóðar. Þjóðir eiga ekki að vera stoltar af fjölda íbúa sinna, heldur af forða sálarorku sinnar. Því að jafnvel fyrir áhrif eins einstaklings með orkuforða má vernda þúsundir meðalmanna. Eins og segull, laðar hver og einn sem ber í sér slíka orku að sér fósturmynd slíkrar orku sem býr djúpt í öllu fólki. Þetta þýðir að hver sem hefur meðvitaða orku er sjálfur birtingarmynd almannahags. Við skulum því meðhöndla alla uppsafnaða orku með varkárni.

523. Í ferli meðvitaðrar þróunar sálarorku í framtíðinni verður til búnaður til að safna þessari orku; en auðvitað er það orka mannsins sem verður að vera leiðari hennar.
Í tilraunum með sálarorku þarf sjúkling og stöðuga uppsöfnun. Það er skaðlegt að senda orku án samhæfingar, því hvati getur grafið undan gæðum söfnunarinnar.

524. Gamalt máltæki segir: „Beisli Satans er sterkt.“ Annað: „Sá sem hefur séð andlit Satans mun aldrei gleyma því.“ Jafnvel í fornöld vissu menn um tregðu í meðvitund manna. Ráð okkar er að þróa nauðsynlega lipurð hugans.
Hversu mikill fjársjóður er, hrein, frjáls og hugrökk vitund fyrir mannkynið! En tregða venjunnar heldur óreyndum í fjötrum.
Við gætum jafnvel búið til tæki sem safnar sálarorku, en hver væri leiðarinn? Og hversu margir kunna að meta beitingu þessarar orku í lífinu?
Ekki er hægt að teyma eldinn með viljanum; hann öðlast styrk með beinni þekkingu, innsæi.

525. Við skulum tala í dag um vinnunna. Áköf vinna leiðir til meðvitaðrar þróun sálarorku. Árangur margra ára vinnu kann að birtast fljótt.

526. Það er rétt að muna að sálræn orka sem fólk beitir á réttan hátt, eflir mannlega reisn. Einbeitt hugsun í þessa átt er þegar blessun.

527. Ef einhver kemur til þín og talar um löngun sína til að nálgast Agni Jóga, spyrðu hann þá hvað hafi leitt hann að þeirrar ákvörðunar.
Hann mun svara: „Ég er að leita að sönnunum.“ Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
Eða hann mun tala um sorglegt líf sitt. Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
Eða hann mun tala um áform sín um að sigra óvini sína. Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
Eða hann mun tala um löngun sína í ríkidæmi. Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
Eða hann mun tala um að öðlast jarðneska kosti. Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
Hann mun tala um löngun sína fyrir hvíld. Þú munt hugsa: „Hann er ekki einn af okkur.“
En ef hann segir: „Mig langar til að fullkomna mig,“ spyrðu þá: „Hvaða launa væntir þú?“ Hann ætti þá að segja: „Aðeins til að nálgast Fræðsluna.“
Þú munt fagna því að andi hans hefur valið rétt. Hann er tilbúinn fyrir líf í sjálfsskoðun. Hann er tilbúinn að losa sig við galla sína, án eftirsjár. Hann mun skilja að það er ekki þjáning sem þarf, heldur frelsun. Hann mun skilja að það eru ekki kraftaverk sem þarf, heldur bein þekking. Hann mun skilja að það er ekki dauður fræðatexti sem þarf, heldur framkvæmd og notkun fræðslunnar.
Fögnuður frá fyrsta degi, hann mun ekki þreytast næsta dag. Hann mun halda áfram eins og glaður fíll sem brýst gegnum runnanna. Hann mun sjá árangur sinn sem bros sólarinnar. Hann hrekur óttan við sporðdrekann á burt. Hann meðtekur gjöfina sem ljós á leiðinni. Hann skilur virkni og þróun elda orkustöðvanna sem aðdráttarafl. Og hann mun skilja að eldarnir vaxa lítt áberandi, rétt eins og plöntur. Hann mun skilja að eldarnir brenna burt hið liðna og lýsa upp framtíðina. Og hann mun skilja hvað andleg leit þýðir!

528. Við viljum helst forðast endurtekningu en stundum erum við þvinguð til að fara aftur í fyrra efni. Gefið gaum að þessum endurtekningum; þær vakna yfirleitt annað hvort vegna misskilnings nemans eða vegna flókinna kosmískra þátta sem krefjast sérstakrar athygli. Við verðum til dæmis að endurtaka rétt viðhorf til sálarorku. Auðvitað er sálarorka alltaf til staðar, en hún getur verið í dvala og þá kristallast hún og verður óvirk. Þeim jarðvegi verður að umbylta með plóg sjálfsfórnandi vinnu.
Vissulega mun ekki korn af sálarorku tapast, en stundum þarf að hræra í uppsöfnun þess. Það er ástæðan fyrir því að Fræðslan fordæmir óbifanlega sjálfsánægju og hroka.
Sannarlega er betra að vera logandi en að vera sofandi.

529. Það er rétt að talað hefur verið um afl hugans um aldir, en ekkert hefur breyst vegna þess. Fólk gefur almennt ekki gaum að orsökum og afleiðingum hugsanna sinna. En hversu merkilegar tilraunir mætti gera jafnvel núna, í venjulegu daglegu lífi! Engar sérstakar aðstæður eru nauðsynlegar fyrir slíkar tilraunir. Athygli og hreyfanleiki meðvitundar er allt sem þarf. Til dæmis í tilraunum með fjarhrif er hægt að fylgjast með ytri og innri aðstæðum sem hafa áhrif á gæði samskiptanna. Sljóleiki eða árvekni, erting eða gleði, svefnhöfgi eða viðleitni – hvert og eitt bregst sterkt við gæðum og styrk samskiptanna. Persónuleiki þátttakenda hefur einnig áhrif. Er ekki mikilvægt að taka vel eftir þessum hlutum?
Reyndar er vitað að ýmsir gallar í persónuleika þátttakenda endurspeglast oft í líkamlegum göllum. Sumt af þessu er hægt að vinna bug á, en aðrir, oft karmískir, eru óbætanlegir, nema kannski, í sérstökum tilvikum, fyrir sérstakan viljastyrk. En auðvitað er fer viljastyrkur manns eftir því hugafli sem þegar hefur náðst.
Ég ráðlegg þér að taka eftir öllum fjarhrifum sem þú færð. Athugaðu fyrstu skynjun án óþarfa greiningar.

530. Það má sjá hvernig áhrif utanaðkomandi hafa áhrif á skilaboð. Það sést stundum, við bestu aðstæður, hvernig fjarlæg köll umsnúa þeim kringumstæður. Til dæmis getur einhver í þörf í einhverju afskekktu landi dregið eftir sér slóð af áköllum og þannig truflað samskipti annarra. Með því að fylgjast með kringumstæðum er hægt að ákvarða bestu aðstæður sem þarf og reyna að ná þeim.

531. Allar bestu uppfinningarnar duga ekki til að koma fram nauðsynlegum lausnum. Ef eldingar, segulbylgjur, jarðskjálftar eða fellibyljir geta eyðilagt þessar uppfinningar, er þá ekki betra að einbeita athygli sinni að hugarrækt?
Þegar sálræn orka hefur verið ræktuð, verða athafnir hennar óeyðanlegar. Hugsunarbylgjur sem eru undir stjórn, munu ekki yfirflæða rými né verða fyrir áhrifum af neðri lögunum.
Hversu yndislegt það er að fylgjast með leitinni að hugsun, uppruna hennar og orsökum, muninum á hugsunum frá ýmsum tímum, nálgun vitundar á mismunandi þroskastigum og eilífri samkeppni efri og neðri sviðanna! Allt þetta skapar óviðjafnanlega tilveru.
Ríki sálarorkunnar yfirstígur allar hindranir. Ekkert í efnislega heiminum jafnast á við fínustu orku, því um alla framtíð, þegar grófa efnið mun snúa aftur inn í lén ljóssins, byggist það á þessum fínustu orkugerðum!

532. Við forðumst þær aðferðir sem fela aðallega í sér notkun vöðva. Vöðvar manns verða að tjá vilja manns. Okkur líkar ekki ósjálfráð skrift, því það hindrar alltaf hækkun vitundar. Það leiðir ekki til fágunar fínni orku. Aðalverkefnið verður alltaf að vera efling þekkingar. Þegar bein þekking hefur verið þróuð ógnar hættan sem tengist vélrænum samskiptatækjum ekki.
Þannig ættum við alltaf að gefa öllu forgang sem eflir þroska hugsunarinnar.

533. Hefðbundnar leiðir til ósjálfráðrar skrifta eru ófullkomnar vegna þess að stöðug átök myndast. Aðferð ósjálfráðrar skriftar notar miðju úlnliðsins, en vitundin notar einnig sömu miðju, og þar með eru tvær athafnir í átökum og næmi tjáningar glatast.

534. Skaðlegast af öllu eru svokallaðar ósjálfráðar hugsanir. Sérhver meðvituð hugsun er að vissu leyti skipulögð, en litlu umrenningarnar, án vitundar, hindra leiðirnar.
Þegar fólk er samhent í því að öðlast þekkingu, öðlast hugsanir þeirra sérstaka þýðingu. Eining í hugsun er sterkari en nokkur efnisleg eining.

535. Þó þú þráir og beitir viljakrafti til að sjá hluta af eigin áru, er það þér ómögulegt. Nauðsynlegt er að þrá, en lögmál sálarorkunnar þurfa viðeigandi aðstæður. Slíkar aðstæður eru ekki staðfestar á augabragði; þau verða að byggja á grunni hærri áhrifa. En leiðin til hærri áhrifa er ekki auðveld, heldur er aðeins hægt að ná þeim með opinni leið. Hver bilun í tengingum við uppsprettu fínustu orku lokar leiðinni. Nauðsynlegt er að öðlast réttan skilning á árangursríkum tengslum. Það veltur ekki aðeins á ákafa viðleitninnar, heldur einnig af vandlegu tilliti til kringumstæðna.
Stundum er stutt tímabil þagnar besta uppsöfnunin. Meðvitund manns, í samræmi við þroskastig beinnar þekkingar, veitir skilning á því hvaða aðgerða er þörf.
Í samsetningu þroskaðrar áru er sérstaklega sjaldgæft að sjá smaragðagræna og göfuga rúbínlitina, sem eru í mótsögn við hvert annað. Sú fyrsta táknar samræmi og sú seinni, fórnfýsi aðgerða. Í skýjuðum árum er hægt að sjá vísbendingar um hvort tveggja, en að sjá þá hreina er eins sjaldgæft og samræmið og framkvæmdi sjálf. Smaragður er nær kaleik og rúbín nær Auga Brahma.

536. Maður verður stöðugt og af kostgæfni að þroska sálarorkuna. Þroski hennar veltur bæði á samræmi í umhverfi manns og líkamlegu ástandi.

537. Hægð og snúningur toppsins eru tákn hinna skapandi spíralhreyfinga. Það sem lítur út eins og líkamlegt hreyfingarleysi er ekki til marks um skort á krafti og það sem er skilið sem þögn, bendir ekki til skorts á rödd.

538. Þegar allar bækur eru lesnar og orð þeirra hafa verið rannsökuð, þá er eftir að reyna það í lífinu sem hefur verið lesið. Ef bækur eru lesnar aftur og aftur og að orðum þeirra vandlega gætt, getur notkun þeirra enn verið áfram utan lífsins og ekki einu sinni sterkustu merkin neyða mann til að breyta venjum sínum. Samt verður maður að finna leið til að þróa hreyfanleika meðvitundar. Hjartað getur skynjað skömmina á óverðugri tímasóun.
Við viljum ekki virðast strangir í mati Okkar. Við viljum helst sjá gleði árangursins, en um aldir var það nauðsynlegt að hafa sverðið reiðubúið, því að óttinn hefur alltaf ráðið fólki. Sigur yfir óttanum verður þröskuldur nýrrar meðvitundar.

539. Rannsaka ætti ástand taugamiðstöðva barna. Það er vitað að hjá hverju barni þroskast þessar miðstöðvar á einstaklingsbundinn og ójafnan hátt. Hjá sumum börnum getur verið ein mjög þróuð miðstöð sem getur hvatt til sjálfsprottinna aðgerða jafnt og hjá fullorðnum.
Stundum valda ákveðnar miðstöðvar veikindum sem læknar ráða ekki við, þar sem læknar hugsa ekki um er að leita sönnunargagna í taugamiðstöðvum barns. Samkvæmt slíkum sjúkdómseinkennum og öðrum óvenjulegum einkennum er hins vegar hægt að dæma um raunverulegt ástand líkamans og eiginleika andans. Hversu mikið ágæti gæti hlotist af slíkum athugunum! Hversu margt mögulegt væri hægt að vernda, þannig að hægt væri að þroska sálarorku hjá barni.
Fyrir þroskaða anda sem hafa upplifað margar jarðvistir er tímabilið eftir sjöunda árið nokkuð erfitt og eftir fjórtán ár enn frekar. Eftir fjórtán ár hefur sálarorkan þegar komið til framkvæmda. Andinn hefur þegar rifið sig í burtu frá fyrri tilveru sinni og byrðar hinnar nýju óþekktu leiðar yfirgnæfa það gamla. Uppsafnaðir möguleikar valda óljósum kvíða og kjarninn leitast við að snúa aftur til aðstæðna þar sem meiri tækifæri voru fyrir vitundina til að starfa frjálslegar.
Rétt umönnun taugamiðstöðva barna er nauðsyn til framtíðar. Það hefur verið röng skoðun að andinn geti ekki náð snemma tökum á nýjum líkama sínum og að þetta sé ástæðan fyrir heimsku barna. En í raun og veru, þegar miðstöðvarnar virka ekki réttar, ná innstæður sálarorkunnar ekki fram og andinn hefur ekkert efni til að birta sig.
Umhirða taugamiðstöðva barna má líta á sem umönnun kynslóða framtíðarinnar.

540. Sannarlega kemst fólk í snertingu við margs konar orku, en í flestum tilvikum á mjög takmarkaðan hátt, og það upplifir aðeins einn þátt orkunnar. Af þessari takmörkun geta stafað margar hættur. Til dæmis er rafvæðing til góðs fyrir siðmenningu, en þar sem fólk nálgast hana of einhliða getur rafmagnsmettun rýmis valdið hættu. Maður getur orðið fyrir úthleðslu af talsverðum styrk á stöðum sem eru mjög hlaðnir rafmagni. En ef orsök eykst, þá aukast áhrifin einnig. Í stað aðeins öflugrar úthleðslu getur fjöldaeyðing á sér stað. Sömuleiðis er hægt að sjá fyrir sér yfirhleðslu rýmis með af margs konar orkustraumum sem valda mörgum óvæntum truflunum í lífinu.
Auðvitað gætir þú verið viss um að Við tölum ekki gegn því að ná valdi og beitingu orkunnar, en við höfum áhyggjur og viljum vara við því að brýnt sé að öðlast varnir þegar samband verður við nýja orku. Öll reynsla okkar bendir til þess að sálarorka sé alltaf tilbúin að umbreyta ágengi annarra orku í eitthvað gagnlegt. Við sáum hvernig sálræn orka getur, eins og lyfjasprautur, komið í veg fyrir möguleg veikindi. Á sama hátt getur hún breytt áhrifum allrar annarrar orku í gagnlega.
Ekki rugla þessari fullyrðingu við kenningu okkar um viljaafl, því að viljakraftur er aðeins ein birtingarmynd sálarorku.

541. Heyrðirðu einhvern tíma um að jógi hafi verið drepinn af eldingum? Nei, en þú hefur heyrt um banvænt auga jógans. Það er ekki aðeins skipun um vilja, heldur samandregin orka sem beint er að tilteknu fyrirbæri, svo það hafi nauðsynlegan forða fyrir fulla sálarorku.

542. Svokölluð fjórða vídd er svið sálarorkunnar. Eiginleikar sálarorku gera kleift að víkka allan skilning.
Undir dáleiðslu getur vitund manns beitt sálarorkunni að vefum sem er skemmdir. Þetta er til dæmis hægt að gera þegar um er að ræða herpes, æxli eða exem. Forði sálarorkunnar í líkamskerfunum nægir til þess. Sálræn orka safnast í taugarnar og kristallar þess virkja líkamskerfi, sem annars væri áfram sofandi.
Hver getur verið tilgangurinn með djúpri öndun og af hverju eru ákveðnir eldar tengdir því? Djúp öndun hefur áhrif á kaleikstöðina.

543. Þú gætir hitt fólk sem hafnar Fræðslunni alfarið. Ekki reyna að sannfæra þau. Fræðsla Okkar er ekki herferð; hún er lærdómsrík og ætluð þeim sem þegar vilja fullkomna sig. Sumir geta valið sér uppáhaldssíðu sem þeir munu fylgja, en ekki með fullri fræðslu. Aðrir munu láta eins og þeir virði Fræðsluna en leggi bókina bara undir koddann sinn meðan þeir sofa. Og enn aðrir munu tala um ást sína á Fræðslunni en munu ekki afsala sér einum slæmum vana. Engu að síður munu þeir fyrirfram ákveðnu koma!

544. Fornmennirnir höfðu orðtak: „Sleppið ekki tígrisdýrinu lausu!“ Það er óþarfi að skýra merkingu þess; Sýnt er fram á mikilvægi þess í lífinu.
Við skulum því ekki sleppa tígrisdýrinu lausu!

545. Verið viss um að birtingarmynd Nýju Tímabilsins mun jafnvel komast inn í einföldustu sálir. Þeir bestu munu bera byrðar af deilum og átökum. Þeim minni er hægt að gefa einfaldari leiðir. Láttu þá halda ró sinni þegar logar og sprengingar fara að geisa.
Mundu táknræna atburðinn sem þér var sýndur, áður en hörmungarnar hófust, reynt var að leiða fólkið út úr ánægjusölum sínum. Fólkið neitaði ekki aðeins að fara, heldur reyndi nýr mannfjöldi að komast inn.
Þegar þú dreifir Fræðslunni skal þig ekki undra hvers vegna svo fáir skilja brýna nauðsyn þess. Í óþroskuðum hugsunum ræður einn eiginleiki – brenglaðar hugmyndir um framtíðina. Einhver tilfinning fyrir hinu ókomna kann að finnast, en vanþróuð vitund hafnar skynjuninni. Það er óþarfi að vitna í dæmi um að fólk gleðjist yfir hörmungum og fagni ósigri.
Ræktun innsæis krefst vandaðrar viðleitni; þess vegna munu bæði þeir bestu og einföldustu ná sama skilningi. En venjuleg vitund sem er hindruð af eigin fyrirfram mótuðum hugmyndum, er ekki fær um að aðgreina drauginn frá hinu raunverulega. Það er vímuefni, ekki vegna fíkniefna, heldur af eigin hugsunarhætti. Mótaðar hugmyndir, sem innrætt er í barnæsku af venjum daglega lífsins, veikja tilraunir til skynsamlegrar hugsunar.
Dæmi um fáránlega hegðun við hörmungar hafa orðið algengari, því hugarhegðunin hefur breytt um farveg inn í óraunveruleikan.

546. Frumþáttur eldsins er grundvöllurinn og hann er ómetanlegur. Á sama hátt er hin sálræna orka. Sjálfsnæg, fágust og öflugasta orkan er hin sanna dóttir eldsins! Ekki að ástæðulausu köllum Við þig til hins sigrandi Elds. Sérhver birtingarmynd eldmóðs fær hlut í fjársjóðnum. Við hverja upphafningu eðlisins safnar Fegurðin saman fræjum ljóssins og skapar sigursgeisla. Fyrir löngu síðan sagði ég: „Gegnum fegurð færðu ljós.“ Er mögulegt að við segjum þetta aðeins til að veita ánægju? Hver vísbending hefur óumdeilanlega brýnt mikilvægi. Þannig er eldmóður stysta leiðin til uppsöfnunar á sálarorku.
Oftar en einu sinni verðið þið spurð hvar hinir fögru garðar eldsorkunnar verði til og hvað næri hana. Þú munt segja: „Í fögnuði fegurðarinnar.“ En lærðu hvernig á að umvefja þessa gleði ljóssins. Lærðu hvernig á að gleðjast yfir hverju laufi sem vakið er til lífsins. Lærðu hvernig á að bregðast við í orkustöðvunum þínum við gleðikallinu. Lærðu að skilja að slík gleði er ekki iðjuleysi heldur uppskera fjársjóðsins. Lærðu að safna orku með gleði, því með hverju eigum við annars að vefa þræði til fjarlægra heima?
Ekki í sorg, ekki í brjálæði, ekki í vímu, heldur í skilningsgleði verðum við hamingjusamir handhafar fjársjóðsins. Það er erfitt að svala þorsta sínum úr tómum brunni, en lind fjallsins hressir hvern þann sem nálgast. Gleðjist!

547. Hugsanir sem sendar eru út í geiminn laða að skyldar hugsanir. Hvernig á að bregðast við, ef víðtæk sjónarmið ná ekki markmiðum sínum?
Maður verður að auka þau enn frekar. Handan fjandskapar liggur svið vináttu. Ferðalangurinn verður að þekkja landafræði þess léns.
Er unnt að ná árangri án vinnusemi? Er fórnfýsi möguleg án gleðinnar? Er hugrekki mögulegt án ákafa? Bendið á og minnið aðra á þessar auðveldu og fljótlegu leiðir til að öðlast sálarorku. Hönd Mín bendir leitandanum á fjársjóðinn.

548. Að gleðjast er gott, en í þessu skulum við ekki vera eins og dýrin. Hvar liggur munurinn? Aðeins í vitundinni. Dýr vita ekki af hverju þau fagna; en við verðum að vita af hverju. Með vitund okkar sjáum við orsök og afleiðingu.
Þannig smíðum við brú til fullkomnunar.
Maður getur skoðað alla atburðarás og metið röð þeirra. Í þessu erum við líka frábrugðin dýrum sem geta ekki tengt aðskildar stundir. Fræðslan um að bera saman atburði, veitir nýja leið til að öðlast sálarorku. Ef fólk myndi læra að skilja atburði í lífi sínu í samræmi við vitund sína á þeim tíma, þá myndi þau geta náð framförum frá því stigi sem það hefur lent í.

549. Það er rétt að skilgreina Kundalini sem afstæða meginreglu. Þegar aðstæður jarðneska lífsins voru grófar var nauðsynlegt að beina andanum að æðri sviðum. Í fyrstu hafði tákn Auga Brahma forgang; þá var því fylgt eftir með sigri á Kundalini. En með hvorugu, jafnvel þó sumir hafi náð Samadhi, verndaði það ekki mannkynið fyrir hryllingi þrælahalds og svika.
Nú er kominn tími til að leggja áherslu á samræmi athafna. Innsæi mun veita þetta samræmi í jarðneskri tilveru. Fjársjóður beinnar þekkingar, innsæisins, er í Kaleiknum, þess vegna ætti að bæta við þessar tvær fyrrnefndu orkustöðvar, blómum þriðju orkustöðvarinnar. Regnboginn á Kundalini getur dregið mann upp á við, en hér á jörðinni er jarðnesk smíði þörf. Maður verður að byggja grunn fyrir súluna, rétt eins og skrif eru fyrir hugsunina. Kaleikurinn sem svo lengi hefur þagað, mun lifna við á ný og mannkynið mun þræða nýja leið. Þrír herrar, þessar þrjár orkustöðvar, munu leiða sanna samvinnu.
Sá sem skilur tengsl Kaleiksins við Kundalini mun skilja hvernig faðirinn færði syninum jarðneska ríkið. Kundalini er faðirinn, drifaflið upp á við. Kaleikurinn er sonurinn, vakinn af föðurnum. Sá sem þekkir meginþátt föðurins, mun við umbreytingu kynþáttanna, faðma soninn. Kaleikurinn eflir aðgerðir. Þannig er engu hafnað, heldur aðeins styrkt. Auga Brahma er eðlileg viðbót við þessa röð.

550. Hvar er að finna fágun og eflingu hugsana sem hertar er í hinum heilaga eldi? Er hægt að finna það í síauknum hrúgum gervilegrar og yfirdrifinnar rökhyggju? Nei, raunveruleg hugsun mun leitast við að meta það besta og fallega og að leita að því sem gagnlegast er. Það er hægt að sjá fyrir sér að uppsöfnun Kaleiksins muni leyfa flæði skýrar hugsunar, með réttum samanburði á fortíð við framtíð.

551. Blessaður Búdda sagði einu sinni við nema sína: „Við skulum sitja í þögn og láta augu okkar sjá.“
Eftir smá stund spurði kennarinn: „Hversu oft skipti ég stöðu minni?“
Einn tók eftir tíu breytingum, annar aðeins þremur og annar hélt því fram að kennarinn hefði verið kyrr.
Viskudrottinn brosti, „Ég breytti stöðu minni og fellingum klæða minna sjötíu og sjö sinnum. Svo lengi sem við lærum ekki að sjá skýrt, munum við ekki verða Meistarar.“
Til að öðlast sanna skilning á sálarorku verður maður fyrst að þróa athygli. Þess vegna er gagnlegt fyrir kennarann að spyrja óvæntra spurninga, biðja um lýsingar á atburðum og krefjast daglegra athugasemda. Það er vitað að jafnvel mjög hægur gaumur mun vakna með slíkri æfingu. Sá ógæfusami, sá sem er áberandi, getur ekki einu sinni tekið eftir þróun sálarorkunnar. Ráðin sem er fylgt, eru ráð vinar, því framtíðin krefst athygli.

552. Á tímum líkamlegrar veikinda eru tilraunir með sálarorku erfiðar. Hægt er að vinna bug á þreytu með stuttri en fullkominni hvíld.

553. Aðeins líkami sem er opinn fyrir veikindum getur smitast. Aðeins andi sem er tilbúinn til að taka við sálarorku getur fengið hana. Ef fólk myndi gera sér grein fyrir því að uppsöfnun sálarorku er nauðsynleg, ekki aðeins fyrir núverandi líf, heldur einnig sem stöðugur og óafmáanlegur árangur og blessun, það myndi eyða þeirri skoðun að hvert líf ætti sér upphaf og endi. Ætti ekki sannur skilningur á lífinu að stuðla að umönnun nútíðar og framtíðar? Þetta er tafarlaus skylda allra vísindamanna. Fram til þessa hafa vísindamenn brugðist við lífinu sem endanlegu – er það ekki verkefni þeirra nú að sjá lífið ná út í óendanleikann?
Kenningar trúarbragðanna hafa ávallt bent til lífs eftir þessu lífi, en sá vitnisburður hafa misst mikilvægi sitt. Fyrr höfðu kraftaverk mikilvægi, en nú laðast vitundin að raunveruleikanum. Hinar fornu jafnt sem nýjustu kenningarnar staðfesta röð jarðvista. Í nútímabókmenntum eru orðin holdgun og karma orðin algeng. Samt sem áður hafa þessi sannindi aðeins náð lítillega inn í vitund manna; annars hefði það umbreytt öllu lífinu. Mannshugurinn kýs að íþyngja sjálfum sér með undarlegum áhyggjum og hampar hamingjusamt óþarfa hlutum. Hugmyndaflug mannsins hefur ekki verið þjálfað í grundvallarhugmyndum. Hins vegar getur aðeins klukkutíma ígrundað spjall breytt lífi barns að eilífu.
Ódauðlegur maður – er þessi hugmynd ekki verðug framtíð? Upprisa Fönix úr eigin ösku hefur verið kennt frá fornöld. En Fönixinn þarf vængi; veitir sálarorkan ekki bestu regnbogavængina?

554. Fyrir þúsundum ára var sagt: „Tími mun koma þegar fólk mun opna hjarta sitt og bjóða Kaleik sinn til þess Hæsta.“ Tíminn nálgast fyrir mannkynið að sínu sjötta stigi fullkomnunar og loginn byrjar að glóa ofan við Kaleikinn. Hversu margar myndir og spádómar hafa safnast saman í geimnum! Sannarlega er kominn tími til að rifja upp ímynd Kaleiksins, þegar glóðin logaði í kaleik hinna fornu, og gyðjan, sem hallaði sér að sverði afrekanna, lyftist Kaleikurinn til hins Hæsta.
Sannarlega eru birtingarmyndir sálarorku jafn margvíslegar og flóknar eins og viðkvæmasta hönnun. Það er ekki rökvísin, heldur innsæið sem Kaleikurinn veitir, sem getur greint þær. Rétt eins og móðir skilur óróleika barns síns, varpar eldur Kaleiksins ljósi á truflun straumanna. Það er ráðlegt að mannkynið velti fyrir sér hvers vegna Kaleikurinn skiptir svo miklu máli fyrir þróun komandi kynstofns.
Það er bráðnauðsynlegt að fágun hugsunar verði þróuð ásamt framförum í tækni. Hvaða fallegu myndir munu sjást fyrir því upplýsta auga! Reyndar eru allir ábyrgir, ekki aðeins fyrir sjálfum sér, heldur fyrir vitund alls mannkyns.

555. Hversu marga dramatíska atburðir þurfa menn að upplifa! Þeir munu glaðir setja krans á hvaða reistan stein sem er. En láttu þá fara um hvaða veg sem er, svo framarlega sem hann liggi upp á við!

556. Í Agni Jóga verða jafnvel óhlutbundin hugtök áþreifanleg og raunveruleg. Einlægni, venjulega kölluð heiðarleiki, verður óbætanlegur. Prófaðu einlægnina í samskiptum yfir mikillar vegalengdir; og fylgjast síðan með mismuninum þegar persónulegum tilfinningar, óþolinmæði eða pirring er leyft að trufla eða enn verra, fyrirfram ígrundaðar hugmyndir eða vísvitandi afbökun. Það sviptir afrakstrinum gildi sínu og getur valdið óbætanlegum skaða. En sönn einlægni er hreinsandi, sem leiðir til tærs skýrleika og lýsir upp vitundina eins og eldsneyti fyrir logann. Þannig getur maður stuðlað að árangri með því að beita því sem kallað er heiðarleiki.

557. Ég tala um sálarorku eins og allt mannkynið hafi þegar samþykkt hana og ákveðið að bæta vitund sína. Hins vegar verður Fræðslan enn undur frá fjöllunum. Fólk er tilbúið að hlusta á Fræðsluna, en aðeins í frístundum. Fólk lítur á fylgjendur Fræðslunnar sem bara þá heppnu og tekur ekki tillit til hvaðan gleðin kemur.
Sumir munu segja að Fræðslan sé of almenn eða þreytandi, en hún dreifist óséð, á sinn óvænta hátt. Það geislar á dropa Fræðslunnar í orðum fólks, bæði þekktra og óþekktra, á vísindarannsóknarstofum og í glæsilegum verkum ógleymanlegra hetja. Þessir greinilega óskyldu samstarfsmenn sem þekkja ekki hver annan, bera brot tímabærrar þekkingar. Hver mun ritskoða þá?
Sá sem hefur verið prófaður af Fræðslunni mun brosa til árásarmannanna: „Vinur, færðu mér meira! Slúður þitt er ekkert annað en karfa full fórna.“ Til að bera jafnvel bestu ávexti, er hægt að búa til körfur úr berki hvaða trés sem er. Skiptir það máli hvort börkurinn er bitur eða sætur? Hvort hann er gulur, rauður, svartur eða hvítur? Hægt er að geyma gagnlegan ávöxt í körfum af hvaða lit sem er.
Af hverju að þrengja að náttúrunni eins og hún er? Á spennutíma verður ávöxturinn sem við þurfum, að vera til staðar fyrir okkur.
En þeir sem hafa áttað sig á sálarorku og hafa samþykkt hversu brýn Fræðslan er, munu skilja hve nærri tíminn er til söfnunar fjársjóðsins. Birting óreiðunnar umhverfis er fyrir þeim eins og mannsöfnuður á hátíð. Fáir eru þeir sem hafa tómar hendur. Fyrir þá sem bera með sér má segja: „Ekki brjóta!“
Hvar er heimildin sem maður ætti að vísa til? Hver getur sett mörk? Það er nægur jarðvegur fyrir hvert fræ og hvert fræ inniheldur nauðsynlega sálarorku í sjálfu sér. Fornmenn vissu hvernig átti að draga út sálarorkuna við mýkingu fræsins. Þetta er dæmi um það hvernig mýkingin getur af sér hreyfingu. Hver og einn sem þekkir Fræðsluna verður sá sem mýkir og er handhafi spaða Mikla
Fræsins. Því hin mikla ímynd óendanleikans er að verki í athöfnum hvers dags.
Aðhaldssemi kemur á reglu. Mýkt færir sköpun. Við skulum einnig líta í tóma körfuna til að sjá hvort fræ lífsins leynist ekki jafnvel í hinum bitrasta berki.

558. Atlantsbúar og Egyptar mundu eftir orkunni í fræinu. Vegna þessarar orku settu þeir fræ í gröfina. En vitrari þættir gleymdust. Afl þessarar orku hefði getað knúið mikil skip og aðrar vélar. Rétt eins og snerting handar getur hreyft stóran hlut, svo getur þéttuð orka fræsins valdið langvarandi afli. Jafnvel fólk nálægt fræi getur fengið heilsusamlega endurnýjun.

559. Þegar fólk talar um dauðann, tjáir það oft, jafnvel án þess að hugsa, af hlutum sem eru sannir. Fólk skynjar að það sé gagnlegt að brottför geð-líkamans gerist smám saman og að skyndidauði geti valdið vandamálum. En ekki er talað um mikilvægasta atriðið – að eiginleikar sálarorku séu ríkjandi þáttur. Maðurinn getur sigrast á öllum hindrunum í gegnum vitund sína. Þegar vitundin hefur aukist, skipta tímabundnar aðstæður litlu máli. Þegar tengslin við æðri heiminn eru sterk, verða öll verkefni auðveld. En það er undarlegt að fólk vill almennt tala um smáatriði og lítur framhjá því sem mestu skiptir.

560. Ég staðfesti að sálarorkan getur sigrast á öllum hindrunum. Það er enginn kraftur sem getur hindrað leið sálarorkunnar.

561. Því var trúað að hetjur gætu séð grasið vaxa. En lýsti þetta ekki í raun skilningi á því að þeir voru færir um mikla athygli?

562. Stundum sýnir maðurinn tregðu við möguleikum sem eru til reiðu. Þetta samsvarar vel sögunni hvernig þeir hættu að búast við boðberanum þó að boðberinn væri þegar fyrir dyrum.

563. Hvatt er til sjálfstæðra athafna. En ætti að gagnrýna það, ef stundum vakni löngun til að ná til Fræðarans til ráðgjafar og sameinast áru hans? Það var alltaf sagt: „Fyrst er stormurinn, síðan þruma, síðan þögn.“ Í þessari fjarveru hljóðs kemur svokölluð Rödd Þagnarinnar. En hærri en þessi rödd er samneytið. Þú veist hvernig rödd Fræðarans er send; en það geta komið saman í vitundinni, engin orð, heldur flyst vitund manns samstundis inn í vitund kennarans. Maður hættir næstum að vera meðvitaður um sjálfan sig; en Kaleikurinn fyllist allt til barma með beinni þekkingu. Slík sameining fer fram úr orðum, því það nærir manninn með beinni þekkingu. Auðvitað er ekki auðvelt að ná slíku ástandi; en með aukinni meðvitund kemur það af sjálfu sér, ef fáfræðin hindrar ekki. Margskonar samskipti eru möguleg með slíkri vitund.
Af hverju verður að meðtaka Fræðsluna sem grunn tilverunnar? Ef maður byrjar að beita Fræðslunni fyrir sjálfan sig, mun maður byrja á húsinu án þess að gæta að grunninum. Leit með hálfum huga veldur innra ósætti og færir ekki endurnýjun. Skaðlegar afleiðingar stafa af viðleitni með hálfum huga. Vegna þessa geta menn ekki fullkomnað sig og geta ekki hreinsað tilfinningu sína fyrir fegurðinni, en án þess er tenging vitundarinnar manns við Fræðarann ómöguleg.

564. Þú veist hvernig hægt er að sjá samdrátt vöðva þegar spenna er í sumum orkustöðvunum, og öfugt, samdráttur vöðva getur valdið sterkri tilfinningu í orkustöðvunum. Ef þessi hugmynd er einungis metin af vitsmunum getur hún leitt til Hatha jóga; en hið göfuga innsæi mun alltaf beina okkur upp á við.

565. Sálarorkan var stundum kölluð Teros. Í hermetískri kennslu má finna þessa tjáningu: „Stríðsmaðurinn Teros reisti skjöld sinn.“ Þannig var bent á verndandi hlutverk sálarorku. Heyrðirðu einhvern tíma um að jógi væri drepinn af dýrum? Aldrei urðu slík atvik, því ekkert dýr með snefill af eðlishvöt þyrði að fara gegn skyldi Teros. Aðalatriðið er að kalla Teros út úr Kaleiknum og út í lífið. Rásir Kaleiksins ganga út í alla útlimi og sumir geta skynjað ljós Kaleiksins sem spennu í fingrum og tám. Aðrir geta skynjað ljós Brahmarandhra stöðvarinnar með samsvarandi tilfinningu í Kaleiknum. Allt þetta er ekki frumspeki heldur hagnýt vísbending um notkun í lífinu. Margir eru í þörf fyrir vernd; af hverju að nota ekki eigin fjársjóð?
Það er ekki erfitt að safna orku Teros eða kalla hana fram. Og það er ekki ráðlegt að missa meðvitund á því afgerandi augnabliki, því það myndi framleiða ástand sem er ekki ólíkt því sem er svokallað banvænu augað. Jógi drepur ekki dýr vísvitandi; það er illvilji sem brýtur sjálfan sig á skjöldu Teros. Maður verður að skilja að það er ekki ógnandi vilji, heldur uppsöfnun Kaleiksins, sem veitir vernd og heimilar athafnir.

566. Ótti gengur ekki samhliða árangri. En aftur verðum við að benda á að ótti og varúð eru ekki það sama.

567. Uppsöfnun sálarorku ætti að vera mikilvægasta markmiðið og öll viðleitni verður að beinast að þessu. Mörg skordýr – hvort sem þau eru hvít eða svört – dragast að loganum, því að eldur er sálarorka. Maður verður að skilja að allt laðast að sálarorku og að gera ætti allar ráðstafanir til að nýta hana rétt.

568. Vöxtur vitundar fylgir angist, sem er sannarlega óhjákvæmileg. Vaxandi vitneskja um muninn á skilyrðum óendanleiks og jarðnesks veruleika, getur ekki annað en vakið samúð með næmri vitund. Það er engin leið til óendanleika án næmni fyrir umhverfi manns. Vertu viss um að því meiri sem vitundin er, því meiri er angistin.
Hver getur þá skynjað fegurð Kosmosins? Sá sem hefur heyrt tónlist sviðanna, jafnvel aðeins einu sinni, mun skilja jarðneskan ófullkomleika vegna núverandi ástands mannkyns. Maður verður að berjast meðvitað gegn þessum árásum angistar, en skilja þó óhjákvæmileika þeirra.

569. Besta vörnin, ekki aðeins gegn sjúkdómum heldur einnig gegn óvinveittum árásum, mun alltaf liggja í meðvitaðri beitingu sálarorku. Þroski þess er mikilvægasta verkefni mannkynsins.

570. Það er eitt að heyra, annað að muna, enn eitt að nota. Fræðslan mun hjálpa til að komast í þetta þriðja skref. Hún mun einnig hjálpa manni að skilja við takmarkanir jarðneskra drauga; það mun hjálpa manni að sjá það sem sýnist venjulegt, sem hið óvenjulega. Þegar þessi einfaldi sannleikur rennur upp, er maður ekki langt frá þriðja skrefinu og næsta skref að upp í hærri sviðin. Þeim sem sækjast eftir árangri verður sagt: „Mikilvægast er að gefa sjálfa sig algerlega að þessu verkefni.“ Tilætluð stund kemur aðeins gegnum athafnir.
Þegar áfangagleðin fyllir Kaleikinn mun árangur verða. Auðvitað, er þessi gleði ekki eins og ærsl kálfsins, sem treður niður blómin. Gleðin við að öðlast, þekkir öll erfiði og allar hættu; hún fer yfir brúnna aðeins einu sinni og blindar óvininn með geislun sinni.
Teros var kallaður stríðsmaður; vissulega er hann ekki bóndi eða fjárhirðir. Í eðli sínu er Teros sigurvegari og stjórnandi; en afreksgleðin breytir honum ekki í harðstjóra.
Fjögur borðorð voru gefin fyrir löngu: Lotning við Stigveldið; Skilningur á Einingu; Skilningur á Markmiðinu; og beitingu orðtaksins „Af Guði þínum.“ Með þessu veitir neminn Teros réttan grundvöll til skilnings. Hvernig getur hann annars fundið hver leiðin er til góðs?

571. Takið eftir stöðum í mikilli hæð, opnum fyrir vindum frá snævi þöktum tindum. Í 24.000 feta hæð er hægt að fylgjast með leyfum af loftsteinaryki. Af krafti vindsins og geislum sólarinnar sest þetta ryk í neðri hlíðum og breytir eiginleikum bæði snjós og jarðvegs. Það er sérstaklega lærdómsríkt að fylgjast með þessu á stöðum þar sem jörð er rík af málmum. Málmsamsetningin innan frá og utan myndar óvenjulegar segulsamsetningar. Þar er ekki aðeins sálarorka, heldur einnig margar aðrar orkugerðir sem öðlast einstaka eiginleika á slíkum stöðum. Menn ættu að meta þá staði þar sem svo margar mismunandi aðstæður sameinast. Athuganir á gæðum snjósins, jarðvegsins og platna eru ekki erfiðar, jafnvel ekki með venjulegum tækjum.
Rykið frá fjarlægum sviðum, þegar það er að finna í snjónum á tindunum og í lægri hæð þegar það hefur bráðnað, gefur tækifæri til að fræðast um ný efni. Til þess að nálgast sálarorku við jarðneskar aðstæður, verður að fylgjast með því hvernig útfellingar frá fjarlægum sviðum hafa áhrif á líkama manna. Sjá má að þessi áhrif eru mörg og sterk. Við skulum því vera vakandi fyrir birtingarmyndum náttúrunnar.

572. Upplifun gleðinnar í verkum manns er birtingarmynd sérstaks þáttar sálarorku. Glaðvær vinna margfaldar árangurinn.

573. Taugaveiklun er oft afleiðing of mikillar byrðar á Kaleikinn þegar uppsöfnun þess er ekki notuð meðvitað. Börn geta þjáðst af þessu sem bendir til að fyrri reynsla þeirra hafi verið töluverð. Auðvitað mun yfirveguð umhyggja og róleg iðja koma á jafnvægi í baráttunni milli anda og líkama. Hálsinn, tennurnar og augun geta að sama skapi minnt mann á baráttuna við ómeðhöndlaða uppsöfnun. Á sama hátt ættu menn að gæta að því sem kalla má neyslu, sem einnig getur vaknað frá Kaleiksstöðinni.
Fyrir löngu var bent á mikilvægi Manas, hugarþáttarins; það er ómögulegt að slíkur fjársjóður eins og Kaleikurinn hafi enga þýðingu fyrir allt sem umlykur hann. Það geta verið líknandi þættir, svo sem ammoníak, mentól, eucalyptus og sedrukvoða. En þetta mun aðeins létta einkennin á meðan raunveruleg lækning er ræktun andlegrar orku.

574. Einu sinni safnaðist fólk saman til að heyra rödd Fræðslunnar. Það hafði oft áður heyrt um fjársjóðinn sem þeim var ætlaður. En sumir gátu aðeins ímyndað sér fjársjóðinn sem góðmálma og einn saumaði jafnvel langa tösku fyrir sinn hlut. Tíminn leið og fjársjóðurinn birtist ekki. Þeim var hins vegar sagt að fjársjóðurinn væri nálægt og komu saman til að taka á móti honum, en þolinmæði þeirra var styttri en langa taskan.
Allir nema einn réðu einhvern til að hlusta á Fræðsluna fyrir sig meðan þeir fóru sjálfir í basarinn og söknuðu tapaðs tíma. Einn hafði misst af því að rukka skuldir; einn hafði misst möguleika á því að giftast; einn hafði gleymt að sakfella brotlega; einum hafði mistekist að safna saman hagnaði sínum; maður hafði misst af kaupsamningi; einn hafði misst hylli rajah. Í stuttu máli sagt, Fræðslan hafði greinilega valdið tapi hvers og eins.
Þeir voru gremjulegir og söfnuðust saman á basarnum og öskruðu: „Hvar er þessi boðaði fjársjóður? Það sem okkur var lofað eru einungis ský – og geta ekki einu sinni framleitt rigningu! “Rödd Fræðslunnar ávarpaði þann eina sem hafði valið að vera áfram, „Af hverju ertu ekki hræddur við að missa tíma þinn á basarnum? Allt verður selt án þín og nafn þitt verður ekki með í samningum. Hver sagði þér að fyrirheitinn fjársjóður verði ekki þokukenndur? “
Sá sem eftir var svaraði: „Ég mun ekki fara, því að fyrirheitinn fjársjóður er mér dýrmætari en lífið. Það sem spáð er fyrir um getur ekki verið blekking. “
Röddin sagði: „Óttast þú ekki að ég þegi?“„Þú getur það ekki, því þú hefur þegar boðað óendanleika.“
„Ertu ekki hræddur við svik frá mér?“
„Nei Hugrekki og ljós eru ábyrgðarmenn þínir. “
„Óttast þú ekki að orðið fjársjóður geti þýtt gildru á mínu tungumáli?“
„Jafnvel án orða, ber Geimurinn vott um fjársjóðinn.“
Röddin sagði: „Viturlega ert þú óþreytandi. Þar sem þú hefur heyrt Fræðsluna, þar er fjársjóðurinn. Rís upp, þú þarft ekki að fara langt. Lyftu steininum sem þú situr á. Taktu við guðlegu skýi velvilja, og einnig frá jörðu gulli þess. Sá sem hefur harkað til enda, mun fá. Sá sem er hugrakkur getur ekki verið sviptur neinu. Sá sem safnar eignast.“

575. Blóm morgundagsins blómstra úr fræjum gærdagsins. Þroskaðir hugsuðir afneita ekki brauði gærdagsins. Maður verður að læra að sameina alla þekkingu fortíðar í göngu til framtíðina. Venjulega svipta menn sig sínum bestu kostum með því að binda sig við eitt sjónarhorn.
Hvernig er hægt að ná árangri meðan ljósið logar, ef augað vill aðeins horfa í myrkrið? Eldur Teros mun lýsa upp alla uppsafnaða fjársjóði. Eldurinn mun einnig, eins og óslökkvandi Brahmavidya, vera vernd gegn tælingu Maya.
Eins og þú sérð nota ég tungumál fornra dæmisagna, eins og í nútíma rannsóknarstofu, svo að þú gætir lært að elska bæði og auka virðingu þína fyrir fræinu sem og ávextinum. Loka verður á þröngsýni.

576. Stundum gætir þú tekið eftir sérkennum í því hvernig Við tjáum Okkur. Hægt er að segja, að þó hægt sé að ná fullkomnu formi, þá er meiri athygli á textainnihald símskeytis.

577. Allt umhverfi er háð áhrifum Teros. Maður getur fundið fyrir þeim ósýnilega velvilja sem allt bregst við, við snertingu hreina logans.

578. Ferlið við að dýpka og fága hugsun manns gerir honum kleift að framkvæma merkilegar athuganir á fjarlægum samskiptum. Þú veist að samskipti fara inn í vitundina sem eitthvað aðskilin og þess vegna gleymast þau auðveldlega. Þú veist líka að hvorki stormur né fellibylur geta hindrað sálarorku, þó að þeir geti haft áhrif á orkustöðvarnar, sérstaklega Kaleikinn. Það er hægt að fylgjast með því hvernig samskipti tengjast viðkomandi orkustöðvum og hvernig gæði samskiptanna hafa áhrif á þau. Í stuttu máli munu margvíslegir hugsunarhættir og hinir ýmsu eiginleikar sálarorku veita einstaklingi nýja möguleika.
Athuganir sem gerðar eru við mismunandi aðstæður, þ.e. staðsetningu, hitastigi og veðri, munu veita ótæmandi uppsprettu fyrir nýjan árangur.

579. Menn ættu að hafa í huga að óvinir okkar nýta sér alla staðbundna truflun á áhrifaríkan hátt og reyna að valda óæskilegum skaða. Þetta sambland af líkamlegum og sálrænum aðstæðum krefst athygli.

580. Það er rétt að gera ráð fyrir því að þróunin haldi áfram á tímum mikilla kosmískra viðbragða. En þetta þýðir ekki að fólk ætti ekki að búa sig undir það. Hver meðvitaður hugsandi einstaklingur leitar ákaft eftir framtíðarstefnu þróunarinnar. Ef þessi stefna er skynjuð, mun skynsemin leitast við að ganga greiðar þá réttu leið. Fræðslan okkar þvingar ekki, heldur gefur til kynna leiðina. Ekki dulspeki, heldur rökfræði hugans, er boðið hverjum leitenda.
Við segjum, látum bækur Fræðslunnar koma fram á eðlilegan hátt. Láttu þær vera án nafns höfundar til að útiloka persónulegan áhuga. Á fáum árum munu menn skilja að reynsla og góð ástundun hefur skilað þessum kenningum áfram. Þeir sem finna tíma til að skoða bækurnar fara inn í nýja heimsmótun sem velkomnir gestir. Þannig verður mistri villimannsins skipt út fyrir fágaðan skilning.
Við leggjum alltaf áherslu á fágun, því það er bundið við vöxt andans. Þú sást seina uppsöfnun andans; að sama skapi er ekki hægt að þróa fágun fljótt. Ferlið við að bæta hvaða vél sem er, sýnir hversu hægt fullkomnun er náð. En með því að átta okkur á fágun hugsunar verðum við öll að hreyfa okkur með þróuninni; þá verður hver dagur sigursdagur.

581. Venjulega halda menn að þessir dagar séu fáránlegir að flækjustigi; en ef við berum saman þessa tíma við aðra, sjáum við að á síðustu tíu árum hefur margt verið einfaldað og opnað leið til þróunar.

582. Við höfum þegar talað um snúning orkustöðva. Auðvitað er hver hreyfing fram á við snúningur. Tákn hrærunnar snýr að öllu. Hægt er að efla uppsöfnun sálarorku með snúningi miðjunnar. Einstaklingurinn kýs frekar eina orkustöð fram yfir aðra, en betra væri að velja Kaleikinn eða Brahmarandhra stöðvarnar.
Maður getur stuðlað að hringrás á sálarorku með því að nudda líkamann með blöndu af innihaldsefnum sjö jurta, þekktum frá fornöld. Þetta er sama blandan sem jógi notar þegar hann yfirgefur efnislíkamann í langan tíma. Það er einnig hægt að nota til að með höndla ýmis vandamál, til dæmis á húðsjúkdóma.
Þegar þessari blöndu er nuddað í líkamann, veitir hún orku sem nærir í langan tíma. Þetta er svipað og að taka musk, sem, eins og þú veist nú þegar, dregur úr þörf manns fyrir mat. Gefðu uppskriftina fyrir þessa blöndu aðeins þeim sem hafa sannað hollustu sína við Fræðsluna. Það er lítil ástæða til að fæða líkami þeirra sem afneitar sálarorkunni.

583. Ef fólk myndi bara gera sér grein fyrir afleiðingum hugsana sinna! Það væri engar ýkjur að segja að jafnvel mestu glæpir hafi fæðst af litlum hugsunum. Hægt er að benda fólki á hve efnisleg og lifandi hugsun er.
Ég tala ekki aðeins um jóga, því að hver og einn sem hefur þróað sálarorku er verndaður af henni. Fólk er hrætt við að ráðast á þann sem býr yfir sérstökum mætti. Almenn viska man hvernig höggið sem slær brynju Teros kastast til baka. Sömuleiðis veit almenn viska að sumir geta skilið eftir áhrif sín á hlutum.
Það er satt – til dæmis er hægt að senda sálarorku til hluta með snertingu. Þannig getur maður fylgst með krafti hugsunarinnar og útgeislun sálarorku.
Dýr, sérstaklega hundar, skynja útgeislun sálarorku. Það er ekki aðeins með lykt sem þeir geta fundið heimili sitt og húsbónda síns, heldur í gegnum eitthvað dýpra.
Spyrja má hvernig á að byrja að nálgast sálarorku. Í upphafi, hafðu einfaldlega í huga að þessi orka er til.

584. Leitaðu að náinni fylgni milli segulviðrunar og birtingarmyndar sálarorku. Þessar hvirfilvindar voru rétt orðaðir í hermetísku hugsuninni um rýmið.

585. Það er rétt að þrá að kanna undirstöður lækninga í Veda. Þrátt fyrir síðari breytingar er kjarni Vedísku læknisfræðinnar enn gagnlegur. Fyrir hverjum leitanda veita þessi lyf innsýn í nýja skynjun á eiginleikum jurtaafurða. Í stað grófrar skráningar af plöntum og öðrum náttúrulegum afurðum, leiða nákvæmar upplýsingar um eiginleika hinna ýmsu hluta plantna og skilyrði fyrir notkunar þeirra, til nákvæmari niðurstaðna. Einnig þarf að fylgjast með aðstæðum í kosmískri efnafræði. Þessar ályktanir, allt frá fornu fari, geta veitt leitendum í dag gleði.

586. Maður getur auðveldlega styrkt virkni jurtaefna með því að auka málmgervingu jarðvegsins. Á þann hátt, geta áhrif hægverkandi lyfja verið öflugri og skjótari. Hægt er að framkvæma leiðbeinandi tilraunir með því að nota styrkt fræ sem hafa verið kynbætt í kynslóðir. Með skammlífum plöntum þurfa þessar tilraunir ekki mörg ár. Jafnvel þriðja kynslóðin mun sýna talsverðar breytingar.

587. Ef ég segi að allt sé gott er það ósatt. Ef ég segi að allt sé slæmt er það líka ósatt. Það væri betra að segja: „Stríðið og sigrið.“ En hvernig er hægt að kenna bardagagleðina?

588. Af hverju er stundum þörf á spennu í líkamanum? Það eykur geislun sálarorku.

589. Sá vitri þekki hið talaða orð, þekkir skrifað orð, þekkir hugsunina og þekkir þögnina – svo segir gamalt máltæki. Við skulum skoða þetta frá sjónarhóli sálarorku. Sannarlega verður að greina á milli þegar þörf er á töluðu orði, skrifuðu orði, hugsun eða þögn. Maður getur náð miklu með því að beina orku sinni rétt. Næmt innsæi mun ákvarða hvaða aðferð er mest þörf á hverju augnabliki.

590. Þú hefur tekið eftir því að stundum virkjar líkamleg spenna sálarorku manns. Þetta hreina vélræna og efnislega ástand ætti að beina manni að því að hugsa um efnislegt eðli sálarorkunnar. Auðvelt er að sýna fram á þennan veruleika sálarorku með líkamlegum ráðum. Það er ekki erfitt að fylgjast með ósjálfráðum viðbrögðum við líkamlegri spennu. Ætti maður ekki að leita eftir þessum augljósu þáttum? Það þýðir að andlegar birtingarmyndir eru alls ekki óhlutbundnar og hægt er að mæla þær. Þær eru ef til vill ekki áberandi fyrir alla, en jafnvel venjuleg manneskja getur séð grófari dæmi. Því miður fer fólk oft framhjá án þess að taka eftir jafnvel skærustu litum. Rautt má stundum muna sem grænan; þess konar röskun er hægt að mæta alls staðar.
Ég tala ekki um innsæi einfaldlega til að endurtaka mig. Talað hefur verið um þetta ástand nægilega. En gefið gaum að efnislegu eðli hins andlegu, sem hægt er að fylgjast með frá mörgum sjónarhornum. Enn, eru tveir heimar – hinn augljósi og hinn raunverulegi. Vitandi um merkingu þessara tveggja hugmynda, munu allir vera sammála um að valið sé um þann raunverulega. Hvaða fullkomnun er hægt að ná með því að þekkja raunveruleikann! Þegar veruleikinn er færður í forgrunn og staðfestur sem fullkomlega gilt hugtak, mun umhverfið breytast ótrúlega.Talað er um mörg sannindi. Ætti maður ekki að brjótast í gegnum þær skeljar og leita hins Eina Sannleika? Nákvæmasta og hlutlægasta athugun veruleikans mun víkka vitundina. Reyndar er vitundin sú töfrakista þar sem allir týndir fjársjóðir verður safnað saman.

591. Ég fagna þegar þú gerir þér grein fyrir þeim skaða sem fölsk andlegheit valda. Oft kemur fram sjúkleg röskun á sálarorku í stað eðlilegrar þroskaðrar vitundar. Þar sem ótti er, þar er sjálfsvorkunn, þar sem hugarburður er, þar sem aðgerðaleysi er, þar sem engin fórnfýsi er, þar sem skortur er á árvekni, þar sem ábyrgðarleysi er, getur þar verið þjónusta við þróunina?
Þeir sem forðast erfiði við uppskeruna ættu að láta sér skiljast að stunur þeirra heyrast lægra en rask í einu grasblaði. Einnig að þeir sem fara inn í geðheiminn þroskalausir verða að vita hversu ábyrgir þeir eru fyrir að menga rýmið. Aðeins vitundin getur leitt og leyft að greina rétta stefnu. Þeir sem líta á þjónustu við þróunina sem áreynslu sem eigi skilið verðlaun, kunna að fá endurgreitt í mynt, en ekki í eflingu vitundarinnar.
Staðfestu að fágun vitundarinnar sé segullinn sem laðar að sér alla gagnlega orku. Vitundin, sá ótæmandi fjársjóður, mun leiða til tindanna þar sem sigur er að finna. Er það manninum verðugt að láta vitund sína kafna í illgresi? Það er grundvallaratriði að íhuga hvert maður vill knýja sig áfram. Vitundareldurinn mun lýsa leiðina.

592. Það er rétt að gera ráð fyrir óþrjótandi sálarorku. Forðinn sem notaður er endurnýjast strax úr fjársjóði Alheimsins. Það er gott að skila sálarorku; nýja framboðið fyllir auðveldara það sem notað var og leitast síðan við gera heiminum gagn. Hvernig er hægt að setja lögmálin á hreyfingu? Það er svo auðvelt að kalla fram nýja kraft úr geimnum! Þess vegna tala ég um dreifingu sálarorku.

593. Orðið Ég, ætti að geyma aðeins vegna sérstakrar ábyrgðar og vitnisburðar. Orðið Við, er fyrir allt lífið og til samstarfs. Svo er einnig orðið, Þau. En fyrst verður maður að sætta sig við orðið Við og átta okkur á samvinnu.

594. Grundvallarráðgáta Hermes var að finna í nálgun geðheimsins til jarðar okkar. Maður getur séð neistana í Hermetísku fræðslunni, þó þeir séu dulbúnir vandlega. En nú munum við af og til rifja þau upp.
Kristallar sálarorkunnar; þegar þeir eru notaðir á líkama manns, draga eigin innri sálarorku fram eins og segull dregur nál úr líkamanum. Maður getur ímyndað sér hversu öflugir eru kristallar sálarorku þegar þeir eru notaðir sem lyf.

595. Þú veist nú þegar að kristall sálarorkunnar býr yfir eiginleikum seguls. Þeir laða rafrænar agnir úr geimnum inn í Teros . Útgeislun bylgjanna sem nálgast, umleika okkur og dregur að sér litaðar orkuagnir. Þetta er efnafræðilegur grunnur svokallaðra litaðra stjarna.
Pláneturnar geisla með mismunandi ljósum. Vísindamenn munu geta séð neista sálarorkunnar. Eldar orkustöðva mannslíkamans geisla mismunandi eftir efnafræði málmanna í mannslíkamanum.

596. Margir hafa fylgst með mikilvægri þróun orkustöðvanna. Óskiljanlegir merkimiða hafa oft verið settir á raunveruleikan. Þegar þú heyrir orðið Abramram, er það tilvísun í Kaleiksstöðina, þar sem þekking sem ætluð er fyrir framtíðina safnast saman sem innsæi manns. Þegar þú heyrir um „eldvængi“ er átt við herðaorkustöðina. Sömuleiðis verða „fjársjóðir tindanna fimm“ stöðvar Brahmarandhra, úlnliða og hnjám. Þegar skyndilegur slappleiki finnst undir hnjánum, eða álag í úlnliðum, mun það þýða skerpingu Brahmarandhra. Ótölulegar athuganir er hægt að gera sem munu leiða í ljós óþrjótandi eiginleika lífverunnar, sem er svo skammarlega vanrækt.

597. Ákveðnar þjóðir hafa þann sið að kalla til fjarlægra og fjarverandi sína, með því að kalla upp reykháfinn sem var hreinsaður með eldi. Við skulum líka muna eftir löngu básúnum Egyptalands til forna, sem einnig virkuðu með eldi.
Hugleiddu að hugsanasendingar voru alls staðar tengdar við eld. Sannarlega þarf að vekja loga orkustöðvanna til að senda hugsun í mikla fjarlægð. Ekki með þvingaðri áreynslu viljans, heldur veitir tenging við eld, vald til sendingar hugsana.

598. Það er gagnlegt að muna allar þjóðsögur um eld, því þær innihalda mikinn sannleika. Vöxtur skilnings gerir það mögulegt að greina grundvallaratriði raunveruleikans frá villum hefðanna.

599. Vissulega verður eitt helsta verk komandi þróunar að breyta skoðun okkar á óhlutgerðum þáttum lífsins, í viðurkenningu sem þekkjanlegan veruleika. Rannsókn á sálarorku gerir kleift að fá nýja nálgun á umhverfi mannsins. Andstæðar niðurstöður af eigingjörnum og óeigingjörnum athöfnum hefur fram til dagsins í dag verið litnar á afstæðan hátt, en við skulum framvegis skoða þær af sjónarhóli efnafræðinnar í hinum ýmsu orkustöðvum. Mismunandi hugsanir og aðgerðir koma frá mismunandi orkustöðvum. Þess vegna eru uppsprettur þeirra efnafræðilega mismunandi, eins og sýnileg útgeislun þeirra. Áhrifin bregðast við skaparanum sjálfum og umhverfi. Þannig getur hið afstæða orðið mælt og vegið. Ein einfaldasta tilraunin verður vigtun einstaklings undir áhrifum mismunandi hugsana hans. Næmur mælikvarði og skörp hugsun mun veita skýrar andstæður. Þetta er ekki vísindi fyrir einsetumenn, heldur þekking til að bæta lífið.

600. Eins og ljósið sigrar myrkrið, eins og hugsun sigrar óreiðu, þannig gengur Fræðslan inn í lífið.

601. Vísindamenn sem tala um undirmeðvitundina, um heila- og taugaviðbrögð, um segulmagn dýra, um aðdráttarafl, tala vissulega um einn og sama hlutinn – um sálarorku. En þetta hugtak er einhvern veginn ekki nefnt. Þessa þekkingu þarf að sameinast í einn straum, en þröngsýni kemur í veg fyrir rétta tengingu þessara þekkingarbrota. Hrein vísindi eru ekki hrædd við rangala. Nú er athygli nýlega vakin á rannsókn á kirtlaseyti og kannski mun þessi tiltekna stefna, rannsókn á seyti kirtla, vekja athygli á tilvist annarra seyta. Kirtlaseytingar hafa aðeins nýlega uppgötvast, þó að forn læknisfræði hafi benti á mikilvægi seyta fyrir löngu. Þetta efni hefur eins og verið forðast, þó að öll náttúran boðaði það.
Er mögulegt að skoðanaskipti og efnishyggja séu aðeins takmarkanir? Þroskun vitundar færir okkur í nánari snertingu við alla hina miklu orku. Er mögulegt að hugsa eins og áður með aðeins hálfum heila og láta sér ekki annt um læstu fjársjóðina?

602. Að herða sverðið í loganum undan hamarshöggunum er besta myndin af því hvernig sálarorka manns er mótuð. Einhver kann að spyrja hvernig á að þola ólgu og óróleika. En hvíld er aðeins að finna í hámarki ólgunnar. Það er engin hvíld í kosmískum hvirfilvindum. Blindir og heyrnarlausir láta sig dreyma um hvíld sem er ekki til, en þeir sem sjá, sem vilja einungis hafa skýra sýn, vilja frekar þola storminn. Þar er engin hvíld, eins og fólk skilur það. Maður getur ekki stigið út úr snúningsspíral sköpunarinnar. Maður verður að kalla fram Teros sem akkeri manns, til að tengja sig við rétta keðju straumanna. Sterkur andi gleðst við að hamra sverð sitt.

603. Taktu eftir að djúpt andvarp fylgir allri beitingu sálarorku. Bendir þetta ekki til þess að þessi orka sé eitthvað áþreifanleg? Bendið á að birting þessarar orku er um allt. Hægt væri að byggja stíg með þessum leiðarsteinum.

604. Við rannsókn á sálarorku má læra margt um eiginleika hennar. Til dæmis hefur þú tekið eftir því að geðverur geta tekið á sig hvaða mynd sem er og kallað fram hvaða mynd sem er. Þetta hefur verið sýnt nægilega á ljósmyndum. Hvers konar orka hjálpar þeim við þessa sköpun? Auðvitað, andleg orka, ef hún var ræktuð á meðan þau voru í jarðvist. Eru það ekki hinir ógnvekjandi draugar sem eru sönnunin, heldur fremur viðbrögð eigin líkama sem eru mikilvæg í athugunum okkar.
Fornmennirnir sögðu: „Fjall móðurinnar rís frá jörðinni til himins,“ sem bendir til einingar alls sem er. Er hugsanlegt að á menningartímum muni fólk samþykkja sitt eigið niðurbrot, í siðvenjum eða röskun trúarbragða sinna? Þegar verk sálarinnar auk tæknivæðingarinnar boðar sig svo öfluga, getur þá átt sér stað viðvarandi afneitun? Fólk kemur saman til að uppfylla bestu verk. En hvar eru þessi verk? Við verðum stöðugt að endurtaka, að ytri aðstæður lífsins endurspegla vitundina. Svo virðist sem þessi orð séu þegar merkt á enni mannsins, en ekki er hægt að neita því að mannkynið sýnist þarfnast endurtekinna áfalla.

605. Hugurinn er brottgengur, en vitundin heldur velli. Þetta er ekki mótsögn, heldur vísun til yfirborðs og kjarna. Hvaða leið á að fara? Jafnvel barn mun segja: „Að kjarnanum.“ Jafnvel barn veit að það þarf að afhýða ávextina til að geta hresst sig við safann. Ekkert ætti að hindra okkur frá því að endurnýja vitund okkar.

606. Sumir taugasjúkdómar geta læknast með búsetuskiptum. Maður gæti litið á þessa hugmynd sem hegðun, en það eru skýringar á henni. Loftið sem umlykur hvern, er eins steinefnaríkt og segulmagnað eins og vatn. Við notum vatn af mismunandi samsetningum. Hvers vegna ætti þá ekki að nota loft með svipuðum hætti, vegna áhrifa þess á mismunandi orkustöðvar?
Mikið er talað um prana; en hrein prana er óaðgengileg á jörðinni, nema í mikilli hæð, þar sem fáir þora að vera. Neðar er prana steinefnablandaðra og er háð áhrifum ósamstæðra segulbylgja. Vissulega getur búsetubreyting leitt til þess að prana er jákvæðari og getur haft græðandi áhrif á ástand taugakerfisins. Því miður er almennt litið svo á að loftið á heimilum sé annað hvort hreint eða óhreint. Reyndar hefur hver loftbreyting mikilvægi þar sem hún hefur áhrif á mismunandi taugahópa. Bróðir okkar sem var skósmiður skipti stundum um vinnu, yfir í garðrækt. Þetta er skynsamlegt, því að þegar fræ vaxa í spírun, geislar það frá sér sálarorku af sérstakri spennu. Maður ætti að muna þetta.
Eftir hvíld næturinnar, færir morgunsólin okkur sérstaka orku sem kallar fram sálarorkuna. Á svipaðan hátt sendir nývakið líf fræsins, eins og dögunin, út bænir sínar. Tökum vel eftir öllum góðgjörnum áhrifum.

607. Ef fólk myndi beita sálarorku í stað dómstóla og ákæruvalds, þá væri ólæknandi sjúkdómur glæpa einungis vera spurning um venjulega rannsókn. Læknar ættu að líta á þetta sem stig þráhyggju. Það gæti verið skaðlegt að beita sálarorku án þess að breyta venjulegum skilningi manns á glæpum.

608. Sérhver hreyfing hefur sinn takt, rétt eins og hver orka hefur sitt eigið mynstur og kristal. Mynstrið í taktinum örvar streymi taugaorku.

609. Hægt er að koma í veg fyrir marga sjúkdóma með sálarorku. Það má segja að sumar lífverur hafi tilhneigingu fyrir, eða ekki, ákveðnum veikindum. En hver þessi vernd eða veikleiki er, getur enginn sagt um. Rannsóknir á sálarorku myndu veita bestu svörin.

610. Margir hugsa um frið um heim allan. En ef þú þorir að segja það opinberlega verður þú fyrir dónalegum og hræsnum árásunum. Fólk er jafnvel hrætt við friðinn því vitund þeirra getur ekki komið til móts við þennan velvilja. En þeir sem hafa víkkað vitund sína aftur á móti, verða óneitanlega að tala um opnun hliða friðarins.

611. Fræðslan er eins og spádómur í heimi vísindanna. Jafnvel efasemdarmenn munu viðurkenna að örlög mannkyns geta ekki verið háð því að greina froska. Að opinbera vísbendingar okkar að minnsta kosti, mun ekki fjölga þeim fáfróðu! Samþykkið uppljómun, þið hjálpendur mannkynsins. Þeir sem hafa próf hafa gleymt lögmáli almannaheilla. Þú, sem laðast að blekkingunni, sýndu skilning!

612. Einn leikur á tólf strengi, annar framkallar sama lag á fjórum strengjum og þriðji takmarkar sig við tvo strengi og skapar eins marga samhljóma með þeim. Skiptir það máli hve marga strengi maður þarf fyrir samhljóm? Meginatriði er, að hann verði til. Við skulum ekki velta fyrir okkur eða gagnrýna fjölbreytni, því við munum ekki einu sinni finna tvö sandkorn sem eru eins. Þvert á móti skulum við fagna öllum óvenjulegum birtingarmyndum. Blóm velja sér hvaða jarðveg sem hentar. Jafnvel steinar raðast í tengslum hvern við annan. Sömuleiðis á sviðum Teros, þar verða samsetningar þátta sem tengjast, þrátt fyrir að virðist ólíkir. Vitund, fáguð af eldi, greinir skylda þætti og hafnar ekki hinu sanna gildi með því að meta aðeins yfirborðið. Óteljandi fjölbreytni er hægt að tjá með tveimur strengjum. En, til þess verður maður að gera sér grein fyrir ótölulegum eiginleikum náttúrunnar og hvernig þeir koma fram í manninum. Slík sjónarmið eru venjulega talin táknræn og eru ekki kynnt í lífinu.
Að þekkja Fræðsluna og beita henni ekki, er merki um fullkomna fáfræði. Hver hefur einhvern tíma sagt þér að maður geti ráfað um Fræðsluna eins og fluga á sykri, eins auðveldlega og dýfa í menju! Maður snýr ekki hesti sínum kæruleysislega á fjallastígum. Þekkingin leiðir aðeins áfram!

613. Ekki má gleyma hinni fögru veröld. Það er hlekkurinn að fjarlægu heimunum. Sem fínna efni, dugar það geimnum. Hann nær frá vídd til víddar, þekkir hvorki nær né fjær. Stök lögin er hægt að fara í gegnum með vitundinni. Vitundin verður leiðarvísir, því að efni hennar er alheimslegt.
Milliliði er að finna í fíngerða heiminum. Auðvitað ætti okkar eigin vitund að laða að fágaða vitund og milliliður verður að vera fær um að skilja verkefni heimsins. Fyrir ekki löngu síðan talaði Ég um hve óhlutdrægt maður þarf að hugsa um Geðheiminn. Maður verður að öðlast réttan skilning á milliliðunum með innsæinu; þetta eru ekki leiðbeinendur, heldur einfaldlega hjálpendur – eins og símaklefar, eins og þeir voru. Með tímanum mun fjöldi þeirra minnka og þeir verða að lokum óþarfir. Þannig verða allir þættir og allar aðstæður sameinaðar í einu verkinu. Hvernig er hægt að benda kaupmanni skýrari á, að hann geti stigið út fyrir takmörk reikningsbóka sinna? Og hvernig er hægt að sýna fram á að heilsa og gleði fylgir skilningi á óendanleikanum?

614. Sá hluti Agni Jóga sem við gefum nú, vekur athygli á sálarorkunni, uppruna eldanna og fágun vitundarinnar. Þegar þessar meginreglur hafa verið samþykktar, þá er hægt að hefja ferlið við að fága eigin hugsun. Við skulum því ekki ímynda okkur að Fræðslunni ljúki nokkurn tímann.

615. Af hverju hlýtur leið Fræðslunnar að vera leið uppsöfnunar? Er ekki hægt að gefa hana í einum skammti, eins og lyf? Maginn er takmörkuðu vídd, en vitundin er ekki mælanleg. Sannarlega er til fólk sem er nánast án vitundar. Það getur verið til fólk sem hefur svipt sig vitundinni með óhóflegum ástríðum. Það geta verið vitundir skyggðir af siðvenjum hvers tíma. Eins og að gróðurhúsablómi, þarf að hlúa að vitundinni. Grunnur vitundarinnar er byggður upp af beinni sannri þekkingu, en fágun vitundar eru eins hæg og að fægja kristal. Ekki eigið álit, heldur eigin athafnir efla vitundinna.
Fræðslan er lögð eins og steinar, einn fyrir einn í byggingu turns. Ef maður setur alla steina upp í einu, verður ekki til turn, heldur hrúga.

616. Öðlastu og sigraðu. Þú sigrar ekki fyrir sjálfan þig; sigur þinn er mikilvægur fyrir almannaheill.

617. Hinn heilagi eldur andans opnar leið fyrir Fræðsluna, en meginsókn nemans verður að kvikna af hans eigin eldum. Við munum staðfesta þrá Kaleiksins, en neminn sjálfur verður að fylla Kaleikinn afrekum sínum.

618. Ef fólk myndi bara skilja að sending sorgar skilar sér til baka eins og sorg, en gleði send er aukin gleði. Slík fylling geimsins var jafnvel þekkt hjá frumstæðum mönnum, þegar hann sagði: „Ég leyfi ekki sorginni að trufla flóð hamingjunnar.“ Við munum lifa í gegnum allt og öðlast allt!

619. Kraftur segulsins eykst með snúningshraða spíralsins, frá straumum prana óendanleikans. Með segulmögnuðum hugsunum Okkar sendum Við skilaboð sem flytja hugsanir og myndir sem kveikja í vitund manna.

620. Ég ráðlegg að nafni Fræðarans verði haldið uppi sem vörn. Ekki tákn, ekki blekkingar, heldur gerir vitundarkeðjan strauminn ósýnilegan. Við vitum ekki enda þessarar keðju og þú veist ekki upphaf hennar. Það er eins og höggormur sem teygir sig frá djúpum jarðar inn í óendanlega fjarlægu sviðin.
Fjall heimsmóðurinnar þekkir ekki hæð sína. Eigum við að óttast það? Eigum við að vera skelfingu lostin yfir því? Eða eigum við að fagna því að Amrita er ótæmandi? Inni í öllum mælanlegu hugtökum heimsins geislar óumræðanlegt ljósið. Eigum við að vera óánægð með svalann af fjarlægum vindi sem berst frá óendanleikanum? Í hinum kæfandi berangri skulum við ekki snúa frá lífgefandi straumi.

621. Gleði andans er heit til Fræðsluna. Skapandi vinna er markmiðið, þegar hinn leitandi andi, sem stefnir að birtingu Fegurðar, gerir sér grein fyrir óendanleikanum. Ég lít svo á að hin hringaða uppspretta fágaðar vitundar muni styrkjast af Fræðslunni, þegar hún er móttekin.

622. Heitið með öllum eigum þínum. Heitið með fullkominni viðleitni. Heitið með öllu hugarafli. Þannig er hægt að skapa nýjar aðstæður.
Ef þú náðir ekki árangri í gær, þýðir það að uppsöfnunin var ekki rétt. Menn ættu ekki að endurtaka eigin mistök, því það er ómögulegt að komast yfir á þeim stað þar sem brúin hefur verið eyðilögð. Oft útrýmir fólki minniháttar göllum á meðan hinir stærri eru falin í myrkrinu. Megi eldarnir afhjúpa myrkrið! Þess vegna skipum við: Kveikið eldana!
Ekki líta á Fræðsluna sem afstæða. Endurtaktu fyrir sjálfum þér orð hinna vitru!

623. Lærisveinn sem stefnir að því að verða Agni jógi, verður að skynja fullan kraft í kærleiksloga til Fræðara síns. Lærisveinn sem vill hjálpa til við uppbyggingu verka Fræðarans verður að verja ráð hans. Lærisveinn sem vill vernda ráð Fræðarans verður að verja málflutning hans eins og perlur.
Ég segi, að þú verður að læra að staðfesta Upprunann í fegurð Alheimsins með því að gegnsýra lífið með sálmum Móður heimsins.

624. Hvað á maður að gera við þá sem villast frá Fræðslunni? Skildu þá, ekki brjóta í bága við vilja þeirra. Kannski munu straumar lífsins bera þá aftur að ströndum þínum. Hver aðskilnaður er sársaukafullur en vitundarleiðirnar eru svo ólíkar að ekki er skynsamlegt að hindra þær. Láttu andann leita frjálsan og axla ábyrgð á eigin mistökum.

625. Mundu að hjálp er að finna í eigin athöfnum. Máttur athafnarinnar veitir bestu vörnina, besta stýrið, besta augað!

626. Rétt eins og straumurinn finnur leið um klettana, óháður gerð þeirra, leggur Agni jógi leið sína í gegnum siði eigin þjóðmenningar. Á leið sinni til hæða vitundarinnar, ná hvorki mörk, né takmarkanir, né bönn til þess sem kveikti ljós í vitund sinni.
Ísraelar til forna og Mayar fengu þekkingu um mörk vitundarinnar í leit sinni til þess Hæsta, minna okkur á gang leitarinnar. Rétt eins og eldur þekkir engin mörk, heldur meðvitund Agni jóga áfram án hindrana.

627. Oft þekkjum við orð en getum ekki sagt það. Upphaf þess sveiflast í djúpi vitundarinnar, en kemst ekki upp á yfirborðið. Dýpt vitundarinnar finnum við sterklega fyrir á slíkum augnablikum. Ekki í fellingum heilans, heldur í annars konar geymslu safnast í fjársjóð minninganna – það er í Kaleiknum.
Ég gæti minnt þig á stundir þar sem Kaleikurinn varð fyrir líkamlegum skaða og flæðið af minningunum stöðvaðist strax. Aftur á móti, við meiðsli á heila, geta myndir af öllu lífi manns hraðast í gegn, eins og að spretti úr djúpinu. Við vitundaraukningu er samvinna orkustöðvanna raunveruleg. Maður kann að þekkja hvað er hægt að fá úr farvegum heilans og hvað er hægt að draga upp úr djúpinu Kaleiksins. Ótölulegar gersemar safnast upp í Kaleiknum. Kaleikurinn er einn, fyrir allar jarðvistir. Sérkenni heilans eru arfgeng, en eiginleikar
Kaleiksins eru afleiðing eigin athafna í mörgum lífum.
Í Kaleiknum liggur vængjað barn; þannig minnir forn viska á uppruna vitundarinnar.

628. Ég hef þegar sagt að leyndardómar og kraftaverk skipta ekki lengur máli. Í þeirra stað verður að festa skilning á sálarorku í vitundinni. Það er sálarorka sem veldur því að lífskraftar eru settir í gang. Við skulum muna þetta.
Sumar leyndar orkustöðvar, sem enn eru óþekktar fyrir læknisfræðinni, eru orkuuppsprettu hugsana okkar. Brátt munu þessi svið koma í ljós og verðskulda kafla í bókum.

629. Rétt lagður vegur er lagður með litlum steinum. Maður getur ekki lagt sléttan veg með stórum klöppum. Þegar þú rannsakar hugsunarhætti, muntu skynja fjöldann allan af litlum hugsunum sem þú getur smurt yfir yfirborðið. Sá sem getur verið vakandi fyrir litlum hugsunum mun geta stjórnað miklum ákvörðunum. Gæði og röð litlu hugsana leggja veginn fyrir miklar athafnir.
Þegar við tölum um sálarorku verðum við fyrst og fremst að muna orsakir og áhrif litlu daglegu hugsana okkar. Þessir ormar veikja hærri orku. Óskipulegar hrúgur af úrgangi hindra alla byggingarframkvæmdir. Óvinir okkar eru litlar, pirrandi flugur. Líkjast ekki rifin brot hverfula mynda þeim sjálfum?
Þegar við bendum á þörfina á ræktun sálarorkunnar, munum við segja það sama um aga litlu hugsana. En við verðum að vita að það litla getur verið forveri hins meira.
Láttu orkuna vaxa, án ryksins!

630. Skynjun manna á raunveruleikanum er svo loðin, að mannkynið er sannarlega munaðarlaust þegar það er svipt staðfestingu Fræðslunnar.
Óafturkallanlegur kraftur, sterkur kraftur, nauðsynlegur kraftur, andlegur kraftur, úthellandi kraftur, óafturkræfur kraftur, kraftur Geisla Okkar, krafturinn sem birtist frá Tindum Okkar! Þið sem afneitið, skynjið í köfnun ykkar að ljós er í andanum! Það sem þú hefur geymt mun klárast fyrir tímann. Hvert muntu snúa, visna, við þröskuld dauðans? Sannlega, segi ég, þú þekkir ekki andlegu varnirnar og hyljið ykkur með hinum ýmsu flíkum blekkingarinnar!

631. Við fögnum öllum sem nálgast og nýtast Fræðslunni, en við fögnum þeim sem hafa gert Fræðsluna að lífi sínu.
Þeir sem ráðast á Fræðsluna, fá það til baka. En hvernig er hægt að greina skaða og ósigur frá gagnsemi og fórn? Þú getur ekki vitað skilin um alla hugsunarhætti í heiminum. Hamingjuberar, hvar eru þín aðgreindu hamingjuföt? Hvaða ljós kveikja á geislun regnbogans? Aðeins í Kaleiknum er safnað saman kjarna sannrar þekkingar.Trylltar árásir munu aðeins styrkja þig á vegi þínum.

632. Fræðsla Okkar samþykkir ekki brotgengan lærisvein. Sannur lærisveinn er staðfastur og veit að það er enginn endir. Eldurinn sem leitar er drifafl atburðanna. Árangurinn er dásamlegur þegar lærisveinninn getur sagt: „Meistari, ég vil drekka til fulls af kaleik vinnunnar.“

633. Það sem ég sagði þér í gær um sýnina fyrir ofan Kaleikinn hefur vísindalega skýringu. Með efldri hugsun mettast rýmið og við sveipum það með tiltekinni mynd. Þannig sköpum við út úr frumefninu æskilega mynd, sem er enn nálægt þeim stað þar sem hún var búin til, mögnuð af hugsunum okkar. Auga barns eða fáguð vitund geta skynjað þessa myndun. Svipaðar athuganir eru gagnlegar við rannsókn á sköpunarþætti hugsunar. Auðvitað, til að ná árangri verður maður að varðveita árustaðinn og bæta stöðugt lagi við lag við sendingarnar. Stundu fyrir dögun mun taktur þulu hjálpa.
Eins og þú hefur heyrt getur maður fylgst með vexti hárs á svipaðan hátt. Það er lærdómsríkt að fylgjast með háræðarbyggingu hárs, eins og leiðara vitundar. Einnig mun rannsókn á svitahola húðarinnar veita mjög mikilvægar athuganir.

634. Segðu þeim sem finnast prófraunirnar grimmar, að framkvæmd þeirra liggur í því að annað hvort styrkur andans vex eða minnkar. Reynsla andans kemur frá uppsöfnun fyrrum jarðvista, en andinn vill einnig fást við eitthvað í veruleika núverandi lífs. Vinna er í boði fyrir alla sem vilja komast áfram. En maður ætti ekki að hugsa um andann sem eina skapara reynslunnar af meðvituðum árangri. Einnig verður að nota hluta þeirrar þekkingar sem safnast í Kaleiknum.

635. Spyrja má, ef hlutirnir eiga sér stað eins og þeir sem heyrst hefur um úr klaustur í Tíbet, af hverju heyrast slíkar birtingarmyndir ekki á Vesturlöndum? Auðvitað hafa Vesturlönd einnig mörg tilfelli af sama toga, en oft gleymast hið raunverulega eðli fyrirbærana. Hugsunarhátturinn í Austurlöndum er fágaðri að sumu leyti. Þess vegna ráðlegg ég þér að taka eftir og meta allar staðreyndir. Við fyrirlítum hjátrú. Allir fordómar verða að vera skyldir eftir.

636. Áhrif geisla Okkar eru eins og lýsing blysanna; þeir opna vitundina þegar andinn, knúinn til hæða, þráir að opna hlið sannleikans. Það er mjög erfitt að lýsa upp myrkra vitund.
Þið, þóttafullu, takið ráð Okkar: Að blása eilíft í lúðra sjálfsánægjunnar er óskynsamlegt. Munið dökku hliðarnar og hafnið ekki Hönd sem vísar á betra hlutskipti!

637. Ég segi ekki að það sé auðvelt, Ég segi ekki að það sé ómögulegt, en Ég bendi á leiðina þar sem þægindi jarðnesks lífs eru réttilega veitt, en því hæsta er ekki hafnað. En stundin er auðvitað ekki auðveld. Fræðslan mun halda eftir óvæntum leiðum, en maður getur glaðst.

638. Sérhverjar aðstæður verða skýrari í ljósi hins gagnstæða. Ljós afhjúpar myrkur. Hvað er þá öfugt við ljós sálarorkunnar? Auðvitað alger myrkur. Afleiðing þess dauða, tómlega og verðlausa, er skuggi elds hinnar hæstu orku. Ef við þekkjum kristal sálarorkunnar, þá þekkjum við afleiðingar myrkursins. Hæsta stig Teros bergmálar af lægstu stöðu Tamas.

639. Þú tókst rétt eftir því að við móttöku fjarlægra sendinga þarf sérstaka árvekni. Ekki opna móttöku, heldur spenntar orkustöðvar. Maður verður að geta greint á milli fúsleikans og næmni skynjunar. Þannig munum við smám saman greina innri krafta okkar.

640. Ég segi, að þú getir orðið þátttakandi í þróun Alheimsins. Þú getur stjórnað erfðum aldanna. Þú getur skilið óendanleikann. Þú getur bætt örlög plánetunnar. En láttu eldana loga! Ekki slökkva hinn helga eld andans. Ekki hafna hendinni.
Lýst upp af geislun Móður Heimsins, er efnisleg tilvist okkar sem sandkorn. En uppsöfnunin í Kaleiknum er eins og geislandi fjall!

641. Þú tókst eftir titringi af hlutum eftir að þú hafði snert þá. Þetta er ein birtingarmynd þinnar eigin eða ytri sálarorku. Þú tókst líka eftir því hvernig hið persónulega hverfur úr daglegu lífinu með vaxandi sálarorku. Sömuleiðis ber að minna á að sálarorkan er ábyrg fyrir mótun aðstæðna.

642. Ein erfiðasta krafan í Fræðslunni er að læra að tala á viðeigandi hátt – að beina hugsunum hlustandans að henni, en án átroðnings á karma hans. Að segja allt er að binda. En að vekja áhuga og benda á leið, er hið raunverulega markmið Fræðslunnar. Verndandi umönnun mun vaka ósýnileg yfir vexti vitundarinnar. Eins og leiðandi hönd á myrkri stormaleið, leggur Fræðarinn hönd sína á öxl nemans. Ekki tómarúm heldur árvekni er viðeigandi til leiðbeiningar. Vísbendingin fyllir loftið, en hittir ekki nemann í hausinn. Fræðslan er gefinn fyrir þróunina, en ekki fyrir neinn einn einstakling. Hún er eins og sólargeisli. Blessaður sé sá sem veiðir ljósið!

643. Einu sinni var jógi spurður hvernig hann mótaði geiminn sálrænt. Hann svaraði: „Útgeislun sálarorkunnar eru eins og ilmur af blómum. Hvers vegna að hemja það sem stígur upp til hæsta Aum? Fínasti eterinn tekur upp strauma sálarorkunnar og fólk andar því að sér; þannig koma áhrifin fram.“

Það eru fjórar leiðir til fullkomnunar: að taka á móti gjöfum Fræðslunnar; frelsun frá sjálfinu; birtingarmynd hugrekkis og þekkja allar hættur; að læra að láta óvini vinna fyrir almannaheill.

644. Þú leggur ýmislegt undir skoðun lækna. Þú leyfir að skera í líkama þinn. Þú leyfir líkamlegar tilraunir. En þegar þú ert andlega veikur og vitund þín dauf og þú skynjar ekki ljós komandi framtíðar, hafnarðu samt öllum hugsunum um skjöld endurnýjunar. Ég hef sagt að skjöldur þinn felist í því að viðurkenna tilvist okkar. Samþykktu þetta ráð – læknaðu vitund þína! Þú sem kvartar um lifur, skoðaðu hugsanir þínar!

645. Sumir spyrja hvernig maður eigi að líta á daglegar venjur. Flestir eru hræddir við það. Það er talið eyða sköpun og sé virðingarminnkun. En við segjum, að þú ættir að læra að sjá í vinnu hversdagsins, pranayama, sem eflir vitund þína. Prana stígur niður frá efri sviðum; en öll vinna skapar orku sem í meginatriðum er svipuð háleitri orku. Þannig getur sá sem þekkir sameiginlegan orkukjarna saumað skó, eða slegið takt á tromma eða safnað ávöxtum. Í öllu þessu er hærri orkan sköpuð, þar sem hún er fædd af hrynjanda Alheimsins.
Aðeins dauf vitund óttast takt vinnunnar og byggir þannig sitt eigið fangelsi. Það er erfitt fyrir mannkynið að skilja að konungur og skósmiður eru sambærilegir í öllu.

646. Mörg orð eru höfð um Fræðslu lífsins, en fáum er komið í verk. Það er lítið gildi í þeim sem endurtaka Fræðsluna án þess að beita henni. Við erum ekki að tala um þá sem skortir skilning, heldur þá sem hafa nálgast Fræðsluna og bera ábyrgð á hugsunum sínum og athöfnum.

647. Fullur skilningur á Fyrirmælum Okkar verður að koma fram með tafarlausum athöfnum. Lærisveinninn má ekki í góðri fyrirætlun sinni finna afsökun fyrir slæmri niðurstöðu. Léttúð, gáleysi og draga úr fyrirmælum Okkar vega þungt á vogaskálunum. Jafnvel lærisveinninn mun skoða sjálfan sig þrisvar og segja:
„Ég sé engin mistök í aðgerðum mínum.“
„Lækkið ekki augun að láglendinu, heldur snúið ykkur að hæðum Móður Heimsins og dæmið þannig aðgerðir ykkar á mælikvarða eilífðarinnar.“

648. Þegar þú gróðursetur balu og rhododendron á sléttunum, þegar þú plantar eplum í fjöllunum, geturðu búist við strax árangri? Sömuleiðis verður að gefa nægan tíma fyrir nauðsynlega umbreytinga á eðli orkunnar til að ná tökum á sálarorkunni. Þvinguð beiting mun ekki skila árangri. Oft búast menn við niðurstöðum í einni vídd, þó þær komi fram í allt annarri. Þess vegna skaltu vita að tíma þarf til eflingu orkunnar.
Vissulega getur Fræðsla Agni Jóga eflt skilnings manns í allar áttir. En það gerist aðeins í samræmi við aðlögun manns að því sem hefur verið gefið.

649. Lærisveinn sem hefur svarað kalli Fræðslunnar og logar af hollustu, er sannarlega samstarfsmaður Alheimsaflanna. Þegar hann hefur aukið orku Alheimsins með athöfnum sínum, og prýtt eigin hugsanir með háleitum hugsunum, er hann þá ekki skapari?
Er ekki viska aldanna hans besta prýði?
Kosmíska Eldurinn allt um kring býður upp á mestu möguleikanna við leit mannkynsins.

650. Jafnvel læknar viðurkenna að við innri uppljómun eykst styrkur manns tífalt. Þannig viðurkenna þeir sálarorku. En þeir sjá að slíkt ríkir stutt og þeim fylgir orkutap. Einmitt af þessari ástæðu er Jóga nauðsynlegt, þó svo að hækkunin aukist, er manni haldið frá falli. Fallið kemur af skorti á skilningi og skorti á beitingu sálrænu orku manns. Fáviskan lamar, en þekking getur sigrað hæstu ómældu hæðirnar.
Valdið verður ekki sýnt með flæði fyrirmæla sem eru gefin til að friðþægja bæði þann sem gaf þau og þeim sem fá þau. Fræðarinn verður að vera viss um að aðgerðirnar sem gripið er til, leiði í rétta átt – þó þær geti verið í margvíslegum myndum. Rétt eins og hugrakkur skipstjóri getur bjargað skipi sínu með því að fórna farminum eða að höggva niður möstrin, leiðir Fræðarinn með fullu valdi lærisveina sína til sigurs.
Er mögulegt að forðast íþyngjandi strauma? Auðvitað er betra að horfast í augu við þá framarlega í bardaga en að sneiða hjá þeim. En ákvörðunin um að taka þátt í bardaga er á ábyrgð leiðtogans. Baráttugleðina þekkja þeir sem eru meðvitaðir um tilganginn, þeim sem vita af nauðsyn sigursins.
Nú veistu að vígvöllurinn er fullur af möguleikum. Það er þar sem hinir sýnilegu og ósýnilegu heimar eru í snertingu og hafa áhrif hvern á annan. Þetta er ekki galdur, rétt eins og að ganga á vatni er ekki galdur – ekki með skipun heldur af nauðsyn. Hvernig getur maður náð markmiðinu, ef maður er án trúar?
Innsæi þarf bæði stefnu og markmið. Að hafa ekki markmið leiðir til uppsafnaðs ruglings. Fallin lauf næra svarta jarðveginn, en hvert fræ kemur með orkusprengingu í heiminn.

651. Hægt er að prófa athygli á einfaldan hátt. Færa hlut á nýjan stað; ef það vekur ekki eftirtekt, gerðu það sama með stærri hlut og fylgstu með því hvaða „fíll“ dregur að lokum „skarpa“ augað að. Prófaðu sjálfan þig og aðra. Prófaðu fyrir ótta, fyrir ertingu og leti – og alls þess sem fær marmarann til að roðnar af skömm. Það er engin þörf á flókinni vakningu, þar sem einfaldur gaumur gengur mörgum skrefum lengra. Þannig ætti að byrja að þróa „arnarsjón“.
Einn jógi öðlaðist það orðspor að vera grínisti því að ósýnilega flutti hann ýmsa hluti til í hús fólks og þegar hann var spurður hvers vegna svaraði hann: „Ég er að athuga hvort þú sért orðinn blindur.“ Sannlega eru fáir sem taka eftir breytingum í þeirra umhverfi. En fyrsta merkið um „arnarauga“ er hæfileikinn til að taka eftir minnstu breytingum, þar sem titringur heildarinnar er háður þeim.

652. Samstilltar sendingar eru mjög gagnsamar, sérstaklega þegar hægt er að fylgja einum ríkjandi tón, eins og tónlykli. Aðaltónninn getur jafnvel verið sleginn með tóngafli. Segull, tónkvísl, hringur og mörg algeng tæki koma auðveldlega inn í daglegt líf ungu jóganna. Til að hreinsa uppsafnað rusls krefst skóflu og kústs. Maður ætti ekki að óttast hversdagslega hluti – svo í hinu neðra, sem í hinu efra.
Það er skynsamlegt að venjast því að það er engin hvíld eða endir. En skilningurinn á Stigveldi og Bræðralagi Okkar beinir ferðalangnum stystu leið að óendanleikanum.

653. Hugsunin um hlýðni við Fræðarann er fjarlæg fyrir mannkynið. En hvernig getur andinn annað en náð árangri þegar Fræðarinn er leiðarljós? Hvernig getur lærisveinninn tapað eldi sínum þegar Fræðarinn er kveikjan að öllum eldum? Hvernig getur skjöldur Fræðarans verið hindrun fyrir lærisveininn, þegar það er Fræðarinn sem knýr brennandi viðleitni hans? Í vitund mannkynsins býr þrá til leitar við sameiginlegt verk sem leiðir allt áfram í einingu. En mannkynið verður að læra sjálfstæðar athafnir og verður að innleiða staðfestar hugsanir Fræðarans. Þannig nær þróun manna sátt við leið Alheimsins. Mannkynið verður að læra að skapa með hærri leiðum.
Sannarlega, að líkja eftir Fræðaranum, er að taka mynd hans í hjarta sér.

654. Hvernig er hægt að nálgast upprunann? Hvernig verður hærri skilningur staðfestur? Aðeins samkvæmt lögmáli Stigveldisins. Hin leiðandi hönd er hin upplyfta hönd. Vísandi höndin er sú sem sýnir leiðina að hæsta lögmálinu. Þannig er skapað hið mikla skref lögmálsins um Stigveldið. Sannarlega!

655. Hvernig skilja menn lögmálið um Stigveldi? Hvernig uppfylla þeir lögmál þess í lífinu? Hvernig efla þeir það besta í sjálfum sér? Sannarlega eru lögmál stigveldisins ranglega skilið sem réttur einstaklingsins; það gleymist að Stigveldið er hlekkur í keðju og sá sem uppfyllir vilja þess, uppfyllir það sem er enn Æðra. Aðeins með því að vita af þetta, er mögulegt að bregðast rétt við meiri verkefnum. Aðeins þannig er hægt að sannreyna traustið og byggja upp eldlega uppsöfnun í Kaleiknum.

656. Munið lögmálin um þyngdarafl og miðflóttaaflið, athafnir og mótvægi. Stöðugleiki stafar af aðdráttarafli og spenna frá miðflóttaafli. Aðdráttarafl Stigveldisins leiðir til Mín og miðflóttaafl frá óvininum til vegsemdar. Þannig eru Fræðarinn og óvinurinn hornsteinar.
Þjálfari villtra dýra verður fyrst að vekja reiði þeirra áður en honum tekst að temja þau. Engin hreyfing er möguleg án spennu; þess vegna þarf hver framsækin fræðsla óvin sinn og Fræðara. Maður verður að hafa í huga efnislegu lögmálin til að skilja óbreytanleika lögmáls andans. Mín ráð eru að skilja beri þýðingu Fræðarans og þörfina fyrir óvini. Vissulega er það aðeins Fræðarinn sem mun leiða óvininn til heiftar. Full reiði hins illa verður að verða, áður en hægt er að rísa upp endurnýjaður úr loga reiðinnar. Það er ómögulegt að komast hjá hindrunum á veginum en þörf að vita að engin hindrandi spenna mun eiga sér stað án þess að verða til bóta. Reyndar geta þeir þjónað heilu þjóðunum!
Ef einsetumaður getur með hugsun sinni eyðilagt vígi hinna illu, þá verður spennan, sem Hærri Öfl leyfa, eins og hampandi hrútur gegn andsnúnum öflum.
Ég ber ábyrgð á árangri, en aðeins ef eining næst og Stigveldið er samþykkt. Margt getur grafið undan góðum árangri, en afgerandi áhrif léttir.
Maður ætti ekki að hafna hinum ósýnilega heimi; maður ætti að krefja sjálfan að vinna með honum.

657. Þegar þú uppfyllir vilja Minn muntu bjóða Mér tækifæri til að uppfylla vilja þinn. Hvar er mörkin milli vilja sem saman stefna að ljósinu? Maður man kannski eftir því að Við leiðum þá sem hafa treyst Okkur að leiða sig eftir vel reyndum leiðum. Maður getur treyst stýrimanni sem þegar hefur siglt höfin.
„Farðu yfir brúna. Prófaðu sjálfan þig. En Stjarna Mín hefur þekkt aldirnar.“
Ótti mun ekki snerta vel reynt hjarta.

658. Gæði athafna eru efld af markmiðinu. Þegar orðum er breytt í athöfn er hærri orkan staðfest. Aðeins í lífinu getur maður birt hærri orku. Ekki orð heldur athafnir eru taldar staðfesta hærri orku. Aðeins þegar möguleiki andans birtist í verki, er hægt að staðfesta samræmi við það Hæsta.
Þannig veitir markmiðsleitin lykilinn að óendanleikanum.

659. Fræðsla Okkar er svo kraftmikil af því að Orð Okkar ganga inn í lífið sem dásamlegar staðfestingar. Þannig lifa Orð Okkar, því sköpunaráhrifin eru mettuð af krafti Eldsins. Aðeins þegar Fræðslan Okkar er notuð í lífinu er hægt að stíga hærra skrefið.
Af hverju er verkefni þitt svona áhrifaríkt? Vegna þess að það ber með sér loforð Okkar um samvinnu. Þannig staðfestum Við að stigveldið er byggt á lögmáli um arfröð. Þegar Alheimslögmál er skilið, er kominn sannur skilningur á keðju stigvelda. Þannig mun sá sem betur sinnir verkefnum sínum vera nær Stigveldinu. Þjónusta við stigveldið er aðeins birtingarmynd á uppfyllingu Hærri vilja. Aðeins á þennan hátt staðfestum við lögmál stigveldis. Og þannig kemur Lögmál Alheims inn í lífið.

660. Með hvaða hætti er andanum umbreytt? Í gegnum sköpunargáfu hvatarinnar. Í gegnum hvað stígur andinn upp? Með sköpun leitarinnar. Hvernig getur andinn þá mistekist að mettast af eldi, ef aðeins þannig er hægt að ganga í kosmíska segulinn? En vitund Æðri Andans er vissulega mettuð eldi! Þess vegna getur aðeins skilningur á Æðri Vilja leitt andann í átt að markmiði sínu. Þannig veitir hvert vitundarskref fegurð í athöfnum. Sköpun sem fylgir staðfestum eldi er segulmögnuð með meðvitaðri uppfyllingu Hærri Vilja.

661. Hver hugsun sem sett er í athöfn er framlag í eldlega sköpunargáfu. Hver uppfyllt hugsun er tengd við athafnir Okkar. Hversu vandlega verða lærisveinarnir að skoða gæði hugsana sinna! Hefur ekki ormur sjálfshyggjunnar eða stolts, eða birting sjálfselsku falið sig einhvers staðar? Getan til að viðurkenna þetta heiðarlega er eitthvað sem hver andi verður að þróa með sjálfum sér. Aðeins þannig getur maður sinnt verkefni sitt í Áætlun Drottnanna.
Keðja Stigvelda er byggð með uppfyllingu Hærri Vilja.

662. Vissulega er kraftur Stigveldis mikilvægastur, og aðeins með þessari brú er hægt að byggja. Þannig, er í grunni hvers mikils upphafs, lögð orkan sem er innblásin af lögmáli Stigveldisins. Aðeins á grundvelli meginreglunnar um sátt og sameiningu er hægt að byggja. Aðeins á grundvelli staðfestingar á meginreglunni um Stigveldið er hægt að staðfesta hærri möguleika. Skapandi Vilji lýsir því yfir að sameinuð vitund leiði til samræmdra ákvarðana.

663. Hver skapar þá með krafti andans? Eldhafinn, ákafur þjónn þróunarinnar, skapari manna, sá sem gefur alla sína elda til vaxtar mannkynsins. Mannkynið verður að vera eins og þessir ljósberar í sinni leit.
Hvernig og hvenær skapar Stigveldið á jörðinni? Með því að lyfta öllu umhverfinu upp. Þannig eru öll svið lyft upp með hreinum loga Stigveldisins.

664. Vissulega endurnýjar skapandi hugsun heiminn. Sá sem stjórnar hugsun skapar þróun. Þannig getum Við fært vitund manna í átt til framfara. Við sköpum með hugsun. Mannkynið verður sannarlega að gera sér grein fyrir mikilvægi hugsunar! Fræðslan verður sannarlega að faðma næmar hugsanir! Hver leitandi hugsun getur hvatt andann til afreka. Þess vegna metum við svo mikils getu til að móta hugsanir sínar. Hver mikil hugsun er sameinuð í keðju Stigveldisins. Þannig er þróunin byggð.

665. Næmi í móttöku er nauðsynleg til að skilja Fræðarann. Með því að átta sig á því að Hann innblæs anda nemans, sem felur í sér framgöngu lærisveinsins til meiri skilningi. Sköpunargáfu andans er aðeins hægt að efla þegar hugsunin stígur upp. Samband Fræðarans og nemans er eflt með andlegri leit. Sannlega, hver eflir anda lærisveinsins ef ekki kennari hans? Aðeins sá hærri getur lyft þeim lægri. Án þessa skilnings er ómögulegt að sækja fram. Þannig skulum við enda þetta með því að leggja áherslu á næmni á móttöku.

666. Stigveldi er staðfest í Alheiminum með kosmískum lögmálum. Kosmískur Segull hefur sett hina Æðstu Mætti ofar öllu; þess vegna eru þessi lögmál byggð á kosmískri staðfestingu. Hvernig getur maður þá ekki tekið þátt í hinum Æðstu Mætti, sem leiðbeinir jörðinni? Aðeins ástæður geta stýrt Hinum Kosmíska Segli. Þess vegna vekur Kosmísk Ástæða, sem gegnsýrir allt, spennu í allt. Orkugerðirnar eru ólíkar að eiginleikum og taka sinn rétta sess í Alheiminum og staðfesta hlutverk sitt í samræmi við þróunarstig orku sinnar. Þannig ákvarðar orkuvirkni þeirra stöðu þeirra á hærra eða lægra þrepi. Á svipaðan hátt er þróunarþrep anda mannsins ákvarðað; Kosmískur Segull magnar gæði andans og leiðir hann inn í hið óendanlega.

667. Í Alheiminum hvílir miðja leitarinnar á meginreglu Stigveldisins. Alheimurinn verkar sem aðdráttarafl á þessa öflugu miðju. Þannig birtist kosmíska fræið í hverri athöfn Stigveldisins með eiginleikum viðleitninnar, sem stígur upp með skilningi á ríkjandi meginreglu. Kosmísk sköpunargáfa dregur saman samfelldu orkugerðirnar. Þessi meginregla er svo mikilvæg að hún er óumdeilanleg nauðsyn, sem sannarlega er staðfest með meginreglunni um Stigveldið. Allur Alheimurinn er mettur af þessari meginreglu. Þessi andi, sem leggur áherslu á allar kosmískar birtingarmyndir á jörðinni, er staðfest af hinni Hæstu Ástæðu. Þess vegna getur maðurinn, sem er hluti af Alheiminum, ekki aðskilið sig frá þessari meginreglu. Þegar kosmísk sköpunargáfa er innblásin af Ástæðunni, er hver birtingarmynd hins óendanlega staðfest af sama lögmáli.

668. Af öllum meginreglum sem leiða til víkkunar vitundar er meginreglan um Stigveldi sú öflugasta. Hver birtingarbreyting er byggð á henni. Hvert getur andinn beint sjálfum sér án leiðandi handar? Hvert getur auga og hjarta snúið sér án Stigveldis, þegar gefandi hönd Stigveldisins staðfestir flæði örlaganna, og þegar hönd stigveldisins beinir hverjum á besta birtan daginn og maður kynnist jafnvel hæstu orku? Þess vegna verður fræ andans innblásið af kosmískum geisla Stigveldisins. Þar sem öflugasta meginreglan hefur í sjálfu sér möguleika á eldi, er hreinn eldur anda Stigveldisins staðfestur sem æðsta meginreglan. Þannig skulum við minnast andlegra leiðtoga okkar. Þannig skulum við virða lögmæti Stigveldisins.

669. „Hvernig, herra, á að dreifa Fræðslu þinni? Hvernig þá, drottinn, á að finna þá sem fyrirhugað er að fái orð Þín til upplyftingar? “
Og drottinn sagði í áminningu: „Einsetumaður, leitaði að þeim sem hægt væri að fela í hendur Opinberunna. Og hann tók skrudduna og setti hana á krossgötu, „Láttu hinn Hæsta Sjálfan benda á hver ætti að finna Fræðslu sína.“
„Og lítil stúlka kom og vafði brauð sitt í ritninguna. En einsetumaðurinn undirbjó annað blað og setti það aftur á krossgötuna.
„Og kaupmaður fór og skrifaði yfir blaðið með útreikningum á hagnaði sínum. En einsetumaðurinn þreyttist ekki og setti enn eitt blaðið þar. Og þar með allt til loka erfiðis síns og daga.
„En þegar hinn Æðri spurði einsetumanninn hvernig hann hefði dreift Fræðslunni, svaraði hann, „mér er ekki gefið að dæma um hvaða fugl muni byggja besta hreiðrið úr þessari Fræðslu.’
„Sannlega, við vitum aldrei hverjir nota blöðin til að kvelja, hverjir láta hana gleymast og hverjir setja hana undir koddann til að geta staðfest það sem sinn grunn.
„Ég lít ekki svo á að þú hafir framkvæmt rangt með því að bjóða vinnu þína fyrir fólks sem þekkir þig ekki.
“Þannig staðfesti drottinn útbreiðslu fræðslunnar sem ópersónulega, án óþolinmæði, án pirrings og án eftirvæntingar.
Þannig gefðu þér líka allt – án fordóma, án þess að dæma.
Berðu, ó fugl, Fræðsluna; og skila því í flugi þínu inn í hjarta þeirra sem búa í von um að fá það.
Berðu Fræðsluna á krossgötur!

670. Gefðu þessar athugasemdir nafnlaust, svo að einhver, úr einhverju dökku horni, komi með ásakanir um eigin markmið. Við munum halda áfram með Agni Jóga þegar vísbendingunum sem þegar eru boðnar hefur verið beitt.
Margar leiðir og möguleikar fylgja tökum á eldunum.
Þáttur eldsins er jafn ótakmarkandi og óendanleikinn. Rannsókn á eiginleikum þess verður lífsgleði.
Líf sem er innblásið af eiginleikum Elds er líf andlegrar leitar.
Agni Jóga er lokið. Það verða viðbætur við næsta hluta og það verður upplifun og athuganir á sáningu og vexti eldblómsins.
Beittu hreinni leit!

Gefið í Brahmaputra-dalnum, sem á upptök sín í Lake of the Great Nagas, varðmanna fræðslu Rig-Veda :
„Ég hef sett grunninn að Agni Jóga í fjórar áttir, eins og blómapistill.
„Ég staðfesti Agni Jóga sem máttarstólpann í skrefum Mínum og kom í hendur Mínar sem eldur Steinsins.
„Ég hef nú gefið henni Eldsteininn, sem samkvæmt ákvörðun Okkar mun heita Móðir Agni Jóga, vegna þess að hún vígði sig til prófunar á Eldi Geimsins.
„Straumar þessa elds var klæddur á Steininn í miklu flugi hans fyrir mynd sólarinnar.
„Blæja neistaflugs huldi tinda Verndara Snjóanna þegar Steinninn fór brennandi leið sína frá suðri til norðurs inn í Varðdalinn.“

HUGLEIÐINGAR UM GITA

Some Thoughts on the Gita.

Þýðing. Sigurbjörn Svavarsson

Þessi bók kemur næst The Secret Doctrine eftir H.B.Blavatsky í tilvísunum í því viðamikla verki Treatise on Cosmic Fire eftir Alice Bailey. Bókin byggir á tólf fyrirlestrum sem fluttir voru 1892 í Kumbakonam Indlandi.

Bókin er ein fárra bóka sem fjallar um dulspekina í Puranas og Bhagavad Gita. Gjarnan er litið á Puranas sem samsafn þjóðsagna, svipað og á norrænu goðafræðina.  Gita er gjarnan túlkuð út frá Darshanas, eins og Vedanta, eða Advaita yoga skólanum, Bókin dregur fram mörg algild andleg sannindi úr þessum fornu ritum sem enn eiga erindi við alla tíma.

Inngangur

Fyrsti fyrirlestur

Annar fyrirlestur

Þriðji fyrirlestur

Fjórði fyrirlestur

Fimmti fyrirlestur

Sjötti fyrirlestur

Sjöundi fyrirlestur

Áttundi fyrirlestur

Níundi fyrirlestur

Tíundi fyrirlestur

Ellefti fyrirlestur

Tólfti fyrirlestur

Hugleiðingar um Gita  Öll bókin.